Tag Archive for: Lýðveldishellir

Brennisteinsfjöll

Ætlunin var að finna Lýðveldishellir þann er Þröstur Jónsson lýsir í Surti og á að vera austan við Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Dagurinn var 17. maí.
Ekið var upp frá Sýslusteini á hæðirnar vestan við Vörðufall. Þaðan var gengið til austurs með norðanverðum grasigrónum hraunkanti með aflíðandi sandfjallshrygg á vinstri hönd. Til suðurs mátti sjá í Sandfjöllin, en Vörðufellið framundan.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – gönguleiðin.

Gengið var eftir greinilega fjölförnum rollustíg inn yfir hraunið í átt að fellinu. Róleg rjúpa stóð á steini og fylgdist með. Við norðausturhornið á Vörðufellinu sást ofan í rás, en hún virtist ekki ná mjög langt. Frá honum lá djúp og löng hrauntröð til vesturs. Haldið var yfir öxlina sunnan hennar og birtist þá breiður og myndarlegur eldgígur í suðaustri. Myndarlegur eldgígur var norðvestan við Vörðufell og annar norðaustan við það. Gengið var upp á brúnin og blasti þá djúpur og myndarlegur eldgígur við. Frá syðri brún þessa stóra eldgígs far hið fallegast útsýni niður á Herdísarvíkurfjöllin, Hlíðarvatn, Selvog og austur með Suðurströndinni. Eldborg trjónaði efst á hryggnum skammt norðaustar. Sjá mátti á toppinn á Kistufelli í norðaustri.
Gengið var til austurs sunnan Eldborgarinnar, upp hraunhrygg og komið niður hann að austanverðu. Framundan, metrum sunnan við Eldborgina, var komið í slétt dökkleitt hraun er hallaði undan hlíðinni til suðurs. Í stefnu um 500 m austan af borginni var komið að litlu jarðfalli. Op lá niður úr því til suðurs. Eftir að inn var komið tók við mannhæðahá falleg rás. Bekkir voru beggja vegna í mjaðmahæð. Öll rásin, sem var heil, var öll glansandi. Separ voru í lofti. Eftir nokkra tugi metra beygði hún og var gengið í hring um stóra súlu. Rásin lá lengra niður, en sá hluti var ekki skoðaður að þessu sinni. Einn gluggi var á rásinni.

Kistuhellar

Í Kistuhelli.

Efra opið var aðgengilegra. Niður í það sáust glansandi bekkirnir mjög vel. Gengið var upp eftir henni um ca. 20 metra, en þar þrengist rásin, en hægt var að sjá upp í gíg. Þegar hann var skoðaður ofan frá sást vel hvernig þunnfljótandi rauðleitt hraunið hefur smurt rásina og leitað þarna upp úr henni. Rásin hafði fallið niður ofan opsins. Hægt var að ganga hana upp um ca. 20 metra. Hún var einnig mannhæðahá, en þrengdist svolítið áður en hægt var að komast upp úr henni þar fyrir ofan. Enn ofar var gígop og lá rásin upp úr henni. Þegar gengið var upp hraunið í stefnu rásarinnar fannst enn eitt opið. Frá því lá rásin til suðurs á móti honum. Hellarásirnar voru nefndar Kistuhellar, enda í Kistuhrauni.
Gengið var um slétta hraunið, rásinni fylgt ofanjarðar til norðurs og leitað að öðrum opum á leiðinni, en engin fundust. Skv. lýsingu Þrastar getur þarna varla verið um Lýðveldishellinn að ræða því í greininni er hann sagður vera í stóru jarðfalli og miklu, en á mjög svipuðum slóðum. Rétt er því, þangað til annað kemur í ljós, að nefna hellinn “Þjóðhátíðardagshellir Norðmanna” því þjóðhátíðardagur þeirra er 17 maí. Þarna var um fallegan helli að ræða.

Þjóðhátíðarhellir Norðmanna

Í Þjóðhátíðarhelli Norðmanna.

