Tag Archive for: Mógilsjá

Stardalur

MA-ritgerð Margrétar Bjarkar Magnúsdóttur, „Fornleifar á Kjalarnesi“ við HÍ 2015 fylgir viðauki; „Kjalarnes – saga jarða„. Hér á eftir er að finna fróðleik um landnám og sögu einstakra jarða á Kjalarnesi:

Landnám á Kjalarnesi

Kjalarnes

Kjalarnes.

Kjalarnes var hluti af landnámi Ingólfs Arnarsonar . Það var mjög víðfeðmt og greint er frá því í Landnámabók. Þar segir: „En Ingólfr nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir útan Brynjudalsá, milli Öxarár, ok öll nes út.“ Ingólfur útdeildi síðan úr landnámi sínu til vina og vandamanna. Einn af þeim var Hallur goðlausi sonur Helga goðlausa og Landnáma getur þess að þeir feðgar hafi ekki viljað blóta. Hallur nam land að ráði Ingólfs „… frá Leiruvági til Mógilsár“. Hallur er sagður hafa búið í Múla en ekki er vitað hvar sá bústaður hefur verið því bæjarnafnið þekkist ekki úr öðrum heimildum. Sonarsonur Halls var Þórður Helgason sem bjó í Álfsnesi.
Helgi bjóla Ketilson flatnefs var tengdasonur Ingólfs, giftur Þórnýju Ingólfsdóttur. Helgi kom frá Suðureyjum til Íslands og var fyrsta veturinn með Ingólfi. Helgi bjóla nam að hans ráði Kjalarnes allt á milli Mógilsár og Mýdalsár (Miðdalsá/Kiðafellsá) og bjó á Hofi. Systir Helga var Auður hin djúpauðga sem nam land í Dölunum. Kjalnesinga saga segir að hann hafa verið blótmaður mikill og reist hof mikið í túninu hjá sér, „hundrað fóta langt, en sextugt á breidd“ þar sem Þór var mest tignaður.

Kjalarnes

Kjalarnes – bæir.

Örlygur Hrappsson var bræðrungur við Helga bjólu og var hjá honum fyrsta veturinn. Að ráði Helga nam hann land frá Mógilsá til Ósvíf(r)slækjar (Ósýnulækur) og bjó á Esjubergi. Örlygur var kristinn og hafði verið í fóstri hjá Patreki biskup í Suðureyjum. Þegar hann vildi fara til Íslands lét biskup hann hafa með sér kirkjuvið, járnklukku, pelárium og vígða mold sem hann átti að setja undir hornstafi kirkjunnar. Kirkjuna átti hann að helga heilögum Kólumkilla. Örlygur gerði eins og biskup hafði mælt fyrir um og lét gera kirkju á Esjubergi. Kirkjan sú er talin fyrsta kirkja á Íslandi.
Landnáma getur einnig um Auðunn Þórðarson í Brautarholti þegar tengsl hans við Ávang sem byggði fyrstur í Botni eru rakin. Kjalnesinga saga segir hinsvegar frá ungum manni að nafni Andríður sem Helgi bjóla vildi gefa jörð sem hann nefndi Brautarholt en Auðunn gæti verið fyrirmynd Andríðs.
Kjalarnes
Af Landnámu má sjá að landnámsmenn á Kjalarnesi voru bæði kristnir og heiðnir, Hallur goðlausi og Örlygur Hrappsson kristnir en Helgi bjóla heiðinn.
Byggð á Kjalarnesi hefur verið stöðug frá landnámi og bæjarnöfn hafa lifað frá ritun elstu heimilda, lögbýli, höfuðból, hjáleigur, afbýli og kot. Bæjarnöfnin sækja flest uppruna sinn í landslag. Þá virðist ekki hafa verið óalgengt að afbýli og kot hafi skipt um nafn eftir því hver bjó þar og voru oft kennd við ábúanda en það getur gert erfiðara fyrir þegar reynt er staðsetja býlin.

Kjalarnes

Kjalarnes – söguskilti.

Þéttbýlast hefur verið á Kjalarnesinu sjálfu og þar voru fjögur hverfi. Árið 1937 voru sex býli í Melahverfi sem er nyrst, í byggð voru Norðurkot, Melar og Útkot, en Ós, Höfðalágar og Niðurkot voru í eyði. Saurbæjarhverfi var kirkjustaðurinn Saurbær ásamt Hjarðarnesi innra og ytra sem var þá orðið eitt býli en hafði áður verið tvö, Litli- Saurbær og Bjarg (Stekkjarkot) höfðu verið lögð undir kirkjustaðinn sem skipt hafði verið upp í tvö býli í erfðaskiptum 1930, í Dalsmynni og Saurbæ. Brautarholtshverfi var fjórtán býli fram á síðari hluta 19. aldar. Í aðalhverfinu voru Brautarholt, Ketilsstaðir, Hjallasandur, Snússa, Lambhús, Flassi, Austurvöllur, Borg, Presthús og Nes. Svo voru fjórar kirkjujarðir frá Brautarholti: Mýrarholt, Arnarholt, Brekka og Bakkaholt. Í Hofshverfi voru fjögur býli: Hof, Krókur, Lykkja og Jörfi. Síðar komu nýbýlin Bergvík og Grund.

Esjuberg

Forn gata ofan Esjubergs.

Hin forna þjóðbraut lá fast upp við Esju á mótum mýrlendis og skriðanna. Hægt er að rekja gamlar reiðgötur frá Esjubergi og langleiðina að Blikdalsá. Sumstaðar eru þær slitróttar vegna skriðufalla og framkvæmda. Landleiðin til og frá Reykjavík var frá Elliðaám upp eftir Mosfellssveit og lá leiðin nær sjó en nú eða vestan Korpúlfsstaða og Blikastaða, inn með Leiruvogi og yfir Leirurnar. Fyrir sunnan Leirvogstungu voru grónir götutroðningar. Þaðan var farið eftir Tungumelum, Fitjakots- og Álfsnesmelum um Kollafjörð. Síðan utan við Mógilsá upp hlíðina um Kleifar og áfram út með Esju nálægt fjallsrótum. Þaðan inn Tíðaskarð og Melahverfi upp við fjallið. Einnig var hægt að fara leiðina um Svínaskarð sem var styttri en að fara út fyrir Esju og inn með Hvalfirði en sú leið var erfið að vetrarlagi. Það var aðalþjóðleiðin frá Reykjavík til Vestur- og Norðurlands. Þessi leið lá frá Köldukvísl í Mosfellssveit yfir Skeggjastaðaháls og yfir Leirvogsá hjá Hrafnhólum milli Haukafjalla að austan og Skarðsár að vestan. Síðan var farið upp í skarðið sem er 481 m yfir sjó og fljótlega hallar norður af til Kjósar.

Esja

Esja á Kjalarnesi.

Samkvæmt heimildum var lengst af blandaður búskapur á Kjalarnesi. Fiskveiðar voru aðalatvinnuvegur manna í Kjósarsýslu um miðbik 18. aldar að sögn Jóns Hjaltalín. Samt sem áður var töluverður landbúnaður á Kjalarnesi þó fé væri færra þar en í öðrum sýslum.
Sjósókn virðist hafa verið töluverð fram á 19. öld og samkvæmt Jarðabók Árna og Páls var eimræði allt árið frá jörðum við sjávarsíðuna og víða var verstaða góð þar sem aðkomuskip gengu stundum. Verstaða var þá aðeins á tveimur stöðum en sjófólk var þjónustað af heimamönnum og í manntali kemur fram að húsmaður lifi á fiskveiðum. Fjörubeit var fram á 21. öldina og víða var fé flæðihætt. Þá ráku margir bændur geldneyti og hross á Hvannavelli á Mosfellsheiði þar sem þeir höfðu frían upprekstur.

Leirvogur

Hafnir í Reykjavík 1831.

Á Kjalarnesi eru víða lendingar og hafnir sem róðrarmenn notuðu á fyrri tíð. Leir(u)vogur varð snemma skipalægi og er getið í Landnámu, Egilssögu, Gunnlaugssögu ormstungu, Hallfreðarsögu, Flóamannasögu og Kjalnesingasögu. Þerneyjarsund var önnur af helstu höfnum á Kjalarnesi og elsta heimild um hana er Kjalnesinga saga frá því um 1300. Skúli Magnússon telur hana eina af helstu höfnunum 1785, góða vetur og sumar. Nánar er fjallað um höfnina í umfjöllun um Sundakot. Innst í Kollafirði var ein af helstu skipahöfnum ágætis sumarskipalægi fyrir innan Helgasker á milli þess og Naustaness sem fékk nafnið Leynivogar eftir að skipum var siglt þangað til að fela þau fyrir Tyrkjum 1627.
Andríðshöfn, á milli Andríðseyjar og Músarness, var ein af helstu höfnum á Kjalarnesi um 1785.
Þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var ekki siglt á neina höfn á Kjalarnesi aðeins á Hvalfjarðareyri í Kjósarhreppi.

Saga jarða á Kjalarnesi
Hér á eftir verður farið yfir sögu jarða á Kjalarnesi, auk annars fróðleiks. Fylgt er sömu landleið og Árni Magnússon og Páll Vídalín fylgdu við gerð Jarðabókarinnar en þeir leituðust við að setja jarðirnar i staðfræðilega röð. Byrjað er í Þerney, Álfsnesið farið í austur með Leirvogsá að austustu jörðinni Stardal og síðan vestur með Esju og norður fyrir að nyrstu jörðinni Tindstöðum. Röðin er ekki alltaf alveg sú sama og Jón Johnsen fylgdi í Jarðatali sínu.

Þerney

Þerney

Þerney.

Þerney er grasivaxin eyja í vestur frá Álfsnesi. Hún liggur í vík innarlega á Kollafirði, á milli Gunnuness og Álfsneshöfða. Lending var talin góð þar. Eyjan er láglend, um 0,4 km², hæst 25 m.y.s., um 990 metrar á lengd og breidd. Sumstaðar er nokkuð bratt að sjónum, helst um norðanverða eyjuna en ströndin yfirleitt lág og sendin. Eyjan er vel gróin og aðalgróðurlendið er graslendi, mýrar og grónir melar. Á túnakorti Álfsness og Glóru frá 1916 kemur fram að Þerney hafi verið mannlaus í mörg ár þegar mæling fór fram og því var ekki mælt þar en þó voru þar enn hús og túnið var slegið. Guðmundur Ólafsson fór í skoðunarferð til Þerneyjar með Sögufélagi Mosfellsbæjar 1983 og punktaði þá niður athugasemdir um minjar sem gengið var fram á og merkti eftir minni ellefu minjastaði. Þá voru bæjarrústir býlis sem fór í eyði 1934 en bærinn hafði verið brendur vegna slysahættu, sennilega 1955. Þerneyjarsund, á milli Þerneyjar og Álfsness, var talið ein af helstu skipahöfnunum áður fyrr, bæði sumar og vetur. Skúli Magnússon taldi 1785 að þar gætu sex skip hæglega legið. Nánar er fjallað um skipalægi í Þerneyjarsundi við Sundakot.

Þerney

Frá Þerney 1910.

Kirkju í Þerney er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200. Elsti máldagi kirkjunnar er máldagi sem Magnús biskup Gissurarson setti sem talin er vera frá því um 1220. Kirkjan var helguð Maríu, Jakobi postula, Nikulási, Þorláki, Maríu Magdalenu og Agnesi. Þá átti kirkjan fjórar jarðir hálfa Þerney, Álfsnes, Háheiði og Víðines og hafði tíund og gröft af þessum bæjum. Kirkjan átti líka helming í selför og afrétt í Stardal, auk hluta í fjöru í Krossavík (ferjukvaðarstaður frá Þerney). Sömu eigna og ítaka er getið í máldaga frá haustinu 1269 sem Árni biskup Þorláksson setti.
Vilchinsmáldagi 1367 telur upp eignir Maríukirkjunnar í Þerney og Þorláks biskups og eru þær þá hálf Þerney og Álfsnes en ekki Háheiði og Víðines. Samkvæmt Vilchinsmáldaga frá 1397 voru eignir kirkjunnar þá hálf Þerney, Álfsnes, „HafaHeiði“ og Víðines og liggur af þessum bæjum gröftur, tíund og lýsistollur til kirkjunnar. Selför og afrétt í Stardal, hluti í fjörum sem fylgja Þerney í Krossavík og skógur í Skorradal. Árið 1409 kvað Oddur lögmaður Þórðarson upp úrskurð í Þerney um flutninga á konungsgóssi frá Íslandi með kaupskipi sem konungur átti part í en var leigt öðrum.12 Í máldaga Þerneyjarkirkju 1553 eru taldar upp sömu eignir kirkjunnar og áður: Hálfa Þerney, Álfsnes, Háheiði og Víðines, helming í selför í Stardal, sinn hluta fjöru sem fylgir Þerney í Krossavík, skóg í Skorradal.

