Tag Archive for: Másbúarvarða

Másbúðir
Magnús Þórarinsson skrifar um Másbúðarhólma í bókina „Frá Suðurnesjum„, sem gefin var út árið 1960. Þar segir hann m.a.:
„Þar er Másbúðarvarða, gild og gömul mjög, á háum kletttanga, sem er norðvestur úr Fitinni… innan ekki mjög langs tíma mun Másbúðarvarða standa á klettinum úti á sjó á flóði. Sunnan við vörðuna er breitt sandvik, en sunnan við vikið hefir staðið fjárrétt Nesjamanna, stór og vel hlaðin; dregur vikið nafn af réttinni og kallast Réttarvik….

Másbúð

Brúin út í Másbúðarhólma.

Másbúðir, sýnist mér, hafa verið fornmerkur staður og stórbýli á sinni blómatíð. Þar var oftast fjölmennt, einkum á vertíðum. Þar var konungsútgerð, við Másbúðir er sundið kennt og sundvarðan stóra og myndarlega, sem enn stendur, umhirðulaus um langa tíð….
Másbúðir hafa verið höfuðbólið á þessum slóðum á fyrri tíð. Másbúðarhólmi, sem nú er stór eyðiklettur úti í sjó, 80-100 faðma frá sjávarkampi fyrir ofan, var áður áfastur við land og virðist hafa verið víðátta graslendis, sem nú er þangi vaxin fjara….

Másbúðarhólmi

Tóft í Másbúðarhólma.

Á 17. öld hefir Másbúðarhólmi hlutast frá fastalandinu, en þangað til var samgróið tún á öllu því fjörusvæði, sem nú er milli lands og Hólma…
Síðasti búandi á Másbúðum var Jón Jónsson, frá 1884 til 1895….
Í Hólmanum má finna Kóngsvör. Sáust þar kjölför í klöppunum fram undir síðustu aldamót (1900), en munu varla greinast nú. Eitt ártal er höggvið í klappir þar – 16 hundruð og eitthvað -. Um 1890 var rótað upp gömlum öskuhaug, sem var þar í námunda við bæinn og fannst þá heilmikið af brotnum krítarpípum…
Sjávarhúsin stóðu flest vestan við bæinn, þar var Hólminn hæstur. Þar var líka hróf skipanna. Þar var traustur tvíhlaðinn grjótgarður, vinkillagaður, sem var skipunum til öryggis fyrir veðrum og sjógangi.
Útgerð lauk í Másbúðarhólma fyrir 50 árum. Hólminn er að fjarlægjast fastalandið, hægt en öruggt… En Másbúðarhólmi er harður haus og verður til langt fram í aldir og loks grynning, sem boði fellur á, og það verður stór boði, hvert nafn sem hann kann að fá.
Nú (2000) sjást einungis leifarnar af Másbúðarvörðu ofan við Másbúðarhólma.

Másbúðir

Áletrun í Másbúðarhólma.