Tag Archive for: Kjöthvarfið

Hermann

Í Mbl. þann 5. nóvember árið 1991 mátti lesa eftirfarandi frétt undir fyrirsögninni „Kindakjöt tekið úr innsigluðum gámi í Grindavík„:

grindviskir fjarbaendur-991Kindaskrokkar sem voru innsiglaðir í frystigámi í Grindavík var stolið sl. laugardag. Skrokkarnir voru settir í frystigám eftir að slátrun var stöðvuð í iðnaðarhúsnæði í lok september.
Skrokkarnir hafa verið í frystigámi meðan beðið var úrlausnar hvað ætti að gera við þá. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja var búin að kveða upp úr með að kjötið skyldi afhent eigendum en yfirdýralæknir kærði þann úrskurð til heilbrigðisráðuneytis sem leitaði eftir umsögn Hollustuverndar og síðan var að lokum kveðið upp úr með að kjötinu skyldi fargað. Staðið hefur á fullnustu úrskurðarins og kjötið verið í frystigámi síðan til að verja það skemmdum.
Lögreglunni í Grindavík barst síðan tilkynning á laugardagskvöld að kjötið væri farið úr gáminum og kom þá í ljós að búið var að rjúfa innsiglið og kjötið, 125 skrokkar, var allt á bak og burt. Að sögn lögreglunnar er málið í rannsókn og verst hún allra frétta af því. Ekki er vitað hver eða hverjir stóðu að verknaðinum. Það er litið mjög alvarlega á það að rjúfa innsigli og það í sjálfu sér varðar við hegningarlög.“

Kjöthvarið

Hermann: „Við bara bárum kjötið yfir í bílinn“. Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, hlustar.

Í kjölfarið hófst umfangsmikil aðgerð og síðan rannsókn lögreglunnar í Keflavík, yfirheyrslur og leitir undir háværri fjölmiðlaumfjöllun – án árangurs.

Nú, tæplega 20 árum síðar hefur einn þátttakandanna, Hermann Ólafsson, upplýst rannsóknarfólk FERLIRs um málsatvik – þ.e. hvað raunverulega gerðist, í grófum dráttum. Öðrum nöfnum er haldið leyndum enn um sinn.

Kjöthvarfið

Kjöthvarfið – myndin er úr eftirlitsmyndavél.

„Þetta er viðurkenning á gömlu „glæpamáli“, upplýsti Hermann.  „Magnús heilbrigði frá heilbrigðiseftirlitinu krafðist þess að lögreglan innsiglaði [slátur]húsið. Tveimur eða þremur dögum seinna kröfðumst við að fá að setja kjötið í frystigám til að koma í veg fyrir að það eyðilegðist. Menn voru ekki alveg klárir á hvort urða ætti kjötið á þeirri stundu. Skömmu seinna kom maður á bíl frá Sorpeyðingustöðinni með nýjan gám og sagðist eiga að sækja kjötið. Við höfðum samband við lögregluna, sem sagði við manninn að enn væri ekki búið að klára málið. Við það hvarf hann á braut.

Um kvöldið fórum við þangað niðureftir og tökum úr sambandi ljósið stóra á planinu, höfðum fengið lánaðan bílinn hjá J, Econolinerinn stóra, bökkuðum honum inn á gólf, söguðum innsiglið hvasst við gáminn, bárum allt kjötið yfir í bílinn og gerðum allt klárt; lokuðum gámnum, límdum lásinn með tonnataki og límdum innsiglið á aftur.

Kjöthvarfið

Hermann: „Þetta var svo spennandi“.

R var með okkur á staðnum, en við D fórum tveir á bílnum. Ferðinni var heitið út í Garð. Þar átti kjötið að fara í gám hjá H, sem átti von á okkur.
Ég gleymi aldrei þeirri stundu er ég opnaði hurðina á húsinu með fjarstýringunni, bíllinn var svo þungur. Hann rétt hafði þetta. Ég man þetta alltaf, eins og það hefði gerst í gær.

Kjöthvarfið

Hermann: „Lögreglan yfirheyrði okkur, án árangurs“.

