Gengið var um Garðahraun í ljósaskiptunum.
Við slíkar aðstæður opinberast gjarnan svipbrigði hraunsins, líkt og litbrigðin á björtum sumarkvöldum. Hraun þetta nefnist ýmist Gálgahraun eða því er skipt í tvö nöfn, Garðahraun og Gálgahraun þar sem hið fyrrnefnda er suðausturhluti þess en hið síðarnefnda er nyrðri og vestari hlutinn. Miðhluti þess að sunnanverðu hefur einnig verið nefndur Klettahraun og við Engidal einnig Engidalshraun. Fleiri nöfn í sama hrauni eru t.d. Flatahraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun og Búrfellshraun. Hraunið er reyndar að uppruna hluti af Búrfellshrauni og er sú tunga þess sem teygir sig lengst frá upptökunum, gígnum Búrfelli, í NV-átt. Hraun þetta hefur verið aldursgreint um 7200 ára (Jón Jónsson, 1994).
Hraunið er víða mjög úfið og flokkast að mestu til apalhrauna en annars staðar er það sléttara og mætti kallast helluhraun. Ýmsar myndanir koma fram í úfna hlutanum þar sem djúpar hrauntraðir, niðurföll og upplyftir sprungnir hólar skiptast á. Bergtegundin er ólivínþóleiít og er slík bergbráð að jafnaði mjög þunnfljótandi. Þunnfljótandi basalthraun sem þetta geta, runnið að miklu leyti í lokuðum rásum undir yfirborði og skilið eftir sig hella en seinna getur þak þeirra hrunið og myndast þá dældir, rásir og niðurföll. Í hraunrennsli sem þessu kólna jaðrarnir mun hraðar, þar hægist á rennslinu, veggir hlaðast upp og renna myndast sem hraunið streymir eftir.
Í Garðahrauni er víða sléttur og gróningar. Í Gálgahrauni eru margar opnar rennur eða hrauntraðir. Í Klettahrauni eru háir klettar og djúp hvolf. Svæðið í heild er hið mesta augnayndi – hvert sem um það er farið.
Halli lands þarna er lítill og því hefur straumhraði hraunsins verið farinn að minnka verulega. Einnig hefur bergbráðin trúlega afgasast nokkuð komin þetta langt frá upptökunum en afgösun hægir verulega á rennslinu og leiðir til úfnara yfirborðs. Sennilega hafa margir straumar verið í gangi en á milli þeirra hefur lítið hreyfst og hraunljarnir eða storknaðir barmar myndast. Upplyftir sprungnir hólar eru afleiðing afgösunar þegar rennslið er nánast hætt yfirborðið orðið nokkuð storkið og gasið brýtur sér leið upp um það. Í tengslum við þetta og storkið yfirborð almennt myndast stundum svokallað flekahraun þar sem storknaði hlutinn brotnar upp í fleka við óreglulegt rennsli og straumamót undir niðri og yfirborðið ýfist upp.
Flekahraun er því eins konar millistig milli hellu- og apalhrauna en slíkt má sjá í Gálgahrauni/Klettahrauni á mörgum stöðum. Af dýpt rása, niðurfalla og gjóta og hæð hóla má sjá að hraunið er nokkuð þykkt. Jón Jónsson (1994) telur að almennt sé Búrfellshraun um 18-22 m þykkt út frá borunum gegnum það, en þykktin á Gálgahrauni er orðin eitthvað minni, e.t.v. 5-10 m. Þar sem yfirborðið er úfnast og hraunið hefur oltið hægt áfram í þungum straumum, gæti þykktin hæglega verið talsvert meiri en í sléttustu, helluhraunsflákunum er þykktin trúlega ekki f|arri þessu bili. Laus jarðvegur hefur lítið náð að safnast fyrir í hrauninu en þó er það nokkuð gróið og líklega fær ýmis konar gróður fínt skjól í því.
