Tag Archive for: Kvíadalur

Staðarhverfi

Hverfin í Grindavík eru þrjú; Þórkötlustaðarhverfi austast, Járngerðarstaðarhverfi í miðið og Staðarhverfi vestast. Hér er gengið um hið síðastnefnda (seinni hluti).

Staðarhverfi

Helgi Gamalíasson sýnir Staðarbrunninn.

Staður, þar sem kirkjugarður Grindvíkinga er nú, var önnur stóra jörðin í Staðarhverfi. Hin var Húsatóptir.
Staður hefur verið kirkjustaður um langa tíð. Árið 1657 voru 7 hjáleigur á Stað; Krókshjáleiga, Beinróa og Brykrukka, Hús Ólafs Sighvatssonar, Hús Daða Símonarsonar, Vestur-Hjáleiga og ein ónafngreind, auk ónafngreindrar í eyði. Árið 1703 voru Sjávarhús, Krókur og Beinrófa hjáleigur og Bergskot 1803. Líklega hefur hjáleigan Sjávarhús áður staðið á Staðarklöpp, hjá lendingunni, en tættum á henni skolaði brott á miklu flóði 1798. Staðarklöpp er svört hraungrýtisklöpp með smá grasbrúsk í kollinn en ógróin að öðru leyti. Hægt er að ganga út í hana á lágsjávuðu, en hún er umflotin á flóði.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði.

Krókur stóð vestan við Móakot. Þar eru nú gróin tún, en engar tóftir.
Krukka er forvitnilegt býli. Í sóknarlýsingu 1840 segir: “ Krukka veit ég ei hvernær var lögð í eyði, en þar e rnú lambhús. Eigi er býlið af sandi né sjó eyðilagt og er það í túninu, sem nú er ræktað milli Móakots og Staðar.“ „Krubbhóll er fast sunnan við Dægradvöl (lægð neðan við Bring). Sagt er, að á honum hafi fyrir löngu staðið hjáleigan Krubba og dragi hann nafn sitt af henni. Er þar líklega um að ræða sömu hjáleiguna og séra Geir Backman nefnir Krukku í sóknarlýsingu sinni. „Sú staðsetning kemur heim og saman við að Krukka hafi staðið á Krubbhól“, segir í örnefnalýsingu. Brykrubba var ein af hjáleigum Staðar í úttekt frá 1657, segir í Sögur Grindavíkur. Krubbunafnið var einnig til á bæ í Járngerðarstaðahverfi.
Bringur heitir gróinn hryggur, sem liggur í austur-vestur fyrir norðvestan kirkjugarðinn, fast sunnan við þjóðveginn. Lægðin sunnan við hann heitir Dægradvöl og eru í henni steyptar leifar útihúsa frá síðasta bænum á Stað. Fast sunnan við Dægradvöl er hæð eða hóll í túninu, það er Krubbuhóll eða Krukkhóll. Hann er um 70 m vestur af norðvesturhorni kirkjugarðsins, þar sem gamli bærinn á Stað stóð.

Gíslavarða

Gíslavarða.

Beinrófu er getið í úttekt frá 1657 og hjá Árna Magnússyni 1703. Ekki er vitað hvar hún stóð.
Blómsturvellir voru austan í túni skv. sóknarlýsingu 1840. „Þeir voru af sandi eyðilagðir 1800, og sést þar nú lítt til rústanna.“ „Skammt austur af kirkjugarðinum var bakki, allstór, nefndur Blómsturvöllur. Hann var fast austan við túnið. Húsatóptir voru austast á Blómsturvelli. hafa þær líklega verið af samnefndu býli. Nú hefur verið sléttað úr Blómsturvelli og var þar nú bílastæði við kirkjugarðinn og tóftirnar því alveg horfnar. Þá nær nýi kirkjugarðurinn aðeins úr á Blómsturvöll.“ Blómsturvellir eru taldir í byggð í úttektargerð árið 1774. Þar bjó Jón nokkur Knútsson árið 1783.
Bergskot stóð á háum bala norðan við Stað, og er það nú sjóbúð, segir í sóknarlýsingu 1840. „Bergskot var á Bringnum, í norðvestur frá Stað. Þar voru tveir bæri, sambyggðir, þegar Árni Vilmundarson, f: 1914, og Sigurður V. Guðmundsson, f: 1910, mundur eftir.“ Hjáleigan var komin í eyði 1840, en byggðist á ný 1845 til 1848, þá í eyði til 1855 og aftur frá 1866 til 1870. Á síðasta áratug 19. aldar var þríbýli um skeið í Bergskoti, en býlið fór endanlega í eyði 1927.

