Tag Archive for: mannlíf og mannvirki

Bræðrapartur

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi“, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Guðmundur BjörgvinGuðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.
Í bók Guðmundar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.
Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjnúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt meðfram allri strandlengunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.

Bræðrapartur
Bræðrapartur
Syðsta grasbýlið í Vogum er Bræðrapartur (áður nefnt Krúnutóft) og er hann hluti núr Suðurkots- og Stóru-Vogalandi. Það var og er enn umdeilt hvort það var grasbýli eða með jarðarréttindi, þ.e. afréttar- og beitarréttindi utan heimagirðingar, en um langan tíma hefur það verið rekið sem bújörð og er svo gert enn í dag.
Í þeim tíma er Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli fékk skotæfingasvæði til afnota í Vogaheiði um 1960, var deilt um það hvort Bræðrapartur ætti að fá leigugjald í hlutfalli við aðra landeigendur í Vogum, og svo fór að þáverandi ábúandi fékk sinn hlut í landleigunni.
BræðraparturÁrið 1929 byggði Guðmundur Kotsson nýtt hús í Bræðraparti. Eitt var öðru fremur merkilegt við húsið því á því var innsiglingarmerki inn í Vogahöfn. Eftir að Vogavík fékk löggildingu sem höfn árið 1893 voru settir upp tveir staurar um 3 metrar á hæð og stóð annar við suðvesturhornið á Bræðraparti, um 10 metra frá húsinu, en hinn var niður við sjó sunnan við sjávarhúsið. Þessir staurar þurftu að bera saman svo rétt væri siglt inn í höfnina. Í myrkri var ljósker sett á staurana sem sýndu rétta leið. Nokkru eftir að nýja húsið var byggt var ljósker sett í loftglugga er sneri til sjávar og þannig gert að ekki þurfti staurana. Svo þegar húsinu var breytt árið 1947 og sett á það brotið þak, var kvistur settur á á vesturþekjuna og þar í gluggli með ljóskerinu. Þetta þótti nauðsynlegt fyrir skipaferðir, þar til hafnarsvæðið var tekið til endurskoðunar og mælt upp að nýju, Þá kom í ljós að gamla innsiglingaleiðin var talin ónothæf miðað við nýja leið inn í höfnina, er þáverandi vitamálastjóri Axel Sveinsson fann og mældi út. Eftir það voru sett upp ný innsiglingaljós 200 metrum suður af Bræðraparti. Eru það tveir ljósastaurar með sjálfvirku ljósnæmi á 100 metra millibili.

Stóru-Vogar

Í máldaga frá 1367 í Fornbréfasafninu 3. bindi bls. 221 segir: „Maríukirkja og hins heilaga Þorláks biskups í Kvígubogum“, ennfremur segir í bréfi frá 1533, 9. bindi bls. 660, „að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi slegið prest með könnu til blóðs í hálfkirkjunni í Vogum“.

Stóru-Vogar

Stóru-Vogar 2020.

Trúlega er hér átt við Stóru-Voga og bendir allt til þess að þar hafi verið kirkja fram undir siðaskiptin.
Stóru-Vogarústirnar bera vott um stóran hug og stórverk. Húsið var byggt árið 1871 af Jóni, bróður Magnúsar Waage, og byggingameistari var Sverrir Runólfsson steinsmiður, sá hinn sami er byggði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju í Austur-Húnavatnssýslu. Allar byggingar Sverris bera vott um vandvirkni vel hugsandi manns. Þess má geta hér að Sverrir gerði tillögu til borgarstjórnar Reykjavíkur árið 1870, um að byggja veitingahús í Tjarnarhólmanum og leggja brú frá Lækjargötu og út í hólmann, en meirihluti í borgarstjórn felldi þá hugmynd Sverris.
Stóru-VogarÞað Stóru-Vogahús, sem áður er getið, var ein hæð og íveruris, en árið 1912 lét Sigurjón J. Waage byggja nýtt hús á sama grunni og var hann kjallari nýja hússins. Hluti grunnsins stendur enn, þó stutt sé orðið í að þetta mikla verk hrynji í sjóinn. Nýja Stóra-Vogahúsið var með glæsilegustu húsum á Suðurnesjum. Smiður þess var Skúli Högnason úr Keflavík. Húsið var rifið árið 1965.
Stóru-Vogar áttu helming Vogalands á móti Minni-Vogum. Um aldamótin 1900 voru nær allar jarðir og tómthús í Suður-Vogum nýttar af Waageættinni eða niðjum Jóns Daníelssonar, föður Magnúsar Waage. Allir Suður-Vogabúendur greiddu landskuld til Stóru-Voga, þar með Stapabúð, Brekka og Hólmabúðir, nema þeir er voru orðnir sjálfseignabændur og höfðu keypt sig úr Stóru-Voga tofunni.
Þegar minnst er á Stóru-Vogaættina, er gjarnan nefndur sem forfaðir hennar Jón Daníelsson „hin ríki og- eða sterki“. Var hann f. 23. mars 1771, d. 16. nóv. 1855.
Í dag á Vatnsleysustrandarhreppur Stóru-Vogajörðina að undanskildum hluta heiðarlands, sem erfingjar Jóns Eyjólfssonar Waage á Seyðisfirði tóku undan við söluna á sínum tíma, og eru eigendur að.

