„Mjólkurvinnslustöð Mjólkurbús Hafnarfjarðar“ var stofnuð árið 1934.
Jóhannes J. Reykdal á Þórsbergi var fenginn til að standa fyrir framkvæmdum. Var hann sendur utan og samdi um kaup á vélum. Byggingin sem tekin var í notkun árið 1947 þótti hin myndarlegasta. Var húsið byggt úr járnbentri steypu með korklögðum veggjum að innan. Það var tvílyft utan vélasalarins sem var í fullri hæð. Ketilshúsið var þar á bak við á neðri hæð og á efri hæðinni var skrifstofa og móttökusalur fyrir mjólk. Á bak við húsið var akvegur að húsinu og undir honum kolakjallari og sýrugeymsla. Á efri hæð í öðrum enda hússins var rannsóknarstofa, skyrgerð og geymsla. Talsverður styr stóð um Mjólkurvinnslustöðina vegna deilna milli mjólkurstöðva.
Mjólkurbú Hafnarfjarðar var lagt niður árið 1949 og var í húsinu ýmiss konar starfsemi þar til það var brotið niður árið 1981.
Mjólkurvinnslustöðin stóð á lóð Lækjargötu 22, suðaustan gatnamóta Öldugötu og Lækjargötu. Þar standa nú þrír upphleyptir mjólkurbrúsar á trépalli til minningar um stöðina.
Í Nýja Dagblaðinu 1936 er fjallað um „Mjólkurvinnslustöðina í Hafnarfirði„:
„Innan skamms tekur til starfa hin myndarlega mjólkurvinnslustöð er samvinnufélagið Mjólkurbú Hafnarfjarðar hefir látið reisa. Vegna þess að það veldur ærnum kostnaði fyrir kúaeigendur í Hafnarfirði og nágrenni að senda mjólk, sem þar er seld á staðnum, til gerilsneiðingar í Reykjavík, hafa þeir ráðizt í að koma sér upp eigin mjólkurvinnslustöð. Stendur samvinnufélag (Mjólkurbú Hafnarfjarðar) að framkvæmd þessari og var stofnfundur þess haldinn 17. ágúst 1934.
Kosin var 5 manna stjórn og er Ólafur Runólfsson formaður hennar, Ákveðið var að vinna sem allra fyrst að því að reisa mjólkurvinnslustöðina og var Jóhannes J. Reykdal á Þórsbergi fenginn til að standa fyrir framkvæmdum. Fór hann utan í fyrravetur og samdi um kaup á vélum.
Hafizt var handa um byggingu hússins í maí í vor. Hefir Jóhannes séð um fyrirkomulag þess. Er það vandað svo sem kostur er, en þó hefir verið gætt fullrar sparsemi.
Húsið og herbergjaskipun
Blaðið hefir átt tal við búnaðarmálastjóra. Segir hann, að húsið líti vel út, sé rúmgott, bjart og loftræsting virðist vera í góðu lagi. Vélar og öll áhöld séu ný og vélar hafi verið reyndar og virtar og virzt vera í ágætu lagi.
— Þó hefir búið enn aðeins vélar til að gerilsneyða mjólk, þvo flöskur og átappa, segir hann. Enn vantar öll tæki til
smjör-, skyr- og ostagerðar.
Byggingin er þó nægilega rúmgóð fyrir slíkar vinnsluvélar, enda mun skilvinda og strokkur koma innan skamms. Auk þess vantar enn kælivél og vél til gæðakönnunar mjólkur. Gæðakönnunartækin mun búið verða að útvega strax og kælivél fyrir 15. maí þ. á. Búið mun geta hreinsað og átappað um 1200 lítra af mjólk á klst. og hæfileg afköst á dag verða 3600 lítrar. — Að síðustu vil ég geta þess, að hér virðist vera vel til stofnað, ef svo reynist, sem aðstandendur búsins ætla, að búð geti borið sig, og um leið sparast stórfé í flutningskostnaði.
Byggingarkostnaður og bætt afkoma mjólkurframleiðenda
Jóhannes J. Reykdal skýrir blaðinu svo frá, að nú þegar séu í mjólkurbúinu 56 kúaeigendur og eigi þeir hátt á þriðja hundrað kýr.
