Tag Archive for: Mackanzie

Seltún

Ólafur Grímur Björnsson skrifaði um ferðir Sir George Mackenzie um Reykjanesskagann og nágrenni árið 1810 í Náttúrufræðinginn 2007:

Mackanzie

Mackanzie – málverkið eftir Sir Henry Raeburn.

„Skotinn Sir George Steuart Mackenzie (1780-1848), 7. barónett af Coul, kom til Íslands 1810 ásamt félögum sínum, Henry Holland (1788-1873), nýútskrifuðum lækni frá Edinborgarháskóla, Richard Bright (1789-1858), en hann var þá nýbyrjaður í læknisfræðinámi þar, og Ólafi Loftssyni, sem numið hafði læknisfræði hjá Tómasi Klog landlækni. Ólafur hafði verið læknir á Suðureyjum (The Hebrides) og meginlandi Skotlands og síðan haldið áfram læknisnámi í Edinborg. Hann var í senn túlkur og leiðsögumaður í ferðinni, en stundum höfðu þeir að auki aðra innlenda fylgdarmenn.
Erindið var að ferðast um Ísland, kynnast landi og þjóð og þó sérstaklega jarðfræði landsins eða eins og Sir George orðaði það, ferðin „… was undertaken chiefly in consequence of the geological theories which agitated the learned in Edinburgh at the time, and with the hope of my being able, by observations made in a volcanic country, to settle some of the points in dispute“.

Seltún

Málverk í bókinni af hverunum í Seltúni í Krýsuvík.

Hér átti Mackenzie við deilur neptúnista og plútónista um myndun yfirborðs jarðar. Neptúnistar héldu því fram að yfirborðsbergiðværi botnfall úr sjó (setlagakenningin) og voru þeir ýmist nefndir eftir sjávarguðinum Neptúnusi eða Werneristar eftir upphafsmanni kermingarinnar, Þjóðverjanum Abraham Gottlob Werner (1750-1817).

Aðrir töldu að bergið væri mótað af eldi sem brotist hefði út á yfirborði jarðar (eldmótunarkenningin). Þeir voru kallaðir plútonistar eftir guði undirheima, en einnig Huttonistar eftir Skotanum James Hutton (1722-1797) sem hélt fram kenningunni og hafði búið í Edinborg á þessum tíma.
Til Íslands fengu félagarnir far frá Straumnesi í Orkneyjum 25. apríl með skipinu Elbe og komu til Reykjavíkur 7. maí. Þeir dvöldu á landinu til 19. ágúst, höfðu aðsetur í Reykjavík (1. mynd) og fóru þrjár meiriháttar könnunarferðir þaðan.
Henry Holland hélt dagbók um ferðirnar.
KrýsuvíkFyrst var Reykjanesskagi kannaður. Lagt var af stað gangandi frá Reykjavík til Hafnarfjarðar 21. maí. Frá Hafnarfirði brugðu þeir sér af leið og heimsóttu Bessastaði. Þá lá leiðin til Helgafells að skoða helli, en svo seinir voru þeir fyrir að gista varð í tjaldi við Kaldá. Þaðan fóru þeir til Krýsuvíkur þar sem hverasvæðið var athugað og sýni tekin, en hverirnir voru það merkilegasta sem þeir höfðu þá séð í ferðinni. Næst var haldið til Grindavíkur og þaðan til Keflavíkur. Þeir slepptu Reykjanesi vegna veðurs en ætlunin hafði verið að skoða hveri þar líka. Til baka gengu þeir um Vatnsleysuströnd og Hvassahraun til Reykjavíkur, því hesta notuðu þeir ekki í þessari ferð nema undir farangur (2. mynd).
MackenzieNæsti leiðangur var um Vesturland. Þann 15. júní lögðu þeir af stað sjóleiðina upp á Kjalarnes en hestar voru sendir landleiðina. Riðið var inn Hvalfjörð en á móts við Saurbæ létu þeir ferja sig yfir fjörðinn. Á Innra-Hólmi var gist í þrjár nætur hjá Magnúsi Stephensen, gengið á Akrafjall og safnað sýnum. Til Borgarfjarðar fóru þeir um Skarðsheiði og gistu á Hvanneyri.
Áfram héldu þeir vestur á Mýrar og Snæfellsnes; gististaðir voru á Svignaskarði, Staðarhrauni, Rauðamel, Miklaholti og Staðarstað og vöndust þeir á að gista í kirkjum, komust svo að Búðum. Hjá Stapa fóru þeir yfir Kambsheiði til Ólafsvíkur. Holland, Bright og Ólafur gengu á Snæfellsjökul ásamt tveimur fylgdarmönnum, en komust ekki á hæsta hnjúkinn.

Richard Bright

Richard Bright.

Leiðangurinn hélt svo för sinni áfram og fylgdi norðurströnd Snæfellsness til Stykkishólms, en í Stykkishólmi voru fyrirmenn, faktorinn Bogi Benedictsen og læknirinn Oddur Hjaltalín. Holland ræddi lengi á latínu við kollega sinn Odd og sagði hann vera vel að sér í læknisfræði.” Áfram héldu þeir og söfnuðu plöntu- og steinasýnum og þar á meðal sýnum úr Drápuhlíðarfjalli.
Þeir áttu náttstað í kirkjum á Narfeyri og í Snóksdal og fóru þaðan um Bröttubrekku í Hvamm í Norðurárdal og gistu í kirkjunni. Leiðin lá að Síðumúla, en yfir Hvítá komust þeir ekki fyrr en niður við Hvítárbakka og héldu þá til Hvanneyrar. Þeir hittu Stefán Stephensen amtmann, sem Holland hældi umfram bróður hans, etasráðið á Innra-Hólmi. Holland og Mackenzie fóru í Reykholt og skoðuðu hveri, en mest dáðust þeir að Deildartunguhver í bakaleiðinni, stærð hans og hegðun.
Næst var að halda aftur að Innra Hólmi, en þar geymdu þeir steinasafn sitt úr Akrafjalli, og sjóleiðina fóru þeir til Reykjavíkur og höfðu verið mánuð í burtu.

