Í Andvara 1936 fjallar Hálfdán Jónsson um „Lýsingu Ölveshrepps 1703„. Lýsingin er ekki síst áhugaverð hvað örnefni varðar:
„Lýsing Ölveshrepps, sem hér fer á eftir, er prentuð eftir AM. 767 4to. Er það lítið kver, 52 blöð í ekki stóru broti. Í kveri þessu eru tvö handrit af lýsingunni, og er hið síðara afrit af hinu fyrra. Ber þar ekki á milli, enda er hér ekkert tillit tekið til afrits þessa.
Um handrit það, sem hér er farið eftir, er það að segja, að um það hefir Árni Magnússon gert svo fellda athugasemd á smámiða, er nú fylgir kverinu: „Fra Haldane Jonssyne á Reykium i Ölvese og er hn author þessa ut puto“. Þykist sá, sem þetta ritar, hafa gengið úr skugga um það, að handritið sé með eiginhendi Hálfdanar Jónssonar [Hálfdan Jónsson, [1659-1707]. Hitt er vafalaust, að lýsingin er samin af Hálfdani, þótt Árni Magnússon kveði ekki fastara að orði en þetta, að hann ætli, að Hálfdan sé höfundurinn. Sonarsonur Hálfdans Jónssonar, meistari Hálfdan Einarsson, segir í Sciographia sinni, að afi sinn hafi ritað lýsingu Ölveshrepps að bón Árna Magnússonar og að hans dæmi hafi faðir sinn, séra Einar Hálfdanarson á Prestsbakka, ritað um Skaftafellssýslu. Á hann hér við ritgjörð séra Einars, er nefnd hefir verið Útmálun yfir Skaftafellssýslu. — Afrif það, er fyrr um getur, er með hendi Styrs Þorvaldssonar, er margt hefir afritað fyrir Árna Magnússon, og hefir hann ritað á smáseðil, er einnig fylgir nú með handritinu: „Þetta skrifað eptir kveri Haldánar Jónssonar á Reykjum í Ölvesi“. — Kunnugt er, að Árni Magnússon hafði mikinn hug á staðalýsingum og söfnun örnefna, sem víða má sjá merki í safni hans og frá hans eigin hendi. En þetta er þó eina héraðslýsingin, er með vissu má telja, að rituð sé að hans hvötum. Líkur benda þó til, að lýsing Vestmannaeyja, er eignuð er séra Gissuri Péturssyni, er prestur var að Ofanleiti 1689— 1713, sé af sömu rótum runnin og þessi, en frumritið er nú glatað, að því er frekast er kunnugt, og verður tæplega neitt um þetta sannað. En hitt dylst engum, er þessi rit les, að þau eru mjög að einu ráði saman sett.
Descriptio Ölveshrepps anno 1703
Aulfvus eður Ölveshreppur hefur sitt nafn dregið af Alfi, fyrsta landnámamanni þess héraðs. Hreppur þessi liggur í Sunnlendingafjórðungi og Árnessýslu, fyrir vestan Ölvesá, nálægasta sveit að austanverðu við þann fjallgarð, er aðgreinir Árnessýslu og Kjalarnesþing. Þingstaður héraðsins er að Bakkarholti. Þangað sækja Grímsness og Selvogs innbyggjarar, þá þriggja hreppa þing haldast.
Í nefndri sveit eru kirkjur 5: /1 að Arnarbæli, sem tekja er á þessum fjörum góð, en ei mjög mikil. En landið allt austur með sjónum undir Selvogsheiði, þaðan austur í Óseyri og til Hrauns, er af sandi blásið og að mestu graslaust, fyrir utan Þorlákshafnartún með litlu graslendi þar um kring. Örnefni þar: Prestvarða, Miðalda, Prestvörðualda, Veiðimelur, Heyhóll, Rifjabrekkur, Djúpadalshraun. — Stórtrjáreki og hvala á Skeiði heyrir til að þrem pörtum dómkirkjunni í Skálholti og kirkjunni að Þorlákshöfn, en fjórðungur Arnarbæliskirkju. En Hraun á fimm álna löng tré og styttri á þeim parti fjörunnar, er Hraunsskeið nefnist.
Þorlákshöfn hefur sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslega vígslu. Þar heitir og enn nú að framan verðu við bæinn Þorláksvör, Þorlákssker, og Þorlákshóll þar túnið er hæst. Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá Kyndilmessu og í fjórtán vikur þar eftir (hvar um Alþingissamþykkt hljóðar, dateruð 1700) yfir fjörutíu skip, stór og smá. Mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti. En Árnessýslu innbyggjarar eru eignarmenn flestallra annara þar til sjós gangandi. Utan vertíðar er í þessari veiðistöðu mjög lítil fiskiafli, en á sumum árum alls enginn. Skipastöður með frí fyrir eitt skip hafa þessar jarðir í Þorlákshöfn: Breiðibólstaður fyrir selstöðu, Hjalli fyrir hrossabeit, Arnarbæli fyrir engi. Á Þorlákshafnarvík liggur oft Eyrarbakkakaupfar, þá ei fær byr að sigla inn á Einarshafnarsund. — Ölves liggur til Eyrarbakkakaupstaðar, sem og til Hafnarfjarðar, eftir innbyggjaranna frívilja þeirra höndlun að brúka í nefndum kaupstöðum.
