Tag Archive for: Leitarhraun

Þorleifur Einarsson

Í Náttúrufræðingnum 1961 eru birt skrif Þorleifs Einarssonar um „Þætti úr jarðfræði Hellisheiðar„:

Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar

Þorvaldur Einarsson

Þorleifur Einarsson (1931-1999).

„Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.“
Vart mun sá maður til vera á Íslandi, að hann kannist ekki við þessa stuttu frásögn Kristnisögu af eldsuppkomu á Hellisheiði árið 1000 og orðræður Snorra goða og heiðinna manna á Alþingi það sumar. En nokkuð hefur það verið á reiki, við hvaða hraun ummæli þessi eiga.
Sumarið 1956 hóf ég athuganir á gossprungum á vestanverðri Hellisheiði og hraunum, sem þaðan eru komin. Rannsókn þessi varð þó víðtækari, tók reyndar tvö sumur í viðbót, 1957 og 1958, svo sem grein þessi ber með sér, og náði til jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins alls, en það takmarkast að norðan af Hengladölum, að vestan af Bláfjöllum, að sunnan af Fjallinu eina, Geitafelli og Krossfjöllum, að austan af Þorleifslæk og Varmá. Um athuganir þessar ritaði ég síðan prófritgerð (Diplom Geologe), sem birtist í vor (Þorleifur Einarsson 1960), og er grein þessi útdráttur úr henni.
Um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins hefur fátt verið ritað. Flestir jarðfræðingar hafa talið mosagráa hraunflákana og lág fellin lítið forvitnileg. Rækilegastar munu athuganir Þorvalds Thoroddsens (1908-11, 1913, 1925) og Trausta Einarssonar (1951) vera. Af öðrum, sem um jarðfræði þessa svæðis hafa fjallað, mætti nefna Guðmund G. Bárðarson, Guðmund Kjartansson (1943), Tékkann M. F. Kuthan og Norðmanninn T. F. W. Barth.

Jarðfræðilegur inngangur

Þorvaldur Einarsson

Þorvaldur Einarsson – rit um jarðfræði Hellisheiðar.

Jarðsaga Íslands nær aðeins yfir síðustu öld jarðsögunnar, nýöld.
Elzta berg hér á landi er að finna á Austfjörðum og Vesturlandi, blágrýti með millilögum úr harðnaðri gosösku, sandsteini og leirsteini með surtarbrandi. Jurtaleifar úr surtarbrandslögum í neðri hluta blágrýtismyndunarinnar benda til þess, að elztu lögin séu ártertier að aldri, þ. e. a. s. allt að 60—70 milljónum ára gömul. Mest ber þar á blaðförum og frjókornum lauftrjáa, sem vaxið hafa við milt loftslag. Er líða tekur á tertier-tímann, kólnar í veðri. Laufskógurinn víkur æ meir fyrir barrskógum. Á síðtertier hylur svo jökull hluta landsins fyrsta sinni, svo sem millilög úr jökulbergi í efri hluta blágrýtismyndunarinnar (gráa hæðin) í Esju, Fnjóskadal, Hornafirði og víðar bera vitni um, en mestur hluti hinnar kulvísu flóru mun hafa lifað þetta kuldakast af. Skeljalögin á Tjörnesi eru einnig síðtertier (pliósen) að aldri.
Á hinum eiginlega jökultíma, sem tók yfir síðustu milljón árin, eru kunnar hér á landi minjar þriggja ísalda og tveggja hlýviðrisskeiða eða hlýalda líkt og á norðanverðu meginlandi Evrópu.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson – Jarðfræði; saga bergs og lands.

Í Ölpunum hafa fundizt ummerki fimm ísalda og í Norður-Ameríku fjögurra. Lítið er kunnugt um það, hve langan tíma framrás og bráðnun ísaldarjöklanna tók, en þó skal hér reynt að gera nokkra grein fyrir bráðnunarsögu meginjökuls síðustu ísaldar suðvestanlands. Þegar jökullinn var hvað stærstur, mun hann hafa hulið allt land umhverfis Faxaflóa nema hæstu fjöll, svo sem Esju og Skarðsheiði.
Jökullinn mun hafa náð allt út undir brún landgrunnsins (Jökulrispur eru t.d. kunnar frá Garðskaga.). Jökulskjöldurinn tók að mesta kuldakasti síðustu ísaldar loknu að bráðna. Nokkrum árþúsundum eftir að hann var stærstur, skaut Suðurkjálkafjallgarðinum og Suðurnesjum öllum upp úr jökulhjarninu. Rétt um það leyti, er Suðurkjálkinn var orðinn íslaus, kólnaði nokkuð í veðri aftur, svo að jökullinn skreið fram að nýju. Ýttust þá upp jökulgarðar á Álftanesi, í mynni Hvalfjarðar, í Melasveit (Skorrholtsmelar) vestan Leirár og líklega víðar. Síðan framskrið þetta, sem nefna mætti Álftanesstigið, átti sér stað, mun vart vera skemmri tími liðinn en 20000 ár.
Enn breyttist loftslag til hins verra, og jökullinn gekk fram. Við þessa framrás mynduðust miklir jökulgarðar, sem rekja má um þvert Suðurlandsundirlendi frá Keldum á Rangárvöllum út í Biskupstungur. Framrás þessi hefur verið nefnd Búðastigið. (Guðmundur Kjartansson 1943). Við bráðnun jöklanna hækkaði mjög ört í höfunum, svo ört, að löndin, sem jökullinn hafði legið yfir og þrýstst höfðu niður undan jökulfarginu, náðu eigi að rísa nógu skjótt, og flæddi því sjór víða yfir láglendi, um leið og það varð jökullaust. Jökull þrýstir landi meir niður til dala en til nesja, svo sem sjá má af því, að hæstu sjávarminjar við Reykjavík eru í aðeins 43 m hæð, í Ölfusi í 55—60 m hæð og í Holtum, Hreppum og á Landi í 110 m hæð.

Þorleifur Einarsson

Þorleifur Einarsson skrifaði m.a. kafla í þjóðhátíðartútgáfu af Sögu Íslands.

Fyrir 11—12000 árum, á því hlýviðrisskeiði síðjökultímans, sem kennt er við staðinn Alleröd á Sjálandi, munu jöklar Íslands hafa verið orðnir minni en þeir eru í dag. En vegna loftslagsbreytingar til hins verra fyrir 11000 árum skriðu jöklar víða um heim enn fram.
Loftslag á Íslandi var tiltölulega hlýrra á síðustu ísöld og þó einkum undir lok hennar en um norðanvert meginland Evrópu. Helzta skýringin á því er sú, að landskipan Evrópu var öll önnur en í dag þar til fyrir 7000 árum. Þangað til voru Bretlandseyjar tengdar meginlandinu, en þá brauzt sjór gegnum Ermarsund og flæddi yfir lendur þær, þar sem nú er Norðursjór. Golfstraumurinn komst því ekki upp að ströndum Skandinavíu, og beindi Bretlandseyjaskaginn honum meir til norðvesturs en í dag. Það er augljóst mál, að breytingar þessar á stefnu Golfstraumsins hafa haft mikil áhrif á loftslag hér á norðurslóð.
Brot þetta úr jarðfræði Íslands er nokkru ítarlegra en ætlað var, en þar sem hér er fjallað um ýmislegt úr þessari sögu á annan veg en hingað til hefur verið gert, einkum jökultímann, taldi ég rétt, að svo væri.

Berg frá jökultíma

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti.

