Másbúðir, Nesjar, Lönd og Bursthús eru jarðir á Miðnesi austan Hvalsness, auk Skinnalóns.
Jarðirnar Másbúðir, Nesjar, Lönd, Skinnalón og Bursthús eru vestan Hvalsnesjarðanna í Miðneshreppi. Másbúðir eru á skeri sem hefur brotnað frá landi í langan tíma. Húsið hefur verið mjög stórt, en lengdin mælist um 28 m og breiddin um 18 m. Tóftin hefur a.m.k. átta herbergi, tvö þeirra sem snúa í suðsuðvestur mælast mjög stór og hefur hugsanlega annað þeirra verið tvö herbergi. Rústin snýr V-A.
Í Náttúrufræðingnum 1947 fjallar Ólafur við Faxafen um „Hæð sjávarborðs við strendur Íslands“ Þar segir m.a. um Másbúðir:
„Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer jretta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.“
Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Jarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín (1923-1924) er Másbúða getið. Skv. bókinni þá eru Másbúðir komnar á eyju. Þar segir: „Heimræði árið um kring og lending góð, og gánga skip ábúanda þó honum hentar. Þar gengur og eitt kóngs skip, áttæríngur, undirgiftarlaust, og viðheldur ábúandinn verbúðinni, sem því fylgir betalíngslaust. Og geta þessi skip naumlega viðhaldist fyrir voveigflegum og sífelldum sjáfaryfirgángi, sem að bæði grandar vergögnum, húsum og skipum.
Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjáfar ágángi, og hefur sjórinn fyrir innan sjötíi ár brotið sig í gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarffast land, so að nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, so að nú er þar ekki fært yfir með stórstraumsflæði nema með brú, sem að brim brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans, sem á fastaland þarf að sækja mestan hluta heys um sumar, item vatn, grasnautn alla, peníngsins nytkan um sumar og þvílíka tilfæríng. So að heima við bæinn er vatn ekkert vetur nje sumar nema fjöruvatn alleina, sem margoft á vetur ekki næst fyrir sjáfarísum.“
Magnús Þórarinsson fjallar um Másbúðir og Nesjar í skrifum sínum um „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi“:
„Fyrir sunnan Skjólgarðsbakka er nokkuð langur og breiður bás inn í landið; heitir það Melabergsá. Hún er þó ætíð þurr nema í hlákum á vetrum. Þá rann þar fram dálítill lækur af mórauðu leysingarvatni ofan úr heiðinni; gat lækurinn orðið farartálmi í svip, en sjatnaði fljótt.
Suður frá Melabergsá að Nesjatúngarði eru grasflatir; heitir það Fit; hefir þar verið kúahagi Nesjamanna. Standa þar oft tjarnir á vetrum. Sunnan við ána framarlega stendur Másbúðarvarða, gild og gömul mjög, á háum kletttanga, sem er norðvestur úr Fitinni. Er tangi þessi enn samfastur við land, en sjór og vindur eyðir grassverðinum frá báðum hliðum, og innan ekki mjög langs tíma mun Másbúðarvarða standa á klettinum úti í sjó á flóði. Sunnan við vörðuna er breitt sandvik, en sunnan við vikið hefir staðið fjárrétt Nesjamanna, stór og vel hlaðin; dregur vikið nafn af réttinni og kallast Réttarvik.
Fyrir neðan og norðvestan réttina eru allháar klappir, heita þær Réttarklappir. Sunnan við Réttarklappir gengur út mjög langt rif, enda heitir það Langarif. Norðan í Langarifi, skammt framan við Réttarklappir, er stór og hár klettur, ljótur og hrikalegur, ílangur og söðulbakaður; heitir hann Svartiklettur. Lítið eitt utar er stórt og hátt sker, fast norðan við rifið; heitir það Illasker. Út í Illasker má ganga þurrum fótum um fjöru; sækir sauðfé mjög í skerið, því þar eru söl, en af því leiðir ákaflega flæðihættu. Líklega hafa öll „Illusker“ á Miðnesi fengið nafnið vegna flæðihættu.