Þegar áður greindar sanda auðnur (með sjávarsíðunni kringum Þorlákshöfn og undir Selvogsheiði sig útstrekkjandi) minnka, tekur til meginbyggðin með fjallgarðshlíðunum í röð austur eftir sveitinni, allt til Þurrárhrauns.
Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðar lönd taka til Suðurnesja jarða.
Sérlegustu örnefni á þessum fjallgarði teljast: Geitafell, Lambafell, Vífilfell, Lyklafell, Reykjafell, Vestri-Meitill, Austari-Meitill, Sanddalir, Langahlíð, Skóghlíð, Hverahlíð, Lakar, Skálafellshálsar, Kellingarberg, Kálfsberg, Hestur etc.
Þessi hér skrifaði hreppsins partur hefur til fjalls á sumrum víða lyngi vaxið haglendi, en um vetrartímann oft byrgt af snjó. Engjaplássið er í mýrum, þeim liggja í suður frá bæjunum, allt á Ölvesárbakka og að vestanverðu við Þorleifslæk. Þar vex mikið stargresi, gott fyrir málnytu, þá vel verkast og þornar, en þess er mjög torvelt til gagnsmuna að afla. Fyrst vegna fens foræða og torfæru með erfiðissamri brúargjörð. Þar næst liggur þetta gjörvalt engjapláss, með öðru mýrlendi, undir stórkostlegu Ölvesárflóði, nær stórstraumar eru við sjóinn, og vindarnir af suðri, landsuðri og útsuðri blása, gjörandi oft stóran skaða, einkum um sumartímann, heyshapnum og brúargjörðinni. En þá vindarnir eru við norðurátt, verður nægð heybjargar.
Fyrrnefnt Þurrárhraun hefur að vestanverðu Þurrárhnúk með hömrum. Þar kemur rennandi ofan lítil á, er Þurrá kallast. Síðan að austan verðu við hnúkinn heitir Vatnsskarð, sem almennilega er talað, að Kaldá hafi runnið fyrr um, og nú sést merki til hennar farvegs uppi á fjallinu. En fyrir austan þetta skarð nefnist Valhnúkur. Um fyrrnefnt Vatnsskarð, milli hnúkanna, hefur jarðeldur ofan af fjallinu fram á mýrina hleypt Þurrárhrauni, hvort að er án grass, með mosum, um hvers eldsuppkomu í Ölvesi lesa má í Kristindómssögu, þegar á Alþingi talað var um kristniboðan hér á landi. Með títt nefndu Þurrárhrauni aðskiljast Hjalla og Reykjakirkju sóknir.
Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær því allt að Gnúpastíg, hver eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellisheiði, þar Hurðarásvötn heita.
Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesármynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun. En frá Álfsós og vestur að hrauninu og til Sandár (hver sín upptök hefur þar við heiðina og rennur í ósinn), þaðan undir Gnúpatún, er mýrlendi með keldum og litlum lækjum. En sú mýri nálægt fjallinu, er að austan og sunnanverðu undir Gnúpahnúk liggur, nefnist Gnúpabringur, torsóttar vegna foraðs yfirferðar.
Fyrir norðan Gnúpastíg og bæinn tekur til aftur fjallið með stórum. og háum hömrum, í hverjum er hellir, sem er arnanna híbýli árlega og ómögulegt er, að rannsakaður verði. En þar þessir háu hamrar minnka og fjallið lækkar, taka til Kambar. Undan Kömbum til suðurs, milli Varmár og Sandár, með litlum brúnum, liggur heiði, ei stórum grösug, heldur blásin, þó með nokkru lyngi. Nefnd heiði endast með mýrum að sunnanverðu, ei alllangt frá Álfsós. Með jaðri heiðar þessarar, við mýrlendið, standa sex jarðir, hver nálægt annari, er kallast almennilega Bæjaþorp. Engjatakmark eður slægjuland nefndra Bæjaþorpsjarða tekur til við túnin í suður eftir mýrunum, með fínum heykost [en þó beztum að norðanverðu á Álfsósbökkum]. Varmá hefur nú fyrir fáum árum brotið sér farveg um þessar mýrar og engjapláss, því spillandi, hvar um síðar skal um geta.
Næst fyrir sunnan Bæjaþorpsjarða lönd og engjar liggur Reykjaslægjuland, er í Reykjakirkjumáldögum kallast Kirkjuhólmar. Þessu næst með vestanverðum Varmár forna farveg, þó ei á sjálfum bökkunum, strekkir sig út Arnarbælisstaðar slægjuland, allt suður að staðar túninu og að austan við Þingholt.