Við keyrðum Reykjanesleiðina úteftir. Þegar við komum út í Víkur var spennan orðin svo mikil að ég sagði við D: „Finnst þér þetta ekki gaman?“. „Jú“, svaraði D og hló.
Svo fórum við út í Garð. H átti að vera úti í Sandgerði, á afleggjaranum þar, og taka á móti okkur, en hann miskildi þetta eitthvað. Hann var a.m.k. ekki þar. Við komum kjötinu fyrir í gámnum í garði og keyrðum hina leiðina til baka. Þá fundum við H sofandi í aftursætinu á bílnum sínum þar. Ég varð svo reiður að ég stökk út og sló í þak bílsins til að vekja hann. Honum dauðbrá.

Kjöthvarfið

Hermann: „Það var búið að undirbúa þetta.“

Búið var undirbúa þetta þannig að einn okkar færi til Hveragerðis og hringdi í lögregluna úr tíkallasíma klukkan átta kvöldið eftir og tilkynnti að verið væri að stela kjötinu úr gámnum. Síðan átti hann einfaldlega að leggja á.  Í millitíðinni átti annar maður að fara upp að húsinu, þar sem gámurinn var, í myrkrinu, klippa á innsiglið, opna gáminn upp á gátt og láta sig hverfa að því búnu.

lögregla

Lögreglumenn að störfum.

Innan skamms kom svo lögreglan á staðinn, og það með ekki litlum látum. Gámurinn stóð opinn og tímafrek rannsóknin hófst.
Margir voru yfirheyrðir vegna málsins. Og auðvitað var þeirra á meðal rokið beint til mín. Allt gerðist þetta mjög hratt. 
Í framhaldinu byrjaði yfirheyrslan. Ég settist niður og lögreglumaðurinn byrjaði að vélrita án þess að spyrja mig um nokkurn skapan hlut. Ég var búinn að undirbúa mig, en nú þyrmdi yfir mig, fór að ókyrrast – vissi ekki á hverju ég átti von. Þögnin og óvissan voru yfirþyrmandi. 

Kjöthvarfið

Hermann: „Lögreglan spurði mig hvort ég ætti þátt, en ég svaraði neitandi.“

„Þú hefur ekkert komið að þessu innbroti?“, spurði lögreglumaðurinn allt í einu.
„Nei, nei“, svaraði ég – og virtist hissa. Ég hlít að hafa verið bara nokkuð sannfærandi – og bætti við: „Þetta er svo sem búið og gert; við höfum slátrað heima hingað til eins og um alllanga tíð“. 

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Þá segir hann: „Já, ég skil ekki þessi fíflalæti!“
Við þetta viðhorf létti mér óumræðanlega. Eftirleikurinn varð því tiltölulega auðveldur.
Svona var þetta. Fáir hafa hingað til vitað hvernig þetta gekk í raun og veru fyrir sig. Margar getgátur hafa hafa verið á lofti, en ónákvæmar. „Dularfulla kjöthvarfið“, átti sér stað, sem fyrr sagði, fyrirr- u.þ.b. 32 árum síðan.“

Til nánari upplýsinga um aðdraganda framangreinds mál er rétt að rifja upp tvær aðrar blaðafregnir. Sú fyrri birtist í DV þann 27. september 1991 undir fyrirsögninni „Heimaslátrun stöðvuð í Grindavík“:

Vildum spara okkur akstur til Selfoss – segir Hermann Ólafsson fjáreigandi „Við erum búnir að eiga kindur síðan við vorum smábörn og heimaslátrun hefur viðgengist síðan sögur hófust.

Kjöthvarfið

Hermann á tali við fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjón í Grindavík.

Ef við hefðum slátrað heima í fjárhúsunum hefði enginn sagt neitt en svo eru þessi læti þegar við ætlum að fara rétt að hlutunum,“ sagði Hermann Ólafsson, einn fjáreigendanna í Grindavík sem slátraði fé sínu sjálfur í gær.

