Í Fálkanum, Alþingishátíðarútgáfunni, árið 1930 er m.a. fjallað um „Bústaði Alþingis„:
„Það liggur nær að halda að þinghald hafi lagst niður hjer á landi fyrir húsnæðisleysi. Framan af öldum hefir þingið jafnan verið haldið undir beru lofti, og þó er þess aldrei getið, að þinghald hafi farist fyrir vegna óveðurs, þó að hlífðarföt hafi vitanlega verið ófullkomin í þá daga. En þegar kemur fram á 17. öld hafa þingmenn verið orðnir svo kulvísir að þeir fundu þörf til að halda fundi undir þaki, enda hefir móðurinn ekki verið mikill í þeim í þá daga. Var þá bygð tóft á vesturbakka Öxarár, sem en sjest móta fyrir, og tjaldað yfir hana dúki meðan á þingi stóð. Var það sama tilhögunin og menn áður höfðu haft á búðum sínum. En árið 1691 var hús bygt á sama stað til þinghalda.
Þetta alþingishús hefir líklega aldrei verið sjerlega vandað og auk þess hefir því verið haldið illa við. Svo mikið er víst, að þegar kemur fram undir lok átjándu aldar er húsið orðið svo hrörlegt, að ýmsir þingmenn telja heilsu sinni hættu búna af að sitja þar á fundum og auk þess svo að falli komið, að giska má á, af ummælum sumra manna, að búast hafi mátt við, að húsið hryndi þá og þegar yfir þá, sem í því voru. Þing var síðast haldið þarna sumarið 1798.
Þegar Alþingi var endurreist var Latínuskólinn í smíðum. Var hún langstærsta og fullkomnasta bygging landsins í þá daga og enda lengur, og ein af tilkomumestu byggingum Reykjavíkur enn í dag. Skólinn var smíðaður í Noregi úr gildum viðum, sem settir voru svo saman þegar hingað kom og stofur allar múrfóðraðar að innan. Þótti skólinn sjálfkjörið samkomuhús þingsins og þar var það haldið frá 1845 til 1881, í salnum á annari hæð í vesturenda skólans, þeim, sem nú eru hátíðasalur hans. Geymir Latínuskólinn þannig minninguna um þau þing sem háð voru um daga Jóns Sigurðssonar, og segja þeir menn, sem til ára eru komnir, að vel hafi mátt heyra til hans neðan af Lækjargötu, er gluggarnir voru opnir, er hann hjelt ræður sínar. Þjóðfundurinn 1851 var líka haldinn í skólanum, hin merkilega samkoma, þar, sem úr skar um það hvort Íslendingar ættu að vægja í sjálfstæðismálinu eða leggja út í hina löngu baráttu fyrir sjálfstæði sínu.
Árið 1881 var lokið við að byggja Alþingishúsið. Var það fyrsta stórbyggingin, sem landsmenn rjeðust í að reisa, eftir að þeir fengu sjálfræði i fjármálum. Húsið var bygt úr grásteini og vel til þess vandað; er hjer hergjaskipun þess í aðalatriðum hin sama nú og var í fyrstu. Á fyrstu hæð eru stofur, sem Háskólinn hefir notað síðan hann var stofnaður, en áður var þar Landsbókasafnið. Á annari hæð eru deildarsalirnir báðir og er hæð þeirra tvöföld, svo að þeir ná líka um þriðju hæð. Á annari hæð er ennfremur skrifstofa Alþingis, lestrarsalur þingmanna, herbergi forseta og stofur til nefndastarfa og blaðamannaherbergi og á þriðju hæð íbúð skrifstofustjóra Alþingis.
Húsið bygði danskur steinsmiður og byggingameistari, Bald að nafni.“
Heimild:
-Fálkinn, 25.-26. tbl. 21.06.1930, Bústaðir Alþingis, bls. 33.