Þerney

Þerney – loftmynd.

Þerney var meðal jarða sem nefnd er í staðfestingabréfi, 10. mars 1553, Kristjáns konungs þriðja á veitingu jarða sem Páll Hvítfeldr hafði lagt skólameistaranum í Skálholti. Þerney kemur fyrir í vitnisburði varðandi jarðaskipti árið 1554 og er getið í ráðsmannsreikningum í Skálholti frá því fyrir 1557.
Þerney var ein af jörðum Skálholtsstólls sem Páll Stígsson neyddi Gísla biskup til að skipta fyrir jarðir í Borgarfirði 1563 og var hún þá metin á 60 hundruð. Sömu jarðeignir, selför og ítök kirkjunnar eru talin upp í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar. Oddur biskup bætti við neðanmáls að engin kirkja sé í Þerney 1600 og ekkert kirkjukúgildi. Samkvæmt umfjöllun í forbréfasafninu um máldaga kirkjunnar frá því um 1220 þá stóð þar bænhús með kirkjugarði fram á 19. öld. Þerney var í eigu konungs og tilheyrði Skálholtsstól 1686 metin á 61 hundrað og 160 álnir, 1695 var jörðin metin á 31 hundrað.

Þerney

Þerney – bæjartóftir.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Þerney í eigu konungs með einum ábúanda en jarðadýrleiki óviss. Kvaðir voru um mannslán á vertíð. Torfrista og eldiviðartak var á fastalandi þar sem helmingur jarðarinnar var. Nokkuð var af fjörugrösum en sölvafjara lítil. Rekavon var lítil og einnig þangtekja en þang stundum notað til eldiviðar. Heimræði var árið um kring en verstaða hafði aldrei verið. Engjatak var lítið og sjór braut túnið. Selstöðu hafði jörðin haft í Stardal frá fornu fari en fékk ekki eftir að byggt var í Stardal, um 1674.
Samkvæmt Jarðabókinni voru þrjár hjáleigur á jörðinni 1704: Landakot, sem var á eyjunni en var þá í eyði sagt hafði verið byggt frá 1674 til 1701, Sundakot, sem kom þá fyrst fyrir og Víðines. Álfsnes og Háheiði voru þá ekki lengur taldar sem hjáleigur Þerneyjar en Álfsnes var talið eign konungs eftir að krúnan fékk Þerney 1563.

Þerney

Þerney – örnefni.

Álfsnes var talin sem sér jörð í Jarðabókinni og búið var að leggja undir hana land Háheiðar sem sögð var forn eyðijörð sem engin mundi þá eftir að hefði verið í byggð og var talin óbyggileg. Við það jókst landskuld af Álfsnesi um helming.
Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var einn bær og ein þurrabúð í Þerney sem var í eigu konungs. Þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 var Þerney í bændaeign og metin á 30 hundruð. Ábúendur og eigendur voru þrír. Dýrleiki hjáleigunnar Víðiness var 10 hundruð en dýrleiki hjáleigunnar Sundakots (Niðurkots) var reiknað með heimajörðinni. Álfsnes sem áður hafði verið hjáleiga Þerneyjar var þá komið í bændaeign, metið á 20 hundruð. Kaupveð Þerneyjar var 416 ríkisdalir þegar hún var seld úr eigu konungs 1816 ásamt Víðinesi og Sundakoti. Þerney var metin á 15 hundruð 1855.

Landakot
Landakot var hjáleiga í Þerney. Hún er fyrst nefnd í Jarðabókinni 1704 og hafði þá verið í eyði í þrjú ár (1701). Þar segir að hún hafi verið byggð þar sem ekki hafði verið byggt áður rúmum þrjátíu árum áður eða um 1674. Kvaðir höfðu verið um mannslán allt árið og einn dagslátt til heimabóndans. Þá var talið að byggja mætti hjáleiguna aftur en á kostnað heimajarðarinnar vegna landþrengsla. Aðrar heimildir geta hjáleigunnar ekki og virðist hún því aðeins hafa verið byggð, frá því um 1674 til 1701, í um 27 ár. Engar minjar eru skráðar á hjáleiguna sem skráð er undir Þerney.

Sundakot

Sundakot

Sundakot.

Sundakot er sunnanvert við Þerneyjarsund á norðanverðu Gunnunesi. Þar er einstakt minjasvæði með tóftum síðasta bæjarins sem var einnig nefnt Niðurkot. Hugmyndir hafa verið um að við skipalægið í Þerneyjarsundi hafi áður verið verslunarstaður og hvorutveggja er skráð sem fornleifar undir kotið. Búseta lagðist af þar 1886.
Sundakot, nafnið var fyrst nefnt í Jarðabók Árna og Páls 1704 og var þá önnur hjáleiga Þerneyjar á fastalandi, eldri en elstu menn mundu. Ábúandi var einn og reiknaðist dýrleiki með heimajörðinni. Kvaðir voru um mannslán allt árið til heimabóndans. Hægt var að fóðra tvær kýr í kotinu. Torfrista, stunga og eldiviðartak var á fastlandi en sjávarhlunnindi voru engin og átroðningur var mikill.
Þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 var Sundakot enn hjáleiga Þerneyjar ásamt Víðinesi. Býlið nefndist Niðurkot 1855 þá enn hjáleiga frá Þerney, metin á 5 hundruð. Á túnakorti Álfsness frá 1916 er athugasemd um að „Gunnunes (Niðurkot?)“ hafi lengi verið í eyði og húsalaust með ógirtum túnblett sem sé þó oftast sleginn.

Skipalægi í Þerneyjarsundi

Kjalarnes

Kjalarnes – kort.

Þerneyjarsund sem er á milli Þerneyjar og Álfsness var talið ein af helstu skipahöfnum áður fyrr, bæði sumar og vetur. Skúli Magnússon segir í lýsingu á Gullbringu- og Kjósarsýslu um 1784 að þar sé mjög góð höfn bæði á vetrum og sumrum, skipum sem rista 12-13 fet. Taldi hann að þar gætu sex skip hæglega legið. Árið 1855 talaði Stefán Þorvaldsson um góðar lendingar bæði í Þerney og Kollafirði.

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Elstu heimild um höfn á Þerneyjarsundi er að finna í fyrsta kafla Kjalnesinga sögu en þar segir: „Eptir þat býr Örlygr ferð sína, ok er frá ferð hans þat fyrst at segja, at allt gekk eptir því, sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn.“ Neðanmáls segir að ekki sé getið um skipakomur í Leiruvog í fornsögum og þetta sé eini staðurinn í Íslendingasögum þar sem minnst sé á skipakomur í Þerneyjarsund en í Íslenskum annálum er skýrt frá skipakomum þangað árin 1391, 1411 og 1419.

Kjalarnes

Kjalarnes – norðurhluti (AMS-kort).

Þó svo að Kjalnesinga saga sé talin ótrúverðug virðist staðkunnugur höfundur hennar hafa þekkt skipalægið í Þerneyjarsundi kringum aldamótin 1300 en skoðanir eru skiptar meðal fræðimanna um á hvaða tímabili var kauphöfn við Þerneyjarsund.
Kristján Eldjárn gerði staðfræðilega athugun á Leirvogi og Þerneyjarsundi í júlí 1978 sem hann skrifaði um í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1980. Þar leiðir hann líkum að því að Þerneyjarsund hafi leyst höfnina í Leirvogi af hólmi vegna versnandi hafnarskilyrða þar og með tilkomu nýrrar skipagerðar. Hann taldi athyglisvert að hafnar í Leiruvogi væri getið í fornritum frá 13. öld en ekki í annálum og skjölum. Kristján fann aðeins eina ritaða heimild um kaupstefnuminjar í Þerneyjarsundi, klausu í Chronographica Islandica eftir Árna Magnússon frá því um 1700. Þar segir að skipalega hafi verið í Þerneyjarsundi og sést hafi til vallgróinna búðastæða á landinu fyrir austan sundið þar sem menn sögðu kaupstefnu hafa verið.

Álfsnes

Álfsnes – minjar.

Kristján taldi yfirgnæfandi líkur á að lendingarstaðurinn og aðsetur kaupmanna hefði verið í hvamminum þar sem tóftir Sundakots eru og Guðmundur Ólafsson hefur tekið undir þá skoðun. Kristján taldi að báða staðina, Þerneyjarsund og Leirvog, mætti kalla undanfara Reykjavíkur sem miðstöðvar verslunar hér og „ætti að varðveita eins og þeir eru.“Kristján talar um í grein sinni (bls. 30) að minjarnar í Sundakoti séu friðaðar en sú er ekki raunin. Vera má að hann hafi ætlað að friða þær.
Í vettvangsferð sem farin var 2001 á svæðið þar sem Kristján taldi líklegast að búðirnar væri að finna, suðvestan tófta Sundakots, fundust engar rústir á yfirborði en við malarkambinn þar sem sjórinn brýtur af landinu mátti sjá mannvistarleifar. Í sniðinu voru greinleg bæði móaska og torfveggur með gjóskulagi frá 1226. Þá var svæðinu mikil hætta búin vegna landbrots og framkvæmda. Þetta styður kenningu Kristjáns varðandi staðsetningu kaupstefnuminja og er rétt að staðurinn njóti vafans þar til frekari könnun hefur verið gerð áður en hann fer alveg í sjóinn.

Víðines

Víðines

Víðines – túnakort 1916.

Bæjarstæði í Víðinesi er sunnan í Glóruholti, austan við Nesvík norðan Leiruvogs. Byggð var stöðug frá því um 1200 en búskap lauk í Víðinesi 1958 þegar Bláa bandið, samtök gegn áfengisböli, keypti jörðina og hóf þar rekstur vistheimilis 1959. Nokkur hús voru byggð í landi Víðiness á síðustu öld. Þar á meðal var Hagi, tómthús daglaunamanns sem var í byggð frá 1925 til 1933. Einsetumaðurinn Vilhjálmur Theodórsson Johnson byggði annað hús í landinu árið 1928, íbúðarhús sem var kallað Ósborg og bjó þar til 1935 en ekki var búið í húsinu eftir það. Vestan við Selalæk var byggður sumarbústaðurinn Vogur árið 1940 og íbúðarhúsið Vonarholt var byggt í landi Víðiness 1984.

Víðines

Víðines – minjar.

Jörðin var ein af fjórum landareignum kirkjunnar í Þerney og er hennar getið máldögum hennar, fyrst í máldaga frá um 1220 og svo frá haustinu 1269. Aftur í Vilchinsmáldögum 1367 og 1397. Því næst í máldaga sem talin er vera frá 1553 og síðan í Gíslamáldögum 1570 og síðar. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Víðines þriðja hjáleiga Þerneyjar, sem var þá konungseign. Einn ábúandi var á jörðinni sem hafði verið byggð um langa ævi og reiknaðist dýrleiki með heimajörðinni. Kvaðir voru um mannslán allt árið utan sláttar. Heimræði var allt árið þegar fiskur gekk til sunda en skipagata sögð löng og vatnsból slæmt. Víðines var metið á 10 hundruð þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 með einum ábúanda.

Álfsnes

Álfsnes

Álfsnes – túnakort 1916.

Álfsnes (Hálsnes) er sunnan í Álfsneshöfða, við litla vík við austanvert Þerneyjarsund. Þar hefur verið búseta frá landnámi. Jörðin dregur nafn sitt af landslaginu, nesinu sjálfu. Í Jarðabókinni 1704 er jörðin nefnd Alsnes og innan sviga Álfsnes og einnig Halsness. Stefán Þorvaldsson kallaði jörðina Hálsnes 1855.
Nýbýlið Naustanes sem stendur sunnan Kollafjarðar var byggt út úr Álfsnesi 1946, á mörkum jarðanna Kollafjarðar og Álfsness.
Fagranes var sumarbústaður og íbúðarhús sem byggt var úr landi Álfsness vestan vegarins niður að Álfsnesi en norðan heiðar. Það var síðar flutt á Suðurlandsbraut 74 í Reykjavík.
Urðun sorps hefur verið í Álfsnesi á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 1989.