Elzta berg Hellisheiðarsvæðisins er að finna í lagskiptri grágrýtismyndun í neðri hluta Kambabrúnar og Núpafjalls, svo og í Hjallafjalli. Á grágrýtismyndun þessari, Kamba- eða Hjallagrágrýti, liggur í Kambabrún þunnt lag af jökulbergi. Á því liggur síðan allþykk móbergsmyndun, Núpafjallsmóberg. Myndun þessi er allóregluleg, lagskipt móberg, þursamóberg, bólstraberg.
Í Þurárhnúk og Kerlingarbergi er einnig ofan til lagskipt grágrýti. Innskot eru mörg og óregluleg, gangar, æðar, kubbaberg og stuðlasveipir. Móbergsmyndun þessa er líka að finna í Núpafjalli og í brún Efrafjalls (í Hesti og Kerlingabergi). Kambagrágrýtið er líklega runnið sem hraun á hinni eldri hlýöld. Jökulbergið og Núpafjallsmóbergið eru líklega mynduð á næstsíðustu ísöld, og er það líkt móbergi í Jórukleif að aldri, en það liggur undir Mosfellsheiðargrágrýti, sem runnið er frá Mosfellsheiði á síðustu hlýöld. Mosfellsheiði er dyngja með tveim gígrústum, Borgarhólum og ónefndum hæðum austur undir Þingvallavatni. Frá Borgarhólum er líka runnið yngsta grágrýtið í nágrenni Reykjavíkur (Reykjavíkurgrágrýti).

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti.

Móbergsfjöll Hengilsvæðisins hafa hlaðizt upp í geilum eða götum, sem bráðnað hafa í jökulinn yfir eldstöðvunum líkt og flest móbergsfjöll á landinu (Guðmundur Kjartansson 1943). Móbergsfjöll þau, sem nú verður getið, eru öll mynduð á síðustu ísöld. Bólstraberg er víða að finna í neðri hluta móbergsfjalla á Hellisheiðarsvæðinu, svo sem í Draugahlíðum, Lakahnúkum, milli Meitla, í Stóra-Skarðsmýrarfjalli og víðar. Hraun rann úr gígunum og barmafyllti geilina og rann jafnvel út á jökulinn. Fjöll, sem náð hafa þessu stigi, eru nokkur á Hellisheiði, t. d. Stóri-Meitill og Geitafell. Slík fjöll nefnast móbergsstapar. Miklu algengari eru þó fjöll, sem byggð eru upp úr lausum gosefnum, sem síðar hafa límzt saman, móbergshryggirnir, t.d. Stóra-Reykjafell og Skálafell.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hluti (jarðfræðikort Ísor).

Ummyndun lausra gosefna, ösku, í móberg sannar ekki, að móbergsfjöllin hafi hlaðizt upp í eða undir jökli, því að móberg er einnig þekkt sem millilög í tertieru blágrýtismynduninni, t.d. í Esju. Þess skal líka getið, að í fjöllum, hlöðnum upp úr lausum gosefnum á síðustu ísöld, er til gosaska, sem hefur ekki breytzt í móberg, t.d. í Litla- og Stóra-Sandfelli. Í nokkrum móbergsfjallanna mótar enn fyrir gígum, svo sem í Stóra-Meitli. í mörgum fjallanna eru gígtappar úr grágrýti, en þeir standast veðrun betur en móberg og skaga því víða upp úr.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hluti (jarðfræðikort Ísór).

Bezt dæmi um slíkan bergstand í móbergi er Lambafellshnúkur, en hann setur á fellið keilislögun, enda er Keilir á Reykjanesi eins upp byggður. Gráuhnúkar norðan Þrengsla eru líka bergstandar. Litla-Skarðsmýrarfjall og Orustuhóll eru úr mjög stórdílóttu grágrýti. Er það gangur, líklega gömul eldstöð. Dalkvosir í mörgum fellanna eru ekki gamlir gígar, heldur hafa jökulflikki orðið undir lausum gosefnum, þegar fellin hlóðust upp, og ekki bráðnað fyrr en að gosunum loknum. Þar sem ís var undir móbergi, myndaðist því dæld eða dalur, t. d. dalirnir í Stóra-Reykjafelli eða Innstidalur.

Hellisheiði

Hellisheiði – efri hlutinn (loftmynd).

Í Stóra-Reykjafelli vestanverðu er stór felling í lagskiptu móbergi. Slíkar fellingar mynduðust líklega, ef veggir ísgeilanna hafa haft mikinn fláa eða í þeim verið syllur. Ísveggurinn hefur síðan bráðnað, meðan gosefnin voru enn vatnsósa, og gosefnin fylgt honum. Lík felling, en minni, er einnig í Blákolli vestanverðum. Annað fyrirbæri, sem víða er að finna í móbergsfjöllum, er svokölluð flögun. Lagskipt móberg hefur kubbazt og klofnað án tillits til lagskiptingar undan þrýstingi jökulfargsins. Slík flögun í móbergi er t.d. í Stóra-Reykjafjalli við veginn upp í Hveradali.

Hellisheiði

Hellisheiði – neðri hlutinn (loftmynd).

Auk móbergsfjalla eru til á Hengilsvæðinu grágrýtisflákar, sem myndaðir eru á einu af fyrstu bráðnunarskeiðum síðustu ísaldar. Er hér um grágrýtislög að ræða, sem komin eru úr Hengli og hylja suðausturhluta hans, Ástaðafjall og Hamarinn ofan Hveragerðis. Í Húsmúla norðan Kolviðarhóls er og grágrýti. Gæti þar verið sérstök eldstöð. Allt er grágrýti þetta jökulsorfið.
Umhverfis Skálafell er grágrýtisdyngja (Norður- og Suður-Hálsar), sem ég hef nefnt Skálafellsdyngju. Grágrýti þetta er komið úr gíg, Trölladal, vestan Skálafells, og hefur síðan runnið umhverfis fellið og víða fram af brún Efrafjalls og Hjallafjalls. Grá grýtið er jökulrispað austan Skálafells, en vestan þess má enn finna hraunreipi á hraunhólum. Sýnir þetta, að jökullinn hefur aðeins farið yfir austurhluta dyngjunnar. Það, að grágrýtið austan Skálafells skuli renna um gil og dali eldri fellanna líkt og hraun, runnin eftir jökultíma, og fylgja öllum línum landslagsins, bendir til ungs aldurs grágrýtisins. Þó er það eldra en hæsta sjávarstaða, því að í það hafa höggvizt brimþrep. Gosið í Skálafellsdyngju hefur líklega átt sér stað á bráðnunarskeiðinu, sem fór á undan framrás jökulsins að Álftanesröðinni, og hefur sá jökull urið grágrýtið austan Skálafells.
Í ritgerð minni (Þ.E. 1960) gat ég þess, að ljósir blettir í fjöllum á Hengilsvæðinu væru eingöngu myndaðir við hverasuðu. Þetta er ekki alls kostar rétt, því að á síðastliðnu hausti rakst ég á lítil líparít-innskot vestan til í Hengli, rétt norðan Húsmúlans.
Jökulminjar frá síðustu ísöld eru heldur fátæklegar á svæðinu, aðrar en móbergsfellin. Jökulrispur á klöppum eru sjaldgæfar, en sýna þó, að jökullinn hefur skriðið suður heiðina til sjávar. Jökulurð sést óvíða, nema hvað Kolviðarhóll er botnurðarhóll, og annar slíkur er á Krossfjöllum. Á einstöku fjöllum er og stórgrýtt jökulurð og víða, einkum á móbergsfjöllum, jökulbergskápa.

Hæstu sjávarmörk í Ölfusi eru í Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða í 55 m hæð, en í Hveragerði í 60 m hæð. Síðan brimið klappaði þessi hæstu fjörumörk, munu líklega vera liðin um 14000 ár, sem áður segir. Af sjávarminjum ber mest á lábarinni möl og hnullungum. Brimþrep eru og víða greinileg, svo sem í Hjallafjalli og Skálafellsgrágrýti hjá Núpum; bærinn stendur í þrepinu. Einnig eru hlíðar Hamarsins ofan Hveragerðis gamalt sjávarbjarg, sem og Kambabrún og hlíð Núpafjalls. Brimsorfnir hellar eru í Vatnsskarði. Á Hjallafjalli ofan Þóroddsstaða eru fallegir malarkampar, sem brimið hefur rótað upp. Sjór fjaraði, eða réttar sagt landið hækkaði síðan á 5000 árum, svo að hann var kominn þá a.m.k. 4 m niður fyrir núverandi sjávarmál, svo sem sjá má af myndun fjörumós í Seltjörn, en hann myndaðist ofan sjávarborðs. Á síðustu árþúsundum hefur land síðan lækkað nokkuð.