Utan við Réttarklappir, norðan við Svartaklett, en innan við Illasker, er bás inn í fjöruna eða djúpt lón, varið fyrir brimi og öllum áttum, nema norðan; ekki hefi ég heyrt nafn á lóni þessu, en mönnum hefir dottið í hug, að þar mætti hafa lítinn vélbát, að minnsta kosti að sumri til, ef tryggilega væri umbúið að legufærum.
Langarif greinist í tvennt að utanverðu. Norðurálman fékk nafnið Castorsrif, eftir að kútter Castor strandaði þar 19. marz 1903. Stór og hár kúlumyndaður haus er fremst á rifi þessu; ber hann nafnið Castorshaus, enda strandaði skipið rétt innan við hausinn.
Fremst á syðri álmunni eru stórar og háar klappir, sem aldrei fellur yfir, sléttar á yfirborð, en þverhníptar utan allt í kring, fallegar og áberandi tilsýndar. Þær heita Sundklettur. Sunnan við Langarif, alla leið frá Sundkletti upp að norðvestur horninu á Nesjatúni, liggur svo nefndur Langós; hann er grunnur og þornar alveg um stórstraumsfjöru. Hann var þó stundum notaður fyrir smábáta um vor og sumar, en uppsátur haft við Garðsendann, eins og það var kallað, en það var neðri endinn á túngarðinum norðan við Nesjatúnið. Sunnan við uppsátrið var allhá klöpp og út af henni lágar fjöruflysjar. Er nú komið að Másbúðarhólma.
Þó of lítið sé ég kunnugur sögu Másbúða, sýnist mér þó, að það hafi verið fornmerkur staður og stórbýli á sinni blómatíð. Þar var oftast fjölmennt, einkum á vertíðum. Þar var konungsútgerð, við Másbúðir er sundið kennt, og sundvarðan stóra og myndarlega, sem enn stendur, umhirðulaus um langa tíð, stendur á gamla Másbúðalandi.
— Í manntalinu 1703 eru 11 manns á Másbúðum, en Nesjarnar og Melaberg ekki á skrá, enda allt í eyði. Másbúðir hafa verið höfuðbólið á þessum slóðum á fyrri tíð. En landbrot hefir orðið ákaflegt þarna. Másbúðarhólmi, sem nú er stór eyðiklettur úti í sjó, 80—100 faðma frá sjávarkampi fyrir ofan, var áður áfastur við land og virðist hafa verið þar víðátta graslendis, sem nú er þangi vaxin fjara. Við skulum láta jarðabókina frá 1703 lýsa
því, hvernig þá var umhorfs á þessum slóðum, og taka aðeins það er máli skiptir í þessu efni.
„Maasbuder.
… heimræði árið um kring og lending góð og ganga skip ábúanda, þá honum hentar Þar gengur og eitt kongsskip, áttæringur og geta þessi skip naumlega viðhaldizt fyrir vofveiflegum og sífelldum sjávar yfirgangi, sem að bæði grandar vergögnum, húsum og skipum.
… Tún fordjarfast stórkostlega af sands og sjávar ágangi og hefir Sjórinn fyrir innan sjötíu ár brotið sig í gegn um túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo að nú stendur bærinn á umflotinni eyju og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo að nú er þar eigi fært yfir með stórstraumsflóði nema með brú, sem hún brýtur af um vetur, og er það eitt með stærstum meinum ábúandans, sem á fastaland þarf að sækja mestan hluta síns heys um sumar, item vatn, grasnautn alla, peningsins nytkan um sumar og þvílíka tilfæring Svo að heima við bæinn ekkert vatn er vetur né sumar nema fjöruvatn alleina, sem marg oft á vetur ekki næst fyrir Sjávarísum.
… Hagar öngvir vetur né sumar nema fjaran og það, sem ábúandinn leigir af eftirskrifaðri eyðijörð …
Gömlu Nesiar.
Gömul hjáleiga frá Másbúðum, langar stundir í eyði lögð, og þykist ábúandinn ekki fyrir utan sinn skaða mega hana aftur upp byggja vegna grasleysis.
