Tag Archive for: Lögreglan í Reykjavík

Omar

Fáir, ef nokkur núlifandi Grindvíkinga, þekkja sögu samfélagsins, þróun, landamerki og landsgæði bæjarins sem og umhverfi Reykjanesskagans betur en Ómar Smári Ármannsson, hvort sem um er að ræða örnefni, minjar og sögulega staði. Hann ólst upp, á sínum tíma, í gamla útvegsbændasamfélaginu, sem enn á sterkari rætur í grindvísku samfélagi, en marga grunar. Hann fékk þrátt fyrir það tækifæri til að upplifa samtíðina á eigin skinni, með öllum göllum þess og kostum.

-Ertu fæddur Grindvíkingur?

Ómar

Ómar Smári Ármannsson.

Já, ég fæddist í Grindavík, nánar tiltekið í Valhöll í Þórkötlustaðarhverfi og ólst þar upp fyrstu árin, en var síðan fluttur yfir í Járngerðarstaðahverfið. Í uppvextinum í Grindavík var sáð því fræi, sem náði að dafna til lífs.

-Ómar Smári hlýtur að hafa þótt sérstakt samsett nafn árið 1954. Hvernig er það til komið?
Móðir mín ákvað nafnið. Það fékk þó ekki samþykki fyrir því, enda óhefðbundið í þá daga. Það liðu þrjú ár þangað til hún ákvað að ganga með mig til prestsins í Prestshúsum í Grindavík til skírnar.
Presturinn, inni í dimmri stofunni, spurði móður mína hvað drengurinn ætti að heita. Hún svaraði; „Hvers vegna spyrðu hann sjálfan ekki af því.“
Presturinn leit á mig með lítilli tiltrú og spurði: „Hvað viltu heita drengur?“
Ég svaraði feiminn: „Ómar Smári“.
Presturinn virtist hikandi, fletti í skræðum sínum og sagði síðan: „Drengurinn getur ekki heitið Smári. Það er ættarnafn.“
Móðir mín svaraði: „Smári getur ekki verið ættarnafn.“
Presturinn: „Jú, Jakob Smári er með ættarnafn“.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen fremst.

Móðir: „Maðurinn sá heitir kannski Jakob, en hann er sagður „í Smára“. Það getur varla talist ættarnafn. Afi og amma drengsins búa t.d. í Teigi og ekki er það ættarnafn“.
Presturinn: „Ég þarf að hringja suður. Getið þið hinkrað aðeins?“. Hann gekk síðan út úr dimmri stofunni og við sátum þarna eftir í sitt hvorum stólnum móti svörtum krossi yfir altarishillu með kertum á til hvorrar handar. Ég man að kertin voru án loga.
Eftir drjúga stund birtist prestur á ný í stofudyragættinni, leit á okkur mæðgin og upplýsti: „Þetta er í lagi. Smári er ekki ættarnafn.“
Alla tíð síðan hef ég heitið Ómar Smári. Engin athugasemd var gerð við fornafnið enda höfðu einn eða tveir áður verið skírðir því nafni. Í dag heita fjölmargir öðru nafninu eða jafnvel báðum án athugasemda. Maður þurfti snemma að takast á við þjóna hins opinbera.

-Þú lentir undir vörubíl fimm ára?

Tómas Þorvaldsson

Tómas Þorvaldsson.

Já, það er rétt. Ég lenti undir vörubíl og var varla hugað líf. Slysið var reyndar sjálfum mér að kenna. Eldri bróður mínum og mér datt í hug, í hádeginu einn hversdaginn, að laumast upp í vörubíl, sem faðir okkar ók, en hafði þá skilið eftir ofarlega í aflíðandi brekku á vegi fyrir framan húsið í Sætúni.
Eftir að hafa leikið okkur um stund í vörubílnum, þar sem bróðir minn var bílstjóri og ég farþegi, leit ég á hann og spurði: „Er þetta gírstöngin?“ Hann leit á mig um leið og ég snerti gírstöngina, sem hrökk úr gír. Þegar vörubíllinn byrjaði að renna undan hallanum varð ég verulega hræddur, opnaði farþegahurðina og stökk út. Ekki vildi betur til en svo að féll inn undir bílinn og varð undir hægra afturhjólinu. Bíllinn stöðvaðist sjálfkrafa í U-laga brekkunni skammt neðar.
Móðir mín kom hlaupandi út við óhljóðin, sem fylgdu í kjölfarið, og tók mig í fangið. Stuttu seinna bar þar að Tómas Þorvaldsson á drossíu, en hann var einn fárra, sem áttu slík farartæki í Grindavík á þeim tíma. Mér var skutlað í aftursætið og Tómas ók sem leið lá eftir holóttum Grindarvíkurveginum og bugðóttum Keflavíkurveginum til Reykjavíkur, allt þangað til komið var að Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Þar var ég borinn inn til hjúkrunar. Ég man eftir að hafa misst meðvitund a.m.k. nokkrum sinni á leiðinni.

