Tag Archive for: Krysvík

Austurengjar

Í Viðauka 66 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/04 – Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar, er fjallað um Austurengjar í Krýsuvík. Í Viðaukanum segir m.a.:

Austurengjar

Austurengjar.

„Austurengjar er hluti af mjög stóru jarðhitasvæði sem kennt hefur verið við Krýsuvík. Frá 2006 hefur HS Orka haft rannsóknarleyfi á öllu svæðinu til 10 ára. Margs konar yfirborðsrannsóknum má heita lokið. Næsta skref rannsókna er borun djúpra rannsóknarholna, en holurnar eru nauðsynleg forsenda fyrir mati á orkugetu svæðisins og til að afla upplýsinga um eðliseiginleika sjálfs jarðhitakerfisins eins og hita, þrýsting og lekt.
Austurengjar voru flokkaðar í biðflokk í Rammaáætlun 2, valkostur nr. 67 sbr. kort Rammaáætlunar. Miðað við núverandi skilgreiningu biðflokks er ekki unnt að bora rannsóknarholur á svæðinu, sem kemur í veg fyrir frekari rannsóknir þess.

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

HS Orka gerir ráð fyrir að nýta jarðvarma úr Austurengjum fyrir jarðvarmavirkjun til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni. Gert er ráð fyrir að svæðið verði virkjað í áföngum, byggt á niðurstöðum jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknum, rannsóknarborunum og auðlindamati. Áætlaðar helstu kennistærðir slíkrar virkjunar eru í töflu 1. Ef vilji er til þess af hálfu sveitafélags eða sveitarfélaga sem fara með skipulagsvald á svæðinu mætti gera ráð fyrir því í hönnun virkjunar að upphitun grunnvatns yrði möguleg fyrir staðbundna hitaveitu t.d. fyrir stóran notanda og/eða smærri notendur sem kysu nálægð við orkuver.

Jarðhiti

Viðnámsþversnið niður á 4 km dýpi frá Höskuldarvöllum, undir Trölladyngju, Móhálsadal, Sveifluháls og austur fyrir Kleifarvatn. Miðja háhitasvæðisins er undir Móhálsadal.

Umræða um heildstæða nýtingu Krýsuvíkursvæðisins hefur m.a. snúist um að á því væri unnt að byggja upp virkjanakerfi sem gæti framleitt heitt vatn fyrir notendur á höfuðborgarsvæðinu þ.e.a.s. því svæði sem Nesjavalla- og Hellisheiðavirkjun sjá fyrir heitu vatni. Með þessu fyrirkomulagi yrði afhendingaröryggi heits vatns aukið til muna komi t.d. til umbrota á Hengilssvæðinu.

Reykjanesskagi

Virkjanir og virkjanakostir á Reykjanesskaga.

Svæðið sem hér er kennt við Austurengjar er í lögsögu tveggja sveitarfélaga, Grindavíkur norðan til en Hafnarfjarðar sunnan til. Austurhluti svæðisins er undir Kleifarvatni sunnanverðu og þar suður af, undir Sveifluháls og Móhálsadal að Trölladyngjusvæðinu og þaðan suður af að mörkum þess svæðis sem við kennum við Sveifluháls. Krýsuvíkurvegurinn liggur með Sveifluhálsi austanverðum, fær hvers kyns farartækjum, en slóðar annars staðar.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Sveifluháls er um 15 km langur goshryggur, samsettur úr nokkrum móbergshryggjum sem gusu undir jökli. Þeir elstu sýna lítilsháttar jarðhitaummyndun á yfirborði en þeir yngri ekki nema þar sem virkur eða nýlega kulnaður yfirborðshiti hefur leikið um móbergið. Hveravirkni er við og í Kleifarvatni sunnanverðu og í sprungurein þar suður af kenndri við Austurengjar. Vestan Sveifluháls er lítilsháttar jarðhitaummyndun sjáanleg í Köldunámum og Folaldadal, um 10 m2 99°C, heit hitaskella finnst út í hrauni þar vestur af. Vegslóði liggur frá Undirhlíðum suður um Móhálsadal að Djúpavatni. Slóðinn er rútufær en þarfnast styrkingar til að flytja stærri tæki, s.s. bor. Vatn til rannsóknarborunar vestan við Sveifluháls mætti sækja í Djúpavatn, og leita mætti eftir köldu grunnvatni með 150-200 m djúpum holum í Móhálsdal norðanverðum. Austan megin er skolvatn til borana auðsótt í Kleifarvatn.

