Tag Archive for: Lækjarbotnar

Lækjarbotnar

Þegar gengið er upp með læknum er kemur úr Lækjarbotnum má sjá hvar hann liðast með norðurjaðri Stekkjarhrauns og Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru hleðslur undan timburhúsi, sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá trépípa niður til bæjarins. Sjá má leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið. Á skilti þarna stendur eftirfarandi:
Leifar vatnsstokksins frá Kaldá„Fram til 1904 var engin vatnsveita í Hafnarfirði en það ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar „Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar“. Félagið stóð meðal annars fyrir því að grafnir voru brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá tengd veitunni en auk þess voru settir upp vatnspóstar bíða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttu sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerðar.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu héðan ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landfræðings en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið frá Lækjarbotnum vegna hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár en þó þurfti að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna oftar en einu sinni.
Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóhannesar Reykdals og Jóns Ísleifssonar verkfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Sléttuhlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949 en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjáanlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951.“

Vatnspípan í Lækjarbotnum

Í Sögu Vatnsveitu Hafnarfjarðar segir m.a. um þessar framkvæmdir: „Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu.
Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja vatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.
Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan  sleppt við suðurenda Setbergshlíðar þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni. Undanfarin ár hefur verið nægilegt neysluvatn að fá í Hafnarfirði og talið að endurbætur á bæjarveitukerfinu hafi átt mestan þátt í því.“
Vatnspípan í Lækjarbotnum

Lækjarbotnar

Í Lækjarbotnum er hellir skammt ofan við tóftir Örfiriseyjasels.
Þar munu þau Margrét Símonardóttir og Eyvindur Jónsson hafa hafst við um tíma á ofanverðri 18. öld. Þau höfðu verið strýkt Laekjarbotnar-4veturinn fyrir og látin þá laus, en tóku sig saman, þá voraði og lögðust á nýju á fjöll segir í Setbergsannál, ÍA IV, 119-1220.  Dauðadómurinn er prentaður í Alþingisbókum Íslands VII, 403 og segir þar að þau skötuhjú hafi verið höndluð „í einum hellir suður undan Erfiseyjarseli í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. Octobris [1677] með fóla af nautakjöti og öðrum hlutum [voru síðan dæmd fyrir 3 hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu á Bakkárholtsþingi og úttóku líkamlega refsingu á Kópavogi 3.12.1677 fyrir útileguna og þar af hnígandi þjófnaðar aðburði, þar eftir voru þau afleyst af biskupinum og Eyvindur tekinn aftur af konu sinni]. Nú er síðan svo til fallið upp á ný, að þessar vandræðapersónur tóku sig aftur til útilegusamvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta nokkrum í Ölvesvatns landeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar [og voru þau svo ströffuð af lífinu eftir Stóradómi 3.“
Laekjarbotnar-5Í Engidal í Hengli er hellir sem einnig er talinn vera útilegumanna-bústaður. Talið er að fyrrnefnd Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir hafi hafst við í þessum helli í seinni útleigð þeirra, vorið 1678. Eyvindur þessi kom um einni öld á undan þeim Fjalla-Eyvindi sem flestir kannast við. En þeir voru alnafnar.
Hellir þessi er efst í móbergshnúknum og snýr hellisskútinn í suður og blasir hann við frá sæluhúsinu. Hellirinn er um 5 m breiður og 1,20 m á dýpt. Hæðin er um tveir metrar og nokkuð jafn. Hleðslurnar sem hafa verið fyrir opinu að hellinum eru að miklu leyti hrundar en þó eru um 50 sm há hleðsla sem stendur eftir.
Lýður Björnsson segir svo um hleðslu fyrir hellismunnanum í Engidal. „Móbergsklettarani gengur af Marardal meðfram Engidalsá. Hann er mjög veðraður og hæðóttur. Veggur hafði verið hlaðinn fyrir munann, og var talsverður hluti hans enn uppistandandi. Dyr voru á veggnum. Efsti hluti veggjarins var þó hruninn. Nokkur gróður hafði fest rætur milli steina í hleðslunni“. Laekjarbotnar-6
Annar hellir er aðeins 40 metrum frá „stóra“ hellinum og aðeins neðar. Sá hellir er mun þrengri og dýpri, um 3 m langur, 2 m breiður og 1,25 m hár. En hleðslur eru fyrir mynni þessa hellis einnig. Mjög gott skjól hefur verið úr þessum helli og hefur hann verið ákjósanlegt svefnstæði en hann er mjög þrifalegur og mjúk möl er á gólfi hellisins. Ekki eru neinar mannvistarleifar í helli þessum.
Lýður minnist á að mögulegt sé að hleðslur þessar hafi verið skjól fyrir hreindýraveiðimenn eða skýli fyrir nautreka en trúlegast finnst honum þó að þessir hellar hafi verið skjól fyrir Fjalla-Eyvind og Margréti í seinni útlegð þeirra, vorið 1678. Minnst er á það ár í annálum: „Eyvindur nokkur, giptur, hljóp úr Ölfusi með annars manns konu vestur, og töldu sig fyrir ektahjón: náðust, voru húðstrýkt og aðskilin.  Þau tóku sig aptur saman, lögðust út í Henglafjöllum, náðust og voru réttuð á þessu alþingi.“ Fitjaannáll  ÍA II, 247.  sbr. Hestsannál ÍA II, 512.  1678: „Höggvinn maður á alþingi, hét Eyvindur Jónsson, er hlaupið hafði úr Ölvesi frá konu sinni meða aðra konuvestur undir Jökul og héldu sig þar fyrir hjón, fóru síðan þaðan og fundust við hellir á Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit og lifðu við kvikfjárstuld. Konan hét Margrét Símonsdóttir; henni drekkt í Öxará.“
Í þessari frásögn er minnst á helli á Mosfellsheiði, hér á hugsanlega átt við umræddu hella í Engidal.

Engidalur

Skjól í Engidal.

 

 

Lögberg

Í Ísafold árið 1908 má lesa eftirfarandi um „Stofnun nýbýlis á Lögbergi“: „Lögberg nefni eg greiðasöluhús mitt, nýtt og vandað steinhús, bygt við Fossvallaklif, fyrir ofan Lækjarbotnabæinn sem eg hefi lagt í eyði. – 15. des. 1908. – Guðni H. Sigurðsson.“
logberg 1958Í Sunnudagsblaði Alþýðublaðsins árið 1963 er fjallað um Lögberg: „Sögu Lögbergs er lokið. Síðustu árin hefur húsið staðið autt og yfirgefið, það hafa margir átt leið um veginn eins og áður, en enginn ber að dyrum, enginn á þangað erindi lengur. Ekki alls fyrir löngu átti ég leið þarna framhjá. Það var á sunnudegi. Veður var kyrrt og bjart og fagurt til fjalla. Þó mátti sjá, að haustið var á næstu grösumum. Lyngið í Selfjallinu var orðið eldrautt í brekkum og kvosum, grasviðurinn gulur, það sló brúnleitum blæ á ásana í heiðinni. Hengillinn og Esjan höfðu líka skipt um lit og fengið hvítan koll um nóttina. Undanfarnar vikur hafði verið unnið að. því að rífa Lögbergshúsið gamla. Verkinu var langt komið og þennan morgun hafði verið kveikt í tróði og rusli í hústóttinni og steig reykurinn frá rústunum hátt til lofts í góðviðrinu. Framundan dyrunum lá spýtna brakið úr húsinu í hrúgu. Sú var tíðin, að öðruyísi var hér um að litast og meiri reisn yfir staðnum, sól skein á þil og glugga, blár eldhúsreykur liðaðist vingjarnlega upp frá bænum undir Fossvallaklifinu, dyrnar stóðu opnar, en húsráðendur biðu á hlaði úti og fögnuðu gestum af alúð og innileik. Ei framar spyr að föllnum garði.
Strætisvagninn á Lögbergsleiðinni er auðkenndur Lækjarbotnar. Sumir hafa furðað sig á þessu. Þetta er þó. ekki út í hött. Býlið heitir Lækjarbotnar frá fprnu fari, og nafnið er líklega talsvert gamalt. Það er dregið af nokkrum lækjum og sytrum, sem eiga upptök sín þarna í heiðinni eða spretta fram undan hrauninu og sameinast í eina á, sem nokkru neðar liðast fram milli grænna bakka norðan og vestan við Rauðhóla og heitir Bugða. Lögbergsnafnið er hinsvegar nýtt af nálinni að kalla, orðið til eftir síðustu aldamót þegar íbúðarhúsið, sem nú er nýrifið, var reist. Hálfgerð tilviljun réði nafngiftinni.
Guðmundur Helgi Sigurðsson, sem lét reisa húsið, ætlaði upphaflega að kalla það Berg, enda á bjargi byggt og klappir allt um kring. Hann fékk Stefán nokkurn Eiríksson til að skera nafnið á fjöl til að festa á húsið. Stefáni mun hafa þótt nafnið stuttaralegt og stakk upp á því að kalla húsið Lögberg og á það féllst Guðmundur.  Saga Lögbergs hefst því í raun og veru ekki fyrr en eftir að Guðmundur flytur á jörðina og reisir húsið. Enda er það einmitt hann, sem gerir garðinn frægari.
logberg-2Leiðin suður yfir Hellisheiði og austur fyrir fjall er jafngömul byggð landsins. „Ingólfur fór um várit ofan um Heiði“, segir í Landnámu. Leiðin um heiðina þótti löngum erfiður og hættusamur fjallvegur að vetrarlagi í snjó og hríðarveðrum, áður en akvegur var lagður milli byggða, og ótaldir eru þeir, sem villzt hafa þar af réttri leið eða örmagnast í ófærðinni og sofnað á heiðinni svefninum hinum langa. En áreiðanlega hefur margur, sem af fjallinu kom, orðið skjólinu feginn, þegar hann náði Lækjarbotnum, sem var efsta byggt ból vestan heiðar, þangað til gistihús var reist á Kolviðarhóli. Þó mun vegurinn fyrrum hafa legið nokkru norðar og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit.
Elzta heimild um sæluhús á þessum fjallvegi er hinsvegar frá 1703, en þá getur Hálfdán Jónsson lögréttumaður um sæluhús á norðanverðum Hvannadölum. Sæluhús þetta mun hafa staðið skamt framan við Húsmúlann við tjörn eina, sem nefnd er Draugatjörn! Átakanlegt dæmi úr slysasögu þessa fjallvegar er eftirfarandi saga, sem bundin er við þetta sælu hús og lifir hann í minnum manna austan fjalls. Skúli Gíslason hefur ekið hana upp í Kolviðarhólssögu sína og er hún þar á þessa leið:
logberg-3„Gömul sögn úr Ölyesi hermir að eitt sinn hafi ferðamaður um vetur í vondu veðri komið austan yfir Hellisheiði. Hann hafði náttstað í sæluhúsinu, lokaði dyrum að sér og lagðist til svefns. Áð nokkurri stundu liðinni heyrði hann að komið var við hurðina og gerð tilraun að komast inn. Sá, er inni var, hugði það draug ytra og opnaði ekki. Heyrði hann um hríð þrusk utan við hurðina, en svo þagnaði það. Um morguninn, þegar maðurinn leit út, brá honum ónotalega við. Utan dyra lá dauður maður. Var það sá, er um kvöldið hafði knúið hurðina og maðurinn haldið vera draug. —“þetta spurðist víða og þóttu hörmuleg mistök. Eftir það „hafði alvarlega yerið brýnt fyrir ferðamönnum að loka aldrei húsinu að sér um nætur.“
Nokkru fyrir 1840 var svo byggt sæluhúsið neðan við Sandskeið eða skammt frá Fóelluvötnum, sem ýmsir núlifandi menn muna og um svipað leyti var Hellukofinn reistur, sunnanvert á miðri heiðinni, þar sem áður stóð svokölluð Biskupsvarða og stendur hann enn í dag. Árið 1844 yar svo loks reist sæluhús á Kolviðarhóli undir Hellisskarði, en gistihúsið þar rís hinsvegar ekki af grunni fyrr en haustið 1877.

