Tag Archive for: minnisvarði

Andrews

Á RÚV 3. maí 2023 var eftirfarandi umfjöllun um „Flugslys á Fagradalsfjalli sem breytti rás viðburða“ í tilefni af því að áttatíu ár voru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík.

Andrews

Minnismerkið á Stapanum um áhafnameðlimi Hot Stuff er fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli 3. maí 1943.

Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af. Tilefnið var auk þess tilfærsla á minnismerkinu um atburðinn, en því hafði áður verið komið fyrir austan Grindavíkurvegarins miðja vegu milli Stapans og Grindavíkur. Áhrif tæringar frá nálægri Svartsengisvirkjuninni varð til þess að ástæða var að færa minnismerkið upp á ofanverðan Stapa norðan gatnamóta Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Þaðan er ágætt útsýni (í góðu skyggni) yfir að slysstaðnum í kastinu í vestanverðu Fagradalsfjalli. Gerður hefur verið göngustígur ofan í endurgerðan gamla Grindavíkurveginn frá hringtorgi ofan gatnamótanna.

„Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur minningarathöfnina á Stapa í dag.
Hershöfðingjar í Bandaríkjaher, sendiherra og forseti Íslands minntust í dag fjórtán bandarískra hermanna sem fórust í flugslysi á Fagradalsfjalli fyrir áttatíu árum.

Andrews

Frá minningarathöfninni við minnismerkið á Stapanum 3. maí 2023.

Fimm ár eru frá því minnisvarði um flugslysið 3. maí 1943 var reistur en nú verið færður að Stapa við Reykjanesbraut. Fimmtán voru um borð í sprengjuflugvélinni Hot Stuff þegar hún brotlenti á Fagradalsfjalli og komst aðeins einn lífs af. Um borð voru bandarískir hermenn og Frank Maxwell Andrews hershöfðingi.
Minningarathöfnin í dag var einkar hátíðleg þótt bæði væri hvasst og kalt. Mannanna fjórtán var minnst með ræðum, blómsveigar lagðir og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir auk flugvélar frá Bandaríkjaher.

Andrews

Frá minningarthöfninni á Stapanum.

„Mér finnst það heiður að vera fulltrúi Andrews-herstöðvarinnar sem dregur nafn sitt af Andrews hershöfðingja, og fara fyrir flughermönnum frá herstöðinni við þessa athöfn,“ segir Todd Randolph, yfirmaður Andews-herstöðvarinnar í Bandaríkjunum.
Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, segir mikilvægt að minnast þeirra sem fórust. Þeir hafi barist fyrir lýðræðingu.

„Já, mjög svo og enn frekar núa þegar Ísland og Bandaríkin standa aftur saman í andófinu gegn innrás Rússa í Úkraínu,“ segir Patman.

Andrews

Annað upplýsingaskilti af tveimur við minnismerkið. 

Þegar slysið varð hafði enginn jafn háttsettur embættismaður og Andrews hershöfðingi fallið í stríðinu úr röðum bandamanna.
„Rás viðburða hefði orðið önnur hefði það ekki gerst. Hann hefði farið fyrir liði bandamanna sem réðist inn í Normandí í júní 1944. En í stað hans tók Eisenhower við keflinu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Andrews

Á öðru skiltinu er m.a. lýst 12 flugslysum er urðu á nálægum slóðum á stríðsárunum.

„Hann var þá háttsettur yfirmaður í flughernum á þeim tíma og frumkvöðull í því sem nefnt er Flugher Bandaríkjanna nú. Hann er einn helsti höfundurinn að aðskilnaði herjanna, landher frá flugher til að yfirráðum í lofti sem hernaðaraðferð,“ segir Randolph.

Andrews

Tíu áhafnameðlimir Hot-Stuff er fórust í Kastinu 1943.

Fagradalsfjall sést vel frá minnisvarðanum á Stapa. Frumkvæðið að því að setja upp minnisvarðann eiga tveir bræður [Þorsteinn og Ólafur Marteinssynir] og sem hafa mikinn áhuga á sögunni og halda úti vefsíðu með korti af flugslysum.

