Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar II“ árið 2021 segir eftirfarandi um Miðbæ og Hraun:
„Miðbær Hafnarfjarðar er gróflega innan þess landsvæðis sem áður var Akurgerði. Nafn jarðarinnar bendir til þess að einhverntímann hafi verið reynt við akuryrkju á henni en undir hraunbrúninni við fjörðinn var mikil veðursæld og skjól fyrir norðanátt. Engar heimildir eru þó til fyrir þessari akuryrkju fyrir utan nafn jarðarinnar.
Fram til 1677 var Akurgerði hjáleiga frá Görðum á Álftanesi en það ár eignaðist Hans Nansen, Hafnarfjarðarkaupmaður, jörðina í makaskiptum fyrir hálfa Rauðakollsstaði í Eyjahreppi í Hnappadalssýslu. Við eignaskiptin fluttist verslunarstaðurinn, sem hafði verið í Hvaleyrarlandi, til Akurgerðis og eftir þau voru þar einungis þurrabúðir og eignarráð landsins í höndum
Hafnarfjarðarkaupmanna og saga jarðarinnar er þá í raun saga verslunarstaðarins.
Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Akurgerði hafi verið eign Garðakirkju til forna og hjáleiga í Garðalandi. Hafnarfjarðarkaupmaður hafði þar eignarráð og að dýrleiki gömlu hjáleigunnar hafi verið óviss, þar sem hún stóð í óskiptu landi og tíundaðist ekki. Þar bjuggu Guðmundur Þórðarson og Þorleifur Sveinsson og greiddur þeir enga húsaleigu en voru í staðin skyldir til handarvika sem kaupmaðurinn þurfti á sumri og eftirliggjarinn á vetri.
Þeir viðhéldu búðinni með styrk kaupmanna og héldu engan kvikfénað vegna þess að þar gat enginn kvikfénaður fóðrast, því túnstæðið var allt farið undir byggingar.
Í sýslu- og sóknalýsingum sagði séra Árni Helgason að „Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað sona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndulráðssetur, grossera Knutzons, Thomsens og Linnets. Bæði Thomsen og Linnet betala þeim fyrstnefnda eiganda lóðatoll.
Auk þessara höfuðbýla eru á sömu lóð meir en 20 tómthús og fleiri en ein familie í sumum. Enginn sem býr í þessum höndlunarstað, hefir grasnyt. Tómthúsin fjölga og nöfnin breytast, þegar nýir íbúar koma.“
Hraunin
Hraunahverfið í Hafnarfirði er á því svæði sem áður var í eigu Garða. Fyrstu heimildir um Garða eru frá árinu 1307 en það er skjal um rétt til rekafjöru í landi Garða:
1307 „ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allan vidreka og hvalreka fra Ranganiogre ig (i) Leitu kvenna bása ad kalftiorninga fiouru.“
1367 var staðurinn metinn á 16 hndr. og átti kirkjan þá allt heimalandið. Í skjali frá 1558 var sagt að kirkjujörðin Hlíð var lögð til Bessastaða, en Garðar fengu í staðinn Vífilstaði.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Garðar væru kirkjustaður í eigu kirkjunnar. Þá var sagt að jarðadýrleiki hafi verið óviss allt til ársins 1697 en þá var staðarins getið og var hann metinn af sex mönnum sem valdir voru til matsins af prófastinum á Kjalarnesþingi og sýslumanninum í Gullbringusýslu eftir tilmælum frá amtmanninum.
Staðurinn var þá virtur að 60 hndr. að dýrleika. Ábúandinn var þá Sr. Ólafur Pétursson prófastur í Kjalarnesþingi, landskuld var engin og höfðu fyrrnefndir sexmenningar áætlað að leiga fyrir jörðina væri tveir hundruðustu. Kirkjan átti 20 kúgildi, þar af voru sum þeirra í leiguburði á kirkjunnar jörðum og líka á hjáleigum í kringum staðinn. Garðar voru með selstöðu í Kaldárseli, þar voru bæði hagar og vatnsból góð. Móskurður til eldiviðar var nægur en ef þurrt var fór hann og var erfiður. Heimræði var allt árið og lending góð. Róðrar voru fengsælir þegar fisk var að fá í Hafnarfirði.
Í Jarðabók Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 185 og var kirkjujörð. Dýrleikinn var 40, landskuld 2 og kúgildi 1.
Árið 1912 gaf Jens Pálsson, prófastur í Görðum, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi sem bærinn stóð á með beitarlandi fyrir 52.000 kr. og heimilaði Alþingi þessi landakaup með lögum þann 22. október sama ár. Landsstjórninni veittist heimild til að selja Hafnarfjarðarkaupstaði land Garðakirkju sunnan og vestan þessara marka:
1. Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veg inn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunholti, nálægt í hásuður frá bænum spölkorn frá hraunjaðrinum.
3. Úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól sem er gamalt miðaftansmark miðað frá Vífilsstöðum; – þá tekur við:
4. Urriðakotsland; þá
5. Setbergsland allt til Lækjarbotna og loks
6. Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegur.
Hamarskot var innifalið í þessum kaupum en Hamarskotstún innan girðingar og Undirhamarstúnsblettur voru undanskilin. Átti presturinn að hafa þar grasnytjar ef hann flyttist til Hafnarfjarðar.
Árið 1927 skoraði bæjarstjórn Hafnarfjarðar á þingmenn Gullbringu- og Kjósarsýslu að flytja frumvarp á næsta Alþingi um að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi það land sem Garðakirkja ætti í miðjum bænum. Alþingi samþykkti frumvarp um söluna 1928 og bærinn keypti landið árið 1930 fyrir 12.000 kr.
Einnig er vert að minnast á Einarssreit, saltfiskreit sem Einar Þorgilsson útgerðarmaður lét útbúa árið 1913 og var hann stækkaður árið 1929, en þetta er líklega eini fiskreiturinn á landinu sem hefur verið metinn til fjár. Í dómi frá 1994, í eignarnáms máli Hafnarfjarðarbæjar og Einar Þorgilsson & Co. HF., er reiturinn metinn á 9,4 milljónir króna.“
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar II; miðbær og Hraun, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-II-Midbaer-og-Hraun-2021.pdf (byggdasafnid.is)