Lögberg

Lögberg – stríðsminjar norðan Suðurlandsvegar.

Ekki fara margar eða miklar sögur af Lækjarbotnum á fyrri tímum, enda ekki um stóran stað að ræða. Jörðin túnlítil og slægnalaus að kalla, reytiskot langt uppi í heiði. Þó er talið, að þar hafi verið a. m. k. sex eða sjö ábúendur á undan Guðmundi Sigurssyni, en upphaflega var kotið byggt sem nýbýli úr afréttarlandi Seltirninga. Hallbera nokkur byggði fyrst í Lækjarbotnum og stóð bær hennar allmiklu sunnan við ferðamannagötuna gömlu, sem lá af Sandskeiði meðfram Selfjalli og Hólshrauni og til Hafnarfjarðar. Er um stundarfjórðungsgangur þangað frá Lögbergi. Seinna var bærinn færður, þegar nýr vegur var lagður austur, og byggður sunnan vegarins á grasi grónum hól þar sem fjárhúsin nú standa.
Fróðlegt er að lesa frásögn Willam Lord Watts, Vatnajökulsfara, um ferðalag hans austur yfir fjall árið 1875, en þá liggur leið hans einmitt um Lækjarbotna. Hann segir m. a.:“ „Fyrst er þá“ farið um gömul hraun, þar sem kindaskjátur í tvennum reyfum voru að kroppa í sig reytingslegan gróður. Þær höfðu rifið af sér ullina á hraunnibbunum svo að hún hékk á þeim í óhreinum dræsum og gerði þær ámóta ömurlegar ásýndum og landið, sem þær gengu á, enda var mesta leiðindaveður þennan dag. Um hádegi bar okkur að örreytiskoti, sem kallast Lækjarbotnar. Þar var ekkert að sjá nema örbirgð, harðfisk og óhreina krakka.

Lögberg

Lögberg – loftmynd 1953.

Ég veit ekki, hverju það sætir, að öll býli í næsta nágrenni Reykjavíkur eru fátækari og niðurníddari en nokkru tali tekur. Að vísu eru heimalönd þeirra lélegri en gengur og gerist í öðrum héruðum en fólkið er líka allt öðruvísi. Enginn kemst hjá því að taka eftir hinni sinnulausu nægjusemi í svip þess, enda vart við öðru að búast, eins og högum þess er háttað, en hvergi hef ég séð eins bláskínandi armúð og á þessu heimili.
En allt um það, hestarnir okkar grípa niður, og við vözlum forina framan við þessi hrúgöld úr grjóti, torfi og grjóti sem virðist með öllu óhugsandi að kalla heimili, hvernig svo sem það hugtak væri teygt eða túlkað. Hestarnir urðu að feta niður bratta og sleipa forarbrekku, sem ekki gerir aðkomuna eða brottförina frá Lækjarbotnum aðgengilegri. Þannig létum við þetta aðsetur eymdarinnar að baki og lögðum á heiðina í þoku svækju og kuldastrekkingi, hvar sem smugu var að finna.“

lögberg

Lögberg.

Ég brá mér einn daginn nýlega upp að Lögbergi og hitti að máli Guðfinnu Sigríði Karlsdóttur, en hún hefur átt þar heima samfleytt í meira en hálfa öld, lengst af ráðskona Guðmundar eða þangað til að hann lézt fyrir tæpum sex árum. Nú býr hún í litlu, snotru húsi, sem stendur í hlýlegri brekku ofan við Fossvallakvíslina, örskammt frá Lögbergshúsinu gamla. Þarna er símstöð og endastöð strætisvagnanna, sem ganga í Lækjarbotna, og eiga vagnstjórar vísan kaffisopann hjá gömlu konunni, þegar uppeftir kemur, því að gestrisnin er enn hin sama og áður. En hún ber þeim líka vel söguna.
Guðfinna er fjölfróð um Lækjarbotna og Lögberg sem vænta má, og varð ég margs vísari um sögu staðarins og ábúendurna, meðan ég sat þarna yfir rjúkandi kaffibolla og kökum. Guðmundur Sigurðsson var fæddur að Gröf í Mosfellssveit 17. des. 1876. Foreldrar hans voru Sigurður Guðmundsson og Guðrún Þorleifsdóttir, bæði ættuð að austan. Hann var yngstur af sautján systkinum. Hann missti heilsuna á unglingsárum sínum og lá þá rúmfastur um sex ára skeið og beið þess aldrei bætur. Eftir að hann komst til sæmilegrar heilsu, fluttist hann til Reykjavíkur og fékkst þar við ýnis störf, m. a. blaðaafgreiðslu hjá Einari Benediktssyni skáldi og síðar Sig. Júl. Jóhannessyni skáldi, en eftir það lærði hann rakaraiðn og stundaði hana um skeið. En starfið átti ekki vel við hann, enda þoldi hann illa stöðurnar til lengdar, svo hann venti sínu kvæði í kross og keypti landspildu uppi við Rauðavatn með aðstoð góðra manna, reisti þar skála, sem hann nefndi Baldurshaga og rak þar kaffistofu um tveggja ára skeið. Árið 1907 leigði hann síðan Baldurshagann, en keypti Lækjarbotna af Erasmusi Gíslasyni bróður Gísla Gíslasonar silfursmiðs í Reykjavík.

Fossvallaklif

Fossvallaklif.

