Tag Archive for: Langihellir

Strompahellar

Stefnan var tekin á Bláfjöll, nánar tilekið Strompasvæðið. Strompahraunið er auðugt af hellum, s.s. Langahelli, Djúpahelli, Tanngarðshelli, Krókudílahelli, Rótahelli, Ranghala, Rósahelli, Bátahelli, Goðahelli og fleirum, sem munu koma við sögu síðar í FERLIRslýsingum af þessu svæði. Nú var ætlunin hins vegar einungis að skoða svæðið kíkja í Langahelli.

Langihellir

Í Langahelli.

Á leiðinni um Bláfjallaveginn var ákveðið að kíkja í Dauðadalahellana undir Markraka. Þar er Flóki einna lengstur og margflóknastur, eins og nafnið ber með sér. Ekki er ráðlegt að fara niður og inn í hann nema með öðrum og þá eftir að hafa gert ákveðnar ráðstafanir áður því auðvelt er fyrir ókunnuga að villast í hellinum. Aðrir smáhellar eru þarna í hrauninu, sem vert að að skoða.

Stromparnir í Strompahrauni eru fallegir smágígar, mosavaxnir. Neðan þeirra er hraunið holuga. Langihellir er um 700 metra langur í heildina. Hann er vestan við Djúpahelli.

Strompahellar

Í Strompahellum.

Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru einnig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Nyrsti hluti Langahellis nefnist Goðahellir. Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.
Vegna þess hve botninn er sléttur og engu hruni fyrir að dreifa í hellnum, sem telst kostur, er auðvelt að fara um hann með krakka.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi eftir Björn Hróarsson

Bláfjallahellar

Bláfjallahellar – uppdráttur ÓSÁ.

Maístjarnan

Gengið var um Sandfellsklofa, með Sandfelli, yfir norðuröx Hrútfells og að Hrútagjárdyngju.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Norðan hennar var staðnæmst og litið yfir hraunin og höfuðborgarsvæðið áður en horfið var niður í Húshelli. Í hellinum, sem fannst 1968, eru húshleðslur og bein. Hann er mjög rúmgóður og alveg sléttur í botninn. Ekkert hrun er í hellinum.
Snjór þakti jörð. Kynntir voru aðrir hellar á svæðinu, s.s. Steinbogahellirinn, Híðið, Langihellir og Maístjarnan, en ekki var farið í þá að þessu sinni því markmiðið er að takmarka umferð í þá svo sem kostur er.
Með í för var m.a. geðþekki ráðherrann, Halldór Ásgrímsson og Örlygur Sigurðsson, blaðamaður MBL o.fl.
Fjallið eina teigði sig upp úr fannbreiðunni og lagði við koll.
Veður var skínandi gott til gönguferðar þennan nýársdagsmorgun.

Húshellir

Í Húshelli.