Minni-Vogar
Minni-Vogar

Í Minnivogum bjuggu hjónin Klemens Egilsson, f. 31. okt. 1844, og kona hans Guðrún Þórðardóttir, f. 1846. Klemens var einn af stórbændum hreppsins.

Klemens lét byggja upp Minni-Voga árið 1922, smiður var Þorbjörn Klemensson úr Hafnarfirði. Húsið var byggt sem tvíbýli.

Minni-Vogar

Minni-Vogar. Verkið er eftir B. Hrein Guðmundsson en í eigu Sigríðar Jakobsdóttur.

Klemens Egilsson ýmist keypti eða lét smíða skip, sem m.a. fluttu vörur milli landa. Hann og Sigurjón J. Waage létu smíða dekkbát í Noregi og þegar hann var tilbúinn til afgreiðslu, þá sigldi framleiðandinn honum til Íslands. Þetta skip hét Sörli. Skipstjóri var Sigurjón J. Waage, vélstjóri var Sæmundur Klemensson í Minni-Vogum. Útgerðin gekk vel að jafnaði, en Sörli var brellinn. Hann slitnaði tvívegis frá bátalegunni, í fyrra skiptið náðist hann og var fluttur heim, eins og hver annar strokuhestur, en í seinna skiptið tók breskur togari hann og ætlaði að færa hann til Keflavíkur. Hafði áhöfn togarans bundið dráttartaugina um mastrið og talið það öruggt, en Sörli sökk í þessari ferð. Togarinn dró inn dráttartaugina og mastrið fylgdi með. Það komast til eigendanna og mun nú vera notað fyrir ljósastaur við Vogabryggju.

Austurkot
Austurkot
Í manntali árið 1703 er sagt að búið hafi verið á sitt hvorum helmingi jarðarinnar í Minni-Vogum, eða hálflendum sem þá var kallað. Mun þar átt við tvíbýli, en norðurhverfið allt var var Minni-Voar og því síðan skipt í hálflendur, þannig að Minni-Vogar héldu 2/3 af heildinni og Austurkot 1/3 og er svo enn í dag. Að auki er nokkur hluti landsins beggja eign, s.s. Norðurkot, Grænaborg og óunnið land að mörkum Brunnastaðahverfis.

Norðurkot
Norðurkot
Norðurkot var lítið grasbýli í landi Minni-Voga og Austurkots. Ábúandi þar var Nikulás Jónsson, f. um 1830. Hann var af Stóru-Vogaættinni. Kona hans var Guðrún Gísladóttir frá Kröggólfsstöðum í Ölfushreppi, Árnessýslu.
Nikulás var dugnaðarmaður. Hann átti og gerði út marga báta þegar best lét og gerði einnig út með öðrum, s.s. Klemensi í Minni-Vogum. Hann átti lengi lítinn bát sem hann kallaði Þurfaling, enda var sagt að Nikulás berði lóminn manna best, þó talinn væri ríkur. Hann lét breyta opnu skipi sínu í dekkbát og var sá bátur kallaður Lásabátur.
Norðurkot
Nikurlás lét byggja röð af húsum, þannig að fimm stafnar stóðu fram að hlaði. Þótt ekki sé mér kunnugt um hvenær það var gert, þá tel ég að hann hafi látið gera það eftir að hann efnaðist og þó ekki fyrr en eftir að hann eignaðist sitt fyrsta barn árið 1856. Húsin gætu þá hafa verið reist um 1860. Í rústum þeim sem eftir standa má vel sjá að vandað hefur verið til verksins, því nokkrir veggir standa enn sem nýhlaðnir nema hvað gróður hefur fest rætur á þeim. Hluti húsanna eru þó hruninn fram á sjávarbakkanum. Var því byggt nýtt hús úr timbri árið 1882, (úr James-Town strandinu). Var Nikulás þá um fimmtugt.

