Ætlunin var að skoða svæðið frá Hvömmum að Austurengjahver sem og Nýjaland norðan Stóra-Lambafells.
Þar undir er forn gígur, nú umorpin leir, mold og möl úr nálægum hlíðum, auk þess sem bæði Seltúnslækur og Austurengjalækur hafa fyllt hann jarðvegi. Undir gígnum er kvikuhólf, sem virðist vera að lyfta Krýsuvíkurlandinu smám saman með tilheyrandi jarðhræringum. Á efri mörkum hólfsins má sjá ummerkin; hverina sunnan Kleifarvatns, Austurengjahver, sprengigígana við Grænavatn og Seltúnshverina.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík segir m.a. um þetta svæði: „Þá er Höfði [syðst á Austurengjum] og Höfðamýri og Kringlumýri. Allt er þetta á Austurengjunum, sem fyrr eru nefndar. Sá hluti engjanna, sem næst liggur vatninu að sunnan, heitir Nýjaland, og skiptist það í Innra-Nýjaland og Fremra-Nýjaland. Misvöxtur vatnsins veldur því, að engjastykki þessi liggja stundum undir vatni, svo árum skiptir. Það, sem skiptir þeim í Fremra- og Innra-Nýjaland, er malarhryggur mjór, sem liggur til vesturs frá norðurenda Hvammholts. En holt það er við suðurenda vatns austanverðan. Meðfram vatninu vestan holtsins eru svo Hvammar, engjastykki. Fremra-landið er miklu lengur slægt en hitt.
Fyrrnefndur malarhryggur er nefndur Rif. Vestan við Fremra-landið og við vesturenda Rifsins rennur lækur sá, sem nefndur er Ós, inn á Innra-landið og svo í vatnið sjálft. Lækur þessi á upptök sín að mestu í Vestur-Engjum og Seltúnshverum, er síðar getur. En smálindir koma þó í hann af Austur-Engjum úr Hvömmum og Lambafellum.“
Gott var að líta yfir dyngjusvæðið til norðurs af Stóra-Lambafelli. Varðan á fellinu var hrunin.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing AG fyrir Krýsuvík.
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.