„Þeir höfðu reynt lendingu í Keflavík en vegna veðurs fundu þeir ekki völlinn. Við erum að horfa hérna á Fagradalsfjall sem flestir kannast við eftir að það gaus. En hérna vestast, þar sem er smá hækkun [Kastið], það var þar sem vélin rakst á fjallið,“ segir Þorsteinn Marteinsson, áhugamaður um sögu flugslysa.

Á tveimur upplýsingaskiltum við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
B-24 Liberator-sprengjuflugvélin Hot Stuff – Sigurganga og örlagarík endalok
„Bandaríska B-24 sprengjuflugvélin Hot Stuff og áhöfn hennar var fyrsta flugvél 8. flughersins sem lauk 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari.

Andrews

Áhöfn Hot Stuff.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprenguflugdeildar, að fá far með Robert „Shine“ Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Meþódistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprenguflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.

Andrews

Robert „Shine“ Shannon.

Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgin 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Scotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar kom upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og sundraðist.

AndrewsVið slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en lá klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu, en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið“.

Frank Maxwell Andrews – yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu – 3. feb. 1884-3. maí 1943
Andrews„Frank M. Andrews hershöfðingi fæddist 3. febrúar 1884 í Nashville í Tennssee. Hann hóf nám í háskóla Bandaríkjahers í West Point árið 1902 og brautskráðist árið 1906. Hann starfaði í flugdeild Bandaríkjahers í fyrri heimsstyrjöldinni og árið 1935 valdi Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi hann til þess að gegna starfi yfirmanns nýrrar aðgerðardeildar flughersins.
Andrew var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsheild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.
Andrews var einnig ákafur hvatamaður að smíði stórra sprengjuflugvéla og eggjaði stjórnvöld til kaupa á fjölda nýrra sprengjuflugvéla af gerðinni B-17 „Fljúgandi virki“ en hlaut ekki stuðning yfirstjórnar hersins. Framsýni hans sannaðist þó þegar Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina og stjórnvöld létu smíða B-17 og B-24 Liberator sprenguflugvélar í stórum stíl.

Andrews

Hot Stuff.

Andrews hafði verið hækkaður í tign árið 1941 og var þá falin yfirstjórn bandarískra herja við Karíbahaf sem önnuðust varnir aðkomuleiða til Bandaríkjanna úr suðri, þ.á.m. um Panamaskurð. Eftir innrás bandamanna í Norður-Afríku haustið 1942 var honum falin stjórn alls herafla Bandaríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf sem átti þátt í að vinna sigur á Afríkuher þýska hershöfðingans Erwins Rommels.

Andrews

Einkennismerking Hot Stuff.

Í febrúar 1943 var Andrew skipaður yfirmaður herja Bandaríkjanna í Evrópu með aðsetur í Bretlandi og 3. maí sama ár valdi bandaríska yfirherráðið hann til þess að stjóra sameinuðum herafla bandamanna sem undirbúa skyldi innrás á meginland Evrópu. Andrew fékk þó aldrei boðin um þess merku hækkun í tign því hann fórst sama dag þegar Liberator flugvél hans, sem gekk undir nafninu „Hot Stuff“ og flytja átti hann til Bandaríkjanna, fórst á Fagardalsfjalli á Reykjanesi.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Flugvélin hafði horfið frá lendingu í Keflavík vegna veðurs og var á leið til flugbækistöðvar breska flughersins í Kaldaðarnesi. Við lát Andrews hershöfðingja tók Dwight D. Eisenhower, síðar Bandaríkjaforseti, við stjórn Evrópuherstjórnarinnar en hann hafði áður gegnt starfinu árið 1942.
Andrews hershöfðingi og þrettán samferðarmenn hans voru grafnir með mikilli viðhöfn í Fossvogskirkjugarði 8. maí 1943. Líkamsleifar þeirra voru flutta heim til Bandaríkjanna árið 1947 og var Andrews lagður til hinstu hvílu í þjóðargrafreit Bandaríkjanna í Arlingtonkirkjugarði í útjarðri Washingtonborgar“.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

„Upphaflega var flugvöllurinn lagður af Bandaríkjaher í Seinni-Heimsstyrjöldinni og tekin formlega í notkun 23. mars 1943. Banndaríkjamenn nefndu hann „Meeks Field“ í höfuðið á ungum flugmanni, George Meeks að nafni, sem fórst á Reykjavíkurflugvelli og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést á Íslandi í styrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni var flugvöllurinn og bækistöðin, sem við hann stóð, afhentur Íslendingum til eignar og var hann þá nefndur Keflavíkurflugvöllur eftir stærstu nágrannabyggð hans, Keflavík.