-Hvernig gekk þér að ná þér eftir bílslysið?

Landsspítali

Landsspítalinn.

Á spítalanum var þetta erfitt. Þar sem ég lá í rúminu var annar fótleggurinn hengdur upp með línu. Í hinum enda hennar, við fótgaflinn, hékk lóð á krók. Þegar ég hreyfði mig féll lóðið af króknum, féll fótleggurinn niður og ég öskraði af kvölum. Hjúkrunarkonurnar brugðust jafnan vel við, hengdu fótlegginn upp á ný og lagfærðu lóðið. Þetta endurtók sig aftur og aftur, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Loks kom að því að ég varð laus við fótakeflið og fékk tækifæri til að stíga fram úr rúminu. Eftir nokkrar sársaukafullar tilraunir gat ég stigið í fæturnar og jafnvel fetað mig út með rúmgaflinum og aftur til baka.
Eftir að hafa legið u.þ.b. hálft ár margbeinabrotinn á Landspítalanum og þegar heim var komið þurfti ég að læra að ganga upp á nýtt með aðstoð hækja. Eftir nokkra mánuði gat ég loks gengið óstuddur án þeirra stuðnings og fór fljótlega í framhaldi af því að ganga og hlaupa um holt og hæðir.

-Síðan flyst þú til Hafnarfjarðar.

Holtsgata

Holtsgatan.

Ég fluttist ekki til Hafnarfjarðar. Ég og við systkyninin, vorum flutt til Hafnarfjarðar. Foreldrarnir skyldu og ekki var um annað að ræða en við sex systkynin færum með henni til Hafnarfjarðar. Búslóðinni var komið fyrir á vörubíl. Inni í vörubílshúsinu voru móðir mín og tvö yngstu systkynin, eins og tveggja ára. Aftan á pallinum sátum við hin fjögur. Rykið var kæfandi.
Þegar við stöðvuðumst utan við framtíðarheimili okkar í kjallaranum við Holtsgötu var fólk þar saman komið, tilbúið til aðstoðar. Ég man eftir því ég gekk um þann mund eftir steyptum vegg á milli lóða okkar húss og nágrannanna, en féll og lenti illa á hausnum. Móðir mín kom hlaupandi, greip afkvæmið í fangið, enn einu sinni án þess að andvarpa, og bar það inn; setti kaldavermsl á stærðarinnar enniskúlu, lagði á dýnu. Þar sat hún svo klukkustundum saman og fylgdist með líðaninni, allt til þeirrar stundar að aðgátar væri ekki lengur þörf.

Grænakinn

Grænakinn.

Þótt húsnæðið væri lítið; eldhús, bað, stofa og svefnherbergi, auk geymslu, leið okkur, sjö manna fjölskyldunni vel þarna. Að vísu þurfti á stundum að hafa ráðdeild við útvegun matar, en ég man ekki eftir að hafa farið svangur að sofa. Á sumrin var kíkt í matjurtargarðana uppi í neðanverðu Ásfjalli þar sem hægt var að ná sér í rófu eða klifra yfir háan steinvegginn í kringum klaustrið, hlaupa að beðunum, kippa upp nokkrum gulrótum og síðan á harðahlaupum til baka til að komast yfir vegginn áður en nunnurnar náðu okkur. Það tókst jafnan.
Á öðrum tíma var hægt að nálgast skreið í hjöllunum, sem voru víðs vegar, betla ferskan fisk á höfninni og tína ber í Stekkjarhrauni á haustin. Umhverfið bauð upp á ýmsar bjargir í þá daga.

Búrfell

Hjallur.

