Tag Archive for: Mógilsá

Kjalarnes

Í Fornleifaskráningu Borgarsögusafns Reykjavíkur vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði árið 2018 er m.a. fjallað um sögu, minjar og örnefni bæjar, sem land eiga að nýju vegastæði í gegnum Kjalarnes:

Fitjakot

Kjalarnes

Kjalarnes – bæir.

Fitjakot er á norðanverðum bökkum Leirvogsár. Jörðin á mörk á móti Varmadal að austan en Víðinesi og Álfsnesi að vestan. Gamli bærinn í Fitjakoti stóð á Brunnhól um 70 metra suðaustan við núverandi íbúðarhús. Síðast stóð þar timburhús sem reist var um 1930 og þá lá þjóðvegurinn um hlaðið. Núverandi íbúðarhús, sem var byggt 1950, stendur aðeins vestar, á Húsaflötum, en þar voru áður fjárhús. Þar var Kaupfélag Kjalarnesþings stofnað 15. október 1950 og var þar fyrst til húsa. Athafnamennirnir Sturlubræður áttu Fitjakot um tíma og notuðu jörðina til sumarbeitar.

Fitjakot

Fitjakot.

Fitjakot var áður nefnt Fitjar og var í eigu Viðeyjarklausturs 1395. Jörðin kemur fram undir eldra nafninu Fitjar, í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs 1395, en yngra nafninu Fitjakot í fógetareikningum frá 1548 til 1551.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarkirkju 1686 metin á 15 hundruð en á 10 hundruð 1695. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en dýrleiki óviss. Ábúandi var einn. Kvaðir voru meðal annars um mannslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar fimm kýr og tíu lömb. Torfrista, stunga og mótak til eldiviðar var sæmilegt. Leirvogsá var bæði til gagns og ógagns. Þar var hægt að veiða bæði lax og silung en hún spillti engjum og braut af túni. Stórviðri brutu stundum hey og hús. Þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 var Fitjakot í eigu konungs metið á 10 hundruð. Árið 1855 var jörðin konungseign metin á 10 hundruð.
Samkvæmt manntölum frá 1703 var einn ábúandi í Fitjakoti nema 1850 voru tveir.

Kollafjörður

Kollafjörður

Kollafjörður – minjar.

Jörðin Kollafjörður er skammt upp frá fjarðarbotni Kollafjarðar. Bærinn stóð við samnefndan læk sem nefnist Kollafjarðará. Bæjarstæði síðasta torfbæjarins er sunnan undir Kollsgili en var jafnað við jörðu. Við vettvangskönnun 2001 var talið líklegt að bærinn hefði staðið á þeim stað að minnsta kosti frá því á miðöldum og líklegt að minjar leynist þar undir sverði því greina mátti litar breytingar á gróðri, sem er vísbending um minjar.
Landbúnaðarráðuneytið keypti jörðina 1961 fyrir tilraunastöð fyrir klak og eldi laxfiska.

Kjalarnes

Kjalarnes – herforingjaráðskort.

Kollafjörður kemur fyrir í Kjalnesinga sögu, sem talin er rituð á síðustu áratugum 13. aldar. Þar segir frá því að skip kom á Leiruvog með írskum mönnum,þar á meðal Andríður ungur og ólofaður, mikill og sterkur, ekkjan Esja og maður sem nefndur var Kolli. Landnámsmaðurinn Helgi bjóla tók við þeim öllum og setti Kolla niður í Kollafjörð.

Kollafjörður

Kollafjörður 1906. Mynd frá dönsku mælingamönnunum.

Kollafjörður er talinn upp í fjarðatali 1312. Jarðarinnar er hinsvegar ekki getið fyrr en í fógetareikningum 1547 til 1553 en búseta hefur sennilega hafist þar fyrr.
Á árunum 1686 og 1695 var jörðin í eigu konungs og metin á 20 hundruð.

Kollafjörður

Kollafjörður.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin konungseign en dýrleiki óviss. Kollafjörður var þá ein af umboðsjörðum sem Margrét Pétursdóttir á Vallá, ekkja Daða Jónssonar sýslumanns, hélt ásamt Völlum og Gröf. Einn ábúandi var á heimajörðinni, tveimur þriðjungum, en einn þriðjungur nefndist Litli- Kollafjörður. Kvaðir voru um tvö mannslán í 5 ár, manns- og bátslán í 3 ár. Kostir voru fáir en torfrista og stunga var sæmileg. Mótak til eldiviðar var erfitt, silungsveiðivon lítil, rekavon nær engin, skelfiskfjara lítil og varla hægt að tala um heimræði því ekki var hægt að lenda nema á flóði. Landþröng var mikil, mikið af foræðum og skriður spilltu engjum.
Kaupverð Kollafjarðar var 804 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1839.

Kollafjörður

Kollafjörður.

Þegar jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var jörðin í bændaeign, með einum ábúanda, metin á 20 hundruð með Litla-Kollafirði.
Skriðuföll úr Esjunni hafa verið tíð og eftir aftaka rigningu 2. september 1886 urðu mikil skriðuföll á níu bæjum á Kjalarnesi eftir úrhellið. Í blaðagrein skömmu síðar var greint frá vatnsveðrinu og þeim skaða sem hlaust af því, þar segir um tjón á jörðinni: „Kollafjörður, kýrvöllur farinn af túninu, í bráð að minnsta kosti, og nokkuð af engjum. Sextíu hestar af heyi á engjum urðu undir skriðu. Eyrarnar niður frá bænum allar huldar skriðu.“

Kollafjörður

Kollafjörður – naust.

Mannvirki sem teiknuð voru á túnakort Kollafjarðar 1916 hafa flest horfið vegna túnasléttunar eða undir yngri mannvirki.
Litli- Kollafjörður var þriðjungur af heimajörðinni Kollafirði 1704.

Kollafjörður

Kollafjarðarrétt.

Árið 1916 var komið útihús þar sem bærinn Litli- Kollafjörður stóð áður sunnan Kollafjarðarár. Kolbeinn Kolbeinsson sem fæddur var í Kollafirði 1918 og var bóndi þar í nokkur ár, segir í örnefnalýsingu að hann muni eftir tóftum þar sem Litli- Kollafjörður stóð. Við vettvangskönnun 2002 var ekki hægt að sjá neinar bæjarleifar á staðnum. Þar stendur nú hús sem byggt er í gamla bæjarhólinn og var í fyrstu notað sem sumarhús en er nú heilsárshús, Arnarhóll.
Þegar Jarðatal Árna og Páls var gert 1704 var Litli Kollafjörður byggður sér með einum ábúanda. Þar voru kvaðir um eitt mannslán á vertíð. Þá var hægt að fóðra tvær kýr, 10 lömb og einn hest.
Hættur voru eins og á heimajörðinni en við bættist að áin gróf undan húsunum og beitarátroðningur olli miklum skaða.

Mógilsá

Mógilsá

Mógilsá – túnakort 1916.

Mógilsá er við Esjurætur innst í Kollafirði, við norðurhorn fjarðarins. Jörðin dregur nafn sitt af samnefndri bergvatnsá sem rennur vestan við bæinn. Kalksteinn var fluttur frá Mógilsá um 1870 og flutt til Reykjavíkur þar sem það var brennt í kalkofni við „Batteríið“. Kalk þaðan var notað sem bindiefni á Lækjargötu 10 í Reykjavík.
Árið 1963 keypti íslenska ríkið jörðina og þar hefur Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins verið síðan en hún var byggð upp fyrir þjóðargjöf Norðmanna, 1 milljón norskra króna, sem Ólafur V Noregskonungur afhenti. Bæjarstæðið var um 60 metra suðaustur af þjónustumiðstöð við Esjurætur. Við vettvangskönnun 2002 voru engar greinilegar leifar af bæjarstæðinu sem hafði verið sléttað og trjárækt á svæðinu en þó mátti greina vísbendingar um mannvist á litabreytingum í túninu.

Mógilsá

Mólgilsá – minjar.

Áin Mógilsá kemur nokkrum sinnum fyrir í Landnámu sem landamerki þegar sagt er frá landnámi Halls goðlausa, Helga bjólu Ketilssonar og Örlygs Hrappssonar. Hallur goðlausi nam land að ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár og bjó í Múla. Helgi bjóla Ketilsson nam einnig land að ráði Ingólfs, „…Kjalarnes allt millim Mógilsár og Mýdalsár…“ og bjó að Hofi. Helgi bjóla gaf síðan frænda sínum Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk en ekki er vitað hvaða lækur það er.

Mógilsá

Mógilsá – athöfn við vígslu aðstöðu Skógræktarinnar.

Jörðin var í eigu Viðeyjarklausturs 1395 og kemur þá fram í skrá um kvikfé og leigumála jarða klaustursins. Jörðin hefur orðið konungseign við siðaskipti og er hennar getið í fógetareikningum frá 1547 til 1552 varðandi landskuld og leigu.
Árið 1581 var Mógilsá lénsjörð fátækra presta í Skálholtsbiskupsdæmi. Jörðin var kirkjujörð Viðeyjarklausturs 1686-1695, metin á 15 hundruð og 13 hundruð og 80 álnir.
Mógilsá.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jarðadýrleiki og jörðin í eigu konungs sem hafði lagt hana til uppihalds presti á Mosfelli. Þá virðast gæði jarðarinnar hafa rýrnað frá því sem áður var og landskuld lækkað úr einu hundraði í 48 álnir. Skriður frá ánni Þverá og lækjum höfðu eyðilagt tún jarðarinnar. Kvaðir voru um eitt mannslán á vertíð en höfðu verið tvær tveimur árum áður og dagslættir tveir ef ábúendur voru tveir en þrír ef þeir voru þrír. Jörðin gat fóðrað sex kýr, tíu lömb og einn hest. Upprekstur geldnauta og hesta var frír á Hvannavöllum á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var léleg og ekkert mótak var í landi jarðarinnar en mótak hafði verið nýtt í landi eyðijarðarinnar Háheiðar sem lá undir Álfsnesi. Lítil von var um selveiði og reka.
Mógilsá
Sölvafjara var engin og lítil hrognkelsafjara en skelfiskfjara var frí á grandanum Leiðvelli og hafði verið lengi eins og fleiri jarðir í Kjalarneshreppi. Heimræði var ef fiskgengd var á sundin en aldrei verstaða fyrir aðkomufólk. Selstaða var í heimalandi. Vetrarþungt og veðrasamt var á Mógilsá.
Þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 var Mógilsá í eigu kirkjunnar með einum ábúanda og dýrleiki 13⅔ hundruð en neðanmáls er þess getið að mat sýslumanns sé 15 hundruð.
Árið 1855 var Mógilsá metin á 15 hundruð og var nyrsta kirkjujörð Mosfells.

Esjuberg

Esjuberg

Esjuberg – minjar.

Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Finna má dóm í Íslensku fornbréfasafni sem kveðinn var upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu.
Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem eru á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til þess að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi var á Esjubergi, sennilega komin 1912.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Landnámabók segir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, en Patrekur hafði sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð heilögum Kolumba.
Kirkja Örlygs er talin vera fyrsta kirkjan á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.

Leiðvöllur

Leiðvöllur.

Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesinga sögu sem er talin rituð á tímabilinu 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og segir „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið lögð niður vegna skriðufalla.
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, svo um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg kemur fram í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.

Esjuberg

Esjuberg.

Esjuberg kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs. Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.