Andrews

Leiði Andrews og félaga í Fossvogskirkjugarði.

Flugvellirnir við Keflavík voru reyndar tveir, Meeks og Pattersonflugvöllur ofan Njarðvíkurfitja, sem þjónaði orrustuflugsveit Bandaríkjahers til stríðsloka. pattersonflugvöllur var ekki notaður eftir stríðslok. Keflavíkurflugvöllur var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki til ársins 1951, er Bandaríkjaher kom aftur til landsins samkvæmt varnnarsamningi Íslands og Bandaríkjana sem gerður var að tilstuðlan Norður-Atlantashafsbandalagsins, NATO.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Bandaríkjaher (varnarliðið á Íslandi) reisti bækistöð sína við Keflavíkurflugvöll. Þar var afgirtur bær sem hýsti allt að 5700 hermenn, starfsfólk og fjölskyldur þeirra allt til ársins 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Í dag her herstöðin hverfi í Reykjanesbæ og gengur undir nafninu Ásbrú“.

Konunglegur flugvöllur í Bretlandi var nefndur eftir Frank M. Andrews, Andrews Field, í Essex, England. Þetta var fyrsti flugvöllurinn, sem verkfræðideild bandaríska hersins endurbyggði þar í landi.

Andrews

Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli.

Þetta var 1943, skömmu eftir slysið í Kastinu. Hann var þekktur fyrir að vera fyrsti endurgerði flugvöllurinn í Bretlandin 1943, hét áður RAF Station Great Saling, á heimsstyrjaldarárunum síðari. Flugvöllurinn var notaður af  USAAF 96th sprengjuflugdeildinni og 322nd sprengjusveitinni á stríðsárunum sem og  nokkrum RAF deildum áður en honum var lokað 1946. Í dag er þarna lítill einkaflugvöllur.

Andrews breiðstræti, vegur er liggur að alþjóðaflugvellinu Filippseyja, Ninoy Aquino International Airport Terminal 3, var nefndur eftir honum. Þá var „Andrews Theater“ á Keflavíkurflugvelli einnig nefnt eftir Frank í minningu hans.

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-05-03-flugslys-a-fagradalsfjalli-breytti-ras-vidburda
-RÚV, Flugslys á Fagradalsfjalli breytti rás viðburða – Áttatíu ár eru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík. Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af, Kristín Sigurðardóttir, 3. maí 2023.
-Minnismerki ofan Stapa um Andrews og félaga.
–https://en.wikipedia.org/wiki/Frank_Maxwell_Andrews

Andrews

Afsteypa af Hot Stuff, Liberator-24, á minnisvarðanum.

Sigvaldi Kaldalóns

Minnisvarði um lækninn og tónskáldið Sigvalda Kaldalóns var vígt 10. nóvember 1996 en það er staðsett við Kvennó. Af því tilefni flutti Gunnlaugur A. Jónsson, barnabarn Sigvalda, ávarp í Kvenfélagshúsinu:

Grindavík

Afhjúpun minnisvarðans.

Góðir áheyrendur!
Fyrir hönd Kaldalónsfjölskyldunnar vil ég af heilum hug þakka þá ræktarsemi sem þið Grindvíkingar sýnið minningu afa míns, Sigvalda S. Kaldalóns, læknis og tónskálds, með því að reisa honum fagran minnisvarða og boða af því tilefni í dag til þessarar ánægjulegu samkomu nú á 50. ártíð Sigvalda.
Þessi ræktarsemi ykkar og trúfesti við minningu Sigvalda Kaldalóns er í fullu samræmi við hlýhug Grindvíkinga og velvild í hans garð alveg frá byrjun, og raunar í takt við aðdragandann að því að hann settist að hér í Grindavík þegar hann var skipaður héraðslæknir í Keflavíkurhéraði árið 1929 í óþökk Læknafélagsins. Sú saga er kunnari en svo að hana þurfi að rifja upp.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi ásamt Einari Dagbjartssyni.