Arnarbælisstaður, á einum hól með öllum sínum hjáleigum og hjábýlum, stendur á Ölvesárbakka, hafandi vestur með árbakkanum slægjuland, allt að Hólmsósum [Þorleifslækjar mynni]. En að vestan verðu við lækjarósinn liggur Ósgerðishólmi, en fyrir vestan hólminn strekkir sig fram í Ölvesá Nauteyrarós. Þar liggja í grennd Nauteyrar, og er þetta allt Arnarbælis engjar, með miklu stargresi, að fráteknum Þorlákshafnar og Þorkelsgerðis engjaítökum, fyrir skipstöðu kemur. En vestar á Ölvesárbökkum liggja Lambeyrar og Lambeyrarós. Þessar eyrar heyra til Hrauni til litlra slægna, þó með [nokkrum] ítökum, er aðrar jarðir líka eiga. Þessar eyrar og greint engjapláss liggur undir Ölvesárflóði um stórstrauma. Fyrir vestan staðinn, í túninu, hefur býli verið, nú fyrir nokkrum árum í eyði, er Búlkhús var kallað. Þar var farmur tekinn af því skipi og öðrum fleirum, er Ögmundur biskup lét til Noregs sækja timbur á. Í útnorður og norður frá staðnum er mýrlendi með keldum og flóðum, allt að austanverðu á Þorleifslækjarbakka og að sunnan að Álfsós, hvert bæði er slegið og fyrir beitarland brúkað, og kallast allt þetta pláss Botnsmýri. Hér nefnt Arnarbælisland liggur nær því árlega um vetrartímann undir ís og snjó, hefur þar fyrir yfirgnæfanlegt stargresi um sumartímann.
Fyrir austan áðurnefndar Bæjaþorpsjarðir, en vestan Varmá, liggur almennings vegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba áðurnefnda, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn hlaðnar til leiðarvísis. — Fyrir sunnan heiðarhraunið liggur áðurnefnd Hverahlíð með mosum og grasi. Upp á hlíðinni er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnáma manns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma ávíkur. Af þessu téðu felli er víðsýnt um Árnessýslu, Rangárþing item Vestmannaeyja og Gullbringusýslu.
Vestur af Hellisheiði liggur almennings vegurinn ofan Hellisskarð, vestur yfir Hvannavelli, um endilangt Svínahraun og á Bolavelli, þaðan fyrir sunnan Lyklafell og vestan til í Fóelluvötnum, síðan með þeirri á, er úr vötnunum rennur, allt á Fossvelli og að Tröll[a]börnum etc. Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvern stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans tilvísar. Sama saga nefnir Hellisskarð Öxnaskarð, og mun þá hafa sitt nafn öðlazt af nautarekstrum Ölves innbyggara vestur yfir heiðina. — Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hverju allt til þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa uppi haldið vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli. Fyrir sunnan Húsmúlann, er liggur í útsuður undan Hengilsfjallinu, en fyrir norðan Hellisskarð, liggja Sleggjubeinsdalir. Þar er náttstaður vesturleitarmanna úr Ölvesi, þá afréttinn á haustin leita. Í vestur og útnorður frá sælhúsi og með Húsmúlanum liggja miklir grasvellir, nefndir Norðurvellir, og strekkja sig út allt suður undir Svínahraun, nær því undir Bolavelli, en endast þó þar Uxabrekkur heita.
Inn með Hengilsfjallinu liggur dalur og fyrir norðan Húsmúlann, er Engidalur kallast. Úr honum rennur lítil á vestur eftir Norðurvöllunum, fyrir norðan Bolavelli en austan Lyklafell, og fellur síðan í Fóelluvötn. Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag Oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar, við Engidalsá, standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið á milli þeirra Þjófahlaup — er þó ei sannferðugt, hvar fyrir so kallast. Í austur frá Engidal, upp á Henglinum, stendur þúfa, er enn nú nefnist Strendurþúfa, þangað eiga Strendurmenn í Selvogi með frí lambarekstra árlega. Frá þessari þúfu í útsuður hallar fjallinu, með stórum giljum og brekkum, allt ofan í Hengladali, hverir eru so sem þrír, hvor austur af öðrum. Þessir dalir eru grasi uaxnir með valllendi og mýrlendi, hafa fyrir sunnan sig Skarðsmýrarfjöll, graslaus, og liggja að norðanverðu við Hellisheiðar hraunið. Undir þessum fjöllum og um Hengladali síðan vestur á Hellisskarð liggur vegur Grafningsmanna á Suðurnes, er kallast Milli hrauns og hlíðar.
Úr Hengladölum renna margir smálækir, þar til í eitt saman koma, og so fram eftir dölunum vestur undir Hellisheiðarhraunið. Fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.
Frá nefndum hól rennur áður téð á til landsuðurs og austurs með hrauninu en fyrir vestan og sunnan Smjörþýfi, hvert eð liggur norður með Svínahlíð og er so áfast við Hengladali. Þessi títtnefnd á kallast þá nálægist byggðina Kaldá. Þar á henni heitir Lambavað. Hún er sagt runnið hafi fyrr meir fram eftir Gnúpafjalli og ofan Vatnsskarð (sem hér fyrir framan er á minnst). Nefnd á, þar hún nú rennur í nokkrum gljúfrum, hefur hún fyrir sunnan sig Saurbæjarhraun so kallað, hvert liggur til norðurs frá Kömbum, en að norðanverðu liggur Árstaðafjall. Þar við ána í fjallinu er gat á berginu og kallast Raufarberg hvar með Reykjaland aðgreinist frá afréttinum. Þetta Árstaðafjall hefur upp á sér grösugan dal, er Fífudalur kallast. Fjallið er og sjálft allvíða grasi vaxið, með góðu haglendi. Í norður frá fjallinu heita Molddalir og þar nærri eru Hverakjálkar. En heiðin þar fyrir vestan, allt á Svínahlíð, er kölluð Bytra.
