Færslur

Eskines

Í Lesbók Morgunblaðsins 1952 fjallar Ólafur Þorvaldsson um “Gálgahraun og Eskineseyrar”.

Gálgahraun

Í Gálgahrauni.

“Í LESBÓK Morgunblaðsins, 31. tbl., skrifar Árni Óla blaðamaður grein, sem hann nefnir Gálgahraun. Greinin er hin fróðlegasta, svo sem vænta mátti úr þeirri átt. Þar lýsir höfundur vel og glögglega þessum afvikna stað, Gálgahrauni, legu þess, margbreyttri náttúrusmíð, gróðri og fuglalífi. Einnig rekur hann í grein þessari allýtarlega gamlar harmsögur, sem tengdar eru þessum stað, — en sem betur fer, eru fyrir löngu hættar að endurtakast hér á landi. Þetta eru gamlar íslenzkar raunasögur, sem verður að segja svo sem til hafa gengið, ef á þær er minnst.
Þegar ég hafði lesið umgetna grein, þá datt mér í hug, hvort úr vegi væri, að sagt væri dálítið meir frá stað þessum, sem þótt svo nálægur sé mestu miðstóð allra ferðalaga, er nú sennilega mjög fáfarinn og allur fjöldinn veit ekkert um, að hann hafi nokkru sinni verið nokkrum til nota, þangað hafi víst fátt nýtilegt verið að sækja.
Ég mun því í línum þessum bregða upp augnabliks mynd af því, hvernig menn af næstu bæjum og byggðarlögum notfærðu sér hlunnindi þau, sem þarna buðu sig fram. Nú hefir staður þessi orðið útundan, og enginn talar lengur um að fara „inn í Gálgahraun”, til eins né neins. Tímarnir hafa breytst, — mennirnir hafa breytst. Þeir, sem einkum notfærðu sér það, sem þarna var að hafa, voru aðallega Garðhverfingar, dálítið Hafnfirðingar og Hraunsholtsbóndinn, einkum beit.

Garðahraun

Götur í og við Garðahraun.

Úr Hafnarfirði og Garðahverfi mun vera sem næst þriggja stundarfjórðunga gangur í Gálgahraun. — Meðan flestir fóru gangandi í allar skemmri ferðir, varð margur spottinn einum og öðrum helzt til langur, einkum þegar mikið var borið og veður og færð misjafnt. Nú má segja að flestar vegalengdir séu horfnar með breyttum samgöngutækjum, enda flestir, sem eitthvað ferðast, sem kjósa hinar fljótfarnari leiðir. Við þetta gleymast, jafnvel týnast, margir hinna ósnortnu staða, og er þetta því meiri eftirsjá, sem margir þessir staðir búa yfir gömlum sögnum, fegurð og friðsæld.
Árni Óla hefir manna mest unnið að því að vekja athygli fólks á mörgum þessara afskekktu staða, og veit ég að hann telur sig hafa fengið „borgaða skóna”, sem hann hefir slitið í ferðum sínum á þessar slóðir.
Ég get búist við að nú finnist ýmsum heldur lítið koma til hlunninda þeirra, sem þessi staður lét í té, meðan nýttur var, en muna verður það, að þá voru aðrir tímar en nú eru og menn lutu þá oft að því, sem nú er framhjá gengið, enda ekki lengur þörf slíkrar nýtingar.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Þeir, sem einkum fóru til aðdrátta í Gálgahraun voru aðallega Garðhverfingar, svo og eitthvað Hafnfirðingar, og var það þang og marhálmur, sem þangað var sótt, og var það bæði rekaþang og skorið þang. — Betra þótti rekaþang til brennslu, en þang það, sem skorið var, aðallega fyrir það, að minna salt virtist í því og þornaði því fyrr. Þangið var borið upp úr fjörunni á þerrivöll, og var stundum hrófað upp garðabrotum, sem þangið var svo breitt á, því bezt blés það þannig. Þegar þangið var orðið þurrt, báru menn það oftast heim á sjálfum sér, í stórum byrðum eða sátum, þar eð fæstir þurrabúðarmenn áttu hesta. Þetta var langur burður og vegurinn heldur stirður. — Já, svona var þetta þá.
Um marhálminn. sem einnig rak þarna á land, aðallega úr Lambhúsafjöru, er svipaða sögu að segja, hvað umhirðu áhrærir, — en hann var ekki notaður til eldsneytis, til þess vax hann algjörlega ónýtur.

Eskines

Eskines.

