Tag Archive for: lághitasvæði

Hverasvæði

Hvera- og jarðhitasvæðin eru nokkur á Reykjanesskaganum, enda landsvæðið bæði tiltölulega ungt á jarðfræðilegan mælikvarða auk þess sem flekaskil liggja um skagann endilangann. Þau skiptast í háhita- og lághitasvæði.
Helstu háhitasvæðin eru í Brennisteinsfjöllum, á Hengilssvæðinu, yst á Reykjanesi, í Krýsuvík, við Trölladyngju, við Stóru Sandvík, í Eldvörpum og í Svartsengi. Sum svæðanna tengjast innbyrðis að einhverju leyti.

Háhitasvæði
Á vefnum Wikipedia.org er fjallað almennt um háhitasvæði:
„Háhitasvæði eru svæði þar sem hiti á 1 km dýpi er yfir 200°C. Jarðhitasvæðum er skipt eftir hámarkshitastigi í efsta lagi jarðskorpu en það er gjarnan metið með mælingu á hitastigli svæðisins. Háhitasvæði eru iðulega að finna á virkum gos- og rekbeltum, ýmist á flekamótum eða flekaskilum. Þar er jarðskorpan heitust og fer kólnandi eftir því sem fjær dregur og jarðlögin jafnframt eldri. Ummerki um háhitasvæði á yfirborði jarðar eru brennisteinshverir, gufuhverir, leirhverir og vatnshverir.

Háhitasvæði
Hitastig í miðju jarðar í kjarna hennar er um 7000°C. Uppruni þessa hita er tvíþættur. Sú orka sem átti þátt í myndun jarðarinnar fyrir 4600 milljónum ára umbreyttist í varma. Hins vegar myndast varmi í möttli og jarðskorpu vegna klofnunar geislavirkra samsæta á borð við þóríum 232Th, úraníum 238U og kalíum 40K0 og berst hann til yfirborðsins með varmaburði og varmaleiðni.

Laugardalur

Laugardalur – þvottalaugarnar.

Talið er að maðurinn hafi öldum saman nýtt sér jarðhita til að mæta ýmsum þörfum. Þar má nefna notkun til baða, þvotta, matseldar og iðnaðar. Ein frægasta laugin á Íslandi er líklega Snorralaug. Þá bendir ýmislegt til þess að jarðhiti hafi verið notaður til ylræktar til dæmis í Hveragerði og á Flúðum. Eins og nafn þeirra bendir til, voru Þvottalaugarnar í Laugardalnum lengi vel notaðar til þvotta og upp úr 1930 var farið að nota þær til húshitunar. Laugardalurinn telst þó til lághitasvæða. Þegar olíukreppa skall á árið 1970 hófst mikil vinna við að finna orkugjafa sem leysti olíu og kol af hólmi til kyndingar. Í dag eru opinberar hitaveitur á fjórða tug og litlar sveitahitaveitur tæplega tvö hundruð.

Ítalir voru fyrstir til að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu en þá var gufuvél tengd við rafal sem framleiðir rafmagn. Í kjölfarið var fyrsta jarðhitavirkjun heims reist þar með 250 kW afköstum. Í dag er afl virkjunarinnar rúmlega 700 MW og til stendur að stækka hana í 1200 MW.  Íslendingar hafa lengi verið í fremstu röð hvað varðar jarðhitarannsóknir og jarðhitanýtingu.“

Á vefsíðum Orkustofnunnar og ÍSOR má lesa eftirfarandi um háhitasvæðin:
Megineldstöðvar
„Mið-Atlantshafshryggurinn liggur í gegnum Ísland, sem skýrir dreifingu jarðhitans um landið. Öflugustu háhitasvæðin liggja öll í gosbeltinu sem hefur myndast á flekaskilum. Þar eru skilyrði sérlega góð til myndunar jarðhitakerfa vegna nægra varmagjafa í formi heitra kvikuinnskota og margsprunginnar og vel vatnsgengrar jarðskorpu. Hringrás vatnsins flytur smám saman varma frá dýpri hlutum skorpunnar upp undir yfirborð þar sem hún þéttir að nokkru leyti yfirborðsjarðlögin með útfellingum og myndar jarðhitageyma eins og þekktir eru frá borunum niður á 1 – 3 km dýpi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – aðkoman upp frá Fagradal – ÓSÁ.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðarstapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Brennisteinsfjöll voru á náttúruverndaráætlun 2003-2008. Þau þykja sérstök vegna óvenju fjölbreyttra jarðmyndana og þá einkum gosmenja. Bent er á að Brennisteinsfjöll og umhverfi eru meðal fárra slíkra svæða nærri höfuðborgarsvæðinu sem mega heita ósnert. Hins vegar er land þar niðurnítt af beit og uppblásið með flögum og vatnsgrafningum.
Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir.
Megingerð jarðlaga er móberg og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.