Hér nefndir Hverakjálkar hafa í sér hveri með deigulmó og litlum læk, er rennur í austur, allt ofan í Reykjadal. Þessi dalur hefur mýrlendi og valllendi, mjög grösugur, með volgri á, sem orsakast af mörgum hverum, er víða í dalnum eru. Hér nefnd Reykjadalsá rennur í suður og ofan í Djúpagil so kallað, síðan í Kaldá.
Örnefni í þessum dal og kringum hann eru þessi sérlegustu: Klambragil, Fálkaklettar, Dalaskarð, Dalafell, Rjúpnabrekkur efri og neðri etc, Fyrir austan þessi örnefni liggur Grænsdalur, beitarland og slægna frá Reykjakoti, víða grasi vaxinn með valllendisbrekkum og mýri, einnig með hverum og mörgum smágiljum, er gjöra með sinni saman rennslu eina á eftir þessum miðjum dal, hver eð rennur til útsuðurs í þráttnefnda Kaldá. Örnefni í og kringum Grænsdal eru þessi helztu: Grænsdalseggjar, Þrengsli, Langamýri, Engjamúli, Nóngil, Vesturfossar, Ófærugil, Vestastaengi, Miðengi, Austastaengi, Kapladalur, Snókatorfa, Þvergil, Jarðföll, Brennisteinshver etc. En til austurs frá Grænsdal taka til Klóarmelar, aldeilis graslausir.
Plássið þar fyrir austan er selhagar frá Reykjum og það pláss kallað Reykjafjall, þó lágt liggi sem annar dalur. Þetta takmark er með grasi víða, so valllendi sem mýrum, gott til haglendis en undirlagt af snjóum á vetrartímanum, sem og einnig í sama máta fyrrskrifaðir dalir. Af mörgum smágiljum þar saman rennandi í eitt orðsakast ein lítil á, er Sauðá kallast, hver eð rennur til útsuðurs og allt í Kaldá. Í kringum og í þessu Reykjafjalli eru þessi minnilegust örnefni: Sökkatindur, Sauðatindar, Efri- og Neðri-Tindamýrar, Klóarmelahver, Klóarmýri, Kló, Klóarbugar, Votamýri, Kapladalur, Stóratorfa, Austurhvammar, Álútur, Hrossaflöt, Geldingadalur, Bolatjörn, Boli (so kallaður hver), Bolabrekkur, Nátthagi, Selhæð etc. etc. Þegar hér oftnefnd Kaldá með öðrum ám og lækjum, sem hér umgetur í hana renni, beygist og rennur rétt til suðurs fyrir neðan fjallgarðinn, þá er hún Varmá kölluð, og dregur sitt nafn af því varma vatni þar á allar síður. Í hana renna ei allfáir vellandi hveralækir, ásamt volgar vatnslindir, so og eru í árinnar sjálfrar farveg vellandi hverir, er sig auglýsa þá hún vatnslítil er. Í nefndri á er foss fyrir vestan túnið á Reykjum, sem net er í dregið en veiði þó alllítil af sjóbirtingi á öndverðum sumartíma.
Varmá hefur fyrir nokkrum árum runnið til suðurs allt í Ölvesá fyrir austan Arnarbælis stað, en nú hefur hún brotið sér farveg um miðjar engjar Bæjaþorpsjarða til vesturs, allt í Álfsós, berandi uppá kringum liggjandi mýrlendi aur, leir og sand, slægjulandinu til spillingar (sem áður er um getið). En sá forni farvegur er þurr orðinn.
Ei er gleymandi að skrifa nokkuð um það varma vatn og vellandi hveri, er nálægt Varmá liggja. Fyrir vestan Reykjafoss kallast Hveragerði. Í því plássi eru margir hverir, sumir með miklu djúpi og þó vellandi. Einn þessara liggur hérum einn faðm frá almenningsveginum, er liggur vestur Hellisheiði, og er með bergi að austanverðu, en sandmel annars staðar, hér við tveggja álna hátt að vatni, nær því kringlóttur og víður sem lítið hús. Hann er vellandi með smásuðu en ei stórkostlegri, mjög djúpur og dimmur að sjá. Á hér téðu hver keri hafa skilríkir og sannorðir menn (hverjir enn nú eru á lífi, og sumir sálaðir) séð, þá veginn hafa ferðazt, tvo fugla synda, að vexti sem litlar andir með fölsvörtum lit, og hvítum baugum, eður so sem hringum kringum augum. Þá þessir fuglar hafa um lítinn tíma synt á hvernum, hafa þeir sér í vatnið stungið og ei úr vatninu upp aftur komið, þó menn hafi nokkra stund þar dvalið, væntandi þeirra aftur komu. Hér um hafa allir, er þetta séð hafa, sama sagt.
Annar hver í útsuður frá þessum, lítill vexti, spýtir upp úr sér vatni með miklum reyk þykkum og svælu hátt í loftið, þá veðrátta tekur til að ganga rosasöm, og það á öllum ársins tímum. En þegar þurrviðri, frost og úrkomulítið loft er, gefur hann ei frá sér nema vanalegan reyk, hvar af marka má veðráttufar, þeir eftir taka kunna. Örnefni þessi eru fyrir norðan Hveragerði og undir Kamba minnisstæðust: Sandskeiði, Hamarinn, Volgulækir, Völlurinn, Árhólmar etc.