Esjuberg

Esjuberg.

Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni.

Esjuberg

Esjuberg – fótur undan loftvarnarbyssu við Leiðhamra.

Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknaðist jarðardýrleiki beggja með heimajörðinni.
Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var þingstaður á Esjubergi.
Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum árið 1816 þegar jörðin var seld úr eigu konungs var 2100 ríkisdalir.

Esjuberg

Esjuberg – byssustæði.

Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund.

Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.
Innan úttektarsvæðisins sem skráð er undir Esjuberg er einstakur minjastaður sem var þingstaður en hann er horfinn. Aðrar minjar eru herminjar á Leiðhömrum.

Móar

Móar

Móar – minjar.

Bærinn Móar stendur sunnan við Vesturlandsvegar og neðan við Esjuberg. Á Móum bjó Sr. Matthías Jochumsson (1835-1920) þjóðskáld í sex ár. Það voru honum þungbær ár því á þeim tíma missti hann tvær eiginkonur í blóma lífsins. Hann flutti að Móum í júní 1867 með Elínu konu sinni sem lést einu og hálfu ári síðar á annan dag jóla 1868. Tveimur árum eftir það, 1870 gekk hann að eiga Ingveldi Ólafsdóttur en hjónaband þeirra varð mjög skammvinnt því hún dó úr lungnabólgu á annan í hvítasunnu 1871. Þriðja og síðasta eiginkona Mattíasar var ung heimasæta í Saurbæ Guðrún Runólfsdóttir sem hann giftist árið1875 og lifði hún mann sinn. Á þeim tíma sem þau voru að draga sig saman var hún selráðskona í Saurbæjarseli á Blikdal sumarið 1872 en tóftir selsins standa vel ennþá. Þaðan sendi hún honum ber í fötu og nokkrar línur með. Hann brást við hin glaðasti og reið fram á dal til að þakka henni fyrir sendinguna.

Móar

Móar – túnakort 1916.

Á Móum bjuggu hjónin Teitur Guðmundsson og Unnur Ólöf Andrésdóttir, frá 1950 til 1985. Þau voru í forystu í alifuglarækt á landinu og ráku þar stórt kjúklingabú. Þau vélvæddu fóðrun fugla í varpi og uppeldi og komu sér upp aðstöðu og vélakosti til slátrunar. Búið er elsta hænsnabú á Kjalarnesi og eitt af stærstu búum á landinu. Á bæjarstæðinu stendur eitt af elstu íbúðarhúsum á nesinu sem Sigríður Jónsdóttir byggði 1910 að því er kemur fram í bókinni Kjalnesingum og því væntanlega sama hús og teiknað er á túnakort 1916.
Móar voru í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395, þá getið í skrá um kvikfé og leigu mála klaustursins. Þeir komust síðar í eigu konungs og eru í fógetareikningum frá 1547-1552. Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs á árunum 1686 og 1695 metin á 20 hundruð.

Móar

Móar.

Árið 1703 fékk Niels lögmaður Kier konungsbréf um að mega fá Kjósarsýslu eftir Jón Eyjólfsson tengdaföður sinn og fjórar jarðir sem Jón hafði haft frá 1684, Hrísbrú, Varmadal, Móa og Saltvík.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs og var leigð til sýslumannsins Jóns Eyjólfssonar, dýrleiki var óviss. Þá var tvíbýli á jörðinni til helminga. Kvaðir voru um tvö mannslán á vertíð árlega frá því Jón Eyjólfsson tók við (1684) en hafði verið eitt áður ásamt öðrum kvöðum sem Jón hafði ekki kallað eftir. Á jörðinni var hægt að fóðra sex kýr, tíu lömb og tvo hesta. Upprekstur geldnauta og fjár var á Hvannavelli á Mosfellsheiði. Mótak til eldiviðar frá Esjubergi minnkandi notað. Nokkur von var um reka, hrognkelsa- og skelfiskfjöru. Heimræði var allt árið en verstaða hafði aldrei verið. Mjög stórviðrasamt var sem spillti túnum ásamt vatni. Selstöðu hafði jörðin hjá Esjubergsseli að eign eða láni.
Með konungsúrskurði 26. apríl 1756 fékk Þórður Þórhallsson prestur í Saurbæ og Brautarholti Móa frítt til búsetu í staðinn fyrir Skrauthóla sem urðu fyrir stórskaða af skriðu 1748.
Þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 var jörðin enn lénsjörð fyrir prestinn, metin á 20 hundruð.

Sjávarhólar

Sjávarhólar

Sjávarhólar – minjar.

Bærinn á Sjávarhólum stendur um 200 m ofan við austanverða Hofsvík á einu af þremur berghlaupum á Kjalarnesi, Sjávarhólshlaupinu sem féll úr Esjunni fram í Hofsvík á tímabilinu 9000 – 5000 f. Kr. Jörðin dregur nafn sitt af urðarhólum við ströndina og á nafnið vel við landslagið á þessum slóðum.120 Núverandi íbúðarhús var byggt 1923 á bæjarstæðinu.
Sjávarhólar koma fyrir í Kjalnesingasögu undir nafninu Hólar. Sögupersónan Búi kom þar á leið sinni heim á Esjuberg eftir að hafa vegið Þorstein á Hofi og lagt eld að hofinu og lýsti þar víginu á hendur sér.

Sjávarhólar

Sjávarhólar – túnakort 1916.

Árið 1536 voru gerð arfskipti eftir séra Brynjólf Gizurarson og erfðu fjórar systur hans sex hundruð og áttatíu álnir í jörðinni, sem Alexíus ábóti í Viðey keypti. Í Sjávarhólabréfi frá 1537/8 er greint frá kaupum Alexíusar ábóta í Viðey á parti í Sjávarhólum. Klaustrið hefur selt jörðina fyrir siðaskipti því hún kemur ekki fyrir í fógetareikningum. Á Esjubergsþingi 1541 var útnefndur dómur af Pétri Einarssyni umboðsmanni konungs í Kjalarnesþingi um bréf Viðeyjarklausturs fyrir jörðunum Skrauthólum, Bakka og Sjávarhólum. Niðurstaða dómsins var að bréf Alexíusar fyrir jörðunum voru lögleg og gild. Jörðin var í einkaeign metin á 20 hundruð 1686 en 10 hundruð 1695.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin metin á 10 hundruð með einum ábúanda, eigandanum Þórunni Sigurðardóttur prestsekkju. Kvaðir voru þá engar en áður, þegar jörðin var leigð, var eitt mannslán á vertíð eða tvö ef ábúendur voru tveir. Þá var hægt að fóðra sex kýr, eitt ungneyti, tíu lömb og einn hest á jörðinni. Torfrista var lítil en mótak til eldiviðar nægilegt. Rekavon var nokkur svo og hrognkelsafjara en skelfiskfjara var að mestu eydd en sölvatekja var næg fyrir heimamenn. Heimræði var allt árið en verstaða hafði aldrei verið fyrir aðkomuskip eða sjófólk nema stundum tveggja manna far frá Öfugskeldu sjálfskyldu frítt. Talið var að veiða mætti sel ef vildi. Landþröng var mikil og fé var mjög flæðihætt. Stórviðrasamt og lækjarskriða grandaði engjum.

Sjávarhólar

Sjávarhólar.

Í maí 1748 féll mikil aurskriða úr Esjunni sem aftók mikinn part af landi Öfugskeldu og Sjávarhóla. Eggert og Bjarni voru á ferð á Kjalarnesi 1752 og nefna skriðuhlaupið og segjast þá hafa séð birkilurka sem voru sverari en stærstu tré í Húsafells- og Fnjóskadalsskógum. Talið er að skriðan hafi átt upptök neðan undir Gleið og fallið fram á milli Skrauthóla og Sjávarhóla. Mestu skriðuföll sem heimildir eru um á svæðinu urðu eftir úrhelli sem varði í rúmar þrjár klukkustundir 2. september 1886. Blaðið Ísafold greindi frá tjóni sem skriðan olli rúmri viku síðar: „Sjávarhólar (19.1 hdr. Jörð). Þriðjungur af túninu undir skriðu eða leir og 2/5 af engjum.“
Sjávarhólakot var hjáleiga Sjávarhóla 1704 en aðrar heimildir geta ekki um kotið. Kotið hefur sennilega verið niður við sjóinn þar sem sjór braut af túninu 1704 svo það gæti hafa verið þar sem voru útihús frá Sjávarhólum 1916.
Þegar Jarðabókin var gerð 1704 reiknaðist jarðadýrleiki með heimajörðinni. Landskuld átti að greiðast með því sem ábúandi megnaði að gjalda og skyldi jarðeigandi leggja að mestu leyti við til húsabóta. Þá var hægt að fóðra þar eina kú og torfrista, stunga og eldiviðartak var í heimalandi en sjór braut af túninu. Kvaðir voru engar og mátti ábúandinn fleyta hálfum báti sínum að vild.

Sjávarhólar

Sjávarhólar.

Öfugskelda var býli sem var sennilega um 30 metra suðaustur af Skrauthólum III og um 570 m norðaustur af Sjávarhólum. Þar er túnblettur sem nefnist Öfugskelda sem hafði fylgt Sjávarhólum en var lagður til Skrauthóla 1918.131 Þar eru minjar sem talið er að gætu hafa verið hluti af býlinu skráðar undir Sjávarhóla, rúst, gerði og hlaðinn garður að lítilli keldu sem kallast Ófeigskelda. Býlið tók af í skriðuföllum 1748 og var sennilega ekki byggt upp aftur eftir það. Samkvæmt bréfi sem séra Þórður Þórhallsson prestur í Saurbæ og Brautarholti sendi konungi 1754 segir að skriða 1748 hafi skemmt hús og tún svo mikið í Öfugskeldu að ekki sé hægt að byggja þar upp aftur. Býlið tók af í skriðuföllum 1748 Jarðarinnar er getið 1510 í dómi um eignaskipti Gríms Pálssonar og Þorvarðs Erlendssonar lögmanns þar sem Grímur selur Þorvarði meðal annars fjórar jarðir á Kjalarnesi. Í Sáttarbréfi bænda 1515 kemur fram að Grímur og Þorleifur sonur hans eiga Arnarholt og Öfugskeldu. Í júlí sama ár kemur fram að þeir feðgar fá Öfugskeldu og Arnarholt af Hólmfríði Erlendsdóttur í skiptum fyrir Sandgerði á Miðnesi.

Sjávarhólar

Sjávarhólar.

Árið 1549 var kveðinn upp alþingisdómur og Sandgerði var dæmt eign Þorleifs Grímssonar en Öfugskelda og Arnarholt dæmd af honum. Jörðin var í einkaeigu metin á 15 hundruð 1686 en 10 hundruð 1695.
Öfugskelda var bújörð 1704 metin á 10 hundruð og var í eigu fimm aðila. Þórunn Sigurðardóttir prestsekkja á Sjávarhólum átti mest, þrjú hundruð og fjörutíu álnir en hinir eitt hundrað og áttatíu álnir hver. Ábúandi var einn og var eigandi að einum lægri hlutanna. Þá var þar hægt að fóðra þar sex kýr, tvö ungnaut, tíu lömb og einn hest. Kvaðir voru engar. Torfrista og stunga voru sæmilegar en mótak þurfti að kaupa annars staðar. Landþröng var mikil og skriða spillti túnum og engjum.

Sjávarhólar

Sjávarhólar – útihús.