Átta ára byrjaði ég að bera út Morgunblaðið í nágrenninu. Síðan bættust við Tíminn og Alþýðublaðið. Blaðburðarpokinn gat stundum verið þungur fyrir lítinn gutta, einkum um helgar. Ég man alltaf eftir fyrstu útburðarferðinni. Daginn áður hafi mér verið fylgt um hverfið og bent á húsin, sem áttu að fá blöðin og fékk jafnframt í hendurnar útprentaðan lista yfir áskrifendur, en þegar á hólminn var komið reyndist þrautin þyngri. Þegar heim var komið bjóst ég því við kvörtunum frá einhverjum, sem ekki höfðu fengið blaðið, en það gerðist ekki. Smám saman lærðist þetta og gekk snurðulaust fyrir sig. Þetta verkefni krafðist þess að ég þurfti að vakna eldsnemma á morgnana og vera búinn að bera út áður en skólinn byrjaði. Helgarblöðin var hægt að bera út á laugardagskvöldum. Tvö aukablöð fylgdu hverjum pakka. Þau gat ég selt áhugasömum sem bónus.
Með blaðaútburðinum náðum við að kaupa okkur lítið sjónvarpstæki, National, og sjónvarpsloftnet á skorsteininn. Í sjónvarpinu gátum við, þegar vel viðraði, horft á kanasjónvarpið, s.s. Bonanza, Combat, Rowhide, Felix the cat og fleiri áhugaverða framhaldsþætti, reyndar í svart/hvítu.
Síðar fluttum við í risíbúð í Kinnunum. Þar voru herbergin þrjú, auk stofu, eldhúss og baðs. Þar rýmkaðist verulega um fjölskylduna um tíma. Ég held að móðir mín hafi þarna verið hve ánægðust.

-Þú varst í Vinnuskólanum í Krýsuvík. Segðu mér frá þeirri vist.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

Barnmörgum fjölskyldum, einstæðum mæðrum og foreldrum, sem voru að glíma við veikindi, bauðst á árunum 1957-1963 að senda sveinbörn sín í Vinnuskólann, sem starfaði í tveimur hollum yfir sumarið, fjórar vikur í senn foreldrunum að kostnaðarlausu.
Ég var í Vinnuskólanum fjögur sumur, frá 8 ára aldri til 11 ára aldurs, og líkaði vel. Mæting var við Lækjarskólann. Farangurinn; stígvél og aukaföt, var venjulega í pappakassa spyrðan saman með snærisspotta.
Í hverjum hópi voru um 60 piltar hverju sinni. Þeir gistu í fimm herbergjum, mismunandi stórum, á fyrstu hæðinni í starfsmannahúsinu í Krýsuvík. Þar voru sturtur og þvottaaðstaða. Drengirnir sáu sjálfir um að þvo af sér fötin og strauja með rúmfjölum, sem þeir náðu í undir dýnunum í herbergiskojunum. Á efri hæðinni að hluta var aðstaða fyrir starfsfólkið, eldhús og matsalur. Í hinum hlutanum var íbúð bústjórans, sem annaðist m.a. gróðurhús, sem þar voru.

Krýsuvík

Drengir í Krýsuvík við sundlaugagerð sunnan Bleikhóls.

Dagurinn hófts venjulega á morgunkaffi í matsalnum; mjólk og matarkexi. Þar var drengjunum skipað til verka fram að hádegi, nema þeim sem gert var að vinna í eldhúsinu; þeir þurftu að vera þar fram yfir kvöldmat. Yfir hvern hóp var settur verkstjóri. Hans hlutverk var m.a. að meta framlag hvers og eins til tekna. Fyrsta sumarið gat hámarks dagsverkið orðið allt að ein króna en síðasta sumarið allt að fimm krónur – slík hafði verðbólgan verið. Vinnan fólst t.d. í að snyrta umhverfið, aðstoða bústjórann í gróðurhúsunum, moka skít út úr fjósinu, sem hafði verið notað sem fjárhús um hríð, grafa fyrir sundlaug vestan við Bleikhól, grafa skurði, hreinsa út úr húsi, sem hafði verið ætlað bústjóranum ofan við Gestsstaðavatn (síðar þekkt sem hús Sveins Björnssonar, listmálara), en það hafði verið notað sem hænsnahús um tíma, fjarlægja gamla hænsnakofann ofan við húsið o.s.frv.

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn 2020.

Eftir hádegismat; bjúgu og uppstúf, fiskbúðing úr Oradós og bakaðar baunir, fisk og kartöflur og svoleiðis, var annað hvort farið í skipulagða gönguferð um fjöll og fyrnindi í nágrenninu þar sem áhersla var lögð á að drengirnir lærðu að lesa landið, s.s. upp á Hettu, upp að Arnarvatni, út að Vegghömrum eða að Kleifarvatni til veiða. Unnið var að kofabyggingum við lækjarfarveg innan við gróðurhúsin eða farið í leiki, s.s. rat- eða stríðsleiki. Í ratleikjunum þurfi að finna vísbendingar til að geta leyst tilteknar þrautir og í stríðsleikjunum var hópnum skipt í tvennt; riddara hvítu og rauðu rósarinnar, sem endaði yfirleitt með slagsmálum þar sem markmiðið var að slíta teygju af handlegg andstæðingsins. Í göngurnar var hver og einn útbúin með nesti; mjólk í flösku og brauðsneið.

Krýsuvík

Drengir úr Vinnuskólanum á göngu – HH.