— Hvað hefir mjólkurvinnslustöðin kostað?
— Hún kostar eins og hún stendur nú með vélum og áhöldum rétt um 80.000 kr. og vænti ég að allir sameignarmenn séu ánægðir með þann árangur.
Þeir framleiðendur er sent hafa mjólk sína til hreinsunar til Reykjavíkur síðastliðið ár hafa borgað 1/2 eyrir í flutningskostnað og vart mun hafa verið ódýrara fyrir Mjólkursamsöluna að senda mjólkina hingað suður aftur. Nú þurfa Hafnfirðingar um 2000 lítra af mjólk á dag og sparast því allt að 20.000 kr. árlega í flutningskostnað og eru það góðar rentur og afborganir af stofnkostnaði mjólkurvinnslustöðvarinnar. Það er því ekki að ófyrirsynju að ráðizt hefir verið í að byggja mjólkurbú hér
í Hafnarfirði.“
Claus Peter Kordtsen Bryde (f. 1909 á Jótlandi í Danmörku, d. 1985) var um tíma mjólkurbússtjóri Mjólkurvinnslustöðvarinnar.
Í ræðu Emils Jónssonar, alþingismanns, um efnið á Alþingi árið 1943, segir: „Þá skal ég geta þess í sambandi við mjólkurstöðina í Reykjavík, að hún hefur nú lengi verið algerlega ófullnægjandi, en samtímis því, að hún hefur ekki getað annað öllu því, sem hefur verið sent til hennar, þá hefur öðru mjólkurbúi, sem er sízt lakara, mjólkurbúi Hafnarfjarðar, verið haldið mjólkurlausu af völdum samsölunnar eingöngu. Mjólkurmagn það, sem þetta bú fær, hefur minnkað úr 400 þús. l. niður í 200 þús. l. árlega, síðan samsalan tók til starfa.
Þetta er vegna þess, að forráðamenn samsölunnar og mjólkurstöðvarinnar hér hafa alltaf haft horn í síðu mjólkurstöðvarinnar í Hafnarfirði. Þeir hafa viljað láta hana hætta að starfa, af því að hún er ekki í beinu sambandi við samsöluna hér. Og nú, þegar nýja mjólkurstöðin hér kemur upp, þá er ætlazt til þess, að mjólkurstöðin í Hafnarfirði verði lögð niður. Og nú þurfa Hafnfirðingar daglega að kaupa gerilsneydda mjólk héðan frá Reykjavík.
Með þessu ástandi skapast tekjuhalli af búinu í Hafnarfirði, sem samsalan telur ekkert eftir sér að borga. Það á að sanna það, að búið í Hafnarfirði eigi að leggja niður. — Svona hefur það verið á öllum sviðum. Það hefur verið reynt að þvinga alla þá, sem hafa ekki viljað senda mjólk til samsölunnar, til þess að hætta framleiðslu sinni. Nú er mjólkin flutt sunnan af Vatnsleysuströnd gegnum Hafnarfj. til Reykjavíkur, í stöð, sem er yfirfull, og síðan er hún flutt aftur til neytenda í Hafnarfirði, meðan stöðin þar hefur ekkert að gera af því að framleiðendur fá ekki að láta mjólk sína þangað vegna skipulagsins.
Þeim er ekki tryggt af hálfu samsölunnar, að þeir fái sama verð fyrir mjólkina, ef þeir láti hana til búsins í Hafnarfirði, og mér er sagt, að stjórn samsölunnar hafi reynt að aftra mönnum frá því að senda mjólk sína til Hafnarfjarðar.
Við það, að bæirnir stofni kúabú, er einnig unnið margt annað. Þá geta neytendur fengið nýja mjólk, þá geta þeir sjálfir haft eftirlit með öllum rekstrinum og tryggt stórum betri hollustuhætti, og þá geta þeir fengið upplýst, hvert sannvirði framleiðsluvörunnar raunverul. er.“
Heimildir:
-Nýja Dagblaðið, 28. tbl. 04.02.1936, Mjólkurvinnslustöðin í Hafnarfirði, bls. 2.
-https://www.althingi.is/altext/raeda/62/2406.html