Guðmundur var alla tíð mikill áhuga- og framkvæmdamaður, þrátt fyrir vanheilsu sína. Hann hófst þegar handa um byggingu íbúðarhúss í Lækjarbotnum og aðrar jarðabætur, enda voru kofarnir að falli komnir og kotið túnlaust að heita mátti. Gömlu bæjarhúsin stóðu, eins og áður er sagt, á hólnum sunnan vegarins, en með tilliti til umferðarinnar ákvað hann að velja nýja húsinu stað norðan við veginn, á klöppinni rétt sunnan við Fossvallarkvíslina. Hann lét kljúfa grágrýti í veggina á húsinu og felldi þar síðan í steinlím í hleðslunni. Þetta var erfitt verk og seinunnið og kostaði mikið fé. En húsið reis af grunni og Lögberg blasti við öllum, sem um veginn fóru að sunnan og austan. Þetta varð allmikið hús áður en lauk méð endurbótum og viðbyggingum, í því voru hvorki meira né minna en tuttugu vistarverur, þegar allt var talið. Enda varð þetta fljótlega fjölsóttur staður. Kolviðarhóll og Lögberg voru á þessum árum fastir áningarstaðir flestra þeirra, sem um Hellisheiði fóru, og náttstaður margra. Erfitt er um túnrækt í Lækjarbotnum, samt tókst Guðmundi að tífalda töðufallið og koma því upp í um 150 hesta. En auk þess falaði hann sér heyja annarsstaðar að, m. a. austan yfir fjall enda hafði hann 12 kýr í fjósi og á annað hundrað fjár á jörðinni, þegar flest var. Jafnframt búskapnum rak hann svo greiðasölu.- Framan af búskapartíð Guðmundar var mikil gestakorma að Lögbergi.
raudholl-229Fjárrekstrarmenn kormu á haustin austan úr sveitum á leið til Reykjavíkur og vermenn á veturna og vorin. Þeir komu venjulega nokkrir saman, gangandi, með þungar byrðar á baki, í misjafnri færð og veðri, sumir hráktir og illa til reika, og áttu stundum líf sitt að launa húsaskjóli og aðhlynningu heimilisfólksins á Lögbergi. Varð bft iitið um svefriihn hjá heimafólkinu, þegar vakið var upp, stundum tvisvar þrisvar á nóttu. Mikið var líka um vöruflutningá um heiðina, en um helgar á sumrin brugðu bæjarmenn sér upp að Lögbergi á hestum og var þá stundum glatt á hjalla. Svo gekk bílaöldin í garð og með henni fækkaði þeim, sem viðkomu höfðu á Lögbergi. Snemma á hernámsárunum settust Bretar að 4 Lögbergi, en seinna Bandaríkjamenn við veginn, þegar komið er upp úr skarðinu.
Höfðu þeir þarna heljarmikið bakarí. Þeir tóku allmikla spildu af túninu undir byggingarnar, en annars fór vel á með þeim og heimafólkinu á Lögbergi. Þeir létu líka byggja skjólvegginn mikla, sem er norðan við húsin. Vann 40 manna flokkur að hleðslunni í fullar sjö vikur og er þetta talinn einhver dýrasti veggur sinnar tegundar sem hlaðinn hefur verið á Íslandi. En vel er veggurinn hlaðinn, svo að Steinar í Hlíðum undir Steinahlíðum hefði jafnvel verið fullsæmdur af verkinu, enda voru vegghleðslumennirnir íslenzkir og sjálfsagt ættaðir að austan. Samt hefur þessi veggur aldrei áunnið sér virðingu í hlutfalli við fyrirhöfn og tilkostnað. Enn standa þarna leifar af varðturninum og nokkrir ryðgaðir braggaskrokkar frá hernámsárunum.

Guðmundur var mjög heilsulítill síðustu árin, sem hann lifði, og leigði þá öðrum jörðina, en dvaldi þar þó áfram sjálfur til dauðadags. Hann andaðist 4. nóv. 1957, rúmlega áttræður að aldri. Hann var jarðsettur í heimagrafreit á túnhólnum sunnan við veginn, þar sem gamli Lækjarbotnabærinn stóð.

Tröllabörn

Tröllabörn – loftmynd 1953.

Fannveturinn mikla 1919—1920 var gífurlegur snjór á Hellisheiði sást hvergi á dökkan díl að kalla. Þá var allt í kafi á Lögbergi pg gengt af húsþakinu upp á hæðina fyrir ofan, en snjógöng grafin frá dyrunum. Í vorleysingunum verða þarna mikil umskipti. Bláar skúrir leiðir með fjöllunum og allt bráðnar og rennur sundur, nýtt líf kemur í Fossvallakvíslina, sem annars er gersamlega þurr, og fellur hún þá beljandi rétt meðfram bæjarveggnum á Lögbergi en neðar flæðir hún út yfir alla bakka og ber með sér aur og leir fram á jafnlendið fyrir neðan. Mörgum finnst sumarfrítt í Lækjarbotnum, þótt Vatnajökulsfaranfum gætist ekki allkostar að landinu, þegar hann fór þar um í þoku og rigningssudda, enda lætur það lítið vfir sér við fyrstu kynni. Þar eru þó margar hlýlegar og vinsælar dældir og kvosir, vaxnar grasi og lyngi, og mosagrænt hraunið lumir á ýmsri óvæntri fegurð. Þetta er ákaflega rólegt og notalegt landslag, enda er þarna krökkt orðið af sumarbústöðum út um allt. Ég er ekkert hissa á því, þótt gamla konan, sem bráðum hefur átt hér heima samfleytt í 54 ár, eigi erfitt með að slita sig héðan, og er henni þó ekki sársaukalaust að horfa upp á eyðileggingu gamalla mannvirkja á staðnum. En umhverfið er þó altént hið sama, Nátthaginn og Selfjallið, ám og hraunið og allt þetta nafnlausa í náttúrunni, sem yljar og hlýjar um hjartaræturnar. Það er ósköp auðvelt að skilja sjónarmið og tilfinningar gömlu konunnar. „Ég vil helzt ekki flytja héðan fyrr en ég fer alfarin.“

trollaborn-221

En Lækjabotnar eiga sér einnig aðra sögu en hér hefur verið rakin, miklu eldri sögu, sem skráð er á klappirnar og klungrin umhverfis Lögberg. Ísaldarjökullinn, sem á sínum tíma þakti meginhluta landsins hefur skriðið þarna fram um heiðina og sorfið og rispað grágrýtisklappirnar og loks skilið eftir heljarmikil grettistök á víð og dreif, þegar aftur tók að hlýna. Slíkar jökulminjar sjást víðsvegar á holtunum og hæðunum upp af Lögbergi, sunnan og norðan vegarins. Löngu seinna, eftir að ísöld lauk og jökullinn var horfinn eða fyrir um það bil fimm þúsund árum, hefur orðið mikið hraungos þarna austur með fjöllunum á báða bóga, til austurs og vesturs. Hraunelfan, sem til vesturs leitaði, hefur fundið sér farveg niður um skarðið milli grágrýtisholtanna ofan við Lækjarbotná, þar sem vegurinn nú liggur, og runnið allt til sjávar í Elliðavog. Í þessu hraunflóði er talið, að Rauðhólar haft myndazt og Tröllbörnin orðið til, en.svo heita nokkrir smágígar meðfram veginum rétt neðan við Lögberg. Þannig hafa eldur og ís á sínum tíma merkt og mótað landið í Lækjarbotnum eins og víða annarsstaðar á Íslandi. Bakgrunnurinn að sögusviði þeirrar f arsælu lífsbaráttu, sem gerði garðinn frægan og hér hefur verið lítillega lýst, er stórfenglegur og eftirminnilegur. En það er einnig ákveðin reisn yfir þeim, sem settust að þarna við veginn í trássi við öll afkomulögmál, græddu bera klöppina, reistu skála að segja um þjóðbraut þvera, af myndarskap, en litlum efnum, hýstu gest og gangandi og áunnu sér þakklæti og virðingu vegfarenda. Nú er sviðið autt og yfirgefið og spýtnabrakið á bæjarhellunni, hinni fimm þúsund ára gömlu klöpp, staðfestir í raun réttri einungis það, sem áður var nokkurn veginn ljóst, að sögu Lögbergs er lokið.“ – Gestur Guðfinnsson.

Í Vísi árið 1962 er frétt: „Lögberg selt til niðurrifs„:

Lögberg

Lögberg 1931-1935. Í forgrunni er nokkuð stór fólksbíll af eldri gerð og er barn að hlaupa að honum. Í bakgrunni er stórt hús og viðbyggingar frá því, aðallega t.h. Á húsinu má lesa nafnið LÖGBERG. Á bakhlið myndarinnar er skrifað: Erik körte med Adam til Stokkesyer (Stokkseyri) med bilen fra mejeriet, skulle hente varer til mejeriet.

„Fyrir nokkru auglýsti bæjarverkfrœðingur Kópavogs bygginguna Lögberg að Lækjarbotnum til sölu til niðurrifs og brottflutnings.
Lögberg, eða Lækjarbotnar, eins og staðurinn hét forðum, er gamall áningar- og greiðasölustaður, en síðustu árin hefir staðurinn eiginlega ekki þjónað öðrum tilgangi en að vera endastöð fyrir Strætisvagna Reykjavíkur, sem hafa þjón að íbúum í Kópavogskaupstað, er nær þarna upp eftir, með því að flytja þá úr bænum og í.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – Friðrik VIII. á för sinni um landið 1907.

