Tag Archive for: Kópavogsbærinn

Kópavogur

Framan við Kópavogsbæinn/Kópavogsbúið er upplýsingaskilti. Á því má m.a. lesa eftirfarandi texta:
„Engar ritheimildir eru til um upphaf búskapar á jörðinni Kópavogi, en fornleifarannsóknir við Þinggerði árið 1973-1976 leiddu í ljós bæjarrústir frá miðöldum og því líklegt að menn hafi verið hér frá síðari hluta 9. aldar.

Kópavogur

Kópavogsbærinn – túnakort 1916.

Kópavogur er fyrst nefndur árið 1523 í dómi yfir Týla Péturssyni frá Kópavogsþingi, en hann var fundinn sekur um rán á Bessastöðum. Bærinn er fyrst nefndur í afgjaldsreikningum frá árinu 1553. Kópavogur hafði verið eign Skálholtskirkju en fór í konungseign ásamt öðrum jörðum kirkjunnar eftir siðaskiptin 1550.

Kópavogur

Kópavogsbærinn nú og fyrrum.

Jarðabækur gefa til kynna að Kópavogsjörðin hafi verið rýr að landgæðum. í jarðabókum frá 17. og fram til 19. aldar var jarðardýrleiki um 11 hundruð. Árið 1861 var jarðardýrleikinn skráður 13.6 hundruð. Til samanburðar við næstu jarðir voru Digranes og Vammkot 15 hundruð hvor jörð og Vatnsendi 22 hundruð. Jörðin gat því ekki framfleytt mörgum.
Upphaflega stóðu bæjarhús Kópavogs við Þinggerði en á 19. öld voru þau við sjávarbakkann beint suður af núverandi steinhúsi sem reist var 1902-1904. Engin ljósmynd er til af gamla bænum frá 19. öld, en einstakar lýsingar af bæjarhúsunum eru til. Ein er frá sumri 1856, er hinn breski lávarður Dufferin (1826-1902) var á leið frá Reykjavík til Bessastaða og leiðinni lýsti hann svo: „Fyrstu mílurnar riðum við yfir öldótta doloritsléttu, uns við komum til bóndabæjar, sem var við vog nokkrun. Í fjarlægðinni virtist bærinn eins og lítil vin í eyðimörk, því allt í kringum hann voru gráar grjótbrekkur, en er nær dró virtist þarna vera keltneskir virkisveggir, en innan þeirra haugar eins eða tveggja fallinna kappa. Það kom á daginn, að haugarnir voru bara torfþök bæjar og gripahúsa, en virkisveggirnir torfgarðarnir, sem eru hlaðnir utan um best ræktuðu skákina í landi bóndans“.
KópavogurÞarna lýsti lávarðurinn einnig túngarði Árna Péturssonar (1781-1854) bónda í Kópavogi, svonefndum Árnagarði, um 680 metra langri garðhleðslu umhverfis túngarðinn við bæinn. Útlínur garðsins sjást á gömlum kortum og loftmyndum, en Árni var verðlaunaður af konungssjóði árið 1827 fyrir jarðabætur á Kópavogsjörðinni.

Kópavogur

Kópavogsbærinn er elsta steinhlaðna hús Kópavogs.
Jörðin Kópavogur á sér langa og merka sögu meðal annars vegna þess að þar var þingstaður til ársins 1751. Elsta húsið sem nú stendur á jörðinni reisti Erlendur Zakaríasson á árunum 1902 til 1904, en þá voru gömlu bæjarhúsin, sem stóðu sunnar á jörðinni, orðin afar hrörleg. Erlendur var steinsmiður og hlóð hann bæ sinn úr tilhöggnu grjóti ognotaði steinlím með svipuðum hætti og hann hafði lært þegar hann vann við byggingu Alþingishússins á árunum 1880 til 1881. Húsið er elsta húsið í Kópavogi og er eitt fárra steinhlaðinna húsa sem enn standa utan Reykjavíkur. Því hefur það ásamt síðari tíma viðbyggingum mikið varðveislugildi sem eini uppistandandi vitnisburðurinn um elstu byggð Kópavogs og þann búskap sem stundaður var frá fornu fari á því svæði sem nú markar þéttbýli Kópavogs.