Norður Nesiar.
Forn eyðijörð, hefir legið í auðn yfir hundrað ár. Eigandi Kirkjan á Hvalnesi, og er jörðin aldeilis yfirfallin með sandi og stórgrýti og aldeilis óbyggjandi. Þar er hvorki vatn né lending að gagni.
Norður-Nesjar, sem var eign Hvalsneskirkju, hafa aldrei byggzt aftur, en þó má enn sjá minnjar þeirra í hrauninu (uppblæstrinum) lítinn spöl suður og austur frá Melabergsá.
Það var sögn eldri manna fyrir 1900, að Nesjar hefðu áður staðið á túnbungu þeirri, sem nú er norðan undir, sem næst miðjum, markagarði þeim, er enn stendur og skilur Landa- og Nesjatún vestanverð. Skilst mér, að þar hafi staðið eyðibýlið „Gömlu-Nesjar“, sem var hjáleiga frá Másbúðum.
Jarðabók frá 1703 segir ekki, að Gömlu-Nesjar séu „aldeilis yfirfallnar af sandi og grjóti“ eins og hún orðar það um Norður-Nesjar og Melaberg, heldur hitt, að ábúandi Másbúða vilji ekki byggja hjáleiguna vegna grasnytjanna, sem hann telji sig ekki mega missa. En hjáleigunni hefir efalaust fylgt túnskák úr Másbúðatorfunni, sem mun hafa verið allt núverandi Nesjaland með túni út að Hólma og efalaust á flesjunum norður að Langós og suður að Landa mörkum.
Árið 1758 eru Nesjar komnar í ábúð, og getur hafa verið fyrr, en bækur vantar frá því tímabili. Þar búa þá Þórður og Geirlaug Birtingsdóttir (bætt við síðar í bókina). Verður ekki meira um þau sagt, því föðurnafn bónda vantar og aldur. Sama ár búa á Másbúðum Erlendur Jónsson og Guðlaug Þóroddsdóttir með 10 manns í heimili, á ýmsum aldri. 1762 er Erlendur þessi og Guðlaug komin að Nesjum og hafa líklega flutzt þangað 1759, því þá hverfa Másbúðir úr sóknalýsingu Hvalsnesprestakalls og er aldrei getið síðar fyrr en 1849, að þar eru Jón Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir, fyrstu búendur á Másbúðum eftir 90 ára auðn.
Það er auðsætt, að þegar sjórinn hafði afhólmað býlið, var forn gifta Másbúða um garð gengin. Margir voru búendur á Másbúðarhólma síðari hluta 19. aldar, allir í tómthúsi; flestir bjuggu stutt þar og stundum var Hólminn í eyði.
Síðasti búandi á Másbúðum var Jón Jónsson f. í Kvíavöllum í Kirkjubólshverfi 24. ágúst 1847. Foreldrar hans voru Jón Oddsson og Guðrún Skíðadóttir, Loftssonar, hjón, búandi þar. Bústýra Jóns á Hólmanum, eins og hann var þá oftast nefndur af nágrönnum, var Guðrún Níelsdóttir f. 8. júlí 1843 í Hólmahjáleigu í Landeyjum, en var uppalin á Arnarhóli. Foreldrar hennar voru Níels Þórarinsson og Sigríður Guðmundsdóttir. Guðrún var ekkja Eyjólfs Eyjólfssonar í Norðurkoti á Miðnesi, er hún fór að búa með Jóni. Þau bjuggu á Hólmanum frá 1884 til 1895 en byggðu þá nýbýlið Akra í suðausturhorni á Landatúni, enda hét sá túnpartur Akrar, sem þau byggðu á.
Einn son áttu þau Jón og Guðrún, er Guðjón heitir, hann er fæddur í Höfnum suður, en ólst upp á Hólmanum. Hann er nú (1955) 73 ára að aldri (f. 10. 3. 1882) búsettur í Reykjavík, elzti starfandi sjómaður þessa lands og var af því tilefni heiðraður nýliðinn sjómannadag. Guðjón einn er enn á lífi af öllum þeim fjölda manna, sem átt hafa heimili á Másbúðum.