Bæjarverkfræðingur Kópavogs, Páll Hannesson, hefir skýrt Vísi svo frá, að allmargir aðilar hafi látið í ljós áhuga á Lögbergi, er það var auglýst, en niðurstaðan verður sú, að tveir menn úr Kópavogi, Jóhann Kristjánsson og Sigurður Jakobsson, hafa hreppt húsið, og munu þeir fá húsið fyrir að rífa það og flytja á brott, en ætlun þeirra mun vera að nota efnið til innréttingar á vinnuskála, sem þeir nota.
Engin bygging mun koma í stað gamla hússins, sem þarna verður rifið, því að vegagerð ríkisins mun fá hússtæðið til sinna þarfa. Ætlunin er að gera breytingu á lagningu þjóðvegarins austur yfir fjall, þar sem hann kemur niður brekkuna við Lögberg, svo að vegarstæðið flytzt til og fer yfir þann stað, þar sem húsið stendur nú.“

Í Morgunblaðinu árið 1966 fjallar Guðmundur Marteinsson í Velvakanda um „Aðeins eitt Lögberg“:

Lögberg

Lögberg – athöfn.

„Í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins (25. 8.) er sagt frá nýbyggingu Suðurlandsvegar vestan Svínahrauns, og er skýrt frá því, að nýr vegur verði lagður frá vegarendanum við hraunið og niður að Lögbergi, og einnig að nýi og gamli vegurinn eigi að koma saman við Lögberg.
Það var fyrir rúmlega hálfri öld, að norðan við veginn, gegnt býlinu Lækjarbotnum, var reist hús, sem var gefið heitið Lögberg, rétt um svipað leyti og Lækjarbotnar fóru í eyði. Þetta hús var rifið fyrir nokkrum árum, og er því ekkert sem heitir Lögberg á þessum stað lengur.
Ráðamenn Strætisvagna Reykjavíkur breyttu fyrir nokkrum árum heitinu á strætisvagninum, sem fer þangað upp eftir, úr Lögberg í Lækjarbotnar, og þótti mörgum það smekkvíslega gert. Það var raunar gert áður en húsið Lögberg var rifið.
Ég sendi þér þessar línur, Velvakandi góður, og bið þig að koma þeim á framfæri. sem ábendingu til blaðamanna og amnarra um að afmá nafnið Lögberg á þessum stað. Það á aðeins heima á einum stað — á Þingvöllum.“ – 27. 8. 1966; Guðmundur Marteinsson.

„Kirsten Henriksen einn gefanda er fædd 1920 og lést 2009.“ (VHP 2018)

Í Skátablaðinu árið 1985 segir Reynir Már Ragnarsson frá „Væringjaskálanum í Lækjarbotnum„, sem þá hafði verið fluttur á Árbæjarsafnið.

Lögberg

Lögberg – hestamenn á leið austur. Væringjaskálinn í bakgrunni.

„Einn er sá staður í nágrenni Reykjavíkur sem margir skátar eiga eflaust góðar minningar frá en það eru Lækjarbotnar. Þar hefur verið skátaskáli síðan 1920 og eru þeir því orðnir nokkuð margir skátarnir sem hafa verið þar í útilegu. Minningar tengjast oft skálanum, því andrúmslofti sem þar er og stemmingunni sem þar myndast. Oftar en ekki halda menn tryggð við skálann sem minningarnar eru tengdar við.

Væringjaskálinn

Væringjaskálinn á Lögbergi.

Líflaus og tómur með hlera fyrir gluggum í sumar fór ég að skoða Árbæjarsafn og tók þá eftir litlu húsi sem
stendur skammt frá safnhúsunum. þetta einmana hús reyndist vera gamli Lækjarbotnaskálinn – Væringjaskálinn. Hann má nú muna sinn fífil fegri. Söngurinn er þagnaður og leikir og ærsl eru víðs fjarri. Mætti hann tala hefði hann frá mörgu að segja. En nú er hann einn og yfirgefinn, hurðin læst og hlerar fyrir gluggum. Ég gisti þennan skála aldrei sjálfur en fyrir hönd þeirra sem það hafa gert og reyndar fyrir hönd skátahreyfingarinnar skammaðist ég mín. Af hverju er hann ekki opnaður og komið einhverju lífi í hann?

Væntanlegt útileguminjasafn eða tómur áfram?

Væringjaskálinn

Væringjaskálinn á Árbæjarsafni – mynd: Saga Væringjaskálans – Sumarið 1919 fór stjórn Vœringjafélagsins að leita að stað undirfyrirhugaðan skála. Eftir nokkra leit komst stjórnin að þeirri niðurstöðu að Lækjarbotnar vœru heppilegasti staðurinn. Þar hafði áður verið býli, sem var áningarstaður ferðamanna sem voru á leið austurfyrirfjall. Bygging skálans hófst snemma sumars 1920 og 5. september sama ár var hann vígður þótt byggingunni væri ekki að fullu lokið. Fáni var þá í fyrsta sinn dreginn að hún á stönginni við skálann.
Í byrjun voru hliðarveggir skálans hlaðnir úr grjóti og torfi, en það þótti slæmt til lengdar og voru því hlöðnu veggirnir rifnir burt. Sumarið 1929 var byrjað að girða lóðina kringum skálann og gróðursett voru tré og aðrar jurtir. Þessu verki var lokið 1931. Skálinn kostaði alls uppkominn nær 7000 krónum.

Ég hafði samband við Ragnheiði Þórarinsdóttur, borgarminjavörð og sagði hún að skálanum væri haldið við og áætlað væri að flytja hann nær safnhúsunum. Mikill áhugi væri fyrir að opna hann almenningi, en áður þyrfti að safna hlutum sem tengdust útilegustarfi fyrri ára og koma þeim fyrir í skálanum. Hún taldi best að skátarnir hefðu frumkvæði að þeirri söfnun. Árbæjarsafn væri tilbúið að varðveita hlutina og lagfæra ef með þyrfti.“

Heimildir:
-Ísafold 19. desember  1908, bls. 315
-Sunnudagsblað Alþýðublaðsins 20. október 1963, bls. 74-75 og  86-87.
-Vísir, 278. tbl. 10.12.1962, Lögberg selt til niðurrifs, bls. 7.
-Morgunblaðið, 199. tbl. 02.09.1966, Aðeins eitt Lögberg – Guðmundur Marteinsson, bls. 4.
-Skátablaðið, 1. tbl. 01.02.1985, Væringjaskálinn í Lækjarbotnum – Reynir Már Ragnarsson, bls. 34-35.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Lækjarbotnar

Eftirfarandi frásögn af Eyvindi og Magréti má lesa í Frjálsri þjóð árið 1962:
laekjarbotnar-992„Á
rið 1677 voru dæmd til líkamlegrar refsingar á Kópavogsþingi hjú tvö úr Árnessýslu, karl og kona. Var maðurinn kvæntur, en hafði strokið frá heimili sínu og lagzt út með stúlku, er hann lagði hug á. Maðurinn hét Eyvindur Jónsson, stundum kallaður Eyvindur eldri, til aðgreiningar frá alnafna sínum, hinum víðkunna Fjalla-Eyvindi. Alþingisbókin 1678 segir í stuttu máli hina dapurlegu örlagasögu þessara tveggja mannvera, sem virðast hafa lagt allt í sölurnar til að mega njótast. Sú frásögn er á þessa leið:
„Í sama stað og ár og dag (29. júní 1678) auglýsti valdsmaðurinn Jón Vigfússon eldri þann héraðsdóm, sem hann hafði ganga látið í Bakkárholti í Ölfusi í Árnessýslu það ár 1677 2. nóvembris undir 12 manna útnefnd áhrærandi þær stórbrotamanneskjur Eyvind Jónsson og Margrétu Símonardóttur, sem úr þeirri sýslu burthlaupið höfðu vel fyrir tveimur árum og í opinberum hórdómi orðið sín á millum með barneign, hann eigingiftur, en hún í einföldum hórdómi áður fundin. Höfðu téðar persónur á þessum tveggja ára tíma saman haldið sig fyrir ektahjón… urðu svo höndlaðar í einum helli suður undir Örfiseyjarseli í Kjalarnesþingi og teknar þann 20. oktobris með fola og nautakjöti og öðrum hlutum. Voru þá ofanskrifuðum Eyvindi og Margrétu dæmdar þrjár refsingar hvoru um sig á Bakkárholtsþingstað fyrir þeirra hórdómsbrot og burthlaup úr héraðinu sem og heilagrar aflausnar og sakramentis forröktun, hverjar þrjár refsingar valdsmaður Jón Vigfússon rigtuglega bevísaði á þær lagðar vera.
laekjarbotnar-993Einnig auglýsti velaktaður Oluf Jónsson Klou, að fyrrnefndar persónur, Eyvindur og Margrét, hefðu úttekið líkamlega refsing í Kópavogi 3. decembris 1677 fyrir útileguna og þar að hnígandi þjófnaðar atburði, svo sem dómur þar um auglýstur útvísar, og svo hefði kona Eyvindar Ingiríður hann til hjónabands aftur tekið. Að því gerðu voru þessar manneskjur afleystar af æruverðugum biskupinum mag. Þórði Þorlákssyni undir þeirra sakramentis meðtekning í dómkirkjunni að Skálholti. Nú er síðan svo til fallið upp á ný, að þessar vandræða persónur tóku sig aftur til útilegusamvista og fundust báðar í einni rekkju og einu hreysi undir bjargskúta í Ölvesvatnslandeign af Þorsteini Jónssyni og öðrum átta mönnum. Voru svo teknar og síðan í fangelsi forvaraðar á valdsmannsins heimili Stórólfshvoli og nú hingað til Öxarárþings í járnum færðar með fimm fiskum og tveim mathnífum, sem í hreysinu fundust.“
Eyvindur og Margrét voru síðan bæði dæmd til dauða á Alþingi, og fór aftakan fram á Þingvöllum 3. júlí.“

Heimild:
-Frjáls þjóð, 11. árg. 1962, 43. tbl., bls. 4.

