Tag Archive for: Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur

Eftirfarandi umfjöllun var um vörðuna Kölku í dálknum „Víkverji skrifar“ í Morgunblaðinu árið 1949. Kalka var fyrrum áberandi kennileiti á Háaleiti, gíg, norðvestan Njarðvíkna.
„Ýms gömul og hálf gleymd örnefni hafa komið í ljós í sambandi við tillögurnar um nafnið á  KalkaKeflavíkurflugvelli og þótt ekki fáist nafn á flugstöðina, þrátt fyrir alla fyrirhöfnina, sem þessar nafnatillögur hafa kostað, þá hefir það þó áunnist, að grafa upp þessi gömlu nöfn.
Góður og gegn Suðurnesjamaður, Magnús Þórarinsson í Nýlendu í Miðneshreppi, segir í brejfi frá vörðu, sem stóð eini sinni þar sem nú er Keflavíkurflugvöllur og kalka var nefnd. Glöggir menn á íslenskt mál vita ekki af hverju nafn þetta er dregið, en sumir geta sjer til, að það sje komið af kalki og tekur Magnús, að vel geti verið að þarna hafi verið kalkvinnsla til forna, þótt nú sje gleymt.
KeflavíkurflugvöllurBrjef Magnúsar í Nýlendu er á þessa leið: „Kæri Víkverji! Nafnið Keflavíkurflugvöllur er orðin hefð í málinu enda, enda þótt flugvöllurinn sje aðallega á Háaleiti og Mosunum í Miðnesheiði, en teygi anga sína niður fyrir Njarðavíkur-Ása og lítið eitt suður í Hafnaheiði.
Á Háaleiti stóð varða, gild en ekki há, mosavaxin af elli. Hún var nefnd Kalka. Á hverjum einasta fjallskilaseðli sem borinn var bæ frá bæ á Miðnesi frá 1885-1905 (og eflaust fyrir og eftir þann tíma) stóðu þessi orð: „….og mætið allir við Kölku á Háaleiti kl. 9 f.h. og skiftið ykkur eftir því, sem fjallkóngur mælir fyrir“ o.s.frv. Kalka var því merkileg að þessu leyti, og kann að hafa verið það að fleiru leyti þó mjer sje það ekki kunnugt. Nú er Kalka horfin slík er hún var, en upp er risið á Háaleiti nýtt, glæsilegt hótel, sem vantar nafn. Auðvitað heitir hótelið „Kalka“ og ekkert annað. Það er gömul íslenska, stutt og laggóð. – Magnús Þórarinsson.“

Njarðvík

Það má telja víst, að flugstöðin í Keflavík verið kölluð blátt áfram Keflavík, eða Ísland og af þessum tveimur nöfnum er það síðara betra. En þrátt fyrir það verða birt hjer nokkur nöfn, sem stungið hefur verið upp á síðustu dagana: „Gimli“, „Atlantic“, Leiti, Einbúi, Björg, Eldey, Thule, Fálkinn, Fortuna, Eldorado, Gammur, Gandur, Svanasetur, Svanavellir, Alda, Bára, Skýjaborg.

Er þá nóg komið. Á morgun verður flugstöðin vígð.“
Nokkrum dögum síðar birtist eftirfarandi í sama dálki;

 Kalka.

Kalka.

„Nokkrar umræður hafa orðið um vörðuna Kölku á Háaleiti, þar sem nú er Keflavíkurflugvöllur.
Nú hefir aldraður maður, Eríkur Torfason, bent á skýringu um uppruna nafnsins á vörðunni, sem er mjög sennilegt. Eiríkur hefir það eftir Magnúsi Bergmann, sem bjó í Leiru, greindur maður og skýr, að Kalka sje þannig til kominn, að endur fyrir löngu hafi kaupmenn í Keflavík látið reisa vörðuna og kalkað hana. En vörðuna hafi þeir notað til þess, að gá að ferðum kaupskipa á vorin. Hafi þeir riðið, eða gengið að vörðunni er skipa var von, með sjónauka sína, því þarna sjáist vel út á sjóinn í björtu veðri.
Kemur þessi skýring heim við það, sem Magnús Þórarinsson sagði frá, að hvítt hafi verið við vörðuna, en það stafar af því, að hún hefir á sínum tíma verið kölkuð til þess, að hún sæist betur. Og af því stafi nafnið.“

Heimild:
-Morgunblaðið 8. apríl 1949.
-Morgunblaðið 21. apríl 1949.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur – flugturninn er þar sem Kalka var.

Melabergsgata

Ætlunin var að skoða hugsanlegar minjar á afgirtu svæði innan Keflavíkurflugvallar. Svæðið er að mestu óraskað og ættu þar jafnvel að vera minjar frá bæjarkjörnunum vestan Sandgerðis, s.s. selstöður, þjóðleiðir, vörður, skjól o.fl. Af loftmynd að dæma virðist á svæðinu og vera gatnamót gömlu Hvalsnes-/Melabergsleiðarinnar og gamallar götu milli Hafnavegar og Sandgerðis.

