Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um svæðið norðvestan, vestan og suðvestan Hettu: „Vestur með hálsi liggur leiðin áfram og blasir þá fyrst við Smjördalahnúkur og Smjördalir milli hans og hálsins. Héðan liggur svo slóðinn frá Hnúknum yfir dalinn að Vigdísarvöllum.
Úr dölum þessum kemur lækur og rennur vestur norðan undir Hettu og tekur þar við læk úr Hettu og Hettumýri og nefnist þá Hettumýrarlækur. Enn bætist lítill lækur við, kemur í Kringlumýri og Kringlumýrartjörn með hnúkinn Slögu á hægri hlið þegar vestur er haldið. Síðan rennur lækur þessi um lægð er nefnist Bleikingsdalur. Þar er Bleikingsdalsvað þar sem Drumbsdalastígur liggur yfir lækinn.“
Þegar FERLIR var nýlega að feta stíga, götur og vegi á sunnanverðum Sveifluhálsinum [Eystri Móháls] [Austurháls] var staðnæmst á Hettuvegi sunnan undir Hettu. Bjart var í verði og útsýni yfir Kringlumýri og Drumbdali var með ágætum. Fé undi sér vel í Kringlumýrinni, enda einkar grösugur dalur. Stórt vatnsstæði er í gömlum gíg syðst í honum (Kringlumýrartjörn). Lækir runnu frá Hettuhlíðum beggja megin mýrinnar áleiðis niður í Bleikingsdal og áfram niður í Ögmundarhraun.
Af fyrri reynslu mátti ætla að þessi grösugi og safaríki dalur hefði verið nytjaður fyrrum. Norðaustan í dalnum er aflíðandi hæð. Á henni virtust vera grónar tóftir, svona úr fjarlægð séð. Tóftarhóllinn var grænni en umhverfið. Líklegt mátti ætla ef þarna hefði verið selstaða fyrrum hefði hún verið frá Húshólmabæjunum (hinni fornu Krýsuvík) því aðkoman að Kringlumýrinni virtist ákjósanlegust þaðan, þ.e. upp og niður með vestanverðum Sveifluhálsi og áfram um gróninga (nú hraun eftir 1151) að bæjunum neðanundir og ofan við ströndina. Ekki er útilokað að selstaðan hafi verið frá Krýsuvíkurbænum austan Bæjarfells því aðkoman frá honum ef farið er suður fyrir Sveifluháls er svipuð og ef verið hefði frá fyrrnefndu bæjunum. Þá væri sennilegast að þar hefðu kýr verið hafðar í seli fremur en fé því bæði var bithaginn góður að gæðum og afmarkaður, auk þess sem aðgangur var að nægu vatni allt árið um kring.
Vegna hæðamismunarins á mýrinni og veginum var mögulegt selstæði ekki kannað í það sinnið.
Daginn eftir var hins vegar haldið inn í Kringlumýrina. Gengið var um Steinabrekkustíg og Drumbdalastíg frá hinum fornu Gestsstöðum í Krýsuvík. Á leiðinni voru leifar útihúss í Steinabrekkum skoðaðar, hlaðin refagildra mynduð, kíkt á Fagraskjól ofan Skugga og þegar komið var efst í austanverða Drumbdali var fjárgata rakin ofarlega í hlíðinni inn að Kringlumýrartjörn. Þaðan var gengið að meintri selstöðu. Ekki þurfti að staldra lengi við á selshólnum til að sjá móta fyrir rými og hlöðnum grjótveggjum, sennilega stekk eða fjósi. Augljóst virtist að þarna hafði fyrir alllöngu verið mannvirki, nú næstum algróið. Hús var austur/vestur, sennilega lítill skáli. Stekkurinn eða fjósið var þvert á hann, eða suður/norður.
Ýmislegt gaf til kynna að þarna hafi fyrrum, líklega um og eftir 1000, verið kúasel. Aðstæður voru ákjósanlegar, bæði vatn og góðir bithagar, takmarkað rými og auðvelt um gæslu. Brekkur eru á alla vegu nema skarð til suðvesturs, niður með vestanverðum hlíðum hálsarins. Þar gæti selsstígurinn enn verið greinilegur, en skoðun þar bíður betri tíma.
Aðkoma og afstaða selsins er mjög svipuð og sjá má í Helgadal ofan við Hafnarfjörð. Þar er áætlað að kúasel hafi verið frá því skömmu eftir landnám hér á landi.
Selsstöðunnar í Kringlumýri er hvergi getið í heimildum né í fornleifaskráningu af svæðinu. Hún væri því vel frekari rannsóknarinnar virði. Hvort sem þarna hafi verið kúasel eða fjársel breytir í rauninni litlu um gildi fundarins því næsta öruggt má telja að selstaðan kunni verið mjög forn, mögulega frá hinum fornu bæjarleifum í Húshólma, hinni fornu Krýsuvík. Vegarlengdin þangað er um 6.5 km.
Þetta mun vera sjöunda selstaðan, sem staðsett hefur verið í landi Krýsuvíkur.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild m.a.:
-Örnefnaskráning fyrir Krýsuvík – Gísli Sigurðsson.