Lagt af stað kl. 8.00 að morgni í göngu á Brennisteinsfjöll í blíðskapar veðri með tjöld, svefnpoka og vistir til tveggja daga.
Bílnum lagt við Bláfjallaveg og haldið upp Grindaskörð, Draugahlíðum fylgt austan megin og stefnan tekin á Gráfeld. Gráfeldur er fallegur rauðleitur gígur við vesturenda Draugahlíða, úr honum er Selvogshraun runnið, yngsta hraunið á þessu svæði, runnið eftir landnám en fyrir 1226. Gráfeldur er 543m h.y.s. og þaðan er gott útsýni. Af Gráfeld var haldið niður í búðir við Brennisteinsnámur, þar var slegið upp tjöldum, námurnar skoðaðar og göngunni haldið áfram. Brennisteinsvinnsla var þarna síðast á síðari hluta 19. aldar. Þá var haldið á Kistufell 602m stór og tilkomu mikil gígur. Þar var mikið dáðst að útsýni enda himin nánast alveg heiður, sást alveg austur til Heklu, á Jarlhettur, Skjaldbreið, Esju o.fl. ofl. Snæfellsjökul og Reykjanesskaginn allur lá eins og útbreidd landakort. Vel mátti m.a. sjá Eldey.
Eftir gott stop og nesti var haldið niður að flugvélaflaki í suðurhlíðum Kistufells. Þar fórst Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Brak var þar á víð og dreif fyrir neðan.
Enn var nóg eftir af deginum og því haldið áfram í vesturátt. Gengið um Kistu, fallega en margslungna eldstöð, milli Kistufells og Eldborgar. Kíkt í op Lýðveldishellis en ekki farið inn að þessu sinni enda átti það ekki við í svo mikilli sól og blíðu og stuttbuxum.
Gengið á Eldborg og um sléttar og fallegar hrauntjarnir þar í kring en svo snúið við. Haldið var inn í Kistufellsgíginn á bakaleið, nú skein síðdeginssólin inn í gíginn og naut hann sín til fullnustu. Haldið til baka í tjaldbúðir og súpan hituð í einum af hverunum ofan við brennisteinsnámurnar. Þá mátti sjá einn lítil mórauðan tófuyrðling skjótast þar milli steina.
Vaknað árla morguns næsta dag eftir góðan nætursvefn og enn skein sólin en þoka lagðist þó brátt að. Tjöld tekin saman og byrðirnar axlaðar og stefnan tekin á Hvirfil 621m. Þaðan er mjög gott útsýni þó það nyti sýn ekki að þessu sinni. Þess í stað mátti njóta dulúðugst ævintýrablæs þessarar fornu eldstöðvar í þokunni. Þá var haldið áleiðis niður í Grindaskörð aftur og létti þokunni þá mikið. Gengið upp á Tvíbolla áður en haldið var niður. Til byggða komu þrír þreyttir og sólbrunnir göngugarpar en sælir og ánægðir eftir um það bil 30 km göngu á tveim dögum.
Sjá MYNDIR.
-JG – VG.