Túnakort

Staðarhverfi – túnakort 1918.

„Nýibær var utan við Bringinn, nálægt 100 m norður af Bergskoti“, segir í örnefnalýsingu. Á túnkorti frá 1918 er getið um Nýjabæjatættur á blásnu hrauni. Óvíst er hvar bærinn var.
Staður var prestsetur til 1928, en fór í eyði 1964 og þar með Staðarhverfi. „Til forna átti Staður rétt til vatnssóknar í Baðstofu í Húsatóptarlandi. Til endurgjalds áttu Húsatóptir þangfjörutak á Stað.“ Á tuttugustu öld byggðust eftirfarandi tómthús í landi Staðar; Merki (1908-43), Lönd (1911-46) og Melstaður (1936-50). Merki stóð á Hvirflum, á mörkum Húsatópta og Staðar, Melstaður skammt vestar og Lönd þar sem nú er ofan við fjárhúsið skammt vestar.
Árið 1840 var á Stað „mikið slétt og gróandi yfrið fögur tún; eru þau sandoprin afarmiklu sandfoki af öllum vindum frá útnorðri til landsuðurs, við hvað þau árlega skemmast og til þurrðar ganga.

Staðarvör

Staðarvör.

Við aldamótin voru af þeim vel fóðraðar 4 kýr, en nú á dögum gefa þau ekki af sér fóður fyrir 1 kú, þó vel í ári láti, og verður því að afla þess, á vantar, kjarna úr fjöru og lyngi úr heiði. Af sjóar ágangi er túninu líka mikill skaði búinn að sunnnaveðrum og brimi. bera þau enn að sönnu menjar eftir mikla flóðið 1799, og munu þó aðrar enn yngri vera. Fáir eru kostir við jörð þessa, nema ef telja skal trjáreka, að hverjum eru þó mikil áraskipti, og allgóða fjárgöngu á vetrardag í fjörunni. En þess fleiri mætti telja hennar ókosti, t.d. í áföllum af feykilegum foksandi, sem og líka sjóargangi í stórflóðum. Aldeilis engin hagabeit á sumardag, hvorki fyrir sauðfé, kýr né hesta, hverjir við minnstu brúkun horast niður af hagaleysi, en búsmali allur þá í sel rekinn, að eigi tapist hé rheima né verði mönnum ónýtur fyrir fóðurleysi eða gangi á túnum manna. Vatnsskortur er hér líka mikill, og eigi vatn að fá handa fénaði nema úr undir Staðarbergi, í gjá, sem fellur að og út í.“

Staðarhverfi

Gengið um Staðarhverfi.

Árið 1925 gekk sjór langt upp á Staðartún, flæddi næstum upp að kirkjugarði, braut stórt skarð í malarkambinn og gróf sig þar niður í mold „svo túnið er nú með öllu varnarlaust fyrir hverju venjulegu stórstraumsflóði.“
Bærinn á Stað stóð eina 4-500 metra upp (norðvestur) frá sjó og var túnið að mestu sjávarmegin við hann. Gamli torfbærinn var við norðvesturhorn kirkjugarðsins austan við steyptar rústir, sem þar eru.
„Grunnur og tröppur steinhússins (byggt 1938) sjást enn (1999) rétt norðan við núverandi kirkjugarð (endurbyggður 2005). Skv. munnlegri heimild (Ólafur Gamalíelson, uppalinn á Stað) stóð síðasti torfbærinn bið NV-horn núverandi kirkjugarðs. Tóftirnar eftir torfbæinn voru sléttaðar út fyrir nokkrum árum, en traðirnar eru enn greinilegar norðan við kirkjugarðinn.“ Úttekt á bænum Stað frá 1657 er pr. í Sögu Grindavíkur og fylgir tilgátuteikning af húsaskipan. Á sama stað og bæjarhóllinn var var byggt steinhús árið 1938 og hefur það líklega raskað hólnum, ef nokkur hefur verið.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.