Göngusvæðið

Þegar FERLIR leitaði eftir því við fulltrúa öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli að fá heimild til að ganga um afgirt norðursvæðið, sem nú flokkast sem flugöryggissvæði, en var áður ytra varnarsvæði NATO, voru viðbrögðin strax mjög jákvæð þrátt fyrir að afar ströng skilyrði er gilda um aðgang utanaðkomandi að því. Eftir að tímasetningin hafði verið ákveðin var safnast saman við aðalhliðið inn á svæðið. Skömmu síðar mætti starfsmaður stjórnarinnar á vettvang og opnaði, hleypti þátttakendum inn fyrir og lokaði á eftir þeim. Áætlað hafði verið að leit á svæðinu innan girðingarinnar tæki u.þ.b. þrjár klukkustundir. Svæðið hafði reyndar áður verið skoðað.
Byrjað var á því að ganga yfir að Margvörðum á Margvörðuhól. Hóllinn sá er rétt innan girðingarinnar að austanverðu. Þar kemur gamla Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan upp frá Ró[sa]selsvötunum ofan við Keflavík, fer undir girðinguna og liðast síðan í suðlægan sveig til vesturs innan varnargirðingarinnar, áleiðis að sunnanverðum Melabergsvötnum.

Kaupmannsvarðan

Gatan er mjög greinilega mörkuð í móann og víða hefur verið kastað drjúgum upp úr henni. Kaupmannsvarðan svonefnda setur óneitanlega svip á staðinn.
Frá Margvörðum liggur einig vörðuð gata í sömu átt, áleiðis að norðanverðum Melabergsvötnum. Göturnar koma saman vestan vatnanna. Þó svo að Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan frá Hvalsnesi að Melabergsvötnum beri þess glögg merki að hafa verið endurbætt sem hestvagnavegur hverfur sú endurgerð við norðvestanverð Vötnin. Engin ummerki eru heldur eftir slíka umferð í móanum milli hinnar þráðbeinu vörðuleiðar, þ.e. milli norðanverða Melabergsvatna og Margvarða. Vörðurnar á leiðinni standa hins vegar heilar, flestar a.m.k. Þetta bendir til þess að um hafi verið að ræða endurbætur á gömlu þjóðleiðinni um það leyti er þær reyndust óþarfar.

Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan

Nokkur önnur slík dæmi má finna á Reykjanesskaganum, s.s. á Skipsstíg, Árnastíg og Alfaraleiðinni (Almenningsleiðarhlutanum). Þess vegna má ætla að vörðurnar hafi verið reistar um og skömmu eftir aldamótin 1900. Þær eru líka óvenju heillegar, þótt mosavaxnar séu mót austri. Tilkoma varnargirðingarinnar á fimmta áratug síðustu aldar gæti hafa stuðlað að varðveislu þeirra og girðingin þar með risið undir nafni (því varla hefur hún þjónað öðrum tilgangi þennan tíma að fenginni reynslu). Hafa ber í huga að gömlum vörðum hefur stafað fimmföld hætta; jarðskjálftum, ágangi skepna, skemmdarfýsn manna, frostveðrun og þyngdarlögmálinu. Áhrif þeirra margfaldast gjarnan eftir því sem tímalengdin er meiri. Girðingin hefur dregið úr ásókn manna og annarra skepna og þannig verulega líkur á röskun. Jarðskjálftaáhrif eru jafnan lítil á svæðinu svo langvarandi áhrif frostverkunnar og þyngdarlögmálsins eru þau einu sem eftir standa. Þar af virðist áhrif þyngdarlögmálsins hafa verið lítil sem engin því vel hefur verið vandað til verksins í hvíetna.

Fallin varða

Þegar gömlu Hvalsnesleiðinni/Melabergsgötunni var fylgt frá Margvörðum áleiðis að vestanverðri varnargirðingunni mátti sjá fallnar vörður sunnan hennar með reglulegu millibili. Auk þess að vera vel mörkuð í móann hafði leiðin verið vandlega vörðuð. Í raun þarf engan að undra hvers vegna. Hvalsnesprestakalli var um tíma þjónað frá Njarðvíkum og jafnvel Grindavík. Þá var aðalverslunarhöfnin um tíma á Básendum utan við Stafnes. Hún færðist síðan til Keflavíkur eftir Básendaflóðið 1799. Margmenni var í verum á hverfunum á vestanverðu Rosmhvalanesi, s.s. Stafneshverfi, Hvalnsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi, auk Sandgerðis. Hreppsstjórinn í hreppnum bjó um tíma í Fuglavík, auk þess sem, núverandi „hreppsstjóri“ gætir svæðisins sem hinn besti haukur. Gatnamót mátti sjá á leiðinni þegar hún hafði verið gengin 2/3. Af loftmynd að dæma mátti ætla að þarna hefði fyrrum verið leið milli Hafnavegar norðan Ósabotna og Sandgerðis (eða Fuglavíkur/Bæjarskers).

