Kvíguvogar eru sagðir heita eftir sækúm er þar gengu á land og náðist ein þeirra í fjós á bænum. Segir sagan að af henni sé komið eitt besta kúakyn á landinu, allar úlfgráar að lit.
Í 101. kafla Landnámu (Sturlubók) er getið um landnám í Vogum á Vatnsleysuströnd: „Eyvindur hét maður, frændi Steinunnar og fóstri; honum gaf hún land milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hans son var Egill, faðir Þórarins, föður Sigmundar, föður Þórörnu, móður Þorbjarnar í Krýsuvík.“
Byggð hefur hafist í Vatnsleysustrandarhreppi strax við landnám. Í Landnámu segir frá Steinunni hinni gömlu er var frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Hún var hinn fyrsta vetur með Ingólfi. Ingólfur ,,bauð að gefa henni Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf fyrir heklu flekkótta” (ermalaus kápa með hettu) ,,og vildi kaup kalla”. Menn ætla að Steinunn gamla hafi reist bæ sinn á Stóra-Hólmi í Leiru (líklega fyrsta verstöð á Suðurnesjum). Steinunn gaf frænda sínum og fóstra, Eyvindi af landi sínu ,,milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns” og telst því sérstakt landnám.
Land þetta hefur trúlega náð frá fjöru til fjalls, til móts við landnám Molda-Gnúps í Grindavík og Þóris haustmyrkurs í Krýsuvík. Land Eyvindar var því Vatnsleysustrandarhreppur eins og hann er í dag. Ekki hélst Eyvindi lengi á landinu því það ásældist Hrolleifur Einarsson sem bjó á Heiðarbæ í Þingvallasveit, hann skoraði á Eyvind að selja sér landið, en ganga á hólm við sig ella. Bauð þá Eyvindur jarðaskipti og varð það úr. Eyvindur fluttist að Heiðarbæ við Þingvallavatn (Ölfusvatn), en baðst síðar ásjár Steinunnar, frænku sinnar, sem bauð honum búsetu að Býjarskerjum (Bæjarskeri).
Hrolleifur bjó áfram í Kvíguvogum og er þar heygður. Kvíguvogar kallast nú einungis Vogar og Kvíguvogabjörg Vogastapi eða oft aðeins Stapi.
Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Kvíguvoga, einungis Stóru-Voga og Minni-Voga. Eiga þeir bæir þá selstöður í svonefndu Vogaholti. Leiða má að því líkur að Kvíguvogabærinn hafi þá fyrir löngu verið „kominn langt á haf út“, þ.e. sjórinn hafi brotið undir sig nánast allt það land það er bærinn hafði staðið á.
Stundum hefur verið haft eftir fólki að Kvíguvogar hafi verið þar sem nú eru leifar Stóru-Voga, en það verður að teljast mjög ólíklegt. Þótt Kvíguvogastað sé hvergi að finna nú má ætla af heimildum að hann hafi verið til og af því má ætla að bærinn sá hefði haft í seli eins og nánast öll höfuðból þess tíma. Ljóst er að fyrstu selstöðurnar, frá landnámsbæjunum, voru kúasel. Þær voru ekki langt frá bæjunum, en notaðar nánast allt sumarið (en þá voru árstíðirnar einungis tvær; sumar og vetur). Skilyrði þau er selstaðan þurfti að uppfylla var: 1. vatn (ár, lækur eða tjörn), 2. gott beitiland og 3. gott skjól. Í hverri selstöðu var: a) skáli, b) fjós og c) vinnsluhús.
Þegar FERLIR var á ferð um Vogasvæðið nýlega voru augun rekin í leifar selstöðu er passaði við framangreind skilyrði sem og lýsingu á slíkum stöðum. Minjarnar eru nánast jarðlægar, en þó má enn greina húsaskipan selstöðunnar. Og þrátt fyrir að minjarnar hafi hvorki verið skráðar, né af þeim vitað, er ekki þar með sagt að þær hafi aldrei verið til – eins og dæmið sannar.
Heimild:
-Landnáma (Sturlubók), 101. kafli.