Másbúðarhólmi er einn samfelldur klettur, að mestu þverhníptur utan, nema nyrðri hluti austurhliðar, þar er malarhalli. Lengd Hólmans frá norðri til suðurs mun vera 80—100 faðmar, en breidd 30—40 faðmar. Bærinn stóð á miðjum Hólmanum, þar sem hann er hæstur, en að öðru leyti ekki hærri yfir sjávarmál á stórstraumsflóði en svo, að í óvenju-háflæðum með foráttu brimi og útsunnan fárviðri gengu sogin yfir allan Hólmann og fossuðu niður að innanverðu, en sjórokið buldi á þekju baðstofunnar, svo að full ástæða var til að óttast að allt riði niður þá og þegar, enda var þá flúið á land undir næstu nótt. Þó hefir flóð aldrei alveg grandað bænum, svo vitað sé.
Varla verða nú séðar minnjar eftir forna útgerð á Másbúðum. Þó er vik eitt inn í klappirnar, nefnt Gamla-Vör eða Kóngsvör. Sáust þar kjölför í klöppunum fram undir síðustu aldamót, en munu varla greinast nú. Eitt ártal er höggvið í klappir þar — 16 hundruð og eitthvað —. Guðjón, sá er áður var nefndur, segist eitt sinn, rétt eftir 1890, hafa tekið sér fyrir hendur að róta upp í gömlum öskuhaug, sem var þar í námunda við bæinn, og fann þar heilmikið af brotnum krítpípum, en þær voru talsvert notaðar af reykingamönnum fyrrum, þær voru sélegar og ódýrar, en brothættar mjög. Einnig fann hann þar gamalt signet, en man ekki stafina; svo fór það í glatkistuna.
Nesjabóndinn, Guðmundur Lafransson, fékk nokkrar heysátur af Hólmanum frá því hann kom þangað 1882, en það fór árlega minnkandi, því sjórinn brenndi holur í grunnan grassvörðinn á klöppinni, og um aldamót var hætt að nytja Hólmann.
Svo er að skilja á jarðabók 1703, að þar hafi eigi annað vatn verið en fjöruvatn. Brunnhola var þó til á síðustu árum byggðar þar, en vatnið varla nothæft vegna seltu; fjöruvatn rann þá enn með lágsjávuðu undan klöppunum, en reyndist eigi heldur gott. Varð því oftast að sækja vatn heim í Nesjabrunn.
Það var sögn gamalla manna, er mundu þá tíma, að Sigurður. B. Sívertsen, merkisprestur á Útskálum, hafi um og eftir miðbik 19. aldar, gert út áttæring á Másbúðum fyrri part vetrarvertíðar, en tók skipið heim er netjavertíð byrjaði í Garðsjó. Hér var til systur að sækja um uppsátrið, en madama Helga Brynjólfsdóttir átti séra Jón Steingrímsson, sem fluttist að Nesjum, er hann hætti prestskap í Hruna (d. 1851).
Madama Helga bjó í Nesjum fram yfir 1880, að hún fór til Þórunnar systur sinnar í Kirkjuvogi og dó þar 1882.
Fram um 1890 voru tveir smáir grashólmar eftir milli lands og Hólma, en eyddust þá óðfluga og voru algjörlega horfnir fyrir aldamót. Tvennar, fremur smáar klappir stóðu þá upp úr á venjulegu flóði og milli þeirra lá gangbrúin í þrennu lagi, hin fyrsta frá landi út í næstu klöpp, önnur milli klappanna, og hin þriðja út í Hólmann og var sú lengst. Ekki var brúin í beinni línu, því klappirnar stóðust ekki á, og lengdi það vöðulinn, en hægara var um stefnuna, þegar klappirnar voru upp úr.