Henry Holland

Henry Holland.

Þriðja og síðasta ferðin var um Suðurland. Hópurinn komst af stað til Þingvalla 24. júlí, fór í Skálholt og að Geysi og Heklu og gekk á fjallið.
Lengst komust þeir austur að Hlíðarenda í Fljótshlíð. Þar á hjáleigu, Nikulásarhúsum, bjuggu foreldrar Ólafs, Loftur Ámundason hreppstjóri og Ingibjörg Ólafsdóttir. Nú fréttu þeir að skipið sem þeir ætluðu með væri væntanlegt bráðlega til Reykjavíkur, og þeir hröðuðu sér í Odda, fóru á Sandhólaferju yfir Þjórsá til Eyrarbakka, um Þrengslin til Reykjavíkur og náðu í tæka tíð briggskipinu Floru, sem flutti Bretana til Skotlands. Þorvaldur Thoroddsen hefur ritað um jarðfræðilegan árangur þessarar ferðar í Landfræðissögn sinni.
Um Íslandsferðina sömdu Mackenzie, Holland og Bright ritið Travels in the Island of lceland during the Summer of the Year MDCCCX, gefið út og prentað í Edinborg árið 1811 (október). Þessi bók er xvii + 491 bls. í stóru broti (quarto), myndskreytt af höfundum og sumar myndanna eru í lit. Aftast er samanbrotið kort af þeim hluta Íslands sem þeir ferðuðust um og sýnir ferðaleiðir þeirra. Sir George ritaði ferðalýsinguna en studdist við dagbækur Hollands. Einnig ritaði hann um steinafræði, landbúnað og verslun Íslendinga.

Reykjavík 1810

Mynd af Reykjavík 1810 í bókinni.

Henry Holland er höfundur kaflans um sögu og bókmenntir þjóðarinnar, skólahald og menntun í landinu, lög og stjórnmál, trú og sjúkdóma. Í bókinni er kafli sem Richard Bright samdi um dýra- og grasafræði Íslands og þar er líka registur um íslenskar jurtir eftir náttúrufræðinginn William Jackson Hooker og veðurathugunartöflur.
Bókin er vandað verk og var dýr (kostaði 2 pund, 12 shillinga og 6 pence eintakið), en samt seldist hún upp á 6 mánuðum og var strax gefin út aftur í Edinborg 1812 (apríl), allnokkuð endurskoðuð. Vinsamlegur ritdómur birtist þá (1812) í Edinburgh Review og langur úrdráttur og ritdómur í Dansk Litteratur Tidende sama ár. Enn endurskoðaðri og stytt útgáfa, tveggja dálka, prentuð með smáu letri án mynda, kom út í Edinborg 1842 og nefndist ritið þá aðeins Travels in Iceland. Það var síðan endurprentað þar árið 1851.

Seltún

Mynd frá hverasvæðinu í Seltúni í bókinni.

Sir Henry Raeburn (1756-1823) var líklegast þekktasti portrettmálari Skotlands á sínum tíma, kallaður „the Scottish Reynolds“. Það málverk sem hér um ræðir málaði Sir Henry á árunum 1811-1813, að því er talið er, en áður hafði hann málað aðalsmanninn á unglingsaldri, eða um 1795. Málverkið sem hér er kynnt var á sýningu Royal Academy 1813 og var meðal verka á sýningu helgaðri Raeburn árið 1876. Síðast var það sýnt 1997 hjá Lane Fine Art í London.
George Steuart Mackenzie var einkasonur Sir Alexanders MacKenzie, 6. barónetts af Coul, og Katharine (f. Ramsay). George tók við barónett-titli að föður sínum látnum árið 1796. Sir George er líklegast þekktastur fyrir að hafa sýnt fram á að demantar eru úr kolefni, og segir sagan að þá hafi hann brennt gimsteina móður sinnar í tilraunaskyni.

Mackenzie

Mynd af Íslendingum í bókinni.

Sir George var kosinn félagi í Royal Society í Edinborg, yngstur allra sem teknir hafa verið í það félag (hann var einnig félagi í Royal Society í London eins og áður var nefnt). Hann tók þátt í samkeppni 1839-1840 um gerð fyrsta frímerkisins og ritaði meðal margs annars um landbúnað í héruðunum Ross og Cromarty. Hann var sannfærður um að Skosku hálöndin væru betur sett með sauðfé en án þess. Sir George Steuart Mackenzie, Bart, var tvíkvæntur; fyrri eiginkona hans var Mary (McLeod, d. 1835) og eignuðust þau sjö syni og þrjár dætur. Seinni kona hans var Katharine (Jardine) og með henni átti hann einn son. Sir George lét byggja ættarsetrið Coul House, sem stendur enn.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 2007, Ólafur Grímur Björnsson, Sir George Steuart Mackenzie, Bart, bls. 41-49.

Mackenzie

Kort í bókinni af ferðum Mackenzie og félaga 1810.