Eftir að heim var komið gafst drengjunum tími til leikja, s.s. í tindátaleik, við lestur eða í fótboltakeppni milli herbergja.
Kvöldmaturinn var yfirleitt kjarnríkur, sem eldhúshópurinn hafði tekið að sér að fullgera. Hann sá einnig um að skræla kartöflur, leggja á borð og vaska upp. Eftir matinn var kvöldvaka. Þá sátu drengirnir í tvöfaldri röð á löngum ganginum framan við herbergin og horfðu á kvikmynd, sem varpað var frá sýningarvel á hvítt tjald við enda hans. Að því búnu voru sungin nokkur lög, s.s. „Lóan er komin“, „Sá ég spóa“ o.s.frv. Hörður Zóphaníasson, skátahöfðingi og einn af tilsjónarmönnunum, hafði samið sérstakan „Krýsuvíkursöng“, sem varð að nokkurs konar þjóðsöng Krýsuvíkurdrengjanna:

Hörður Zíophaníasson

Hörður Zóphaníasson.

„Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.
Kempur í kampasveit
í Krýsuvík vinnum heitt,
að duga og treysta vort drenglyndi og heit
Ræktum og byggjum, bætum,
brosandi þrautum mætum,
vorinu þrátt við þrætum,
þeytum á bug…“.
Eftir kvöldvökuna var kvöldkaffi; mjólk og kex. Að því loknu var gengið til náða. Stjórnandi mætti í hvert herbergi út af fyrir sig og í sameiningu var farið með „Faðirvorið“. Eftir það varð þögn, enda flestir orðnir dauðþreyttir að dagsverki loknu.
Stjórnendur Vinnuskólans var valið fólk úr hópi skólastjórnenda, kennara og skáta. Sérhver og allir voru þeir framúrskarandi fyrirmyndir ungum uppvaxandi drengjum.
Starfi Vinnuskólans varð sjálfkrafa hætt eftir 1963. Stjórnvöld höfðu þá samþykkt skilyrði í nýrri heilbrigðisreglugerð, sem ómögulegt var að uppfylla miðað við þáverandi aðstæður.

-Hvernig gekk þér í skóla?

Lækjarskóli

Lækjarskóli.

Ég byrjaði í sjöárabekk í Lækjarskóla. Var þar fram til áramóta, en var þá selfluttur upp í Öldutúnsskóla nýbyggðan. Ég man nú lítið frá tímanum í Lækjarskólanum, en því meira frá Öldutúnsskóla. Fyrsti kennarinn minn fyrstu árin þar var frú Sigurlaug, einstaklega þolinmóður og góður kennari. Hún sá líka til þess að við fengjum lýsispillurar okkar reglulega og mættum í ljós í leikfimihúsi Lækjarskóla.
Haukur Helgason var skjólastjóri, en hann annaðist okkur drengina líka yfir sumartímann í Krýsuvík.
Í ellefuárabekk skipti til hins verra; fékk nýjan karlkennara. Okkur lynti ekki hvor við annan. Það leið varla sá dagur að ég var ekki rekinn út úr kennslustund, sem mér þótti bara ágætt; fór heim, út að leika og mætti ekki í skólann næstu daga, eða allt þangað til Haukur kom heim og ræddi við móður mína. Þannig gekk þetta ítrekað um veturinn. Í tólfárabekk fékk ég nýútskráðan kennaranema, Sigrúnu Gísladóttur, síðar skólastjóri í Flataskóla. Hún náði einstaklega vel til nemenda sinna. Eftir veturinn varð ég hæstur í bekknum. Segja má, af þeirri reynslu að dæma, að kennarar geta skipt sköpum fyrir nemendur hverju sinni.

-Áramótabrennur spiluðu stóran þátt í uppeldi barna á þessum tíma?

Áramótabrenna

Áramótabrenna.

Í þá daga var mikil vinna sett í að safna efni í áramótabrennur á milli jóla og nýárs. Segja má að bera þurfti sig eftir sérhverri spýtu og koma henni á brennuna. Við krakkarnir vorum með brennu á bersvæði ofan við klaustrið. Brennan sú var jafnan sú stærsta í Hafnarfirði. Til að selflytja efnið þurftum við ýmist að draga það á höndum okkar í snjónum eða, sem okkur datt í hug, að hnupla líkvagninum í kirkjugarðinum á Öldum að kvöldlagi. Þetta var handvagn, járngrind, á tveimur loftfylltum hjólum. Á hann var hægt að hlaða talsverðu efni. Við skiluðum vagninum seint á virkum dögum, en reyndum að nýta hann þess mun betur um helgar. Það kom fyrir að eitthvað bilaði, grindin gaf sig eða loft fór úr dekki. Eftir það var erfiðara að nálgast vagninn um stund.
Illkvitnir reyndu stundum að kveikja í brennunni fyrir áramót svo við hreiðruðum þannig um okkur inni í henni miðri og notuðum það sem vaktarskjól. Þetta þætti nú ekki boðlegt í dag.