Hengilssvæði

Hengilssvæðið

Horft yfir Hengilssvæðið að hluta.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 140 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn. Vesturhlutinn tengist eldstöðvarkerfi Hengilsins. Innan hans eru vinnslusvæðin á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Austan Hengils er Ölkeldu­hálssvæðið, sem tengist Hrómundar­tindseldstöðinni. Sunnan þess er Hverahlíð og ný gögn benda til að vinnanlegur jarðhiti geti verið við Gráuhnúka og Meitil. Austasti hluti háhita­svæðisins tengist Hveragerðiseldstöðinni sem er útdauð og sundurgrafin.

Hellisheiðavirkjun nýtir jarðhitavökva frá Hellisheiði og Hverahlíð. Alls er talið að Hengilssvæðið geti staðið undir um 700 MWe rafafli og enn meira varmafli.

Jarðhiti á Hengilssvæðinu

Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu.

Hengilssvæðið nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Gosmyndanir á svæðinu eru um 800.000 ára gamlar. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil.

Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar. Aðalgerðir eldstöðva eru þó einungis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti, eins og verið hefur á Hengilssvæði allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar, sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan til inn í Hengilssvæðið.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma. Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það.

Laus jarðlög þekja sléttlendi og fjallshlíðar eru hvergi mjög skriðurunnar nema þar sem þykk hraunlög eru í brúnum eða fjöllin eingöngu úr bólstrabergi. Um vatnafar á Hengilssvæðinu skiptir í tvö horn. Á því vestanverðu eru stöðugar lindir og lækir einungis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau halda vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir árið um kring.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur er það a.m.k. þrískipt:

Grændalur

Í Grændal.

Suðaustasti hluti þess er í Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur). Hún er hætt gosum og þegar nokkuð rofin. Boranir í Hveragerði og upp með Varmá hafa sýnt að þar er á ferðinni afrennsli af heitara svæði norðar eða norðvestar. Vinnsla umfram það sem núverandi borholur gefa myndi því byggjast á borunum í Grændal. Ef nefna ætti eitthvert séreinkenni þessa svæðis, þá væru það kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum, eða hinar fjölmörgu laugar sem spretta fram úr berghlaupum í Grændal. Innan um eru gufuhverir sem gjarnan fylgja sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum. Mörg dæmi eru um hverabreytingar á þessu svæði, bæði fornar og nýjar. Svæðið er þægilega lágt í landinu, um og innan við 200 m. Aðgengi útheimtir vegalagningu yfir skriðurnar vestan megin í dalnum án þess að spilla hverum eða laugasvæðum.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Ölkelduhálssvæðið sker sig úr fyrir kolsýrulaugarnar sem eru í þyrpingu frá Ölkelduhálsi suður í Reykjadal og í Hverakjálka. Jarðhitinn þar fylgir gosrein með misgömlum móbergsfjöllum og stökum hraungígi, Tjarnarhnúki.
Loks er jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Það nær frá Nesjavöllum suðvestur í Hveradali og Hverahlíð. Jarðhitinn er mestur og samfelldastur utan í Hengli alls staðar nema norðvestan megin. Brennisteinshverir eru mestir vestan til í Henglafjöllum, þ.e. í Sleggjubeinsdölum, norðan við Innstadal og ofan við Hagavíkurlaugar. Austan megin eru kalkhverir og kolsýrulaugar algengar. Jarðhitanum á Henglafjöllum má hugsanlega skipta í nokkur vinnslusvæði, sem öll gætu verið innbyrðis í þrýstisambandi: Nesjavelli, Sleggjubeinsdal, Hellisheiði, Hverahlíð, Þverárdal, Innstadal og Fremstadal.
Landslag á svæðinu er fjöllótt og vinnsla jarðhita fer mjög eftir aðgengi að viðkomandi svæðum. Einnig eru jarðhitasvæðin misjafnlega heppileg til nýtingar, sem aðallega fer eftir hita og kolsýruinnihaldi.

Reykjanessvæði

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á Reykjanesi kemur gliðnunarbelti Reykjaneshryggjarins úr sjó. Eystri hluti Reykjaness er klofinn af misgengjum og opnum gjám, en vestari hlutinn að mestu hulinn yngri hraunum úr Stamparöðinni. Úr henni hefur gosið 3-4 sinnum á síðustu 5 þúsund árum, síðast 1226. Líklegt er að tvær aðskildar sprungureinar séu á Reykjanestá, og að háhitakerfið sé tengt þeirri eystri en nái ekki yfir í þá sem vestar liggur, þ.e. Stampareinina. Viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið sé bundið við þrönga uppstreymisrás eða sprungu og heitt afrennsli út frá henni á 2–300 m dýpi í allar áttir. Þegar rýnt er í viðnámsmyndina neðan lágviðnámskápunnar niður á 5 km dýpi má sjá svæði eða strók með lægra viðnámi en umhverfis. Vökvinn í jarðhitakerfinu er jarðsjór og hiti fylgir suðumarksferli yfir 300°C. Stærð svæðisins er talin um 9 km2 og vinnslugeta er metin 45 MWe.