Gangbrýrnar voru endurbættar á hverri vertíðarbyrjun. Þær voru allþykkar, en máttu ekki vera háar, þá braut brimið þær niður og ruglaði hleðslunni, því straumþungur sogadráttur er í brimi milli lands og Hólma. Þetta var skipgönguleið Nesjamanna, meðan uppsátur var á Másbúðarhólma, svo ill sem hún var, einkum í stórstrauma; þá var skipgangan á flóði kvölds og morgna. Þegar illt var fyrir dýptar sakir, vóðu stundum tveir saman, studdu hvor annan og fundu þá betur fótum sínum festu á þessum óslétta grjóthrygg undir djúpu vatni, en hyldýpi báðum megin.
Aldrei mun þó hafa orðið slys af þessu, og má nærri furðulegt heita, að enginn skyldi ganga út af í illviðri og dimmum, svo óþægilegt sem þetta var. Bátar voru að vísu í Hólmanum og annars oftast við hólinn í túninu fyrir ofan kampinn, en til þeirra var aðeins gripið, þegar sogadráttur var, því þá var með öllu óvætt, einkum á yzta partinum.
Másbúðarsund er Keilir um Másbúðarvörðu, og ber þau mið í sem næst miðjan Sundklett, sem er þá undirmið, ef Keilir er dulinn. Norðan við Másbúðarsund eru Skjálfandar; þeir eru á grynningahryggnum, stórir og miklir boðar, en hjaðna snögglega þegar dýpkar, niður í Álinn.
Sunnan við Másbúðarsund er Flagan, stór boði, sem byrjar djúpt að falla, en er ekki uppi jafn snemma og Skjálfandar. Meðan brim er ekki stórkostlegt hjaðnar hún niður nokkuð frá landi, en í foráttu veður hún alla leið í land, upp á Landafjöruna.
Flest skip, sem voru í Hvalsnespollum eða Stafnesdjúpi og áttu heima norðar en í Hvalsneshverfi, fóru inn Másbúðarsund og svo norður Álinn, Virkisvörðu um Moshús. Þau, sem áttu lendingu fyrir norðan Eyri, fóru Eyrarsundin, oftast Músasund.
Nesjaskipið, sem hafði uppsátur á Másbúðarhólma, fór Másbúðarsund. Er það kom inn úr sundinu, sveigði það suður á við, þar til Nesjabærinn eins og sat á Hólmataglinu (suðurendinn); var það miðið á ósnum, milli tveggja hnöttóttra skerja, sem kölluð voru Suður- og Norðuróssker.
Rétt utan við ósinn er þarahvirfill, sem brýtur á, ef brim er að ráði; verður að fara fyrir norðan hann og róa inn undir honum á ósmiðin. Einnig er á ósnum sjálfum skakkstreymi eitthvert, og verður að halda sig sem næst suðurskerinu. Kunnugustu menn hafa komizt í kröggur við norðurskerið, svo mjög sækir þangað, ef ekki eru vakandi gætur á hafðar.
Allstór pollur er fyrir innan ósskerin, djúpur og hreinn, varinn smáskerjum allt í kring. Ætíð flýtur upp í vör, og gott er þar á land að leggja, hreinar klappir og möl. En lá var þar talsverð um flóðið, ef brim var. Það kom fyrir, ef þó var talinn fær sjór, að skipið var sett inn af Hólmanum og róið út sunnan við taglið, því nóg var dýpi um flóðið. Sömu aðferð varð einnig að hafa, þegar að var komið, ef lá var til baga.
Sjávarhúsin stóðu flest vestan við bæinn, þar var Hólminn hæstur. Þar var líka hróf skipanna. Það var traustur tvíhlaðinn grjótgarður, vinkillagaður, sem var skipunum til öryggis fyrir veðrum og sjógangi.
Nesjabændur höfðu útgerð sína á Másbúðarhólma til 1903, en þá þótti eigi lengur unnt að hafa þar útgerð, vegna óþægindanna við skipgönguna um flóð. Var þá gjört uppsátur í Réttarvikinu, sem áður er nefnt. Í staðinn fyrir að áður var vikið suður af sundinu, þegar lent var á Hólmanum, var nú vikið af Másbúðarsundi norður á Alinn og róið upp fyrir norðan Sundklett, Castorshaus, Illasker og Svartaklett að Réttarklöppum og fiskinum þar kastað á land. Nokkur sjávarhús voru byggð þar. En þetta stóð ekki nema fáein ár; um eða eftir 1920 lagðist útgerð í Nesjum niður fyrir fullt og allt.