En óhætt er að segja að Grindvíkingar hafi tekið hinum nýskipaða lækni opnum örmum með Einar í Garðhúsum í broddi fylkingar sem tók Sigvalda og fjölskyldu hans inn á heimili sitt meðan verið var að reisa honum læknisbústað hér í Grindavík.

Það fer vel á því að minnisvarðinn um Sigvalda skuli reistur hér við Kvenfélagshúsið því með því félagi starfaði Sigvaldi mikið enda lét hann jafnan mikið til sín taka á sviði menningarmála í Grindavík og hefur Einar Einarsson skólastjóri í Grindavík komist þannig að orði að ár Sigvalda hér hafi verið eins og „menningarleg vígsla í héraðinu“ og að áhrifin af veru hans hér verði aldrei þurrkuð út, og víst er um það að lögin „Suðurnesjamenn“ og „Góðan daginn Grindvíkingur“ munu seint gleymast Suðurnesjamönnum.

Í Grindavík bjuggu þau hjónin Sigvaldi og Margrete Kaldalóns í fimmtán ár og voru árin hér að mörgu leyti frjóustu ár Sigvalda á tónlistarsviðinu þrátt fyrir að hann ætti lengst af við heilsuleysi að stríða. Margir hafa orðið til að vitna um þá miklu gestrisni sem einkenndi menningarheimili þeirra hjóna.
Margir af kunnustu listamönnum þessarar þjóðar dvöldu á heimili þeirra lengri eða skemmri tíma. Má þar nefna Gunnlaug Scheving listmálara, Stein Steinarr skáld og Ríkharð Jónsson myndhöggvara að ógleymdum bróður Sigvalda, Eggerti Stefánssyni rithöfundi og söngvara.

Sigvaldi Kaldalóns

Minnisvarðinn.

Í sumum tilfellum var dvöl þessara kunnu listamanna á heimili Sigvalda ekki aðeins lyftistöng fyrir menningarlíf í Grindavík heldur fyrir alla þjóðina. Þannig hafa Grindavíkurár Gunnlaugs Scheving hlotið þann sess að vera sérstakur kapítuli í sögu íslenskrar myndlistar, eins konar óður til íslenskra sjómanna með svipuðum hætti og lag Sigvalda Kaldalóns „Suðurnesjamenn“.
Móðir mín, Selma Kaldalóns, hefur lýst því hvernig faðir hennar samdi lög sín: „Hann samdi þegar hann var í stemmningu,“ hefur hún sagt og bætir við: „Hann samdi stundum úti á göngu, raulaði þá fyrir sér lagstúf og spilaði strax, þegar hann kom heim. Oft samdi hann líka seint á kvöldin eða á nóttunni. Það kom líka fyrir, að hann reis frá matborðinu og gekk að hljóðfærinu til þess að leika það, sem þá sótti á hann. Hann hafði þörf fyrir að láta aðra njóta með sér og stundum fór hann út á götu og mætti kannski sjómanni, sem var að koma upp úr skipi, og sagði við hann: – Komdu snöggvast inn með mér, ég ætla að spila fyrir þig lag, – það er nýtt lag.“
Sigvaldi varð snemma mjög heilsuveill, og þegar þar við bættist að hann gat aðeins lagt stund á tónsmíðar í hjáverkum frá annasömum læknisstörfum er með ólíkindum hve miklu hann fékk áorkað. Það er þó ekki magn tónsmíðanna sem mun halda nafni hans á lofti um ókomin ár heldur sú staðreynd að fjölmörg laga hans urðu svo að segja á svipstundu þjóðareign og eru það enn þann dag í dag.
Jóhanns skáld úr Kötlum komst þannig að orði um tónlist Sigvalda í minningargrein:

Grindavík

Kvenfélagshúsið.

