Kirkjuhvoll var steinsteypt samkomuhús á Vatnsleysuströnd. Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar hefur nú fest kaup á húsinu og landareign sem því tilheyrir.
Kirkjuhvoll var byggður af Ungmennafélaginu Þrótti og Kvenfélaginu Fjólu árið 1933. Skortur var á húsnæði fyrir starfsemi félaganna og almennt samkomuhald í hreppnum. Haldnar voru ýmsar samkomur í húsinu í þá tvo áratugi sem það var starfrækt.
Kirkjuhvoll hefur verið í einkaeign undanfarin ár og látið mjög á sjá. Búið er að hreinsa út úr húsinu og rífa viðbyggingu, anddyri, á norðurhlið þess. Endurbætur hafa verið skipulagðar hafist handa um uppbyggingu.
Það er með tilhlökkun sem Minjafélagið ræðst í þessa framkvæmd, segir á vef bæjarins. „Samfélagið allt nýtur góðs af varðveislu sögunnar,“ segir að lokum.
Innan við glugga á vesturhlið, við sviðsinnganginn, má lesa eftirfarandi:
„Búið var að fá kvenfélagið „Fjóla“ í samband við ungmennafélagið um bygginguna, sem átti að vera timburhús 18×12 álnir að stærð með leiksviði. Það kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti yfir nokkra ungmennafélaga sem voru að byrja að keyra grjót í húsgrunninn þann 23. nóv. að nú væri Jakob búinn að ákveða að húsið skildi vera úr steinsteypu.
Það var næstum orðið verkfall og óánægjan með þessa einræðisráðstöfun framkvæmdastjóra bygginganefndarinnar, eins og Jakob var titlaður, breiddist um allan hreppinn. Álitið var að steinhús yrði dýrara, að það kæmist aldrei upp o.s.frv. en framkvæmdastjórinn sat við sinn keip. Hann þaggaði alla óánægju niður með ýmsum röksemdum, sem hann hafi á reiðum höfnum og vinnan hélt áfram. En Jakob gekk lengi á eftir undir nafninu Hitler. Það var snjólítið og frostlaust fram eftir öllum vetri svo að steypan gekk vel. Húsið komst undir þak og var innréttað, og á aðfangadag jóla var meðal annars unnið að því að reka saman bekki svo hægt yrði að vígja húsið um jólin. Á annan í jólum var svo haldin vígsluskemmtun fyrir innansveitarfólk. Húsið átti að heita fullgert og hafði öll vinna við það verið gefin af meðlimum félaganna nema vinna yfirsmiðsins.
Mikið hefur unnist síðan Minja- og sögufélag Vatnsleysustrandar eignaðist Samkomuhúsið Kirkjuhvol 2019. Fyrsta og ef til vill stærsta verkefnið var að tæma húsið og komu margar hendur að því verki.
Svona verkefni verður aldrei að veruleika ef ekki kemur til fjármagns. Félagið hefur fengi styrki víðs vegar að. Segja má að þetta hafi mesta tilfinningalega gildi allra verkefna sem félagið hefur ráðist í. Ýmsir einstaklingar hafa styrkt það með peningagjöfum og vinnuframlagi. Sveitarfélagið hefur einnig stutt verkefnið með styrkjum og velvild ásamt Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og Húsfriðunarsjóði.
Mörgum þykir mikið verk eftir svo vel megi vera. Við segjum; mikið hefur verið unnið og frábært að vera komin svona langt.
Markmið sumarsins er að ljúka sem mestu utanhúss. Nú þegar hafa gluggar verið smíðaðir og settir í, bíslag rifið, bíslagið teiknað, leitað tilboða, fleygað fyrir lögnum, steypt vatnsbretti, spáð í múrprufur, rifið innanhúss og farnar margar ruslaferðir.
Von er á smiðum vegna vinnu við bíslag á allra næstu dögum. Og svo er alltaf eitthvað sem tínist til í dagsins önn.
Gerð hefur verið spjallsíða þar sem framgangur verksins er tíundaður og boðað til vinnustunda. Félagið tekur fagnandi við öllu vinnuframlagi, það eru alltaf verk fyrir alla og ómetanlegt líka að finna fyrir stuðningi almennings við verkið.“