Lækjarbotnar

Aðsetur útilegumanna fyrrum – Hellisopið.

Setbergshellir

Gengið var frá Mosum sunnan Smyrlabúða og haldið norður Selvogsgötu. Ætlunin var að ganga um Gráhelluhraun, niður um Lækjarbotna og enda við stekkinn í Stekkjarhrauni.
Þegar komið var að Smyrlabúðarhrauni var gengið norður með vesturjaðri þess svo sem Selvogsgatan liggur. Ekki leið á löngu þangað til komið var að því er virtist hlöðnu gerði utan í grónum hraunbolla. Áður hafði jafnvel verið talið að þarna gæti hafa verið um hraunskrið úr hlíðinni andspænis að ræða, en við nánari skoðun virðist þarna vera um fyrrum hlaðinn vegg að ræða. Grjótið hefur verið tekið úr hlíðinni, enda handhægt, og raðað reglulega í bogadreginn vegg. Veggurinn virðist hafa verið hlaðinn til að loka af bollanum. Ekki er ólíklegt að þar fyrir innan hafi hestar eða fé verið geymt á ferðum Selvogsmanna í Fjörðinn. Þarna gæti jafnvel verið tilkomið búðarnafnið á Hraunið. Staðurinn er kjörinn áningarstaður áður en haldið hefur verið síðasta áfangann niður í þorpið. Hann er skjólgóður og ágæt beit við hendina.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Annars eru framangrein hraun eitt og hið sama; Búrfellshraun. Það er talið hafa runnið um 5300 f. Kr.. Annar angi þess rann til norðurs og kom niður á Álftanesi, beggja vegna. Hraunið ber t.d. nöfnin Urriðavatnshraun (Urriðakotshraun), Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Garðahraun, Flatahraun og Gálgahraun.
Hinn angi þess rann til norðvesturs. Í honum eru Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun og Stekkjarhraun.
Gengin var gatan framhjá Kershelli og haldið niður að Setbergshelli, gömlum fjárhelli Setbergsbænda og að hluta til Hamarskotsbænda. Gamla Selvogsgatan lá svo að segja í gegnum aðstöðuna, eða með austurjarðri hennar, skammt ofan við rétt eða stekk í gróinni laut.

Setbergshellir

Setbergsfjárhellir.

Hellirinn er með myndarlegri hleðslu Setbergshellismegin, auk þverhleðslu er aðskilur hann frá Hamarskotsbóndahlutanum. Í hellinnum vour síðast hafðar geitur, en Setbergsbóndi færði fé sitt úr hellinum, sem einnig var notaður sem selstaða um tíma, enda ber umhverfið þess glögg merki, upp á Setbergshlíðina norðan Þverhlíðar. Þar má sjá rústir hlaðins fjárhúss ofan við fallega hlaðna vörðu. Önnur fallega hlaðin varða er nokkur sunnar á hlíðinni, gegnt selinu.

Í stað þess að fylga Selvogsgötunni var gengi þvert á Gráhelluhraun og síðan haldið eftir því til norðurs, að Gráhellu.

Gráhella

Gráhella.

Gráhella er ílöng klettaborg í austanverðu hrauninu. Norðan undir henni eru hlaðnar rústir gerðist og húss. Þau mannvirki munu Setbergsbændur hafa nýtt sér fyrir fjárhald sitt, en Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi um og fyrir aldamótin 1900 var einn fjármesti bóndi landsvæðsins og jafnvel þótt lengra væri leitað. Faðir hans var um tíma bóndi á Geysi í Haukadal, en ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum. Var hann jafnan nefndur „hinn fjárglöggi“ því hann kunni skil á öllum fjármörkum sem kunna þurfti skil á. Dóttir Jóns á Setbergi bjó m.a. á Þorbjarnarstöðum í Hraunum og önnur á Urriðakoti, svo nærtæk dæmi séu nefnd.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – skilti.

Þegar komið var niður í Lækjarbotna var strax tekið eftir því að þar hafði nýlega verið sett upp upplýsingaskilti um vatnsveituna, sem þar var, en vatnsveita í Hafnarfirði átti aldarafmæli árið 2004. Skiltið stendur við hlaðnar undirstöður undir fyrrum lindarhús. Á því stendur eftirfarandi:
“Fram til 1904 var engin vatnsveita í hafnarfirði, en þða ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar. Félagið stóð meðal annars að því að grafnir vour brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá þegar tengd veitunni, en auk þess voru settir upp vatnspóstar víða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttur sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerða.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landsverkfræðings, en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið héðan vegna þess hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og þaðan lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár, en þó þurfti oftar en einu sinni að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar.

Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóns Ísleifssonar verfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðfrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Setbergshlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma, en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949, en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjánlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951”.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Skammt neðar er hlaðin stífla, tengd vatnsveitunni í Lækjarbotnum. Ofurlítið norðar er áberandi grágrýtissteinn; eyktarmark frá Setbergi. Af útlitinu mætti vel ætla að í honum byggi huldufólk, eða a.m.k. álfar.
Læknum var fylgt niður að Stekkjarhrauni. Gengið var þvert á hraunið uns komið var að stekknum, sem hraunið dregur nafn sitt af. Hann er í náttúrlegri hraunkvos með klettaveggi á þrjá vegu. Framst er hlaðin fyrirstaða. Skammt suðvestar er hlaðið gerði í einni lautinni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 10 mín.

Stekkjarhraun

Stekkur í Stekkjarhrauni.

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar 2020

Litli Ratleikur Hafnarfjarðar er nýr ratleikur sem fór af stað í miðjum kórónafaraldri árið 2020 og er ætlaður til að hvetja fólk til að njóta útivistar um leið og það lærir um fróðlega staði í útjaðri bæjarins og í bænum sjálfum. Leikurinn er samvinnuverkefni Fjarðarfrétta og Hafnarfjarðarbæjar. Guðni Gíslason lagði leikinn.
Litli Ratleikur er frábrugðinn stóra Ratleik Hafnarfjarðar, engin ratleiksmerki eru á staðnum eða ratleikskort. Hann er einungis á vefnum og hægt er að stunda hann hvenær sem er.
Í Litla Ratleik 2020 eru 15 áhugaverðir staðir. Að þessu sinni:

1 – Útihús við Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn – útihús.

S-A Ástjarnar, neðan við klapparhól sem vel sést frá göngustígnum eru rústir útihúss. Svona rústir og ummerki mannvistar er víða að finna í landi Hafnarfjarðar en opinber skráning þeirra er af skornum skammti og nær engar þeirra merktar. Flestar rústir sem enn er að finna eru ummerki um búskaparhætti fyrri alda. Líklegt er að þetta séu rústir útihúss sem tilheyrði bænum Ási sem stóð þarna skammt frá og var rifinn síðla á síðustu öld.

Greinilega má sjá hleðslurnar skammt frá göngustígnum. Hleðslurnar eru neðan við stóran klett við stíginn.

Ástjörn

Útihús við Ástjörn.

Markmiðið er að ganga í kringum Ástjörnina sem er rúmlega 3 km hringur frá bílastæðunum. Til viðbótar má ganga upp að útsýnisskífunni á Ásfjalli að norðanverðu, og ganga eftir öxlinni og koma niður á Skarð, þar sem finna má grjóthlaðinn stekk, og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Allt eru þetta ágætir stígar, misgóðir þó.

Ástjörn

Ástjörn.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má þar enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ástjörnin er vogskorin uppistöðutjörn sem myndast hefur í kvos vestan undir Ásfjalli þegar Hellnahraun rann fyrir um 2000 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Í tjörnina renna nokkrir smálækir og er yfirborðsrennslið breytilegt sem hefur þó lítil áhrif á vatnsborðið.

Lífríki tjarnarinnar er fjölbreytilegt og hér er kjörlendi margra fuglategunda því fæðuframboð í tjörninni er mikið. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina.

Tjörnin og nánasta umhverfi nýtur friðlýsingar vegna fjölskrúðugs fuglalífs og lífríkis. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður er nú trjáreitur frá því þar var skógræktarstöð og liggur göngustígurinn umhverfis vatnið þar í gegn.

Skammt vestan bæjarstæðisins milli Ásfjallsaxlar og Grísaness er Hádegiskarðið sem ferðalangar gengu um fyrrum er þeir fóru Stórhöfðastíg og Hrauntungustíg til Krýsuvíkur eða Grindavíkur.

Fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar var opnaður 10. maí 1997.

2 – Útsýnisskífa á Ásfjalli

Ásfjall

Ásfjall – útsýnisskífa.

Lengi var talið að Ásfjall væri lægsta fjall á Íslandi. Reyndar er lægra fjall á Austurlandi svo Ásfjall er þá a.m.k. næst lægsta fjall Íslands.

Á Ásfjalli er gott útsýni yfir fallegan fjörðinn og nágrenni og það nýttu sér hermenn á stríðsárunum. Enn má sjá merki eftir byrgi þeirra á fjallinu.

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna sem þar er. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.

Markmiðið er að ganga upp á Ásfjallið til að upplifa fallegt útsýnið yfir Hafnarfjörð. Frá útsýnisskífunni má ganga eftir öxlinni til suðurs og koma niður á Skarð og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Slóðinn á fjallinu er greinilegur en grófur.

Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.

Ásfjall

Ásfjallavarða árið 2007.

Varðan á Ásfjalli var eyðilögð snemma á öldinni en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.

Ásfjallavarða

Ásfjallavarða árið 2020 og ummerkin umleikis.

Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Þegar hún var komin á sinn stað voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en árið 1987 að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson, Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.

Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987 og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.

Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!

3 – Ósinn

Ósinn

Bekkur við Ósinn.

Ósinn er heiti á mannvirki sem tengist fráveitu Hafnarfjarðar. Í gegnum þetta mannvirki er skolpi dælt frá stórum hluta bæjarins út í pípu sem liggur undir Hvaleyrina og út í hreinsi- og dælustöð í Hraunavík en þaðan er öllu skolpi dælt langt á haf út eftir að það hefur verið grófhreinsað. Skolpdælistöðvar bæjarins hafa gjörbreytt áhrifum skolpsins við strendurnar frá því sem áður var.

Horft að miðlunartankinum sem hægt er að fara upp á.

Gott að leggja
Leggja má við enda Óseyrarbrautar þar sem hún sveigir til hægri við tanka Atlantsolíu.

Markmið
Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Við enda stígsins er Ósinn og upp á mannvirkið eru tröppur sem leiðir gesti að útsýnisstað með bekkjum.

Bekkir leynast uppi á miðlunartankinum.

Fróðleikur
Lang stærstur hluti hafnarsvæðisins er á uppfyllingu og er svæðið sem Ósinn er á það nýjasta og stærsta.

Í 2. kafla Landnámu segir að þar hafi Flóki Vilgerðarson og Herjólfur, bóndi er honum fylgdi, komið að landi fyrir árið 870 og dvalið um stund. „Flókaklöppin“ efst á Hvaleyrarholti er með ýmsum áletrunum, sem sumir telja vera eftir áhöfnina.

4 – Minnisvarði um Hrafna-Flóka
Í Landnámu segir frá því er Hrafna Flóki, Flóki Vilgerðarson, kom til Hafnarfjarðar þar sem hann fann félaga sinn Herjólf, sem hafði orðið viðskila við hann á eftirbát í mynni Faxaflóa. Fann Flóki þar og rekinn hval við eyri og nefndi Hvaleyri.

Var Hrafna-Flóka reistur minnisvarði í vörðuformi hæst uppi á Hvaleyri og var hann vígður í lok Víkingahátíðar 13. júlí 1997. Varðan er úr norsku grjóti og er gjöf frá Norðmönnum til minnis um atburðinn.

Markmiðið er að ganga stíginn við Hvaleyrarlónið, upplifa fegurð þess og láta sig dreyma um að sjá alla þá byggð sem var á Hvaleyrinni. Einnig að kynnast sögunni um Hrafna-Flóka og jafnvel um þá fornu byggð sem var á Hvaleyrinni, Hvaleyri, Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyrarkot, Vesturkot og Halldórskot.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Í Landnámu segir frá því að Flóki hafi upphaflega haldið af stað frá Noregi vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann ætlaði að setjast þar að og þess vegna voru með í för fjölskylda hans og frændlið, auk búfénaðar. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur, Þórólfur og Faxi. Flóki hafði með sér þrjá hrafna sem hann hafði blótað í Noregi og lét þá vísa sér leið til Íslands. Hann sleppti fyrst einum og flaug sá aftur um stafn í átt til Færeyja, sá næsti flaug í loft upp og aftur til skips en sá þriðji flaug fram um stafn í þá átt sem Flóki og félagar fundu landið. Þeir komu að Horni eystra, síðan sigldu þeir suður og vestur fyrir land og námu land í Vatnsfirði á Barðaströnd. Vatnsfjörður mun hafa verið fullur af fiski og nýbúarnir stunduðu veiðar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenskan vetur. Þess vegna drapst allt kvikféð um veturinn. Vorið var heldur kalt og þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá fyrir norðan fjöllin fjörð, líklega Arnarfjörð, fullan af hafís. Því kölluðu þeir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.

Flóki og fylgdarlið hans ákváðu að fara burt og héldu úr Vatnsfirði þegar langt var liðið á sumar. Þeir náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes og urðu Flóki og Herjólfur viðskila í mynni Faxaflóa.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri..

Ýmsar minjar er að finna á Hvaleyrinni. Herjólfur kom að landi í Herjólfshöfn en Flóki hafði vetursetu í Borgarfirði. Næsta sumar kom Flóki í Hafnarfjörð og þar fundust þeir Herjólfur.

Menn hafa leitt að því getum að Herjólfshöfn sé Hvaleyrartjörn en hún var höfnin í Hafnarfirði sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.

Í Landnámu segir enn fremur: Flóki Vilgerðarson hét víkingur mikill; hann bjóst af Rógalandi að leita Snjólands; þeir lágu í Smjörsundi. Hann fékk að blóti miklu og blótaði hrafna þrjá, þá er honum skyldu leið vísa, því að þá höfðu hafsiglingarmenn engir leiðarstein í þann tíma í Norðurlöndum. Þeir hlóðu þar varða, er blótið hafði verið og kölluðu Flókavarða; það er þar er mætist Hörðaland og Rogaland.

Samskonar varða er í Sveio sem liggur á mótum Hörðalands og Rogaland á vesturströnd Noregs. Varðan sem talin er að hafa verið upprunalega Flókavarðan, var rifin af ókunnum ástæðum á 19. öld. Ný varða var reist þar sem hin stóð og samskonar varða á Hvaleyri sem fyrr er nefnd.

5 – Útsýnisskífan á Hamrinum

Hamarinn

Litlu Ratleiksfrumkvöðlar við útsýnisskífuna á Hamrinum.

Hamarinn, öðru nafni Hamarskotshamar, er eitt af staðareinkennum Hafnarfjarðar. Hann hefur fengið nafnið Austurhamar þar sem hann er hæstur og Vesturhamar, þar sem hann gekk í sjó fram.

Áður fyrr var þessi mikli klettur sem stendur fyrir miðjum fjarðarbotninum nefndur Hamarskotshamar eftir koti sem stóð þar sem Flensborgarskólinn er nú.

Sprengt var úr Vesturhamrinum 1941-1948 og var efnið úr honum notað við gerð Norðurgarðsins í Hafnarfjarðarhöfn. Eru enn ljót ummerki eftir þetta og sést vel frá Flensborgarskóla.

Á austurhamrinum er útsýnisskífa og í góðu skyggni má sjá allan fjallahringinn umhverfis Faxaflóa. Ath. að hádegi á skífunni er sýnt þegar sól er í hásuðri en þar sem við erum bæði um hálfum tíma vestan við tímabeltið auk þess að vera með sumartíma allt árið, er hádegi sýnt um einum og hálfum tíma of snemma á skífunni.

Hamarinn á sér bróður; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn.

Hamarinn

Hamarinn.

Ofan Hamarsins eru Öldurnar og niður af Austurhamri er Brekkan með Brekkugötu og Suðurgötu. Svæðið neðan Vesturhamars kallaðist fyrrum einu nafni Undirhamar.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum. Ætla má að bergið geti verið yngra en 800 þúsund ára. Grágrýtið myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í Hafnarfirði og umhverfi þess er komið.

Hamarinn er góður staður til að setjast niður og horfa yfir bæinn.

Í klöppunum ofan á Hamrinum sjást jökulrispur, menjar ísaldarjökulsins.

Finna má ummerki á Vesturhamrinum eftir veru hersins í Hafnarfirði í síðari heimsstyrjöldinni.

Í Hamrinum eru sagðar búa álfaverur af „konungakyni”. Hamarinn var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1984.

Austurgatan en samt er aldrei talað um austur í Hafnarfirði!

Markmiðið er að ganga á Hamarinn og upplifa hann og útsýnið þaðan. Útsýnisskífan gefur möguleika á að þekkja fjöllin og umhverfið í kring.

6 – Arnarklettur

Arnarklettur

Arnarklettur.