Hraun frá nútíma – Hellisheiðarhraunin eldri

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Á vestanverðri Hellisheiði eru eldstöðvar, sem gosið hafa a. m. k. fjórum sinnum á nútíma, en nútíminn nær að tímatali jarðfræðinga yfir síðustu 10000 árin, eins og áður gat. Gígar beggja hinna eldri hrauna eru huldir yngri hraunum. Mjög erfitt er að greina eldri hraunin hvort frá öðru. Verða eldri hraunin því rædd í einu lagi. Auðvelt er að greina yngri hraunin frá hinum eldri í landslagi. Einnig ber meir á feldspat-dílum í blágrýti eldri hraunanna en hinna yngri, minnst í yngsta hrauninu, Kristnitökuhrauni.
Eldri Hellisheiðarhraunin hylja syðri hluta Hellisheiðar, og liggur þjóðvegurinn lengstum á þeim. Á norðanverðri heiðinni eru þau horfin undir yngri hraun. Hraunflóðin hafa runnið austur heiðina og fram af Kambabrún niður í Ölfus, allt austur að Varmá, beggja vegna Hamarsins. Tota úr elzta hrauninu nær þó austur yfir ána við þjóðveginn. Varmárbrúin stendur á þessu hrauni, svo og bærinn að Völlum. Bæirnir Saurbær, Þúfa, Kröggólfsstaðir og Vötn utan Varmár standa í jaðri elzta hraunsins. Rétt norðan þessara bæja virðist vera brún næstelzta hraunsins, og standa bæirnir Yxnalækur og Vorsabær í henni. Ein kvísl hraunflóðsins á heiðinni rann suður á milli Hverahlíða og Núpafjalls og niður um skarð í fjallsbrúninni ofan Núpa. Þetta hraun endar rétt ofan bæjarhúsa að Núpum og hefur ekkert breiðzt út á jafnsléttu. Önnur kvísl sama hrauns rann enn lengra til suðausturs og niður gilið norðan Vatnsskarðs og breiddist nokkuð út á láglendi, en síðar hefur Þurárhraun runnið yfir það. Einn hraunstraumur hefur runnið til suðurs frá eldstöðvunum milli Lakahnúka í Lakadal, annar til vesturs niður Hellisskarð. Þetta hraun sést í misgengi í austurbrún skarðsins. Enn einn hraunstraumur hefur líklega runnið vestur úr Hveradölum og allt norður fyrir Draugahlíðar. Sér nú á hraun þetta sem apalhraunskika í Svínahrauni (Leitahrauni) rétt norðan móta gamla vegarins og Þrengslavegar.
Eldri Hellisheiðarhraun eru víðast algróin apalhraun nema elzta hraunið við Varmárbrúna, sem er helluhraun. Um aldur þessara hrauna er það að segja, að elzta hraunið er ekki runnið fyrr en sjór var komin niður fyrir 3 m hæð yfir núverandi sjávarmál og getur því vart verið eldra en 10000 ára gamalt. Næstelzta hraunið er eldra en Leitarhraun, en það er yngra en 5300 ára, svo sem síðar segir. Eldri Hellisheiðarhraunin eru því yngri en 10000 ára og eldri en 5000 ára gömul.

Leitahraun

Leiti

Leiti – gígurinn austan Bláfjalla.

Austan undir Bláfjöllum, sunnan Ólafsskarðs, er óásjálegur gjallrimi, er Leitin nefnist. Að sunnan er hann 30 m hár, að norðan jafnhár Lambafellshrauni. Rimi þessi er eystri barmur gígs þess, sem stærsta hraun Hellisheiðarsvæðisins er komið frá. Leitahraun, eins og það nefnist hér, þekur 75 km2 lands. Gígurinn er um 300 m frá NA—SV og 150 m þvert á þá stefnu. Leysingalækur úr Bláfjöllum hefur fyllt gígskálina með möl og sandi, en þó sést enn 2—3 m hár hraunhjalli og bendir hann til þess, að hrauntjörn hafi staðið í gígnum. Úr norðurhluta gígsins hefur hrauná runnið. Hraunið, sem var mjög þunnfljótandi, breiddist út á flatneskjunni milli Bláfjalla, Heiðarinnar há, Geitafells, Meitla og Lambafells og nefnist Lambafellshraun. Hraunflóð rann þaðan til norðurs milli Blákolls og Lambafells og breiddist út norður til Húsmúla og Engidalskvíslar. Þar heitir nú Svínahraun (helluhraunið). Hraun þetta rann síðan niður um Vatnaöldur, Sandskeið, Fóelluvötn og milli grágrýtisholtanna hjá Lækjarbotnum (Lögbergshúsið stendur á hrauninu.) og út í hið forna Elliðavatn, sem var mun stærra en vatnið er í dag. Þegar hraunið rann út í vatnið, tók að gjósa upp úr því vegna gufuþenslu í hraunkvikunni, og mynduðust þar gervigígar, sem nú nefnast Rauðhólar. Tröllabörn neðan Lækjarbotna eru líka gervigígar í þessu hrauni. Hraunstraumurinn rann síðan niður dal Elliðaánna allt í Elliðavog.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárnar renna um Leitarhraun.

Rétt ofan eystri brúarinnar yfir Elliðaárnar er mór undir hrauninu og reyndar víðar upp eftir árfarveginum. Hraunið hefur runnið yfir mýri. Mór þessi hefur verið aldursákvarðaður með mælingu á geislavirku kolefni, C14, og reyndist efsta lag hans vera 5300 ± 340 ára gamalt (Jóhannes Áskelsson 1953). Leitahraun ætti því að vera rúmlega 5000 ára gamalt.
Tveir hraunstraumar úr Leitahrauni runnu til suðurs, Djúpadalshraun milli Geitafells og Krossfjalla og annar milli Krossfjalla og Lönguhlíðar, sem breiðzt hefur út á láglendi allt suður til sjávar í Hafnarskeið og austur undir Ölfusá. Þar standa bæirnir Hraun og Grímslækur í hraunjaðrinum. Nefnist þar Heiði eða Hraunsheiði.
Leitahraun er helluhraun úr dílóttu (feldspat) blágrýti. Í hrauninu eru nokkrir hellar og niðurföll. Stærsti hellirinn er Raufarhólshellir ofan Vindheima í Ölfusi. Hann er 850 m langur, 10—30 m breiður og 10 m hár að jafnaði (Munger 1955). Norðan Draugahlíða eru einnig hellar í hrauninu, svo og undir húsum að Lögbergi.

Hellisheiðarhraunið næstyngsta

Hellisheiði

Hellisheiðarhraun.

Tvær gígaraðir eða gossprungur liggja um Hellisheiði vestanverða, og eru þaðan komin yngri Hellisheiðarhraunin. Næstyngsta hraunið er komið frá vestari gossprungunni, en hún er 6,5 km löng. Syðstu gígar hennar eru í austurhlíð Hveradala, þar sem nú eru gjallnámur Vegagerðarinnar. Þaðan er komið hraunið, sem þekur Hveradali sunnanverða (Stóradal), og apalhraunið norðan Litla-Reykjafells, en sunnan gamla vegarins við Kolviðarhól. Mikill hluti þessa hrauns hefur síðar lent undir Kristnitökuhrauni í Hveradölum. Gossprungan liggur síðan til norðurs með austurhlið Stóra-Reykjafells. Úr gíg í austuröxl fellsins hefur runnið hraunspýja til suðurs. Frost hefur síðar sprengt hraunskænið upp, svo að nú getur að líta þar einkennilegan straum köntótts stórgrýtis. Úr gígum ofan Hellisskarðs hefur runnið hraunkvísl gegnum skarðið heim undir hús að Kolviðarhóli. Gossprungan liggur síðan norður yfir Stóra-Skarðsmýrarfjall og um Innstadal þveran.

Nesjagígar

Nesjahraun – gígur.