Öfugskelda hefur sennilega farið í eyði eftir skriðufall 1748. Ölfusvatnsannáll 1747 segir frá því að fallið hafi mikilfengleg skriða eða jarðarumrótan úr Esjunni sem tók af mikinn part af landi Öfugskeldu og Sjávarhóla en af bréfum frá þessum tíma kemur fram að skriðan hefur fallið í maí 1748 frekar en 1747. Fram kemur í bónarbréfi séra Þórðar Þórhallssonar í Saurbæ til konungs frá 10. júlí 1754 að „skriðan hafi skemmt hús og tún á Öfugskeldu, svo þar megi ekki aftur upp byggja, og að skriðan hafi stórskemmt tún og úthaga bæði á Skrauthólum og Sjávarhólum.“
Öfugskeldu er ekki getið í Jarðatali Johnsens 1847 en í neðanmálsgrein við Sjávarhóla kemur fram að jarðabækur nefni jörðina en hennar sé ekki getið í jarðabók 1802 og virðist hún þá hafa verið orðin partur af Sjávarhólum. Jarðadýrleiki hennar var 10 hundruð eins og Sjávarhóla.

Vallá

Vallá

Vallá – minjar.

Vallá er austan og ofan við Hofsvík. Lögbýli um aldir og þar voru ýmist eitt eða tvö býli fram til 1800, sem voru aðgreind með austur, vestur, eystri, vestri, stóra, minni, innri, ytri og Syðsta Vallá kemur einnig fyrir. Bæði býlin eru skráð undir Vallá. Samkvæmt túnakorti frá 1916 var bæjarstæði Vallár vestri þar sem nú stendur bygging, tvær hæðir og ris með þremur kvistum, sem byggð var 1958 við steinsteypt íbúðarhús sem reist var um 1923. Bæjarstæði Vallár eystri var samkvæmt túnakorti og örnefnalýsingu í suðaustur frá því vestara, steinsnar austan við eldri farveg Vallárlækjar á milli bæjanna sem var þá á mörkum jarðanna. Vallá eystri fór í eyði um aldamótin 1800 og var pörtuð niður. Túnið gekk þá undir heimajörðina en annað var keypt af bændum í Hofshverfi.

Vallá

Vallá og Litla-Vallá – túnakort 1916.

Farvegi Vallárlækjar var breytt einhvern tíma á milli 1900 og 1916 af Benedikt Magnússyni bónda á Vallá og eftir það rann lækurinn norðan og vestan við bæinn. Þegar Guðrún Bjarnadóttir, sem bjó á Vallá frá 1925-1957, skráði örnefni fyrir Vallá, sennilega á tímabilinu 1950-57, hét ávöl bunga suðaustur heiman frá „Gamli bær“ og þá hafði sést móta fyrir bæjarrústum til skamms tíma. Vitað er um tvö önnur býli byggð í landi jarðarinnar, hjáleigan Grund var byggð frá því um 1684 fram undir 1704 og býlið Litla Vallá var byggt úr landi jarðarinnar nokkru fyrir aldamótin 1900.

Vallá

Vallá – leifar rafstöðvar.

Fyrsta rafstöðin í Kjalarneshreppi var reist á Vallá þegar Vallárlækur var virkjaður 1930. Stöðin var eingöngu notuð til ljósa og sá hún þremur bæjum fyrir rafmagni, Vallá, Litlu Vallá og Skrauthólum ásamt skólanum á Klébergi. Stöðvarhúsið stóð við lækinn fyrir austan Fólkvang, því hefur verið rutt um koll einhvern tíma og sjá má steypuleifar hússins á lækjarbakkanum.
Benedikt Steinar Magnússon (1929-1970) stofnandi steypustöðvarinnar B. M. Vallá í Reykjavík var fæddur og uppalinn á Vallá. Hann lagði grunninn að fyrirtæki sínu í fjörunni á Vallá þar sem hann mokaði upp steypuefni. Síðar flutti hann inn tæki og stofnaði fyrirtækið Steypumöl hf. til malarnáms í Álfsnesi. Steypuverksmiðjan B. M. Vallá reis svo í Krossamýri við Elliðavog.
Vallá
Vallá er í landnámi Helga bjólu en ekki er vitað hvenær jörðin byggðist en Vallá er til umfjöllunar í bréfi frá 5. maí árið 1377 þegar Brynjólfur Bjarnason seldi Valgarði Loftssyni jörðina „Syðstu- Vallá“ á Kjalarnesi. Þremur árum síðar, í júlí 1380, lét Valgarður Pál ábóta í Viðey hafa jörðina gegn því að hann kenndi syni hans í sex ár. Í skrá frá 1395 um kvikfé og leigumál á jörðum klaustursins eru tveir bæir á Vallá. Frá sama ári er skrá yfir jarðir sem fóru undir Viðeyjarklaustur frá því að Páll ábóti kom þangað og þar er Vallá talin upp og metin á 20 hundruð.
Vallá
Í Fógetareikningum frá 1547 til 1552 er talað um Stóru- Minni, Innri- og Ytri Vallá. „Sterrewalde og Minnewalde, Stere Walde og Mijnder Walde, Sterre Waldo og Mijnde Waldo, Inderreuattle og Ittherwasde“ varðandi landskuld. Eystri og Vestri Vallá voru báðar metnar á 20 hundruð á árunum 1686 og 1695 í einkaeigu og konungs.
Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að gerð Jarðabókarinnar sumarið 1704 voru þeir í tjöldum á Vallá dagana 26.-28. júní. Þá voru tvö býli á jörðinni, Eystri- og Vestri Vallá hvort um sig metið á 20 hundruð. Kvaðir voru um eitt mannslán á vertíð af allri jörðinni. Þá var hægt að fóðra sjö kýr, tíu lömb og einn hest á allri jörðinni sem hafði haft fría hesta- og nautagöngu á sumrin á Hvannavöllum á Mosfellsheiði. Torfristu og stunga höfðu býlin í sínu landi en mótak var í landi Vestri Vallár. Þá var nokkur rekavon. Heimræði var allt árið og gengu skip heimamanna eftir hentugleikum en engin verstaða hafði verið fyrir aðkomufólk. Landþröng mikil og hætt við skriðum og vatnságangi á tún.

Grund

Grund.

Vallá var í bændaeign þegar Jarðatal Johnsen 1847 var tekið saman með einum ábúanda, metin á 20 hundruð. Neðanmáls segir að sýslumaður telji jörðina aðeins 12 hundruð. Í viðauka er eyðihjáleigan Grund sögð með Vallá.
Grund hafði verið hjáleiga Vallár vestri í nokkur ár 1704, þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð. Hún hafði þá byggst fyrst rúmum tuttugu árum áður, eða um 1684, og var byggð í nokkur ár en var farin í eyði þegar Jarðabókin var gerð og ekki var talið að hægt væri að byggja hana aftur nema til skaða fyrir heimajörðina.
Hjáleigan virðist ekki hafa verið byggð aftur.

Grund

Grund.

Í örnefnalýsingu Vallár segir að „Í norður frá bænum í um 500 m fjarlægð er slétt flöt harðlend, ílöng frá austri til vesturs. Hún nefnist Grundir. Þar var býli fyrir löngu. Garðlag heita vel sjáanlegar túngarðsleifar vestarlega á Grundunum.“ Grundir er enn örnefni á túni austan við íbúðarhúsið Gil en leifar túngarðs voru ekki sjáanlegar. Engar fornleifar eru skráðar undir býlið sem, ásamt túngarði, er skráð sem fornleifar undir Vallá.
Litla- Vallá var byggð rétt fyrir aldamótin 1900 á Hjallhól, um 200 m norðvestan við eldra bæjarstæðið á Vallá.
Á túnakorti kemur fram að: „Litla Vallá [var] byggð fyrst nokkru fyrir aldamótin að sögn. Afgirti bletturinn tekin til ræktunar og sléttaður að nokkru af húsmanni þeim sem þar er enn. Slægjur víða umhverfis.“162 Býlið var sameinað heimajörðinni þegar ábúð lauk þar 1960 en húsin seld, ásamt 1 hektara lands, sem sumarbústaður. Þar standa nú (2018) íbúðarhús og hlaða frá 1936 á bæjarstæðinu. Engar fornleifar eru skráðar undir býlið sjálft sem er, ásamt kálgarði og útihúsum, skráð eftir túnakorti sem fornleifar undir Vallá.

Arnarholt

Arnarholt

Arnarholt – minjar.

Jörðin Arnarholt á land upp í Esjuhlíðar og gamla bæjarstæðið var undir Bergi, að nokkru leyti á Krosshól sem er stór hóll með pöllum, líkt og tröppum. Býlið Brekka var þar norðvestan í hólnum og niður af bænum voru bakkar með sjónum sem hétu Húsabakkar. Arnarholt var komið í eyði 1908 þegar gerð var bæjateikning af Brautarholtshverfi sem taldi þá tíu bæi.

Brautarholt

Brautarholtshverfi 1906.

Á túnakorti frá 1916 kemur fram að jörðin hafi verið lögð undir Brautarholt 10-20 árum fyrr og að þar sé hvorki kálgarður né bæjarhús eftir. Samt sem áður eru þar teiknuð fimm hús, tvö voru orðin tóftir, þrjú með veggjum af grjóti og torfi þar af eitt með standþili. Hefðbundinni búsetu á gamla bæjarstæðinu virðist hafa lokið 1906 þegar Sturlubræður eignuðust jörðina en þeir voru einnig eigendur að Brautarholti þar sem þeir ráku stórt kúabú og fluttu mjólkina sjóleiðis til Reykjavíkur og eftir það fylgdi Arnarholt Brautarholti þar til 1927 að Thor Jensen stórkaupmaður keypti Arnarholt, Brekku og Holt af Ólafi Bjarnasyni í Brautarholti.

Arnarholt

Arnarholt – túnakort 1916.

Thor nýtti landið til sumarbeitar fyrir nautgripi sína og byggði mikið fjós og íbúðarhús á Árnamel. Þegar hernámsliðið nam hér land hreiðruðu þeir um sig í fjósinu og innréttuðu það sem klúbb og mötuneyti og reistu skálahverfi norðan við byggingar í Arnarholti á Árnamel. Þegar skipti urðu á herliði 26. janúar settust 485 menn úr fótgönguliðssveit Bandaríkjahers að í Arnarholti.
Árið 1943 keypti Reykjavíkurbær jarðirnar af Thor Jensen og kom á fót vistheimili fyrir skjólstæðinga sína.
Arnarholt
Arnarholt kemur fyrst fyrir í máldaga Brautarholtskirkju 1491 varðandi jarðamörk og næst í jarðaskiptabréfi Þorvarðs lögmanns Erlendssonar og Gríms bónda Pálssonar á Möðruvöllum árið 1501 þar sem Grímur lét meðal annars eftirtaldar jarðir á Kjalarnesi, Hof á 60 hundruð, Arnarholt fyrir 40 hundruð, Skrauthóla fyrir 20 hundruð og Öfugskeldu fyrir 10 hundruð.
Árið 1506 seldi Stefán Jónson biskup Bjarna Jónssyni Bæ í Lóni fyrir Arnarholt á Kjalarnesi.
Sumarið 1510 var jörðin til umfjöllunar í Tylftardómi vegna eignaskipta Gríms Pálssonar og Þorvardz Erlendssonar.

Arnarholt

Arnarhamarsrétt.

