Tag Archive for: Kvennagönguskarð

Stapagata

Stapagata er gömul gata er liggur ofan við Stapann milli Voga og Innri-Njarðvíkur. Gatan er vel greinileg og gaman að ganga hana. Á leiðinni er m.a. Grímshóll þar sem gerðist sagan af vermanninum og huldumanninum í hólnum.

Reiðskarð

Reiðskarð.

Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Rétt í þessu verður Þorbjörgu litið upp eftir skarðinu. Sér hún þá, hvar þrjár verur er að þokast upp eftir, 50 til 60 metra fyrir framan hana.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Fremst gengur kona, á eftir henni kýr, sem konan teymir, og á eftir kúnni labbar hundur. Konan er klædd eins og þá tíðkaðist um sveitakonur, hafi til dæmdis hyrnu á herðum. Kýrin var kjöldótt og hundurinn flekkóttur. Fannst Þorbjörgu ekkert óeðllegt við þetta. Hún kallar til konunnar: “Kona, eigum við ekki að verða samferða?” En konan lét sem hún heyrði ekki. Þorbjörg kallar aftur: “Kona, eigum við ekki að verða samferða yfir Stapann?”. En það fer sem fyrr, konan ansar ekki. Þegar hún er komin upp á skarðsbrúnina kallar Þorbjörg til hennar ennþá einu sinni. Þá lítur konan við og glottir til hennar. Í þeim svifum hverfur hún fyrir brúnina með kúna og hundinn.

Stapagata

Stapavegur.

Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir húnsér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum.

Stapagata

Stapagata.

Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá.

Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Reykjanesið er sagnakennt umhverfi.

(Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961).

Stapagata

Gengið um Stapagötu.