Haldið var í Saurbæjarsel í Blikdal (Bleikdal) á Kjalarnesi.
Með í för var Þorvaldur Bragason og fjölskylda (eiginkona og sonur). Tilgangurinn var að skoða selið, sem svo eftirminnilega kom við sögu í aðdrætti forföður Þorvaldar, Matthíasar Jockumssonar, skálds, og Guðrúnar Runólfsdóttur, dóttir bóndans í Saurbæ, á síðari hluta 19. aldar. Í framhaldi af heimsókn Matthíasar upp í selstöðuna í miðjum fjallasalnum norðanverðum eignaðist Guðrún dóttur. Guðrún varð síðar eiginkona Matthíasar. Eða eins og Guðbergur Bergsson, skáld, gæti síðar hafa sagt: „Þegar aðdrættir eru góðir verða þeir hvergi betri en í Blikdal“.
Dagurinn var 18. nóvember 2011, en dánardagur Matthíasar var einmitt þann 18. nóvember árið 1920 (fyrir 91 ári). Hann fæddist 11. nóvember 1835 og var því 85 ára þegar hann lést (og viku betur).
Matthías orti m.a. ljóð (daladrósin) til selsmatsseljunnar í Blikdal:
„Hátt í dalnum,
sólarsalnum
situr stillt og þýð,
snotur, hýr og hnellin,
há og grönn og smellin
dala-drósin blíð.“
Þegar komið var upp í Blikdalinn þennan fagra lognumstillta nóvembersdag virtist í loftinu liggja hátíðlegt boð um minningu Matthíasar – slíkt var lognið og kyrrðin.
Matthías Jochumsson (11. nóvember 1835 – 18. nóvember 1920) fæddist á Skógum sem stóð um 100 metra frá sjó í austurhlíðum Þorskafjarðar undir Vaðalfjöllum. Átti hann heima á Skógum til 11 ára aldurs hjá foreldrum sínum. Matthías stundaði síðan ýmis störf, aðallega sjómennsku og sveitavinnu, en einnig verslunarstörf í Flatey. Matthías aðhylltist únítarisma.
Í Latínuskólann fór hann 24 ára gamall. Eftir Matthías liggja mörg ritverk og kvæði, t.d. leikritið „Skugga-Sveinn“ og hann samdi ljóðið „Lofsöngur“ sem síðar var notað sem þjóðsöngur Íslands. Hann var ritstjóri Þjóðólfs um tíma og síðari hluta ævi sinnar bjó hann í Sigurhæðum á Akureyri, en húsið reisti hann sjálfur. Áður var hann prestur í Odda á Rangárvöllum og um tíma bjó hann í Móum á Kjalarnesi þar sem Blikdalsævintýrið framangreinda gerðist eitt fagurt miðsumarssíðdegi þegar selfarir tíðkuðust enn (þær lögðust af um 1870 og þar með lauk þeim þúsund ára söguþætti þjóðarinnar).
Saga séra Matthíasar Jochumssonar byggir á sjálfsæfisögu hans og útgefnum bréfum.
Matthías Jochumsson var lykilpersóna í trúar- og menningarlífi Íslands á árunum 1874-1920, sem ritstjóri, mikilvirkur greinahöfundur, þjóðskáld, afkastamikill þýðandi heimsbókmennta, leikritahöfundur og síðast en ekki síst ,,huggari“ þjóðar sem enn bjó við skelfileg kjör, á öld efahyggju í trúmálum sem leysti upp aldagamla heimsmynd. Hann orti marga bestu sálma þjóðarinnar og ógrynni minningarljóða og erfiljóða. Hann vann ötullega að því í sálmum sínum, fyrirlestrum, greinaskrifum og bak við tjöldin að koma á framfæri nýjum trúarhugmyndum sem samræmdust tíma biblíurannsókna. Matthías var úthrópaður fyrir guðlast en lifði það 85 ára gamall að verða sæmdur heiðursdoktorsnafnbót í guðfræði við Háskóla Íslands, svo mikið höfðu tímarnir breyst frá því hann hóf baráttu sína fyrir siðbót kirkjunnar. Hann var frumkvöðull í því að ráðast gegn bókstafstrú og gömlum trúarkreddum og draga þannig úr spennunni milli vísinda og trúar. Hann vann mikilvægt verk í því að gera íslenska kristni víða og umburðarlynda og færa hana í nútímabúning, og átti mikinn þátt í því að miklu stærri hluti fólks telur sig nú trúaðan eða er sáttur við trúarhefðina hér á landi en í nágrannalöndunum.
Saga hans mun hjálpa þjóðinni að endurmeta trúararf sinn og jafnvel örva ,,heilastöð trúarinnar“ sem samkvæmt nýlegum fréttum hefur nú verið kortlögð á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum.