Eldfjallagjóska er fyrirferðamikil jarðvegsmyndun á þessum slóðum (Jón Jónsson, 1994). Sjaldgæft er að finna svona svipmikil hraun við bæjardyrnar eða inni í stórum þéttbýlum.
Sem fyrr sagði er Gálgahraunið stórbrotinn endir á samfelldum hraunstraumi alla leið ofan úr Búrfelli (sjá meira HÉR). Gálgaklettur er vestast í hrauninu og nafnið segir sjálfsagt allt um það sem þar gerðist fyrr á öldum. Af klettinum er víðsýnt til fjalla sem og helstu kennileita á höfuðborgarsvæðinu, sem oft lenda undir skemmtilegum sjónarhornum milli hraundranga. Ekki eru til heimildir um aftökur á þessum stað. Við Gálgana átti að vera staður sem kallaðist Gálgaflöt. Munnmæli herma að þar hafi sakamenn sem hengdir voru í gálgunum verið dysjaðir.
Grasi grónir balar norðan við Gálgakletta eru grænni en aðrir staðir nærri klettunum. Ekki er ljóst hvar Gálgaflötin var en þessir balar koma sterklega til greina. Ritaðar frásagnir af því að mannabein hafi fundist við Gálgakletta bera þess vitni að þar hafi menn verið dysjaðir þó aðrar skráðar heimildir séu ekki fyrir hendi, sem fyrr sagði.
Garðahraun var beitiland frá Görðum og var þar tekinn mosi og rifið lyng til eldiviðar. Norðvesturhorn hraunsins heitir Hrauntangar og var þar þerrivöllur fyrir þang- og marhálm sem skorinn var á fjörunni neðan við hraunið. Þang til eldiviðar var sótt á þennan stað úr Garðahverfi fram á fyrstu ár 20. aldar. Marhálmurinn var þurrkaður og notaður til einangrunar í timburhús.
Hálmskurður var aðallega stundaður í Lambhúsafjöru í Lambúsatjörn. Skorinn marhálmurinn var notaður þegar illa áraði og heyfengur af skornum skammti og þótti góð búbót því nautgripir voru sólgnir í hann. Hálmur sem rak á Lambhúsafjörur var góður sem undirlag í rúm og til að útbúa dýnur. Hann var stundum notaður sem stopp í söðla og hnakka og jafnvel í sængur.
Marhálmurinn var algjörlega ónýtur sem eldsneyti en þegar farið var að byggja timburhús var hann mikið notaður til að einangra milli þilja. Hann var seldur til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og notaður í íshúsin, einkum Nordalsíshús og Ísbjörninn. Guðmundur Þóroddson í Lásakoti á Álftanesi hafði t.d. atvinnu af því að hirða marhálm í Skógtjörn, þurrka hann og flytja á tveimur hestum til kaupenda. Marhálmur hvarf að mestu veturinn 1918-19. Hálmurinn er mikilvæg fæða álfta sem Álftanes dregur væntanlega nafn sitt af. Margæsir sem staldra hér við á vorin og haustin á leið sinni til og frá vetrarstöðvunum í Bretlandi en sumarsvæði hennar eru í Grænlandi og Kanada sækjast í marhálminn. Það eru fleiri fuglar sem sækja í tjarnirnar á Álftanesi í grennd við Gálga- og Klettahraun. Talsverð búbót var af torfristu og mótekju en fjörumór þótti mun betri eldsmatur en hálmurinn. Garðhverfingar höfðu leyfi til að skera þang í fjöru en rekaþangið var betra og þornaði fyrr en þang sem var skorið í sjó. Það var ekki eins salt og brann líka betur. Mór og þang var þurrkað á þurrkvöllum í hrauninu og á hlöðnum þurrkgörðum. Það var síðan geymt í hlöðnum grjótbyrgjum. Þegar þangið var vel þurrt var það bundið upp í sátur sem voru bornar á bakinu heim á bæina. Þegar allt annað þraut var lyng rifið og notað sem eldsmatur og það litla sem fékkst af kvisti var líka tekið.
