Í „Þjóðminjalögum“ frá árinu 2001 (nr. 107 31. maí) var ákvæði er gerði notkun málmleitartækja við leit að forngripum í jörðu óheimila nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar. Ákvæðið var í 16. gr. laganna og hljóðaði þannig: „Óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.“
Í 18. gr. laganna voru „forngripir“ skilgreindir þannig: „Forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Þegar forngripir finnast sem liggja eða legið hafa í jörðu skal finnandi tilkynna Fornleifavernd ríkisins fundinn svo fljótt sem við verður komið.“
Þjóðminjalögin hafa verið felld úr gildi.
Í „Þjóðminjalögum“ frá 1989 (nr. 89 29. maí) var sambærilegt ákvæði í 24. gr.: „Óheimil er öðrum en starfsmönnum þjóðminjavörslunnar notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar„.
Ekkert slíkt ákvæði var í „Þjóðminjalögunum“ 1969 (nr. 52 19. maí 1969).
Málið var að enginn greinarmunur var gerður í lögunum hvort fólk væri að leita með málmleitartækjum að nýlegum minjum eða fornum.
Nú eru í gildi „Lög um menningarminjar“ (nr. 80 29. júní 2012) er tóku gildi 1. jan. 2013. Í þeim lögum er hvergi getið um bann við notkun málmleitartækja í leit að fornminjum í jörðu. Í 3. gr. laganna eru „fornminjar“ skilgreindar þannig í 3. gr.: „Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.
-Forngripir eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
-Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri„.
Á Vísindavef HÍ er spurningunni „Nota fornleifafræðingar á Íslandi málmleitartæki?“ svarað:
„Líklegt er að flestir fornleifafræðingar hafi haldið á málmleitartæki að minnsta kosti einu sinni, enda leitar fornleifafræðin mjög oft til annarra tækni- og vísindagreina þegar kemur að framþróun.
Fornleifafræði er fjölbreytt fag, enda eru margar hliðar á hinu liðna. Fornleifafræðingar rannsaka allt frá sameindasýnum undir smásjá að samhengi milli bæja á lands- og heimsálfuvísu, og breytingar sem eiga sér stað yfir margar aldir. Fornleifafræðingar skrifa um atburði sem ýmsir aðrir fræðimenn tjá sig um – þá helst sagnfræðingar. En hvað greinir fornleifafræðinga frá öðrum fræðimönnum? Í stuttu máli má segja að rannsóknarviður þeirra sé venjulega einhvers konar efnismenning. Fornleifafræðingar túlka liðna atburði með tilliti til mannvistarleifa. Auðvitað þurfa þessar leifar ekkert endilega að vera fornar – aðferðafræði fornleifafræðinga geta oft sagt margt um nýliðna atburði.
Það er mikilvægt að hafa hugtakið ‘aðferðafræði’ í huga þegar rætt er um fornleifafræði, enda safna fornleifafræðingar gögnum með mjög einkennandi aðferðum. Þá má helst nefna uppgröftinn sjálfan; þó eru til fjölmargar aðrar leiðir til að afla gagna um efnismenningu hins liðna.
Fornleifafræðingar grafa með ýmsum aðferðum, en þær eru allar ítarlegar og kalla á mikla teikni- og skráningarvinnu. Algengasta aðferðin (svokölluð single-context recording) krefst þess að öll jarðlög séu grafin í öfugri tímaröð, frá hinu yngsta til hins elsta.
Jarðlög eru aðskilin á þeirri forsendu að hægt sé að útskýra hluta efnis innan uppgraftarsvæðis sem afleiðingu einhvers konar atburðar. Slíkir atburðir geta varað í margar aldir eða nokkur augnablik; fornleifafræðingar reyna sjaldan að tjá sig um það. Mikilvægara er að geta raðað þessum atburðum í tímalinu – atburðarás frá nútímanum að órofnu jarðlagi sem sýnir engin ummerki um mannvist. Fornleifafræðingar reyna að skilja þessa atburðarás með því að fjarlægja hið yngsta fyrst, þar til engin mannvistarummerki eru sjáanleg lengur. Það er því alls ekki markmið fornleifauppgraftar að finna málmgripi sérstaklega – allur jarðvegur innan rannsóknarsvæðis er fjarlægður og skrásettur.