Þótt Matthías hefði lítið gert annað en að semja þjóðsöng Íslendinga og vinsælasta leikrit allra tíma hér á landi (Útilegumennina) nægði það eitt til þess að gefa ævisögu hans gildi, en eftir hann liggur gífurlegt magn texta, í þýðingum, kvæðum, blaðagreinum, sjálfsæfisögu, ferðasögu, bréfasöfnum, leikritum og sálmum. Á þjóðhátíðinni 1874 varð Matthías Jochumsson stjarna, var fenginn til að yrkja minni konungs og „Lofsöngur“ hans sem varð, sem fyrr sagði, þjóðsöngur Íslendinga 1918 var þá frumfluttur við hátíðamessu í dómkirkjunni.
Matthíasi var fyrirgefið áhugaleysi á stjórnmálum þjóðfrelsis á ritstjórnarárunum 1874-1880, því að hann var svo mikilvægur liðsmaður í hinum ,,trúar“ þáttum sjálfstæðisbaráttunnar: trúnni á tunguna, skáldskapinn, söguna og guð. Mæddur af lestri heimspekirita sem boðuðu algjöra efnishyggju orti hann eins og kraftaskáld í sig og aðra þá trú að guð væri þrátt fyrir allt einhvernveginn til. Það væri galdur í lífinu og trúarleg skynjun, hrein efnishyggja væri bæði dapurleg og óholl og jafnvel óskynsamleg.
Séra Matthías var sonur hjónanna þar, Jochums bónda Magnússonar og Þóru Einarsdóttur, sem bæði voru komin af merkum breiðfirzkum ættum. Þau voru andlegt atgervisfólk hvort á sína vísu, en bjuggu lengstum við þröngan kost, þar sem ómegð var ærin og harðindi tíð, en margförult um Skóga og mikil gestrisni.
Matthías var hinn þriðji að aldri bræðranna þar á bænum og ólst upp með foreldrum sínum fyrsta áratug ævinnar, en fór þá í vistir, fyrst í nágrenninu, en síðan til séra Guðmundar móðurbróður síns, sem um þær mundir fluttist að Kvennabrekku í Dölum. Þar dvaldi hann fram yfir fermingu, en ekki prísaði hann sig með öllu sælan undir handarjaðri frænda síns, því enda þótt hann kynni vel að meta mannkosti hans, var klerkur kappsmaður um búsýslu, að hann hélt drengnum meir til vinnu en náms. Sextán ára gamall hvarf svo Matthías vestur í Flatey, þar sem hann hóf störf við verzlun föðurfrænda síns, Sigurðar Jónssonar, en hann var tengdasonur Brynjólfs Bogasonar, sem þá var einn ástsælasti höfðingi þar vestra. Skipti nú heldur en ekki um hagi, því hér var hann kominn sem í ný foreldrahús, auk þess sem hann naut góðvildar og fyrirgreiðslu þess ágæta menntafólks sem búsett var þar í eynni. Kom loks þar, að það styrkti hann til utanfarar, þegar hann var ári betur en tvítugur og dvaldi hann þá vetrarlangt í Kaupmannahöfn. Á þessum árum hafði honum vaxið svo andlegt ásmegin, að næsta haust bauðst Brynjólfur kaupmaður til að kosta hann í skóla – og það raunar ekki síst fyrir tilstilli Þuríðar Kúld, sem fljótt hafði séð hvað í pilti bjó og studdi hann til frama sem hún mátti.
Stundaði hann nú undirbúningsnám hjá séra Eiríki, manni Þuríðar, næstu tvo vetur, en verzlunarstörf eða sjómennsku á sumrin. Síðan settist hann í þriðja bekk latínuskólans haustið 1859 – þá orðinn 24 ára gamall.
Snemma hafði borið á skáldskaparhneigð hjá Matthíasi, en nú tvíefldist hún er í skólann var komið og gerðist hann þar brátt mestur hagsmiður bragar og kvað ótrauður fyrir minnum.
Sumarið 1861 ferðaðist hann með kvekurum vítt um byggðir og öræfi landsins og mun sú reynsla hafa orðið kveikjan að Útilegumönnunum, sjónleiknum um Skugga-Svein, sem sýndur var í skólanum veturinn eftir og varð honum síðar einna drýgstur til vinsælda og þjóðfrægðar um langa hríð.
Stúdentsprófi lauk Matthías á sínu þrítugasta aldursári, sat þar næst tvo vetur í prestaskólanum og vígðist síðan til Kjalarnessþinga á hvítasunnudag 1867. Settist hann að í Móum ásamt konu sinni, Elínu Sigríði Knudsen, sem hann hafði kvongast árið áður. Hún hafði aldrei orðið fullheil eftir höfuðmein, sem hún tók á unga aldri, enda lézt hún á jólum eftir aðeins tveggja ára sambúð þeirra hjóna.