Grænaborg
Grænaborg
Grænaborg var byggð árið 1881 í landi Minni-Voga að 2/3 hluta og Austurkots að 1/3 hluta. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti og bróðir Klemensar í Minni-Vogum. Þarna hafði verið bær er Hólkot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um þann bæ. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólkot, því sagnir eru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar.
Ari Egilsson var lærður skipstjóri og stjórnaði bæði eigin skútum og bróður síns og föður frá Minni-Vogum. En stutt var dvölin í þessu vandaða nýja húsi, því það brann voru 1883, þá tveggja ára gamalt. Þá voru þar vermenn auk heimilisfólks og komust allir af, nema ein vinnukona er brann inni.
Grænaborg
Grænuborgartóftin stóð opin í 35 ár, eða til ársins 1816, að Benjamín Halldórsson og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir frá Austurkoti, síðar í Stóra-Knarrarnesi 2, fengu leyfi Klemensar í Minni-Vogum til að byggja upp Grænuborg.
Grænaborg brann síðan þriðja sinni 2002.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson – útgefið af höfundi 1987.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.

Flekkuvík

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi„, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Guðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.

Guðmundur Björgvin JónssonÍ bók Guðmundar, „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi„, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.

Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt með fram allri strandlengjunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.

Áður hefur verið fjallað um bæina á Ströndinni allt frá Vogastapa að og með Kálfatjarnarhverfi. Hér verður fjallað um „Innheiðarbæina“ austan Kálfatjarnarhverfis.

Flekkuvík (Vesturbær)

Flekkuvík

Flekkuvík.

Innheiðarbæirnir byrja á Flekkuvík að sunnan.

Fyrir aldamótin, og reyndar eftir það, var tvíbýli í Flekkuvík. Vesturbærinn brann til grunna árið 1935. Hjónin Úlfar Bergsson og Aðalheiður Guðmundsdóttir keyptu síðar Minni-Vatnsleysu af Auðunni Sæmundssyni, sem flutti til reykjavíkur árið 1938.

Flekkuvík (Austurbær – rústir)

Í Austurbæ bjuggu um 1880 hjónin Stefán Stefánsson, f. 1874, og kona hans Katrín Guðmundsdóttir. Þau ólu upp systurson Katrínar, Guðmund Jóhannesson, síðar bónda í Flekkuvík.
FlekkuvíkGuðmundur var eftirsóttur til allrar vinnu vegna dugnaðar og hagsýni og var hann oft í ábyrgðarstörfum fyrir sveit sína. Hann vann mikið út frá heimili sínu þó erfitt væri að sækja vinnu að heiman. Flekkuvík var fjærst allra byggða í hreppnum hvað samgöngur snerti, hvort sem var gamli gönguvegurinn eða fyrsti akvegurinn. Átti Guðmundur því mörg spor að heiman og heim, en húsfreyjan var bundin heimilinu með 12 börn, en gaf þó ekki bónda sínum eftir í dugnaði og nægjusemi. Þau nytjuðu túnið og höfðu mjólk handa heimilinu og ekkert fram yfir það, þó aðrir bændur væru farnir að selja mjólk til Reykjavíkur.

Minni-VatnsleysaGuðmundur bóndi byggði upp bæ sinn árið 1926. Hann lést árið 1959, þá afleggst Austurbær.

Flekkuvíkurland og fjaran þar er fyrir það merkilegt, að þangað sækja fuglaskoðendur mikið.

Rifshali (rústir)

Í Rifshala bjuggu fyrir og eftir aldamót Halldór Auðunsson, f. 1855, og kona hans, Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 1857. Rifshali mun hafa greitt landskuld til Eystribæjar Flekkuvíkur og fór í eyði um 1922-23.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa.

Minni-Vatnsleysa var með stærstu býlum hreppsins hvað varðaði húsakost og heimilisfólk. Sjósókn og sjávarútvegur var þar með því mesta í hreppnum, enda oft vitnað í fjölda vermanna þar á vetrarvertíð, auk heimilisfólks. Um aldamót bjuggu þar Sæmundur Jónsson og kona hans Guðrún Lísbet Ólafsdóttir.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysa – flugmynd.

