Tag Archive for: Laugargnípa

Búahellir

Í Kjalnesingasögu segir frá Búa, sem hélt til í helli í Laugargnípu. Í viðræðum við Harald Jónsson í Varmadal fékkst staðfest að hellirinn væri til, nefndur Búahellir.

Kjalarnes

Kjalarnes – kort.

Hellirinn er ofarlega í Búa (Laugargnípu) og erfitt að komast upp í hann. Sjálfur hafi hann einu sinni reynt að klifra þangað upp en í upphafi skal endirinn skoða því erfitt getur reynst að komast niður aftur. Best væri að síga ofan frá, í hellinn og síðan fara áfram á bandinu niður fyrir.
Gengið er að skriðu fjallsins frá Grundará, sem kemur úr gili (Gljúfrinu) skammt norðar. Op hellisins horfir mót vestri.

Í Kjalnesingasögu segir t.d.. að Helgi bjóla hafi numið Kjalarnes og búið á Hofi. Hann átti Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmannsins. Synir þeirra hétu Þorgrímur og Arngrímur.

Esjuberg

Búahellir?

Örlygur hinn írski leitaði á náðir Helga bjólu að ráði frænda síns, Patreks biskups á Írlandi. Fékk Helgi honum bústað. Þar reisti Örlygur kirkju. Andríður, Kolli og Esja koma síðar. Helgi tekur við þeim.

Kolli sest að í Kollafirði. Örlygur var þá háaldraður og gaf upp land og bú fyrir Esju en upp frá því heitir þar að Esjubergi. Andríður var á hinn bóginn hjá Helga á Hofi hinn fyrsta vetur og sórust hann og synir Helga í fóstbræðralag. Helgi gefur honum síðan land undir bú, Brautarholt, og bað einnig til handa honum konu, Þuríðar, systur Þormóðs í Þormóðsdal.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Þorgrímur, sonur Helga, fékk Arndísar á Skeggjastöðum og var því tvöfalt brúðkaup á Hofi.
Þegar Helgi andast tekur Þorgrímur við búinu á Hofi og mannaforráðum (goðorði) en Arngrímur reisir sér bæ sem hann kallar Saurbæ. Synir hans eru þeir Helgi og Vakur en sonur Þorgríms heitir Þorsteinn. Þorgrímur er blótmaður mikill og reisir sér stórt hof. Sonur hans, Þorsteinn, er sagður „uppivöslumaður mikill“. Sonur Andríðs og Arndísar, Búi, er aðalpersóna sögunnar. Hann er sagður einrænn. Kolfinnur er kynntur til sögu. Hann býr í skjóli móður sinnar, Þorgerðar á Vatni, og er ekki eins og fólk er flest. Hann er kolbítur, beit steiktan börk af viði og gætti katla móður sinnar.

Lauganýpa

Lauganýpa.

Búi er í fóstri hjá Esju. Hann vill aldrei blóta og er loks dæmdur sekur skógarmaður á Kjalarnesþingi fyrir „rangan átrúnað“. Hann er með öðrum orðum brottrækur úr mannlegu samfélagi og réttdræpur. Ákæruefnið bendir til þess að hann sé kristinn eins og raunar kemur skýrt fram í sögulok.

Búi fer allra sinna ferða eins og ekkert hafi í skorist. Hann hefur hnýtt um sig slöngu sem er eina vopn hans. Fram kemur að kærleikar eru með honum og móður hans. Þeir Þorsteinn hyggjast taka hann af lífi og veita honum eitt sinn eftirför. En Esja kemur honum til bjargar. Yfir þá lýstur svo miklu myrkri að þeir sáu ekki handa sinna skil. Síðar drepur Búi Þorstein og ber eld í hofið sem brennur til kaldra kola. Esja fær honum bústað, herbergi með baði í helli nokkrum undir Laugargnípu í fjallinu ofan við Esjuberg, þ.e. Esju.“

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Kjalarnesið er sagnaríkt. Margar minjar er þar að finna ef vel er að gáð sem og skírskotun til gamallar sögu og sagna fyrri tíðar.
Haraldur segir umhverfið þarna hafa breyst mikið á skömmum tíma. Um 1920 hafi t.d. áin breytt um farveg. Áður hafi hún runnið mun vestar. Þegar staðið væri uppi á Búa og horft yfir Esjuberg og nágrenni hefði fyrir 50 árum mátt sjá móta fyrir gömlum tóftum á túninu og þannig nokkurn veginn mátt átta sig á hvernig gamla bæjarstæðið hafi litið út. Nú væri þetta meira og minna horfið. Ef taka ætti mið af breytingunni á þessum rúmlega fimmtíu árum, sem hann hafi verið þarna, þá gæti svæðið og þar með fjallið hafa litið allt öðruvísi út fyrir einhverjum öldum síðan, hvað þá árþúsundi. En hellirinn væri þarna upp í klettunum.

Heimild fengin af:
-http://www.flensborg.is/sveinn/Skrar/handr/Kjalnesingas.htm

Esjuberg

Esjuberg um 1900.