Tveim árum síðar kvæntist séra Matthías að nýju og nú Ingveldi, dóttur Ólafs E. Johnsens prófasts á Stað á Reykjanesi, en hann var náfrændi Jóns forseta og náinn heimilisvinur þess Skógafólks. Það hjónaband entist enn skemur, því þessa konu missti hann úr lungnabólgu eftir tæpt ár.
Eftir þessi miklu áföll undi hann eigi fyrir harms sakir þar heima í Móum, heldur byggði jörðina og fékk leyfi til að hverfa frá brauðinu um sinn. Hélt hann síðan utan, fyrst til Englands, en þar næst til Danmerkur og Noregs, og var nær árlangt í þeirri för.
Ekki hafði honum þó auðnazt það jafnvægi að hann mætti staðnæmast til lengdar á Kjalarnesi og sagði hann lausu brauðinu árið eftir og lét enn í haf til Englands. Dvaldi hann þar að mestu þann vetur. Eins og nærri má geta urðu þessar utanfarir slíkum manni sem séra Matthíasi í senn reynslubrunnur og harmabót. Hann eignaðist vini hvar sem hann fór og kynntist ýmsum helztu frumkvöðlun mennta og lista í gistilöndum sínum, sem og ýmsum stofnunum og stefnum samtíðarinnar úti í hinum stóra heimi.
Séra Matthías kom heim úr þessari þriðju utanför sinni þjóðhátíðarsumarið 1874 og varð þá eitt af fyrstu verkum hans að yrkja sjö minni í tilefni af hátíðinni – ,,og flest sama daginn“ eins og hann segir sjálfur í minningum sínum.
Árið eftir kvæntist hann í þriðja sinn. Hét sú kona Guðrún Runólfsdóttir og var frá Saurbæ á Kjalarnesi, en bróðir hennar var giftur systur séra Matthíasar. Lifði Guðrún mann sinn og eignaðist með honum ellefu börn.
Það hafði orðið að ráði með tilstyrk vina séra Matthíasar erlendis að hann festi kaup á blaðinu Þjóðólfi og gerðist ritstjóri þess. Settist hann nú að í Reykjavík og varð blaðamennskan aðalstarf hans þar næstu sjö árin, en auk þess fékkst hann nokkuð við tímakennslu og sitthvað fleira, þar til hann seldi blaðið og gerðist prestur að Odda á Rangárvöllum. Bjó hann þar við allmikla rausn um sex ára skeið.
En er harðæri kreppti mjög að þar eystra, tók að hvarfla að honum að skipta um set og að ráði landshöfðingja sótti hann um Akureyrarbrauð og fékk það. Kostaði sá tilflutningur ærna örðugleika og einnig urðu fyrstu ár hans þar nyrðra með ýmsum hætti heldur óyndisleg. En smám saman rættist úr um hag hans og frægðarorð og um aldamótin sagði hann lausu kallinu, en naut eftir það skáldalauna frá Alþingi.
Hann bjó þó áfram á Akureyri til æviloka og fór svo, að á efri árum sínum hlotnaðist honum óskoruð ástsæld bæjarbúa, sem og þjóðarinnar allrar, er nú taldi hann nær einróma höfuðskáld sitt og andlegan höfðingja. Kom þetta meðal annars ljóslega fram á 75 og 80 ára afmælum hans, er honum voru haldin samsæti og auðsýnd margvísleg önnur sæmd.
Auðvelt var þennan frábæra nóvemberdag árið 2011 að feta selstíginn frá Saurbæ að selstöðunni góðu í miðjum Blikdalnum. Þegar þangað var komið mátti glögglega sjá seltóftirnar er Guðrún hafði hafst við fyrrum. Aftan þeirra mátti „lesa“ skálatóft (sjá uppdrátt) af enn eldri selstöðu. Tóftin stendur nokkuð hátt svo ætla má að undir henni kúri nokkrar eldri seljakynslóðir fornra minja, jafnvel allt frá landnámstíð. Tóft, sem gefur vísbendingu um kúafjós frá fyrstu tíð er ofan selstöðunnar. Hún er a.m.k. góður leiðarvísir þessa efnis. Ljóst virðist vera að fyrstu selin í þúsund ára sögu þeirra hafi verið kúasel með tilheyrandi beitargæðum og aðgengi að vatni. Með breyttum búskaparháttum; heimaræktun túna og slægjum, færðist kúabúskapurinn heim að bæjunum. Fjárselin tóku við hlutverki kúaseljanna. Sú þróun varði í u.þ.b. 800 ár – með tilheyrandi breytingum. Staðsetning seljanna frá einum tíma til annars er ekki síst áhugavert viðfangsefni…
Heimildir m.a.:
-Þessi grein er eftir Jóhannes úr Kötlum og birtist sem formáli í kvæðakverinu „Gullregn“ – úr ljóðum Matthíasar Jochumssonar.