Álfsnes

Álfsnes – Fálkavarða.

Álfsness er getið í Landnámabók. Þar bjó Þórður Helgason, sonarsonur Halls goðlausa sem nam land á milli Mógilsár og Leirvogsár með ráði Ingólfs og bjó í Múla.
Álfsnes var í eigu Þerneyjarkirkju og er getið í máldögum hennar frá 1220. Þar er líka talað um bænhús í Álfsnesi sem til eigi að kaupa þrettán messur. Álfsness er talið upp sem eign Þerneyjarkirkju í máldögum 1367 og 1397.
Þá er jarðarinnar getið í máldaga frá 1553 og Gíslamáldögum um 1575. Jörðin var metin á 20 hundruð á árunum 1686 og 1695 í eigu konungs. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Álfsnes í eigu konungs og dýrleika ekki getið. Ábúendur voru tveir og bjuggu hvor á sínum helmingi jarðarinnar. Hægt var að fóðra tíu kýr og sextán lömb á allri jörðinni. Geldnautarekstur átti jörðin uppá Hvannavelli á Mosfellsheiði. Fátt var talið jörðinni til tekna og barlómur mikill. Torfrista, stunga og mótak voru varla nýtandi og rekavon lítil. Sölvafjara var að mestu þrotin en hrognkelsafjara nokkur. Heimræði var allt árið þegar fiskur gekk til sunda. Tún og engjar voru meinþýfð og landþröng mikil og því hafði forn eyðijörð sem kallaðist Háheiði verið lögð til beitar og annarra nytja og jókst þá landskul um helming. Mikil flæðihætta var og sjór braut af túnum. Stórviðri sköðuðu stundum hús og hey og vatnsból var lélegt. Hjáleiga Álfsness var Urðarkot eða Glóra og reiknaðist jarðardýrleiki með heimajörðinni. Kaupverð Álfsness var 665 ríkisdalir þegar jörðin var seld með Glóru úr eigu konungs 1838. Þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 var Álfsnes bændaeign, metin á 20 hundruð en sýslumaður vildi setja 5 hundruð á Glóru.

Háheiði
Háheiði (Hávaheiði) var jörð norðarlega á Álfsneshöfða. Hennar er getið í máldögum Þerneyjarkirkju frá 1220 fram til um 1570, var ein af fjórum landareignum kirkjunnar.
Þegar Jarðarbók Árna og Páls var gerð var Háheiði sögð forn eyðijörð og þá mundi enginn hversu lengi svo hafði verið. Þá var ekki talið að hægt væri að byggja þar aftur því töðuvöllur var ónýtur og grasnaut sem eftir var lá til Halsness (Álfsnes). Háheiði hefur sennilega farið í eyði seint á 16. öld eða snemma á 17. öld og engin mundi eftir því 1704 að hún hafi verið byggð.
Ekki er vitað hvar býlið var staðsett.

Glóra

Glóra

Glóra.

Glóra, einnig nefnt Urðarholt, var hjáleiga frá Álfsnesi. síðast var búið þar 1935 og eru tóftir býlisins suður af Álfsnesi suðaustan við sömu vík norðan í Glóruholti á Álfsneshöfða.
Heimildir um búsetu í Glóru eru frá því fyrir 1700 fram til 1896 eða í um tvö hundruð ár og síðan aftur frá 1928-1935 í sjö ár. Þegar túnakort voru gerð 1916 var Glóra í eyði en tóftir og tún býlisins teiknað inn á túnakort með Álfsnesi. Tóftirnar standa vel ásamt túngarði og útihúsum ennþá vel sýnileg og mynda einstakt minjasvæði.

Glóra

Glóra – túnakort 1916.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var dýrleiki reiknaður með heimajörðinni. Hjáleigan var þá ýmist nefnd Glóra eða Urðarkot og á lausu blaði í Jarðabókinni einnig nefnt Hallsnesshjáleiga. Glóra var orðin sjálfstæð jörð 1855 því Stefán Þorvaldsson segir í lýsingu sinni á Mosfells- og Gufunessóknum að Glóra hafi áður verið hjáleiga frá Álfsnesi þá metin á 5 hundruð.

Fitjakot

Fitjakot

Fitjakot.

Fitjakot er á norðanverðum bökkum Leirvogsár. Jörðin á mörk á móti Varmadal að austan en Víðinesi og Álfsnesi að vestan. Gamli bærinn í Fitjakoti stóð á Brunnhól um 70 metra suðaustan við núverandi íbúðarhús. Síðast stóð þar timburhús sem reist var um 1930 og þá lá þjóðvegurinn um hlaðið. Núverandi íbúðarhús, sem var byggt 1950, stendur aðeins vestar, á Húsaflötum, en þar voru áður fjárhús. Þar var Kaupfélag Kjalarnesþings stofnað 15. október 1950 og var þar fyrst til húsa. Athafnamennirnir Sturlubræður áttu Fitjakot um tíma og notuðu jörðina til sumarbeitar.
Fitjakot var áður nefnt Fitjar og var í eigu Viðeyjarklausturs 1395. Jörðin kemur fram undir eldra nafninu Fitjar, í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs 1395, en yngra nafninu Fitjakot í fógetareikningum frá 1548 til 1551. Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarkirkju 1686 metin á 15 hundruð en á 10 hundruð

Fitjakot

Fitjakot.

1695. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en dýrleiki óviss. Ábúandi var einn. Kvaðir voru meðal annars um mannslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar fimm kýr og tíu lömb. Torfrista, stunga og mótak til eldiviðar var sæmilegt. Leirvogsá var bæði til gagns og ógagns. Þar var hægt að veiða bæði lax og silung en hún spillti engjum og braut af túni. Stórviðri brutu stundum hey og hús. Þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 var Fitjakot í eigu konungs metið á 10 hundruð. Árið 1855 var jörðin konungs eign metin á 10 hundruð. Samkvæmt manntölum frá 1703 var einn ábúandi í Fitjakoti nema 1850 voru tveir.

Varmadalur

Varmadalur

Varmadalur – túnakort 1916.

Varmadalur er norðanvert við Leirvogsá, norðaustan og ofan við Fitjakot. Bærinn stendur ofan við ánna undir allhárri brekku á stórum og miklum bæjarhól.
Elín Hreiðarsdóttir fornleifafræðingur gerði fornleifaskráningu í Varmadal 2006 sagði erfitt að áætla stærð hans en taldi ummál hans vera um 60×70-80 m og hæðina allt að 2 m. Á bæjarhólnum stendur nú steinsteypt íbúðarhús frá 1892 en Jón Sverrir Jónsson, ábúandi í Varmadal, taldi líklegt að eldri bær úr torfi og grjóti hefði verið á sama stað. Hólnum hefur eitthvað verið raskað vegna annarra mannvirkja en Elín taldi líklegt að þar leyndust minjar undir sverði.

Varmadalur

Varmadalur 1925-1940.

Fyrstu heimildir um Varmadal eru í fógetareikningum 1547-1548 en ekki er ósennilegt að búseta hafi hafist þar fyrr. Þar er ritháttur Wermedaell og Wermedall. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en jarðadýrleiki óviss. Varmadalur var þá ein af umboðsjörðum konungs sem Jón Eyúlfsson sýslumaður hafði til leigu. Ábúandi var einn og kvaðir voru um mannslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar sjö kýr, eitt ungneyti, tólf lömb og einn hest. Mótak til eldiviðar var sæmilegt og einnig torfrista og stunga. Hlunnindi voru lax og silungsveiðivon í Leirvogsá en áin spillti engjum. Veður voru skaðsöm húsum og heyjum. Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs á árunum 1686 og 1695, metin á 15 hundruð. Kaupverð Varmadals var 530 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1813. Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var Varmadalur í bænda eigu, metinn á 15 hundruð og með einum ábúanda. Varmadalur var metin á 15 forn hundruð en 12,8 ný hundruð í Nýju jarðamati fyrir Ísland 1861.

Stardalur

Stardalur

Stardalur – túnakort 1916.

Stardalur er austasti bær í Kjalarneshreppi. Bærinn stendur við mynni samnefnds dals norðanvert við Leirvogsá, suðaustan undir Skálafelli. Stardalur er hluti af landnámi Halls goðlausa sem nam land á milli Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla. Bæjarnafnið þekkist ekki en þær hugmyndir hafa komið fram að Múli hafi staðið þar sem bærinn í Stardal stendur núna. Jónas Magnússon sem var bóndi í Stardal segir í örnefnalýsingu um svæðið að í dalnum sem liggi fyrir ofan bæinn, sem hann telur hinn eiginlega Stardal, virðist vera byggðarleifar sem kallaðar séu Akurvellir, nánar tiltekið innarlega í dalnum á milli Bolagils og Beinagils. Þar er garðbrot og þar fannst einu sinni aska í bakka við ána. Þar segir Jónas að hafi verið tóftir sem áin sé að rífa niður og neðan við Flágil hafi einnig verið sýnilegar tóftir.
Björn Bjarnason taldi að bærinn í Stardal hefði verið þar upp á dalnum þar sem hann hafð séð sorphaug molna og tóftir hverfa í dýjamosa en bærinn hafi síðan verið færður niður fyrir dalsmynnið þar sem hann er núna. Björn sagði einnig í lýsingu sinni á Kjalarnesi 1937 frá hugmynd sinni að bústaður Halls goðlausa, Múli, hefði staðið við Múlaendan hinumegin við Stardslsána gegnt Stardal þar sem fjárréttin er og fleiri sjáanlegar tóftir. Það þykir heldur ósennilegt bær hafi verið upp á dalnum og líklegra er að þarna hafi verið selstaða á einhverjum tíma.

Stardalur

Stardalur.

Samkvæmt heimildum frá því um 1200 voru selstöður og afrétt í Stardal frá bæjum í Mosfellssveit og á Kjalarnesi, sennilega frá því að sveitin byggðist og fram til ársins 1674 þegar jörðin byggðist. Þerneyjarkirkja átti helming í selför og afrétt í Stardal frá um 1220 þar til eignir hennar féllu þegjandi undir konung um siðaskipti. Engar heimildir eru um eignarhald á hinum helmingnum fyrr en í máldaga Brautarholtskirkju frá 1491.
Stardalur kemur fyrst fram í máldögum Þerneyjarkirkju frá því um 1220 og áfram. Þá átti kirkjan helming í selför og afrétt í Stardal. Sama kemur fram í máldögum kirkjunnar frá 1269, í Vilchinsmáldaga frá 1367, máldaga 1553 og síðan í Gíslamáldögum frá 1575.
Þerneyjarkirkja virðist hafa verið aflögð á tímabilinu 1580-1600 og engin kirkja var í Þerney 1600.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Í Jarðabókinni kemur fram að „Selstöðu hefur jörðin til forna um lánga æfi brúkað í Stardal, og fæst hún nú ekki síðan þar var bygð sett.“ Selstaðan gæti hafa fylgt jörðinni fram til 1674. Eignarhald Brautarholtskirkju á hálfum Stardal kemur í fyrsta skipti fram í máldaga kirkjunnar frá 1491. Þar er ekki talað um selstöðu, aðeins tekið fram að „[h]un æ halfan stardal“.
Ekkert bendir til að Brautarholt hafi einhvern tíman haft selstöðu þar en um tvö hundruð árum síðar 1705 er talað um selstöðu Brautarholts á Blikdal. Hvaðan þessi eign á hálfum Stardal hefur komið er ekki gott að segja. Esjuberg átti selstöðu 1704 í Stardal og þar fylgir örnefnið Esjubergssel seljatóftum undir Skopru í Esjubergsflóa sem nú eru í landi Hrafnhóla. Selstaðan gæti hafa verið ítök kirkjunnar á Esjubergi sem fylgdu jörðinni eftir að kirkjan var ekki lengur við lýði?

Stardalur

Stardalur – seljatóftir.