Seltún

Seltún.

Austurengjar eru innan marka Reykjanesfólkvangs. Í reglum um Reykjanesfólkvang sbr. Stjórnartíðindi B, nr. 520/1975, segir m.a.: „Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi Umhverfisstofnunar komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi“.
Stjórn fólkvangsins hefur látið vinna ágætis lýsingar á almennri jarðfræði, gróðurfari, dýralífi, mannvistarleifum og fleira innan fólkvangsins og er vísað til þeirra hér (Sigrún Helgadóttir, 2004; Hildur A. Gunnarsdóttir, ritsj. 2008). Mýrlendið austan þjóðvegar suður af Kleifarvatni hefur þar nokkra sérstöðu hvað gróður, dýralíf og verndargildi varðar, enda eina mýrlendið á Reykjanesskaganum. Þar eru hross frá Sörla höfð í sumarbeit í afgirtu landi.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Suðaustanvert við Kleifarvatn eru rofnir og hálfgrónir móbergshálsar og liggur slóði yfir þá næst Kleifarvatni. Vestan Kleifarvatns er norðurhluti móbergshryggjarins Sveifluháls mest áberandi, með háreista móbergskolla, skörðótta tinda, klettabelti og skriður, með stöku gróðurtorfum og lynghvömmum hér og þar. Vestan Sveifluháls í Móhálsadal er helluhraunsbreiða mest áberandi. Ekkert undirlendi er meðfram Kleifarvatni vestanverðu.
Í matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar um borteig fyrir rannsóknarboranir neðan Hveradals er aðstæðum lýst á svæðinu og þar sem Austurengjar eru í nágrenni þess svæðis eiga lýsingar á ýmsum umhverfisþáttum í fyrirspurninni við um svæðið við Austurengjar. Greinargerð matskyldufyrirspurnar er fylgiskjal með innsendum gögnum HS Orku hf.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Svæðið sem hér er kennt við Austurengjar nær yfir norðaustur hluta háviðnámskjarnans sem skilgreindur hefur verið með viðnámsmælingum á Krýsuvíkursvæðinu. Miðja svæðisins er í Móhálsadal.
Veruleg skjálftavirkni hefur verið á Krýsuvíkursvæðinu öðru hverju allt frá síðustu aldamótum og þaðan af fyrr. Umtalsvert landris og sig með miðju í Móhálsadal hefur komið fram. Skjálftarnir koma í hrinum sem vara í nokkra dag, en fjöldi þeirra hefur verið meiri austan til á svæðinu. Þar af voru nokkrir skjálftar yfir 5 að stærð. Nokkur virknibreyting hefur sést á hverasvæðunum, einkum ofan við Seltún, en jafnframt komu hverir við suðurenda Kleifarvatns undan vatni er vatnsborð Kleifarvatns lækkaði um nokkra metra í kjölfar aldamótaskjálftans. Ekki hefur tekist að tengja landris eða skjálfta við bráðið berg eða kvikuinnskot undir svæðinu.

Seltún

Seltún.

Rannsóknir og boranir á Krýsuvíkursvæðinu hafa verið talsverðar gegnum tíðina og er þeim lýst nánar í lýsingu HS Orku á Sveifluhálsi fyrir Rammaáætlun 3. Eitt af því sem einkenndi hitaferlana í mörgum þessara holna var viðsnúningur þeirra þ.e.a.s. holurnar voru heitastar á 200-500 m dýpi en kaldari þar fyrir neðan og því ekki fýsilegar til virkjunar. Mælingarnar benda til þess að jarðhitakerfið hitni aftur þegar neðar dregur, einkum nær miðju uppstreymisrása. Rannsóknaboranir munu gefa upplýsingar um á hvaða dýpi kerfið byrjar að hitna aftur og hversu hratt það hitnar og þar með skapast grundvöllur til þess að meta vinnslugetu svæðisins. Eins og sjá má í töflu 2 voru fyrstu 4 holurnar sem boraðar voru á sínum tíma innan Austurengjareinar, 1941-1945, og ein 816 m djúp hola 1971.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Staðsetning og stefna 2-3 km djúpra rannsóknarholna HS Orku er ætlað að skera úr um hita og lekt á 1-3 km dýpi. Á Austurengjasvæðinu hefur HS Orka enn sem komið er einungis ráðgert boranir frá hugsanlegum borteigum fyrir stefnuboraðar rannsóknarholur, annar vegar við Kleifarvatn og hins vegar við Köldunámur. Skolvatn til borana yrði sótt í Kleifarvatn í fyrra tilvikinu. Algengt er að efstu 700-1000 m háhitasvæða séu fóðraðir af með steyptum stálfóðringum og að jarðhitavökvi sé unnin úr dýpri jarðlögum. Borun djúpra rannsóknarholna er frumforsenda hvers kyns orkunýtingar á Austurengjasvæðinu.

