Tag Archive for: kolaveiði

Sjómaður

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1955 er m.a. fjallað um „Kolaveiði í Dugguósi við Bessastaði“: „Í ósnum, sem er milli Bessastaðatjarnar og sjávar og nefndur er Dugguós, var ákaflega mikil kolaveiði og einnig fyrir utan hann. Var kolinn venjulega veiddur þar frá því hálfum mánuði fyrir fardaga og allt til Mikjálsmessu.
Bessastadatjorn-221Var kolinn veiddur í svokölluð kolanet. Var alltaf vitjað um net þessi einu sinni á dag. Aflinn var misjafn, þetta frá 60 og mest upp í 150 fiska. Þætti slíkt nú daglega góður fengur. — Var þetta spikfeitur skarkoli, til jafnaðar rúmlega pund að þyngd. Stundum kom fyrir að smálúða kæmi í netin, og voru þær frá fimm og allt að tólf pundum. Þótti kolaveiðin einhver indælustu hlunnindi sem fylgdu Bessastöðum og Breiðabólsstöðum. Ári eftir að fyrstu togararnir komu hér í Faxaflóa, hurfu þessi dýrmætu hlunnindi frá þessum tveimur jörðum og verður sá skaði alltaf ómetanlegur. – (Sjósókn).“
Í Lögbergi-Heimskringlu árið 1963 er jafnframt fjallað um Dugguós: „Þar sem áður flæddi sjór, eru nú ræktaðar karlöflur.
Við brugðum okkur í vikunni suður á Álftanes og litum þar á kartöflugarð, sem segja má, að unninn hafi verið úr greipum Ægis, því fyrir nokkrum árum lá þar allt undir sjó. Nú er á nesinu fimm hektara kartöfluakur, og er uppskeran ágæt, því jarðvegurinn virðist auðugur af öllum efnum, og heppilegur til kartöfluræktar.
Bessastadir - sjobudÁrið 1952 og ’53 var hlaðinn varnargarður í hinn svonefnda Dugguós, eða Bessastaðaós á Álftanesi, og fékkst við það mikið land, sem áður hafði allt verið undir sjó, en fyrir innan þennan garð myndaðist einnig tjörn sú, sem kölluð er Bessastaðatjörn og ræktaður er í lax.
Það var Sveinn Björnsson fyrrverandi forseti, sem lét hefjast handa um gerð garðsins, og hélt Ásgeir Ásgeirsson forseti áfram verki hins látna forseta. Þar sem nú er kartöflugarðar voru einu sinni mógrafir norðurbæjanna á Álftanesi aðallega Landakots og Breiðabólstaðar, en í stórstreymi gekk sjórinn alla leið þangað upp. Svo var einnig gerður varnargarður fyrir vestanáttinni fyrir nokkrum árum, og á enn eftir að framlengja hann nokkuð svo hann nái að garðinum, sem er fyrir Dugguósi, en við það fæst enn nokkurt land til ræktunar.
Sett var niður í garðinn, sem er eign Erlends Sveinssonar lögregluþjóns, 6. júní og hefur verið unnið við upptöku undanfarna viku. Jarðvegur er þarna auðugur af öllum efnum og hefur uppskeran verið góð. — Í fyrra, en þá var fyrst sett niður í þennan garð, varð uppskeran sumsstaðar í honum 16 til 17 föld, og þykir víst ekki ónýtt að fá svo góða uppskeru. Auk kartaflanna eru þarna ræktaðar rófur og hafa þær sprottið mjög vel í sumar. – Tíminn 5. okt.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 27. febrúar 1955, bls. 124.
-Lögberg-Heimskringla 31. okt. 1963, bls. 8.

Bessastaðanes

Bessastaðanes – örnefni.