Vatnshólavarða

Við eftirgrennslan mátti sjá vörður sunnan götunnar. Þær lágu að þotubyrgjum NATO, sem varað hafði verið við að nálgast um of. Í ljós kom að „gatan“ á loftmyndinni var samfelld tréstauralína, sem legið hafði á ská niður heiðina. Staurarnir héngu flestir uppi, en verulega skakkir orðnir.
Utan í neðsta holtinu innan varnargirðingarinnar var varða og hlaðið lítið gerði. Frá því var stefnan tekin til norðurs, áleiðis að Vatnshólavörðunni. Hún hefur fyrrum verið bæði breið og há; augljóst leiðarmerki.
Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir um þetta svæði: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu. Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum.“
Minjar símansTvær stauralínur liggja þarna um svæðið. Báðar hafa þær borið uppi símalínur millum miklvægra leiða á tímum hersetunnar. Frágangur þeirra bendir til tímasetningar í byrjun sjötta áratugs síðustu aldar. Nú hangir engin lína uppi, en staurarnir eru bæði misvísandi (í eiginlegri merkingu) og fagurfræðilegur vitnisburður (í óeiginlegri merkingu) um það sem var.
Þegar skoðuð er örnefnalýsing fyrir  Melaberg, þ.e. viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar, má sjá eftirfarandi: „Til heiðarinnar langt ofan við bæ er svonefnd Grænalág. Austur af bæ norðaustur af Grænulág eru Syðri-Smérklettur og Nyrðri-Smérklettur. Suður af þeim eru tjarnir, sem heita Melabergsvötn. Þar norðaustur af eru Efrivötn. Þau þorna á sumrin. Þar áfram í sömu stefnu eru Brúsastaðir. Þetta er smáholt, en fékk þetta nafn fyrir löngu, af því að þar var maður á ferð með glerbrúsa. Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir. Þar austur af eru Margvörður, og spotta suðaustur af Glæsi er mýrkenndur mói á sléttri flöt, sem heitir Melabergsengi. Innan við Margvörður er Kaupmannsvarða, sem er við krossgötur rétt hjá flugvellinum.“

Selvarða

Það má til tíðinda telja að hvergi er minnst á Hvalsnesleiðina/Melabergsgötuna í örnefnalýsingu fyrir Melaberg. Ekkert er heldur um Hvalsnesleiðina í örnefnalýsingu fyrir Hvalsnes. Ástæðan gæti verið sú að frásegjendum hefur þótt svo sjálfsagt að leiðin væri á hvers manns vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta hennar sérstaklega. Svo mun og hafa verið fyrrum í fornritum og frásögnum fólks að sjaldan var því lýst er þótt þá bæði sjálfsagt og hefðbundið.
Gengið var yfir að Vatnshólavörðunni og stefnan síðan tekin af henni á vörðu vestan við Fuglavíkursel. Þaðan sást vel til selvörðunnar á Selhólum.
Þegar Fuglavíkurselið var gaumgæft mátti sjá vatnsstæði bæði norðvestan og suðaustan við það. Selið sjálft, sem er mjög gróið, er ólíkt flestum öðrum hinna 250 selstöðva á Reykjanesskaganum (fyrrum landnámi Ingólfs).

Varða á efri Hvalsnesleiðinni

Leifar þriggja húsa eru í selstöðunni. Millum þeirra er hringlaga gerði líku fjárborg. Norðaustar eru hleðslur. Önnur, sú sem er fjær, gæti verið smalaskjól. Frá því er ágætt útsýni yfir efri vatnsstæðið, hugsanlegan nátthaga. Hin gæti hafa verið skjól fyrir refaskyttu í heiðinni, með efasemdum þó, því hleðslurnar voru óvenjumikið mosavaxnar.
Selvarðan er augljós og stendur enn að hálfu leyti. Selstígurinn er hins vegar óljós. Bæði vegna þess og vegna þess að hvorki er getið um eða hafa fundist aðrar selstöður í Miðnesheiðinni, þrátt fyrir margbæi, en Stafnessel ofan við norðanverða Ósabotna, má draga þá ályktun að þarna (í Fuglavíkurseli) hafi verið sameiginleg selstaða fyrir bæina neðan við ströndina (Hvalsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi). Gerðið, sem er óvenju stórt af stekk að vera, gæti og bent til þess. Þá er aðgengi að vatni óvíða í heiðinni, en þarna var hægt að ganga að því sem vísu. Norðurvatnsstæðið var t.d. fullt þótt flest öll önnur væru upp þornuð á þessum tíma. Sveppur dró að sér athyglina.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli er sérstakleg þökkuð góð viðbrög og sanngjörn viðleytni til sögu- og minjaframlags á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Fuglavík.
-Örnefnalýsing fyrir Melaberg.
-Örnefnalýsing fyrir Hvalsnes.

Vatnshólavarða