Tag Archive for: Kópavogsdalur

Elliðaárdalur
Dalurinn, eða öllu heldur dalirnir, frá Kópavoginum og upp að Elliðavatni er hið ákjósan-legasta göngusvæði.
Bæði er hægt að halda sig á sléttum göngustígum og ekki síður víkja af þeim og skoða það sem svæðið hefur upp á bjóða, hvort sem um er að ræða minjar, gróður eða dýralíf.

Letursteinn

Letursteinn í Elliðaárdal.

Um er að ræða 5-6 km langa göngu við bestu aðstæður. Þótt svæðið sé í miðri byggð ríkir þar ró að jafnaði og hin mikla skógrækt eykur á litbrigði og umbreytingar ástíðanna, vor, sumar, haust og vetur.
Hópur silfurtoppa er nú orðinn fastagestur í trjám dalanna, skógarfuglarnir sækja í gjafir íbúanna á vetrum og andartegundir eru óvíða fleiri á höfuðborgarsvæðinu.

Kópavogsdalur

Kópavogur

Kópavogsdalur.

Útivistarsvæðið í Kópavogsdal nær frá Kópavogsleiru við Hafnarfjarðarveg, upp með Kópavogslæk að bæjarmörkum í suður-Mjódd og er um 2 km að lengd og um 60 ha að flatarmáli.
Á nokkrum stöðum teygir svæðið sig upp í Digraneshálsinn. Nokkrir gamlir trjáreitir frá tímum sumarbústaðanna eru í Kópavogsdal og er reiturinn við Dvöl og nágrenni þeirra merkastur. Þar eru ein elstu merki trjáræktar í Kópavogi og við Barmahlíð eru merkilegar hleðslur frá 4. áratugnum, þær einu sem eftir eru í bænum sinnar tegundar.
Miklar framkvæmdir hafa verið í Kópavogsdal undanfarinn áratug, en tekist hefur að halda allstórum hlutum dalsins lítt röskuðum. Þar er fjöldi villtra plantna sem ásamt trjálundunum laðar að sér fjölbreytt fuglalíf.

Kópavogslækur
er enn að mestu í upprunalegum farvegi sínum en er nú mun vatnsminni en áður fyrr. Í miklum rigningum geta þó komið í hann flóð, þar sem regnvatni er veitt í lækinn. Enn kemur það öðru hverju fyrir að skólp berist í Kópavogslæk vegna rangtenginga frárennslislagna. Heilbrigðiseftirlitið hefur í hyggju að vakta lækinn með þeim hætti að taka þar reglulega gerlasýni.

Kópavogur

Kópavogslækur.

Vestast í dalnum hefur verið gerð tjörn í Kópavogslæk sem er vinsæl meðal fólks og fugla. Stöku silungur slæðist inn í tjörnina en í læknum eru bæði álar og hornsíli. Í deiliskipulagi fyrir dalinn er gert ráð fyrir að fleiri tjarnir komi í Kópavogslæk.
Í Kópavogslæk, sunnan Fífuhvamms, er móbergsklöpp sem er hluti af elsta móbergi á höfuðborgarsvæðinu 4-500.000 ára, mun eldra en s.k. Reykjavíkurgrágrýti.
Mikið hefur verið gróðursett í Kópavogsdal undanfarin ár og nú er nær fulllokið við að koma upp góðu stígakerfi um dalinn þveran og endilangann. Vestast í Kópavogsdal er félagssvæði Breiðabliks og Tennishöll og skammt þar frá er aðsetur Vinnuskólans og garðyrkjudeildar bæjarins. Austar eru fjöldi leiksvæða og áningastaða ásamt skólagörðum.

Fossvogsdalur

Dalurinn er um 2,5 km langur og nær frá Fossvogsleiru í vestri að Blesugróf í austri.
Útivistarsvæðið í Fossvogsdal er að hluta til í lögsögu Reykjavíkur (um 25%), en um 60 ha eru Kópavogsmegin.

Fossvogsdalur

Fossvogsdalur.

Dalurinn var áður að mestu landbúnaðarsvæði og flatlend tún og framræsluskurðir settu svip sinn á hann. Fossvogslækur rennur í framræsluskurði að mestu leyti nema vestast, en þar er lækurinn og umhverfi hans undir bæjarvernd. Á þeim slóðum er “skógræktin”, fyrrum aðsetur Skógræktarfélags Reykjavíkur, og laðar skógurinn að sér mikinn fjölda fugla af ýmsum tegundum.
Um miðbik dalsins er HK með félagssvæði sitt og þar er einnig lóð Snælandsskóla gæsluvöllur og skólagarðar. Í austurhlutanum er sleðabrekka og stígarnir eru mikið notaðir til skokks og skíðagöngu. Austast í dalnum er einnig mikill trjágróður og þar er kominn vísir að trjá- og runnasafni (arboretum). Þar eru einnig garðlönd sem leigð eru bæjarbúum. Á svæðinu austan
Kjarrhólma eru söguminjar um grjóthögg, líkt og við Einbúa.
Lundur – Birkihlíðarreitur (nýbýli og merkilegir trjáreitir).
Fyrirhugaðar eru framkvæmdir við Fossvogslæk um miðbik dalsins þar sem lækurinn verður færður úr framræsluskurði og myndaðar tjarnir. Samhliða því er fyrirhugað að loka hluta framræsluskurða með gerð grjótræsa. Einnig verður aukin trjárækt í dalnum.
Aðgengi að Fossvogsdal er gott sem og tengingar yfir dalinn, enda eru göngustígarnir vel nýttir.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Elliðaárdalurinn er eitt vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga. Daglega njóta hundruð Reykvíkinga útivistar í dalnum og ekki þarf lengi að fara þar um til þess að sjá fólk á ferli um dalinn þveran og endilangan enda er vel búið að útivistarfólki, stígar og brautir fyrir gangandi og hjólandi umferð.
Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, ekki til laxveiða heldur beislunar vatnsafls og rafstöðin var reist um 1920. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum en árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum, sem er eitt mesta aðdráttarafl dalsins.
Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.

Heimild m.a.:
-Kópavogur – stöðumat 2000.

Eliðaárdalur

Elliðaárdalur.