Líklega eru Nesjavallagígar í Grafningi á sömu sprungu. Á norðanverðri Hellisheiði hefur hraun frá sprungunni breiðzt út og runnið austur heiðina og fram af Kambabrún líkt og hin eldri hraun, en stöðvazt í brekkurótunum beggja vegna Hamarsins. Er þar falleg hraunbrún. Vegurinn í Kömbum liggur í þessu hrauni. Á heiðinni er hraunbrúnin nokkuð greinileg norðan vegar. Frá gígunum á Stóra-Skarðsmýrarfjalli runnu hrauntaumar til Hellisheiðar, Sleggjubeinsdals og Innstadals. Úr gígunum í Innstadal er runnið Innstadalshraun fram í Miðdal. Hraun þetta er samkvæmt öskulagsrannsóknum yngra en 2700 ára og eldra en landnám, líklega 1500—2000 ára gamalt, þ. e. runnið um Kristsburð eða skömmu síðar.

Kristnitökuhraun

Skjaldbreið

Skjaldbreið.

Þá kom maðr hlaupandi ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða.“ Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undr í, at goðin reiðist tölum slíkum.“ Þá mælti Snorri goði: „Um hvat reiddust goðin, þá er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?“ (Kristni saga). Hér er sagt frá náttúruviðburði á einfaldan hátt og getið fyrsta sinni jarðfræðiathugunar á Íslandi og hún ekki umvafin blæ þjóðsögunnar, eins og svo oft vildi verða. Íslendingar hafa þegar að fornu skilið myndunarsögu landsins að einhverju leyti, því að Þingvallahraun („er nú stöndum vér á“) eru runnin þúsundum ára fyrir landnámsöld. Hin elztu eru komin frá Skjaldbreið, en hin yngri frá gossprungu á Tindafjallaheiði austan Hrafnabjarga.
Á þeim 130 árum, sem liðin voru frá því, er fyrstu landnámsmennirnir tóku land, og þar til, er kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000, hafa líklega orðið nokkur gos, því að gosið hefur að meðaltali 15 sinnum á öld frá upphafi Íslandsbyggðar fram á vora daga, svo að líklegt er, að Snorri goði hafi séð eldgos eigin augum, kannski gosið í Eldborg á Mýrum, þá er yngra Eldborgarhraun kom upp, eða haft spurnir af því. Þess goss er getið í Landnámu (Jóhannes Áskelsson 1955). Góða lýsingu á eldgosi frá fyrstu öld Íslandsbyggðar er einnig að finna í Völuspá (Sól tér sortna, 57. vísa). Þá er einnig þess að geta, að eldsuppkomuna má tímasetja allnákvæmlega, og er það óvenjulegt um náttúruviðburð, sem gerzt hefur hér á landi fyrir nær 10 öldum. Alþing kom saman á Þingvöllum fimmtudaginn í 10. viku sumars. Gosið á Hellisheiði ætti því að hafa byrjað laugardaginn í 10. viku sumars eða um 20. júní árið 1000.
Eldstöðvar þær, sem bezt eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km að lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er syðsti og reyndar stærsti gígur sprungunnar.

Eldborg

Eldborgarhraun í Þrengslum.

Í fyrsta þætti gossins kom einkum upp hraun úr nyrzta hluta sprungunnar, milli Stóra-Skarðsmýrarfjalls og núverandi þjóðvegar. Hraunið breiddist í fyrstu út á hallalítilli heiðinni austan gossprungunnar. Hraunstraumur rann síðan austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli og sunnan Orustuhóls að Hengladalsá og stöðvaðist þar. Nefnist þar Orustuhólshraun. Annar hraunstraumur rann vestur yfir sprunguna, þar sem nú er þjóðvegurinn, og niður í Hveradali og vestur úr þeim yfir austurjaðar Svínahrauns. Hraun þetta nær ekki lengra til norðurs en í beina línu vestur af suðurhorni Litla-Reykjafells. Ein álma þessa* hrauns rann síðan gegnum Þrengslin allt til Lambhóls. Síðar rann Svínahraunsbruni yfir vesturjaðar þessa hrauns, sem síðar getur. Stærstur og þekktastur er þó hraunstraumur sá, sem nefndur er Þurárhraun. Hann rann í mjórri kvísl austur heiðina norðan Smiðjulautar, austur yfir þjóðveginn og síðan austur með Hverahlíðum og niður á láglendi um Vatnsskarð. Er þar 140 m hár hraunfoss. Hraunið breiddist síðan út yfir mýrarnar austan Þurár allt austur undir Varmá. Þurárhraun er um 11 km að lengd.

Lakastígur

Lakastígur.

Úr miðhluta sprungunnar, milli þjóðvegar og Lakahnúka, hefur einnig komið mikið hraun, sem brotizt hefur í mjórri kvísl milli yztu Lakahnúka niður í dal þann, sem Hellur heitir. Norður úr dalnum er Lágaskarð til Hveradala, en Lakadalur til austurs milli Lakahnúka og Stóra-Sandfells. Dalurinn hefur fyllzt hrauni, sem rann til hans í áðurnefndri kvísl og eins úr syðsta gígnum á þessum hluta sprungunnar í Lakahnúkum. Varð mikil og slétt hrauntjörn í dalnum. Dalurinn var lokaður til suðurs milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells af grágrýtishafti, sem hélt uppi hrauntjörninni.
En vart mun dalbotninn hafa verið orðinn fullur af hrauni, er syðsti hluti sprungunnar opnaðist og hraun tók að streyma þar upp. Grágrýtishaftið brast, og hraunið úr tjörninni fékk framrás með hrauninu, sem upp kom í syðsta hluta sprungunnar. Enn sýna hraunhjallar umhverfis Hellur, að hrauntjörnin hefur staðið allt að 5 m hærra en dalbotninn er í dag. Eldborg undir Meitlum stendur á grágrýtishaftinu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum.

Eldborg undir Meitlum er stærsti gígur á allri gossprungunni, um 50 m á hæð. Eldborgin er að vísu aðeins helmingur gígs, því að hraunið, sem vall upp úr henni og gegnum hana, hefur rifið með sér eystri gígvegginn. Nokkru norðan Eldborgar er önnur eldborg, um 10 m há. Milli eldborganna er greinileg hrauntröð. Eldborgir þessar mega heita einu gígarnir á allri gossprungunni, sem því nafni geta kallazt. Annars staðar gætir mest gjallhrúgalda og óreglulegra rima. Þó eru tvær litlar eldborgir, 5 m að hæð, sunnan Stóra-Skarðsmýrarfjalls. Fell þau, sem sprungan gengur í gegnum norðan þjóðvegarins, eru úr móbergi, en að mestu hulin gjalli.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Hraunið, sem upp kom í Eldborg undir Meitlum, og eins það, sem fékk framrás úr hrauntjörninni í Hellum, breiddist út á heiðinni sunnan Litla-Meitils og Sanddala. Er það úfið apalhraun og nefnist Eldborgarhraun eða Innbruni. Þaðan rann hraun, Frambruni, niður um skarðið milli Krossfjalla og Lönguhlíðar. Hraun þetta breiddist síðan yfir Hraunsheiði (Leitahraun). Einn hrauntaumurinn rann meðfram Hjallafjalli í átt til Hjalla, en annar milli bæjanna Grímslækjar og Hrauns og nefnist þar Hraun (samkv. korti Grímslækjarhraun) til aðgreiningar frá Heiði (Leitahraun). Nær þetta hraun hvergi fram af brún Leitahrauns. Hraunið er 9 km að lengd.
Eins og að framan getur, er líklegt, að nyrðri hluti sprungunnar hafi gosið fyrst og syðsti hlutinn seinast. Nokkuð hefur það verið á reiki, hvaða hraun það var, sem náði láglendi í Ölfusi í gosinu árið 1000. Þorvaldur Thoroddsen telur ýmist, að Þurárhraun eða Eldborgarhraun hafi runnið þá. Guðmundur Kjartansson (1943) bendir réttilega á, að bæði hraunin séu komin úr sömu gossprungu og því líklega jafngömul. Athuganir þær, sem ég hef gert, benda eindregið til þess, að bæði hraunin séu komin upp í sama gosi. Þó er Þurárhraun líklega nokkrum dögum eða vikum eldra en Eldborgarhraun. Bergfræðilega er blágrýti beggja hraunanna líkt, stakdílótt (feldspat) blágrýti. Gróðurfar hraunanna og allt útlit ber merki ungs aldurs. Afstaða hraunanna til annarra hrauna á Hellisheiðarsvæðinu bendir og til hins sama. Segulmælingar, sem Ari Brynjólfsson gerði á hraunum þessum árið 1955, benda einnig til þess, að hraunin séu lík að aldri.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Öskulagsrannsóknir sýna með nokkurri vissu, að Kristnitökuhraunið hafi runnið eftir landnámstíð. Í jarðvegssniðum í hrauninu hef ég ekki getað fundið öskulagið G, en það liggur undir rústum í Þjósárdal (Sigurður Þórarinsson 1944), og í mýrarsniðum, sem frjógreind hafa verið, liggur það rétt neðan hinnar greinilegu gróðurfarsbreytingar, sem varð við landnámið. Öskulag þetta er komið af Torfajökulssvæðinu og er líklega 1100—1200 ára gamalt. Það finnst annars í nær öllum jarðvegssniðum hér sunnan lands, t.d. á næstyngsta Hellisheiðarhrauninu. Þunnt öskulag, sem myndaðist við Kristnitökugosið, er að fínna í jarðvegssniðum vestan eystri gossprungunnar á Hellisheiði, rétt ofan öskulagsins G.

