Á norðvestanverðri Valhúsahæð á Seltjarnarnesi er stór landamerkjasteinn, sem áður var í fornum landamerkjagarði frá því á 11. öld (að talið er). Garðurinn náði millum jarðanna Ness og Eiðis. Á steininn er klappað „LANDAMERKI„.
Á vefsíðu Seltjarnarnesbæjar 2. júní 2016 má lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Ísland endurmælt með upphafspunkt á Valhúsahæð“:
„Eins og fram kom í frétt Morgunblaðsins miðvikudaginn 1. júní, stendur til á næstu mánuðum að endurmæla og –reikna alla punkta í grunnstöðvaneti landmælinga á Íslandi. Verkefninu var formlega ýtt úr vör í gær þegar mælitæki var sett af stað á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi, en frá árinu 1904 hefur þar verið einn af grunnpunktum í mælikerfi landsins.
Eftir nokkra daga ættu að vera komnar niðurstöður úr þessari einstöku mælingu, segir í blaðinu. Umræddur grunnpunktur, sem fjallað er um, er svokallaður Landamerkjasteinn með áletruninni LANDAMERKI.
Steinninn var skráður í fornleifaskráningu árið 1980, en líklegt má telja að steinninn hafi átt að marka land á milli norðan- og sunnanverðs Ness“
Í „Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi 2006“ segir: „Áletrun – landamerki; landamerkjasteinn með áletrun norðvestarlega á Valhúsahæð. Hann er fast vestan við Þvergarð, um 80 m austan við Valhúsabraut en um 130 m SSV við norðurenda Þvergarðsins. Ekki er ljóst á hvaða merkjum steinninn er. Þvergarður hefur frá fornri tíð markað land milli Ness og bæjanna austarlega á nesinu og því lítil ástæða til að ætla að klappað hafi verið í steinninn til að marka af land milli austur- og vesturness. Líklegra má e.t.v. telja að steinninn hafi átt að marka land á milli norðan- og sunnanverðs ness. Þá hugsanlega merki Bakka og Ness eða upphaf markalínu milli Mýrarhúsa/Eiðis og Hrólfsskála. Ekkert er vitað um aldur áletrunarinnar.
Valhúsahæð er lítt gróinn melur. Að vestanverðu er hún stórgrýtt klapparholt. Steinninn er talsvert stærri en aðrir steinar á holtinu. Landamerkjasteinninn er um 1,4 m hár, um 2 m á lengd en 1,5 m á breidd. Í norðurhlið hans er klappað „LANDAMERKI“. Áletrunin er tæpir 35 cm á lengd en 2-3 cm á hæð. Steinninn var skráður í Fornleifaskráningu.“
Heimildir:
-http://www.seltjarnarnes.is/frettirogutgefidefni/frettir/nr/9780 – www.selstjarnarnes.is 02.06.2016
-Fornleifaskráning á Seltjarnarnesi, Fornleifastofnun Íslands 2006.