Miðað við allan þann mikla fróðleik sem hafa má af fornleifum má segja að of lítið sé gert til að miðla honum.
Umfjöllun fræðimanna um einstakar fornleifarannsóknir eru jafnan of flóknar fyrir almenning og áhugasömum leikmönnum er gert erfitt fyrir um þátttöku við að miðla áhugaverðu efni. Fornminjar eru eign allrar þjóðarinnar og því ætti það að vera bæði eðlilegt og sjálfsagt að fornleifafræðingar miðli upplýsingum um áhugavert efni til almennings. Vissulega eru miðlunarleiðirnar margar og sumar flóknari en aðrar, en m.v. þróun tækninnar virðist enn vera ótrúlega erfitt að nálgast upplýsingarnar, sérstaklega þegar um er að ræða sérhæfðar skýrslur og rit sem aðeins koma út í takmörkuðu upplagi. Fornleifafræðin á að vera opin og aðgengileg fyrir almenning. „Fornleifafræði er fræðigrein sem almenningur hefur áhuga á.
Fólk er forvitið um uppruna sinn, hvenær landið byggðist, hvaða minjar megi finna í jörðu o.s.frv. Sést þetta t.d. á því að á flestum stöðum þar sem fornleifafræðingar grúfa sig niður á hnjánum með múrskeið í hönd og grafa má jafnan búast við forvitnum gestum sem vilja fræðast og fá svör við spurningum sínum. Fornleifafræðingar eru almennt séð meðvitaðir um þennan áhuga almennings og reyna eftir fremsta megni að svara spurningum forvitinna og miðla af þekkingu sinni. Fornleifarannsóknir eru alfarið í höndum þeirra sem hafa menntun í fornleifafræði og má segja umfjöllun um hana fari að mestu fram í gegnum fjölmiðla. Almenningur getur svo aflað sér frekari vitneskju, t.d. með því að heimsækja söfn, skoða fornleifauppgrefti eða lesa sér til um efnið. Í árdaga fornleifafræðinnar var aðkoma almennings hins vegar mun meiri þar sem fólk tók þá beinan þátt í uppgröftum, rannsóknirnar voru sem sagt mun opnari.
Hugtakið opin fornleifafræði (e. public archaeology) var almennt ekki notað fyrr en í kringum árið 1972. Þá var merking þess helst bundin við starfsemi minjavörslunnar og aðkomu hennar að framkvæmda-tengdum forn-leifarannsóknum. Í slíkum rannsóknum þurfti oft að treysta á aðstoð frá almenningi, bæði við störf tengd rannsókninni, svo sem uppgröft, en einnig var mikilvægt að hafa stuðning frá almenningi gagnvart stjórnvöldum. Ef minjavarslan gat sýnt fram á að almenningur væri hliðhollur fornminjum gat hún þar með sýnt fram á að mikilvægt væri að vernda minjastaði. Rannsóknir sem framkvæmdar voru af fræðastofnunum og höfðu innanborðs sérfræðinga á sviðinu þurftu hins vegar ekki að stóla eins mikið á aðkomu almennings því tryggt var að fullnægjandi rannsókn færi fram. Almenningur átti því í vissum tilfellum greiðan aðgang að fornleifafræði á þessum tíma.
Eftir því sem tíminn leið og fornleifafræðin varð að meiri fræðigrein minnkaði hins vegar bein þátttaka almennings í rannsóknunum. Sú breyting fólst í því að fornleifafræðingar störfuðu fyrir hönd almennings við að rannsaka fornleifarnar í stað þess að almenningur kæmi beint að starfinu. Rétt er að taka fram að þróun hugtaksins opin fornleifafræði sem farið hefur verið yfir hér að framan á einkum við í Bandaríkjunum og Bretlandi. Notkun hugtaksins er ekki algeng hér á landi svo að höfundi sé kunnugt um en víst er að fornleifafræðingar eru þó meðvitaðir um það að þær fornleifar sem þeir rannsaka eru vissulega í eigu almennings og því á almenningur rétt á því að fræðast um þær.