Hellisheiði
Höfundur Kristnisögu leggur sendimanni þau orð í munn, að jarðeldur væri upp kominn í Ölfusi og mundi hlaupa á bæ Þórodds goða. Næsta ólíklegt er, að sendiboðinn hafi borið bæði þau tíðindi, að jarðeldur væri upp kominn, og eins hin, að hraun stefndi á bæ Þórodds goða. Svo greiðlega renna apalhraun ekki á hallalitlum heiðum, og er hér eitthvað málum blandað. Annaðhvort hafa munnmælin, sem sagnritarinn studdist við, brenglazt nokkuð, eða hann breytt þeim, svo að þau hæfðu betur frásögninni, enda hafa þessar orðræður lítið gildi fyrir frásögnina af Kristnitökunni. Sama sumar, dögum eða vikum eftir að þingi lauk, hafa hraun náð láglendi í Ölfusi. Þurárhraun hefur tæplega valdið tjóni á byggðu bóli í Ölfusi, nema bær hafi staðið undir Vatnsskarði, því að hraunið breiddist yfir mýrarfláka austan og norðan Þurár. Eldborgarhraun, sem runnið hefur heim í tún að Hrauni og Grímslæk, hefur líklega valdið einhverjum spjöllum, jafnvel tekið af bæi, hafi þeir staðið í Hraunsheiði, en það gæti vel verið, eða syðst undir Hjallafjalli, því að nyrzti hrauntaumurinn hefur runnið þar í átt til Hjalla, bæjar Þórodds goða, þótt skammt næði.
Þótt Kristnisaga muni um margt vera ónákvæm og hlutdræg heimild, má þó telja, að þessar fáu setningar um eldsuppkomuna séu í meginatriðum réttar.
Kristnitökuhraun þekur um 25 km2 lands.

Svínahraunsbruni

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Í skarðinu milli Lambafells og Bláfjalla standa tvær eldborgir. Nyrðri-Eldborg er þrír samvaxnir gígar. Sunnan hennar eru líka nokkrir litlir gígar á sömu sprungu. Úr nyrzta gígnum, sem er stærstur, 60 m í þvermál, er breið og falleg hrauntröð. Hún er um 2 km að lengd, 5 m djúp og 10—15 m breið. Hrauntröðin endar undir Blákolli. Um hraunfarveg þennan hefur hraun nyrðri og eldri Brunans, Svínahraunsbrunans, runnið og breiðzt út yfir Svínahraun (Leitahraun) allt til Draugahlíða. Syðri-Eldborg hefur gosið nokkrum vikum eða mánuðum síðar en hin nyrðri. Þar er kominn upp yngri og syðri Bruninn. Báðar standa eldborgirnar á sömu landnorðurlínunni, og eru um 2 km milli þeirra. Yngri Bruninn hefur runnið norður með Lambafelli og beygt síðan norðan Lambafellshnúks til austurs og síðan suðurs og náð allt til Þrengsla.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Nyrðri Bruninn er um 5 km að lengd og þekur 6,5 km2 lands, en hinn syðri um 6,5 km að lengd og 4,5 km2 að flatarmáli. Berg hraunanna er olivin-dílótt blágrýti. Yfir hraun þessi liggur nýi Þrengslavegurinn frá Draugahlíðum til Þrengsla. Bruninn, bæði hraunin, er úfið apalhraun og virðist við fyrstu sýn sem hraungrýtið hafi oltið fram án reglu. Við nánari athugun má þó sjá, að það hefur ekizt til í bogadregna hryggi eða hraunsvigður. Svigður eru kunnar frá skriðjöklum, að vísu annars uppruna, en líkar útlits. Hraunsvigðurnar, sem eru 1— 2 m að hæð, sjást einkum vel af fjöllunum í kring eða úr lofti. Þó má greina þær af nýja veginum. Svigðurnar sýna, að hraunið hefur runnið rykkjótt, en ekki jafnt og þétt, og vísar boginn í straumstefnuna og bendir til mestrar hreyfingar og mests hraða í miðjum hraunstraumnum. Hraunsvigður apalhrauna líkjast reipum helluhrauna. Þó mælist það í metrum í svigðum, sem mælt er í sentimetrum í hraunreipum. Hraunsvigður eru víða í apalhraunum, t. d. í Landbrotshrauni (Jón Jónsson 1954).

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Þess var áður getið, að Kristnitökuhraun lægi vestan Hveradala inn undir jaðar Brunans og væri því eldra en hann. Orðið Bruni virðist hér sunnan lands einkum vera notað um hraun, runnin, eftir að land byggðist. Menn hafa séð hraunin brenna. Dæmi um þetta eru Inn- og Frambruni í Eldborgarhrauni (Kristnitökuhrauni).
Yngsta hraun sunnan Hafnarfjarðar heitir og Bruni. Er hraun það komið frá Óbrynnishólum undir Undirhlíðum. Þess er getið í Kjalnesingasögu sem Nýjahrauns. Samkvæmt rannsókn Guðmundar Kjartanssonar (1952) er Bruni þessi runninn á landnámsöld eða litlu síðar. Í Þingeyjarsýslu er nafnið Bruni að vísu notað um úfin apalhraun, Grænavatnsbruni og Út- og Innbruni í Ódáðahrauni, sem runnin eru, áður en land byggðist. Nafn hraunanna frá Eldborgum vestan Lambafells, Bruni, bendir til þess, að þau hafi runnið að mönnum aðsjáandi.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Í annálum og öðrum rituðum heimildum er þessara hrauna hvergi getið, svo að mér sé kunnugt. En yfirleitt virðast náttúruviðburðir á Suðurkjálka hafa farið fram hjá annálariturum, og þá sjaldan, að þeirra er getið, er þekking á staðháttum harla lítil, svo að jafnvel hraun, komin upp við Trölladyngju á Reykjanesi, eru talin renna niður í Selvog. Þorvaldur Thoroddsen (1925) telur, að einkum hafi eldgos verið tíð um skagann á 14. öld. Þannig geta annálar gosa í Brennisteinsfjöllum 1340 og 1389, og Ögmundarhraun er talið runnið árið 1340. Svínahraunsbruni, bæði hraunin, eru runnin síðar en 1000, en að öllum líkindum fyrir siðaskipti, sennilega á 14. öld.
Norðan Fjallsins eina í Lambafellshrauni er lítið hraun, 0,5 km2 að stærð. Það er komið upp um sprungu, sem er í beinu framhaldi Eldborga. Hraun þetta mun vera líkt Brunanum að aldri.“