Í stuttu máli er takmarkað gagn af málmleitartæki við fornleifauppgröft, en tækið bíður upp á rannsóknaraðferðir sem geta hæglega aflað gagnlegra upplýsinga um liðna atburði þegar aðstæður leyfa, þá helst við yfirborðsmælingar eða kortlagningu á uppblásnum svæðum.
Málmleitartæki nota segulsvið til að finna málmhluti á stuttu færi, sjaldan lengra en 40 cm. Sum greina einnig á milli ólíkra málma. Venjulega eru slík tæki notuð til að finna málmhluti undir yfirborði. Hvernig gæti slíkt tæki gagnast við fornleifauppgröft? Ef fjarlægja þarf yngstu jarðlög fyrst, þá er lítið gagn af vitneskju um gripi neðar í jarðveginum. Ef gripurinn situr í jarðlagi sem er eldra en hið yngsta óuppgrafna lag, þá er ekki tímabært að grafa hann upp. Ef hann tilheyrir yngsta óuppgrafna jarðlaginu, þá mun hann finnast við uppgröft, enda vanda fornleifafræðingar sig mjög við uppgröftinn.
Einnig er vert að hafa í huga að vanalega er einfalt að sjá ummerki um málmhlut, þar sem tæring málms litar og breytir jarðveginum umhverfis málminn. Fyrir þær sakir er ekki algengt að sjá fornleifafræðinga nota málmleitartæki á uppgraftarsvæðum.
En hvað ef fornleifafræðingar sjá einfaldlega ekki málmgripinn við uppgröft? Þá endar hann væntanlega í fötu sem tæmd er í moldarhaug. Hér getur málmleitartækið komið að góðum notum, og hefur höfundur þessa svar séð slíkt tæki notað sem hálfgert öryggisnet til að ná málmhlutum sem fóru óvart á hauginn. Þó er slík notkun ekki algeng. Fornleifafræðingar nota frekar sigti til að forðast þetta, en sigtið gagnast að sjálfsögðu einnig til að finna mannvistarleifar sem ekki eru úr málmi, eins og viðar- og beingripi. Einnig bíður sigtið upp á mun ítarlegra öryggisnet en málmleitartækið, enda fer allur jarðvegurinn í gegnum sigtið.
Oft eru aðstæður óhentugar fyrir málmleitartæki. Málmleitartæki nema málmhluti á allt að 40 cm færi, ef stærð hlutarins leyfir. Einnig þarf að hafa í huga að málmur í bergi getur truflað tækið. Bergtegundir hafa iðulega eitthvað magn af járni, enda eru bergtegundir flokkaðar meðal annars af járnoxíðhlutfalli (FeO-hlutfall) þeirra. Blágrýti, algengasta bergtegundin á Íslandi, hefur hátt járnoxíðhlutfall.
Í ljósi þess mætti segja að tækið virki ekki vel nema mannvistarlög séu innan við 40 cm frá yfirborði og bergið dýpra. Þetta er ansi þröngur gluggi.
En málmleitartæki geta þó gagnast fornleifafræðingum við ákveðnar aðstæður. Gefum okkur að fornleifafræðingur vilji rannsaka bardaga þar sem skotvopn voru notuð. Líklegt er að skotárásir hermanna hafi skilið eftir mikið magn af skothylkjum. Hér gæti málmleitartæki komið sér vel til að kortleggja helstu átakasvæði bardagans. Connor & Scott telja að slíka notkun megi rekja til ársins 1958, þegar Ron Rickey kortlagði staðsetningu hermanna í bardögunum í Little Bighorn og Big Hole í Montana.