Fræðsla er þó ekki eina ástæðan fyrir því að fornleifafræðingar vilja að almenningur kynni sér fornminjar. Hvort sem fræðimenn hafa tíma eða ekki til að eiga samskipti við almenning er það eiginlega skylda fræðigreinarinnar í heild að gera það. Eftir því sem menntuðum fornleifafræðingum hefur fjölgað í greininni er meiri áhersla lögð á vísindalegar rannsóknir, magn gagna er orðið mun meira og sérhæfingin meiri. Með þessari þróun hefur bilið á milli fornleifafræðinga og almennings e.t.v. breikkað þar sem fornleifafræðingar einblína ekki eins mikið á það sem almenningur hefur áhuga á. Stórir gagnabankar af tölum og lýsingum falla ekki í kramið hjá almenningi. Hann vill miklu frekar heyra um túlkun eða hugmyndir fornleifafræðinga um hvernig mannlífið var áður fyrr, búsetuhætti í þeim byggingum sem verið er að rannsaka, hvernig umhverfið var nýtt o.s.frv.
Fornleifafræðingar eiga samt sem áður ekki að setja sig á háan hest og halda að þeir geti svarað öllum spurningum sem koma frá almenningi, að þeir séu alvitrir um fyrri tíma. Það viðhorf er ekki líklegt til að afla fornleifafræðingum vinsælda meðal almennings. Fornleifafræðingar ættu miklu frekar að miðla upplýsingum til fólks vegna þess að þeir vilja það, til þess að almenningur öðlist frekari skilning á störfum þeirra. Fornleifafræðingar ættu einnig að geta séð hag sinn í að miðla upplýsingum til almennings. Ef fornleifafræðingar, sem og aðrir fræðimenn, eiga meiri samskipti við almenning munu fleiri skilja hvað fræðimennirnir gera og þar af leiðandi sýna þeim meiri stuðning. Hægt er að segja að þetta viðhorf sé þó nokkuð miðað út frá fræðimanninum, þ.e. hann ætlast til að almenningur sýni honum skilning og fái frið til að vinna sína vinnu. Þessu þarf þó ekki að taka sem svo.
Ef almenningur hefur skilning á störfum fornleifafræðinga og sýnir þeim stuðning fjölgar e.t.v. rannsóknum og þar með hagnast allir í stöðunni, þ.e. fleiri rannsóknir eru framkvæmdar og almenningur fær aðgang að frekari upplýsingum. Út frá sjónarmiði almennings má hins vegar segja að það sé hlutverk fræðimanna að upplýsa um sín fræði svo að fólk sé t.a.m. fróðara, taki meðvitaðri ákvarðanir og hafi val um menningartengda afþreyingu. Annað viðhorf sem tengist samskiptum þessara tveggja hópa er það að í langflestum tilfellum er það almenningur sem borgar fyrir fornleifarannsóknir. Greinin þarfnast fjármagns og þeir eru oft teknir úr opinberum sjóðum til að skipuleggja, rannsaka og varðveita fornleifar – því ætti almenningur að geta fengið eitthvað í staðinn. Í mörgum tilfellum vantar upp á það því eina útkoman úr rannsóknum eru í mörgum tilfellum skýrslur skrifaðar á fræðilegu máli sem hinn almenni lesandi ræður ekki við.
Afleiðingar af því að miðla ekki upplýsingum til almennings eru m.a. þær að fólk skilur ekki í hverju starf fornleifafræðinga felst. Devon Mihesuah sagði í grein sinni frá 1996 að eini munurinn á grafarræningjum og fornleifafræðingum væri tímamunurinn, sólarvörnin, litlir burstar og hirðusemin eftir að þeir yfirgæfu staðinn.5 Þetta er að sjálfsögðu ekki æskilegt viðhorf gagnvart störfum fornleifafræðinga. Það er því nokkuð augljóst að nauðsynlegt er að einhvers konar samskipti eigi sér stað á milli fornleifafræðinga og almennings til þess að þess konar viðhorf verði ekki ríkjandi gagnvart störfum fornleifafræðinga. Áhrifarík miðlun fornleifa til almennings ætti að vera eftirsóknarverð í augum fornleifafræðinga því það er nokkuð ljóst að báðir hópar njóta góðs af því.“
Heimild m.a.:
-M.A. ritgerð – Margrét Valmundsdóttir, janúar 2011.