Færslur

Bræðrapartur

Guðmundur Björgvin Jónsson skrifaði bókina “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi, sem hann gaf út árið 1987. Bókin er merkileg heimild um framangreint í hreppnum.

Formáli
Guðmundur BjörgvinGuðmundur Björgvin er fæddur að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd 1. október 1913, en þar bjuggu þá foreldrar hans, Jón Einarsson útvegsbóndi, d. 1929, og Margrét Pétursdóttir, d. 1918. Hann var því ungur að árum er hann missti móður sína, aðeins 5 ára, og föður sinn á 7. ári. Hann ólst upp hjá móðursystur sinni Guðríði Pétursdóttur að Brekku undir Vogastapa og manni hennar Magnúsi Eyjólfssyni.
Í bók Guðmundar, “Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi”, sem hann gaf út árið 1987, koma m.a. fram fróðlegar upplýsingar um fólk og aðbúnað þess á Vatnsleysuströndinni fyrrum.

Í Landnámu er sagt frá Steinunni hinni gömlu, er gaf Eyvindi fóstra sínum land milli Hvassahrauns og Kvígu-Vogabjargs og er það land nú nefnt Vatnsleysustrandarhreppur.
Um nafnið Vatnsleysuströnd hefur verið nokkur meiningarmunur. Oftast er nafnið tengt við vatnsleysi, sbr. að varla sjáist rennandi vatn. Önnur skýring er til, sú að vatn renni laust og óbundið neðanjarðar og er hún trúlegri. Vatnið er í miklum mæli flæðandi undir þunnum hraunhjnúp, eftir opnum æðum og sprungum (gjám) frá hálendinu þar til það fellur í sjó fram og er vel greinanlegt meðfram allri strandlengunni í Vatnsleysustrandarhreppi, að vísu einungis á lágum sjó, fjöruvötnum.

Bræðrapartur
Bræðrapartur
Syðstra grasbýlið í Vogum er Bræðrapartur (áður nefnt Krúnutóft) og er hann hluti núr Suðurkots- og Stóru-Vogalandi. Það var og er enn umdeilt hvort það var grasbýli eða með jarðarréttindi, þ.e. afréttar- og beitarréttindi utan heimagirðingar, en um langan tíma hefur það verið rekið sem bújörð og er svo gert enn í dag.
Í þeim tíma er Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli fékk skotæfingasvæði til afnota í Vogaheiði um 1960, var deilt um það hvort Bræðrapartur ætti að fá leigugjald í hlutfalli við aðra landeigendur í Vogum, og svo fór að þáverandi ábúandi fékk sinn hlut í landleigunni.
BræðraparturÁrið 1929 byggði Guðmundur Kotsson nýtt hús í Bræðraparti. Eitt var öðru fremur merkilegt við húsið því á því var innsiglingarmerki inn í Vogahöfn. Eftir að Vogavík fékk löggildingu sem höfn árið 1893 voru settir upp tveir staurar um 3 metrar á hæð og stóð annar við suðvesturhornið á Bræðraparti, um 10 metra frá húsinu, en hinn var niður við sjó sunnan við sjávarhúsið. Þessir staurar þurftu að bera saman svo rétt væri siglt inn í höfnina. Í myrkri var ljósker sett á staurana sem sýndu rétta leið. Nokkru eftir að nýja húsið var byggt var ljósker sett í loftglugga er sneri til sjávar og þannig gert að ekki þurfti staurana. Svo þegar húsinu var breytt árið 1947 og sett á það brotið þak, var kvistur settur á á vesturþekjuna og þar í gluggli með ljóskerinu. Þetta þótti nauðsynlegt fyrir skipaferðir, þar til hafnarsvæðið var tekið til endurskoðunar og mælt upp að nýju, Þá kom í ljós að gamla innsiglingaleiðin var talin ónothæf miðað við nýja leið inn í höfnina, er þáverandi vitamálastjóri Axel Sveinsson fann og mældi út. Eftir það voru sett upp ný innsiglingaljós 200 metrum suður af Bræðraparti. Eru það tveir ljósastaurar með sjálfvirku ljósnæmi á 100 metra millibili.