Í annarri lýsingu Kópavogsjarðarinnar, frá 21. febrúar 1882, segir: „Bæjarhús eru þar góð, baðstofa byggð á bekk. Hálf er hún ný uppbyggð með kjallara undir. Frambær, búr og eldhús í góðu standi. Tún eru þar stór, sum part þýfð, sum part sléttuð og ábúandinn hefur verið að slétta í þeim. Þessi tún vantar tað. Kemur það til af því að augnvar eru útheyisslægur. Girðing er í kring úr torfi og grjóti. Er hér um bil 2/3 partar túnsins og hálf er hún vel uppbyggð, aftur hálf í falli. Traðir eru heim að bænum, hlaðnar úr torfi og grjóti vel uppgerðar. Kálgarðar eru þar góðir. Í kringum þá góð girðing. Þar jörð þessi liggur að sjó það eru þar góð vergögn. Þar er góð grásleppuveiði og gerir það jörðinni mikinn hag því inn vols hennar gefur jörðinni áburð. Kúgildi jarðarinnar eftir því sem ábúandinn skýrir frá eru 2.“
Erlendur Zakaríasson (1857-1930) steinsmiður, hóp byggingu núverandi íbúðarhússins um 1902 og lauk því árið 1904. Hann hafði áður unnð við byggingu Alþingishússins árið 1880, reisti Kópavogsbæinn á sama hátt og hlóð hann úr tilhöggnu grágrýti og steinlími. Hér hóf hann kúabúskap ásamt konu sinni Ingveldi Guðmundsdóttur, seldi mjólk til Reykjavíkur og var einnig með hesta og kindur. Engjar auk túns við bæinn voru austur af Hvammakotslæk í brekkunum upp af Fífuhvammi og í Fossvogi. Þar var einnig mikil mótekja.

Kópavogur

Hressingarhælið. Húsið var tekið í notkun árið 1926 en það er reist fyrir tilstuðlan Hringskvenna sem settu á laggirnar hressingarhæli fyrir berklasjúklinga. Arkitekt hússins er Guðjón Samúelsson. Kópavogsbær hefur undanfarin ár unnið að endurbótum á því að utan sem innan.

Eftir að Kvenfélagið Hringurinn fékk aðstöðu fyrir hressingarhæli á Kópavogsjörðinni árið 1924 taldið félagið hagkvæmt að vera með búresktur samhliða rekstri hælisins. Hringurinn keypti Kópavogsbæinn þegar hann losnaði úr ábúð og var með búrekstur til 1948. Félagið let byggja fjós, hlöðu, hænsnahús og geymslu við steinhús Erlendar. Óskar Eggertsson (1897-1978) gerðist ráðsmaður á búinu hjá Kvenfélaginu Hringnum 1931 og bjó hér ásamt konu sinni, Guðrúnu Einarsdóttur (1899-1989) og sonum þeirra, Magnúsi (1927-2019), Einari (1930-2016) og tvíburunum Jóhanni Stefáni (1936-1046) og Guðmundi. Ríkissjóður og ríkisspítalar fengu búið 1948 og búskapur hélt áfram þar til skömmu eftir 1960. Síðustu ábúendur í Kópavogsbúinu voru Bjarni Pétursson Walen (1913-1987) bústjóri og Svanborg Sæmundsdóttir (1913-1995). Þau bjuggu hér árin 1959-1983. Íbúðarhúsið er elsta hús í Kópavogi. Kópavogsbærinn var friðaður samkvæmt lögum um húsafriðun í október 2012.“

Kópavogur

Kópavogsbúið.