Í Jarðabók Árna og Páls 1704 kemur fram að Stardalur var ekki byggður fyrr en 1674 og hafði þá ekki verið byggður áður að því er frómir menn töldu. Þá var jörðin í eigu konungs með tveimur ábúendum og jarðardýrleiki óviss. Ein af kvöðum var um mannslán á vertíð. Þá var hægt að fóðra þar þrjár kýr, tuttugu ær og tuttugu lömb. Torfrista, stunga og mótak til eldiviðar var nægilegt og hrís- og lyngrif á sumrin. Silungsveiði, grasatekja og berjalestur var nokkur en túnin voru lítil og meir en nóg var af engjataki. Þar kemur einnig fram að áður hafi sjö jarðir í eigu konungs haft selstöðu að fornu í Stardal.
Samkvæmt Jarðabókinni virðast bæir á Kjalarnesi og í Mosfellssveit hætt að hafa í seli í Stardal 1674 eftir að jörðin var byggð. Stardalur var metinn á 415 ríkisdali þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1836. Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var jörðin var í bændaeigu, metin á 15 hundruð og með einum ábúanda.
Í jarðamati á Íslandi frá 1849-1850 er Stardalur metinn á 5 forn hundruð en 16,8 ný hundruð. Ný jarðabók fyrir Ísland frá 1848-1861 telur jörðina metna á 5 forn en 17,4 ný hundruð.

Selstöður í Stardal

Stardalur

Sýnileg sel í Stardal.

Heimildir eru um ellefu selstöður undir Svínaskarði, kenndar við Stardal, en sjáanlegar tóftir eru aðeins í landi Hrafnhóla. Flestar selstöðurnar áttu jarðir í Mosfellssveit eða sjö, frá Gufunesi, Lambhaga, Korpúlfsstöðum, Blikastöðum, Lágafelli, Helgafelli og Varmá. Fjórar voru frá Kjalarnesi frá Esjubergi, Móum, Skrauthólum og Þerney í landi Hrafnhóla. Tóftir þriggja selja eru ennþá sjáanlegar og bera örnefni síðustu bæjanna sem nýttu þau. Það eru Varmársel og Þerneyjarsel við Leirvogsá, um 200 metra norðaustan og ofan við Tröllafoss og Esjubergssel upp í Esjubergsflóa, undir grágrýtisstrýtunni Skopru. Jónas Magnússon í Stardal sagði í örnefnalýsingu að: „Norðan við Tröllalágar, sunnan í Þríhnúkum, er hið gamla Þerneyjarsel.“

Stardalur

Seltóft ofan Stardals.

Þar hafa ekki fundist tóftir en þær gætu hafa horfið í ána eða hlaupnar í þúfur. Jónas nefnir hinsvegar ekki tóftirnar sem nú bera örnefnin Varmársel og Þerneyjarsel.
Egill Jónasson Stardal sem var fæddur og uppalin í Stardal sagði í örnefnalýsingu að miklar rústir væru umhverfis núverandi hús í Stardal eftir einhverskonar byggð. Sumar taldi hann mjög fornar en að einungis fornleifarannsókn fengi úr því skorið hvort þar séu leifar selja eða landnámsbyggðar.

Þerneyjarsel

Þerneyjarsel.

Ofan við bæinn er gamalt tún, Upptún. Neðan við það og um það allt eru rústir einhverra gamalla bygginga og hefur þeim verið hlíft við jarðraski. Í túninu er mannvirki eða hleðsla sem heitir Sumarfjós sem gæti verið vísbending um kúasel. Eftir þessu að dæma er líklegt að finna mætti minjar eftir sel heima í Stardal ef þeirra væri leitað en einhverjar hafa þó væntanlega horfið undir yngri byggingar.
Leirvogsvatn nefndist Svanavatn fyrir 1949 var lítið grasbýli var við norðanvert Leirvogsvatn. Þar má sjá steyptan grunn síðasta íbúðarhússins um 30 metra frá útfalli árinnar og um 215 metra fyrir ofan brúnna. Býlið er skráð sem fornleif undir Stardal en er í landi Mosfellsbæjar.

Sámsstaðir

Sámsstaðir

Tóftir Sámsstaða.

Sámsstaðir eru forn eyðijörð sem hefur legið undir Stardal í langan tíma. Tóftir býlisins, sem eru friðlýstar á jörðina Stardal, standa á bökkum ónefndrar ár, um 200 m norðan og ofan við Leirvogsá. Fyrir vestan og norður af tóftunum er klettagil sem heitir Sámsstaðagil og við tóftirnar er Sámsstaðaflöt þar sem er nú ræktað tún. Engar heimildir eru um búsetu eða kirkju á Sámsstöðum.

Esjubergssel

Esjubergssel.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð sagði almannarómur að þar hefði áður verið kirkjustaður en jörðin legið í auðn síðan drepsótt var í landinu. Jörðin var í eigu konungs og höfðu ábúendur konungsjarða nytjað jörðina og lengi hafði verið nytjuð selstaða frá Esjubergi á landi sem menn töldu að hefði tilheyrt jörðinni þar sem heitir Esjubergssel, hugsanlega það sama og nú ber örnefnið. Ekki taldist byggilegt aftur á Sámsstöðum vegna landþrengsla, uppblásinna túna og skriðufalla. Sámstaðir eru skráðir sem fornleifar og friðlýstir undir Stardal.

Hrafnhólar

Hrafnhólar

Hrafnhólar.

Hrafnhólar eru sunnan undir Haukafjöllum, norðanvert við Leirvogsá, á móti Skeggjastöðum. Jörðin hefur verið byggð af og til samkvæmt heimildum. Sögð forn eyðijörð í Jarðabókinni 1704 og þá vissi engin hversu lengi hún hafði verið í eyði þar til 1688, að hún var byggð upp aftur, til ársins 1703, að hún lagðist aftur í eyði. Samkvæmt manntölum var búið þar 1835-1880. Þegar túnakort Þverárkots var gert 1916 voru Hrafnhólar í eyði og þá sagðir hafa fylgt Þverárkoti 40-50 árin þar á undan, eða frá 1876-1866. Hrafnhólar hafa sennilega farið í eyði um 1880 fram til ársins 1937 þegar þeir voru seldir og hafa verið lögbýli síðan. Þá var bæjarstæðið flutt og bærinn byggður á Skrauthól sem er um 250 m vestan og neðan við eldra bæjarstæðið sem var undir Bæjarskarði.

Hrafnhólar

Hrafnhólar.

Hrafnhólar voru metnir á 5 hundruð árið 1695 í eigu konungs.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var ritháttur Hrafnhóla, Hafnhoolar og sumir kölluðu bæinn Hafnabjörg og sögðu það nafn eldra. Jörðin var þá í eigu konungs og jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru um eitt mannslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar þrjár kýr aðalega á útheyjum. Torfskurður til húsa og í eldivið var sæmilegur og lítilsháttar lyng- og hrísrif. Silungsveiðivon var nokkur og túnstæðið var gott en þó brotnaði af því að neðanverðu en talið var að mætti byggja jörðina aftur. Kaupverð Hrafnhóla var 61 ríkisdalur þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1826.
Jörðin var í bænda eigu, með einum ábúanda, þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 og dýrleiki hennar var 5 hundruð. Mat jarðarinnar 1849-1850 var 5 forn hundruð og 5 ný hundruð. Á árunum 1848-1861 var jörðin metin á 5 forn og 5,2 ný hundruð.

Þverárkot

Þverárkot

Þverárkot – túnakort 1916.

Þverárkot er suðvestanvert við Þverárdalsmynni, skammt vestan við Hrafnhóla. Bærinn stendur austan undir Þverárháls og suðvestan undir Bæjarholti í austanverðri Esju. Áin Þverá rennur austan við bæinn og Leirvogsá sunnan við hann.

Þverárkot

Þverárkot – loftmynd 1954.

Þegar borið er saman túnakort frá 1916 og nýleg loftmynd virðist núverandi íbúðarhús frá 1948 vera á svipuðum stað og húsið sem þá var. Af ljósmynd að dæma gæti það hafa verið járnklætt timburhús
með mænisþaki og viðbyggingar með skúrþaki við báða gafla. Á túnakortinu kemur fram að túnið var að miklu leyti náttúrulegar sléttar flatir og brekka sléttuð að mestu. Þá tilheyrðu Hrafnhólar, sem verið höfðu í eyði í 40-50 ár, Þverárkoti og var metið með þeim á 17,7 hundruð 1918.

Þverárkot

Þverárkot 1948.

Þverárkot var í eigu konungs 1695, metin á 10 hundruð. Þverárkot, áður kallað Þverá, var sögð forn eyðijörð þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704. Þá byggt uppúr auðn þrjátíu árum áður, eða 1674 á sama tíma og Stardalur var byggður í fyrsta skipti. Jörðin var þá í eigu konungs með einum ábúanda en jarðardýrleiki var óviss. Kvaðir voru um eitt manslán á vertíð. Hægt var að fóðra þar fimm kýr og eitt hross. Torfrista og stunga var hjálpleg en mótak til eldiviðar var lélegt. Nokkur silungsveiði var en minni laxveiði. Túnrækt var erfið vegna skarfjúks í vetrarstórviðrum.

Þverárkot

Þverárkot og nágrenni – kort 1908.

Jörðin var í bænda eigu, með einum ábúanda og dýrleiki hennar var metinn á 10 hundruð þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847.
Kaupverð Þverárkots var 476 ríkisdalur þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1837. Á árunum 1848-1861 var jörðin metin á 10 forn hundruð.

Gröf

Gröf

Gröf – túnakort 1916.

Gröf, sem síðar nefndist Norður- Gröf, er skammt fyrir vestan Þverárkot, sunnan undir Kistufelli, vestanvert við Grafardalsmynni. Jörðin átti merki á móti Þverárkoti, Varmadal og Völlum. Beint á móti bænum, fyrir sunnan Leirvogsá, er fjallið Mosfell. Eldra bæjarstæði var 30 metra suðaustur af núverandi íbúðarhúsi. Fyrsta hlaðan sem byggð var í hreppnum sem var byggð við lambhús í Kúalág í landi Grafar. Hún var byggð af Einari Jónssyni sem bjó í Gröf á árunum 1883-1920. Þegar túnakort var gert 1916 voru þrjú útihús austan við bæinn og eitt norðvestan við hann og eru tóftir þeirra greinilegar á nýlegum loftmyndum, ásamt túngarði sem fyrrnefndur Einar hlóð.
Grafar er getið í fógetareikningum 1547 til 1552 varðandi landskuld. Jörðin hefur sennilega verið kirkjujörð áður, þó þess sé ekki getið í heimildum og hefur fallið undir konung við siðaskipti. Þá kemur jörðin fram í minnisreikningum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns árið 1569. Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs á árunum 1686 og 1695, metin á 20 hundruð. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en dýrleiki óviss. Gröf var þá ein af umboðsjörðum þeim sem Margrét Pétursdóttir á Vallá, ekkja Daða Jónssonar sýslumanns, hélt ásamt Völlum og Kollafirði. Ábúandi var einn. Kvaðir voru tvö mannslán á vertíð næstu sex ár. Dagsláttur var einn ef ábúandi var einn en tveir væru ábúendurnir tveir. Hægt var að fóðra níu kýr, fimmtán lömb og einn hest á jörðinni. Torfrista og stunga var hjálpleg en erfitt um mó til eldiviðar. Lax- og silungsveiðivon var nánast engin en berjalestur var nokkur. Engi voru slitrótt og ár brutu af landi. Stórviðri af norðri spilltu túnum og gátu grandað heyjum. Átroðningur var mikill af búfjárupprekstri bæja í Mosfellssveit. Selstöðu átti jörðin í heimalandi. Kaupverð Grafar var 647 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1838. Gröf var metin á 20 hundruð í Jarðatali Johnsens 1847 og var þá í bænda eigu.
Árið 1855 var Gröf (Norður-Gröf) metin á 20 hundruð en 1861 á 20 forn hundruð og 17,7 ný.

Vellir

Vellir

Vellir – túnakort 1916.