Marhálmurinn var eingöngu notaður til einangrunar í hús, sem byggð voru úr timbri, sem fleat voru í þá daga. Marhálmurinn var seldur til Reykjavíkur og Haínarfjarðar og keyptu Reykvíkingar hann mikið, þegar byggð voru fyrstu íshúsin þar, svo sem Nordals íshús og ísbjörninn. Allur var marhálmurinn fluttur á sölustað á hestum í svo stórum sátum, að huldu að mestu hestana, svo léttur var hann vel þurr. Úr því ég minnist á marhálm og sölu hans, get ég ekki á mér setið að minnast hér þess manns, sem lengst mun hafa haldið uppi sölu marhálms til áðurnefndra staða. Maður þessi var Álftnesingurinn Guðmundur Þóroddsson í Lásakoti. Guðmundur var mjög bagaður á fótum, og var alþekktur undir nafninu „Gvendur á kartöflunum”. Enga sök átti Guðmundur á þessari fótabæklun og var viðurnefnið ómaklegt.

Marhálmur

Marhálmur.

Mörg síðustu ár marhálmsverslunar sinnar flutti Guðmundur hann á tveimur hestum og gekk sjálfur í kaupstaðinn, hvort heldur var til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar, og var undravert, hve hann entist til að staulast þessu löngu leið, oft dag eftir dag, jafn átakanlega og hann var bagaður. Úr kaupstað sat svo Guðmundur á öðru hrossinu, á reiðingsmeljunni, en hengdi hitt af reiðingnum á hitt hrossið, ásamt einhverjum trússum, því allvel varð Guðmundi víða til. Fyrir kom það, á þessum verslunarferðum Guðmundar, að Bakkus slóst í för með honum, og gættu þeir þá ekki ávallt sem bezt, hvernig fór á trússunum, enda kom víst fyrir að eitthvað fór þar forgörðum. Nokkuð mun það hafa staðið á endum, að Guðmundur varð fyrir aldurs sakir að hætta verslun sinni og að menn hættu að kaupa marhálminn, vegna þess að þá kom annað einangrunarefni á markaðinn (spænir og sag frá timburverksmiðjum) og að marhálmurinn upprættist með öllu á þessum slóðum, aðallega veturinn 1918—1919. Mestan marhálm sinn mun Guðmundur hafa fengið kringum Skógtjörn og máske eitthvað frá Lambhúsatjörn. Þá er að minnast lítillega á gagn það, sem menn höfðu af Gálgahrauni, til landsins.
Gálgahraun lætur ekki mikið yfir gróðri þeim, sem það býr yfir, en hann er meiri heldur en flesta grunar, sem líta það úr fjarlægð. Gálgahraun fæddi og fóstraði marga sauðkindina, meðan menn hagnýttu sér útibeit. Þó var beitin þar ekki með öllu áhættulaus.

Álftanes

Álftanes.

Gálgahraun, sem er nyrzti hluti Garðahrauns, á sér engin ákveðin mörk að sunnan í hrauninu. Má því segja að Garðahraun breiði þarna úr sér þvert yfir nesið milli tveggja fjarða, Hafnarfjarðar og Skerjaf jarðar.

Gálgahraun

Fornar götur um Gálgahraun.

Vestasti hluti Garðahrauns kallast „Klettar”, og liggur Gálgahraun í norðurbrún þessa svæðis. Áður á árum, þegar Hafnfirðingar og Garðhverfingar, áttu sauðfé svo nokkru nam, mun það lengi hafa verið, að sérstakar ættir fjárins fundu út, að í klettunum var gott að vera. Það urðu því mest sérstakir stofnar, sem héldu sig á þessu landi, allan tíma árs, að undanteknum þeim stutta tíma, sem fé var á fjalli, og eitthvað aí því var þar allt sumarið. Að fé þessu, eða Kletta-fénu, eins og það var kallað, var oftast gerð sérstök smölun, þar eð landið er afar leitótt, erfitt yfirferðar og féð meinrækt. Beit í Klettunum, ásamt Gálgahrauni, var góð, og fjörubeit, hvort heldur til suðurs. eða norðurs, að tæplega brást. Gekk því Klettaféð að mestu úti og töldu fjármenn í Hafnarfirði á þeim tíma, að vel mætti fara með fé þetta á húsi, ef jafnast ætti við beitina í Klettunum. Fyrir jörð tók þarna mjög sjaldan og skjól fyrir öllum áttum svo gott, að á betra varð ekki kosið.

Garðahraun

Í Klettum.