Sá þriðji heitir Baðstofuhver, og liggur að austanverðu við Varmá, fyrir norðan Reykjafoss, með miklum undirgangi upp úr holu eður gjá, hér um tveggja faðma víður. Hann gýs hátt upp í loftið um lítinn tíma vellandi vatni með reyk og svælu stórkostlegri, so furða er að líta. Þegar hverinn er að spýta og frá sér gefa vatnið, þá rennur lækur þaðan fram í ána. Þá so þetta hefur litla stund varað, sýgur gjáin allt gjörvalt vatnið í sig aftur, so illa nóg sést til þess, þar til í nefndri gjá vatnið aftur vex, og gýs so með sama hætti og hér er áður um talað. Ei mun þessi hver minna gjósa með stórstraum við sjóinn, heldur meira.
Fjórði hver er upp undir fjallinu, fyrir ofan Reykjatún, nefndur Geysir, hvers ógnarlega hljóð, nú fyrir nokkrum árum, skriða úr fjallinu með sínu hlaupi hefur stillt. Hjá þessum hver og líka annars staðar er að finna álún og marglitaðan, feitan deigulmó.
Fimmti er fyrir vestan Reykjatún, hér um þriggja álna víður í kring, vellandi með hreinu vatni, hver í sig sígur tuttugu álna langt vaðmál rétt til enda og sendir það so aftur upp í einum böggli, þá hann gýs. Ei má því sleppa, því þá er óvíst, hvort aftur næst. Margir aðrir hverir eru og nálægt Reykjum og Reykjaseli (og víða um þeirrar jarðar land), hvar mat má á kokka, einnig lita vaðmál, eður hvað annað þesskonar til þarfinda að brúka þörf gjörist. Járnpottar eru hentugastir hér til, en eirkatlar foreyðast fljótara en yfir eldi. Allur sá þeirra partur, er upp úr hverunum stendur, gatbrennur, en botninn bilar trauðlega. Sé lagt í þessa hveralæki, eður þeirra úrrenslur, ógyllt silfur, þá kemur á það roði, sem strax af strýkst. Sé ull eður önnur þesskonar lin materia lögð í þessa hveralæki, verður hún með langsemi að steini, eður hörðum mó, þó með sama formi og hluturinn þangað lagður er í fyrstu. Sumir smáhverir eru og þeir, sem spýta deigulmó so þykkum sem graut. Hveravatn þrálega drukkið meina menn sé þeim mönnum gott, er brjóstveikir eru.
Fyrir landsunnan og austan Reykjatún er kallað Stórkonugil. Síðan er mýrlendi allt til Vallnamúla, þar er með fjallinu er Skjólklettur nefndur. Sérlegustu örnefni á Reykjafjalli, er liggur til austurs allt til byggðar í Grafningi, teljast þessi: Efjumýrar (í hverjum er landamerkjaþúfa milli Reykja og Grafningsjarða), Geldingadalseggjar, Lambhagi, Húsatorfur, Stekkjardalur, Sognsbotnar, Sognin, Klyptartungur, Sognssel, Selás, Kringluvatnsdalur, Hlíðarfjall, Hálsfjall etc. Að austanverðu við Varmárfarveg þann forna liggja bæir í röð, með sínum hjáleigum, suður eftir miðri sveitinni, fimm að tölu, allt að Ölvesá. Í þessari tölu er Reykjakirkju jörð, Vellir, hvar Reykjakirkja stóð í þrjátíu ár og nú sjást enn glögg merki til tóttar, kirkjugarðs og leiða framliðinna manna. En að Völlum var kirkjan flutt þangað (eftir því sem sannorðir menn sagt hafa) að hver hafði upp komið innan kirkju á Reykjum, en biskupinn, herra Oddur Einarsson, befalaði Álfi Gíslasyni líttnefnda kirkju til Reykja aftur að flytja, hvar hún hefur síðan staðið.
Örnefni fyrir ofan og austan Velli eru þessi: Torfeyri, Músarhólar, Krossklettar, Vallnamúli, Vallnagil, Sognseinbúi, Rauðilækur, Hellnaholt. — Austur með fjallshlíðinni liggja og þrír bæir, beggja megin þess vegar, er Grafningsháls kallast og aðskilur frá öðrum fjöllum að norðan verðu Ingólfsfell, þar nálægt liggjandi. Milli þessara bæja hlaupa fram í sveitina ár tvær litlar. Kallast sú vestri bæði Gljúfursá, einnig Gljúfrarholtsá, og svo líka Sandá. En sú eystri Hvammsá og líka Bakkarholtsá. Þessar báðar strekkja sig út til útsuðursáttar og komast so loksins í þann forna Varmárfarveg og þaðan í Ölvesá, milli Arnarbælis og Auðsholts. Hvammsá aðgreinir með fjallbyggðinni Reykja- og Arnarbæliskirkjusóknir. Ei alllangt frá þessari á, undir Ingólfsfelli, eru almennilegar sauðaréttir Ölvesinga á hverju ári haldnar þann 21. dag septembrismánaðar, ef sá dagur, eður sá fjallleitina á ber, er ei löghelgur. Annars eru réttirnar haldnar eftir hreppstjóra ráði og tilsögn.