Árið 1515 kemur jörðin fram í sáttargjörðarbréfi bænda þar sem fram kemur að Grímur bóndi Pálsson og sonur hans Þorleifur eigi Arnarholt og Ögurskeldu á Kjalarnesi. Síðan kemur Arnarholt fram í fógetareikningum frá 1547 til 1550 varðandi landsskuld og leigukúgildi.
Konungur fékk einn þriðja af Arnarholti 1641 og á árunum 1686 til 1695 var það í eigu konungs og einkaaðila metið á 40 hundruð.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var jarðardýrleiki Arnarholts 40 hundruð með þremur ábúendum. Eigandinn bjó á stærsta partinum tuttugu og sjö og hálfu hundraði, annar ábúandi á sjö og hálfu hundraði og sá þriðji bjó á parti sem metinn var á fimm hundruð, hjáleiga kölluð Sigurðarhús.

Arnarholt

Arnarholt Camp – uppdráttur.

Kvaðir voru um skipsróður allt árið af hverjum ábúanda og ef einhver þeirra væri hæfur sem formaður átti hann að vera það kauplaust. Á tveimur fyrrnefndu pörtunum var hægt að fóðra átta kýr, tólf lömb, fimmtíu ásauði og geldfé, og fimmtán hesta. Fjárupprekstur var átölulaus og frír upp á Esju ásamt öðrum jörðum á Kjalarnesi. Útigangur á vetrum var góður og brást yfirleitt ekki. Skógarítak í Stórabotnsskógi við Hvalfjörð til raftviðar og kolgjörðar uppá þrjá hesta til samans árlega sem Sigurður Núpsson hafði gefið til jarðarinnar 1690.

Arnarholt

Arnarholt – herminjar.

Torfrista og stunga var jörðinni hjálpleg og reiðingsrista var góð. Móskurður til eldiviðar var nægur og góður sem leiguliðar gátu brúkað að vild. Sölva- og hrognkelsafjara var lítil en þangtekja var talin næg til eldiviðar en lítið notuð. Rekavon var góð fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var gott og heimræði var árið um kring og lending var óbrigðul á meðan útsjór er fær. Engjar voru litlar og snöggar, vatnsból var slæmt og þraut oft. Þá braut sjór smám saman land af túninu.

Arnarholt

Arnarholt – herminjar.

Hjáleigur Arnarholts voru fjórar 1705 samkvæmt Jarðabókinni. Fyrrnefnt Sigurðarhús var fyrsta hjáleigan sem hafði þá verið byggð í langan tíma, önnur var Brekka sem byggð var fyrst 30 árum áður, um 1675, þriðja var Hryggur „Hriggur“ sem byggðist eitthvað fyrr en Brekka og fjórða var Á Bergi sem byggðist fyrst ellefu árum fyrir skráningu jarðabókarinnar, um 1694. Eitt tómthús var á Arnarholti „Naudveria“ öðru nafni Sigvatshús sem hafði verið þá verið byggt í 40 ár eða frá 1665.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Arnarholt í bændaeign, dýrleiki hafði þá lækkað um nærri helming og var hún metin á 23 hundruð en sýslumaður mat hana aðeins á 20 hundruð.

Ártún

Ártún

Ártún – fornleifar.

Tóftir síðasta torfbæjarins í Ártúni standa á bæjarhól skammt ofan við Vesturlandsveg vestan Blikdalsár. Búið var í bænum fram til ársins 1956 en þá fór jörðin í eyði. Jörðin nær frá mynni Blikdals í sjó fram. Mörk jarðarinnar að norðan eru við jörðina Dalsmynni og landspildurnar Melagerði og Melavelli sem voru seldar út úr jörðinni 1975 og 1979. Að sunnan eru mörkin á móti jörðinni Bakka og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni.
Ártúns er getið í máldaga Saurbæjarkirkju 1575, var þá annað af tveimur kotum í eigu kirkjunnar. Jörðin var í eigu Saurbæjarkirkju og metin á 15 hundruð 1695.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var jörðin enn í eigu kirkjunnar, metin á 15 hundruð. Í landamerkjabréfi fyrir Saurbæ 1890 kemur fram að Ártún átti óskipta beit á Blikdal og slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.

Ártún

Ártún – túnakort 1916.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var Ártún kirkjujörð Saurbæjarkirkju í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns með einum ábúanda, metin á 15 hundruð. Kvaðir voru um mannslán allt árið heim á Saurbæ eða fram á Kjalarnes. Á jörðinni mátti fóðra fjórar kýr, einn kálf, tíu lömb og hægt var að hafa þrjátíu sauði og tvö hross í útigangi. Selstöðu og beit hafði jörðin fría allt árið á Blikdal í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var bjargleg en reiðingsrista lítil. Móskurður til eldiviðar, sölvafjara og fjörugrös voru í landi Saurbæjar. Þang til eldunar var nægilegt og rekavon nokkur. Stórviðrasamt svo hætt var bæði húsum og heyjum. Vatnsból var erfitt á vetrum og sauðfé var hætt fyrir flóðum. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending.

Ártún

Ártún – bæjarhóll – uppdráttur.

Í Ártúni er að finna einstaka minjaheild. Búsetulandslag og minjar hafa ekki orðið fyrir miklu raski eftir að búskapur lagðist af á jörðinni 1956 og eru gott dæmi um búsetu á svæðinu. Bæjarhóllinn er í góðu ásigkomulagi með tóftum síðasta bæjarins og útihúsum með kartöflugarði fyrir framan. Búið var í bænum fram til ársins 1955 en eftir það hefur vegfarendum gefist kostur á því að fylgjast með hnignum bæjarhúsanna á bæjarhólnum þar sem þau hafa með tímanum breyst í rúst. Bæjarhóllinn hefur mikið sjónrænt gildi því auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig þarna hefur verið umhorfs á meðan búið var þar. Skammt norðaustur af bæjarhólnum er greinileg fjárhústóft með heygarð í miðjunni sem rúmaði 50 kindur. Þá eru einnig töluverð ummerki eru eftir veru hersins innan jarðarinnar og þar eru skráðar allmargar herminjar. Flestar eru norðan og ofan við bæinn, svæði eða holur sem rutt hefur verið uppúr til hliðanna.

Ártún

Ártún – skotbyrgi.

Að sögn Kristrúnar Óskar Kalmansdóttur sem var ein af síðustu íbúum voru svæðin notuð sem stæði fyrir loftvarnarbyssur og í tveimur þeirra eru steyptar undirstöður um 50 x 50 cm með járnhring í miðjunni. Hermennirnir notuðu minni holurnar til að leynast í og strengdu græn net yfir. Ártún hefur einstakt gildi fyrir sögu kvikmyndagerðar á Íslandi en það var mikið notað sem kvikmyndaver á árdögum hennar um miðja síðustu öld. Loftur Guðmundsson (1892-1952) ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður tengdist staðnum og átti sumarbústað sem stóð ofan við bæinn. Hann gerði fyrstu íslensku kvikmyndina í fullri lengd 1949 „Milli fjalls og fjöru“ sem var jafnframt fyrsta íslenska talmyndin. Í þeirri mynd var „bærinn“ í myndinni torfbærinn í Ártúni en hann kom einnig við sögu 1950 í „Síðasti bærinn í dalnum“ og þar bjuggu Bakkabræður 1951 í „Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra“. Þá kom Ártún lítillega við sögu 1954 í „Sölku Völku“ og 1957 eldaði tröllskessan „Gilitrutt“ matinn í Ártúni. Við skráningu 2010 gaf Kristrún Ósk Kalmansdóttir greinagóðar upplýsingar um minjar á jörðinni og því er vitað um síðasta hlutverk flestallra minjanna.

Saurbær

Saurbær

Saurbær – minjar.

Saurbær á Kjalarnesi er fornt höfuðból og kirkjustaður á sjávarbakka sunnan Hvalfjarðar. Þar hefur verið kirkja frá því um 1200 sem hefur átt margt góðra gripa í gegnum tíðina. Árið 1856 var byggð þar timburkirkja sem var svipuð Brautarholtskirkju sem reist var 1857 og var yfirsmiður beggja Eyjólfur Þorvarðarson snikkari á Bakka. Kirkjan sú fauk af grunni sínum 14. nóvember 1902 nálægt miðnætti og fór yfir sig heila veltu. Tveimur árum síðar 1904 var vígð ný steinsteypt kirkja sem Eyjólfur Runólfsson kirkjueigandi í Saurbæ lét reisa og er nú ein af friðuðum kirkjum í Kjalarnesprófastdæmi.195 Eyjólfur Runólfsson var þekktur fyrir lækningar sem hómópati og ljósfaðir og tók á móti um 600 börnum á Kjalarnesi og í Kjós.

Saurbær

Saurbær.

Í Saurbæ hafa búið nafntogaðir menn og talið er að snemma á 13. öld hafi Árni „óreiða“ Magnússon skáld og goðorðsmaður búið þar. Árni, sem nefndur er í Sturlungu, var giftur Hallberu dóttur Snorra Sturlusonar og fékk með henni Brautarholt og mikið annað fé. Árni skildi síðar við Hallberu og keypti þá Saurbæ á Kjalarnesi og bjó þar.
Enskir sjóræningjar eru sagðir hafa komið að Saurbæ árið 1424 og látið ófriðlega, réðust inní kirkjuna og handtóku umboðsmann Dana, sem hafði leitað þar hælis, og rændu meðal annars vopnum og hestum.
Sigurður lögmaður Björnsson (1643-1723) bjó í Saurbæ frá 1687 til æviloka 1723. Hann var fyrst landskrifari í sjö ár síðan lögmaður sunnan og austan frá 1677 til 1705 og sýslumaður Kjósarsýslu, fékk veitingabréf fyrir henni 1683.199 Sigurður er talinn hafa verið fyrirmynd Halldórs Laxness að Eydalín lögmanni í Íslandsklukkunni. Í hans tíð eignaðist kirkjan merka gripi þar á meðal altariskertastjaka, hurðarhring og kirkjuklukkur. Í manntali 1703 er jörðin nefnd Stóri Saurbær og 30 manneskjur skráðar þar.
Úr landi jarðarinnar voru byggðar jarðirnar Ártún og Hjarðarnes, afbýlið Litli- Saurbær og hjáleigan Stekkjarkot. Jörðinni var síðan skipt upp á milli erfingja 1930 í tvær jarðir og nefnist vestari helmingurinn Dalsmynni.

Saurbær

Saurbær – braggaleifar.

Á stríðsárunum var herinn með töluverð umsvif í kringum Saurbæ og þegar herliðið fór eignaðist Ólafur í Saurbæ nokkuð af bröggum og öðru dóti á vægu verði. Í Dalsmynni reisti hernámslið Breta herstöð, skálahverfi fyrir ofan túngarðinn vestan við núverandi vegarstæði, fallbyssuvígi fyrir neðan túnið ásamt því að reisa líka nokkra skála og vegartálma í Tíðaskarði. Herstöðin í Dalsmynni var kennd við Saurbæ „Camp Saurbær“. Bandaríkjaher tók síðan við af Bretum 26. janúar 1940 og þá settist 240 manna flokkur að íDalsmynni og 30 í Tíðaskarði.
Síðasti torfbærinn í Saurbæ, sem var að hluta til úr timbri, var reistur 1896 og stóð þar til hann brann árið 1966 en þá hafði ekki verið búið í honum í fjögur ár.204 Þegar túnakort frá 1916 var strekkt yfir nýlega loftmynd má sjá að bærinn var norðan við kirkjuna og lá bæjarhúsaröðin í austur, vestur. Þar er nú afgirtur skrúðgarður á lágum hól og sennilega eru leifar bæjarhúsa þar undir sverði. Núverandi íbúðarhús er um 20 metrum norðaustan við kirkjuna og þar var áður skemma og smiðja samkvæmt túnakortinu.