Fé þetta gekk oft að sjó við norðurjaðar Gálgahrauns og inn á „Eyrar”, og stóð þá oft í miklum marhálmsreka, sem talinn var vera á við töðugjöf, þá nýr var.
Hrauntanga þann, sem Árni Óla minnist á, og gengur fram í sjó, milli Arnarnessvogs og Lambhúsatjarnar, hefi ég frá æskuárum heyrt nefndan „Eskineseyrar” og munu eldri nágrannar þessa staðar enn kannast við það nafn, þótt engin viti nú, af hverju dregið er.

Eskines

Eskines – tóftir.

Mér hefir dottið í hug, hvort ekki sé hugsanlegt að Hraunsholtshálsinn eða vestur hluti hans, hafi einhverntíma heitið Eskines og tangi þessi, sem liggur þarna skammt vestar, tekið nafn þar af. Þrír nyrðri hálsarnir, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, heita, sem alkunnugt er, Arnarnes, Kársnes, sem oftast var nefndur Kópavogsháls — og Eskihlíð.
Er ekki hugsanlegt, að syðsti hálsinn hafi einhvern tíma heitið annað en Hraunsholt. Heldur finnst mér nafnið fátæklegt, hafi fornmenn skírt. Nafn á hálsinum gat breytst, eftir að jörðin Hraunsholt var byggð.
Norður af Eskineseyrartánni eru tvö eða þrjú flæðisker, sem komast má að mestu eða öllu þurrt út í á stærstu fjörum. Þarna var hættan fyrir fé það, sem gekk að sjó á þessum slóðum. Furðu sjaldan mun þetta hafa til skaða orðið, enda aðalhættan í stórstreymi, en mun þó nokkuð hafa verið aðgætt, einkum frá Hraunsholti. Þó varð þarna allmikið tjón á fé, um síðustu aldamót. Þá flæddi þar til dauðs 40—50 kindur frá Hafnarfirði og úr Garðahverfi.
Fyrir röskum fjörutíu árum varð ég, ásamt öðrum manni, Snorra Fr. Welding, sjónarvottur að frækilegri björgun nokkurra kinda, sem flæddar voru á einu fyrrnefndra skerja.

Garðahraun

Í Klettum.

Við félagar vorum á leið inn á Eyrar á veiðar. Stórstreymi var, og nokkuð farið að falla að. Suðaustan rok var á og rigning. Þetta var að haustlagi. Þegar við komum það norðarlega á Hraunsholtshálsinn, að við sæjum til Eyranna, sáum við að eitthvað var á hreyfingu á skeri, sem umflotið var orðið sjó, og sundið æði breytt milli lands og skers. Brátt sáum við, að maður óð út í skerið og vissum þá, hvað þarna var að ske. Nokkra stund berst maðurinn við að koma kindunum út í sjóinn, með það fyrir augum, að þær tækju þá til lands, en þær vildu hvergi fara, en merust bara hver um aðra. Óðum hækkaði sjór og sundið breikkaði og dýpkaði við hverja mínútu og hörku straumur kominn í tjörnina. Þessu næst sjáum við manninn hremma eina kindina og vaða með hana til lands. Þannig fer hann fjórar ferðir með eina kind í einu. Við sáum nú hver alvara var hér á ferð, þar eð við sáum ekki betur en sjór tæki manninum í brjóst. Missti maðurinn fótanna á þessu dýpi, var voði fyrir dyrum.

Eskines

Eskines – óskýrð tóft.

Við hertum því hlaupin sem mest máttum, ef við gætum að einhverju liði orðið, sem okkur virtist litlar líkur til, ef maðurinn þyrfti á skjótri hjálp að halda, þar eð báðir vorum við ósyndir. Þegar maðurinn er kominn langleiðis til lands með fjórðu kindina, þá leggja þær tvær, sem eftir stóðu í sundið, sem vitanlega var hreint sund hjá þeim milli skers og lands. Straumur og rok stóð inn sundið og hrakti kindurnar alllangt inn í tjörnina, en náðu þó landi. Þetta skeði samtímis því, sem við komumst fram á tangann. Þarna hafði maðurinn bjargað sex kindum frá drukknun og lagt þar við sjálfan sig í hættu.

Eskines

Eskines.

Það mun sjaldan koma fyrir, að kindur, sem láta sig flæða, fari af sjálfsdáðum af staðnum fyrr, en sjór fellur undir kvið þeirra, en þá er það í flestum tilfellum of seint, og svo hefði áreiðanlega farið hér, eins og vindi og straum var háttað. Á leiðinni út á Eyrarnar vorum við Snorri að dáðst að þrautseigju mannsins og ofurhug — en þó urðum við mest undrandi þegar við sáum hver maðurinn var, og vissum nokkurn veginn um aldur hans, kominn eitthvað yfir sjötugt.