Fyrir framan Ingólfsfell og með því að sunnan og austanverðu og allt að Ölvesá liggur byggðin, hvar eð skiptast að austan undir miðju fjallinu Arnarbælis og Úlfljótsvatns kirkjusóknir. Mesti partur þessara jarða landa, eður búfjárhagar (er fyrir austan Varmár gamla farveg liggja) er mýrlendi með holtum, með heyskap ei mjög miklum og kostalitlum einkum á þeim jörðum, er ei eiga engi á Varmárbökkum, hvar betri heykostur er.
Minnilegust örnefni um þetta pláss allt reiknast þessi hér: Eskholt, Hvammslambhagi, Hólstaðir, Gálgaklettar (hvar að stórbrotamönnum er réttað), Márstígur, Auðholtsskygnir, Völur, Kögunarhóll etc. Þessu næst er að geta Ingólfsfells. Það liggur til norðurs og suðurs í hreppnum, ei alllangt frá því vafnsfalli, er Sog nefnist og fyrir austan fjallið rennur. Þetta fjall hefur hamra og eggjar allt um kring, háfar og miklar að sínum þremur köntum, að vestan, sunnan og austan, en að norðanverðu er það með stórskörðum og giljum. Það er mjög graslítið, svo upp á því, fyrir ofan hamrana, sem neðan. Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámamanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosavaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu, nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvorn hann lét þá mæla. — Örnefni þessi eru á Ingólfsfelli svo kölluð: Kagi, Kagagil, Leirdalur, Dagmálagil, Hólstaðagil, Tannastaðadalir, Alviðrueggjar, Djúpidalur etc. í landnorður undan Ingólfsfelli og upp með Soginu eru mýrar, þar til byggðin í þeim kjálka sveitarinnar til tekur, er Grafningur kallast. En í vestur yfir Álftavatn og fyrir norðan Ingólfsfjall liggur vegur fram Grafningshálsinn og í Ölvesið, Á þeim vegi nefnast þessi örnefni: Djúpigrafningur, Æðargil, Bjarnarfell, Kaldbak etc.
Fyrir sunnan Tungá (en í Landnámu kallað er Þverá) eru fjórar jarðir með graslendi góðu, lyngi vaxið, en fyrir ofan eður norðan ána er Bíldfellsfjall lyngi og skógi vaxið, sem og góðir hagar á vetur. Þar norður með vatninu er kallað Land, allt þar til tekur Úlfljótsvatns slægjuland, kallað Dælar. Síðan tekur til (Úfljótsvatnsfjall og fyrir austan það Dráttarhlíð, svo kölluð vegna þess á því plássi er net dregið til silungs veiði. Það er slægjupláss frá Úlfljótsvatni með svo góðum heykosti sem töðu. Upp á þessari hlíð eru þrír fornmannahaugar, hver skammt frá öðrum, grasi vaxnir, þar menn segja í séu heygðir þeir fyrri menn á haugaldartíð, er þessar jarðir, Úlfljótsvatn, Villingavatn og Ölversvatn hafa sitt nafn af dregið. Norðan til í hlíðarberginu er stór hellir, kallaður Skinnhúfuhellir. Haglendi þessara jarða er gott með lyngi, viði og góðu grasi víða vaxið og ei stórlega blásið. Lítil á rennur að vestan úr fjallinu fyrir sunnan Ölversvatnstún og austur í Þingvallavatn. Slægjuland þessarar jarðar er fyrir austan bæinn. Vestan bæinn í túninu er kallað Grímkelsgerði og þar er leiði Grímkels goða Bjarnarsonar, 15 álna langt.
Örnefni nálægt Ölversvatni: Lambhagi, Álftalautir, Stigadalur, Líkatjörn, Líkatjarnarháls etc. Norður betur með vatninu skerst inn vík, kölluð Hagavík. Þar enn til norðurs Hagavíkurhraun, nú með litlum skógi. Örnefni þar nálægt: Sandfell, Leirdalur, Lómatjörn, Lómatjarnarháls, Ölversvatnsvellir, Hvíthlíð (Reykjakirkju skógarítak), Stangarháls (Arnarbæliskirkju skógarítak), Rauðhóll, Grámelur etc. Þessu næst er að minnast örnefna, er fjallgarðinum til heyra, þó byggðalönd séu Grafningsjarða og kallast so þau nafnfrægustu: Háafell, Dagmálafjall, Súlufell, Kyllisfell, Stapafell, Mælifell, Krossfjöll, Hrómundartindur Villingavatns-Seljadalur, Laxárdalur, Stóri- og Litli-, Smjördalur, Úlfljótsvatnsbotnar, Villingavatns-Seljabotnar, Álftartjarnir, Kattartjarnir, Djáknapollur, Mælifellsflatir, Lakar, Ölkelduháls, Brúnkollublettur.) Raufarberg sem er landamerki milli Ölversvatns og Reykja, Þverárdalur, Söðlahóll, Kýrgil með hverum og hömrum og liggur undan Henglinum að sunnanverðu.