Saurbær

Saurbæjarkirkja.

Kirkju í Saurbæ er fyrst getið um 1200 í kirknaskrá Páls biskups. Elsti máldagi Saurbæjarkirkju, sem Magnús biskup Gissurarson setti, er talinn vera frá því um 1220. Þá átti kirkjan margt góðra gripa þar á meðal tvo glerglugga, til kirkjunnar lágu „X. hundruð þriggia alna aura“ í heimajörðinni og þar skyldi vera prestur og messa alla löghelga daga. Í máldaganum er í fyrsta skipti kveðið á um að brú skyldi halda á Blikdalsá sem átti að geta borið meðalmann með hálfa vætt á baki sér í logni. Í máldaga Maríukirkjunnar í Mýdal (Miðdal) frá haustinu 1269 er kveðið á um þjónustu prests frá Saurbæ. Þá kemur fram í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um 1270 að hann telur að kirkjan í Saurbæ eigi hluta í hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs.
Saurbær kemur fyrir í Kjalnesingasögu sem talin er rituð um 1300, þar sem segir frá því þegar Helgasynir bjólu, Þorgrímur og Arngrímur, skipta með sér föðurarfi og Arngrímur reisti bæ við Hvalfjörð sem hann nefndi Saurbæ.

Saurbær

Saurbær – braggaleifar.

Í máldaga Eyrarkirkju í Kjós sem er talinn vera frá 1315 eru Saurbæjarkirkju lagðar til 12 ær. Máldagi Nesjasýslu í Hítardalsbók frá 1367 greinir frá því að Péturskirkjan í Saurbæ á Kjalarnesi eigi tíu kýr, fimmtán ær og griðung.
Það er í fyrsta skipti sem verndardýrlings er getið og telur Jón Þ. Þór að Pétri, sem var verndardýrlingur sæfarenda, hafi verið helguð kirkjan vegna vaxandi gengis sjávarútvegs á þessum tíma.213 Samkvæmt máldaga kirkjunnar frá 1379 sem Oddgeir biskup Þorsteinsson setti átti hún 30 hundruð í heimajörðinni og þar er einnig að finna ákvæðið um að brú skyldi halda á Blikdalsá á milli fjalls og fjöru. Kirkjan átti enn 30 hundruð í heimajörðinni samkvæmt máldaga frá 1397 og meðal eigna er talinn upp glergluggi en þeir höfðu verið tveir 1220. Ákvæði um brú á Blikdalsá er þar líka og hvernig skuli fjármagna viðhald á henni.
Í máldaga kirkjunnar frá 1477 kemur fram að hún eigi 30 hundruð í heimajörð og jörðina Hjarðarnes auk annars. Árið 1503 var skrifað kaupbréf í Saurbæ fyrir Ölvisholt og árið 1507 var kveðinn upp dómur þar. Árið 1508 er Saurbæjar getið í kaupmálabréfum.

Saurbær

Saurbær – braggaleifar.

Saurbæjarsókn kemur fram í bréfi frá árinu 1517 þegar Erlendur Jónson gerir próventusamning við Ögmund ábóta í Viðey og síðar. Í festingabréfi frá árinu 1561 kemur fram að Halldór Ormsson gefi Þórdísi Eyjólfsdóttur tuttugu hundruð í Saurbæ.221 Þá kemur bæjarnafnið fyrir 1569 á minnismiða Vigfúsar Jónssonar sýslumanns í Kjalarnesþingi. Þegar máldagi kirkjunnar var gerður 1575 átti hún 30 hundruð í heimalandi og jarðirnar Ártún og Hjarðarnes en ekki var getið um að halda skyldi brú á Blikdalsá.
Saurbær var í einkaeign árin 1686 og 1695 metinn á 60 hundruð.

Ölfus

Litli-Saurbær, túnakort 1918.

Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var gerð 1705 var kirkjan orðin annexía frá Brautarholtskirkju og Saurbær metinn á 60 hundruð með Ártúni og Hjarðarnesi. Eigandi var Sigurður Björnsson lögmaður og ábúandi á 50 hundruðum en annar ábúandi var á tíu hundruðum, Litla Saurbæ. Þá var hægt að fóðra tólf kýr, einn eldishest og tvo sem vel var gefið, einn griðung, þrjátíu ær, tíu lömb og þrjá kálfa. Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hafði jörðin í sínu landi á Blikdal. Torfrista og stunga til húsabótar hjálpleg, móskurður til eldiviðar nægur og til sölu ef vildi. Hvanna- og rótartekja voru litlar og nýta mátti sölvafjöru og fjörugrös. Hægt var að veiða sel og hafði svo verið gert en lítið var um hrognkelsi. Rekaþöngla og þang mátti brúka til eldiviðar og rekavon var nokkur.

Saurbær

Saurbær og Stekkjarkot – túnakort 1916.

Heimræði var allt árið og gengu skip eigenda eftir hentugleikum en lending var brimsöm og gat brugðist. Selvegur þótti langur og erfiður og sumarhögum var hætt við skriðum. Sauðfé og hestum stóð ógn af sjávarflóðum á vetrum og af foruðum og dýjum. Stórviðrasamt og sjávargangur braut af túnum. Þá var Litli Saurbær afbýli og Stekkjarkot/ Bjarg hjáleiga af jörðinni og dýrleiki þeirra talinn með heimajörðinni og tómthúsmaður var í heimajarðarhúsum sem stóðu á Litla Saurbæ. Saurbæjarkirkja var annexsía frá Brautarholti 1748.
Eigandi Saurbæjar seldi kaupmanni í Reykjavík rétt til vinnslu jarðefna á jörðum sem hann átti, Saurbæ, Hjarðarnesi, Ártúni og Bjargi (Stekkjarkoti).

Saurbær

Saurbær.

Litli Saurbær var afbýli af heimajörðinni 1705 metinn á 10 hundruð en talinn með heimajörðinni. Kvaðir höfðu áður verið um mannslán allt árið annaðhvort heima eða frammi á Kjalarnesi en höfðu verið feldar niður vegna góðvilja en dagsláttur hafði stundum verið kallaður. Hægt var að fóðra þrjár kýr, tuttugu ær og eitt ungneyti á partinum. Kostir og lestir voru þeir sömu og heimajarðarinnar nema heldur braut meira af túninu og lending var betri. Tómthúsmaður var í heimajarðarhúsum sem stóðu á Litla Saurbæ 1705 og greiddi hann 25 álnir í húsaleigu til landdrottins. Kvaðir voru á hann um skipsróður utan sláttar sem skyldi gjaldast með formennsku. Eldiviðartak var frítt og eigandi viðhélt húsinu. Tómthúsið hafði þá stundum verið byggt með grasnyt eða ekki og stundum fylgt Litla Saurbæ þegar meirihluti jarðarinnar var nytjaður.

Heimild:
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags Vesturlandsvegar frá Leirvogsá að Hvalfirði – Reykjavík 2018, Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún 1930-1940.

 

Kalkofninn

Kalknám var stundað í Sandhól við Djúpagil og við Mógilsá ofan Mógilsárfoss frá árinu 1873 í nokkur misseri og síðan aftur á árunum 1916-17. Kalkbrennsluofnar voru byggðir við Rauðará í Reykjavík (1873) og síðan neðan við Arnarhól (1876). Kalofnsvegur var nefndur eftir þessum gjörningi.

Í Víkverja 1873 er umfjöllun um „Kalk í Esjunni„:

Mógilsá

Mógilsá – kalknáma.

„Það er flestum kunnugt, að kalk fanst fyrir nokkrum árum í Esjunni. Það var í felli einu fyrir ofan Mógilsá, að menn þóttust sjá kalkberg koma fram í möl þeirri, er á er öllu fellinu. Landlæknirinn, dr. Jón Hjaltalín, lét höggva nokkur brot af berginu, og senda þau fræðimönnum erlendis til rannsóknar, og kom þá fram, að 90 hundruðustu partar af steininum voru hreint kalk; svo reyndist og í fyrra, þá er nokkrir steinar voru fengnir hinum útlensku vinnumönnum, er unnu að þinghúsgjörðinni fyrir austan Reykjavík, að ágætt kalk fékst af þessum steinum, þá er þeir voru brendir.

Egill Egilsson

Egill Egilsson.

Nú hefur herra kaupmaður Egill Egilsson (Sveinbjarnarson) hér í Reykjavík gjört gangskör að því, að kanna þessa kalknámu nákvæmar og nota hana. Kalkbergið er, svo sem vér áðr sögðum, í sérstöku litlu felli sunnan til í Esjunni. Hingað til hefir eigi komið mikið fram af því, en líkur eru til, að bergið nái langt inn í fellið, og merki hafa jafnvel sést til þess, að það nái í gegn um það. Sé það svo, munu margar miljónir tunna af kalki vera fólgnar í fellinu.
Herra Egill Egilsson hefir fyrir hálfum mánuði látið brjóta einar 50 tunnur af kalki úr berginu, og flutt þær ofan að sjó, en svo þungt var grjótið, að það voru klyfjar á 200 hesta. Þar voru 30 tunnur af grjótinu látnar í skip, er herra E. á, og eru þær nú fluttar fram að Rauðará; þar ætlar herra E. að láta gjöra kalkofn og brenna grjótið. Reynist það þá eins gott, og sagt er, mun verða stofnað hlutafélag til þess að vinna námuna enn betur.
Vér óskum herra Egli kaupmanni allrar hamingju til verks þess, er hann hefir gerst forgöngumaðr fyrir, og vér efum eigi, að hið mesta gagn geti hlotist að því, ef kalkbergið að eins að nokkru leyti svarar þeim vonum, er kunnugir menn hafa gert sér um það. Næst vegaleysinu getum vér talið vonda húsagjörð einn hinn mesta hnekki á öllum framförum vorum, en fari svo, að vér getum fengið kalk í hús vor á nokkurn veginn vægan hátt, er tvent áunnið; vér þyrftum þá eigi að skemma hagagöngur vorar með torfristum, og fengjum þá langtum hlýari og stæðilegri, og fyrir því og með tímanum, ódýrari hús, en vér höfum hér til haft.“

Í Þjóðólfi 1877 var eftirfarandi grein:

Vesturgata 52

En sá, sem fyrstur byggði hér íveruhús úr höggnu íslenzku grjóti, ætlum vér sé bóndinn Pétur Gíslason á Ánanaustum; sá þriðji sem á samskonar hús í smíðum er Jóhannes Zöega. Hús úr steini eru hér öllu ódýrari en timburhús, ef með hagsýni er byggt, og ætti það atriði eitt að vera nægilegt til þess að fá menn til að hætta við annað veggjasmíði en úr voru eigin ágæta, þjóðlega grjóti, sem helzt til lengi hefir legið eins og ónýtur «steinn í götu». Ýmsir fleiri eru farnir að byggja meira og minna úr þessu ótæmanlega og óslítanlega efni, enda skortir nú ekki hið bezta kalk, og það á staðnum.  Kalk > Steindir og bergtegundir með kalsínkarbónati (CaCO3). Brennt kalk > kalsíumoxíð (CaO), fæst við hitun kalks, notað m.a. í áburð. Slökkt kalk > kalsíumhýdroxíð (Ca(OH)2), vætt brennt kalk, notað sem steinlím Leskjað kalk > brennt kalk hrært í vatn, notað sem steinlím, til áburðar, til að sýrustilla jarðveg og til iðnaðar.