Stóru-Vogar

Í máldaga frá 1367 í Fornbréfasafninu 3. bindi bls. 221 segir: “Maríukirkja og hins heilaga Þorláks biskups í Kvígubogum”, ennfremur segir í bréfi frá 1533, 9. bindi bls. 660, “að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi slegið prest með könnu til blóðs í hálfkirkjunni í Vogum”.
Trúlega er hér átt við Stóru-Voga og bendir allt til þess að þar hafi verið kirkja fram undir siðaskiptin.
Stóru-Vogarústirnar bera vott um stóran hug og stórverk. Húsið var byggt árið 1871 af Jóni, bróður Magnúsar Waage, og byggingameistari var Sverrir Runólfsson steinsmiður, sá hinn sami er byggði Skólavörðuna í Reykjavík og Þingeyrarkirkju í Austur-Húnavatnssýslu. Allar byggingar Sverris bera vott um vandvirkni vel hugsandi manns. Þess má geta hér að Sverrir gerði tillögu til borgarstjórnar Reykjavíkur árið 1870, um að byggja veitingahús í Tjarnarhólmanum og leggja brú frá Lækjargötu og út í hólmann, en meirihluti í borgarstjórn felldi þá hugmynd Sverris.
Stóru-VogarÞað Stóru-Vogahús, sem áður er getið, var ein hæð og íveruris, en árið 1912 lét Sigurjón J. Waage byggja nýtt hús á sama grunni og var hann kjallari nýja hússins. Hluti grunnsins stendur enn, þó stutt sé orðið í að þetta mikla verk hrynji í sjóinn. Nýja Stóra-Vogahúsið var með glæsilegustu húsum á Suðurnesjum. Smiður þess var Skúli Högnason úr Keflavík. Húsið var rifið árið 1965.
Stóru-Vogar áttu helming Vogalands á móti Minni-Vogum. Um aldamótin 1900 voru nær allar jarðir og tómthús í Suður-Vogum nýttar af Waageættinni eða niðjum Jóns Daníelssonar, föður Magnúsar Waage. Allir Suður-Vogabúendur greiddu landskuld til Stóru-Voga, þar með Stapabúð, Brekka og Hólmabúðir, nema þeir er voru orðnir sjálfseignabændur og höfðu keypt sig úr Stóru-Voga tofunni.
Þegar minnst er á Stóru-Vogaættina, er gjarnan nefndur sem forfaðir hennar Jón Daníelsson “hin ríki og- eða sterki”. Var hann f. 23. mars 1771, d. 16. nóv. 1855.
Í dag á Vatnsleysustrandarhreppur Stóru-Vogajörðina að undanskildum hluta heiðarlands, sem erfingjar Jóns Eyjólfssonar Waage á Seyðisfirði tóku undan við söluna á sínum tíma, og eru eigendur að.

Minni-Vogar
Minni-Vogar

Í Minnivogum bjuggu hjónin Klemens Egilsson, f. 31. okt. 1844, og kona hans Guðrún Þórðardóttir, f. 1846. Klemens var einn af stórbændum hreppsins.
Klemens lét byggja upp Minni-Voga árið 1922, smiður var Þorbjörn Klemensson úr Hafnarfirði. Húsið var byggt sem tvíbýli.
Klemens Egilsson ýmist keypti eða lét smíða skip, sem m.a. fluttu vörur milli landa. Hann og Sigurjón J. Waage létu smíða dekkbát í Noregi og þegar hann var tilbúinn til afgreiðslu, þá sigldi framleiðandinn honum til Íslands. Þetta skip hét Sörli. Skipstjóri var Sigurjón J. Waage, vélstjóri var Sæmundur Klemensson í Minni-Vogum. Útgerðin gekk vel að jafnaði, en Sörli var brellinn. Hann slitnaði tvívegis frá bátalegunni, í fyrra skiptið náðist hann og var fluttur heim, eins og hver annar strokuhestur, en í seinna skiptið tók breskur togari hann og ætlaði að færa hann til Keflavíkur. Hafði áhöfn togarans bundið dráttartaugina um mastrið og talið það öruggt, en Sörli sökk í þessari ferð. Togarinn dró inn dráttartaugina og mastrið fylgdi með. Það komast til eigendanna og mun nú vera notað fyrir ljósastaur við Vogabryggju.