„Kirkjugarðurinn er í túni suðaustan við bæinn og er ekki nema 2-3 m á milli skemmunnar og hans.“ Þann 26. september 1909 var ný kirkja vígð að Járngerðarstöðum og tók sú við af Staðarkirkju, sem þá var aflögð.
Garðurinn var sléttaður að hluta, en mörg leiðanna sjást vel. Kirkjan, sem var í norðvesturhorni kirkjugarðsins, þar sem nú er greinileg bunga á honum. Hún er um 8×8 m að stærð og á henni miðri eru tveir flatir legsteinar. Á eystri steininum má greina letur, þó svo afmáð að ómögulegt er að lesa það. Á hinum vestari er ekki að sjá neitt letur. Engar leifar eru af sjálfri kirkjunni. Umhverfis kirkjugarðinn er torf- og grjóthlaðinn garður. Hann er mest um 0,7 m á hæð og umför grjóts eru um fjögur. Klukknaportið er úr timbri, en hefur nú verið endurnýjað (2005). Í því er klukka, sem á er letrað; SS. Anlaby 1898 Hull. Það er skipsklukkan úr Anlaby, togara frá Hull, sem fórst með allri áhöfn við Jónsbásakletta aðfaranótt 14. janúar 1902. Saga skipstjórans tengist átökum Hannesar Hafsteins við landhelgisbrjóta í Dýrafirði, manntjóni og vofleiflum dauðdaga hans ofan við Jónsbása.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – brunnur. Helgi Gam.

Í Brunndal er brunnur. Í sóknarlýsingu 1840 segir; „..en brunnur er grafinn syðst í túninu, hvar af neyzluvatn er tekið; er það vatnsslæmur sjóblendingur.“ Í örnefnaskrá segir: „Skammt suður af (Hundadal) er Brunndalur, slétt flöt neðst í túni. Liggur hann frá austri til vesturs næst sjávarkambinum. Lægðin nefnist Dægradvöl. Þótti góð dægradvöl að slá hana. Í suðurjaðri Dægradvalar lét Brynjólfur Magnússon grafa mikinn brunn árið 1914. Í úttekt, sem gerð var á Stað 16. júli 1948 er brunninum lýst þannig: „Brunnur byggður og tilbúinn ár 1914 að dýpt 23 fet, að þvermáli 6 fet, mjókkandi niður, hringhlaðinn að innan og hleðslan sementeruð ofan frá og niður að klöpp, en tekur við fyrir neðan miðju. Steynsteyptur kragi er í kringum brunninn ofan jarðar og yfir sjálfu brunnlokinu þar úr plönkum með hlera. Öflug vinda er til upphölunar á vatninu. Brunnurinn með öllum útbúnaði er í óaðfinnanlegu lagi.“ Brunnurinn hefur nú verið gerður upp.

Staðarhverfi

Letursteinn í kirkjustað.

Kvosin vestan við rústirnar af Kvíadalsbænum heitir Brunndalur. Þarna var fyrrum Kvíadalsbrunnurinn, sem Staðarbændur sóttu áður vatn sitt í, en hann er nú löngu horfinn í sjávarkambinn.
Móakot var hjáleiga frá Stað. Kastalalaga steinhúsið í Móakoti (byggt 1931), sem margir núlifandi muna eftir, var nýlega rifið. Fyrst er getið um byggð í Móakoti 1822, en býlið fór í eyði 1945. Árin 1869-70 voru tvö Móakot; efra og neðra. Móakot stóð á svipuðum stað – þó ekki sama – og Krókur á 18. öld og má líta á Móakot sem framhald byggðar í Króki, eins og segir í Sögu Grindavíkur.
Móakot var vestur af Staðartúni. Garður var á milli túnanna, en hann er nú að mestu horfinn og túnin sameinuð. Enn sést þó í suðurendann á honum, en gróið er yfir hleðslurnar. Eftir standa garðhleðslur og tóftarbrot útihúsa.