Rúm 50 ár eru síðan lauk útgerð á Másbúðarhólma. Hefir brimið glingrað við gangbrautirnar síðan, án nokkurs viðnáms af mannanna hendi, enda svo eyddar orðnar, að aðeins má sjá, hvar þær hafa verið. Hólminn er að fjarlægjast fastalandið, hægt en öruggt.
Kampurinn fyrir ofan er að hlaðast upp og færast upp á túnið og hefir þegar hvolft sér nokkra faðma inn yfir háan túnbakkann, sem allur var grasi gróinn um aldamót. — En Másbúðarhólmi er harður í haus og verður til langt fram í aldir og loks grynning, sem boði fellur á, og það verður stór boði, hvert nafn sem hann kann að fá.“
Ari Gísason fjallar um viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar um Nesjar:
„Gömlu-Nesjar eru langt fyrir ofan tún. Þar sér fyrir byggingum. Þar eru garðar hringmyndaðir. Þar suður og upp af er Gerðishóll. Allt þetta svæði er nú örfokasandur. Suður af Melabergsvötnum eru hólar í Nesjalandi, sem heita Vatnshólar.
Árið 1840 er talað um leiði Márs í túninu og að Katla kona hans sé grafin þar í hól í túninu.“
Um Busthús segir Magnús Þórarinsson:
„Þó Busthús hafi aldrei verið útgerðarstaður, svo vitað sé, enda engin lending þar svo talizt geti, verður þó ekki fram hjá því býli gengið vegna lýsingar og örnefna.
Sunnan við Landaós er Busthúsarif. Nær það eins langt út og ósinn er til. Rifið byrjar aðeins laust við Busthúsatúnið. Það er fremur mjótt víðast, en á því eru tveir klapparhnúðar, nokkru breiðari en rifið sjálft. Fremst á rifinu eru klettar ekki háir; heitir það Busthúsahaus. Suður frá Busthúsarifi framan til er mjó fjara, sem nær suður að Hvalsnestanga, en innan við tjörn þessa er stórt lón, sem kallað er Busthúsalón. Fyrir ofan lónið er kallað Busthúsavik.
Landbrot hefir verið mjög mikið og er enn á öllu þessu svæði í norðanverðu Hvalsneshverfi; hefir því áður verið nokkuð lýst við Másbúðir og Lönd. Svo sýnist, að graslendi hafi áður verið fram á yztu sker, því að fram yfir aldamót fundust moldartrefjar, hertar í sjávarseltu, í klettaskorum á hæstu skerjum langt fram í fjöru.
Um 1890 voru tveir stórir grashólmar í Busthúsalóni; hétu þeir Busthúsahólmar, efalaust áður áfastir túninu. Nyrðri hólminn, sem mun þá hafa verið allt að einni dagsláttu að graslendi, var skorinn frá túninu með mjórri rás. Var sogadráttur mikill í rás þessari í brimólgu.
Vesturrönd hólmans er föst klöpp, enda vinnur sjór þar ekkert á, en hann braut sig inn við báða enda klappanna, og brýtur svo frá báðum hliðum skurð um þveran hólmann. Það er eins og hann hafi manns vit og sjái, hvernig hægast er að vinna að eyðileggingunni. Nú mæðir sjór á öllum bökkum hólmans og yfir hann fellur á hverju stórstraumsflóði. Grassvörður er allur burtu; eyðist nú moldin óðfluga og eftir fáein ár verða þar aðeins klettarnir einir. — Nyrzt á klapparendanum, vestan í hólmanum, var gamalt byrgi, sem var kallað Hólmakrukka; munu fyrri tíma menn hafa byggt það til einhverra nota, meðan hólminn var áfastur túninu.
