Ætlunin var að steðsetja Víkursel, Litlasel, Árnakrók og Stórasel austan við Selvatn.
Reykjavíkursel við Selvatn.
Árnakrókur er lögrétt Mosfellinga frá því um 1850 til 1900 uns hún fluttist í Hafravatnsrétt. Stórasel gæti hafa verið sel frá Elliðakoti (Helliskoti), en landamerki Elliðakots og Miðdals eru við lækjarsprænu, Sellæk, austast í Selvatni. Kort gefa misvísandi mynd af stöðu seljanna, en haft var hliðsjón af korti frá því um 1940, sem mun vera öllu réttar en seinni tíma kort af slíkum minjum. Þannig eru seljunum stundum víxlað á kortum og uppdráttum. Líklega hefur Stórasel verið norðar og Litlasel við Litluselsvík, sem er þar skammt sunnar við austanvert vatnið. Á báðum þessum stöðum eru nú sumarhús.
Gengið var austur með norðanverðu vatninu, að sumarbústað, sem þar er. Bústaður, Selbúð, er þar skammt vestar. Þegar komið var að bústaðnum tók á móti þátttakendum elskuleg hjón. Árni Kristinsson hafði orð fyrir þeim. Hann varð bæði hissa og glaður því enginn hafði fyrr sýnt neinn áhuga á rústum þessum. Hann taldi að hinar gömlu rústir væru skammt norðan við bústaðinn, á bakka Sellækjar. Sóttar voru loftmyndir, kort og aðrar upplýsingar, en kortin voru að vísu svolítið misvísandi. Sýndi Árni m.a. grein úr “Hesturinn okkar, 30. árg. 2. og 3. tbl. 1989”, en í þeirri umfjöllun er lýst staðháttum, örnefnum og minjum á þessu svæði.
Árnakrókur.
Frúin, sem uppalin er á þessum slóðum, taldi sig og muna eftir tóftum austan við Árnakróka, í grösugri hlíð þar á mót suðvestri. Gæti verið forvitnilegt að skoða síðar. Boðið var bæði upp á vatn og meðlæti, en hvoru tveggja var afþakkað að þessu sinni. Markmiðið var að skoða nærtækar minjar.
Árni vísaði á minjarnar skammt norðan við sumarhúsið. Þar var að sjá mjög gamlar rústir. Sjá mátti þó móta fyrir þremur rýmum. Árni sagðist hafa heyrt að rústir þessar gætu hugsanlega hafa verið af seli frá gamla Víkurbænum. Af einhverju hefur Selvatn a.m.k. verið nefnt eftir. Aðstaðan þarna er hin ákjósanlegasta, í skjóli fyrir suðaustanáttinni, nægt vatn og nægir bithagar, skammt neðan við Mosfellsheiði. Sellækur rennur hjá rústunum og ofan við þær er Selásinn. Líklegt þykir að bæði hafi verið hærra í vatninu á öldum fyrrum og auk þess hafi gróðurfar við vatnið breyst í aldanna rás.
Hleðslur í Árnakrók.
Í máldögum 1397 og 1505 er ekki getið um Víkursel. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir eru mjög fáorðir um búskaparefni.
Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson (f. 1570, d. 1660), hálfbróðir Odds biskups, “fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband”. Kona hans var Þórey Narfadóttir (ein heimild nefnir hana Þórnýju) bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, hafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu, en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði.
Víkursel hefur í seinni tíð verið staðsett í Öskjuhlíð. Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: “Selstaða er jörðinni [REYKJAVÍK] eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn”.
Höfðinn ofan við selið við Seltjörn heitir Hríshöfði.
Árnakrókur.
Þá var gengið í Árnakrók. Um er að ræða lögrétt Mosfellinga frá því um 1850 til 1900 uns réttin færðist að Hafravatni. Árnakrókur er skammt austan við Selvatnið og hin merkilegasta mannvirku. Réttin er nokkuð heilleg og vel má sjá í henni almenning og dilka. Dilkarnir hafa verið 11 að tölu auk, tveggja minni. Þeir eru mismunandi stórir. Tækifærið var notað og GPS-punktar teknir og réttin rissuð upp.
Haldið var niður að svonefndu Stóraseli. Stór sheffer-hundur stökk að þátttakendum, sem fyrr voru hvergi bangnir. Enda kom í ljós að kjarkur hins stóra hunds var ekki meiri en hjá meðal hænu.
Gunnar Kristjánsson tók vel á móti þátttakendum. Hann kvaðst vera uppalinn á Gunnarshólma og þekkja nokkuð vel til á landssvæðinu. Elliðakot hafi undir það síðasta heyrt undir Gunnarshólma. Það hafi verið landmikil jörð og hafi landamerki þess náð allt að lækjarsprænunni austan í Selvatnið neðan við Litlasel og upp á Sandskeið. Helmingur Selvatnsins (austurhlutinn) hefði tilheyrt þessu landi.
Hænur við Stórasel.
Stórasel gæti því hugsanlega hafa verið sel frá Elliðakoti (Helliskoti). Handan (að norðanverðu) væri land Miðdals og Miðdalsheiði ofar. Landamerkin lægju svo til í gegnum mitt hjónarúm sumarhússins sunnan Litlasel. Gunnar er þarna með íslenskar hænur og sígalandi hana. Hann sagðist ekki muna eftir tóftum hins gamla Stórasels á þessum stað. Sjálfur hefði hann byggt sumarhús sitt (sem reyndar, líkt og mörg önnur “sumarhús” við vötnin á heiðinni eru heilsársbústaðir) upp úr gömum bústað. Líklegt megi telja að Stórasel hafi verið þarna á sléttu í hlíðinni, á þeim stað, sem bústaðurinn er nú. Svipast var um eftir hugsanlegum tóftum, en engar sáust. Lækur er sunnan bústaðarins og grassvæði neðst með honum. Af ummerkjum að dæma gæti selið hafa verið á hæðardraginu þar sem bústaðurinn er nú.
Við Selvatn býr bæði áhugasamt og frótt fólk um fyrri nytjar.
Ætlunin er að skoða svæðið austan við Selvatn og hugsanlegar tilteknar tóftir, sem þar eiga að vera utan í hlíðardragi. Í hlíðinni skammt frá á að vaxa stór og fallegur einir.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tík 1 klst og 11 mín.
Sjá nánari umfjöllun um svæðið í “Hesturinn okkar, 30. árg. 2. og 3. tbl. 1989”.
Árnakrókur – uppdráttur ÓSÁ.