Þar norður með Hengisfjallinu eru kallaðar Ölversvatnslaugar. Þar fyrir norðan Nesjalaugar. Frá þeim til austurs eru Nesjavellir, slægjuland frá Nesjum. — Það þráttnefnda fjall Hengill er stórt og hátt og liggur til austurs og vesturs, að ofanverðu blásið með mosum, en til hliðanna, einkum að sunnan og austanverðu, með grasbrekkum. En á vestri síðuna hefur það stórgil og hamra. Það er kallaður Vörðuskeggi þar fjallið er hæst, að austan. Þaðan segja menn að sjáist glögglega hver ein vík og annes á Þingvallavatni, en ei af öðrum fjöllum. Þetta fjall með kringum liggjandi á allar síður fellum, hálsum, ásamt dölum og völlum, er afrétt Ölvesinga fyrir sauðfé, naut og einnig hross. Þennan afrétt munu og Suðurnesjamenn brúkað hafa í fyrri tíð, er hér að framan um getur.
Örnefni fyrir vestan og norðan Hengilinn þessi: Marardalur, Grashólar, Skublungar, Dýrunsfjöll, Folaldadalir, Vegghamrar, Rauðuflög etc. í austur og landnorður undan Henglinum er Jórutindur, er so nefnist af Jórunni, er trylltist á Flóamanna hestaþingi og Ólafur konungur lét vinna, sem um getur í söguþætti hennar. Fyrir neðan tindinn tekur til Jórukleif og eftir kleifinni kallast Jórugil, er liggur í Þingvallavatn. Þetta pláss er skógi vaxið og kallast Nesjaskógur. í suður frá Jórutind er nefnd Hjallatorfa, Hjallakirkju skógarítak, nú mjög gagnlítið. Jórukleif hefur að norðanverðu hamra, en fram við Þingvallavatn liggur vegur til Alþingis Ölvesinga. Um þessarar kleifar nyrðri síðu aðskiljast Ölves eður Grafnings jarða lönd og Þingvallahreppsins.
Þingvallavatn er það stærsta stöðuvatn á þessu landi. Í því er silungur, hver í kringum það veiðist með lagnetum og krækifærum á bátum, einnig á ísum á vetrardaginn. Út í því liggja eyjar tvær. Önnur kölluð Nesjaey, há sem lítill hóll, með litlu grasi en varpi engu. Hún heyrir til Nesjum. Hin eyjan, sú eystri, kallast Sandey, so sem lítið fell, sums staðar grasi vaxin en í sumum stöðum blásin. Hún hefur varp nokkurt af svartbak. Þessi heyrir til Ölversvatni. Hestaganga er þar góð fyrir fáeina á vetrartímanum, þá vatnið er ísi þakið og hefur hestheldan ís. Það er almennilega haldið, að vatnið frá Ölversvatni og norður í Sandey svari að lengd sem tveimur vikum sjávar, og úr eynni jafnlangt til Þingvalla. Milli eyja þessara er lítill hólmi, sem elftur verpa í.
Í útsuður frá Sandey hafa sannorðir menn séð í hlýju morgunveðri reyk eður blástur upp úr vatninu um lítinn tíma, líkastan stórfiska blæstri.
Fyrir norðan áðurnefnda Dráttarhlíð, skerst fram úr Þingvallavatni það mikla vatnsfall Sog, er sitt nafn tekur af þess súg eður hastugri rennslu fyrir hlíðartaglið. Anno 1632 þornaði þetta Sog upp, so silungar voru á þurru úr því teknir. Þegar nú þetta Sog linar sinn straum, strekkir það sig út í eitt ei alllítið vatn, er nefnist Úlfljótsvatn, sem með silung er jafnan, og dráttarnet með bát brúkast þar á sumrum. Upp úr þessu vatni, þá vorar að, rekur í kringum það hrönn með smá punga, hvar úr menn hyggja það mý koma, er við nefnt vatn á sumrin, þá hitar og vætuhæg veðrátta gengur, er so þykkt í loftinu, að varla sést til sólar í heiðríku veðri.
Í miðju þessu vatni er ein ey, kölluð Hrútey, með mjög litlu varpi, hafandi hvannir, er tíðum slegin. En sunnan til í nefndu vatni eru tvö eylönd. Nefnist önnur eyjan Flatey, og heyrir til Úlfljótsvatni, með góðu grasi og hvönnum, en hin kallast Brúarey, með viðlíkum hætti og Flatey. Í nefndar þessar eyjar verður að fara á skipi, sem og milli þeirra, þó ei langt sé. Brúarey heyrir til Efri-Brú í Grímsnesi.
Þegar Sogið úr vatninu tekur til aftur, kemur stór foss, nefndur Ljósifoss. Þar fyrir neðan er annar, kallast Ýrufoss. Þar eftir liggja hólmar í Soginu, í hverja reitt er að vestanverðu, hvar vex einir og ber á, sem og annað lyng. Fyrir sunnan nefnda hólma er sá þriðji foss, er Kistufoss heitir. Undir þann foss fer selur, en ei lengra. Eftir þetta hleypur Sogið fram með byggðinni Grafningsins að austanverðu, allt að Tunguármynni. Þar er ferjustaðurinn yfir Sogið. Síðan koma enn nokkrir smáhólmar, er Torfastaðahólmar eru kallaðir, með varpi nokkru. Þar brúkast og ferjustaður frá Torfastöðum. Fyrir sunnan téða hólma slær Sogið sér út og breikkar, so lítill straumur verður í því, með sléttum sandi á botninum. Þar er vað, sem oftast nær brúkast árið um kring, nema þá stærstu vatnavextir eru.