-Og úr Öldutúnsskóla var förinni heitið í Flensborgarskóla?

Flensborgarskóli

Flensborgarskóli.

Já, það voru mikil viðbrigði. Bekkjakerfið held ég að hafi bjargað miklu. Kennararnir sem og skólastjórinn, Ólafur Þ. kristjánsson og síðar sonur hans, Kristján Bersi, voru í einu orði sagt frábærir. Að vísu voru þeir hverjum öðrum ólíkari, en skemmtilegir karakterar hver um sig. Húsvörðurinn, Páll Þorleifsson, var þó máttarstólpurinn í skólastarfinu þótt fáir væru meðvitaðir um það svona dags daglega. Við Páll kynntumst ágætlega – mikill gæðakarl.
Þarna voru gæðakennarar eins og t.d. Egill Strange, sem kenndi handiðn. Eftir skamman tíma í bókbandi bauð hann mér að mæta bara hvernær sem ég vildi og gera það sem ég vildi. Bjarni Jónsson, myndlistarkennari, hafði sama hátt á. Hann sagði við mig að ef ég væri ekki í stuði til að teikna í myndlistartíma mætti ég mæta þegar betur stæði á. Sama var upp á matreiðsluborðinu hjá Hönnu Kjeld. Einar Bollason þótti strangur dönskukennari, en gæðablóð inn við beinið. Ingvar Viktorsson sagði brandara í enskukennslustundum og svona mætti lengi telja um allt ágætið.

Flensborg

Flensborg – stjórn nemendafélagsins, formenn klúbba og fulltrúi skólastjórnar, Ingvar Viktorsson.

Erfiðust var „Pikkólína“ ritvélakennari. Hún gat verið verulega ströng, enda nákvæm fingrasetninginn alvörumál, en hún átti líka sínar góðu stundir.
Eftir að hafa verið í ritstjórn skólablaðsins Draupnis, auk nokkurra annara, s.s. Líkþorns, ásamt Halldóri Árna Sveinssyni og fleirum, var ég í lok þriðja árs valin Inspektor Scolae, formaður Nemendafélagsins, til næsta árs, annar í röðinni frá upphafi. Á því ári voru fjölmargir klúbbar starfandi, skólaskemmtanir haldnar sem og árshátíðin að venju. Þegar enginn vildi taka að sér að verða stjórnandi árshátíðarinnar tók ég það hlutverk að mér ásamt öðru. Í lok skólaársins notuðum við ágóðan af starfseminni til að kaupa nýtt hágæða hljókerfi fyrir sal skólans og afhentum það með hátíðlegri athöfn. Félagsstarfið virtist ekki hafa komið niður á náminu því námsárangurinn var með ágætum.

-Hvað tók við að menntaskólaárunum loknum?

Draupnir

Draupnir.

Á menntaskólaárunum fjármagnaði ég námið með ýmiss konar vinnu; uppskipun úr togurum, verkamannavinnu hjá bænum (vann á loftpressu tvö sumur) og í fiskverkun. Áður en ég útskrifaðist sá ég auglýsingu um sumarstörf í lögreglunni í Reyjavík – sótti um og fékk ráðningu. Um haustið innritaðist ég í lögfræði við Háskóla Íslands. Sumarhýran entist til áramóta. Lögfræðin höfðaði heldur ekki til mín svo ég sótti aftur um sumarstarf í lögreglunni – og fékk. Þar var ég svo við störf næstu 45 árin.

-Hvernig var að starfa í lögreglunni í Reykjavík allan þennan tíma?
Fjölbreytilegt og krefjandi, en skemmtilegt. Samstarfsfélagarnir voru, án undantekninga, alveg stórkostlegir. Fyrstu árin starfaði ég á vöktum í almennu deild, héldum uppi eftirliti og brugðumst við útköllum. Þá tók við starf á vöktum í slysarannsóknardeild, sem sinnti árekstrum og umferðarslysum, auk rannsóknum á hvorutveggja.

Flensborg

Ómar Smári, Inspector Scholae 1975-’76, og Páll Þorleifsson, húsvörður Flensborgarskóla, ásamt nokkrum skólafélögum.

Eftir að hafa lokið námi við Lögregluskólann var mér boðið að annast kennslu við skólann samhliða lögreglustarfinu. Þannig kynntist ég verðandi lögreglumönnum um allt land til tólf ára.
Árið 1985 var með boðið að verða fulltrúi embættisins í stjórnunarnámi í skóla FBI í Bandaríkjunum, sá fyrsti af nokkrum frá Íslandi sem á eftir fylgdu í áranna rás. Í framhaldinu fylgdu ótal prófgráður og námskeið víðs vegar um Evrópu.