“Byggingarframfarir í Reykjavík eru sýnilegar ár frá ári, og mundu svo fremur, væri árferði betra… Síðan herra E. Egilsson réðst í kalknámið í Esjunni og þeir konsúll Smith komu upp kalkbrennslunni, hafa menn þegar tekið að skilja hve ómetanlegur hagur – auk fegurðarinnar – er að byggja steinhús, og stöku menn teknir að gjöra það. Sá fyrsti hér í miðjum bænum, sem komið hefir upp steinhúsi, er Eyþór Felixson verzlunarmaður (fyrrum póstur). Hús það er 13 álna langt og 14 álna breitt með 12 álna háum veggjum, og er nú eitt hið laglegasta, en langsterkasta hús bæjarins.

Bergstaðastræti 24

Snemma árs 1884 fékk Jóhannes Pálsson, tómthússmaður, leyfi til þess að byggja sér steinbæ með timburstöfnum á Þingholtslóð.
Húsið er hlaðið úr steini, sléttað utan með kalki, að grunnfleti 12X9 álnir.

En sá, sem fyrstur byggði hér íveruhús úr höggnu íslenzku grjóti, ætlum vér sé bóndinn Pétur Gíslason á Ánanaustum; sá þriðji sem á samskonar hús í smíðum er Jóhannes Zöega. Hús úr steini eru hér öllu ódýrari en timburhús, ef með hagsýni er byggt, og ætti það atriði eitt að vera nægilegt til þess að fá menn til að hætta við annað veggjasmíði en úr voru eigin ágæta, þjóðlega grjóti, sem helzt til lengi hefir legið eins og ónýtur «steinn í götu». Ýmsir fleiri eru farnir að byggja meira og minna úr þessu ótæmanlega og óslítanlega efni, enda skortir nú ekki hið bezta kalk, og það á staðnum. Engir hinna ríkari bæjarbúa hafa þó enn látið til sín taka í þessu, heldur er það eptirtektavert, að þeir sem byrjað hafa, eru allir fremur félitlir menn, en þeir eru skynsamir, og vita vel hvað þeir gjöra.
Kalkbrennslan fór fram í tveimur ofnum. Fyrst var reistur tilraunaofn hjá Rauðará 1873 en 1876 var reistur varanlegri ofn hjá Arnarhólslæk (vatn þarf við kalkvinnslu). Þessi ofn var ámóta að stærð og gamli söluturninn á Lækjartorgi.“

Í Eimreiðinni árið 1900 segir m.a.:

Kalkofn

Kalkofninn að baki húsanna við Lækjargötu, neðan Arnahóls.

„Fram með Arnarhólstúni sjávarmegin liggur stígur, og er þar trébrú yfir lækinn; þessi stígur liggur að allmiklu timburhúsi, þar sem Björn múrari Guðmundsson verzlar með timbur; fyrir nokkrum árum var hér kalkofn, og átti að brenna þar kalkstein, sem fanst í Esjunni; var þetta gert nokkra stund, en fórst fyrir, bæði vegna þess, að flutningur frá námunni varð of dýr og erfiður, og svo vegna þess, að vatn úr læknum var haft í kalkið, en það vatn er óhreint, bæði úr tjörninni og svo blandað sjávarseltu, og óhæfilegt til kalkgerðar; varð kalkið þannig ónýtt eða miklu verra en þurft hefði. En þetta vildu forsprakkarnir ekki heyra, þótt sagt væri við þá.“

Í Ægi 1914 var fjallað um flutning kalksins frá Esjunni til Reykjavíkur:

Hótel Ísland

Hótel Ísland.

„Egill heitinn föðurbróðir minn átti franska loggortu, sem fyrst hjet »Ladon«, en síðar »Esja«. Hannes Hafliðason var þar skipstjóri 1876, en eftir hann tók við hr. Joh. Halberg, sem kom hingað til lands 1877. Var hann skipstjóri á því 1877 og ’78, var það haft til fiskiveiða og kalkflutnings úr Esjunni hingað til Reykjavíkur, því að þá var hjer kalkofn og brent hjer kalk. Hr. J.G. Halberg varð síðan eigandi »Hotel Íslands« og hjelt því í mörg ár.“

Í Tímariti iðnaðarmanna 1941 segir frá Birni Guðmundssyni, múrara, sem byggði kalkofninn við Kalkofnsveg:

Björn Kristjánsson

Björn Kristjánsson.

„Fyrsti útlærði múrarinn hér, sem ég man eftir, af ísl. bergi brotinn, var Björn Guðmundsson, sem þá líka var lengst af alþektur undir nafninu „Björn múrari“, einnig löngu eftir að hann var hættur að halda á múrskeiðinni og orðinn kola- og timbursali. Þótti Björn bráðduglegur og vandvirkur iðnaðarmaður. Hann setti hér upp kalkofn þann, sem Kalkofnsvegur er heitinn eftir og stóð rétt fyrir norðan Varðarhúsið á sjávarbakkanum.
Áður hafði Sverrir [Runólfsson] byrjað að reisa samskonar ofn inni undir Bauðará, þar sem seinna reis klæðaverksmiðjan „Iðunn“, en náði aldrei að fullgera ofninn, svo að ekki varð neitt úr neinu). Kalkið, sem brenna skyldi, var sótt upp í Esju, en forgöngumenn rekstursins voru þeir Marteinn Smith kaupmaður og Egill Egilsson borgari (í Glasgow). Þótti hið brenda kalk Björns fyrirtak að gæðum, en kostnaðurinn við kalkvinsluna úr námunni í Esjunni og flutningur kalksteinsins þaðan á bátum hingað, reyndist of mikill til þess, að fyrirtækið gæti borgað sig; því að vagnar voru hér engir til nema tvílijóla mókerrur og akvegir því síður.“

Í Heilbrigðistíðindum 1973 fjallaði Jón Hjaltalín, landlæknir, um „Kalkbrennsluna„:

Jón Hjaltalín

Jón Hjaltalín, landlæknir.

„Fyrir 20 árum gat jeg þess í „Nýjum Félagsritum“, hversu nauðsynlegt það væri, að vjer yfir höfuð hefðum annað lag á húsagjörðum vorum, en hingað til hefur tíðkazt, og jeg tók það fram um leið, að eins og það lægi hverjum manni í augum uppi, að hjer væri gnægð af góðu byggingargrjóti, þannig mundi hjer og finnast nóg kalk í fjöllunum og landinu, ef vel væri að gáð, og áræðið og kunnáttuna að nota það vantaði eigi. Hjer um bil 8 árum eptir að jeg hafði ritað þá grein, er hjer um ræðir, í tjeðum fjelagsritum, fann jeg kalksteinslag hjer í Esjufjalli örskammt frá sjónum; jeg reyndi kalksteininn þá þegar eptir efnafræðisreglum, með því að leysa hann í saltsýru, og fann, að hann hafði í sjer yfir 90 hundruðustu parta af hreinu kalki, en slíkt eru hinir beztu kalksteinar. Seinna var hann prófaður í Kaupmannahöfn, og kom mönnum saman um, að svo væri, sem jeg hafði til tekið.

Sverrir Runólfsson

Sverrir Runólfsson.

Stiptamtið ljet um sama leytið herra B. Gunnlögsen og mig nákvæmar skoða námuna, og mæla hana og veginn niður að sjónum, og líka var hún grandskoðuð af enskum jarðfræðingi. Svona hefur þetta nú staðið þangað til í sumar; en nú hefur herra verzlunarstjóri E. Egilsson tekið sjer fyrir að brjóta kalkið, flytja það hingað, og er nú að láta byggja kalkofn til að brenna það í. Af þessu fyrirtæki má að minni hyggju mikið gott leiða, ef menn að eins vilja gefa því nægan gaum, og fara að ráðast í, að byggja steinhús, en þessa er nú því heldur væntandi, sem fleiri menn, er í fyrrasumar störfuðu hjer að hegningarhúsinu, námu af húsasmiðnum herra Bald þá aðferð, er menn nú almennt við hafa, að fleyga steina í tígulmyndað veggjagrjót. Jeg fæ og eigi betur sjeð, en steinhúsbyggingar fari að verða hin bráðasta nauðsyn, þar sem timbureklan er allt af að vaxa ár frá ári, enda ættu allir skynsarair menn fyrir löngu að vera orðnir sárleiðir á vorum ónýtu, óhollu og auðvirðilegu moldarkofum, sem nú í mörg hundruð ár hafa verið heilsu og lífi ilandsmanna til hins rnesta tjóns og auðsjáanlegasta niðurdreps í alla staði. Þær hafa verið og verða, svo lengi sem þær við vara, Íslands sannkallað krabbamein, sem gjörsamlega þarf að burt nema svo fljótt og rösklega sem unnt er.“

Árni Óla skrifaði ítarlega grein í Lesbók Morgunblaðsins 1949 um „Kalknám í Esjunni og Kalkbrenslu í Reykjavík“:

Esja

Mógilsá í Esju.

„Það mun hafa verið um 1863 að Jón Hjaltalín landlæknir fann kalkstein í Esjunni og taldi að þar mundi vera svo mikið af honum að það borgaði sig að hefja námagröft þar og brenna kalk.
Ástandið í byggingarmálefnum Reykjavíkur var þá þannig, að enn voru flestar vistarverur fólksins torfbæir. Innflutningur á timbri frá Noregi hafði farið minkandi árum saman og það timbur, sem fekst, varð æ ljelegra byggingarefni. Ýmsir menn skoruðu á kaupmenn að flytja inn kalk, svo hægt væri að reisa hjer steinbæi og steinhús, því að nóg var hjer af grjóti til að byggja úr og bygging hegningarhússins hafði sýnt þeim að hægt var að nota það. En það var eins og að klappa harðan steininn. Kaupmenn vildu ekki flytja inn kalk, nema þá af mjög skornum skamti, og svo var það svo dýrt, að enginn treystist til að ráðast í að byggja hús úr steini.

Mógilsá

Kort frá árinu 1909 sem sýnir staðsetningu bæja við Kollafjörð og austur með Esjunni. Á Mógilsá eru merkt inn þrjú hús innan túns og þjóðleiðin fyrir botn fjarðarins.

Kalkfundurinn í Esjunni kveikti því hjá mönnum von um það, að bráðlega mundi fást íslenskt kalk til húsbygginga. En enginn þóttist þó svo efnum búinn að hann gæti ráðist í það fyrirtæki að brjóta kalkstein og brenna kalk.
Þá var hjer hinn kunni dugnaðar og áhugamaður, Sverrir Runólfsson. Hann var steinsmiður og honum hefir sjálfsagt verið það allra manna Ijósast hver áhrif það gæti haft til batnáðar í byggingamálum höfuðstaðarins, ef hjer væri hægt að framleiða kalk. Hann fýstist því mjög til þess að ríða á vaðið og gera tilraun um það hvernig kalksteinninn í Esjunni mundi reynast. En þar sem hann átti ekki fje til að leggja í þann kostnað, sótti hann um 650 ríkisdala styrk hjá stjórninni í þessu augnamiði.

