Í örnefnalýsingu GS fyrir Herdísarvík segir m.a. af gömlu alfaraleiðinni til vesturs; „Alfaravegurinn gamli liggur þarna um hraunið um Klifhæð, sem einnig ber eftirtalin nöfn: Klifið, Háaklif, Illaklif og Vondaklif.
Nú hefur mikil og stæðileg varða verið hlaðin í Klifið, Klifsvarða, og ofan hennar er svo Sýslusteinn, og liggur (svo) þar um landa- og sýslumörk. Austur af Klifhæð er lítill hellisskúti, nefndur Sængurkonuhellir. Þar var eitt sinn förukona á ferð, dró sig inn í skútann og eignaðist barn.“
Áður hafði Klifshæðin verið skoðuð og þá fannst hellir í grónu jarðfalli. Við opið var emileraður koppgjörningur. Nánari skoðun á þessum helli gaf til kynna áhugaverða yfirborðshraunrás með þrengingum og ýmsum sætindum, litadýrð og dropsteinum.
Við nánari leit í Klifhæðinni austanverði kom í ljós tilgreindur hellisskúti er reyndist vera um 30 m hraunrás. Opið er tiltölulega lítið (um 1.00×0.60 cm), nokkra metra austan við götuna og er það greinilega merkt með litlum skófvöxnum vörðum. Skjólið er manngegnt undir opinu, en lækkar er inn dregur. Þetta skjól virðist hafa verið þekkt fyrrum þótt það sé alls ekki augljóst í dag, þrátt fyrir vörðunefnurnar.
Með í för var Guðni Gunnarsson, núverandi formaður Hellarannsóknarfélags Íslands.
Heimildir m.a.:
Gísli Sigurðsson -Örnefnalýsing fyrir Herdísarvík.