Staðarhverfi

Litla-Gerði.

Garðar voru hjáleiga frá Stað. Getið er um mann fæddan í Stóragerði 1745, en búskapar þar er fyrst getið 1786 og var búið þar til 1919. Litlagerði hét hjáleiga, sem braut í Básendaveðrinu 1799, en 1851 er aftur byggð hjáleiga með því nafni og var þar búið til 1914. Garðabæirnir, eða Gerðabæirnir, eru á Gerðistöngum suðaustur af Stað.
Staðargerðir eða Stóragerði stóð niður á Gerðistöngum. Venjulega var það bara nefnt Gerði. Tóftir Stóragerðis eru enn bæði miklar og greinilegar. Norðan við þær eru gróin tún, en sunnan við þær tekur við stórgrýttur sjávarkambur. Bæjarrústirnar bera enn glöggan vott um híbýli og húsaskipan. Heim að þessum fornu, grónu rústum liggja fagurlega hlaðnar traðir í mjúkum boga. Fram af bænum hefur verið traustlega hlaðinn kálgarður. Á bæjartóftunum sést að þetta hefur veruð reisulegur bær og rúmgóður. Steinlímdir kampar baðstofunnar standa að nokkru leyti enn og bera þögult en greinilegt vitni um mannfólk fortíðarinnar á þessum bæ, segir í Staðhverfingabókinni „Mannfólk mikilla sæva“. Útihús er austast í Stórageristúninu.

Staðarhverfi

Við Stóra-Gerði.

Brunnur er um 10 m norðaustan við þar sem traðirnar sveigja suður á milli kálgarðsins og Stóragerðistóftanna. Hann er um 1,5×1 m aðs tærð og tæplega 1 m á dýpt. Hann er grjóthlaðinn, en hleðslurnar eru mikið hrundar.
Við norðurenda traðanna að Stóragerði eru leifar túngarðs, sem liggur austur-vestur. Að vestan er hleðslan um 12 m löng, en sveigir þá til norðurs um 100 m. Hleðslurnar eru fallnar að mestu leyti.
Við Staðarbæina voru miklir, háir og breiðir steingarðar. Þeir voru flestir fluttir á brott með vörubifreiðum þegar höfnin í Járngerðarstaðarhverfi var byggð.
Litlagerði braut, sem fyrr sagði, í Básendaflóðinu 1799. Tóftir af bænum má þó enn sjá á töngunum fyrir vestan Stóragerði. Í Litlagerði var þurrabúð. Aðeins er lítið tóftarbrot eftir af býlinu, en sjórinn hefur að mestu eyðilagt aðrar minjar.

Staðarhverfi

Kvíadalur.

Kvíadalur var hjáleiga og tómthús frá Stað. Getið er um menn fædda í Kvíadal 1767 og 1786 og þar var búið skv. manntali 1801, en býlið virðist hafa lagst í eyði eftir það og ekki verið byggt á ný fyrr en 1829 til 1833, en þá aftur í eyði til 1845. Sú byggð stóð aðeins í eitt ár, en aftur var búið í Kvíadal 1847 og svo samfleytt til 1919 að býlið lagðist endanlega í eyði. Tóftir Kvíadals eru allnokkrar og standa suður af Stað. Norðan við þær eru gróin túnin á Stað. Tóftirnar eru um 15×12 m að stærð og skiptast í a.m.k. sex hólf. Op eru greinileg á öllum hólfunum, þrjú til vesturs, tvö til suðurs og eitt til norðurs.
Hvirflavörður eru á Hvirflum, hæðardragi milli Staðar og Húsatópta. Sypsta sundvarðan er á sjávarbrúninni fast vestan við bryggjuna. Hin er um 150 m ofar. Vörðunar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli fyrrnefndu bæjanna.

Staðarhverfi

Bryggjan í Staðarhverfi.

