Tag Archive for: Kristjándalahorn

Ekkitilvatn

Ofan við Kristjándalahorn og norðan Stórabolla við Grindaskörð er vatn, að því er virtist, í allstórri sigdæld. Þegar FERLIR fór fyrst inn á svæðið birtist vatn þetta þátttakendum að óvörum, enda höfðu sérfróðir menn fullyrt að þarna væri ekkert vatna, hvað þá tjörn.
Dældin og gígurinn norðarVatnið virtist í fyrstu vera í sigdæld og var þá nefnt „Ekkitilvatn“. Í og við dældina eru nokkur stór göt – af loftmynd að dæma. Skammt norðar er fallegur gígur með myndarlegri hrauntröð til suðvesturs. Norðan hans eru tveir aðrir minni gjallgígar, en þó ekki í sömu röð og fyrrnefndu gígarnir heldur eru þeir skammt austar. Hafa ber í huga að miðsvæði þetta hefur verið lítt kortlagt af jarðfræðingum því athyglin hefur fyrst og fremst beinst að „seglunum tveimur“; Þríhnúkum og Bollunum, auk þess sem svæðið hefur verið úr alfaraleið göngufólks.
Ætlunin var að skoða dældina betur og kíkja í götin og gígana. Þess vegna var ákveðið að ganga stystu leið frá Bláfjallavegi, upp á Kristjánsdalahorn og áfram upp á efri brúnir hásléttunnar (428 m.y.s.) milli Bollanna í suðri og Þríhnúka í norðri og austur yfir línu á milli þeirra, með stefnu á suðurenda Bláfjalla. Eitt helsta einkenni þessa svæðis eru örnefnaleysur þrátt fyrir ágæt kennileiti, sem segir nokkuð til um hversu fáfarið það hefur verið um aldir. Annað helsta einkennið er fegurðin, sem þar ríkir – og verður nánar lýst síðar.
Vatnsstæði ofan við KristjánsdalahornKristjánsdalahorn er sá rani er næst Bláfjallaveginum frá ofanverðum hlíðunum. Hornið eru a.m.k. þrír ávalir hnúkar með jafn mörgum gígum. Þeir hafa smám saman verið að renna saman við umhverfið með skriðumyndunum vegna þess hversu gamlir þeir eru, enda hluti af einni elstu bergmynduninni á svæðinu. Má líkja þeim við það er breytingar á mannslíkamanum gera sléttleika húðarinnar smám saman eðlilega hrukkótta.
Þegar staðið er uppi í hlíðununum má sjá Kristjánsdalina neðar að suðvestanverðu við Kristjánsdalahornið og Þjófadali norðan þess.
Þegar enn var lagst á bratta hlíðina framundan var gamalli undirhlaðinni girðingunni fylgt upp á brún. Á göngunni útskýrðist bergmismunin á svæðinu smám saman. En fyrst svolítið um girðinguna; hún hefur legið upp Tvíbollahraunið með stefnu frá miðju Helgafelli í miðlægt Kristjánsdalahornið. 