Vellir eru sunnan undir vesturenda Kistufells. Þar stendur enn járnklætt timburhús sem byggt var 1905 og stækkað 1913. Það er væntanlega sama hús og teiknað er á túnakort Valla 1916.
Vellir koma fyrir í skrá yfir kvikfé og leigumála jarða Viðeyjarklausturs 1395 og í fógetareikningum sem varða konungstekjur frá 1547 til 1552. Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs í eigu konungs 1686 metin á 13 hundruð og 80 álnir og 1695 var hún metin á 13 hundruð og 40 álnir. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs en dýrleiki óviss. Vellir voru þá ein af umboðsjörðum sem Margrét Pétursdóttir á Vallá, ekkja Daða Jónssonar sýslumanns hélt. Þá voru ábúendur tveir og bjuggu þeir á hvor á sínum helming jarðarinnar. Kvaðir voru um tvö mannslán, eitt af hvorum, á vertíð. Þá var hægt var að fóðra tíu kýr, tuttugu lömb og tvo hesta á allri jörðinni. Torfrista, stunga og eldiviðartak var sæmilegt en vatnsból var ekki gott. Skriður spilltu túnum og var bænum hætta búin af bæði skriðum og snjóflóðum. Mikill átroðningur var af lamba- og geldfjárupprekstri frá Mosfellssveit, „án þakka eða greiðslu“ og hafði verið svo lengi sem menn minntust, bæði á Völlum og Gröf.

Vellir

Vellir á Kjalarnesi.

Kaupverð Valla var 686 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1838. Þegar Jarðartal Johnsen var gert 1847 voru Vellir í bændaeigu með einum ábúanda og dýrleiki metinn á 16 hundruð en sýslumaður mat jörðina á 20 hundruð. Skriðuföll úr Esjunni eru tíð og hafa Vellir ekki farið varhluta af þeim í gegnum tíðina og hafa þau oft valdið skakkaföllum. Vitað er að bærinn hefur verið fluttur að minnsta kosti einu sinni vegna skriðufalla. Fitjaannál 1662 segir frá því að 9. júní hafi komið mikil rigning og í kjölfar hennar hlaupið víða miklar aurskriður bæði á tún, engjar og úthaga. Þrjár jarðir fóru sérstakalega illa út úr þessu vatnsveðri: Esjuberg, þar sem af tók mikið af túninu; Vellir, þar sem tók af þriðjung túna; og Mógilsá, þar sem einnig tók af þriðjung túna. Fitjaannáll 1695 segir frá því að þá um sumarið hafi víða orðið skaði af aurskriðum og tekið af mestöll tún á Völlum. Espihólsannáll frá 1779 segir frá aurskriðu sem skemmdi bæi á nokkrum jörðum, þar á meðal á Mógilsá og Völlum. Haustið 1886 (2. september) gerði aftakarigningu sem olli miklum skriðuföllum á Kjalarnesi og í Kjós. Níu jarðir á Kjalarnesi urðu fyrir stórskemmdum þennan dag og ein jörð í Mosfellssveit. Fréttamenn frá tímaritinu Ísafold fóru á vettvang og könnuðu aðstæður og lausleg skoðun og áætlun um skemmdir var svohljóðandi: „Vellir á að giska 1 kýrvöllur eptir af túninu, af 4-5. Engjar sömuleiðis mjög skertar.“

Kollafjörður

Kollafjörður

Kollafjörður 1906. Mynd frá dönsku mælingamönnunum.

Jörðin Kollafjörður er skammt upp frá fjarðarbotni Kollafjarðar. Bærinn stóð við samnefndan læk sem nefnist Kollafjarðará. Bæjarstæðið síðasta torfbæjarins er sunnan undir Kollsgili en var jafnað við jörðu. Við vettvangskönnun 2001 var talið líklegt að bærinn hafi staðið á þeim stað að minnsta kosti frá því á miðöldum og líklegt að minjar leyndust þar undir sverði því greina mátti litabreytingar á gróðri, sem er vísbending um minjar. Landbúnaðarráðuneytið keypti jörðina 1961 fyrir tilraunastöð fyrir klak og eldi laxfiska.
Kollafjörður kemur fyrir í Kjalnesinga sögu, sem talin er rituð á síðustu áratugum 13. aldar. Þar segir frá því að skip kom á Leiruvog með írskum mönnum. Þar á meðal Andríður ungur og ólofaður, mikill og sterkur, ekkjan Esja og maður sem nefndur var Kolli.

Kollafjörður

Kollafjörður 1909.

Landnámsmaðurinn Helgi bjóla tók við þeim öllum og setti Kolla niður í Kollafjörð. Kollafjörður er talin upp í fjarðatali 1312. Jarðarinnar er hinsvegar ekki getið fyrr en í fógetareikningum 1547 til 1553 en búseta hefur sennilega hafist þar fyrr.
Á árunum 1686 og 1695 var jörðin í eigu konungs og metin á 20 hundruð.

Kollafjörður

Kollafjörður – túnakort 1916.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin konungseign en dýrleiki óviss. Kollafjörður var þá ein af umboðsjörðum sem Margrét Pétursdóttir á Vallá, ekkja Daða Jónssonar sýslumanns, hélt ásamt Völlum og Gröf. Einn ábúandi var á heimajörðinni, tveimur þriðjungum, en einn þriðjungur nefndist Litli- Kollafjörður. Kvaðir voru um tvö mannslán í 5 ár, manns- og bátslán í 3 ár. Kostir voru fáir en torfrista og stunga var sæmileg. Mótak til eldiviðar var erfitt, silungsveiðivon lítil, rekavon nær engin, skelfiskfjara lítil og varla hægt að tala um heimræði því ekki var hægt að lenda nema á flóði. Landþröng var mikil, mikið af foræðum og skriður spilltu engjum. Kaupverð Kollafjarðar var 804 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1839.

Kollafjörður

Kollafjörður – loftmynd 1963.

Þegar jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var jörðin í bændaeign, með einum ábúanda metin á 20 hundruð með Litla-Kollafirði.
Skriðuföll úr Esjunni hafa verið tíð og eftir aftakarigningu 2. september 1886 urðu mikil skriðuföll á níu bæjum á Kjalarnesi eftir úrhellið. Í blaðagrein skömmu síðar var greint frá vatnsveðrinu og þeim skaða sem hlaust af því, þar segir um tjón á jörðinni : „Kollafjörður, kýrvöllur farinn af túninu, í bráð að minnsta kosti, og nokkuð af engjum. Sextíu hestar af heyi á engjum urðu undir skriðu. Eyrarnar niður frá bænum allar huldar skriðu.“
Mannvirki sem teiknuð voru á túnakort Kollafjarðar 1916 hafa flest horfið vegna túnasléttunnar eða undir yngri mannvirki.

Litli- Kollafjörður

Kollafjörður

Kollafjörður – minjar.

Litli- Kollafjörður var þriðjungur af heimajörðinni Kollafirði 1704. Árið 1916 var komið útihús þar sem bærinn Litli- Kollafjörður stóð áður sunnan Kollafjarðarár. Kolbeinn Kolbeinsson sem fæddur var í Kollafirði 1918 og var bóndi þar í nokkur ár, segir í örnefnalýsingu að hann muni eftir tóftum þar sem Litli- Kollafjörður stóð. Við vettvangskönnun 2002 var ekki hægt að sjá neinar bæjarleifar á staðnum. Þar stendur nú hús sem byggt er í gamla bæjarhólinn og var í fyrstu notað sem sumarhús en er nú heilsárshús, Arnarhóll.
Þegar Jarðatal Árna og Páls var gert 1704 var Litli Kollafjörður byggður sér með einum ábúanda. Þar voru kvaðir um eitt mannslán á vertíð. þá var hægt að fóðra tvær kýr, 10 lömb og einn hest. Hættir voru eins og á heimajörðinni en við bættist að áin gróf undan húsunum og beitarátroðningur olli miklum skaða. Þegar Jarðatal Johnsens var gert 1847 var Litli- Kollafjörður talin með heimajörðinni með einum ábúanda. Litli Kollafjörður er skráður sem fornleif undir heimajörðina.

Mógilsá

Mógilsá

Mógilsá – túnakort 1916.

Mógilsá er við Esjurætur innst í Kollafirði, við norðurhorn fjarðarins. Jörðin dregur nafn sitt af samnefndri bergvatnsá sem rennur vestan við bæinn. Árið 1963 keypti íslenska ríkið jörðina og þar var Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins verið síðan en hún var byggð upp fyrir þjóðargjöf Norðmanna, 1 milljón norskra króna, sem Ólafur V. Noregskonungur afhenti. Bæjarstæðið var um 60 metra suðaustur af þjónustumiðstöð við Esjurætur. Við vettvangskönnun 2002 voru engar greinilegar leifar af bæjarstæðinu sem hafði verið sléttað og trjárækt á svæðinu en þó mátti greina vísbendingar um mannvist á litabreytingum í túninu.
Áin Mógilsá kemur nokkrum sinnum fyrir í Landnámu sem landamerki þegar sagt er frá landnámi Halls goðlausa, Helga bjólu Ketilssonar og Örlygs Hrappssonar. Hallur goðlausi nam land að ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár og bjó í Múla. Helgi bjóla Ketilsson nam einnig land að ráði Ingólfs, „…Kjalarnes allt millim Mógilsár og Mýdalsár…“ og bjó að Hofi. Helgi bjóla gaf síðan frænda sínum Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk en ekki er vitað hvaða lækur það er.

Mógilsá

Gamli bærinn á Mógilsá í júlí 1910. Bærinn stendur undir brekkunni, fyrir framan hann er kálgarðurinn og grjóturðin sem braust fram úr gilinu árið 1866. Á myndinni er hægt að greina sex hús, hlaðan austast sem var timburhús þá, vestar eru tvö torfhús með timburgöflum sem hafa verið íveruhús og líklega fjós vestan við þau, enn vestar eru tvö hús hlaðin úr torfi og grjóti með torfþökum, fyrir framan vestasta húsið er stór haugur og hefur það hús líklega verið hesthús.

Jörðin var í eigu Viðeyjarklausturs 1395 og kemur þá fram í skrá um kvikfé og leigumála jarða klaustursins. Jörðin hefur orðið konungseign við siðaskipti og er jarðarinnar getið í fógetareikningum frá 1547 til 1552 varðandi landskuld og leigu. Árið 1581 var Mógilsá lénsjörð fátækra presta í Skálholtsbiskupsdæmi. Jörðin var kirkjujörð Viðeyjarklausturs 1686-1695, metin á 15 hundruð og 13 hundruð og 80 álnir. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jarðadýrleiki og jörðin í eigu konungs sem hafði lagt hana til uppihalds presti á Mosfelli. Þá virðast gæði jarðarinnar hafa rýrnað frá því sem áður var og landskuld lækkað úr einu hundraði í 48 álnir. Skriður frá ánni Þverá og lækjum höfðu eyðilagt tún jarðarinnar. Kvaðir voru um eitt mannslán á vertíð en höfðu verið tvær tveimur árum áður og dagslættir tveir ef ábúendur voru tveir en þrír ef þeir voru þrír. Jörðin gat fóðrað sex kýr, tíu lömb og einn hest. Upprekstur geldnauta og hesta var frír á Hvannavöllum á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var léleg og ekkert mótak var í landi jarðarinnar en mótak hafði verið nýtt í landi eyðijarðarinnar Háheiðar sem lá undir Álfsnesi. Lítil von var um selveiði og reka. Sölvafjara var engin og lítil hrognkelsafjara en skelfiskfjara var frí á grandanum Leiðvelli og hafði verið lengi eins og fleiri jarðir í Kjalarneshreppi. Heimræði var ef fiskgengd var á sundin en aldrei verstaða fyrir aðkomufólk. Selstaða var í heimalandi.

Mógilsá

Húsin á Mógilsá árið 1965, skúrbyggingar til hægri á myndinni eru hugsanlega hús Kalknámufélagsins sem voru byggð árið 1918 á Mógilsá.

Þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 var Mógilsá í eigu kirkjunnar með einum ábúanda og dýrleiki 13⅔ hundruð en neðanmáls er þess getið að mat sýslumanns sé 15 hundruð. Árið 1855 var Mógilsá metin á 15 hundruð og var nyrsta kirkjujörð Mosfells.
Mógilsá hefur ekki farið varhluta af ofanflóðum úr Esju. Í Fitjaannál frá 1662 er þess getið (9. júní) að í kjölfar mikils regns hafi miklar skriður hlaupið fram víða, bæði á tún, engjar og úthaga, sérstaklega á Esjubergi þar sem mikið hafi tekið af túninu. Á Völlum tók af þriðjung túna og einnig á Mógilsá.

Mógilsá

Mógilsá – sel.