„Vart mun finnast sú sál á Íslandi, að hún hafi ekki einhverju sinni orðið snortin af söngvum hans, vart sú rödd, sem ekki hefur reynt að taka undir þá. Eins og mild kveðja vorboðans hafa þeir borizt efst upp í dali, yzt út á nes, bóndinn hefur raulað þá yfir fé, sjómaðurinn á vaktinni, heimasætan á meðan hún beið unnustan síns. Þetta eru tónar alþýðunnar í upphafningu norræns blóma, yljaðir af hjartaglóð snillingsins. Þetta eru tónar, sem allir skilja og eiga og þess vegna geta þeir ekki dáið.“
Það var ekki ætlun mín að rekja hér æviferil afa míns, Sigvalda Kaldalóns, heldur fyrst og fremst að þakka ykkur Grindvíkingum fyrir þá ræktarsemi sem þeir hafa nú í dag með svo afgerandi hætti sýnt minningu Sigvalda Kaldalóns. Alveg sérstaklega vil ég þakka menningarmálanefnd Grindavíkur fyrir hennar þátt í þessu máli og ánægjuleg kynni af nefndarmönnum meðan á undirbúningi þessarar minningarhátíðar hefur staðið.
Af kynnum mínum af því ágæta fólki er ég þess fullviss að menningarmálin eru í góðum höndum hér í Grindavík sem fyrr.
Enn á ný: Kærar þakkir og til hamingju með minnisvarðann.

Hér má sjá myndband frá athöfninni.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi og Karen Margrethe.

Árið 1929 fluttist til Grindavíkur skáldið og læknirinn Sigvaldi Kaldalóns, með komu hans þurftu grindavíkingar ekki lengur að sækja læknisþjónustu til Hafnarfjarðar eða Keflavíkur.
Hagur bæjarbúa af Sigvalda var mikill, hann hafði mikil áhrif á félags- og mennngarlífið. Leið Sigvalda til Grindavíkur var ekki auðveld. Þegar staða héraðslæknis í Keflavík losnaði árið 1929 upphófst mikið átakamál milli Læknafélagsins og Jónasar frá Hriflu sem þá var dómsmála- og heilbrigðisráðherra.
Læknafélagið sá til þess að einungis ein umsókn bærist um þetta starf en fyrir tilstilli manna í ráðuneytinu og hugsanalega Jónasar barst á borð umsókn frá Sigvalda Kaldalóns. Var Sigvaldi ráðinn til embættisins en Læknafélagið sem var á móti ráðningunni beitti ýmsum brögðum meðal annars að sjá til þess að enginn í Keflavík myndi hýsa hann.
Þrátt fyrir mótlætið þáði Sigvaldi starfið og sá Jónas frá Hriflu um að hann fengi húsaskjól í Grindavík og að bæjarbúar myndu reisa honum bústað sem þeir stóðu við.

Grindavík

Læknishúsið – Hamraborg, Vesturbraut 4. Byggt 1930. Teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Sigvaldi varð vinsæll í Grindavík, átti hann það til að kalla til sín fólk af götunni bara til þess eins að spila fyrir það og gestagangur einkenndi heimilislíf læknishjónanna, þess má geta að nokkrar þjóðþekktir einstaklingar bjuggu hjá þeim hjónum um tíma. Gunnlaugur Scheving listmálari bjó hjá þeim í rúmlega eitt ár og þar urðu til hans merkustu sjávarmyndir. Halldór Laxness bjó hjá þeim hjónum meðan hann vann að Sölku Völku. Steinn Steinar fékk einnig að njóta góðs af gestrisni læknishjónanna og vann við sín hugarefni.
Sigvaldi missti heilsuna mjög skyndilega sumarið 1945 og ári seinna fluttu þau hjón aftur til æskustöðva hans. Þá var starfs- og tónlistardögum hans lokið og einu ári síðar lést hann.
Árið 2004 var stofnað í Grindavík klúbbur til heiðurs Sigvalda Kaldalóns, klúbburinn hefur tvíþætt hlutverk annað er að vera bakhjarl knattspyrnudeilarinnar og hitt er að halda í heiðri verkum Sigvalda Kaldalóns með því að halda tónleika og menningartengda atburði.