Gengið var til bak upp að Eldborginni og síðan frá henni til vesturs. Þá var komið að fallegum eldgíg. Gengið var upp á brún annars og sást þá ofan í stóran og umfangsmikinn eldgíg, nokkuð sléttan í botninn með moshól nokkurn veginn í miðju. Haldið var niður brúnina að vestanverðu og var þá komið í sléttbotna hraunrás. Síðan var nokkuð slétt hraunið fetað vestur með norðanverðu Vörðufelli með viðkomu í fallegri gígaröð. Tvær rjúpur sátu á hraunhrygg skammt norðar. Gengið var niður frá henni eftir stíg til vestnorðvesturs niður í slétt hraunið, þvert yfir djúpu rásina og að grashlíðunum, sem gengið hafi verið upp með í upphafi ferðar. Meðfram þeim var gengið aftur að bílunum.
Skv. gps-tækinu var gengið um 15 km leið. Gangan tók u.þ.b. 6 klst. Veður var ágætt – skyggð sól, en bjart.
(Lýðveldishellir fannst í næstur FERLIRsferð á svæðið, skammt norðaustan við Þjóðhátíðardagshelli Norðmanna).

Lýðveldishellir

Í Lýðveldishelli.

Lýðveldishellir

Lagt af stað kl. 8.00 að morgni í göngu á Brennisteinsfjöll í blíðskapar veðri með tjöld, svefnpoka og vistir til tveggja daga.

Brennisteinsfjöll

Í námum Brennisteinsfjalla.

Bílnum lagt við Bláfjallaveg og haldið upp Grindaskörð, Draugahlíðum fylgt austan megin og stefnan tekin á Gráfeld. Gráfeldur er fallegur rauðleitur gígur við vesturenda Draugahlíða, úr honum er Selvogshraun runnið, yngsta hraunið á þessu svæði, runnið eftir landnám en fyrir 1226. Gráfeldur er 543m h.y.s. og þaðan er gott útsýni. Af Gráfeld var haldið niður í búðir við Brennisteinsnámur, þar var slegið upp tjöldum, námurnar skoðaðar og göngunni haldið áfram. Brennisteinsvinnsla var þarna síðast á síðari hluta 19. aldar. Þá var haldið á Kistufell 602m stór og tilkomu mikil gígur. Þar var mikið dáðst að útsýni enda himin nánast alveg heiður, sást alveg austur til Heklu, á Jarlhettur, Skjaldbreið, Esju o.fl. ofl. Snæfellsjökul og Reykjanesskaginn allur lá eins og útbreidd landakort. Vel mátti m.a. sjá Eldey.

Kistufell

Brak í Kistufelli.

Eftir gott stop og nesti var haldið niður að flugvélaflaki í suðurhlíðum Kistufells. Þar fórst Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Brak var þar á víð og dreif fyrir neðan.
Enn var nóg eftir af deginum og því haldið áfram í vesturátt. Gengið um Kistu, fallega en margslungna eldstöð, milli Kistufells og Eldborgar. Kíkt í op Lýðveldishellis en ekki farið inn að þessu sinni enda átti það ekki við í svo mikilli sól og blíðu og stuttbuxum.

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Gengið á Eldborg og um sléttar og fallegar hrauntjarnir þar í kring en svo snúið við. Haldið var inn í Kistufellsgíginn á bakaleið, nú skein síðdeginssólin inn í gíginn og naut hann sín til fullnustu. Haldið til baka í tjaldbúðir og súpan hituð í einum af hverunum ofan við brennisteinsnámurnar. Þá mátti sjá einn lítil mórauðan tófuyrðling skjótast þar milli steina.

Brennisteinsfjöll

Gengið um Brennisteinsfjöll.

Vaknað árla morguns næsta dag eftir góðan nætursvefn og enn skein sólin en þoka lagðist þó brátt að. Tjöld tekin saman og byrðirnar axlaðar og stefnan tekin á Hvirfil 621m. Þaðan er mjög gott útsýni þó það nyti sýn ekki að þessu sinni. Þess í stað mátti njóta dulúðugst ævintýrablæs þessarar fornu eldstöðvar í þokunni. Þá var haldið áleiðis niður í Grindaskörð aftur og létti þokunni þá mikið. Gengið upp á Tvíbolla áður en haldið var niður. Til byggða komu þrír þreyttir og sólbrunnir göngugarpar en sælir og ánægðir eftir um það bil 30 km göngu á tveim dögum.

Sjá MYNDIR.

-JG – VG.

Í Brennisteinsfjöllum

Í Brennisteinsfjöllum.