Ekkitilvatn

Frá því neðanverðu hefur girðingin legið, tekið beygju upp einn hnúkinn og áfram upp á brúnirnar og þar síðan tekið stefnu að norðanverðum Stórabolla. Líklega hefur þarna verið um að ræða gamla sauðfjárveikigirðingu, en löngu hefur lokið hlutverki sínu. Áberandi er þó enn fyrrum lega hennar um landslagið því sauðféð beggja vegna hefur myndað götur meðfram henni sitthvoru megin. Féð að sunnanverðu hefur verið lukkulegra því í miðri hlíðinni ofanverðri er hið ákjósanlegasta vatnsstæði.
Upp undir brúnunum eru gjár; misgengi. Ofan við brúnirnar er varða, sem vísar á leið yfir gjárnar. Varðan er fremst á brúnunum og sést vel hvort sem komið er upp eða ofan frá. Þarna tekur við sléttlægur stallur, auðveldur yfirferðar. Í stað þess að fylgja fyrrum girðingunni áfram áleiðis að Stóra-bolla, var stefnan tekin til austurs, upp Gígur á leiðinniaflíðandi gróna brekku milli Bollanna og Þríhnúka. Sú stefna leiddi þátttakendur beint að formfögrum gígum þeim er fyrr hefur verið minnst á og stefnt hafði verið að. Áður þurfti þó að ganga í gegnum tiltölulega grannt, „nýlegt“ og greiðfært blandhraunið. Syðsti gígurinn, sá stærsti, gaf af sér fallega gróna hrauntröð til suðvesturs. Hinir tveir þríburarnir, norðan hans, voru minni, en engu að síður formfagrir.
Þarna virtist um að ræða nýjustu hraunmyndunina á svæðinu. Afurðin var yfir öðrum hraunum og virtist yngst þeirra. Gígarnir eru ekki í „sprungureinaröð“ millum Þríhnúka og Bolla, sem eiga jarðfræðilega að hafa sömu virkni tímalega séð. Þeir eru skammt austar. Hraunið úr Bollum og Þríhnúkum rann um 950 og varð allmikið. Hér hefur gosið á stuttri sprungu í stuttan tíma. Gjóskumyndunin hefur verið lítil sem og hraunmyndunin. Annað hvort hefur gosið verið í framhaldi af uppkomunni á meginsprungureininni er fæddu Tvíbollahraun og Þríhnúkahraun, eða stuttu seinna.
Þríhnúkar frá óvenjulegu sjónarhorniÞegar staðið er upp á gígbrúnunum blasa Þríhnúkar við í segulnorðri. Í austasa hnúknum er Þríhnúkahellir, einn dýpsti hraunhellir í heimi. Kvikutjörn er milli gíganna. Hún er nú aflangur bjúglaga sléttbotna dalur. Hraunin í kringum og neðan við gíganna hafa verið skilgreind sem Þríhnúkahraun I og II. Um aldur þeirra er ekki vitað, en talið er að þau séu frá því skömmu eftir landnám, líkt og Tvíbollahraun. Um er að ræða sömu sprungurein sem fyrr sagði.
Þríhnúkahellir er í austasta gígnum og er stærsti þekkti hraunhellir landsins og jafnvel sá rúmtaksmesti í öllum heiminum. Hann er yngstu gíganna þriggja. Sennilega er hann um 1000-2000 ára gömul eldkeila. Af ummerkjum á svæðinu er ljóst að gígurinn hefur gosið síðastur á brúninni. Hann hefur gefið af sér gjall- og gjósku um nokkurn tíma, en síðan hefur gosið skyndilega dottið niður og hraun byrjað að vella út úr vængrásum.
Regnbogi yfir ÞríhnúkumÞríhnúkagígur er í raun tóm eldstöð. Þegar gosi lauk hefur hraunkvikan sigið niður, jafnvel alla leið niður í sjálft kvikuhólfið, og eldgígurinn tæmst. Það er merkilegt að hann skuli ekki hafa fallið saman við þetta eins og yfirleitt gerist, en þó hefur orðið töluvert hrun úr veggjunum sem safnast hefur fyrir á botni gígsins. Ekki er vitað um aðrar eldstöðvar af þessari stærðargráðu sem hafa tæmst á þennan hátt og er þetta því sennilega einstakt fyrirbæri í heiminum.
Ástæðan til þess að hvelfingin féll ekki saman er fyrst og fremst sú að geysilega þykk hraunlög, allt að 15-20 metrar á þykkt, styrkja veggina og hafa að einhverju leyti varnað hruni. Þar fyrir utan er hér um að ræða tiltölulega litla eldstöð, svo átökin hafa verið takmörkuð… Það sem gerir hraunhvelfinguna í Þríhnúkagíg einstaka í sinni röð er sem sagt fyrst og fremst stærðin.
Bollarnir eru hins vegar gígar utan í Grindaskarðshnúkum og Kerlingarhnúkum ofan samnefndra skarða.
Varða ofan við Kristjánsdalahorn - Helgafell fjærÞegar komið var upp í sigdældina, sem Ekkitilvatn liggur í, var hún skoðuð nánar. Um er að ræða samskonar kvikutjörn og við Þríhnúkagíga, en tíu sinnum stærri og miklu mun eldri. Hún er slétt í botninn (helluhraun) og jaðrarnir eru ávalir (nema að austanverðu, en þar eru klettar). Við fyrstu sýn virtist þarna hafa verið um dyngjuop að ræða, sem gæti reyndar verið önnur skýring á mynduninni. Vatnið er í suðurendanum. Af ummerkjum að ræða hefur það einhverju sinni verið mun stærra eða að svipaðri stærð og Grænavatn á Núpshlíðarhálsi. Í dag er stærðin líkt og á nærliggjanda þess, Spákonuvatni. Í norðurenda kvikutjarnarinnar eru mun meiri gróningar og ágætt vatnsstæði. Kindagata liggur að því ofan frá Bláfjöllum og áfram áleiðis niður í hlíðina ofan Kristjánsdalahorns. Við gígana greinist gatan. Angi hennar liggur til suðvesturs, niður gróna kverk milli hlíðarinnar og Stóra-bolla. Ef fara ætti af Selvogsgötu upp á Heiðarveg væri þetta ákjósanlegasta leiðin fyrir hestamenn.
Þá var leitað eftir götunum fyrstnefndu. Í ljós kom að um var að ræða litla gróna gíga með sandbotnum. Hraunið þarna er að hluta til frá því fyrir síðasta ísaldarskeið og því bæði jökulsorfið og margbrotið, en hluti þess gæti einnig hafa orðið til skömmu eftir að ís leysti. Seinni bættu gígarnir umræddu um betur.
Í bakaleiðinni birtist skær regnbogi framundan, svo nærri að hægt var að reka handlegginn inn í litrófið. Við það tækifæri var borin fram ósk um velferð – öllum til handa.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Ekkitilvatn

Ekkitilvatn.