Jarðabók Árna og Páls frá 1704 getur þess að skriður spilli túni: „Skriðuágángur af Þverá og lækjum fordjarfar tún jarðarinnar stórlega“.
Espihólsannáll frá 1779 greinir frá aurskriðum sem skemmdu bæi á nokkrum jörðum og þar á meðal Mógilsá. Ofanflóðaveðrinu 2. september 1886 sem olli miklu tjóni á níu bæjum á Kjalarnesi segir tímaritið Ísafold frá viku síðar: „Mógilsá, helmingur farinn af túninu, undir urð, og það betri parturinn, og stykki af engjum. Þar hafði skriðan runnið fast með bæjarveggnum að vestanverðu, og sneitt af eða fyllt þriðjung af kálgarðinum í hlaðvarpanum.“ Þess má geta að úrkoma á Mógilsá er þriðjungi meiri en við Veðurstofuna í Reykjavík, mest á haustin og veturna. Þegar túnakort fyrir Mógilsá var gert þrjátíu árum síðar, árið 1916, var búið að slétta og græða upp helminginn af túninu eftir skriðuhlaupið 1886.

Kalknám í Mógilsá

Mógilsá

Mógilsá – kalknáma.

Björn Kristjánsson (1858-1939) alþingismaður skrifaði um kalkiðnað í Mógilsá í Iðnsögu Íslands. Þar kemur fram að Egill Egilsen í Glasgow hafi verið fyrstur til að sprengja upp kalkstein og flytja hann til Reykjavíkur á franskri loggortu upp úr 1870. Björn Guðmundsson múrari fór þá utan til að læra að brenna kalkstein og byggði kalkofn við „Batteríið“ í Reykjavík þar sem kalkið var brennt, leskjað, látið í tunnur og selt. Björn hafði tvö vor atvinnu af að losa kalkið sem var sprengt með grófu púðri. Þann tíma sem Björn vann þar var unnið úr lítil kalkæð sem var skammt fyrir vestan ána og túnið á Mógilsá. Æðin mjókkaði eftir því sem neðar kom og hvarf loks með öllu. Síðar var kalk sprengt í Sandhól sem er upp af Djúpagili. Sú æð mjókkaði líka og endaði í mjórri kvarzíkri æð. Því næst var unnið úr kalkæð rétt fyrir ofan fossinn í Mógilsá og kalkið reitt á hestum ofan brekkuna og til sjávar. Kalkið þótti ágætt bindiefni og var kalk frá Mógilsá notað eingöngu á Lækjagötu 10.

Kalkofnsvegur

Hér má sjá Kalkofninn merkilega (h.m. á miðri mynd) sem reistur var 1876 neðst við Arnarhólstúnið (u.þ.b. þar sem nú er keyrt inn í bílastæðahúsið Kolaport). Kalksteinn var fluttur úr Esjunni og brenndur í ofninum, en nota átti kalkið í múrblöndu fyrir steinhús sem urðu æ algengari. Egill Egilsson í versluninni Glasgow lét byggja ofninn en því miður lagðist kalkvinnslan af um 1879, þar sem íslenska kalkið þótti ekki samkeppnisfært við það erlenda (framleiðslukostnaður líklegast of hár). Kalkofnsvegur er nefndur eftir kalkofninum sem stóð við götuna. Þetta gekk ágætlega um stund en á endanum var þessu hætt. Flutningur úr Esjunni varð of dýr og erfiður en einnig var vatnið úr læknum sem nýtt var í þessa framleiðslu lélegt. Það var bæði skítugt því það kom úr Reykjavíkurtjörn og var blandað sjávarseltu sem gerði kalkið annað hvort arfalélegt eða hreinlega ónýtt. Kalkið var nýtt sem steinlím og forsenda þess að geta hlaðið steinhús. Innflutningur á kalki var dýr og voru ekki margir Íslendingar sem gátu staðið undir þeim kostnaði, var það ein ástæða þess að fólk hélt áfram að byggja úr torfi og timbri lengi vel. – Sigfús Eymundsson (1837–1911)

Húsið var reist 1877 og er grunnmúrað úr holtagrjóti úr Skólavörðuholtinu og kalkið úr Esjunni notað sem bindiefni. Árið 1916 var myndað félag í Reykjavík um að vinna kalk á Mógilsá.

Þá um haustið var unnið fyrir ofan fossinn og árið 1917 var byrjað á að byggja þar kalkbrennsluofn sem aldrei varð fullgerður. Vorið 1918 var byggt íbúðarhús fyrir verkamenn á staðnum og 5-6 menn unnu í 2 mánuði við að losa kalkstein úr ákveðnum gangi. Verkamennirnir settu of mikið dýnamít í einu í vegginn sem hrundi ofan í ganginn og fyllti hann.

Kalkofninn

Kalkofninn.

Félagið gafst svo upp við fyrirtækið. Björn taldi að ef Egill hefði látið rannsaka hvort gull væri í kalksteininum þá hefði borgað sig að vinna steininn eingöngu sem gullstein því 10-19 grömm af gulli væru í hverju tonni en Björn fékk Trausta Ólafsson efnafræðing til að ákveða gullmagnið í kalksteininum um 1920. Til samanburðar var meðaltal gullmagns í gullnámum í Suður-Afríku um 1920 tæpt 12 ½ gramm í tonni.

Valdimar Briem prestur á Hrepphólum skrifaði Frjettir frá Íslandi 1876. Þar segir hann meðal annars tíðindi af atvinnuvegum í landinu og segir frá nýrri atvinnugrein, kalknáminu á Mógilsá.
Kalkbrennsluofninn var fyrst byggður til bráðabirgða við Rauðará en honum var síðan valinn staður neðst við Arnarhól, skammt frá lækjarósnum í námunda við Batteríið. Ofninn var um 8 m í þvermál og hlaðinn upp í strýtu. Hann hefur staðið nálægt því þar sem nú er innkeyrsla í bílastæðahús við Seðlabankann. Kalkofnsvegur dregur nafn sitt af honum.

Esjuberg

Leiðvöllur

Leiðvöllur.

Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Í Íslensku fornbréfasafni má finna dóm sem var kveðin upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu.
Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem er á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Þá var fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi á Esjubergi, sennilega 1912.

Kjalarnes

Útialtari við Esjuberg – minnismerki um hina fyrstu kirkju á Íslandi.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnasonar bunu. Landnámabók segir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, og að Patrekur hafi sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð Kolumba en Örlygur og frændur hans trúðu á hann. Kirkja Örlygs er talin vera sú fyrsta á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.

Esjuberg

Útialtari – skilti.

Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesinga sögu sem er talin rituð 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið niðurlögð vegna skriðufalla.
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, aftur um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg er í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.

Kjalarnes

Kjalnesinga saga – sögusvið.

Nafnið kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs.
Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.
Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð.

Esjuberg

Esjuberg – tóft ofan Leiðvalla.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni. Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla-Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknast jarðardýrleiki beggja í heimajörðinni.
Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerir lýsingu Kjósarsýslu 1746 þingstaður á Esjubergi 1746. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum var 2100 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1816. Þegar Jarðartal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Sú hjáleiga var nefnd Litla-Esjuberg 1704. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50.
Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Umhverfi við Esjuberg ber með sér merki um skriðuföll sem valdið hafa nokkrum búsifjum. Fitjaannáll 1662 segir frá því að í kjölfar mikils regns hafi miklar skriður hlaupið fram víða, bæði á tún, engjar og úthaga. Þrjár jarðir fóru sérstaklega illa út úr þessu vatnsveðri: Esjuberg, þar sem mikið tók af túninu og Vellir og Mógilsá, þar sem tók af þriðjung túna. Haustið 1668 greinir Fitjaannáll frá því að haustið hafi verið venju fremur rigningarsamt. Þá féllu víða skriður á tún og haga, sérstaklega á Esjubergi, svo bóndinn Sigurður Núpsson flutti sig þaðan í burtu. Jarðabók Árna og Páls segir frá skriðum 1704 sem „fordjarfa, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði.“ Blaðið Norðanfari sagði frá skriðu sem hljóp úr Esju 4. júlí 1871 og tók af mestan part af túninu á Esjubergi og gerði usla á engi. Þann 2. september 1886 gerði aftakarigningu sem olli miklum skriðuföllum. Þá urðu níu jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum og ein jörð í Mosfellssveit. Á Esjubergi fór skriða yfir hluta túnsins og 60-70 hesta af heyi. Einnig fór sandur og leir yfir mestanpart og besta part engjanna og restin varð óslæg vegna leirs í rót. Þá féll skriða á bæjarhús hjáleigunnar Grundar sem fór í eyði eftir þetta.

Litla Esjuberg
Var afbýli heima við bæinn þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704, er ekki getið í öðrum heimildum. Dýrleikin reiknaðist með heimajörðinni. Kvaðir voru um skipsáróður allt árið utan sláttar. Hægt var að fóðra eina kú og fimm lömb. Afbýlið hafði torfskurð og eldiviðartak í heimalandinu.

Grund

Grund

Grund.

Grund var hjáleiga frá Esjubergi. Hjáleigan er ekki nefnd í Jarðabók Árna og Páls og nafnið Grund kemur fyrst fram í manntali 1835. Bæinn tók af í miklu skriðuhlaupi sem kom úr Gljúfurdal með Flóðará (Grundará) eftir ofsarigningu þann 2. september 1886 og var ekki byggður aftur. Tæpri viku eftir skriðuhlaupið tóku fréttamenn blaðsins Ísafold viðtal við bóndann á Grund. Ekkert manntjón varð því hann sagðist hafa hafði komið flestu sínu fólki burt úr bænum á heygarð austan við bæinn, nema konan hans með 5 ára tökudreng var síðust úr bænum og treysti sér ekki þangað en skreið þess í stað uppá baðstofumænirinn og bjargaði þeim með því. Það stóð heima, því þá skall flóðið á bænum og öllu í kring og fyllti öll sund. Á bæjarleið sinni frá Mógilsá höfðu fréttamenn talið 15 nýjar skriður úr Esjunni, og ekki voru eftir nema slitrur af veginum sumstaðar. Gráhvítur urðargeiri blasti við þeim úr gilinu þar sem Flóðará rann úr Gljúfurdal og „[í] miðjum urðargeiranum sá ofan á fáeinar grasþúfur, eða svo kom það fyrir sjónir álengdar. Það voru bæjarhúsin á Grund, annarri hjáleigunni frá Esjubergi.“ Minjar sem tilheyrðu býlinu eru beggja vegna Grundarár en á herforingjaráðskorti frá 1909 er eyðibýlið staðsett vestan.

Árvellir

Árvellir.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Árvöllur önnur hjáleigan frá Esjubergi og var dýrleiki hennar reiknaður með heimajörðinni. Kvaðir voru um hálfan bátshlut allt árið í stað mannsláns og einn dagslátt. Hægt var að fóðra þrjár kýr, eitt ungneyti og átta lömb á hjáleigunni. Til hlunninda voru talin torfskurður og eldiviðartak í heimalandi en vatnsból var erfitt um vetur. Helsti ókostur var að skriður spilltu túni, engjum og úthögum mikið svo hætt var húsum, fólki og fénaði. Hjáleigan var metin á 10 hundruð 1847. Skriða grandaði hjáleigunni í miklu vatnsveðri 2. september 1886, þá varð „[h]elmingur túns og engja undir urð“ að sögn blaðsins Ísafold og var hjáleigan ekki byggð aftur.

Móar

Móar

Móar.

Bærinn Móar stendur neðan Vesturlandsvegar sunnan og neðan við Esjuberg. Á Móum bjó Sr. Matthías Jochumsson (1935-1920) þjóðskáld í sex ár. Það voru honum þungbær ár því á þeim tíma missti hann tvær eiginkonur í blómalífsins. Hann flutti að Móum í júní 1867 með Elínu konu sinni sem lést einu og hálfu ári síðar á annan dag jóla 1968. Tveimur árum eftir það, 1870 gekk hann að eiga Ingveldi Ólafsdóttur en hjónaband þeirra varð mjög skammvinnt því hún dó úr lungnabólgu á annan í hvítasunnu 1871. Þriðju og síðustu eiginkonuna fann hann á Kjalarnesinu, unga heimasætu í Saurbæ Guðrúnu Runólfsdóttur sem hann giftist 1875 og lifði hún mann sinn. Á þeim tíma sem þau voru að draga sig saman var hún selráðskona í Saurbæjarseli á Blikdal sumarið 1872 en tóftir selsins standa vel ennþá. Þaðan sendi hún honum ber í fötu og nokkrar línur með. Hann brást við hin glaðasti og reið fram á dal til að þakka henni fyrir sendinguna.

