Gengið var um sunnanverð Eldvörp, skoðaðar mannvistaleifar í helli og Árnastíg fylgt áleiðis að Sandfellshæð, með Sandfelli að Lágafelli.
Gengið var upp á Lágafell, gígurinn skoðaður og síðan haldið áfram niður á Árnastíg og gengið um Klifið í Klifgjá, austur með sunnanverðu Þórðarfelli, skoðaðir hellar þar í hrauninu, og síðan gengið upp á brún Gígsins, mikils eldgígs í hrauninu. Frá honum liggur stór hrauntröð til austurs og beygir síðan til suðurs. Henni var fylgt áleiðis að upphafsstað í Eldvörpum.
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum.
Nokkur yfirborðsjarðhiti er á afmörkuðu svæði í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við meginborholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.
Árnastígurinn liggur um slétt helluhraunið norðan Sundhnúkahrauns og í gegnum Eldvörpin á leið hans að Þórðarfelli og áfram að Rauðamel þar sem hann sameinast Skipsstíg. Stígnum var fylgt spölkorn yfir hraunið uns vikið var út af honum utan í Sandfellshæð.
Á toppi Sandfellshæðar er stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni. Í norðri blasa við fellin Sandfell, Lágafell, Þórðarfell, Súlur og Stapafell sem reyndar er að mestu horfið vegna efnistöku.
Gengið var noður með vesturhlíðum Sandfells og upp á Lágafell. Í fellinu er stór gróinn gígur. Talsverðar minjar eru þarna eftir æfingar varnarliðsmanna, s.s. hleðslur og símalínur. Gengið var niður af Lágafelli að austanverðu og Árnastíg fylgt niður Klifið, áleiðis að Þórðarfelli. Þar var beygt upp á hraunið ofan við Klifgjá og skoðaðir nokkrir hellar á svæðinu. Loks var haldið upp á brún Gígsins og hann skoðaður. Hrauntröðinni miklu var síðan fylgt sem leið lá til austurs og síðan til suðurs með hraunkantinum. Í fordyrum hennar eru fallegar hraunmyndanir og rúmgóðir skúta. Þegar líða tekur á hana fellur hún inn í misgengi samhliða sprungureinum svæðisins.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.