Austurkot
Austurkot
Í manntali árið 1703 er sagt að búið hafi verið á sitt hvorum helmingi jarðarinnar í Minni-Vogum, eða hálflendum sem þá var kallað. Mun þar átt við tvíbýli, en norðurhverfið allt var var Minni-Voar og því síðan skipt í hálflendur, þannig að Minni-Vogar héldu 2/3 af heildinni og Austurkot 1/3 og er svo enn í dag. Að auki er nokkur hluti landsins beggja eign, s.s. Norðurkot, Grænaborg og óunnið land að mörkum Brunnastaðahverfis.

Norðurkot
Norðurkot
Norðurkot var lítið grasbýli í landi Minni-Voga og Austurkots. Ábúandi þar var Nikulás Jónsson, f. um 1830. Hann var af Stóru-Vogaættinni. Kona hans var Guðrún Gísladóttir frá Kröggólfsstöðum í Ölfushreppi, Árnessýslu.
Nikulás var dugnaðarmaður. Hann átti og gerði út marga báta þegar best lét og gerði einnig út með öðrum, s.s. Klemensi í Minni-Vogum. Hann átti lengi lítinn bát sem hann kallaði Þurfaling, enda var sagt að Nikulás berði lóminn manna best, þó talinn væri ríkur. Hann lét breyta opnu skipi sínu í dekkbát og var sá bátur kallaður Lásabátur.
Norðurkot
Nikurlás lét byggja röð af húsum, þannig að fimm stafnar stóðu fram að hlaði. Þótt ekki sé mér kunnugt um hvenær það var gert, þá tel ég að hann hafi látið gera það eftir að hann efnaðist og þó ekki fyrr en eftir að hann eignaðist sitt fyrsta barn árið 1856. Húsin gætu þá hafa verið reist um 1860. Í rústum þeim sem eftir standa má vel sjá að vandað hefur verið til verksins, því nokkrir veggir standa enn sem nýhlaðnir nema hvað gróður hefur fest rætur á þeim. Hluti húsanna eru þó hruninn fram á sjávarbakkanum. Var því byggt nýtt hús úr timbri árið 1882, (úr James-Town strandinu). Var Nikulás þá um fimmtugt.

Grænaborg
Grænaborg
Grænaborg var byggð árið 1881 í landi Minni-Voga að 2/3 hluta og Austurkots að 1/3 hluta. Húsið byggði Ari Egilsson frá Austurkoti og bróðir Klemensar í Minni-Vogum. Þarna hafði verið bær er Hólkot hét, en hann brann, og eru litlar sagnir til um þann bæ. Grænaborg hefur varla verið byggð á sama stað og Hólkot, því sagnir eru til um að á þessum stað ætti hús að brenna þrisvar.
Ari Egilsson var lærður skipstjóri og stjórnaði bæði eigin skútum og bróður síns og föður frá Minni-Vogum. En stutt var dvölin í þessu vandaða nýja húsi, því það brann voru 1883, þá tveggja ára gamalt. Þá voru þar vermenn auk heimilisfólks og komust allir af, nema ein vinnukona er brann inni.
Grænaborg
Grænuborgartóftin stóð opin í 35 ár, eða til ársins 1816, að Benjamín Halldórsson og kona hans Þuríður Hallgrímsdóttir frá Austurkoti, síðar í Stóra-Knarrarnesi 2, fengu leyfi Klemensar í Minni-Vogum til að byggja upp Grænuborg.
Grænaborg brann síðan þriðja sinni 2002.

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson – útgefið af höfundi 1987.

Grænaborg

Grænaborg brann þriðja sinni árið 2002.