Þorleifur Einarsson
Þorleifur Einarsson„Þorleifur Jóhannes Einarsson fæddist í Reykjavík 29. ágúst 1931. Hann lést í Bergisch Gladbach í Þýskalandi 22. mars 1999. Foreldrar hans voru hjónin Einar Runólfsson verkamaður, f. 1886 í Skálmabæjarhrauni í Álftaveri, d. 1962 í Reykjavík, og Kristín Þorleifsdóttir, f. 1900 í Stykkishólmi, d. 1973 í Reykjavík. Eftir nám í gagnfræðaskóla settist Þorleifur í Menntaskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi vorið 1952. Að því loknu hélt hann til jarðfræðináms við Háskólann í Hamborg, Þýskalandi, haustið 1953. Hann hélt síðan áfram jarðfræðinámi við háskólana í Erlangen-Nürnberg 1954­56 og Köln 1956­60, þaðan sem hann lauk Dipl.Geol.-prófi í maí og Dr.rer.nat.-prófi í júlí 1960. Þorleifur stundaði framhaldsnám og rannsóknir við háskólann í Bergen í Noregi 1960­61 og háskólann í Cambrigde, Englandi 1970 og 1979. Að loknu doktorsprófi kom hann heim og starfaði sem sérfræðingur í jarðfræði, fyrst á iðnaðardeild atvinnudeildar Háskólans 1961­65, síðar á Rannsóknarstofnun iðnaðarins frá 1965­68 og á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands frá 1969­75. Jafnframt var hann stundakennari í náttúrufræði og eðlisfræði við Vogaskóla í Reykjavík 1961­63, í jarðfræði við Menntaskólann í Reykjavík 1963­69, við Tækniskóla Íslands 1965­70 og við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1969­74. Þorleifur var skipaður prófessor í jarðsögu og ísaldarjarðfræði við jarðfræðiskor Háskóla Íslands 1975 þar sem hann starfaði síðan.
Þorleifur Einarsson
Þorleifur var varamaður í Náttúruverndarráði 1972­78, sat í stjórn Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1964 og var formaður þess 1966­72, sat í stjórn Jarðfræðafélags Íslands 1966­68 og var formaður þess 1972­74, sat í stjórn Norrænu eldfjallastöðvarinnar 1980­97, var formaður stjórnar Máls og menningar 1979­1991, sat í stjórn Landverndar frá 1971 og var formaður Landverndar 1979­90. Þá var Þorleifur kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga 1962, Alexander von Humboldt-styrkþegi í Vestur-þýskalandi 1959­60 og Overseas Fellow í Churhill College í Cambrigde, Englandi frá 1970. Þorleifur var einnig virkur félagi í Skógræktarfélagi Íslands, Sögufélaginu og Jöklarannsóknarfélaginu. Hann tók um árabil þátt í starfi íþróttahreyfingarinnar og þá einkum handbolta. Hann var leikmaður með ÍR, var atvinnumaður í Þýskalandi, landsliðsmaður, þjálfari og sat í dómaranefnd HSÍ. Þorleifur stundaði margþættar rannsóknir í jarðfræði og liggur eftir hann fjöldi greina og bóka um jarðfræðileg efni og umhverfisvernd á ýmsum tungumálum auk íslensku. Síðasta bókin sem hann lauk við var Myndun og mótun lands. Jarðfræði sem kom út 1991. Einnig flutti hann fjölda fyrirlestra um jarðfræðileg efni á ráðstefnum og fundum hérlendis, á alþjóðaráðstefnum og við fjölmarga háskóla erlendis.“

Þorleifur Einarsson„Þorleifur hóf rannsóknir á jarðfræði Íslands strax á námsárunum í Þýskalandi og snerust prófritgerðir hans um þær. Diplómaritgerðin fjallaði um jarðfræði Hellisheiðarsvæðisins, gerð og aldursafstöðu bæði ísaldarmenja og eftirísaldarjarðlaga, sem nánast eingöngu eru af eldvirkum toga, afrakstur eldvirkni undir bæði ísaldarjöklum og berum himni. Dr. rer. nat.-ritgerð hans fjallaði um veðurfarssögu ísaldarloka og eftirísaldartímans.
Þessi tvö meginviðfangsefni, eldvirkni og veðurfarssaga og tengsl þeirra við ísaldarfræði almennt urðu meira og minna rauður þráður í rannsóknum hans hér síðan.
Þorleifur hafði afar yfirgripsmikla þekkingu á því sem ritað hafði verið um jarðfræði og náttúru Íslands almennt; hafði lesið á námsárunum allt sem hann komst yfir um þessi mál.
Það ritverk Þorleifs sem án efa hefur haft víðust áhrif er svokölluð Þorleifsbiblía, kennslubók hans um jarðfræði (Jarðfræði. Saga bergs og lands). Hún kom út fyrst árið 1968 og braut blað í kennslu í jarðfræði, þar sem bókin var afar góð og leysti af höndum afgamla bók, að stofni til frá 1922. Menn, sem kynntust Þorleifsbiblíu á fyrstu árum hennar, minnast enn þessarar bókar og þeirrar upplifunar sem lestur hennar var, bæði sem skemmtilegur lestur og sem uppljómun í þekkingu. Bókin kom út aftur og aftur og var umskrifuð og aðlöguð eftir hendinni og er reyndar enn á markaði, þrátt fyrir byltingar í fræðunum.
Eitt eftirminnilegasta verk Þorleifs tengist eldgosinu á Heimaey árið 1973.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 01.01.1961, Þættir úr jarðfræði Hellisheiðar – Þorleifur Einarsson, bls. 151-172.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/459296/
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58246

Eldborg

Horft niður í einn eldborgargíginn, hellinn Trölla, á svæðinu.

Leiti

Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 1971 um „Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun„. Hér er greinin birt að hluta:

Jón Jónsson

Jón Jónsson.

Allmörg hraun eru í nágrenni Reykjavíkur, en aðeins eitt þeirra hefur þó náð inn fyrir núverandi borgartakmörk. Þetta hraun hefur runnið niður eftir farvegi Elliðaánna og út í Elliðavog, þar sem það endaði í flötum tanga. Á þessum slóðum gengur hraunið undir nafninu Elliðaárhraun, en hefur annars ýms nöfn á ýmsum stöðum, eins og títt er. Jarðfræðilega er heppilegt að kenna hraun við eldvarpið eða eldvörpin, sem það er komið úr, sé þess kostur. Að sjálfsögðu felur slíkt ekki í sér að gömul og þekkt örnefni í hrauninu skuli felld niður. Þetta er aðeins til hægðarauka að nota eitt og sama nafn um sama hraunið. Nafnið er þá aðeins notað sem jarðfræðilegt hugtak, ekki sem nýtt örnefni.

Fyrstu rannsóknir
Leitarhraun
Ekki er mér kunnugt um, að neinar rannsóknir hafi verið gerðar á því, hvaðan hraun þetta er komið, fyrr en sumarið 1954, að við Tómas Tryggvason unnum að gerð jarðfræðikorts þess af Reykjavík og nágrenni, sem út kom 1958 (Tryggvason og Jónsson 1958).
Það kom þá í minn hlut að kortleggja suðurhluta svæðisins, og þá rakti ég þetta hraun alla leið austur fyrir austurtakmörk kortsins. Áður hafði mér verið sagt, að það væri komið sunnan af svæðinu við Kóngsfell. Þorvaldur Thoroddsen hefur auðsjáanlega gert sér gxein fyrir að hraun hafi runnið ofan frá Bláfjöllum niður hjallana og niður að Rauðhólum, en hann telur líklegast að Elliðaárhraunið sé úr Rauðhólum komið (Ferðabók I, bls. 123—124, Rvík 1958).

Fossvallaklif

Fossvallaklif.

Einn hluti þessa hrauns hefur öðrum fremur vakið athygli vísindamanna fyrir löngu, en það eru Rauðhólar við Elliðavatn. Þeir hafa verið rækilega skoðaðir af ýmsum, þó ekki væru menn á eitt sáttir varðandi uppruna þeirra. Voru þeir ýmist taldir raunverulegir eldgígir eða gervigígir, án þess að gerð væri grein fyrir á hverju niðurstaðan væri byggð. Einn af þeim fyrstu, sem skoðaði Rauðhóla, var Frakkinn Eugéne Robert, sem var jarðfræðingur í leiðangri Paul Gaimards 1835—1836. Telur hann hólana gervigígi, en getur ekki um, hvaðan hraunið sé komið. Skýring hans virðist þó hafa fallið í gleymsku í meira en 100 ár. Síðan hafa margir um þetta mál fjallað, og skoðanir verið skiptar, hvað snertir uppruna hólanna.
Þegar Þorleifur Einarsson (1960) vann að jarðfræðirannsóknum á Hellisheiði og á svæðinu austan við Bláfjöll, athugaði hann forna eldstöð suðaustan undir Bláfjöllum, skammt sunnan við Ólafsskarð. Þessir gígir nefnast Leitin, og komst Þorleifur að þeirri niðurstöðu, að þar væru upptök hraunsins og nefndi það því Leitahraun.