Syðri hólminn var nokkru minni. Þar var engin klöpp til varnar, enda eyddist hann svo ótt, að fyrir 15-20 árum var hann alveg upp urinn, en eftir er dálítið sker upp úr sandinum.“
Um Lönd segir Magnús:
„Sunnan við Másbúðarhólma og Hólmalónið er Landafjara, stór fjörufláki með miklum skerjaklasa, lónum og rásum. Kann ég því miður of lítil skil á örnefnum þar.
Fram af túngarði milli Landa og Nesjatúns liggur rif út alla fjöru; eru fjörumerki nefndra bæja eftir miðju rifinu. Heitir það Þræturif. Veit þó ekkert um tilefni nafnsins.
Fremst á rifinu er hár ávalur hnúður. sem heitir Þræturifshaus. Sunnan við Þræturif framarlega er stórt lón, sem lokast að mestu af stóru og háu skeri, ílöngu frá suðri til norðurs; heitir það Selsker. Þar og raunar á fleiri skerjum í Landafjöru lágu selir í fyrri daga og fram undir aldamót eins og fjárhópar. En í lóninu mátti seila hrognkelsi, ef vaðið var í því um fjöru. Var það kallað „að fara í vöðla“. Spöl suður af Selskeri er annað sker, hátt og ílangt. Minnir það á líkkistu að útliti, enda heitir það Kistusker. Syðst og yzt í fjörunni er eitt stórt og hátt sker, mjög stórklettótt, var það kallað Norður-Óssker. Sunnan við það er lág flúð, sem kölluð var Ósflúðin. Sunnan við hana var Landaós, syðst í fjörunni.
Landasund er aðeins fyrir Landaósinn. Mun þar oftast hafa gengið eitt skip. Mið á Landasundi var Keilir um austasta bæjarhúsið í Nesjum, sem var Austurbæjarbaðstofan.
Húsið, er nú stendur, var byggt nákvæmlega á rústum baðstofunnar, svo miðin voru óbreytt. Undirmið er allgild og áberandi varða, sem enn stendur neðarlega í Landatúninu.
Varðan er nú alveg á túnröndinni; svo hefir sjórinn brotið túnið. Boðinn norðan við sundið er Flagan; var henni lýst við Másbúðarsund. Sunnan við sundið er brimsvaðinn út og norður af Æðarflös, þar eru grynningar á stóru svæði, flúðir vaxnar miklum þönglaskógi. Mun það heita einu nafni Strandklappaflúðir. Að vísu er Vatnsfellsboði einnig sunnan við sundið, en hann er ekki uppi nema í mikilli foráttu.
Hann tekur sig upp dýpst allra boða á þessu svæði. Aldan, sem er efni í boðann, fer skáhallt norður yfir Hvalsnessund, en byrjar að falla á miðinu Vatnsfellið, en brunar svo freyðandi og sameinast að lokum brimvaðlinum út af Hvalsnestöngum og Æðarflös. Ef Vatnsfellsboði er uppi, munu öll sund í Hvalsneshverfi vera ófær.
Landasund var talið gott og öruggt, en Ósinn er langur, grunnur og varasamur með lágsjávuðu, enda þornar hann alveg um stórstraumsfjöru. Vegna grunnsævis í ósmynninu brýtur yfir hann þveran og er gjörófær, þó sundið sé öruggt.
Urðum við Landamenn þá frá að hverfa, oftast að Másbúðum, en fórum svo gegnum fjöruna og þræddum rásirnar, sem við rötuðum um eins og göngin heima. Fjaran var lengi fær, ef vel stóð á sjó, því brimið braut á útskerjum.