Fuglalífið er ákaflega fjölbreytt og tegundafjöldinn óvenju mikill. Kría og æðarfugl verpa í hrauninu norðantil og á Eskinesi var á síðustu öld komið upp æðarvarpi og í sambandi við það reistur lítill kofi fyrir varðmenn og er stutt síðan að þekja hans féll niður. Þessi kofi er í gjá ofan við Eskines.
Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir í bókinni frá Fjöru til fjalls að sjávarstaða hafi verið lægri en nú er þegar Búrfellshraun rann. Eskines er kvísl eða hrauntangi sem gengur lengst út í Arnarvog og hefur stöðvast á þurru landi telur hann. Nesið hefur brotnað á undangenginni öld og sjór flæðir nú yfir stóran hluta þess á stórstraumsflóðum. Húsatóftir sem eru að eyðast sjást enn á Eskinesi. Erfitt er að henda reiður á hvort þetta er gömul verbúð eða kotbýli. í Jarðabók ÁM og PV frá 1703 segir m.a. í lýsingu Hraunsholts: „Skipsuppsátur og vergögn hefur jörðin við Ofanmannabúð“ og „Hrognkelsafjara lítil þar sem heitir Eskines“.
Þórarinn Böðvarsson prestur í Görðum lét reisa kofa þarna um 1870. Sjást leifar hans enn í hraunkantinum. Þórarinn ætlaði að koma upp æðarvarpi í Eskinesi. Samkvæmt frásöng Ólafs Þorvaldssonar lét hann reisa kofa í hraunjaðrinum og þar eru vallgrónar minjar, þannig að það má vera að tóftirnar á nesinu séu af eldra húsi (Ofanmannabúð). Séra Þórarinn flutti karl og konu í kofann og lét þau hafa hænsnfugla hjá sér sem áttu að lokka æðakollurnar til að verpa í hreiðrin sem útbúin höfðu verið. Þetta hafði ekki tilætlaðan árangur og gafst Þórarinn upp á þessari tilraun stuttu seinna. Norðan við Eskineseyrartá eru tvö eða þrjú flæðisker sem sauðfé sótti mjög í á sínum tíma. Þar varð verulegur fjárskaði um 1900 þegar 40-50 kindur úr Hafnarfirði og Garðahverfi flæddi til dauðs.
Þeir sem kunnu að nýta það sem hraunin gáfu af sér töldu þau afar gjöful. Leiguliðar Garða fengu að beita þarna sauðfé sínu. Víða í grasgefnum lautum í hraunjaðrinum og út með ströndinni var ágætist útibeit fyrir sauðfé hvort heldur var að sumri eða vetri. Auðvelt var að útbúa fjárskjól í hraunskútum og má finna minjar um smala- og fjárskjól ásamt hlöðnum byrgjum á nokkrum stöðum. Þegar skyggnst er ofan í jarðföll, sprungur í hraunjöðrum og klettaborgum sjást þessar grjóthleðslur, eða vallgrónir torf- og grjótveggir. Stundum var hlaðið upp við sprungur og reft yfir til að nýta náttúrulegar aðstæður sem best. Slíkar minjar er hægt að finna í Klettahrauni og Gálgahrauni, t.d. á Grænhól, við Garðastekk og við Eskines.
Hraunið gat verið ágætis beitiland en það var ekki hættulaust að nýta það. Sauðamenn fylgdu sauðfénu og gættu þess að það færi sér ekki að voða því víða leynast glufur í hrauninu sem geta valdið skaða. Á vetrum var fénu beitt í fjörunni á hólmum og flæðiskerjum. Það var því mikilvægt að gæta að sjávarföllum og koma fénu í land áður en féll að. Fjárkynið sem undi sér best í Klettunum var kallað Klettafé. Það var á útigangi í hrauninu nema þegar rekið var á fjall yfir hásumarið. Hraunið var leitótt og erfitt yfirferðar og féð styggt og meinrækt að sögn Ólafs Þorvaldssonar, sem bjó í Ási við Hafnarfjörð. Þetta leiddi til þess að iðulega kom fyrir að eitthvað af fénu komst ekki á fjall og var í hrauninu allt árið. Nokkur örnefni og kennileiti minna á þessa tíð, þ.á.m. eru Garðastekkur og Garðarétt, ásamt túnflekk og húsatóftum í hraunjaðrinum á móts við Prestaþúfu.