Ómar

Ómar ásamt félögum við útskrift.

Í áratuga starfi mínu sem lögreglumaður, þar af sem stjórnandi til langs tíma, hefur mér lærst að takast á við hin margvíslegustu vandamál, leggja til lausnir og fylgja þeim eftir í framkvæmd – eins og lesa má ef nafnið er „googlað“, t.d. á timarit.is. Þar má væntanlega uppgötva áhugaverðar fréttir af afrekum umferðardeildar, stofnun forvarnadeildar, aðgerðir gegn óáran unglingagengja í Breiðholti, umfjöllun um stofnun nágrannavörslu í einstökum hverfum í samvinnu við íbúana, rökstuðningi fyrir skiptum skoðunum um „Ökuferilsskrá“ á landsvísu með tilheyrandi punktakerfi að því markmiði að fækka umferðarslysum, yfirtöku lögregluembætta landsins á starfssemi Rannsóknarlögreglu ríkisins, stofnun rannsóknardeilda einstakra embætta, sameiningu og samhæfingu lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu o.m.fl.

Lögreglan

B-vaktin 1975.

 Síðustu árin var ég yfirmaður rannsóknardeildar, stöðvarstjóri á Hverfisgötu, síðar í Kópavogi og í Hafnarfirði og loks umferðardeildar. Í framangreindum störfum fólust m.a. samstarf við hlutaðeigandi stjórnvöld; Vegagerðina, Umferðarráð (síðar Samgöngustofu), einstök sveitarfélög, foreldrafélög, skóla, hverfasamtök o.fl. aðila. Ég var t.d. gerður að heiðursfélaga nr. 900 í Sniglunum, Mótorhjólasamtökum lýðveldisins, eftir átök um stund og í framhaldinu ánægjulegt samstarf þar sembáðir aðilar sameinuðust um gild markmið.

-Þú varst nú nokkuð áberandi í fjölmiðlum um tíma?

Ómar

Ómar á ráðstefnu.

Samskipti við fjölmiðla hafa í gegnum tíðina verið stór hluti af störfum undirritaðs, hvort sem var á vettvangi atburða eða eftiráskýringum. Á löngum starfsferli bar ekki skugga þar á – svo orð sé á gerandi.
Eftir að forvarnardeildin var stofnuð þótti öðrum stjórnendum þægilegt að geta vísað spurningum blaða- eða fréttamann til okkar. Mín innkoma á þann vettvang kom því ekki til af engu. Mér fannst bæði sjálfsagt og eðlilegt að einhver svaraði fyrirspurnum f.h. embættisins. Hafa ber í huga að fyrirspyrjendur einstakra fjölmiðla voru jú einungis að reyna að sinna vinnunni sinni, þ.e. að upplýsa almenning um málavexti hverju sinni. Þetta samstarf reyndi á stundum á traust og skilning af beggja hálfu.

Lögreglan

Útskrift úr skóla FBI 1985.

Þótt mörgum hafi, í miðri orrahríðinni, þótt ágengni fjölmiðlanna full ágeng og óþægileg, var ég jafnan á annarri skoðun. Þeirra hlutverk er mikilvægt.
Ég átti jafnan mjög gott samstarf við aðra og var, að eigin mati, almennt vel liðinn í gegnum tíðina, bæði af vinum og öðrum, sem síðar, eftir nokkrar þrætur, urðu vinir, enda jafnan haft að leiðarljósi að koma með sanngjörnum hætti fram við aðra er unnið hafa til þess – svo þeir fengju að njóta sín af eigin verðleikum.
Ráðandi dómsmálaráðherrar voru ekki alltaf par hrifnir af „skýringum lögreglu“ á einstökum viðfangsefnum því stundum skaraðist heilbrigð skynsemi og pólitík í daglegri umfjöllun álitamála.
Ég var um tíma ritstjóri Lögreglublaðsins og formaður Félags yfirlögregluþjóna – ekki má gleyma því.

-Þú tókst sjálfur þátt í pólitísku starfi – varst frambjóðandi og bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði?