Þrettán „hobbíbændur“ tóku sig saman og slátruðu 120 kindum í nýuppgerðu iðnaðarhúsnæði í Grindavík í gær. Þegar upp komst lét heilbrigðisfulltrúi innsigla húsnæðið. „Það var mættur bíll frá sorpeyðingarstöðinni og það átti að henda öllu kjötinu en lögreglan stöðvaði það sem betur fer og lögreglustjóri tekur væntanlega ákvörðun um það í dag hvað gert verður við kjötið.“
Hhrutar-991ermann sagði þá ekki hafa verið að fela neitt og að það hefði alltaf verið meiningin að nota allt kjötið til einkaneyslu. Þeir hefðu bara viljað spara sér 200 kílómetra akstur til Selfoss.“

Í seinni fréttinni, sem birtist í Tímanum 2. nóv. 1991 undir fyrirsögninni „Hverjir mega, hverjir ekki? segir:
„Í haust voru „hobbýbændur“ í Grindavík stöðvaðir af heilbrigðisyfirvöldum við heimaslátrun í þéttbýli. Kjötið var gert upptækt, en endanleg niðurstaða málsins hefur ekki fengist ennþá. Hvort sem menn vilja tala um það í hálfum hljóðum eða upphátt, er það staðreynd að heimaslátrun er algeng, bæði til einkanota, gjafa og sölu. Þetta á við um flestar tegundir kjöts, en að öllum líkindum er mest um að stórgripum sé slátrað utan sláturhúsa. En hvaða lög og reglugerðir gilda um heimaslátrun?

Greindavíkurréttir

Hermann í Stakkavík og Birgir á Hópi í Grindavíkurréttum.

Í lögum no. 30 frá 1966 um meðferð, skoðun og mat sláturafurða segir að heimaslátrun sé bönnuð öðru vísi en til einkanota. Í heilbrigðisreglugerð no. 149 frá síðasta ári segir hins vegar að í kaupstöðum og kauptúnum sé óheimilt að slátra búfé utan sláturhúsa, enda þótt afurðir séu ætlaðar til heimilisnota eingöngu. öll heimaslátrun utan kaupstaða og kauptúna sé óheimil; ábúandi lögbýlis í strjálbýli megi þó slátra hæfilegum fjölda af eigin búfé heima á lögbýlinu, sé það eingöngu ætlað til heimilisnota á lögbýlinu. Með öllu sé óheimilt að selja slíkt kjöt eða á annan hátt dreifa því frá lögbýlinu, til dæmis til gjafa, vinnslu og frystingar.“

Þar höfum við það. Kannski var þetta bara aldrei neitt mál? Hverjir áttu kjötið? Hver var að stela frá hverjum? Kannski var bara engu stolið þegar upp var staðið!?…

Hermann upplýsti síðar í viðtali við einn FERLIRsfélagann: „Að fenginni reynslu skil ég ekki hvers vegna við gerðum ekki þá kröfu á hendur ríkinu að það bætti okkur skaðann. Kjötið var jú í vörslu þess þegar það hvarf!?…

Heimild:
-DV, 27. september 1991, bls. 40.
-DV 30. september 1991, bls. 48.
-Morgunblaðið 1. okt. 1991, bls. 7.
-Tíminn 2. nóv. 1991, bls. 1.
-Mbl. 5. nóv. 1991.
-Uppljóstrari FERLIRs, Hermann Ólafsson í Stakkavík.

Thorkotlustadahverfi-pan-991

 