Beitin hefur án efa átt sinn þátt í að eyða kjarrgróðri sem eflaust hefur vaxið í hrauninu í öndverðu. Birki og víðir eru að ná sér á strik á stöku stöðum í hrauninu en það er að mestu vaxið lyngi, mosa og hverskyns lággróðri. Hraunssvæði Garðahrauns er hið ágætasta útivistarland og margt er að sjá s.s. fyrr er lýst. Gróðurfar er fljölbreytt, klettamyndir stórfenglegar, djúpar gjótur og grunn jarðföll setja svip á landið og ströndin er heillandi. Við hraunjaðarinn eru fallegir bollar og hraunstrýtur og klettar af öllum stærðum. Áður fyrr þótti hraunið ekki mjög heillandi eða árennilegt öðrum en þeim sem þekktu það vel.
Álftanesgata eða Fógetagata (sjá meira HÉR) eins og forna alfaraleiðin út á Álftanes var nefnd, lá í krókum gegnum hraunið eftir ruddri slóð. Hún var ágæt yfirreiðar í björtu veðri en gat reynst hættuleg og valdið óhugnaði hjá fólki í dimmviðri, regni og vetrarhríð.
Gatan var líka nefnd Gálgahraunsstígur nyrðri og Sakamannastígur. Þessi nöfn voru nægjanlega skuggaleg til að setja hroll að ferðalöngum sem áttu leið um þessa grýttu og torfæru götu eftir að rökkva tók. [Heimild er þó til að síðastnefndu nöfnin hafi verið nefna á götu með sjónum að vestanverðu að Gálgakletti.] Gatan er enn nokkuð augljós og auðvelt að rekja sig eftir henni þar sem hún fetar sig upp á hraunið nærri Eskinesi við botn Arnarvogs yfir hraunið og að hraunbrúninni rétt norðvestan við Garðastekk. Hraunið þótti það villugjarnt að um tíma gat Arnes Pálsson falist þar á 18. öld, en hann var kunnur þjófur sem lagðist út og var samtíða Fjalla Eyvindi og Höllu. [Reyndar dvaldist Arnes í samnefndum helli við Hraunsholt, sem er í Garðahrauni, þar sem hann er enn.]
Þrátt fyrir dulúð, drunga og harðneskjublæ sem fylgir óneitanlega Gálgahrauns- og Klettahrauns nöfnunum eru margir heillandi staðir á þessum slóðum. Þeir sem vilja kynnast þessu merka hrauni nánar ættu að gefa sér tíma og fara nokkrar ferðir um hraunið. Það er margt að sjá og um að gera að skyggnast eftir minjum og áhugaverðum stöðum.
Ekki má gleyma strandlengjunni sem er síbreytileg og tjarnirnar í Vatnagörðunum eru mjög sérstakar. Það er auðvelt að fara um hraunið allan ársins hring og hægt leita skjóls ef vindur blæs og regnið lemur. Þarna hafa skáld og myndlistarmenn eins og Kjarval, Pétur Friðrik, Eiríkur Smith og Guðmundur Karl oft leitað fanga.
Frábært veður í vetrarljósakiptunum. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir:
-Ólafur Þorvaldsson, Áður en fífan fýkur.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson, Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar.
-Jón Jónsson, Frá fjöru til fjalls.
-Jónatan Garðarsson.
-Atli Karl Ingimarsson.
-Jarðabók ÁM og PV – Hraunsholt.