Hafnarjörður

Hafnarfjörður – pólitík

Já, það er rétt. Frumkvæðið var reyndar ekki mitt. Til mín leituðu fyrrum skólafélagar og kennari úr menntaskólanum í Flensborg, Ingvar Viktorsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Tryggvi Harðarsson. Guðmundur Árni var þá orðinn potturinn og pannan í starfi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Áður hafði Árni Gunnlaugsson boðið mér að vera ofarlega á framboðslista Óháðra borgara í bænum. Flokkur hans náði ágætum árangri. Málið var að Árni hafði stutt móður mína á erfiðleikaárum hennar og ég taldi mig eiga honum gjöld að gjalda – án sérstakra útgjalda. Þá höfðu fulltrúar Alþýðuflokksins, bæði í bæjarstjórn og í nefndum og ráðum, lagt sig fram við að styðja við bakið á öllum þeim er minna máttu sín í bæjarfélaginu. Hvernig var hægt að hafna slíkum beiðnum fyrrum skólafélaga og velgjörðarfólks er höfðu slík gjöfug markmið?

Ómar

Sigurlisti Alþýðuflokksins.

Saman unnum við hreinan meirihlutasigur fyrsta kjörtímabilið, en þurftum að styðjast við fulltrúa tveggja ágætra sjálfstæðismanna, Jóhanns og Ellerts Borgars, það síðara, eftir að hafa fellt meirihluta sjálfstæðismanna og alþýðubandalagsins.
Það var mikill uppgangur í bænum á þessum tíma.
Mér var á þeim tíma falið að veita formennsku nokkrum nefndum og ráðum, s.s. vímuvarnarnefnd, umferðarnefnd, félagsmálaráði, menningarmálanefnd sem og afmælisnefnd bæjarins. Þetta var lærdómsríkur tími. Lærdómurinn fólst m.a. í því að virða skoðanir allra þeirra er voru öndverðum meiði til jafns við eigin skoðanir.

-Heimildir herma að þú hafir verið stofnandi gönguhópsins FERLIRs, sem í dag heldur úti öflugri vefsíðu um sögu, minjar og jarðfræði Reykjanesskagans. Hver var tilgangurinn í upphafi?

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og jafnvel kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfans – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast) þrátt fyrir fjölbreytileikann.
Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar, kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá upphafi norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.

Arnarfell

FERLIRsfélagar í herbúðunum Eastwoods við Arnarfell.

Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að frá upphafi hafa verið farnar rúmlega 3000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa. Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks á einstökum afmörkuðum svæðum. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar. Árangurinn má sjá á vefsíðunni. Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 400 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið. Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins (Björn Hróarsson), Ferðamálafélags Grindavíkur (Erling Einarsson), kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum.

Ferlir

Ólafur, bæjarstjóri í Grindavík, í ferð með FERLIR á Háleyjum.

Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel, sögulega staði, flugvélaflök, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar,Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við fólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað.

Omar

Ómar við leiðsögn á Selatöngum.

Við lögðum upp með það frá upphafi að við myndum ekki borga neitt fyrir okkar framlag og ætluðumst ekki til þess, að sama skapi, að aðrir, sem við þurftum að leita til, krefðust ekki greiðslu fyrir viðvikið. Það hefur gengið eftir hingað til.
Áhugasamt fólk um Reykjanesið var jafnan boðið velkomið í hópinn, en í seinni tíð hefur áherslan verið lögð á að vinna úr þeim gögnum, frásögnum og ljósmyndum, sem safnast hafa í þessum fjölmörgu gönguferðum, með það fyrir augum að gera hvorutveggja aðgengilegt á vefsíðunni www.ferlir.is – eins og sjá má þeim er áhuga hafa…

-Þú stundaðir nám fornleifafræði í Háskólanum, kominn á fimmtugsaldurinn?

Háskóli Íslands

Háskóli Íslands.

Já, og útskrifaðist sem fornleifafræðingur eftir fjögur ár, samhliða lögreglustarfinu. Áhuginn kom ekki af engu, eins og fram kemur í svari við spurningunni um stofnun FERLIRs. BA-ritgerðin fjallaði um „Sel og selstöður vestan Esju“. Þar eru taldar upp rúmlega eitt hundrað slíkar, þ.e. vestan Esjunnar, en í dag, 2022, höfum við fundið og skrá um 400 á Reykjanesskaganum öllum – fyrrum landnámi Ingólfs. Þannig heldur námið áfram þrátt fyrir útskriftina.

Omar

Ómar – við útskrift í Háskóla Íslands.

Ég lauk námi í svæðaleiðsögn á vegum Símenntunar Suðurnesja á sama tíma og hef nýtt mér hana, m.a. með því að bjóða öllum áhugasömum Grindvíkingum til göngu um Húshólmasvæðið, elstu meintu byggð á Íslandi, í tilefni af afmæli bæjarins fyrir nokkrum árum – með ágætis þátttöku þeirra sömu. Þá lauk ég námi í Hagnýtri menningarmiðlun í Háskólanum og hef nýtt mér hana, m.a. til þess að koma á framfæri fróðleik við áhugasama um svæðið á vefsíðunni www.ferlir.is.
Síðar útskrifaðist ég sem svæðaleiðsögumaður frá Símenntun Suðurnesja með ágætum árangri.