Grindavík
Miðvikudaginn fjórtánda desember tvöþúsundogfimm, þremur dögum eftir að fyrsti jólasveinninn kom til bæja (flestir telja að jólasveinarnir dvelji á milli hátíða í Arnarseturshellum nálægt Grindavík, en það er hið næsta, sem tekist hefur að staðsetja þá hingað til), voru samræður við áhugasama Grindvíkinga og aðra höfuðborgarbúa landsins í Saltfisksetrinu um fornar minjar og náttúrufyrirbæri á Reykjanesskaganum frá kl. 20:00 til kl. 22:00.
GrindavíkNæstu daga á undan og allt fram að þeim tíma voru stöðugt sýndar 3233 ljósmyndir af 2005 slíkum stöðum á svæðinu á daglegum opnunartíma setursins.
Þetta tiltekna kvöld bauðst hins vegar tækifæri til að spyrja nánar um einstaka staði og einstök svæði eða koma með ábendingar, fróðleik eða umsögn um hvorutveggja – og allt þar á milli. Boðið var upp á frjálslegar samræður og skemmtan með kaffi- og piparkökubragði.
Sumir myndu telja að Grindavík væri ekki borg í þeim skilningi, þ.e. þessi vinarlegi bær með u.þ.b. 2700 íbúa, en íbúarnir vita að höfuðborgin er jafnan þar sem maður er hverju sinni. Þannig er Grindavík t.a.m. engu minni í sinni þeirra, sem þar búa, en t.d. íbúa eða gesta Reykjavíkur á meðan þeir dvelja í Grindavík.
GrindavíkÁ meðan fólk dvelur við þessa fallegu vík við Suðurströndina, þar sem súrefnið kemur fyrst ferskt og ónotað af hafi, hugsar það ekki einu sinni um víkina með nafni reykjanna í norðri. Og ekki dettur því heldur í hug að hugsa um aðra bæi á Reykjanesskaganum sem höfðuborg hans þá stundina. Hver segir líka að borg þurfi endilega að taka mið af umfangi og fjölda. Af hverju ekki að miða við viðhorf, vit og vitund.
Hér og nú, á þessum stað, er viðeigandi að velta fyrir sér jólasveinunum – jafnvel upplýsa leyndarmál. Þvörusleikir á skv. vísu Jóhannesar úr Kötlum að vera næstur jólasveina að drífa sig í vinnu. Stekkjarstaur, giljagaur og stúfur eiga þegar að hafa látið hendur standa fram úr ermum. Innfæddir Grindvíkingar, hver sem betur getur, vita hvar sveinar þeir hafa vetur- og sumarsetur. Þeir vita að hellar eru hvorki ákjósanlegar né heilsusamlegar vistarverur, jafnvel ekki fyrir jólasveina, þótt aðrir halda að svo sé. Engir þeirra hafa þó nokkru sinni séð rauðklædda karla með hvít skegg og í svörtum stígvélum spássera um á milli hátíða, hvorki í hellum né annars staðar. En hvar dvelja þeir þá frá 6. janúar til 11. desember ár hvert?
GrindavíkMálið er að jólasveinarnir eru einfaldlega meðal annarra Grindvíkinga þennan tíma; þeir klæðast eins og aðrir og eru í útliti ekki ólíkir öðru fólki í þessari litlu höfuðborg Reykjanesskagans. En þegar líða tekur að jólum bregða þeir sér, hver á fætur öðrum, í stígvél og vinnuföt og hverfa hljóðlega út í myrkrið. Grindvíkingar vita – og hafa vitað lengi – að sumir á meðal þeirra sjást þar aldrei í kringum jól og áramót. Þeir hafa sammælst að telja öðrum trú um að þeir fari til annarra landa, sem er að vísu að mörgu leyti rétt. Enginn hefur hins vegar hingað til spurt hvað þeir væru að gera þar.
Einn Grindvíkingurinn tók af allan vafa um framangrein þegar hann þurfti skyndilega að bregða sér í vinnuna, fór afsíðis og klæddist vinnugallanum – jólasveinabúningnum – og hvarf síðan hljóðlaust út í myrkrið.
Eitt stærsta sakamál seinni tíma í Grindavík var „Kjöthvarfið mikla“ – sjá HÉR. Mikið magn af haldlögðu heimaslátruðu kjöti hvarf skyndilega að næturlagi úr frystigámi, sem lögreglan hafði geymt það í, en heimaslátrun varð óheimil þetta árið skv. reglum þótt hún hafi tíðkast þarna allt frá upphafi landnáms. Ekki upplýstist hver eða hverjir tóku kjötið, en eitt er víst; kjötkrókur var lengi á eftir einstaklega vinsæll meðal foreldra hans og bræðra.
Nógu erfitt hefur verið að reyna að sannfæra fólk um að allt það, sem lýst er, sé í rauninni til á Reykjanesskagagnum. Myndirnar af einstökum minjum og náttúrufyrirbærum ættu að taka af allan vafa um að svo sé og undirstrika um leið verðmæti svæðisins, hvort sem er til útivistar, fróðleiks eða ánægju.
Maður er manns gaman – enda var mikið spjallað saman.

Grindavík

Grindavík – séð frá Þjófagjá.