Arnarklettar standa ásamt Krummakletti og Gnípu í grónu hrauni sem markast af Klettahrauni, Arnarhrauni, Sunnuvegi og neðra Álfaskeiði. Jafnframt eru gerði og aðrar mannvistarminjar í kringum klettana. Arnarklettarnir voru tveir; Arnarklettur syðri og Arnarklettur nyrðri. Hlaðin gerði og aðrar mannvistarminjar eru í kringum klettana. Á öðrum Arnarklettanna sem stendur á óbyggðu svæði á horni Arnarhrauns og Álfaskeiðs er merki með nafni klettsins.

Á svæðinu eru hverfisverndarákvæði: „Hverfisvernd tekur til þess að þessum hraunmyndunum og minjum verði ekki raskað“.

Á síðustu tugum nítjándu aldar voru í Gullbringusýslu nokkrir þekktir varpstaðir arnarins, enda bera örnefnin þess merki, s.s. Arnarklettar utanvert við Balatún, Arnarnýpa á Sveifluhálsi, Arnarfell í Krýsuvík og Arnarþúfa í Ögmundarhrauni, auk tveggja Arnarkletta sunnan Stórhöfða og Helgafell í Garðakirkjulandi.

Markmiðið er að upplifa friðuðu hraunin, göngustígana austan og vestan Arnarhrauns. Stígarnir eru ekki merktir sérstaklega en ganga má m.a. inn á þá út úr endum Mánastígs, Þrastahrauns og víðar.

7 – Vindspil

Vindspil

Listaverkið Vindspil.

Listaverkið Vindspil frá árinu 2000 eftir Einar Má Guðvarðarson stendur á malarkambi við bílastæði við enda Langeyrarmala. Verkið heitir ekki aðeins Vindspil heldur er það vindspil og í vindi hljóma úr því fagrir bjölluhljómar. Einar Már bjó og hafði vinnustofu sína í bænum Ljósaklifi en það er bærinn sem er næst Herjólfsgötu. Hann var fæddur í Hafnarfirði 9. febrúar 1954. Hann lést 25. júní 2003.

Í Skerseyrarhrauni, á svæði sem er norð-vestasti hluti Hafnarfjarðar, og markast af Herjólfsgötu, Garðavegi og landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar við Bala, eru fimm gömul bæjarstæði þar sem enn standa hús. Auk Ljósaklifs eru bæirnir Fagrihvammur (Litli bær), Brúsastaðir I og nýbýlið Brúsastaðir II og Sæból sem stendur nyrst. Á milli bæjanna liðast steinhlaðnar götur í hrauninu.

Stifnishólar

Stifnishólar við Brúsastaði.

Hraundranginn utan við bílastæðið nefnist Rauðsnef og hraundrangarnir framan við Brúsastaði nefnast Stifnishólar þar sem sagt er að draugur hafi verið kveðinn niður um aldamótin 1800. Þar sem Brúsastaðir standa stóð áður bærinn Litla-Langeyri.

Langeyri var ævaforn hjáleiga frá Görðum og stóð þar sem Herjólfsgata 30 var en stutt er síðan það hús var rifið og ný fjölbýlishús byggð á lóðinni.

Meðal örnefna við sjóinn eru Brúsastaðavör, Skerseyrarvör og Balavör sem segja okkur að útræði hafi verið þarna áður.

Vindurinn skellir skálunum saman og myndar fallega bjölluhljóma.

Ganga Strandstíginn og Langeyrarmalirnar út með ströndinni að Bala.

8 – Hlaðnar götur

Hlaðnar götur

Gömul hlaðin gata.

Lengst af voru í raun engir afmarkaðir vegir í Hafnarfirði, einungis götur og slóðar. Hús voru byggð þar sem hagkvæmt þótti í hrauninu og milli hraunklettanna mynduðust götur eða troðningar áður en eiginleg gatnagerð hófst. Víða má enn finna leyfar af fyrstu gatnagerðinni, þar sem götur voru einfaldlega hlaðnar upp af hraungrjóti og fylltar með grús og hraunbrotum.

Best er að finna dæmi um slíkar götur við Hjallabrautina, gegnt skátaheimilinu Hraunbyrgi, og að Klettagötu. Þar má sjá hversu hagalega menn hafa hlaðið mjóar götur til að aka fiski á vögnum á stakkstæðin.

Fyrsta eiginlega gatnagerðin var þegar vegur var lagður frá Sjónarhóli, yfir Flatahraun og inn í Engidal.

„Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa. Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinum. Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal,” skrifaði Björn Guðmundsson sagnfræðingur 1962.

Markmiðið er að kynnast Hafnarfirði fyrri ára og láta sig dreyma um fólkið á ferðinni með fiskinn á vögnum efir hlöðnum götunum.

Allt umleikis eru grjóthlaðnir garðar og gerði er nýtt voru til heimilisbrúks fyrrum.

Víðistaðir

Víðistaðatún.

Tilvalið er að ganga til baka um Víðistaðatúnið þar sem bærinn Víðistaðir stóð og sláturhús sem margir muna eftir og stóð neðan við þar sem Víðistaðakirkja stendur núna.

Víðistaðatún er stórt opið svæði við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Þar er starfrækt tjaldsvæði frá miðjum maí fram í enda ágúst. Svæðið státar af fjölmörgum listaverkum sem tilvalið er að skoða og börn hafa gaman af að leika sér í. Einnig er þar aparóla, ærslabelgur og kastali sem staðsettur er í nálægð við grillhús. Hann hentar fyrir bæði leik- og grunnskólaaldur. Einnig er þar skógarlundur sem börn hafa gaman af að leika sér í sem og eini tennisvöllur Hafnfirðinga.

9 – Lækjarbotnar

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stífla.

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá svo trépípa niður til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909. Sjá má vanræktar leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið.

Stuttu ofar, í skógarjaðrinum má sjá hvar vatnið kemur undan hrauninu. Rennslið dugði þó ekki á sínum tíma til að anna vatnsþörf bæjarbúa og það varð til þess að árið 1916 fengu þeir Jóhannes Reykdal og Jón Ísleifsson verkfræðingur brjálæðislega hugmynd. Þar sem nægt vatn var í Kaldárbotnum, uppruna Kaldárinnar, var það áhugavert að koma því vatni til bæjarins. En það var löng leið og ekki á færi manna þá að leggja rör eða stokk alla þá leið auk þess sem það var yfir gjá og misgengi að fara. En hvað gera menn þá? Jú, hlaða úr grjóti og smíða tréstokk sem hleypti vatninu um 1,6 km leið yfir hraun og djúpa Lambagjána. Var vatninu sleppt inn á vatnasvæði Lækjarbotna og það var mikil spenna í bænum þegar beðið var eftir því hvort vatnið yfirleitt kæmi fram neðar í hrauninu. Voru margir efins um þessa aðferð, en vatnið kom í ljós um síðir og dugði vatnsveitan úr Kaldárbotnum allt til 1951 þegar ný vatnsleiðsla var lögð úr Kaldárbotnum í Hafnarfjörð.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar af vatnsleiðslunni.

Hluta af vatnsleiðslunni má enn sjá en mest af henni hefur nú verið eyðilögð.

Því miður grotna minjar um þessa vatnsveitu niður og lítið er gert til að varðveita þessa sögu úti í náttúrunni t.d. með endurgerð hluta stokksins og uppsetningu á fleiri fræðsluskiltum.

Austan við lækinn má finna götu sem liggur alla leið í Selvog en það er hin margkunna Selvogsgata.

Látið ekki hjá liggja að ganga inn í Gráhelluhraunið, þar er góður göngustígur og margt að sjá, ekki síst ef vikið er svolítið frá stígnum.

10 – Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Á odda sunnan við Hvaleyrarvatn, þar sem stígurinn skiptist í tvennt, eru tóftir Hvaleyrarsels. Má þar sjá þrjár tóftir og er ein þeirra stærst, eldhús vestast, búr og baðstofa austast. Stekkurinn er skammt vestan við eldhúsið.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Þarna átti að hafa gerst hryllilegur atburður um 1880 er smali fann seljastúlku rifna á hol niður við vatnið. Var talið að nykurinn í vatninu hafi leikið stúlkuna svo illa. Um nykur þennan sagði sagan að hann væri annað hvert ár í Hvaleyrarvatni, en hitt árið í Urriðakotsvatni. Sást til hans oftar en einu sinni.

Hvaleyri hafði bæði í seli við Hvaleyrarvatn og um hríð í Kaldárseli.

Önnur selstaða er við Hvaleyrarvatn; Ássel. Það er skammt austan við Hvaleyrarsel, en landamerki Hvaleyrar og Áss lágu um vatnið. Jófríðarstaðir hafði um tíma selstöðu þar sem nú er Húshöfði. Þar við má sjá leifar beitarhúss og stekk selsins skammt norðar.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og um skemmtilega stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa raunverulega skógarstemmingu.

11 – Riddaralundur

Riddaralundur

Riddaralundur – setstaður gamalla Hafnarfjarðarskáta.