Fógetagata

Fógetagata.

Maður þessi var Eysteinn Jónsson, fyrr bóndi í Hraunsholti, en hættur búskap fyrir nokkru. Ekki æðraðist gamli maðurinn, hvorki yfir erfiði né vosbúð, en ásakaði bara sjálfan sig fyrir að hafa verið heldur seint á ferðinni. Ég tel að þarna hafi verið leyst af hendi meira en meðal mannsverk. Eysteinn í Hraunsholti var karlmenni hið mesta, risi á allan vöxt, víkingur til verka og burðamaður svo víðfrægt var. Ekki þáði Eysteinn fylgd okkar nokkuð á leið og ekki var að sjá að honum væri kalt, sagðist mundi ganga sér til hita, á móti rokinu. Samt höfðum við auga með honum unz hann hvarf okkur upp af holtinu og átti hann þá ekki langt heim. Sennilegt er að þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti á Eysteins löngu ævi í Hraunsholti, að hann bjargaði þarna fé frá bráðum voða. Líklegt er að þetta hafi verið í síðasta skiptið, þar eð stutt lifði hann eftir þetta, þótt ekki sé vitað að þetta atvik hafi átt nokkurn þátt í dauða hans hefi ég hér að framan getið helztu nytja þeirra, sem nærliggjandi bæir og byggðarlög höfðu af Gálgahrauni og umhverfi þess.
Hefi ég hér orðið of margorður, þó er það aðeins af því, að svo margs er að minnast, þegar getið er bjargræðis og lífsbaráttu fyrri kynslóða.

Garðahverfi

Kofatóftin við Eskines. Eskineseyrar framundan. Á þeim eru óskýrðar tóftir (efst fyrir miðju).

Að síðustu vil ég minnast á kofarúst þá, sem Árni Óla getur um í grein sinni og er í hraunjaðrinum upp af Eyrunum. Kofarúst þessi á sína sögu, svo sem önnur handaverk mannanna, þótt aldrei kæmi hún eða hugmynd sú, sem lá að byggingu hennar, að þeim notum, sem vonir manna hafa staðið til sögu þessa tóttarbrots, hefi ég frá fólki, sem mundi bygging hennar og tildrög.
Þórarinn Böðvarsson— Það mun hafa verið skömmu eftir komu séra Þórarins Böðvarssonar að Görðum, sennilega nálægt 1870, að honum kom til hugar hvort ekki myndi kleift að rækta æðarvarp á Eskieyrum. Séra Þórarinn mun hafa verið kunnur æðarvarpi frá Ísafjarðardjúpi, áður en hann fluttist að Görðum og hvorttveggja vitað, bæði um gagnsemi þess og það, að mögulegt væri að koma upp varpi, þar sem ekki var áður, ef aðstaða væri sæmileg, og natni og kunnátta viðhöfð.

Þar eð Garðakirkja átti þetta land, og svo vildi til, að mjög skaanmt undan var mikið varpland, Bessastaðanes, og fugl fór mikið um sundið milli nessins og Eyranna, mun síra Þórarinn hafa talið ómaksvert, að reyna hvort ekki væri hægt að fá eitthvað af fugli, sem þarna fór um, til þess að taka heima á Eskineseyrum, væri eitthvað til þess gert, byggð hreiður og annað, sem fylgir þess konar starfsemi.

Eskines

Æðakofi við Eskines.

Hann lét því ekki við hugmyndina eina sitja, heldur lét hann byggja kofa þann, sem enn sést móta fyrir og flutti þangað karl og konu, sem búa skyldu í haginn fyrir æðarfuglinn. Einnig lét hann þau hafa með sér nokkur hænsn, þar eð talið var að hænsn lokkuðu fuglinn að með varpi sínu úti við, ásamt söng hanans. Lítinn eða engan árangur mun tilraun þessi hafa borið og var því bráðlega hætt frekari tilraun í þessa átt, og hefir víst ekki síðan verið freistað að koma æðarvarpi upp á Eskineseyrum.
Hvenær skyldu menn taka til að erja þetta land að nýju?
Allt bíður síns tíma, líka það.”

Sjá umfjöllun Árna Óla í 31. tbl. Lesbókar Morgunblaðsins um Gálgahraun árið 1952 HÉR.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 37. tbl. 05.10.1952, Ólafur Þorvaldsson, Gálgahraun og Eskineseyrar, bls. 477-480.

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.