Tag Archive for: Kleifardalur

Botnadalur

Í Botnadal í Grafningi eru tóftir skammvinns kotbýlis eða jafnvel tímbundinnar selstöðu frá Nesjum að teknu tilliti til stærðar og gerðar minjanna.
Botnadalur-22Örnefnið virðist tiltölulega nýtt. Svo virðist sem þarna hafi orðið til skammvinn búseta, nefnd Botn eða Botnar. Dalurinn hafi síðan hlotið nafn sitt af „bæjarstæðinu“, nefndur Botnadalur, en eldra nafn á honum virðist hafa verið Kleyfardalur (Kleifardalur). Þó gæti það örnefni hafa verið fyrrum þar sem nú er þverdalur undir Jórutindi sunnan Jórukleifar. Þar eru hins vegar engar minjar að teknu tilli til frásagnar Brynjúlf Jónssonar m.a. um fornleifar í Grafningi. Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1899 segir Brynjúlfur Jónsson um tóftirnar í Kleyfardal: „Kleyfardalur heitir suðvestur með hlíðinni, lítill dalur og þó fagur, en hrikalegt i kring. Þar eru tvær rústir allglöggvar. Önnur bæjartóft (eða seltóft), 9 fðm. löng, tvískift og eru engar dyr á milliveggnum, en útidyr úr báðum tóftum á suður hliðvegg. Hin, fjóstóft (eða kvíatóft?), 8 fðm. löng og 2 fðm. breið, hefir dyr út úr suðvesturhorni. Við efri enda hennar var sem sæi á tóftarbrún, sem gæti verið hlöðutóft. En þar um get eg þó ekkert sagt, því fönn lá þar yfir, svo eigi sást hvort hér er tóft eða ekki. Hafi hér verið býli, þá hefi það verið hjáleiga frá Steinröðarstöðum (?) og síðar orðið, ásamt þeim, hjáleiga frá Nesjum.“
Botnadalur-23Í örnefnalýsingu fyrir Nesjar segir m.a.: „Jóruhóll heitir lítill hóll við Jórugil suður af Kleifadalshrygg, sem er austan við Jórukleifina. Kleifadalur er lítill dalur undir Jórukleif, djúpur og dálítið langur. Hann er milli Kleifadalshryggs og Jórukleifar.“
Á skilti við rústirnar í Kleyfardal segir m.a.: „Rústirnar sem hér sjást eru af hjáleigu frá bænum Nesjum sem nefndist Botnsdalur. Hér var búið í skamman tíma eða á milli 1832-1844. Um það leyti var hjáleigubúskapur á þessu svæði vaxandi og urðu sum nýbýlin að lögbýlum, t.d. Nesjavellir, en önnur, eins og Botnsdalur áttu skamma sögu og lögðust í eyði. Enn sjást glögglega að minnsta kosti fjórar tóftir sem tilheyrðu gamla Bontnadalsbænum, sú stærsta af bæjarhúsunum sjálfum en þrjár minni af útihúsum. Ekki er gott að segja með vissu hvaða hlutverkum einstök útihús gegndu og eru hringlaga tóftirnar tvær allsérstakar. Sennilegt er að kofarnir hafi flestir verið fjárhús en kýr verið hýstar inni í bænum.
Botnadalur-24Lítið er vitað um ábúnedur í Botnsdal en ætla má að þeir hafi háð harða baráttu við nátttúruöflin jafnt sem yfirboðara sína á Nesjum. Ekkert vatnsból er sjáanlegt við tóftirnar og hefur að það að líkindum verið meginorsök þess að byggð hélst hér aðeins um skamman tíma. Þá háttar svo til að á vorin þegar snjóa leysir, liggur leysingarvatn að miklu leyti yfir dalbotninum og hefur það vafalaust torveldað ábúð.
Af byggingarleifum má ráða ýmsilegt um búskapinn, svo sem að hann hafi ekki verið stór í sniðum en slíkt var dæmigert fyrir hjáleigur. Algengt var að hjáleigubændur ættu aðeins eina mjólkurkú og ekki hafa droparnir úr henni náð að metta marga munna. Þá þurftu þeir ósjaldan að taka búpeninginn á leigu og jafnvel búsáhöld með jarðnæðinu. Þetta fyrirkomulag torveldaði leiguliðum að koma sér upp eigin bústofni og auka hann. Margt fleira gerði þeim lífið erfitt. Algengt var að leiguliðar þyrftu að inna af hendi störf og kvaðir fyrir jarðeigendur, til dæmis slátt, og höfðu skemmri tíma til að vinna að eigin búi.
Það kann að vera erfitt fyrir nútímafólk að setja sig í spor bláfátækra leiguliða á 19. öld. Landbúnaður var enn rekinn með fornlegum hætti, til að mynda voru tún lítið ræktuð og þýfð og ljáirnir ekki afkastamikil  verkfæri. Fjölgun býla á þessum tíma stafaði fyrst og fremst af auknum fólksfjölda en framfarir í landbúnaði urðu ekki að marki fyrr en á seinni hluta 19. aldar.“
Óþarfi er að vera alveg sammála textanum, en taka verður viljan fyrir verkið.

Heimildir m.a.:
-Skilti við minjarnar í Botnadal.
-Örnefnalýsing fyrir Nesjar í Grafningi.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1899, Rannsókn sögustaða í Grafningi í maímán. 1898. Eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 3-5.

Kleifardalur

Kleifardalur.