Mógilsá

Mógilsá – loftmynd 1963.

Umsókn hans kom fyrir dómsmálaráðuneytið danska, en það fól þeim Jóni Hjaltalín landlækni og Birni Gunnlaugssyni yfirkennara að skoða kalknámuna í Esjunni og láta í ljós álit sitt um það hvort nokkurt gagn væri í henni. Þeir sendu aftur nákvæma lýsingu og teikningu af námasvæðinu sumarið 1864. Þetta sendi svo dómsmálaráðuneytið til „Den polytekniske Anstalt“ í Kaupmannahöfn og bað um umsögn þess. Tveir danskir jarðfræðingar voru fengnir til að láta álit sitt í ljós og þeirra úrskurður var sá, að þetta væri ekki annað en vitleysa, því að á Íslandi fyndist ekkert námakyns. Og að þessum úrskurði þeirra fengnum neitaði stjórnin að veita Sverri hinn umbeðna styrk.

Mógilsá

Gamli bærinn á Mógilsá í júlí 1910. Bærinn stendur undir brekkunni, fyrir framan hann er kálgarðurinn og grjóturðin sem braust fram úr gilinu árið 1866. Á myndinni er hægt að greina sex hús, hlaðan austast sem var timburhús þá, vestar eru tvö torfhús með timburgöflum sem hafa verið íveruhús og líklega fjós vestan við þau, enn vestar eru tvö hús hlaðin úr torfi og grjóti með torfþökum, fyrir framan vestasta húsið er stór haugur og hefur það hús líklega verið hesthús. Þýskir ferðamenn í heimsókn.

Lá svo þetta mál í þagnargildi um nær 10 ára skeið. En það var ekki gleymt. Og sumarið 1873 rjeðist, Egill Egilson kaupmaður í það að leigja námarjettindin í Mógilsárlandi fyrir 40 kr. gjald á ári. Og hinn 10. ágúst fór hann við annan mann upp að Mógilsá til að skoða námuna og búa undir kalkvinslu þar. Viku seinna hafði svo verið brotinn svo mikill kalksteinn þarna að Egill sendi bát uppeftir og hafði 10 hesta heilan dag til þess að flytja á þeim kalkstein úr námunni niður að bátnum. Jafnframt byrjaði hann á því að reisa kalkbrensluofn hjá Rauðará. Þessi ofn var alls ekki fullkominn, því að hann var aðeins gerður í tilraunaskyni. En 109 dagsverk fóru þó í það að hlaða hann, draga að grjót, sand og deigulmó og ennfremur fóru 14 dagsverk í brenslu.

Mógilsá

Mógilsá árið 1945. Austast eru íbúðarhúsin tvö, þá kemur tengibygging vestan við sem líklega var fjós á tímabili, síðan hlaða sem er með gaflinn í suður og svo bygging með skúrþaki vestan við hlöðuna sem hefur verið nýja fjósið. Vestar má sjá hesthúsið úr torfi og grjóti og enn vestar sér í timburskúr líklega frá Kalknámufélaginu.

Var þar brent mó, spýtum, hrísi og kolum og segir Egill sjálfur svo frá að tilraunin hafi tekist vel. Geta má þess, að við vinsluna var brent 113 hestum af mó (hver hestur kostaði þá 50 aura) og 1 1/2 tunnu af kolum. En ekki hefi jeg getað fundið hve mikið kalk hafðist upp úr þessu. Kostnaður við námugröftinn þetta ár nam samtals 682.00 krónum og var þar með talin 40 kr. leiga. Áreiðanlega hefir kalknámið ekki borgað sig, enda var hjer aðeins um byrjunartilraun að ræða. Þó hafði Egill trú á fyrirtækinu, en treystist ekki til að leggja í það meira fje og fyrirhöfn að sinni. Og næsta ár, 1874, var ekkert unnið í námunni, og ekkert kalk brent í ofninum hjá Rauðará.

Mógilsá

Mógilsá árið 1965, útihúsin orðin hrörleg og bíða þess að verða rifin, þakið hefur fokið af fjósinu og hlöðunni. Næst eru hús Kalknámufélagsins og fjær sér í íbúðarhús, starfsmannahús og tilraunastöð skógræktarinnar sem voru reist 1964.

Árið 1875 kom Alþing saman og þar bar Jón Hjaltalín landlæknir fram frumvarp um bann gegn útflutningi á kalksteinum o.fl. í sambandi við það komst hann þannig að orði: „Menn vita lítið um aðra fjallkalksteina hjer á landi en kalklagið í Helgustaðafjalli, því að þótt kalklag hafi fundist í Esjunni, þá er það svo þunt, að það nemur að breidd varla 1/5 hluta af því, sem Helgastaðanáman er, enda vita menn eigi hve langt Esjukalksteinninn gengur inn í fjallið. Það ber öllum saman um, að kalkið og silfurbergið í Helgustaðafjalli sje hið hreinasta kalk, er fundist geti nokkurs staðar“. Hann segir og að kalk það, sem komi frá Danmörku sje leirblandað og magurt og mikið af því mjölkalk sem innihaldi meir en helming þunga síns af vatni. Mundi því kalk úr Helgustaðanámu verða helmingi betra. Danska kalkið kosti 8 til 16 kr. tunnan og sje ókljúfandi fyrir almenning að byggja úr svo dýru steinlími.
Þá fer hann mörgum orðum um óheilnæmi og endingarleysi torfbæja. Í Austfjörðum standi þeir ekki nema svo sem 10 ár, vegna úrkomu, og væri munur fyrir fólk þar og annars staðar að geta bygt úr steini, auk þess sem þá fengist heilsusamlegar íbúðir.

Sandhóll

Sandhóll við Djúpagil.

Eins og sjá má á þessu ber hann ekkert oflof á kalknámuna í Esjunni. En að hann hafi haft trú ú því að landinu væri hagur að því, að náman væri unnin, sjest á því, að á þessu sama þingi bar hann fram þá breytingartillógu við fjárlögin, að Agli væri veittur 1000 kr. styrkur til kalkbrenslu, á 10 gr. fjárlaganna undir ýmislegum útgjöldum.
Landshöfðingi lagðist á móti þessu. Ekki væri það af því að hann vildi ekki styðja fyrirtækið, eins og sæist á því, að í fyrra hefði hann heitið Agli 400 kr. styrk, með því skilyrði að fyrirtækið hefði einhvern framgang, en svo væri ekki enn. Auk þess ætti slíkur styrkur að veitast af því fje, sem veitt væri í 15. gr. til vísindalegra og verklegra fyrirtækja. Það fór því svo að tillaga J. H. var feld.
Egill mun hafa sjeð það, að ekki var heppilegt að hafa kalkbrensluofninn inn hjá Rauðará og að betra mundi að hafa hann niður við höfnina, hjá læknum. Fór hann því til landshöfðingja og bað um ofurlitla lóð úr Arnarhólslandi við lækjarósinn undir kalkbrensluofn og stíg frá honum niður að sjónum, svo gott væri að koma kalksteininum þangað.

Mógilsá

Námusvæðið við Mógilsá.

Landshöfðingi gaf honum kost á þessu með þeim skilyrðum, að þessi blettur væri girtur með 2 álna hárri trjegirðingu, að jafnstór blettur væri sljettaður í túni sínu (Arnarhólstúni) og að Egill greiddi 8 kr. leigu á ári til landsjóðs fyrir afnot kalkofnsblettsins. Þetta fundust Agli harðir kostir, þegar þess var gætt að þessi blettur, sem hann bað um, var ekki tún, heldur alfaraleið allra þeirra, sem fóru yfir lækinn neðst, allur troðinn og auk þess skemdur af sjávargangi. Þó taldi hann sjer nauðugan einn kost að ganga að þessum skilyrðum því að hvergi í Reykjavík miindi tiltækilegt að hafa ofninn nema þarna hjá læknum, vegna þess að mikið vatn verður að nota við kalkvinslu. Mun hann og ef til vill hafa litið svo á, að hann fengi ríflegri styrk hjá landshöfðingja fyrir vikið. Að minsta kosti sótti hann svo um að fá 1000 króna styrk úr landsjóði. Landshöfðingi svaraði því, að hann hefði ekki umráð nema yfir helming þess fjár, sem ætlað væri til styrktar atvinnuvegum (á 15. gr. fjárlaganna). Stjórnin í Kaupmannahöfn hefði umráð hins helmingsins. Gaf hann þó enn vilyrði fyrir 400 kr., en sækja þyrfti um til dönsku stjórnarinnar að fá viðbót úr hinum hluta sjóðsins.

Mógilsá

Norðurhlið bæjarins á Mógilsá 1910, austast er timbur hlaðan með opi fyrir hey í norður, fyrir vestan koma tvö íveruhús, og síðan fjósið. Mikið grjót er fyrir aftan bæinn og má greina eina tóft þar.

Alt þetta ár gekk í þetta og var lítið sint um námagröftinn. Þó telur Egill útgjöld sín vegna námuvinslu hafa numið kr. 396.66 (ásamt leigu), en ekkert sjest um það hvernig brenslan hefur gengið. — Sjálfsagt hefur Egill ekki verið ánægður með hana, og allra síst með ofninn, því að nú fær hann Björn Guðmundsson múrara til þess að fara utan og kynna sjer hvernig nýtísku kalkbrensluofnar væri, og læra að brenna kalk.
Næsta vor (21. apríl) fer Egill enn fram á það við landshöfðingja að fá styrk, og fekk nú þessar 400 krónur. En hann þóttist þó, sem von var, engu nær, því að alt þetta fje fór til þess að girða blettinn hjá læknum, og sljetta jafnstóran blett í túni landshöfðingja.

Mógilsá

Mógilsá árið 1945, búið að byggja við íbúðarhúsið í austur og steypa hlöðu og fjós, vestast er torfhús sem líklega var hesthús og var byggt fyrir árið 1910 og enn vestar eru skúrbyggingar líklega hús Kalkfélagsins.

Landshöfðingi skrifaði þá Íslandsráðgjafanum í Kaupmannahöfn og lagði til að hann veitti fyrirtækinu álíka mikinn styrk af þeim hluta fjárveitingarinnar á 15. gr., sem hann hafði yfir að ráða. Ráðgjafinn neitaði að verða við því, eins og sjest á brjefi frá landshöfðingja til Egils, dags. 19. júní 1876.
Þar segir svo: „Ráðgjafinn hefur tjáð mjer, að hann verði að vera þeirrar skoðunar, að ef yfir höfuð ástæða skyldi vera til fyrir stjórnina að styðja fyrirtæki einstakra manna, önnur eins og þetta, eigi þó að minsta kosti ekki að veita styrkinn að gjöf handa hlutaðeiganda, sem ræðst í fyrirtækið, með því að engin trygging er fyrir því, að eigi fari svo, að alt fyrirtækið, sem styrkurinn á að efla, hætti innan skamms. Ráðgjafinn hefur því eigi þóst geta veitt neinn styrk í þessu skyni af sínum hluta í 15. gr. fjárlaganna, en af því að það, að minni hyggju, sje mjög æskilegt, að farið yrði að vinna áminsta kalksteinsnámu, segist ráðherrann aftur á móti ekki vera því mótfallinn, að jeg láti yður fá 400 kr. lán úr viðlagasjóði, gegn tryggilegu veði.“

Oddgeir Stephensen

Oddgeir Stephensen – 1812-1885.

