Á Vatnsleysuheiði, Kálfatjarnarheiði og ónefndu heiðunum þar vestur af ofan Vatnsleysustrandar-bæjanna má sjá leifar allnokkurra fjárborga, auk einnar uppgerðar, þ.e. Staðarborgarinnar.
Frá austri til vesturs má þarna m.a. sjá „Litluborg“ norðvestan Hafnhóla. Hún er nú gróin, en vel má sjá grjóthleðslur í henni. Vestar og norðvestar má sjá leifar tveggja borga á háum hraunhólum báðar í Þórustaðalandi. Norðan þeirra er svo Staðarborgin. Í Morgunblaðinu 1980 var varpað fram fróðleik um Staðarborgina, sbr.: „Á Íslandi eru fáar byggingar, sem teljast til fornminja, enda skiljanlegt, því það var ekki fyrr en um miðja 18. öld, sem Íslendingar fóru að reisa hús og aðrar byggingar úr varanlegu efni. Fram að þeim tíma, og raunar fram á þessa öld, var torfið og grjótið það byggingarefni, sem algengast var.
Þótt vel og vandvirknislega væri að unnið, þegar byggt var úr þessum efnum, skipti ekki síður máli að undirstaðan væri traust. En vel hlaðnir grjótveggir reistir á harðri klöpp, geta staðið áratugum saman án þess að þeir raskist. Slíkar hleðslur eru til og í þetta sinn skulum við skoða eitt slíkt mannvirki. Þá skreppum við suður á Vatnsleysustrandarheiði og skoðum Staðarborgina, en það er fjárborg, sem hlaðin var fyrir löngu síðan og stendur óhögguð enn. Gönguferðin er ekki löng að þessu sinni en ég vænti þess, lesandi góður, að þú teljir það ómaksins vert að skreppa þangað og skoða borgina.
Við ökum sem leið liggur áleiðis til Keflavíkur. Við Kúagerði greinast leiðir og skiptir engu hvor þeirra er valin. Ef við veljum gamla veginn meðfram ströndinni nemum við staðar ca. 3 km vestan við vegamótin. Þar förum við úr bílnum og göngum beint suður á hraunið. Næst veginum eru hæðir, sem skyggja á, en þegar yfir þær er komið blasir Staðarborgin við. Er þessi leið ekki nema tæpir 2 km alls. Hún er greiðfær, því hraunið er slétt og gróið víða.
En ef við höldum áfram upp á Strandarheiði blastir borgin við norður í hrauninu og ekki unnt að líta fram hjá henni, því hún ber þar við loft. Engin vandkvæði eru heldur, að nálgast hana úr þessari átt. Staðarborg er mikið mannvirki. Hún er eingöngu hlaðin úr völdum hleðslusteinum. Hæð veggjanna er um 2 m, þykkt þeirra um 1.5 m neðst. Borgin er hringlaga að innan. Þvermálið um 8 metrar og ummál hringsins að innan um 23 metrar. Að ofan eru veggirnir örlítið inndregnir, eins og byggingarmeistarinn hafi ætlað sér að hlaða hana upp í topp. Hleðsla steinanna og handbragðið allt er sannkallað meistaraverk og svo traust, að undrun sætir.
En hvers vegna er þetta mannvirki hér langt uppi á heiði, fjarri öllum mannabyggðum? Fyrr á tímum var sauðfé ætlaðað bjarga sér á útigangi eins lengi og unnt var. Gripahús voru af skornum skammti heima við bæina, en skepnunum haldið þar til beitar sem best þótti hverju sinni.
Sauðamenn voru þá á flestum bæjum og var hlutverk þeirra að annast sauðféð og fylgjast með því dag og nótt, ef þurfa þótti. Til að spara húsbyggingar, voru hlaðnar borgir fyrir féð, þar sem það gat leitað skjóls í illviðrum og í þeim tilgangi hefur Staðarborgin verið byggð.
Gólfið í borginni er grasi gróið og bendir til þess að sauðfé hafi leitað þar skjóls eins og ætlað var. En hvenær var borgin byggð og hver vann það verk? Engar heimildir munu vera til um það aðeins munnmæli. Þar er sagt, að presturinn á Kálfatjörn hafi ráðið mann er Guðmundur hét til að hlaða borgina. Guðmundur valdi steinana af vandvirkni, dró þá víða að og raðaði þeim í langar raðir á holtinu, svo hann gæti betur áttað sig á því hvaða steinar ættu saman í hleðsluna. Síðan hóf hann verkið og ætlaði að hlaða borgina í topp, eins og snjóhús. Verkið sóttist vel og þar kom, að hann ætlaði að fara að draga veggina saman að innan. Þá kom Guðmundur prestur í heimsókn og leit á verkið. Sá hann þegar, að með því móti myndi fjárborgin verða stærra og myndarlegra hús en kirkjan á Kálfatjörn. Það gat hann ekki liðið og bannaði Guðmundi að fullkomna verkið. Við þetta bann reiddist Guðmundur heiftarlega, hætti á stundinni og gekk burtu. Enginn tók við af Guðmundi, svo borgin stendur nú, hálfkláruð eins og hann gekk frá henni. Enn í dag ber hún þessum óþekkta meistara sínum fagurt vitni um snilldar handbragð.
Staðarborgin var friðuð árið 1951 samkvæmt lögum um verndun fornminja. Engu má þar spilla á nokkurn hátt. Er þess að vænta að það verði virt um alla framtíð.“
Vestan Staðarborgarinnar er svo gróin Þórustaðaborg inni á milli hraunhóla. Þórustaðastígurinn liggur upp með henni. Vestar er Auðnaborgin eða Auðnastekkur. Sjá má leifar fjárborgarinnar á hól norðaustan stekksins (réttarinnar). Enn vestar er svo gróin Lynghólsborgin norðan undir Lynghól. Hún er greinilega mjög gömul, en enn má sjá hleðslur í veggjum og leiðigarð framan við opið mót suðri. Suðvestar er Hringurinn, allmiklar hleðslur, á lágum hól í hvylft á milli holta. Vestar er Gíslaborg. Henni hefur greinilega á einhverjum tíma verið breytt í gerði eða rétt á hól skammt austan iðnaðarhúsa ofan Voga. Vestan Vogavegar er svo Gvendarborg eða Gvendarstekkur.
Á allmörgum hólum milli fyrrnefndra fjárborga má bæði sjá leifar af hlöðnum refagildrum og nýrri skotbyrgjum eftir refaveiðimenn.
Heimildir:
-Morgunblaðið 31. júlí 1980.