Draugagjá er annað nafn á Sandgjá, svartri og dimmri er liggur þvert yfir Hvirflana (á merkum Staðar og Húsatópta). Nú er hún nær full afs andi. „Þjóðvegurirnn um Reykjanes liggur þvert á gjána, en lítið mótar fyrir henni þar sem hún er nær full af sandi. Þó sést til hennar um 300 m norðaustur af bæjarstæðinu, fast norðan vegarins, sem lítið kletabelti í norðaustur-suðvestur.“
Bindiskeri er lýst í sóknarlýsingu 1840: “ …þriðji boltinn, úr hverjum hringurinn er farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsum. Var kaupskipið þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.“ Norður af eystri enda Staðarklappar er Vatnstangi, kúptur hryggur út í sjó, og braut á honum þegar alda var. Bolti með hring í er í Vatnstanga, í skeri, sem heitir Bindisker. Er hann á móti þeim, sem var í Barlestarskerjum í landi Húsatópta,“ segir í örnefnalýsingu. „Utan við Staðarklöpp er lítil klöpp, Vatnstangi, slétt að ofan og í henni miðri stendur járnbolti, ferkantaður, ca. 6″ á kant og með ca. 4″ gati í uppendanum. Utan með boltanum hefur verið rennt blýi.“ Bolti þessi er talinn vera frá kóngsverslunartímanum, þegar skipin voru, sem kallað var, svínbundin. Hann var friðlýstur 1930.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þvottaklappir nefnist þar sem ferskt vatn vætlar undan klettunum norðaustan Bjarnasands. Þar skoluðu húsfreyjurnar í Merki og á Löndum þvott sinn og þvoðu ullina. Voru klappirnar því nefndar Þvottaklappir. Þær eru fast suðvestan við Hvirflavörðuna.
Norðan í Staðarklöpp er Skökk, lítil vör. „Mun nafnið dregið af því að ekki er hægt að róa beint inn í hana úr Staðarsundinu, heldur verður að taka á sig mikinn sveig,“ segir í örnefnalýsingu. „Þar var fiskurinn stundum tekinn á land þegar vel stóð á sjó,“ segir Gísli Brynjólfsson í riti sínu um Staðhverfinga. Að norðanverðu í Staðarklöpp voru í raun tvær varir; Skökk og Litla-Vör. Staðarklöpp er svört grágrýtisklöpp með smá grasbrúsk í kollinn, en algerlega ógróin að öðru leyti. Skökk er norðan í henni.

Staðarvör er fast norðan við Staðarklöpp, flórlögð upp í sandinn. Ekki er vitað með vissu hvenær hún var gerð, en talið er sennilegast, að það hafi verið rétt upp úr aldamótunum 1900.

Staður

Festarkengur.

„Í Staðarvör voru bátarnir settir upp á land,“ segir Guðsteinn Einarsson. Austan við Staðarvör er sandfjara. Flórinn er hellulagður stórum flötum steinum. Hann er um 50 m langur og um 10 m breiður. Eftir flórnum voru bátar dregnir á land.
Flæðikrókar eru ofan við Staðarmalirnar. Í framhaldi af Flæðikrókunum er nokkurt graslendi. Þar eru tveir hólar, nefndir Stekkjarhólar. Fram af þeim eru klappir fram í sjó, nefndar Stekkjarnef, allbreitt. Sjór flæðir upp á það framan til. „Norðvestan við Stekkjarhóla er dálítill pollur, nefndur Vatnsstæði,“ segir í örnefnalýsingu. Nöfnin benda til þess að þarna hafi stekkur Staðarprests verið fyrir eina tíð þótt nú sjái þess engin merki. Engar tóftir eru við Stekkjarhóla og ekki ólíklegt að þær séu fyrir löngu komnar undir sjávarkampinn.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Ræningjasker er fram af Staðarmölum, alltaf upp úr sjó. „Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627 lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker,“ segir í örnefnaslýsingu. Ræningjasker er skammt austan við eystri Staðarbergsendann, stakt, stórt og mikið.
Tyrkjavarðan er á hraunhól ofan og vestan við Stað. Við hana er kennd sú sama þjóðsaga um Tyrkjana og um Nónvörður skammt austar. Segir sagan að á meðan varðan stendur mun Grindavík óhætt.
Hróabásar eru við vestari Staðarbergsendann, austan við Mölvík. Í þeim var flóruð vör, sem bendir til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráð heimildir.