Ekki er að sjá að Egill hafi þegið þetta lán. Mun hann hafa verið gramur út af þessum undirtektum, og aðallega vænt Oddgeir Stephensen um að hafa spilt fyrir sjer hjá ráðherranum. Þá um sumarið (1876) er samt hafist handa um smíði hins nýa kalkofns. Var dreginn að leir innan frá Elliðaám og sandur innan frá Eiði. Jafnframt er farið að vinna að því af kappi að brjóta kalkstein í Esjunni. Var keypt mikið af púðri á Eyrarbakka til þess að sprengja þar. En þá kom í ljós að kalksteinninn var ekki eins mikill og menn höíðu haldið og þraut brátt fyrsta og annan ganginn. Sá Egill sjer því vænst að tryggja sjer einnig námarjettindi í Kollafjarðarlandi og leigði þau fyrir 20 krónur á ári. Margir menn voru hafðir þarna í vinnu um sumarið. Kaupið var lágt, aðeins 2 krónur á dag, en þó hafði einn maður (Egill í Arabæ) 256 kr. upp úr sumrinu.
Eftir þetta sumar taldi Egill að hann hefði lagt fram kr. 4010.95 í kostnað við námagröftinn, en getur þess ekki að hann hafi haft neinar tekjur af honum. Og þetta sumar hefur ekkert kalk verið brent, heldur kalksteinninn brotinn, fluttur sjóveg til Reykjavíkur og átt að geymast þar þangað til nýi ofninn væri fullger, en hann varð það ekki fyr en á árinu 1877.

Kalkofninn

Kalkofninn neðan við Arnarhól.

Vegna þessara útgjalda, sem voru mikil á þeim dögum, bæði vegna þess að krónan var þá dýrari en nú, menn yfirleitt fátækari og hvergi lán að fá, sá Egill sitt óvænna að halda þannig áfram. En ekki var honum um það að gefast upp. Tókst honum þá að fá M. Smith konsúl í fjelag við sig þannig að Smith ætti fjórða hlutann í fyrirtækinu, en Egill þrjá fjórðu. Björn Guðmundsson vann að smíði kalkofnsins og varð það allmikið hús, turnlaga. Var ofninn vandaður að öllum frágangi og sem líkastur þeim ofnum, er notaðir voru erlendis. Sennilega hefur verið byrjað að brenna kalk í honum snemma á árinu 1877. Fer nú fyrirtækið fyrst að komast á rekspöl.

Reykjavík

Reykjavík 1887.

Kalksteinn var brotinn af kappi í Esjunni og eru þar allmargir menn við vinnu. — Kalksteinninn var sprengdur með púðri, því að dynamit þektist þá ekki. Var fyrst tekin fyrir kalkæð fyrir vestan ána og túnið á Mógilsá, en ganginn þraut brátt, eins og áður er sagt. Þá var kalkið sprengt í svonefndum Sandhól, upp af Djúpagili, en þar fór á sömu leið. Þá var farið að sprengja kalkstein fyrir ofan fossinn í Mógilsá. Var þetta miklu hærra í fjallinu og flutningar allir erfiðari fyrir vikið, Allur var kalksteinninn fluttur á hestum frá námunni niður að sjó. Var þaðbæði kvotlsamt og erfitt og reyndist dýrt. Og svo voru flutningar með bátum þaðan til Reykjavíkur. Voru hafðir tveir eða þrír bátar við flutningana, þar á meðal fröns loggorta, sem Egill átti.

Lækjargata 10

Eitt elsta íbúðarhús úr hlöðnu grágrýti í Reykjavík. Grjótið var fengð úr Skólavörðuholti, en kalkið til bindingar úr Esjunni. Húsið var síðar lengt til suðurs og kvistir gerðir árið 1904.

Til er yfirlit um reksturinn á þessu ári og hefur hann kostað kr. 5323-54 alls. En upp í það kemur selt kalk fyrir kr. 3778.89 og kalksteinn fyrir kr. 1200.00, eða samtals kr. 4978.89, svo að tap kr. 349.65 hefur orðið á rekstrinum. Kalkið var selt í smásölu til hinna og annara og kostaði hver tunna af því 6 krónur. Af því má sjá, að á þessu ári hafa fengist um 630 tunnur af kalki.

Bergstaðastræti 12

Á árunum 1880 til 1905 voru byggð allmörg steinhús og steinbæir í Reykjavík með tækni sem íslenskir steinsmiðir lærðu af byggingu Hegningarhússins við Skólavörðustíg og Alþingishússins. Sérstaða steinbæjanna lá í því að þeir voru að miklu leyti eftirlíking torfbæjanna sem þeir leystu af hólmi. Veggir voru úr hlöðnu grjóti án glugga, gaflar oftst úr timri með gluggum og þakið bárujárnsklætt. Er því oft haldið fram að steinbæirnir séu eina sér-reykvíska húsagerðin. Talið er að um 170 steinbæir hafi verið byggðir á þessum árum en að aðeins 20 þeirra standi enn.

Til er nafnlaus grein um kalknámið,- skrifuð á dönsku þetta ár. Mun hún hafa átt að birtast (og hefur máske birst) í einhverju dönsku blaði. Er þar veist að stjórninni og yfirvöldum fyrir það hvað þau hafi sýnt lítinn skilning á þessu nauðsynjamáli, og jafnframt sýnt því beran fjandskap. Þykir mjer líklegt að greinin sje runnin undan rifjum Egils. Er því þar og lýst hvaða vonir hann hefur bundið við þetta fyrirtæki um bættan húsakost í Reykjavík. Segir þar m.a. svo: — Í Reykjavík hafa verið bygð nokkur steinhús í sumar. Þar á meðal íbúðarhús fyrir almúgafólk, og má það furðulegt heita í því árferði sem nú er, því að hjer er mjög þröngt í búi vegna þess að fiskveiðarnar brugðust algjörlega. — Enginn efi er á því, að framvegis munu menn byggja hús sín hjer úr steini og kalki. En það er ekki gott að segja hve fljótt steinhúsin munu útrýma torfbæunum. En hvort sem þess verður langt eða skamt að bíða, þá mun sú breyting hafa hin heillavænlegustu áhrif á kjör allra, því að bætt húsakynni er eitt af aðalskilyrðunum fyrir því, að hjer geti orðið menningarlegar framfarir. —

Benedikt Gröndal

Benedikt Gröndal.

Þrátt fyrir dugnað og áhuga Egils stóð fyrirtæki þetta ekki nema í nokkur ár. Björn Kristjánsson, síðar bankastjóri, var einn af þeim, sem vann við kalknámið í Esju, og segir hann að það hafi lagst niður vegna þess að það borgaði sig ekki, og kennir þar um óheppilegum vinnubrögðum og of miklum flutningskostnaði. Hann segir að kalksteinninn hafi sprengst illa með púðrinu, og í stað þess að reiða hann á hestum ofan úr námunni, hefði verið betra og kostnaðarminna að hafa þráðbraut niður brekkuna og renna honum niður.

Benedikt Gröndal, bróðir Egils, sem átt hefur að vera þessum málum kunnugur, segir svo um kalkvinsluna: „Fyrir nokkrum árum var hjer kalkofn og átti að brenna þar kalkstein, sem fanst í Esjunni. Var þetta gert nokkra stund, en fórst fyrir bæði vegna þess, að flutningur frá námunni varð of dýr og erfiður, og svo vegna þess, að vatn úr læknum var haft í kalkið, en það vatn er óhreint, bæði úr tjörninni og svo blandað sjávarseltu og óhæfilegt til kalkgerðar. Varð kalkið þannig ónýtt, eða miklu verra en þurft hefði. En þetta vildu forsprakkarnir ekki heyra, þótt sagt væri við þá.“
Eitthvað hefur Gröndal sjálfsagt til síns máls um að vatnið úr læknum hafi skemt kalkið. En ekki hefur það verið altaf, því að sagt var að kalkið hefði verið betra og sterkara heldur en útlent kalk. Steinstjettin gamla í Bankastræti var límd saman með kalki úr Esjunni.

Trausti Ólafsson

Trausti Ólafsson í portinu við Hverfisgötu 44 Reykjavík, en þar bjó hann 1927 – 1934. Í bakhúsinu þar var Efnarannsóknastofa ríkisins til húsa til 1937 þar til að starfsemin var flutt í Atvinnudeild Háskólans. Trausti tók við forstöðumannastarfi á Rannsóknarstofunni er hann kom heim frá námi 1921. Efnarannsóknastofa ríkisins var stofnuð 1906 og var fyrsti forstöðumaður hennar Ásgeir Torfason Bjarnasonar skólastjóra í Ólafsdal. Ásgeir var fyrsti efnafræðingur landsins.

Þegar Bankastræti var breytt, var hún rifin upp, og brotnuðu þá steinarnir fyr en að samskeytin gæfu rig. Það sýnir að ekki hefur alt kalkið verið ljelegt. Og enn stendur steinhús Þorsteins Tómassonar í Lækjargötu 10. Það er límt saman með kalki úr Esjunni og hefur það ekki látið á sjá enn.
Löngu síðar, árin 1916—17, var gerð önnur tilraun með kalknám í Esjunni. Átti þá að brenna kalkið þar efra. „5 eða 6 menn unnu í 2 mánuði við að losa kalkstein úr ákveðnum gangi þar; var komið nokkuð djúpt niður í hann og var veggurinn því orðinn hár að ofanverðu. Verkamennirnir fundu nú upp á því að skjóta 30 dynamitpatrónum í einu í ganginn. Afleiðingin varð, að efri veggurinn hrundi ofan í ganginn og fylti hann. Fjelagið gafst svo upp við fyrirtækið.“

Nokkuð er af gulli í kalksteininum og kvarzgöngum, sem eru í sambandi við hann. Rannsakaði Trausti Ólafsson efnafræðingur sýnishorn úr námunni fyrir Björn Kristjánsson og reyndist gullmagnið í kalkganginum 10—19 grömm í tonni, en í kvarzinum nokkru meira eða alt að 26 gr. í tonni. En í gullnámum Suður-Afríku var þá meðaltal gullmagns 12 1/2 gramm í tonni.
Björn segir því: „Ef nú Egill Egilson hefði látið rannsaka kalksteininn fyrir gull þá hefði ágætlega borgað sig að vinna steininn þar á staðnum sem gullstein. Eins hefði sennilega vel borgað sig að brenna og leskja kalksteininn þar á staðnum og leysa gullið úr afganginum af steininum, sem ekki leskjaðist, með cyankalium.“ – Á.Ó.

Heimildir:
-Víkverji 28.08.1873, Kalk í Esjunni, bls. 82.
-Þjóðólfur 17.5.1877.
-Eimreiðin 01.01.1900, bls. 83.
-Ægir 01.06.1914, bls. 68.
-Tímarit iðnaðarmanna 01.04.1941, bls. 26-27.
-Heilbrigðistíðindi 01.07.1973, Kalkbrennsla, bls. 60-61.
-Lesbók Morgunblaðsins 23.10.1949, „Kalknám í Esjunni og Kalkbrensla í Reykjavík“, Árni Óla, bls. 461-464.
-Hndr. Lbs. 314 fol. Hndr. J. S. 133 fol., Reykjavík um aldamótin, Iðnsaga Íslands II, Alþtíð. 1875, Stjórnartíð, 1876.
-Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við bæjarstæði Mógilsár, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2019.

Esja

Esja.