-Grindavíkuruppdrættirnir, sögu og minjakort yfir þéttbýlissvæðin í Grindavík, voru að þínu frumkvæði?

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Við Óskar Sævarsson, þáverandi forstöðumaður Saltfiskseturs Grindavíkur, fengum menningarverðlaun bæjarins fyrir framtakið. Aðdragandinn var samstarf við Erling Einarsson, þáverandi formann Ferðamálafélags Grindavíkur. Í sameiningu gáfum við m.a. út fróðleiksrit um Selatanga og Húshólma við góðar undirtektir. Í framhaldinu ákvað ég að taka fyrir einstaka bæjarhluta, kalla til aldrað fólk, sem enn var lifandi og þekkti til hinnar deyjandi sögu minja og örnefna á svæðunum, og gera úr því uppdrætti er gætu nýst komandi kynslóðum. Gefnir voru út sjö updrættir og gerðir úr þeim jafnmörg söguskilti er enn standa uppi víðs vegar í Grindavík, áhugasömum til handa.
Ferðamálafélagið gaf síðan út rit með öllum uppdráttunum. Því miður hefur þessu samstarfi ekki verið fylgt eftir sem þyrfti – en uppdrættirnir tala enn þann í dag sínu máli um örnefni og minjar í Grindavík.

-Þú hefur skrifað texta inn í Ratleik Hafnarfjarðar undanfarin ár. Hvernig kom það til?

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022

Ratleikur Hafnarfjarðar 2022.

Það var félagi minn, Guðni Gíslason, fyrrum ritstjóri Fjarðarpóstsins, nú ritstjóri Fjarðarfrétta, skátaforingi og forstöðumaður Hönnunarhússins, sem bað mig um texta við ratleikinn fyrir nokkrum árum. Leikur þessi er nú kominn á þrítugasta aldursskeiðið. Um er að ræða 27 tiltekna staði hverju sinni. Fjölmargir hafa bæði nýtt sér fróðleikinn sem og tilganginn með leiknum; að ganga um svæðið og leita uppi merkin, skrá þau á lausnarlista og skila síðan inn að leiðarlokum með von um verðlaun. Þetta er ókeypis lífsfullnægjandi leikur í hinu stórkostlega upplandi Hafnarfjarðar.

-Nú ert þú kominn á svokallaðan „eftirlaunaaldur“. Hvað finnst þér um það?

Lögregla

Lögregla – nokkur axlarmerki.

Ég var skyldaður, gildandi lögum samkvæmt, að fara á eftirlaun þegar 65 árunum var náð – eftir 45 ára starf að löggæslumálum. Í raun fylgdi þeirri skyldu engin réttindi önnur en þau að eiga rétt á takmörkuðum eftirlaunagreiðslum. Ef ég hefði verið í öðru starfi hefði komið til álita áframhaldandi starf, eða, hjá ríkinu, sjálfkrafa heimild til að mega starfa til sjötugs.
Það var svolítið sárt að þurfa að ganga út starfslokadaginn. Ég hafði hafnað kveðjusamkundu, þrátt fyrir mótbárur, með þeim orðum að engin hefði móttökuathöfnin verið er ég mætti á laugardagskvöldi til starfa fyrsta sinni.

Lögregan

Lögreglan – myndirn er tekin eftir handtöku þýsks bankaræningja, Lugmeyers, sem strokið hafði úr dómshúsi þar í landi og birst með fúlgur fjár á Íslandi.

Mitt mat er það eigi að afnema aldurstakmörk þegar kemur að starfslokum, sem og allar hömlur (skerðingar) er takmarka möguleika fólks á öllum aldri að sjá sér farborða. Mörkin má gjarnan nota til að meta áunnin réttindi, ef fólk vill nýta sér þau, en ef það óskar eftir áframhaldandi starfi, eða öðru sambærilegu, ætti það að verða samkomulag milli þess og vinnuveitandans. Í þessu starfsfólki felst mikil uppsöfnuð þekking og reynsla, sem nýtast mætti svo lengi sem umsættanlegt er – punktur og basta.

-Eitthvað að lokum?
Ég tel mig eiga Grindavík, þrátt fyrir allt, skuld að gjalda. Þar liggja jú ræturnar. Einstæð móðirin, með sex börnin sín, naut síðan aðstoðar hreppsins á miklum erfiðleikatímum í hennar lífi, sem nægði til þess að hún gat flutt þau í öruggara atvarf í Hafnarfirði og komið þeim öllum þar til manns. Þess vegna varð ég það sem ég er…

Grindavík

Grindavík – Þórkötlustaðir.