Framkvæmdasvæðið er innan svæðisins Reykjanes-Eldvörp-Hafnaberg sem er á Náttúruminjaskrá, ekki síst vegna merkilegra jarðmyndana. Einnig njóta jarðmyndanir á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Það á við um nánast öll hraun á svæðinu, fjölda gíga, Stamparöðina og Skálafell og hvera­svæðið við Gunnuhver.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi

Gunnuhver

Á Reykjanesi – Gunnuhver og nágrenni.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi (á hælnum) er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr. Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.

Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells. Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.

Stampar

Stampar.

Á Reykjanesi er að finna mörg jarðfræðileg fyrirbæri sem vert er að skoða. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampagígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó en hafa reynst skammlífir.

Kísilhóll

Kísilhóll h.m.

Langlífari hefur verið goshver í svo kölluðum Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metraþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land.

Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.

Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.

Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu en jafnframt seljanlega vöru.

Krýsuvíkursvæðið – Seltún

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Krýsuvík er hluti af Fólkvangi á Reykjanesskaga. Land í Krýsuvík er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn.

Meginsvæðið er um 80 km2 að flatarmáli. Umfangsmiklar rannsóknir standa yfir en segja má að miðja uppstreymis sé enn ekki staðsett. Í Trölladyngju eru tvær borholur. Í báðum er um 250°C hiti ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 330°C hita á rúmlega 2 km dýpi. Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á Sveifluhálsinn, með gufu- og leirhverum. Í Krýsuvík hefur dýpst verið borað um 1200 m. Hæstur hiti í borholum þar er í Hveradölum um 230°C og nærri suðuferli niður á um 300 m dýpi en þar neðan við kólnar.

Viðnámsmælingar gefa vonir um að rafafl svæðisins sé 440 MWe og varmaafl öllu meira. Svæðið er metið 89 km2 og rafafl 445 MWe. Óvissa ríkir um vinnslugetu meðan miðja uppstreymis er ekki fundin með rannsóknarborunum.

Jarðhitasvæðið Krýsuvík

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Fjögur þau fyrsttöldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmm jafnlínu. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2. Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300-400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum báðum megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður að lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.

Hveravirknin á fyrrnefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.

Baðstofa

Í Baðstofu.

Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á hálsinn, með gufu- og leirhverum. Þar er nokkuð um brennisteinshveri og miklar gifsútfellingar. Hverir eru einnig í Grænavatni. Frá Grænavatni og Gestsstaðavatni liggja gossprungur með fleiri gígum til norðurs, og stefnir önnur upp í Hveradali en hin á hverina við Seltún. Hæstur hiti í borholum er í Hveradölum um 230°C. Dýpst hefur verið borað um 1200 m. Hiti er nærri suðuferli niður á ~300 m dýpi en þar neðan við kólnar. Engar mælingar eru til úr borholum neðan 400 m.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja vegna. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta en var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norður frá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Köldunámur

Köldunámur.

Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver) en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gifsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.

Leynihver

Leynihver.

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir fyrrnnefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum, suður á móts við Hverinn eina, er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni. Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni og hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar gefa um 260°C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320°C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Sogin

Í Sogum.

Jarðhitinn sem kenndur er við Sandfell er í hrauni norðaustan undir fellinu. Þar stígur gufueimur máttleysislega upp á nokkrum stöðum. Á bletti er leirkennd ummyndun í jarðvegi og þar hefur hiti mælst nærri suðumarki. Móbergið í Vesturhálsi er nokkuð ummyndað á móts við Sandfell og inn með Selvöllum og þar eru grónar hlíðar með rennandi lækjum. Uppi á háhálsinum gegnt gufunum við Sandfell er allstór, leirgul hveraskella en alveg köld. Svæðið gæti samkvæmt því verið stærra en sýnist af yfirborðsmerkjunum.

