Tag Archive for: Litla-Hólmsvör

Prestavarða

Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru, upp á heiðina fyrir ofan Leiru að Prestsvörðunni, sem þar er. Frá henni var haldið vestur fir heiðina ofan við Langholt að Árnarétt, fallegri fjárborg, og síðan gengið til norðurs að Ellustekk.

Litla-Hólmsvör

Litla-Hólmsvör.

Stóri-Hólmur er fornt höfuðból í Leiru. Talið hefur verið að Steinunn gamla, frændkona Ingólfs Arnarsonar hafi búið á Stóra-Hólmi á landnámsöld. Að sjálfsögðu deila menn um hinn eiginlega dvalastað hennar í umdæminu, en skv. Landnámu þáði hún Rosmhvalanesið allt af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, fyrir forláta kápu. Það var altalað þá og virðist lengi hafa verið í minnum haft, enda vildi hún að kaup kæmu fyrir gjafakaupin góðu. Í landi Stóra-Hólms er sæmilegur golfvöllur landsins rekin af Golfklúbbi Suðurnesja. Vestan við Stóra-Hólm er bátslaga óræktarsvæði. Hleðsla hefur verið umhverfis og lengi vel var bletturinn girtur af. Sú sögn var um blett þennan að þar væri fornmaður grafinn og honum mætti ekki raska. Sumir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn með haugfé sínu, en ekki er vitað til þess að gengið hafi verið úr skugga um það.
Enn vestar er fallega hlaðinn brunnur. Utar og neðar er Litla-Hólsmvörin, ein tilkomumesta lending á ströndinni. Úr henni hefur verið kastað stóru sjávargrjóti með takmörkuðum tækjabúnaði.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.

Gengið var upp frá Stóra-Hólmi og upp fyrir æfingavöll golfklúbbsins ofan vegar. Skammt ofan við vesturjaðar hans er Prestsvarðan. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum.
Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum.
Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Árnarétt

Árnarétt.

Skammt frá vörðunni er gamla leiðin yfir í Garð frá Keflavík. Önnur leið var norðar, framhjá fjárborginni vestast á Berghólum. Hún sést enn mjög vel á köflum, einkum næst borginni.
Strikið var tekið til vesturs, ofan við Langhóla. Austast á þeim er stór ferhyrnd varða. Í fyrstu gæti hún hafa verið leiðamerki inn í vörðina við Hólm, en þarna mun vera merkilegt fyrirbæri er nefnist Ranglát. Var dregin sjónlína úr henni yfir fjörðinn.  Veiðitakmarkanir voru beggja vegna línunnar. Árnarétt er í heiðinni nokkru vestar. Hún er hringlaga og vel hlaðin. Litlar upplýsingar virðast vera til um mannvirkið, en það gefur Staðarborginni lítið eftir. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Gengið var til norðurs, niður heiðina, að Hríshólavöru og áfram niður að Elínarstekk. Þetta er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er þessu nafni, stundum þó Ellustekkur. Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr. Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=219

Hólmur

Hólmur – örnefnakort; ÓSÁ.