Leið hraunsins rakin

Leitarhraun

Leitarhraun – uppdráttur.

Ekki verður Leitahraun hér rakið lengra en austur að Draugahlíðum, en þaðan má rekja það óslitið alla leið út í Elliðavog. Það hefur fallið í þröngum fossum niður af Bolaöldum og Vatnaöldum, sem hvort tveggja eru misgengishjallar, en breiðst nokkuð út þar á milli, og niður á Sandskeið. Ekki verður séð, hvað langt það nær þar til suðurs, því sandlög hylja það, en líklegt virðist, að það sé undir svifflugvellinum a.m.k. Sandlög þessi eru framburður úr gili, sem liggur suður með Bláfjöllum að vestan. Tvö önnur hraun hafa og komið þar sunnan að og er hið eldra þeirra nyrzt líka hulið sandlögum úr þessu sama gili.

Tröllabörn

Tröllabörn.

Mót þess hrauns og Leitahraunsins eru hulin og því ekki vitað, hvort er eldra. Norðurtakmörk Leitahrauns eru hins vegar nokkuð ljós á þessum slóðum. Það hefur fiætt um sléttuna alla norður með Vatnaási langleiðina norður að Stangarhól og Litla-Lyklafelli. Frá Sandskeiði hefur hraunið svo runnið áfram vestur eftir og myndar víðáttumikla og hallalitla hraunsléttu norðvestur af Fóelluvötnum. Er þessi hraunslétta á kortinu nefnd Mosar. Þegar hraunflóðið var búið að fylla þessa lægð hæðanna á milli, hefur það á ný fallið um þrönga farvegi, þar sem það er sums staðar aðeins fáir metrar á breidd og breiðist ekki út svo teljandi sé, fyrr en það kemur á sléttan flöt, Fossvelli, austan við Lækjarbotna. Þar breiðist það nokkuð út á ný, en suðurtakmörk þess eru hulin yngra hrauni, sem komið hefur sunnan að um skarðið milli Sandfells og Selfjalls. Það hraun endar í hárri brún rétt norðan við beygjuna á þjóðveginum, þar sem hann liggur upp úr Lækjarbotnum. Mun brekka sú heita Fossvallaklif.

Tröllabörn

Tröllabörn – gervigígar.

Hraunið, sem þarna endar og er svo áberandi, hef ég nefnt Hólmshraun II. Augljóst er af því, sem hér er sagt, að Hólmshraun II er yngra en Leitahraun. Fram af áður nefndri brún hefur Leitahraun fallið út á sléttar grágrýtisklappir rétt norðvestur af gamla gististaðnum Lögbegi. Þar er hraunið sums staðar aðeins 0,6—0,75 m þykkt (1. mynd). Má af því marka, hversu þunnfljótandi hraunið hefur verið. Í þessu sambandi má geta þess, að ég lít svo á, að hér hafi verið um dyngjugos að ræða, og að líta beri á Leitin sem dyngju. Á áðurnefndum stað klofnar hraunið í tvær kvíslar, fellur meginkvíslin vestur, en hin norður með Fossvallaklifi og þekur þá sléttu, sem nú nefnist Nátthagamýri, en við norðurrönd hennar er grunn tjörn, Nátthagavatn. Þarna hafa í hrauninu myndazt nokkrir gervigígir, lágir og lítt áberandi. Hafa þarna verið tjarnir, þegar hraunið rann, og bólstraberg hefur myndazt þar. Megin hraunstraumurinn hélt áfram vestur og breiddist út um sléttlendið vestan við Lækjarbotna hæða á milli. Norðurtakmörkin eru víðast hvar greinileg, en suðurtakmörkin víðast hulin yngri hraunum og er svo allt vestur að Gvendarbrunnum. Þessi hraun eru Hólmshraunin og eru þau fimm að tölu.

Hómsborg

Hólmsborg í Hólmshrauni II.

Skammt vestan við Lækjarbotna koma fyrir gervigígir í hrauninu, eru þar nokkrir mjög snotrir katlar úr hraunkleprum báðum megin við þjóðveginn. Þeir eru nefndir Tröllabörn. Hraunsléttan er svo nær mishæðalaus, þar til kemur nokkuð vestur fyrir Geitháls, en þar eru nokkrir gervigígir við norðurrönd hraunsins í röð, sem nær vestur undir Hólm. Lítið eitt vestar hefur hraun sunnan að runnið því sem næst þvert yfir Leitahraun. Liggur vesturrönd þess hrauns fast að Gvendarbrunnum. Hraun þetta er mjög þunnt. Það hef ég nefnt Hólmshraun I og er það elzt þeirra hrauna. Þau eru komin af svæðinu við Kóngsfell.
Rauðhólar
Nokkru vestar eru svo Rauðhólar eða réttara sagt, það sem eftir er af þeim. Hefur hraunið þar án efa runnið út í vatn og því hafa gervigígarnir myndazt. Fyrir vestan Rauðhóla er hraunið slétt og takmarkar Elliðavatn að norðan og austan, þ.e.a.s. eins og vatnið var áður en Elliðaárnar voru virkjaðar. Það hefur svo runnið um þröngt sund norðan við Skyggni. Myndast svo enn ein hraunsléttan í því og nær hún norður með Selási að vestan. Nyrzt á því svæði þrengist enn á ný um hraunið, og er það mjög mjótt, þar sem vatnsveitubrúin nú er. Svo beygir það vestur, fellur fram af allhárri brún vestan við Árbæjarstíflu, beygir loks til norðurs og endar í flötum tanga í Elliðavogi, nálægt því 300 m norðan við þjóðveginn. Hefur það þá runnið því sem næst 28 km leið frá eldvarpinu.

Rauðhólar

Rauðhólar

Rauðhólar.

Heita má að hin forna fegurð og töfrablær Rauðhólanna sé nú horfinn, og ekki var með öllu ástæðulaust að lítil stúlka, sem fór þar um fyrir nokkrum árum, spurði, hvort þetta væru Rauðholur. Þar standa nú eftir gjall- og hraunstabbar, sem þó eru harla fróðlegir. Oft hef ég komið í þessa sundurrifnu Rauðhóla, en sjaldan farið þaðan án þess að hafa séð eitthvað nýtt.
Það eru tiltölulega fáir staðir til, þar sem skoða má innviðu gervigíga og er nokkurs virði að hafa slíkan stað nálægt höfuðborginni og hinum ört vaxandi háskóla. Ekki þarf að efa, að hraunið hefur þarna runnið út í vatn, og að það er megin orsök myndunar gervigíganna. Hitaveita Reykjavíkur lét bora rannsóknarholu í Rauðhólum 1962. Var þá borað í gegnum Leitahraun, sem á þessum stað reyndist um 7 m þykkt. Undir því var fyrst leirlag um 1 m þykkt, þar eftir jökulurð og loks grágrýti. Ekki náðist sýnishorn af þessum leir, en líklegt þykir mér, að um kísilgúr hafi verið að ræða og sé það botnset hins forna vatns. Þykk lög af því efni eru bæði í Elliðavatni og Vífilsstaðavatni og eru raunar í flestum ef ekki öllum stöðuvötnum hérlendis, þar sem hraun liggja að.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Víða má í gjallstáli Rauðhóla sjá gulnaðan, stundum rauðbrenndan leir, bæði innan í brotnum hraunkúlum og sem laus stykki í gjallinu. Þetta er kísilgúr, sem án efa á rætur að rekja til vatnsins, sem hraunið forðum rann út í og fyllti. Svona má og sjá í gervigígum víða um land, t.d. í Landbroti, við Mývatn og í Aðaldal. Þetta eru ferskvatnsmyndanir.
Fróðlegt er að sjá þarna göng eftir gas, vafalaust að mestu leyti vatnsgufu, og hversu þau eru frábrugðin gasgöngum í eldstöðvum. Í eldstöðinni eru gasgöngin brynjuð innan af hraunglerungi, semer endurbrætt hraun. Slíkt ætti að jafnaði síður að koma fyrir í gervigígum, enda þótt það sé sennilega til. Gæti þetta verið nokkur hjálp við að greina gervigíg frá eldstöð.