Sæmundur gerði út mörg skip þegar best lét, m.a. átti hann hlut í m/b Hermanni, en hann fórst 26. mars 1916. Var Sæmundur þá orðinn hálfáttræður og var farinn að láta undan síga vegna aldurs og lést hann árið 1925.

Auðunn Sæmundsson tók við búi foreldra sinna, gerist skipstjóri og stundaði sjómennskuna meðan kraftar leyfðu. Kona hans var Vilhelmína Þorsteinsdóttir og eignuðust þau 12 börn. Þaðan var seld mjólk til Reykjavíkur og voru börnin dugleg að koma mjólkurbrúsunum í veg fyrir mjólkurbílinn, þó löng væri leiðin, um óveg og í myrkri að vetri til, og svo þurfi að koma skepnufóðri og öðrum nauðþurftum heim að kvöldi.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysubrunnur.

Dugnaði þeirra var líka viðbrugðið seinna á æviskeiði þeirra. Enn í dag er minnst á Auðunssystkinin frá Minni-vatnsleysu sökum atgervis.

Margir af þessum bræðrum urðu landskunnir togaraskipstjórar og einnig mágar þeirra.

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið 1938 og þá keypti Úlfar Bergsson hús og jörð. Reif hann síðan gamla húsið og byggði, að mestu úr efnivið þess gamla, nýtt íbúðarhús árið 1941 og lét forskala það, eins og það er kallað og þá var í tísku.

Minni-Vatnsleysa

Litli sjómaðurinn við Minni-Vatnsleysu.

Um 1944 varð eigandi að Minni-Vatnsleysu Arngrímur Vídalín Guðmundsson, en seldi Halldóri Ágústssyni frá Halakoti árið 1948. Hann og kona hans, Eyþóra Þórðardóttir frá Stóru-Vatnsleysu, seldu Þorvaldi Guðmundssyni 1953, eiganda að stærsta svínabúi landsins. Þorvaldur notaði íbúðarhúsið sem starfsmannaíbúð, uns hann reif það árið 1978 og byggði ný hús fyrir menn og skepnur.

Nálægt grunni gamla hússins á Minni-Vatnsleysu lét Þorvaldur setja styttu, sem hann hafði látið gera. Heitir hún Litli sjómaðurinn, til minningar um þá er sóttu sjóinn. Styttuna gerði listamaðurinn Ragnar Kjartansson.
Styttan stendur vestan við Ráðsmannsbústaðinn, skammt ofan við sjávarkambinn.

Miðengi

MiðengiMiðengi var grasbýli í landi Minni-Vatnsleysu, niður við sjó við landamörk Minni- og Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu Sigurður Lárus Jónsson, f. 1877, og kona hans Ingibjörg Jónasdóttir, f. 1886.

Sigurður þótti afburða sjómaður og mannkostamaður. Hann fórst við Garðskaga 26. mars 1916 þegar Hermann m/b sökk. Eftir þetta slys flutti Ingibjörg til Hafnarfjarðar og lét flytja húsið þangað og er það nú Krosseyrarvegur 2, en hefur tekið breytingum.

Stóra-Vatnsleysa (Vesturbær)

Stóra-VatnsleysaÞar bjuggu Sigurður Jónsson, silfursmiður, f. 1814, og kona hans Oddný. Samtími og á eftir Sigurði bjuggu í Vesturbænum Sigurjón Jónsson, f. 1873, og sambýliskona hans, Guðrún Filippusdóttir. Síðustu ábúendurnir í Vesturbænum voru Pétur Jóakimsson, f. 1878, og kona hans, Agnes Felixdóttir. Þau fluttu til Hafnarfjarðar en bærinn lagðist undir Austurbæ og var ekki rifinn fyrr en um 1940.

Stóra-Vatnsleysa (Austurbær)

Stóra-VatnsleysaÍ Austurbænum bjuggu Stefán Pálsson frá Hvassahrauni, f. 1838, og kona hans, Guðrún Gísladóttir, f. 1823.

Stefán rak mikla útgerð, var vel efnaður og hafði fjölda vinnuhjúa. Hann byggði upp Austurbæ um 1884-85 úr „James Town“ strandinu í Höfnum. Var húsið hæð og ris með 10 herbergjum.

Bjarni Stefánsson, sem tók við búinu, var mikill búhöldur. Kona hans var Elín, dóttir Sæmundar bónda á Minni-Vatnsleysu. Bjarni hélt áfram útgerð og var ekki eftirbátur föður síns með umfangsmikinn búskap sem að sjálfsögðu þurfti mikinn mannafla, enda húsakostur stór og góður.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa 1935.