Austurengjar

Á Austurengjum.

Austurengjareinin sjálf er 5-6 km löng og um 1 km á breidd, eða um 6 km2 að flatarmáli í heild ef nýtanlegur jarðhiti væri eingöngu bundinn við þá rein. Óvissa er um stærðarmatið/orkugetuna án rannsóknarborana, en jarðhitaleit með borunum myndi þó klárlega beinast að reininni sjálfri fremur en jöðrum hennar. Vegna umhverfis- og verndarsjónarmiða væri auðveldast að skoða orkugetu Austurengjareinarinnar með því að teygja sig inn í reinina með stefnuboraðri holu frá vatnsbakka Kleifarvatns suður af Syðristapa. Vestan Sveifluháls væri eðlileg staðsetning fyrstu rannsóknarholu nærri Köldunámum.

Austurengjar

Stöðull á Austurengjum.

Nýtingarsvæði Austurengja liggur að áætluðum nýtingarsvæðum Sveifluháls í suðri og Trölladyngju í vestri. Iðnaðarsvæði og framkvæmdasvæði yrðu innan nýtingarsvæðisins og lega þeirra háð samþykki skipulagsyfirvalda. Ekki er hægt að afmarka framkvæmda- og iðnaðarsvæðið á þessu stigi þar sem það ræðst af niðurstöðum rannsóknarboranna.

Austurengjar

Minjar á Austurengjum.

Áður en vinnsla hæfist úr jarðhitasvæði Austurengja yrði gert reiknilíkan fyrir jarðhitakerfið, byggt á þeirri þekkingu sem þá liggur fyrir. Spár verða gerðar um þrýstingslækkun í jarðhitakerfinu fyrir áætlaða vinnslu. Þessar spár verða bornar undir leyfisveitendur eins og Orkustofnun varðandi gildandi kröfur, til dæmis um sjálfbærni. Mögulegar mótvægisaðgerðir yrðu reifaðar í mati á umhverfisáhrifum, umsókn um nýtingar- og virkjunarleyfi og samráð haft við leyfisveitendur.

Austurengjar

Austurengjar.

Jarðhitavökvi á Austurengjasvæðinu er líklegast ferskvatn að uppruna og samsvarar því þeim jarðhitavökva sem algengur er á öðrum jarðhitasvæðum inn til landsins, rannsóknaboranir munu staðfesta það. Vegna staðhátta á Austurengjasvæðinu verður að vanda til vals á niðurdælingarsvæði. Ekki verður myndað lón við Austurengjar, en mögulega þyrfti þró á iðnaðar- og framkvæmdasvæði virkjunar sem gæti tekið við affalli við stýringu, prófanir eða bilun virkjunar.

Austurengjar

Austurengjar.

Líklega verður orkuvinnsla byggð upp í áföngum og holufjöldi því algerlega háður stærð hvers áfanga. Hér er miðað við að hægt yrði að reisa allt að 100 MWe virkjun á nýtingarsvæðinu, því þyrfti að reikna með að bora þyrfti minnst 20 vinnsluholur og 3-4 niðurdælingarholur fyrir virkjun þessa afls. Ef gert er ráð fyrir að einhverjar holur geti ekki nýst virkjun gæti holufjöldinn í byrjun hækkað um 3-5 holur miðað við almenna tölfræði fyrir rannsóknarboranir á Íslandi. Ómögulegt er að segja fyrirfram til um fjölda uppbótarholna sem þyrfti til að halda fullu afli virkjunar yfir ætlaðan líftíma hennar því það byggir á rekstrarforsendum virkjunar og viðbrögðum viðkomandi jarðhitakerfis. Þannig útreikningar verða hins vegar gerðir þegar niðurstöður rannsóknarborana liggja fyrir, framkvæmdalýsing sett í mat á umhverfisáhrifum og sótt verður um nýtingar- og virkjanaleyfi.