Frá upphafi skátastarfs á Íslandi var gjarnan farið í skátaútilegur í uppland Hafnarfjarðar og var Kaldársel mjög vinsælt og Helgadalur fyrir 1960. En síðar varð Hvaleyrarvatn áhugavert en þess ber að geta að um 1960 sást þar í umhverfinu varla nokkurt tré. St. Georgsgildið í Hafnarfirði, félag eldri skáta, var stofnað 22. maí 1963 og nýttu félagar þess umhverfi Hvaleyrarvatn til útivistar og útilegu. Fljótt kom áhugi á að byggja skála við vatnið og fékk félagið úthlutað lóð og var skálinn Skátalundur vígður 25. júní 1968.

Um svipað leyti kom skátasveitin Riddarar í Skátafélaginu Hraunbúum sér upp varðeldalaut sunnan við vatnið, á milli Ássels og Hvaleyrarsels. Settu þeir upp bekki í hring úr rafmagnsstaurum og útbjuggu eldstæði í miðjunni en sveitarforingjar þá voru þeir Ólafur Sigurðsson (Óli Sill) og Hermann Sigurðsson. Þarna var þetta undir brekku er hvergi neitt tré var að sjá en fallegur staður og skjólgóður til að sitja í kvöldsólinni.

Á Selfjalli ofan seljanna eru leifar stekks og fjárborgar. Sunnan þess, í norðanverðum Seldal, eru leifar sels.

Riddaralundur

Eldri skátar rifja upp gamla tíma í Riddaralautinni.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum tekur u.þ.b. 20-30 mínútur. Stígar í skóginum eru fjölmargir og mislangir en vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemmingu á hinum ólíku árstíðum.

12 – Ássel

Ássel

Ássel.

Flestir ganga greiðfæra stíginn í kringum Hvaleyrarvatn án þess að átta sig á því að þarna leynast minjar mannvistar frá fyrri öldum.

Sunnan við Hvaleyrarvatn, skammt frá skátaskálanum Skátalundi, undir Selhöfða, eru tóftir tveggja selja, Ássels og Hvaleyrarsels.

Niður undir landi skátanna, á grónum hól eru tóftir sels sem talið er að hafa verið frá bænum Ási sem stóð við Ástjörnina, undir Ásfjallinu. Þetta er sel frá því um 1900 er Jófríðarstaðir og Ás skiptu með sér aðstöðunni við norðaustanvert vatnið

Á Íslandi var seljabúskapur stundaður frá landnámi fram á 19. öld en var á undanhaldi ofanvert á 18. öld eða jafnvel fyrr. Í seljabúskap voru mjólkandi skepnur, aðallega ær en í einhverjum tilvikum kýr, reknar í sel snemma sumars og hafðar á beit þar yfir sumarmánuðina, frá 6. til 16. viku sumars. Samkvæmt ritheimildum var dæmigert að sel skiptust í þrjá hluta: íveruhús, búr og eldhús. Utandyra voru yfirleitt stekkir eða kvíar skammt frá, afgirt svæði þar sem hægt var að mjólka skepnurnar.

Selstöðurnar voru jafnan við vötn, ár, læki eða náttúrleg vatnsstæði.

Ganga umhverfis Hvaleyrarvatn og stíga í skóginum. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá og upplifa skógarstemminguna.

13 – Beitarhús

Beitarhús

Beitarhús í Húshöfða.

Aðsetur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er á Húshöfða og skógurinn sem þar hefur verið myndaður nú kallaður Höfðaskógur.

Næst Kaldárselsvegi er þjónustubygging en suðvestar á svæðinu, á Beitarhúsahálsi, er skáli félagsins, skammt frá trjásýnilundi sem vígður var á 50 ára afmæli félagsins.

Sunnan skálans er nokkuð stór tóft (tótt) í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum en Jófríðarstaðasel varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af. Sjá má tóftir selsins skammt norðan við beitarhúsið.

Er talið að selið hafi síðast verið notað árið 1922 frá Ási.

Skammt fá tóftinni er útikennslustofa félagsins. Þetta er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan hjónanna Harðar Zóphaníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.

Allt umleikis eru fræðslustígar um hin ólíklegustu trjádæmi og plöntur.

Fleiri tóftir, m.a. af seli frá Jófríðarstöðum, eru á svæðinu, en þessi er þeirra stærst.

Ganga um skógarstíga og umhverfi Hvaleyrarvatns. Stígar í skóginum eru fjölmargir og vel þess virði að ganga um þá, skoða trjásýnisafnið, rósagarðinn og bara upplifa alvöru skógarstemmingu.

14 – Fuglstapaþúfa

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Fuglstapaþúfa er við Þúfubarð á Hvaleyrarholti en gatan er kennd við þúfuna.

Svæðið, sem hún er á, hefur verið látið óhreyft er segir nokkuð til um vægi þess í hugum fólks þegar hverfið var að byggjast upp. Ábúendur í nágrenninu fylgdust með því er farfuglarnir komu í holtið á vorin eða hópuðust saman við þúfuna á haustin á leið þeirra til baka.

Í deiliskipulagi er hverfisvernd skilgreind á svæði milli Kelduhvamms og Þúfubarðs, Fuglstapaþúfu sem skal vera opið og óraskað svæði. Þúfurnar voru á jökulsorfnum klöppum, syðri þúfa við Þúfubarð og nyrðri þúfan við olíutanka norðan Melabrautar.

„Innan hverfisverndar má hvorki raska landslagi né gróðri og eru allar framkvæmdir háðar framkvæmdaleyfi“.

Fuglstapaþúfa er landamerki milli Hvaleyrar og Ófriðarstaðalanda.

Þann 22. nóv. 1907 var ákveðið í 1. grein laga um bæjarstjórn Hafnarfjarðar að takmörk kaupstaðarins yrðu sem hér segir:

„Úr sjó Arnarklettar utanvert við Balatún [varða], sjónhending eftir takmörkum Hafnarfjarðarhrauns og Dysjamýrar, þar til kemur á hinn forna veg frá Görðum til Reykjavíkur [varða]. Eftir þeim vegi í Engidal [varða]. Þaðan eftir nyrðri brún Hafnarfjarðarhrauns, þar til kemur móts við austurhorn Hraunsholtstúns. Þaðan bein stefna yfir neðanverðan Kaplakrika í vörðu á háholtinu fyrir ofan Jófríðarstaði, þaðan yfir í Fuglastapaþúfu efri beina leið í sjó fram. Kaupstaðurinn skal skyldur til að setja nægilega mörg varanleg merki, er sýni greinilega takmörk landsins, og viðhalda þeim.“

Víða um bæinn eru óröskuð svæði eða svæði sem eiga sér sögu sem vert er að minnast og er Fuglstapaþúfa og ÓlaRunstúnið gott dæmi um slík svæði. Auða lóðin þar sem Fuglstapaþúfan er, var á sjöunda áratugnum vinsælt leiksvæði barna í hverfinu og þarna voru byggðir kofar og var þarna mikið líf. ÓlaRunstúnið var einnig gríðarlega vinsælt meðal barna í svæðinu sem léku þar fótbolta á sumrin og renndu sér á sleðum og skíðum á vetrum. Var vera barna á túninu ekki alltaf vinsæl því Ólafur Runólfsson heyjaði túnið og það jók ekki á sprettuna að strákar væru þar að hamast í fótbolta.

15 – Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir.

Bærinn Jófríðarstaðir suður á Hamrinum hét áður Ófriðarstaðir, nefndur í heimildum frá 1595 sem sérstakur bær og var þá konungsjörð. Er talið að nafnið Ófriðarstaðir hafi komið til eftir bardaga milli enskra kaupmanna og Hansakaupmanna um yfirráð mikilvægrar verslunar í Hafnarfirði.

Árið 1816 er þetta land, allt sunnan frá Bruna (Hafnarfjarðarmegin við Straum) og allt vestur að Fiskakletti í Hafnarfirði komið í eigu Bjarna riddara Sívertsens.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Á árunum 1921 og 1922 keypti Kaþólska trúboðið á Íslandi jörðina Jófríðarstaði. Jófríðarstaðir voru ein af þeim fjórum bújörðum sem Hafnarfjarðarkaupstaður stóð á. Örnefnaskráning Hafnarfjarðar fyrrum var grundvölluð á jörðinni. Hinar voru Akurgerði, Hamarskot og Hvaleyri.

St. Jósefsskirkja, sem vígð var 3. júlí 1993, stendur rétt við efsta hluta Jófríðarstaða en töluvert graslendi er í kringum kirkjuna. Hugmyndir voru uppi fyrir all nokkrum árum að byggja á túninu en mikil andmæli íbúa urðu til þess að svo varð ekki – að sinni. Víðsýnt er frá Jófríðarstaðaholtinu.

Markmiðið er að njóta fallegra staða, útsýnisins yfir Hafnarfjörðin fyrrum, kynnast sögunni og hreyfa sig svolítið í leiðinni. Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á góða heilsu bæjarbúa og gesta þeirra.

Heimild:
-https://ratleikur.fjardarfrettir.is/litli-ratleikur-hafnarfjardar/litli-ratleikur-2020/

Skólpstöðin

Óseyri – Skólpstöðin.