Bjarni seldi 2/3 hluta Stóru-Vatnsleysu, sem þá var fyrir löngu orðið einbýli. Var kaupandinn Þórður Jónasson, bóndi, og kona hans, Þórunn Einarsdóttir. Þau komu frá Keflavík.

Á Stóru-Vatnsleysu fékk Þórður tækifæri við sitt hæfi, fór fljótt að koma upp bústofni, jafnframt sjósókn og var um tíma með stærsta einkarekstur í hreppnum. Á þeim 27 árum er hann bjó á Stóru-Vatnsleysu eignaðist hann 7 vélskip frá 2 tonnum til 35 tonna. Árið 1952 byggði hann núverandi íbúðarhús og í framhaldi af því 51 kúa fjós.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir – horft af Trölladyngju.

Þórði höfðu aukist grasnytjar, eftir að hann sjálfur lét gera akfæran veg í gegnum hraunið um 10 km langan, frá Kúagerði og til fjalla að Höskuldarvöllum. Þegar Þórður var búinn að koma þessu í kring og nýlokið við fjósbygginguna, veiktist hann og lést árið 1959, 64 ára gamall. Sá því aldrei stærsta draum sinn rætast.

Bjarni Stefánsson var samtímis Þórði með sinn 1/3 af jarðarbúskap, þar til hann féll frá 1954.

HrafnagjáEftir lát Þórðar Jónassonar tók við búinu sonur hans, Sæmundur, og hefur hann rekið það síðan árið 1961.

Með nokkrum rétti má segja að á Stóru-Vatnsleysu hafi verið þríbýli um aldamótin, því norður og niður af Vesturbænum var lítið hús sem kallað var Skálinn og við sóknarmannatal árið 1900 var fólkið úr þessum þrem húsum allt skrifað á Stóru-Vatnsleysu án sundurliðunar.

Á Stóru-Vatnsleysu dvaldi Magnús nokkur Eyjólfsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 1827. Magnús var kallaður „gjörtlari“, en það er fornt nafn á gull- og silfursmiðum. Magnús var ölkær maður, þó aldrei yrði það neinum til meins. Svo hagar til á Stóru-Vatnsleysu, að í gegnum túnið liggur Hrafnagjá og sagt er að hún liggi í sjó fram út í Vatnsleysuvík.

Magnúsarsæti

Letur við Magnúsarsæti.

Er gjá þessi víða hættuleg í túninu, með stöllum og syllum og heitir ein syllan „Magnúsarsæti“ eftir Magnúsi „gjörtlara“. Er sagt að margar ferðir hafi Magnús farið á syllu þessa og sofið þar úr sér vímuna. Í bergið fyrir ofan syllu þessa eru höggnir stafir, ME. 1888, og þar fyrir neðan S.J Stafirnir gætu verið upphafsstafir þess er meitlaði þetta í bergið og að ME. eigi við Magnús. S.J. gæti átt við tvo menn frá Stóru-Vatnsleysu. Annar var Sigurjón Jónsson, síðar bóndi í Garðhúsum í Vatnsleysutúninu, en árið 1888 er Sigurjón 14 ára gamall og vil ég síður eigna honum þetta verk. Hinn var Sigurður Jónsson, bóndi og silfursmiður, f. 1814, og hefur hann þá verið 74 ára árið 1888 og því trúlegra að hann hafi gert þessa stafi, þó orðinn þetta gamall, en stafirnir eru gerðir af hagleiksmanni með góðum verkfærum.

Stóra-Vatnsleysa (Skálinn)

Stóra-VatnsleysaNorðan og neðan við Stóru-Vatnsleysu var lítið hús úr timbri sem var kallað Skálinn. Þar bjuggu hjónin Guðjón Jónsson, bátasmiður, f. 1857, og Guðrún Torfadóttir, f. 1861. Guðjón byggði Skálann sjálfur, en árið 1901 flutti fjölskyldan til keflavíkur. Guðjón reif húsið og flutti það til keflavíkur og byggði úr því íbúðarhúsið Framnes í keflavík og þar bjó fjölskyldan til dauðadags. Framnes var rifið árið 1986.

Vatnsleysa I

Vatnsleysu byggði Einar Þórðarson frá Stóru-Vatnsleysu árið 1966 í landi Stóru-Vatnsleysu. Einar stundaði sjó, einkabílarekstur og kyndiltækjaviðgerðir hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, auk annarskonar vinnu.