Móar

Móar – túnakort 1916.

Á Móum bjuggu hjónin Teitur Guðmundsson og Unnur Ólöf Andrésdóttir, frá 1950 til 1985, sem voru í forystu í alifuglarækt á landinu og ráku þar stórt kjúklingabú. Þau vélvæddu fóðrun fugla í varpi og uppeldi og komu sér upp aðstöðu og vélakosti til slátrunar. Búið er elsta hænsnabúið á Kjalarnesi og eitt af stærstu búunum á landinu. Á bæjarstæðinu stendur íbúðarhús sem Sigríður Jónsdóttir byggði 1910 að því er kemur fram í bókinni Kjalnesingum og því væntanlega sam hús og teiknað er á túnakort frá 1916.
Móar voru í eigu Viðeyjarklausturs árið 1395, þá getið í skrá um kvikfé og leigu- mála klaustursins. Þeir komust síðar í eigu konungs og eru í fógetareikningum frá 1547-1552.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs á árunum 1686 og 1695 metin á 20 hundruð.
Árið 1703 fékk Niels lögmaður Kier konungsbréf um að mega fá Kjósarsýslu eftir Jón Eyjólfsson tengdaföður sinn og fjórar jarðir sem Jón hafði haft frá 1684, Hrísbrú, Varmadal, Móa og Saltvík.

Móar

Móar.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs og var leigð til sýslumannsins Jóns Eyjólfssonar, dýrleiki var óviss. Þá var tvíbýli á jörðinni til helminga. Kvaðir voru um tvö mannslán á vertíð árlega frá því Jón Eyjólfsson tók við (1684) en hafði verið eitt áður ásamt öðrum kvöðum sem Jón hafði ekki kallað eftir. Á jörðinni var hægt að fóðra sex kýr, tíu lömb og tvo hesta. Upprekstur geldnauta og fjár var á Hvannavelli á Mosfellsheiði. Mótak til eldiviðar frá Esjubergi minnkandi notað. Nokkur von var um reka, hrognkelsa- og skelfiskfjöru. Heimræði var allt árið en verstaða hafði aldrei verið. Mjög stórviðrasamt var sem spillti túnum ásamt vatni. Selstöðu hafði jörðin hjá Esjubergsseli að eign eða láni.
Með konungsúrskurði 26. apríl 1756 fékk Þórður Þórhallsson prestur í Saurbæ og Brautarholti Móa frítt til búsetu í staðin fyrir Skrauthóla sem varð fyrir stórskaða af skriðu 1748. Þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 var jörðin enn lénsjörð fyrir prestinn metin á 20 hundruð.

Saltvík

Saltvík

Saltvík.

Saltvík er fyrir neðan þjóðveg og stendur bærinn við samnefnda vík norðaustan við Brimnes. Tveir bæir voru á jörðinni fram á 20. öld, Eystri og Vestri, fram til ársins 1912 samkvæmt túnakorti frá 1916 en þar segir: „Saltvík með viðlögðu býli 1912 Eystri Saltvík“. Annar bústaður er nefndur á jörðinni í örnefnalýsingu þar sem segir að suðvestur af bænum Vestur- Saltvík sé Skútatangi og suður af honum hafi verið bær áður fyrr sem hét Skúti. Hefðbundinni búsetu lauk 1964 þegar borgin keypti jörðina en hún seldi hana aftur 1997.

Saltvík

Saltvík – túnakort 1916.

Saltvíkur er getið í skrá Viðeyjarklausturs 1395 yfir kvikfé og leigumála á jörðum klaustursins. Jörðin komst í konungseigu við siðaskipti og er getið í fógetareikningum frá 1547-1552, og aftur í minnisreikningum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns í Kjalarnesþingi 1569. Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs á árunum 1686 og 1695, metin á 20 hundruð. Eins og áður sagði fékk Niels lögmaður Kier konungsbréf árið 1703 um að hann fengi Kjósarsýslu eftir Jón Eyjólfsson tengdaföður sinn og fjórar jarðir sem Jón hafði haft frá 1684, Hrísbrú, Varmadal, Móa og Saltvík.

Saltvík

Saltvík – Brimnes nær.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin í eigu konungs sem leigði hana Jóni Eyjólfssyni. Ábúendur voru þá tveir og bjuggu hvor á sínum helmingi. Kvaðir voru um tvö mannslán á vertíð árlega. Á jörðinni var hægt að fóðra fimm kýr, tíu lömb og einn hest. Upprekstur geldnauta og geldfjár var frír á Hvannavelli á Mosfellsheiði. Mótak var bjarglegt til eldiviðar. Fjörugrasatekja, sölvafjara og rekavon var lítil en skelfisk- og hrognkelsafjara nokkur. Heimræði var allt árið en verstaða hafði aldrei verið fyrir aðkomandi sjófólk eða skip. Fé var hætt við hrapi fyrir sjávarbjörg. Sjórinn braut land árlega og hafði bærinn verið fluttur þrisvar og komið að því að færa hann aftur. Engjar voru engar. Saltvík var seld undan konungi 7. ágúst 1813.
Jörðin var bænda eign þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847, metin á 20 hundruð og leigð tveimur ábúendum. Þegar gert var jarðamat á árunum 1849-1850 var jörðin í bændaeign metin á 20 forn hundruð og 18,4 ný hundruð.

Sjávarhólar

Sjávarhólar

Sjávarhólar – túnakort 1916.

Bærinn á Sjávarhólum stendur um 200 m ofan við austanverða Hofsvík á einu af þremur berghlaupum á Kjalarnesi, Sjávarhólshlaupinu sem féll á tímabilinu 9000 -5000 f. Kr. úr Esjunni fram í Hofsvík. Jörðin dregur nafn sitt af urðarhólum við ströndina og á nafnið vel við landslagið á þessum slóðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1923 á bæjarstæðinu.
Sjávarhólar koma fyrir í Kjalnesingasögu undir nafninu Hólar. Sögupersónan Búi kom þar á leið sinni heim á Esjuberg eftir að hafa vegið Þorstein á Hofi og lagt eld að hofinu og lýsti þar víginu á hendur sér. Árið 1536 voru gerð arfskipti eftir séra Brynjólf Gizurarson og erfðu fjórar systur hans sex hundruð og 80 álnir í jörðinni, sem Alexíus ábóti í Viðey keypti.

Sjávarhólar

Sjávarhólar.

Í Sjávarhólabréfi frá 1537/8 er greint frá kaupum Alexíusar ábóta í Viðey á parti í Sjávarhólum. Klaustrið hefur selt jörðina fyrir siðaskipti því hún kemur ekki fyrir í fógetareikningum.
Á Esjubergsþingi 1541 var útnefndur dómur af Pétri Einarssyni umboðsmanni konungs í Kjalarnesþingi um bréf Viðeyjarklausturs fyrir jörðunum Skrauthólum, Bakka og Sjávarhólum . Niðurstaða dómsins var að bréf Alexíusar fyrir jörðunum voru lögleg og gild. Jörðin var í einkaeign metin á 20 hundruð 1686 en 10 hundruð 1695.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin metin á 10 hundruð með einum ábúanda, eigandanum Þórunni Sigurðardóttur prestsekkju. Kvaðir voru þá engar en áður, þegar jörðin var leigð, var eitt mannslán á vertíð eða tvö ef ábúendur voru tveir. Þá var hægt að fóðra sex kýr, eitt ungneyti, tíu lömb og einn hest á jörðinni. Torfrista var lítil en mótak til eldiviðar nægilegt. Rekavon var nokkur svo og hrognkelsafjara en skelfiskfjara var að mestu eydd en sölvatekja var næg fyrir heimamenn. Heimræði var allt árið en verstaða hafði aldrei verið fyrir aðkomuskip eða sjófólk nema stundum tveggja manna far frá Öfugskeldu sjálfskyldu frítt. Talið var að veiða mætti sel ef vildi. Landþröng var mikil og fé var mjög flæði hætt. Stórviðrasamt og lækjarskriða grandaði engjum.

Sjávarhólar

Sjávarhólar.

Í maí 1748 féll mikil aurskriða úr Esjunni sem aftók mikinn part af landi Öfugskeldu og Sjávarhóla. Eggert og Bjarni voru á ferð 1752 minnast á skriðuhlaupið og segjast þá hafa séð birkilurka sem voru sverari en stærstu tré í Húsafells- og Fnjóskadalsskógum. Talið er að skriðan hafi átt upptök neðan undir Gleið og fallið fram á milli Skrauthóla og Sjávarhóla. Mestu skriðuföll sem heimildir eru um á svæðinu urðu eftir úrhelli í rúmar þrjár klukkustundir 2. september 1886. Blaðið Ísafold greindi frá tjóni rúmri viku síðar: „Sjávarhólar (19.1 hdr. Jörð). Þriðjungur af túninu undir skriðu eða leir og 2/5 af engjum.“

Sjávarhólakot

Sjávarhólar

Sjávarhólar – útihús.

Sjávarhólakot var hjáleiga Sjávarhóla 1704 en aðrar heimildir geta ekki um kotið. Kotið hefur sennilega verið niður við sjóinn þar sem sjór braut af túninu 1704 svo það gæti hafa verið þar sem voru útihús frá Sjávarhólum 1916.
Þegar Jarðabókin var gerð 1704 reiknaðist jarðadýrleiki með heimajörðinni. Landskuld átti að greiðast með því sem ábúandi megnaði að gjalda og skyldi jarðeigandi leggja að mestu leyti við til húsabóta. Þá var hægt að fóðra þar eina kú og torfrista, stunga og eldiviðartak var í heimalandi en sjór braut af túninu. Kvaðir voru engar og mátti ábúandinn fleyta hálfum báti sínum að vild.
Engar fornleifar eru skráðar á býlið en það er skráð eftir heimild undir Sjávarhóla.

Öfugskelda

Skrauthólar

Skrauthólar og Öfugskelda – minjar.

Öfugskelda var býli sem var sennilega um 30 metra suðaustur af Skrauthólum III og um 570 m norðaustur af Sjávarhólum. Þar er tún blettur sem nefnist Öfugskelda sem hafði fylgt Sjávarhólum en var lagður til Skrauthóla 1918. Þar eru minjar sem talið er að gætu hafa verið hluti af býlinu skráðar undir Sjávarhóla, rúst, gerði og hlaðinn garður að lítilli keldu sem kallast Ófeigskelda. Býlið tók af í skriðuföllum 1748 og var sennilega ekki byggt upp aftur eftir það. Samkvæmt bréfi sem séra Þórður Þórhallsson prestur í Saurbæ og Brautarholti sendi konungi 1754 segir að skriða 1748 hafi skemmt hús og tún svo mikið í Öfugskeldu að ekki sé hægt að bygga þar upp aftur. Býlið tók af í skriðuföllum 1748 Jarðarinnar er getið 1510 í dómi um eignaskipti Gríms Pálssonar og Þorvarðs Erlendszonar lögmanns þar sem Grímur selur Þorvarði meðal annars fjórar jarðir á Kjalarnesi. Í Sáttarbréfi bænda 1515 kemur fram að Grímur og Þorleifur sonur hans eiga Arnarholt og Öfugskeldu. Í júlí sama ár kemur fram að þeir feðgar fá Öfugskeldu og Arnarholt af Hólmfríði Erlendsdóttur í skiptum fyrir Sandgerði á Miðnesi. Árið 1549 var kveðinn upp alþingisdómur og Sandgerði var dæmt eign Þorleifs Grímssonar en Öfugskelda og Arnarholt dæmd af honum. Jörðin var í einkaeigu metin á 15 hundruð 1686 en 10 hundruð 1695.

Skrauthólar

Skrauthólar og Öfugskelda/Ófeigskelda.