Á Íslandi var notkun málmleitartækja lengi vel bönnuð. Þau voru gerð lögleg með nýjum menningarminjalögum sem tóku gildi 1. janúar 2013 (þó ekki hljóðalaust). Nýlega var málmleitartæki notað við rannsókn á mögulegri höfn við Vatnsfjörð í Ísafjarðardjúpi, og ekki kæmi á óvart þó tækið skjóti oftar upp kollinum hér á landi.
Í stuttu máli er takmarkað gagn af málmleitartæki við fornleifauppgröft, en tækið bíður upp á rannsóknaraðferðir sem geta hæglega aflað gagnlegra upplýsinga um liðna atburði þegar aðstæður leyfa, þá helst við yfirborðsmælingar eða kortlagningu á uppblásnum svæðum. Þó slík tæki hafi verið bönnuð lengi á Íslandi eru þau nú lögleg.“
Í Morgunblaðinu 23. október 2014 er fjallað um notkun málmleitartækja undir fyrirsögninni „Amast við fjársjóðsleit„.
–Ekki gert ráð fyrir aðkomu áhugamanna að leit að fornminjum -Ekki lengur bannað að nota málmleitartæki en ekki má hreyfa við jarðvegi í leit að forngripum -Skylda að tilkynna um gripi.
„Ekki er gert ráð fyrir aðkomu áhugamanna við leit að fornminjum í lögum um menningarminjar. Þeir geta leitað á yfirborðinu, til dæmis með málmleitartækjum, en mega ekki róta í jarðvegi til að fá svar við því hvort forngripir eru undir. Forstöðumaður Minjaverndar ríkisins veltir því fyrir sér hvort ekki ætti að gera ráð fyrir samstarfi við áhugafólk við þá stefnumörkun sem nú er framundan.
Fréttir berast oft af því frá nágrannalöndunum að áhugamenn um fornminjar hafi rambað á merka forngripi með notkun málmleitartækja. Áhugamenn hafa til dæmis fundið merka fjársjóði frá víkingaöld, bæði í Danmörku og Bretlandi.
Nýjasta dæmið er Skotinn Derek McLennan sem fann falinn fjársjóð frá víkingaöld í Dumfriesskíri í síðasta mánuði. Telja sérfræðingar þetta merkasta fjársjóð sem fundist hefur á Skotlandi. McLennan og félagar hans voru að leita með málmleitartækjum. Hann datt líka í lukkupottinn í fyrra þegar hann fann stærsta sjóð silfurpeninga frá miðöldum sem fundist hefur í Skotlandi.
Erfið samviskuspurning
Leit að forngripum er áhugamál fjölda fólks í nágrannalöndunum, ekki síst í Bretlandi. Þar eru reglur um slíka leit rýmri en á Norðurlöndunum og svipar til reglna í Bandaríkjunum. Íslenskar reglur taka mið af norrænum rétti þar sem þeir eru tortryggðir sem leggja það á sig að leita að forngripum. Óttast fornleifafræðingar að fólk hirði sjálft gripina og valdi tjóni á fornleifum. Þannig var almenningi bannað að nota málmleitartæki við fornleifarannsóknir en búið er að taka það ákvæði út úr íslenskum lögum.
Það nýmæli er í lögum um menningarminjar sem samþykkt voru á árinu 2012 að einungis þarf formlegt leyfi Minjastofnunar til að stunda fornleifarannsóknir sem hafa jarðrask í för með sér. Tilkynna þarf aðrar rannsóknir, þótt ekki sé grafið upp. Þá er það spurningin hvað maðurinn með málmleitartækið gerir þegar hann fær svörun um að eitthvað sé undir. Hann má ekki grafa eftir fornleifum. Hann má sjálfsagt grafa ef hann telur að undir sé járnadrasl yngra en 100 ára. Þetta hlýtur að vera erfið samviskuspurning.
Hitt er svo annað mál að fornleifafræðingar nota lítið málmleitartæki við rannsóknir sínar hér á landi. Hefðbundnari aðferðir henta þeim betur. Þá má geta þess að járninnihald bergs er hátt hér á landi og getur truflað tækin.