Sundinu er haldið á áður greindum merkjum, þar til öxlin á Fagradalsfjalli kemur við gamla heyhústóft, sem enn sér fyrir á gömlu Löndum. Þar stóð bærinn, neðan til á túninu sunnanverðu, þar til Árni bóndi Gíslason flutti hann 1880 þangað, er nú stendur húsið. Má sigla inn allan Ósinn í beinni stefnu, ef ekki er of lágsjávað. Vörin hefir verið rudd inn í stórgrýtisfjöru sunnan í klappartanga, sem skagar vestur úr túninu. Hreint og gott er þar á land að leggja, og aldrei vottar fyrir lá í þeirri vör. Fiskurinn var borinn upp á malarblett, sem er skiptivöllurinn. Þar var saltskúrinn og byrgin á allar hliðar. Skipið stóð á klöppinni fyrir ofan vörina í góðu og stilltu, er í róðrum stóð. En ef hreyfing var í sjó, var sett upp fyrir skiptivöllinn. Þar var sterkur tvíhlaðinn garður; var krókur á fyrir framstefni og bundið fram af yfir garðinn. Var skipinu þar óhætt, hvernig sem lét.
Utan við vörina er lítið en hátt hnöttótt sker; heitir það Klumpur, og er réttnefni. Sunnan og austan við vörina er hár klapparbálkur. Heitir það Krukka, efri hlutinn (þar var grjótbyrgi, sem nú er jafnað við jörðu), en Krukkusker fremri hlutinn. Er þetta samfelld klöpp, en slakki nokkur á milli. Við Krukkusker er aðdjúpt, þegar vel stendur á sjó og er gott að geyma þar skip um stundarsakir með stjóra aftur af, en sandur er í botni; heitir það Seyla. Eigi vantar festingu fyrir frambandið í Krukkuskeri, því að framtaksamur maður hefur einhvern tíma höggvið gat í hellublað, sem er fastskorðað milli kletta þar, er gatið svo falið að varla finna það ókunnugir nema af tilviljun.
Sjórinn hefir brotið þrjú stór vik inn í túnið á Löndum. Syðsta vikið heitir Bæjarvik. Hefir það myndazt milli Krukkuskers og naustanna, en svo brotið sig áfram inn í túnið norðan við Krukku og er nú komið fast að bæjarveggnum á gömlu Löndum. Nú nýlega hefir verið girt þvert yfir vikið með gaddavír á strjálum stólpum og svo kynlega hefir brugðið við að sandurinn og mölin fyrir ofan girðinguna er að gróa upp, og er nú eftir að sjá hvort þessi lítilmótlega girðing getur staðizt stórflóð framtíðarinnar.
Annað vik hefir sjórinn brotið í túnið inn með naustum að sunnanverðu; heitir það Naustavik. Allbreið lág klöpp skilur Bæjarvik og Naustavik; er enn grastorfa nokkur á klöpp þessari, en eyðist óðfluga á þrjá vegu. Þriðja vikið er norðan við Naustin; það heitir Vörðuvik og dregur nafn af sundvörðunni, sem enn stendur norðan við vikið.
Vörðuvik er stærst og nær lengst inn í túnið og er á síðari árum óðfluga að lengjast og breikka, því sjórinn grefur undan bökkunum, svo þeir brotna niður og dragast frá. Heldur svo eyðileggingin áfram.
Sjávargatan á Löndum var öll eftir túninu niður að naustum. Hét neðsti túnparturinn Naustabali, en áðurnefnd vik voru þar á báðar hendur. Nú hafa Naustavik og Vörðuvik brotið sig saman fyrir ofan Naustabalann; mun þar nú vera allt að 10 faðma breiður skurður á milli, með sand í botni en háir bakkar báðum megin. Þar með eru Landanaust umflotin á flóði. Torfan mun fljótlega eyðast af Naustabalanum, því sjór mæðir á bökkum hans á allar hliðar, svo eftir stendur þá grjótið eitt. Það er enginn vandi að sjá, að Landanaust er orðin eitt af skerjum Landafjöru. En til þess að halda minningunni við verður það sennilega kallað „Naustasker“.“
Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 1947, Ólafur við Faxafen – Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, bls. 60.
-Árni Magnússon og Páll Vídalín. (1923-1924). Jarðabók. Gullbringu-og Kjósarsýsla. Hið Íslenska fræðrafjélag. Kaupmannahöfn.
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Másbúðir – Nesjar“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, 1960, bls. 133 – 141.
-Nesjar – Viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar. Ari Gíslason skráði.
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; – Landasund“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 141-144.