Þetta vatn kallast Álftavatn. Sunnarlega í því er hólmi stór með bergi í kring, hvar arnir verpa tíðum. Þegar Álftavatn tekur að mjókka er enn kallað Sog, hvort rennur enn til suðurs að austan verðu við Ingólfsfjall (á móti Alviðru er og líka ferja höfð) og allt í Hvítá.
Títt nefnt Sog aðskilur Grafning frá Grímsnesi. Þegar í einn farveg er komið Sogið og Hvítá, þá nefnist og kallast vatnsfallið til samans Ölvesá, hver móða rennur til útsuðurs og aðgreinir Hraungerðinga og Kaldnesinga hreppa frá Ölvesi. Fyrir framan ármótin eru smáhólmar með varpi litlu. Síðan er Laugardælaferja. Í ánni fyrir útsunnan ferjustaðinn er eyland, er Laugardælastað tilheyrir.
Fyrir norðan Selfosstún eru þrír klettar fyrir ofan hávaðana, en þó langt á milli þeirra, er í ánni standa. Þessir steinar kallast Meyjarhlaup, hvar yfir um fór Jórunn af hestaþingi í Flóa, þá trylltist, og lagðist þar eftir í Jórutind, sem hér er áður á minnst. Hún ein hefur gengið á stíflu yfir Ölvesá, þá ófrosin verið hefur. Fyrir neðan nefnda háfaða kemur vík, kölluð Fossvík. Þar fyrir vestan er einn ferjustaður, kallaður Kotferja. Þar Ölvesá rennur fyrir vestan Kaldaðarnes er ey í ánni með æðarfuglsvarpi, er þangað heyrir, til gagnsmuna. En þegar nefnt vatnsfall tekur að útstrekkjast, hefur það eyrar með stórum og djúpum álum og mikilli víðáttu vestur undir Hamarenda. Arnarbælisstað tilheyra þrjú eylönd, er að vestanverðu liggja í ánni og slegnar eru, er so nefnast: Garðey, Hrútey, Lambey.
Fyrir sunnan Hamarenda tekur árinnar breidd að mjókka, so hún fellur í eitt, án eyra og grynninga, og til landsuðurs. Þar er ferjustaður, sem í Óseyri kallast. Þar verður að sæta sjávarföllum til flutnings og er ærið langt sund. Á þessum ferjustað, sem öðrum öllum í Árnessýslu, er á Alþingi ályktuð ein alin í ferjutoll undir mann og hest, til og frá, item sama gjald er undir klyfjaðan hest hvern. En þegar kúgildi eitt er flutt, þá er fimm álna ferjutollur fyrir það. Þessari Óseyrarferju halda uppi búendur í Ferjunesi (sem Landnáma kallar Framnes), og meðtaka ferjutollana. Þar verða að brúkast á ánni tvö skip í senn um sumartímann, vegna fólksfjölda. Ei alllangt fyrir framan ferjustaðinn fellur áin í sjó, þó í tveimur kvíslum, önnur til austurs með landinu, en hin vestur með Skeiðinu. En vegna þess Hásteinar liggja rétt í miðju gapi árinnar, þá orsakast þessi yatnsins sundurskipti. Hásteinar er stórgrýti, þurt um fjöruna, en um flóð í kafi og brýtur á sem boða öðrum. Fyrir vestan Hásteina er kallað Hásteinasund, sem með farmaskip er inn róið. Mikill fjöldi af sel er í árinnar mynni, sem og í henni sjálfri. Silungsveiði með báti og dráttarneti brúkast í Óseyri frá Hrauni í Ölvesi, um sumartímann, og er það sjóbirtingur, sem þar næst. Nú eru hér upp talin flest öll byggðarlög, landspláss og örnefni í Ölvessveit, er nú kallast á þessum tíðum.
NB. Á Reykjum í Ölvesi hefur í fyrri tíð búið Gissur jarl og Oddur Gottskálksson lögmaður (þar út lögð píningar historian og um Jerúsalems eyðileggingu A- 1545).
Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur í vestur liggjandi eftir heiðinni allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellisheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn. Þaðan í það stóra bjarg, er liggur við veginn í Ólafsskarði. Síðan sjónhending í Hvítskeggshvamm, fyrir sunnan Geitahlíð, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.
Anno 1703 voru og töldust búendur í Ölvesi, er tíund gjörðu frá níu hundruðum og þaðan af frekara seytján; en frá fjórum hundruðum til tíu hundraða þrjátíu og einn. En þeir minna tíunda en fjögur hundruð eru fimmtíu og einn.
Reiknast lausafjártíundir allar í Ölvesi á ofanskrifuðu ári fimm hundruð hundraða, sjötíu og átta hundruð betur. Tala heimilisfastra manna, ríkra og óríkra, á sama hér téðu ári, í þrátt nefndum hrepp, er fimm hundruð sjötíu og sex menn, en fátækir umferðamenn sveitarinnar teljast þrjátíu og einn. Summa alls fólksins fimm hundruð tíutíu og sjö menn.“
Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.91.1936, Lýsing Ölveshrepps 1703 – Hálfdán Jónsson, bls. 57-78.