Málmleitartæki eru notuð við ýmislegt fleira en að leita að jarðsprengjum og silfursjóðum. Þau eru til sölu í verslunum, bæði tæki sem henta atvinnumönnum í framkvæmdum og áhugamönnum. Þau kosta frá fáeinum tugum þúsunda en draga þá skammt. Tæki eins og Skotinn var með kosta hér um 130 þúsund krónur, samkvæmt upplýsingum frá versluninni Íhlutum. Málmleitartæki er einnig hægt að fá leigð í áhaldaleigum. Hentugt getur verið að grípa til þeirra ef skartgripur hverfur í sandinn í Nauthólsvík.
Ekki margir sjóðir hér
Ekki eru miklar líkur á að stórir silfursjóðir liggi hér í jörðu. Það er ef til vill heppilegt fyrir fornleifaverndina. Freistingarnar eru minni. Mjöll Snæsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, nefnir þrjá sjóði frá síðustu öld en þeir fundust í Gaulverjabæ, Ketu á Skaga og Miðhúsum á Héraði. Sá síðastnefndi fannst 1980.
Auk þess hafa fundist minni sjóðir og stakir silfurpeningar. Allir sjóðirnir fundust fyrir tilviljun, vegna einhverra framkvæmda. Gaulverjabæjarsjóðurinn hefur sérstöðu því hann er eini hreini peningasjóðurinn. Í honum eru um 350 peningar frá ýmsum löndum. Uppistaðan er enskir og þýskir peningar frá því um 1000 eða fyrr.
Mjöll segir það rökrétt að hér séu fáir sjóðir miðað við nágrannalöndin. Líklegt sé að fleiri sjóðir hafi verið grafnir þar sem fleira fólk bjó. Því má bæta við að faldir fjársjóðir hafa gjarnan verið tengdir hernaði. Menn hafi átt þá til að kaupa sig frá ófriði eða verið að fela fjármuni sína vegna hernaðar og síðan fallið sjálfir. Þótt oft hafi verið ófriður á milli höfðingja hér á landi var það þó talið friðsamt og ekki eins mikil ástæða til að fela sjóði og í nágrannalöndum þar sem barist var um yfirráð.
Silfur Egils eign ríkisins
Ef einhver dettur í lukkupottinn, til dæmis með því að finna silfur Egils Skallagrímssonar í Mosfellsdal, er sjóðurinn eign íslenska ríkisins og ber að tilkynna fundinn tafarlaust til Minjastofnunar og skila honum til Þjóðminjasafnsins. Raunar má ekki hagga kistunum, hvað sem kann að vera eftir af þeim, eða fjarlægja lausa hluti vegna þess að fornleifafræðingar vilja geta rannsakað ummerkin nákvæmlega. Áhugamaðurinn fær fleira en heiðurinn af fundi sjóðsins því hann á rétt á að fá greiðslu sem svarar til helmings af verðmæti hans og landeigandinn hinn helminginn.
Sjá meira um silfur Egils HÉR, HÉR og HÉR.
HÉR má sjá nýlega frétt um árangur leitar áhugamanns að fornminjum með málmleitartæki.
Í sjónvarpsþætti RÚV um silfur Egils fullyrti forstöðukona Minjastofnunar að notkun málmleitartækja, annarra en fornleifafræðinga, væri óheimil, sjá HÉR. – Það er einfaldlega tómt bull.
Ástæða er til að hvetja áhugasamt fólk til að nota málmleitartæki við leit að fornminjum í jörðu. Bent skal á að ef slíkar finnast, ber þrátt fyrir allt, að tilkynna það til Minjastofnunar. Áhugasamir á Reykjanesskaganum geta einnig haft samband á netfangið ferlir@ferlir.is.
Heimildir:
-Þjóðminjalög. 2001 nr. 107 31. maí.
-Lög um menningarminjar. Lög nr. 80 29. júní 2012.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65813
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1528433/