Hitalækkun í borholum eftir að nokkur hundruð metra dýpi er náð hefur vakið spurningu um hvar uppstreymis sé að leita. Boranirnar í Trölladyngju benda til að þar sé þess að leita undir Sogum. Í Krýsuvík væri þess helst að leita undir Sveifluhálsi. Austurengjahitinn er í útjaðri jarðhitakerfisins skv. viðnámsmælingum, líkt og Trölladyngjuholurnar vestan megin. Svæðið þar sem viðnámsmælingar skynja hátt viðnám undir lágu þarf ekki að lýsa núverandi ástandi því þær sjá ekki mun á því sem var og er >240°C heitt.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Niðurstöður djúpviðnámsmælinga gefa til kynna að jarðhita kunni að vera að finna á Stóru Sandvíkursvæðinu. Ekki er unnt að meta stærð hugsanlegs jarðhitageymis því veru­legur hluti hans gæti legið utan við ströndina. Boranir þarf til að fullvissa sig um hvort nýtanlegur hiti sé á svæðinu. Líklegt er að jarðhitakerfið sé tengt jarðhitakerfinu á Reykjanesi og því mætti líta á Stóru Sandvík sem annan virkjunarstað á Reykjanessvæðinu.

Eldvörp – Svartsengi

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Í Svartsengi hefur verið rekin jarðhitavirkjun frá 1977 og er núverandi afl hennar 70 MWe. Í Eldvörpum liggur fyrir hugmynd um að virkja 30-50 MWe í fyrsta áfanga. Borhola, EG-2 var boruð þar árið 1983 niður í 1265 m dýpi. Hún hefur aldrei verið nýtt, en hefur verið blástursprófuð og eftirlitsmæld nær árlega alla tíð síðan. Hún sýnir náin tengsl við jarðhitasvæðið í Svartsengi, og niðurdælingasvæði Svartsengis liggur mitt á milli svæðanna. Svæðið Eldvörp-Svartsengi er talið um 30 km2 og rafafl þess er metið 150 MWe.“

Lághitasvæði

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

Í Wikipedia.org er einnig fjallað um lághitasvæði:
„Lághitasvæði eru skilgreind svæði með jarðhita þar sem hiti er lægri en 150°C á 1-3 km dýpi í jörðu. Lághitasvæði Íslands eru fjölmörg en þau eru misdreifð um landið. Mikill lághiti er á Vestfjörðum, í Borgarfirði og víða um Suðurland og Miðnorðurland. Lítið er um lághita á Austfjörðum og í Skaftafellssýslum. Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota beinist að því að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar.

Lághitasvæði eru stundum talin nálægt 250 á landinu, og eru þau mjög misstór, allt frá einstökum volgrum og upp í nokkra tugi uppsprettna. Oft er erfitt að skera úr hvað skuli teljast til eins og sama lághitasvæðis, og geta slíkar skilgreiningar breyst með tímanum eftir því sem þekking eykst á einstökum svæðum.“

Á vef ÍSOR segir um lághitasvæði:
Lághitasvæði„Lághitasvæði landsins eru utan við virka gosbeltið sem nær frá Reykjanestá norður um landið út í Öxarfjörð. Þau ná frá jöðrum gosbeltanna, út um allt land og út á landgrunnið. Að vísu má ná ágætis lághitavatni innan gosbeltisins, hvort heldur er til húshitunar, garðyrkju eða fiskeldis, og eru Reykjanesskaginn og Öxarfjörður gott dæmi þar um.

Lághitarannsóknir

Ölkelda

Ölkelda í Hengladölum – nú horfin.

Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota gengur út á að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar. Einstaklingar og smærri byggðarlög eiga því nokkuð undir högg að sækja þar sem samanlagður jarðhitaleitar- og vinnslukostnaður má ekki fara yfir ákveðið hámark á einhverjum ásættanlegum afskriftatíma, þó í reynd njóti nokkrar kynslóðir góðs af stundum áhættusamri jarðhitaleit.

Með breyttri tækni í jarðborunum hefur þróast upp ný leitartækni hjá ÍSOR sem kallast hefur jarðhitaleit á köldum svæðum (þurrum svæðum) og gengur slík leit út á að gera fjölda viðnámsmælinga eða bora margar 50-60 m djúpar ódýrar hitastigulsholur á tilteknu landsvæði og finna þannig út hvar grynnst er á nýtanlegan jarðhita til húshitunar (helst >60°C). Ef álitlegur valkostur finnst er nokkur hundruð metra djúp vinnsluhola boruð.“

Reykir
Lághitasvæði á Reykjanesskaganum eru t.d. yst á Reykjanesi, á Krýsuvíkursvæðinu, í Ölfusdölum, á Hengilssvæðinu og á Reykjavíkursvæðinu, s.s. á Reykjum í Mosfellsbæ og í Hvammsvík í Kjós.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1hitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://orkustofnun.is/jardhiti/jardhitasvaedi-a-islandi/hahitasvaedi/
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-i-brennisteinsfjollum
-https://www.isor.is/jardhiti-hengilssvaedinu
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-reykjanesi
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-krysuvik
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A1ghitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://www.isor.is/laghiti

Hverasvæði

Á hverasvæði Reykjaness.