Austurengjar

Stóri-Stampur (sprengigígur) við Austurengjar.

Framkvæmdasvæði getur stækkað nokkuð þegar fjarlægð að niðurdælingarsvæði eykst. Fyrir Austurengjar er reiknað með að borholur yrðu á nokkrum afmörkuðum borteigum sem dregur úr yfirborðsröskun, en á móti gæti komið aukin fjarlægð til niðurdælingaholna. Vegna þessa er hér áætlað að framkvæmdasvæði gæti orðið allt að 6 km2.

Heimild:
-Austurengjar í Krýsuvík: Viðauki 66 af 92 við skýrslu Orkustofnunar OS-2015/04 – Virkjunarkostir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar.
Austurengjar

Austurengjar og nágrenni – jarðhitasvæði í Krýsuvík.

Heiðnaberg

Gengið var frá Ræningjastíg í Heiðnabergi við Hælsvík á Krýsuvíkurbjargi undir Skriðu upp að Krýsuvíkurseli ofan við tóftir bæjarins Eyri í austanverðri Selöldu og áfram upp að Krýsuvíkurkirkju þar sem staðnæmst var við svonefnda Ræningjadys eða Ræningjaþúfur undir Ræningjahól.

Eyri

Eyri – tóft,

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
„Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.“

Prestur mælti: „Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?“
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
„Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.“

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurberg (-bjarg).

Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”
Fagurt útsýni var af Heiðnabergi. Sjórinn var ládauður, enda hreyfði ekki vind. Þyrsklingasteinn sást vel utan við vesturendar bjargsins. Litið var eftir Ræningjastígnum. Sjórinn hefur nú brotið af neðri hluta hans í móberginu, en enn má sjá móta fyrir efri hlutanum. Haldið var upp með vestanverðri Skriðu og þá komið að tóftum bæjarins Eyri. Við tóftirnar, sem eru ofan við gamlan lækjarfarveg (hugsanlega fyrri farvegur Eystri-lækjar) má sjá móta fyrir garði og tveimur fjárborgum. Vestan við vestari fjárborgina er tóft, sem gæti annað hvort verið gamalt fjárhús með hlöðu eða heykumli í austurenda eða hreinlega enn eldri tóft. Hún hefur svipaða lögun og ein hinna fornu tófta í Húshólma. Ofan við bæjarstæðið eru sagðar vera rústir gamallar selstöðu frá Krýsuvík, en svo virðist sem réttsköpun sels skorti.

Eyri

Eyri – tóft.

Þær eru nú orðnar að mestu jarðlægar, en þó má sjá móta fyrir þeim, einkum á vorin þegar grasið byrjar að grænka, en þá grænkar það fyrst á tóftunum. Hins vegar er ekki útilokað að bærinn hafi vaxið upp úr hinu gamla seli. Útihús er beggja vegna tóftanna, eitt að vestanverðu og tvö að austanverðu. Bæjartóftirnar sjálfar bera keim af selstöðu, þ.e. þrjú rými og gengið inn í tvö þeirra um sama inngang, eins og svo algengt er í seljum á Reykjanesskaganum. Þar gætu hafa verið svefnaðstaða og búr. Þriðja rýmið hefur sérinngang og gæti það hafa verið eldhúsið.

Arnarfellsrétt

Arnarfellsrétt.

Haldið var upp eftir heiðinni austan við Selöldu og stefnan tekin á Krýsuvíkurkirkju með viðkomu í Arnarfellsréttinni. Hún er enn nokkuð heilleg og má vel sjá skipan hennar og fyrirkomulag. Ræningjahóll blasti við. Gömul gróin varða er á hól á leiðinni. Staðnæmst var við dys ræningjanna svo vel mætti gera sér grein fyrir hvernig atlagan hafi verið þarna undir hólnum eftir að hafa mætt þar séra Eiríki, hinum göldrótta presti Krýsvíkinga.
Í lokin var stuttur fyrirlestur í Krýsuvíkurkirkju um Tyrkjaránið.
Spjöll höfðu verið unnin á kirkjunni líkt og heiðnir Tyrkir hefðu verið þar á ferð.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Jón Árnason I 562.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.