Háleyjar

Háleyjar – tóft.

Fyrir innan Krossvíkur tekur við Háleyjaberg og þá Háleyjar. Þar voru talin góð fiskimið skammt undan landi. Rústir eða tóftarbrot er upp á kampinum. Þær gætu bent til þess að þarna hafi fyrrum verið útræði. Um sjósókn frá Háleyjum eru þó engar öruggar heimildir. Húsatóptamenn áttu sölvatekju í Háleyjum og gætu minjarnar verið eftir þá. Í skýrslu Brynjúlfs Jónssonar frá árinu 1903 segir: „Þar er ágætur lendingarstaður. Skammt vestur frá Krossvíkum, en á landi er þar hraun eitt og ekkert einkennilegt. Að eins er þar ofurlítil rúst eftir sjóbúð, sem byggð var seint á 18. öld. Þá gjörði Grindvíkingur einn, er Jón hét, bæ í Vatnsfelli, þar sem nú er bær vitavarðar, og hafði útræði frá Háleyjum. En það er langt frá Vatnsfelli, og gat hann ekki sótt sjó aðheiman. Því byggði hann búðina. En honum reyndist ókleyft að lifa á þessu nýbýli sínu, og fór þaðan aftur eftir 2 ár. Síðan hefir Háleyjalending ekki verið notuð.“ Í Háleyjum átti Staðarkirkja hálfan viðreka við Viðeyjarklaustur og „hefur sá helmingur fylgt Húsatóptum fyrir þá almennilegu leiguna, sem annars af jörðinni gengur.“ „Í Háleyjum skal hafa verið bær“, hafði Árni Magnússon eftir Ryjólfi Jónssyni á Þórkötlustöðum og öðrum gömlum Grindvíkingum árið 1703.

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga. Mölvík ofar.

„Skarfasetur heitir hin ysta tá á Reykjanesi. Þar austur frá er kallað Rafnkelsstaðaberg og þá Háeyjahæð,“ segir Magnús Grímsson í ritgerð sinni um fornleifar á Reykjanesi. Annað nafn á Rafnkelsstaðabergi er Krossvíkurberg. Ekki er vitað til þess að bæjarnafnið Rafnklesstaðir hafi verið til í Grindavíkurhreppi.
Í Mölvík er 1703 sagður hafa staðið bær og vatnsból þar hjá. Í Mölvík er fiskeldisstöð í eyði. Engar minjar hafa fundist þar.
Í Chorographiu Árna Magnússonar 1703 segir að Sandvík hafi verið eign Staðarkirkju og þar „skal hafa verið bær“. Um 1860 segir Gísli Brynjólfsson að þar sé „talið að hafi verið verbúð, jafnvel bær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast eitt af fáum byggilegum stöðum á þessum sandauðnum.“

Krossavíkur

Krossavíkur.

„Í Krossvík skal hafa verið bær“, hafði Árni Magnússon og eftir gömlum Grindvíkingum. Brynjúlfur Jónsson telur að örnefnið bendi til byggðar þar áður en hraun runnu þar.
Herkistaðir er næst Skarfasetri. Þá á að hafa verið bær. Þar er þó engin fjara, en á Skarfasetri halfa menn að hafa verið kirkja Reyknesinga og það fremst á nesinu. Segja menn kirkjuna þaðan færða til Staðar í Grindavík og Grindvíkinga til forna hafa sótt kirkju til Hrauns. „Þess bæi meina menn til hafa verið alla áður en nesið brann. En nú er ekkert til baka nema brunahraun og sandar og þar engum manni byggjandi.“ Þetta hafði Árni Magnússon eftir Eyjólfi Jónssyni á Þórkötlustöðum og fleiri gömlum Grindvíkingum 1703. Ljóst er að enn vita gamlir Grindvíkingar ýmislegt um byggðalagið, sem öðrum er hulið eða ókunnugt um.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning 2002 – FÍ.
-Saga Grindavíkur.
-Örnefnalýsing.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.