Útlit hraunsins og innri gerð

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur.

Leitahraun er dæmigert helluhraun. Það hefur verið afar þunnfljótandi, runnið næstum eins og vatn, og vafalaust verið mjög heitt, þegar það rann. Dæmi, sem sanna þetta, má víða sjá í hrauninu. Áður er á það drepið, hvað þunnt það er, þar sem það hefur runnið út á grágrýtisklöppina við Lækjarbotna. Á nokkrum stöðum þar fyrir austan, þar sem vatn hefur grafið inn undir hraunröndina, má sjá hvernig það hefur runnið utan um grágrýtisbjörg og fyllt svo að segja hverja smugu. Loks má geta þess, að nokkuð er um hella í þessu hrauni, þó ekki séu þeir stórir í þeim hluta þess, sem hér um ræðir. Nokkrir eru austur á Vatnaöldum, rétt norðan við gamla þjóðveginn.

Aldur hraunsins

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar og Elliðavatn fjær.

Það eru nú bráðum 20 ár síðan fyrst var gerð aldursákvörðun á mó, sem Jóhannes Áskelsson (1953) fann undir Leitahrauni rétt ofan við brúna yfir Elliðaár. Samkvæmt C1 4 aldursákvörðun reyndist mórinn 5300 ± 340 ár.
Sumarið 1965 lagði Vatnsveita Reykjavíkur nýja vatnsæð til borgarinnar. Var þá sprengdur skurður í gegnum Leitahraun suður og vestur af Elliðaárstöðinni. Við norðurjaðar hraunsins nær beint suður a£ stöðvarhúsunum var hraunstorkan svo þunn, að hún brotnaði undan þungri jarðýtu. Kom þá í ljós, að undir hrauninu var mýri, sem vaxin hefur verið birkikjarri áður en hraunið rann. Mátti þarna tína búta af birkihríslum, sem nú voru orðnar að viðarkolum. Þótti mér rétt að nota þetta efni til nýrrar aldursákvörðunar, og var hún framkvæmd af dr. Ingrid U. Olsson á rannsóknarstofu háskólans í Uppsala í Svíþjóð (U-632). Sú aldursákvörðun sýndi, að gróðurleifarnar eru 4630 ± 90 ára, þ.e. töluvert yngri en samkvæmt fyrri aldursákvörðun. Hefur hraunið því runnið um 2680 árum fyrir okkar tímatal eða á þeim sömu árum og egypzkir verkamenn strituðu við byggingu hins mikla Cheops pýramída á Egyptalandi austur.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.11.1971, Hraun í nágrenni Reykjavíkur – Leitarhraun – Jón Jónsson, bls. 49-63.

Leitarhraun

Leitarhraun – kort.

Árnahellir

Í Dagblaðiðinu Vísi árið 2002 er fjallað um friðlýsingu „Árnahellis“ í Ölfusi.

„Árnahellir í Ölfusi friðlýstur:

Árnahellir

Í Árnahelli.

„Einstakar dropasteinsmyndanir á heimsvísu – segir Árni B. Stefánsson sem fann hellinn fyrir 17 árum. Umhverfisráðherra undirritaði í gær friðlýsingu Árnahellis í Leitarhrauni í Ölfusi. Árnahellir er annar hellir landsins sem er friðlýstur með sérstakri friðlýsingu. Árni B. Stefánsson augnlæknir fann hellinn 1985.
Hann er um 150 metra langur og liggur á 20 metra dýpi, breidd hans er um 10 metrar en lágt er til lofts. Það sem gerir hellinn merkan eru mikilfenglegar dropasteinsmyndanir í gólfi hans, allt að metri á hæð og um 7 cm í þvermál. Þétt hraunstrá eru úr lofti hellisins, mislöng, sum um 60 cm löng. Með friðlýsingu hellisins eru ferðir um hann takmarkaðar nema með leyfi Náttúruverndar ríkisins.

Árnahellir

Í Árnahelli.

Hellinum var lokað með hlera árið 1995 til að takmarka aðgengi í hann vegna sérstöðu hans og viðkvæmra myndana. Þröngt er að komast í hann, þarf að fara niður bratta skriðu og niður um þröngt op í aðalhellinn. Þegar þangað kemur ber fyrir augu framandi veröld sem myndaðist fyrir um 4.600 árum og hefur fengið að vera að mestu ósnortin síðan. Leitarhraun, sem hellirinn er í, rennur í sjó fram í Ölfusi en er sama hraun og rennur niður Elliðaárdalinn í Reykjavík og þar í sjó fram.“

Árnahelli

FERLIRsfélagar framan við op Árnahellis.

Árni B. Stefánsson, sem segist hafa „fundið“ hellinn, sagði við undirritunina að hann hefði lengi haft áhuga fyrir því að finna hella. Hann sagðist hafa notað loftmyndir til að hjálpa sér við leitina og það hefði leitt hann að þessum helli árið 1985.

Árnahellir

Í Árnahelli.

Árni sagði hellinn einstakan á heimsvísu, hann hefði notið þess að umgangur um hann hefði enginn verið og því hefðu myndanirnar í honum varðveist svo vel. Hann sagðist hafa haft hljótt um hann eftir fundinn en hann hefði spurst út og eftir að dropasteinn fannst í göngunum í hellinn og dropasteinar inni í honum hefðu verið farnir að láta á sjá hefði þurft að gripa til þess neyðarúrræðis að loka honum.“ -NH

Árnahellir

Árnahellir – friðlýsingarkort.

Staðreyndin er hins vegar allt önnur. Einungis einvala hellaáhugafólk lagði á sig á þessum tíma að skoða hella sem  „Árnahelli“. Hellirinn hafði þá þegar verið þekktur af heimafólki í Ölfusi um langa tíð. Eitthvert þeirra gæti mögulega hafa brotið einn eða annan „dropastein“ af mörgum ferðum sínum inn í hellinn. Allt annað var væmnissíki ráðandi hellaáhugamanna í HERFÍ (Hellarannsóknarfélagi Íslands). Aðrir en hellaáhugaskoðunarfólk bjuggu ekki yfir búnaði á þeim tíma til að leggja út í sérstaka og nákvæma hellaskoðun. Ráðherrann hafði því verið blekktur til friðlýsingarinnar, líkt og gildir um svo margar aðrar slíkar, sem á eftir komu…

Auglýsing um friðlýsingu Árnahellis í Leitahrauni var dags. 25. júlí 2002.

Árnahellir

Í Árnahelli.

Í auglýsingunni segir m.a.: „Að tillögu [Umhverfisstofnunar] og Hellarannsóknafélags Ísland og með samþykki sveitarstjórnar Ölfus hefur umhverfisráðherra ákveðið að friðlýsa hraunhellinn Árnahelli í Leitahrauni sem náttúruvætti í samræmi við 2. tl., 53. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda hellinn og einstæðar jarðmyndanir sem í hellinum eru.
Hellirinn er í flokki örfárra hella á jörðinni sem skarta jafn glæsilegum og ósnortnum hraunmyndunum og er náttúrufyrirbæri á heimsvísu.
Umferð um hellinn er eingöngu heimil með sérstöku leyfi Náttúruverndar ríkisins eða þess sem hefur umsjón með náttúruvættinu í umboði stofnunarinnar.“

Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 169. tbl. 26.07.2002, Árnahellir í Ölfusi friðlýstur – Einatkar dropasteinsmyndanir á heimsvísu, bls. 2.
arnahellir_591_2002.pdf (ust.is)

Árnahellir

Árnahellir – greinin.