Heimild:
-http://www.grindavik.is/listaverk
-http://grindavik.is/felogogsamtok og Jón Þ.Þór 1996,bls.315-320.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi. Læknishúsið er fyrir miðri mynd.

Oddur V. Gíslason

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1991 er frásögn um þegar „minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason“ var afhjúpaður í Staðarkirkjugarði.

Oddur V. Gíslason

Frá athöfninni.

„Minnisvarði um Odd V. Gíslason var afhjúpaður í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík 22. september 1990. Sr. Oddur var prestur í Grindavík og Höfnum 1879-1894 og var mikill forvígismaður um slysavarnir og fræðslu í þeim efnum.
Minnisvarðinn er gerður af listamanninum Gesti Þorgrímssyni, steyptur í brons og stendur á áletruðum steini. Hann er reistur að frumkvæði sóknarnefndar Grindavíkur og Hafna auk ættingja sr. Odds og Slysavarnarfélags Íslands.
Gunnar TómasonOddur beitti sér fyrir fræðslumálum í Grindavík og var á undan sinni samtíð um nýjungar. Þá stofnaði Oddur bjargráðanefndir um land allt sem voru undanfarar slysavarnadeilda sem voru stofnaðar seinna.
Við athöfnina tóku til máls Svavar Árnason, formaður sóknarnefndar, og herra Ólafur Skúlason biskup yfir Íslandi, sem minntust sr. Odds og starfa hans. Eftir athöfnina í Staðarkirkjugarði bauð bæjarstjórn Grindavíkur til kaffisamsætis í félagsheimilinu Festi. Þar rakti Gunnar Tómasson, varaforseti Slysavarnarfélags Íslands, æviferil Odds. Þar kom m.a. fram að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir og var orðinn þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Fræg er sagan af Oddi þegar hann rændi brúði sinni Önnu Vilhjálmsdóttur frá Kirkjuvogi í Höfnum á gamlársdag árið 1870 til að giftast henni.“

Oddur Vigfús Gíslason (8. apríl 1836 – 10. janúar 1911) var íslenskur guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður. Hann barðist lengi vel fyrir því að íslenskir sjómenn lærðu að synda, einnig að sjómenn tækju með sér bárufleyg svokallaðan, sem var holbauja með lýsi í og lak lýsið í sjóinn og lygndi með því bárurnar, og ýmsum öðrum öryggisatriðum fyrir sjómenn. Horft hefur verið til Odds sem frumkvöðuls sjóslysavarna á Íslandi.

Oddur V. Gíslason

Bátur Björgunarsveitar Þorbjörns í Grindavík, Oddur V. Gíslason.

Oddur var prestur, fyrst að Lundi í Borgarfirði frá 1875, svo á Stað í Grindavík var þar frá 1878 til 1894 þegar hann fluttist til Kanada og tók við preststörfum í Nýja Íslandi þangað til hann fluttist til Chicago og fór að læra til læknis á gamalsaldri og útskrifaðist, kominn á áttræðisaldur.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Oddur talaði fyrir því að sjómenn tækju upp að sigla á þilskipum í stað róðrarbáta.

Björgunarskip björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík er nefnt eftir Oddi.

Oddur stóði í mikilli útgáfustarfsemi, gaf meðal annars út fyrstu kennslubókina í ensku hér á Íslandi, gaf út fjölmörg rit tileinkuð sjómönnum og árið 1892 gaf hann út rit sem kallaðist Sæbjörg og fjallaði um ýmis mál sem honum þótti geta farið betur á Íslandi. Hann lést 10. janúar 1911, 74 ára gamall og var jarðsunginn í Brookside cemetery í Winnipeg, Manitoba.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1991, Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason afhjúpaður, bls. 18.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Oddur_V._G%C3%ADslason

Oddur V. Gíslason