Vatnsleysa II

NýibærHúsið bar byggt í landi Stóru-Vatnsleysu, austan hennar við heimaksturinn og vestan Vatnsleysu. Húsið lét Sigrún Þórðardóttir kennari frá Stóru-Vatnsleysu byggja árið 1986.

Móabær (rústir)

Móabær var í landi Stóru-Vatnsleysu, við girðingu milli Vatnsleysanna og austan við götu sem þar er á milli. Var það lítið grasbýli. Þar bjuggu hjónin Jón Jónsson, f. 1838, og Ragnheiður Halldórsdóttir, f. 1838. Jón og Ragnheiður voru í Móabæ fram yfir 1900 og síðustu búendur þar.

Nýibær (rústir)

NaustakotNýibær var lítið grasbýli niður af Móabæ, við sjávarkambinn, í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu hjónin Jónas Guðmundsson, f. 1848, og Ólöf Helgadóttir, f. 1886. Síðar flutti það fólk til Hafnarfjarðar með það sem nýtilegt var úr Nýjabæ og byggði upp þar sem nú er Vörðustígur 3 í Hafnarfirði.

Naustakot (tóftir)

Naustakot var austur af Nýjabæ, niður við sjó, lítið grasbýli í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar bjuggu hjónin Páll Jóhannesson, f. 1849, og Guðlaug Jónsdóttir, f. 1830. Bjuggu þau þarna til dauðadags.

Páll var oft kallaður Stóri-Palli og bærinn Pálsbær eða Pallakot. Fyrir neðan bæinn var einnig Pallavör (lending) Páll var mikill sjómaður og öruggur við allt er laut að sjó. Páll mun hafa verið síðastur allra kotbænda á Stóru-Vatnsleysulandinu og var í Naustakoti lítið fram yfir 1930.

Garðhús

GarðhúsGarðhús var austur af Naustakoti niður við sjó, tómthús í landi Stóru-Vatnsleysu. Þar byggðu og þangað fluttu Sigurjón Jónsson og sambýliskona hans, Guðrún Filippusdóttir. Komu þau frá Stóru-Vatnsleysu, Vesturbæ. Þau byggðu Garðhús rétt eftir aldamótin og voru þar í nær 20 ár, en fluttu síðan til Hafnarfjarðar, rifu bæinn og byggðu hann upp þar sem nú er Krosseyrarvegur 11. Enginn var eftir þeirra dag í Garðhúsum.

Hvassahraun

Hvassahraun var lengi tvíbýli 1 og 2, auk hjáleigukota. Hvassahraun 1 var löngum talið höfðingjaheimili.
HvassahraunÞar höfðu búið 5 ættliðir fram til ársins 1914 og var síðasta húsfrú Þórunn Einarsdóttir. hennar maður var Guðmundur Stefánsson, f. 1860. Um aldamótin voru 12 í heimili í Hvassahrauni 1.

Árið 1914 komu ung hjó að Hvassahrauni 1, Sigurður Sæmundsson og Kristín Þórðardóttir. Sigurður var stórbóndi í Hvassahrauni, minnst af sjó, en mest af sauðfjárrækt. Þegar best lét var hann talinn fjársterkasti bóndi sunnan Hafnarfjarðar, enda jörðin kostajörð og hraunið gjöfult og snjólétt, og gekk fé þar úti að jafnaði.

Sigurður og Kristín fluttu frá Hvassahrauni til Hafnarfjarðar árið 1942 og bjuggu þar til dauðadags.
HvassahraunAf Sigurði keypti Þóroddur Jónsson, heildsali, Hvassahraun árið 1942 og seldi síðan aftur eftir 13 ár, eða árið 1955, Þorkeli Helgasyni, sem svo seldi Fjáreigandafelagi Reykjavíkur, en tók undan óunnið land og hefur látið það undir sumarbústaði. Árið 1962 var jörðin tekin af ábúðarskrá.

Hvassahraun 2 (horfið)

Í Hvassahraun 2, sem líka var grasbýli, bjuggu Sveinn Steindórsson, f. 1860, og Þórunn Guðmundsdóttir, f. 1864. Fleiri bæir voru þarna, td.d. Hvassahraunskot, en þaðan var Hannes Hannesson. Þarna var og bær er hét Sönghóll.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987, bls. 343-366.

Vatnsleysubæir

Innheiðabæirnir.