Tag Archive for: Krýsuvíkurrétt

Krýsuvík

Austan í Bæjarfellshálsi sunnanverðum er rétt; Krýsuvíkurétt. Réttin sú er augljós og hefur því veriðs kráð sem fornleif í opinberum skráningum. Skammt ofan við vestanverða réttina er húsatóft. Þessarar tóftar er hins vegar hvergi getið, hvorki í örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík né fornleifaskráningum.

Krýsuvíkurrétt

Bæjarfellsrétt (Krýsuvíkurrétt) í Bæjarfellshálsi.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a: „Krýsuvíkurbærinn stóð á svo nefndum Bæjarhól hallaði honum niður til suðurs og var þar Hlaðbrekkan. Suð-austan við bæinn stóð Kirkjan í Kirkjugarðinum. Hallaði hér einnig niður frá Kirkjunni, bæði sunnan við að framan og austan til bak við. Kirkjubrekkan. Krýsuvíkurtúnið var eiginlega allstórt. Vestan Krýsuvíkurtúngarðs framan í Bæjarhálsi eða Bæjarfellshálsi er Krýsuvíkurrétt, þar var rekið að á vorin.“

Krýsuvíkurrétt

Tóftin á Bæjarfellshálsi.

Þegar FERLIR var að skoða bæjarsvæðin rákust augu í forna tóft á Bæjarfellshálsi. Tóftin er grjóthlaðin, um 6.00×4.80m. Op er mót suðri. Yfir henni liggur mosi og lyng. Hleðslur eru greinilegar. Að sjá virðist hún vera mjög gömul.

Krýsuvík

Krýsuvík 1906 – herforingjaráðskort.

Í fyrstu mætti ætla að þarna hefði verið fjárborg, en lögun hennar sem og hleðsla í vesturenda benda til annarra nota. Þessarar fornleifar er hvorki getið í fornleifaskráningu fyrir Krýsuvík né fornleifaskráningu fyrir Suðurstrandarveg, sem á að liggja þarna skammt frá.

Tóftarinnar er, líkt og áður sagði, ekki getið í örnefnalýsingum fyrir Krýsuvík. Þar segir einungis: “Vestan Krýsuvíkurtúngarðs framan í Bæjarhálsi eða Bæjarfellshálsi er Krýsuvíkurrétt, þar var rekið að á vorin. Hér vestur undan fellinu er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði.”
Tóft þessi er hins vegar allgreinileg. Telja verður því líklegt að á Krýsuvíkursvæðinu kunni enn að leynast ófáar fornleifar, sem ekki hafa verið skráðar.

Heimild:
-Krýsuvík – örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar

Bæjarfellsrétt.

Krýsuvíkurrétt (Bæjarfellsrétt) í Krýsuvík. Tóftin er efst til vinstri.

Gestsstaðir

Gengið var frá útivistarsvæði skátanna austan undir Bæjarfelli að gömlu Krýsuvíkurrréttinni. Þaðan var haldið eftir gamalli götu í átt að Drumbsdalavegi.

Krýsuvíkurgata

Krýsuvíkurgata vestan Bæjarfells.

Gatan liggur fyrst norðan vegarins, fer síðan yfir hann þar sem varða er hlaðin norðan við veginn og liggur síðan áfram samhliða honum að sunnanverðu. Á einum stað má sjá hlaðið í moldarflag. Við götuna eru gamlar fallnar og hálffallnar vörður. Gengið var upp Sveifluhálsinn þar sem Drumbsdalavegur liggur upp hann og honum fylgt í lægð í hálsinn uns komið var að þeim stað austan Drumbs er sást yfir að gígum þeim er Ögmundarhraun rann úr, um Bleikingsdal og yfir að Vigdísarvöllum.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – vestari tóftin (skáli).

Á hálsinum er lítil varða. Þar var snúið við og gengið eftir stíg norður með austanverðum Sveifluhálsi. Þar ofarlega hálsinum, í grónu dragi, er greinilega gömul tótt og hlaðið út frá henni. Tóttin virðist vera frá sama tíma og aðrar tóttir Gestsstaða, sem þarna eru nokkru norðar. Hún hefur þó hvergi verið skráð svo vitað sé. Sunnan undir hól, suðvestan Krýsuvíkurskóla, er löng tótt og skammt austar eru fleiri tóttir.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Í tóttunum eru merki um friðlýstar minjar. Eftir að minjarnar höfðu verið skoðaðar var gengið til suðurs að Skugga, klettum austan undir sunnanverðum Sveifluhálsi. Frá honum var haldið yfir á Krýsuvíkurveginn og hann genginn að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tík 3 klst og 3. mín.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Frá Skugga var gengið til austurs að Bæjarfelli og síðan austan með því norðanverðu. Þar var fyrst fyrir Hafliðastekkur og hleðslur undir stórum steini. Skammt austar er tótt uppi í hlíðinni og enn austar sést móta fyrir gömlum stekk. Frá honum var gengið yfir að Rauðhól og leitað réttar, sem þar átti að hafa verið skv. gamalli lýsingu. Ekkert sést nú móta fyrir réttinni, enda búið að leggja veginn utan í hólinn. Skoðað var brúarstæði á gömlu Krýsuvíkurleiðinni og skoðað hrossagaukshreiður, sem þar var undir gamla brúarstæðinu. Þá var litið á mógrafirnar sunnan vegarins. Þaðan var gengið var til suðurs að Snorrakoti, eftir vörslugarði þess til vesturs og beygt síðan til suðurs að Norðurkoti. Skammt norðan kotsins er tótt er liggur neðan við heimtröðina, sem þarna er greinileg. Í tóttum Norðurkots er merki um friðlýstar minjar. Þaðan var gengið að Læk og skoðaðar tóttir gamla bæjarins sem og tóttir austan þeirra. Á Vestarilæk, sem rennur vestan tóttanna, var fyrrum kornmylla. Gengið var yfir að Suðurkoti. Norðan utan í gömlum vörslugarði norðan nýrri garðs, sem liggur á milli Bæjarfells og Arnarfells, er gömul tótt.
Gangan endaði síðan á útivistarsvæði skrátanna eftir 3 klst og 11 mín ferð.
Frábært veður.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.