Öfugskelda var bújörð þegar Jarðabókin var gerð 1704 metin á 10 hundruð og var í eigu fimm aðila. Þórunn Sigurðardóttir prestsekkja á Sjávarhólum átti mest, þrjú hundruð og fjörutíu álnir en hinir eitt hundrað og áttatíu álnir hver. Ábúandi var einn og var eigandi að einum lægri hlutanna. Þá var þar hægt að fóðra þar sex kýr, tvö ungnaut, tíu lömb og einn hest. Kvaðir voru engar. Torfrista og stunga voru sæmilegar en mótak þurfti að kaupa annars staðar. Landþröng var mikil og skriða spillti túnum og engjum. Stórviðrasamt mjög.
Öfugskelda hefur sennilega farið í eyði eftir skriðufall 1748. Ölfusvatnsannáll 1747 segir frá því að fallið hafi mikilfengleg skriða eða jarðarumrótan úr Esjunni sem tók af mikinn part af landi Öfugskeldu og Sjávarhóla en af bréfum frá þessum tíma kemur fram að skriðan hefur fallið í maí 1748 frekar en 1747. Fram kemur í bónarbréfi séra Þórðar Þórhallssonar í Saurbæ til konungs frá 10. júlí 1754 að „skriðan hafi skemmt hús og tún á Öfugskeldu, svo þar megi ekki aftur upp byggja, og að skriðan hafi stórskemmt tún og úthaga bæði á Skrauthólum og Sjávarhólum.“
Öfugskeldu er ekki getið í Jarðatali Johnsens 1847 en í neðanmálsgrein við Sjávarhóla kemur fram að jarðabækur nefni jörðina en hennar sé ekki getið í jarðabók 1802 og virðist hún þá hafa verið orðin partur af Sjávarhólum. Jarðadýrleiki hennar var 10 hundruð eins og Sjávarhóla. Engar minjar eru skráðar á Öfugskeldu en býlið er skráð undir Sjávarhóla og þar eru tvær minjar, sem tengjast sennilega býlinu.

Skrauthólar

Skrauthólar

Skrauthólar – túnakort 1916.

Skrauthólar

Skrauthólar árið 1978; nýja íbúðarhúsið, fjósið og hlaðan baka til, tengibygging (gamla fjósið?), gamla íbúðarhúsið með skúrbyggingu, fjær fjárhúshlaðan og nær endurhlaðið hús, hesthús?

Skrauthólar eru við Esjurætur. Draga þeir nafn sitt af urðarhólum við ströndina líkt og Sjávarhólar. Hólarnir eru hluti af fornlegu berghlaupi sem fallið hefur úr Esjubrúnum og kastast niður allt í sjó fram í Hofsvík. Sá hluti Esju sem er þar fyrir ofan nefnist Hólafjall.
Samkvæmt Prestatali og prófasta var bænhús á Skruthólum en var aflagt fyrir 1600 og það ama kemur fram í bókinni Kjalnesingum.253 Aðrar heimildir nefna ekki bænhús þar.
Skrauthólar koma nokkuð oft fyrir í Íslensku fornbréfasafni varðandi eignaskipti. Fyrst í jarðaskiptabréfi Þorvarðs lögmanns Erlendssonar og Gríms bónda Pálssonar á Möðruvöllum frá 18. september 1501. Næst 1508 í kaupmálabréfi Þorvarðs Erlendssonar og Kristínar Gottskálksdóttur.
Árið 1510 er jörðin til umfjöllunar í Tylftardómi vegna eignaskipta Gríms Pálssonar og Þorvarðs Erlendssonar. Viðeyjarklaustur eignaðist jörðina árið 1525 þegar Anna Snjólfsdóttir gerði próventusamning við klaustrið og færði því jörðina til ævarandi eignar með gögnum og gæðum. Skrauthólar komu aftur við sögu í september 1541 í dóm á Esjubergsþingi sem var skipaður af Pétri Einarssyni umboðsmanni konungs í Kjalarnesþingi um bréf Viðeyjarklausturs fyrir jörðunum Skrauthólum og Bakka. Niðurstaða dómsins var að samningurinn sem Erlendur Jónsson gerði við ábótann í Viðey var löglegur. Skrauthólar koma fyrir í Fógetareikningum varðandi landskuld á árunum 1547 til 1552. Þá kemur jörðin fram í minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings frá árinu 1569. Prestar sátu á Skrauthólum og sá sem fyrst er getið um er Hákon Ásgeirsson 1575 sem hafði þá Skrauthóla sér til uppeldis.

Skrauthólar

Skrauthólar árið 1963. lengst til hægri er torfhús, trúlega hesthús, vestar er íbúðarhús úr timbri byggt 1912. gamla fjósið? snýr eins og íbúðarhúsið en er vestar, þvert á nýja fjósið, baka til er hlaðan. Fjær sér í torfhlaðið fjárhús og hlöðu.

Jörðin var kirkjujörð Viðeyjarklausturs metin á 24 hundruð 1685 og 20 hundruð 1695.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jarðardýrleiki sagður að fornu hafa verið 20 hundruð. Þá voru Skrauthólar í eigu konungs sem lagði þá til uppeldis presti sem þjónaði í sóknum Brautarholts og Saurbæjar. Þá var hægt að fóðra á jörðinni átta kýr, fjögur ungneyti, tvo hesta og bjarga tveimur, en landþröng var mikil. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar fékkst frítt á Esjubergi. Nokkur rekavon var en skelfiskfjara var lítil. Heimræði var allt árið en verstaða hafði aldrei verið hvorki fyrir skip eða vertíðarfólk. Stórviðrasamt mjög svo hætt var húsum, heyjum og túnum. Hætt var við að skriður spilltu túnum engjum og úthögum. Selstöðu hafði jörðin undir Haukafjöllum nálægt Hrafnhólum.
Í bréfi úr Kjalarnesþingi til amtmanns 1750-1756 í Rentukammer skjölum er sagt frá mikilli skriðu eða jarðumrótan úr Esjunni sem tók af mikinn hluta Öfugskeldu og Sjávarhólalands.
Öfugskelda stóð skammt suðvestan við Skrauthóla og virðist ekki hafa veið byggð upp aftur eftir þetta. Líklegast er að skriðan hafi átt upptök sín í bergshlaupsurðinni ofarlega í hlíð eða neðanundir Gleið og fallið fram á milli Skrauthóla og Sjávarhóla en ummerki eftir hana eru að mestu horfin. Séra Þórður Þórhallsson í Saurbæ og Brautarholti sendi konungi bónabréf dagsett 10. júlí 1754 þar sem hann segir frá því að Skrauthólar séu nánast óbyggilegir vegna skriðufallanna 1748 og fór fram á að Móar væru gerðir að prestsjörð í stað Skrauthóla. Með konungsúrskurði 26. apríl 1756 fékk prestur jörðina Móa frítt til búsetu í staðin fyrir Skrauthóla.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var jörðin komin í bændaeign, metin á 20 hundruð með tveimur ábúendum.
Þann 2. september 1886 gerði miklar rigningar og í kjölfar þeirra urðu mikil skriðuföll á Kjalarnesi sem blaðið Ísafold greindi frá skömmu síðar: „Skrauthólar (15.6 hdr.) af engjum
2/5 undir skriðu og leir, þar af talsvert tóm urð sem aldrei grær upp.“

Vallá

Vallá

Vallá.

Vallá er austan og ofan við Hofsvík. Lögbýli um aldir og þar voru ýmist eitt eða tvö býli fram til 1800 sem voru aðgreind með austur, vestur, eystri, vestri, stóra, minni, innri, ytri og Syðsta Vallá kemur einnig fyrir. Bæði býlin eru skráð undir Vallá. Samkvæmt túnakorti frá 1916 var bæjarstæði Vallár vestri þar sem nú stendur bygging, tvær hæðir og ris með þremur kvistum, sem byggð var 1958 við steinsteypt íbúðarhús sem reist var um 1923.
Bæjarstæði Vallár eystri var samkvæmt túnakorti og örnefnalýsingu í suðaustur frá því vestara steinsnar austan við eldri farveg Vallárlækjar á milli bæjanna sem var þá á mörkum jarðanna. Vallá eystri fór í eyði um aldamótin 1800 og var pörtuð niður. Túnið gekk þá undir heimajörðina en annað var keypt af bændum í Hofshverfi. Farvegi Vallárlækjar var breytt einhvern tíman á milli 1900 og 1916 af Benedikt Magnússyni bónda á Vallá og eftir það rann lækurinn norðan og vestan við bæinn. Þegar Guðrún Bjarnadóttir, sem bjó á Vallá frá1925-1957, skráði örnefni fyrir Vallá, sennilega á tímabilinu 1950-57, hét ávöl bunga suðaustur heiman frá „Gamli bær“ og þá hafði sést móta fyrir bæjarrústum til skamms tíma.

Vallá

Húsin sem Benedikt Magnússon reisti á Vallá á árunum 1923-1924. Íbúðarhúsið snýr gafli fram en austan við það og áfast við fjósið. Fyrir aftan þessi hús má sjá glitta í hlöðuna. Lengra í burtu, vinstra megin á myndinni, sjást eldri útihús úr torfi og grjóti. Lósmynd Þorsteinn Jósepsson.

Vitað er um tvö önnur býli byggð í landi jarðarinnar, hjáleigan Grund var byggð frá því um 1684 fram undir 1704 og býlið Litla Vallá var byggt úr landi jarðarinnar nokkru fyrir aldamótin 1900. Fyrsta rafstöðin í Kjalarneshrepp var reist á Vallá þegar Vallárlækur var virkjaður 1930. Stöðin var eingöngu notuð til ljósa og sá hún þremur bæjum fyrir rafmagni, Vallá, Litlu Vallá og Skrauthólum ásamt skólanum á Klébergi. Stöðvarhúsið stóð við lækinn fyrir austan Fólkvang, því hefur verið rutt um koll einhvertíman og sjá má steypuleifar hússins á lækjarbakkanum.
Vallá er í landnámi Helga bjólu en ekki er vitað hvenær jörðin byggðist en Vallá er til umfjöllunar í bréfi frá árinu 5. maí 1377 þegar Brynjólfur Bjarnason seldi Valgarði Loftsyni jörðina „Syðstu- Vallá“ á Kjalarnesi. Þremur árum síðar, í júlí 1380, lét Valgarður Pál ábóta í Viðey hafa jörðina gegn því að hann kenndi syni hans í sex ár.

Vallá

Vallá og Litla-Vallá – túnakort 1916.

Í skrá frá 1395 um kvikfé og leigumál á jörðum klaustursins eru tveir bæir á Vallá. Frá sama ári í skrá yfir jarðir sem fóru undir Viðeyjarklaustur frá því að Páll ábóti kom þangað og þar er Vallá talin upp og metin á 20 hundruð. Í Fógetareikningum frá 1547 til 1552 er talað um Stóru- minni, Innri- og Ytri Vallá og Minni Vallá „Sterrewalde og Minnewalde, Stere Walde og Mijnder Walde, Sterre Waldo og Mijnde Waldo, Inderreuattle og Ittherwasde“ varðandi landskuld. Eystri og Vestri Vallá voru báðar metnar á 20 hundruð á árunum 1686 og 1695 í einkaeigu og konungs.

Vallá

Vallá – minjar.

Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að gerð Jarðabókarinnar sumarið 1704 voru þeir í tjöldum á Vallá dagana 26.-28. júní. Þá voru tvö býli á jörðinni, Eystri- og Vestri Vallá hvort um sig metið á 20 hundruð. Kvaðir voru um eitt mannslán á vertíð af allri jörðinni. Þá var hægt að fóðra sjö kýr, tíu lömb og einn hest á allri jörðinni sem hafði haft fría hesta- og nautagöngu á sumrin á Hvannavöllum á Mosfellsheiði. Torfristu og stunga höfðu býlin í sínu landi en mótak var í landi Vestri Vallár. Þá var nokkur rekavon. Heimræði var allt árið og gengu skip heimamanna eftir hentugleikum en engin verstaða hafði verið fyrir aðkomufólk. Landþröng mikil og hætt við skriðum og vatnságangi á tún.
Vallá var í bændaeign þegar Jarðatal Johnsen 1847 var tekið saman með einum ábúanda, metin á 20 hundruð. Neðanmáls segir að sýslumaður telji jörðina aðeins 12 hundruð. Í viðauka er eyðihjáleigan Grund sögð með Vallá.

Grund

Grund

Grund – bæjarstæðið.

Grund hafði verið hjáleiga Vallár vestri í nokkur ár 1704, þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð. Hafði byggst þá fyrst rúmum tuttugu árum áður, eða um 1684, og var byggð í nokkur ár en var farin í eyði þegar Jarðabókin var gerð og ekki var talið hægt væri að byggja hana aftur nema til skaða fyrir heimajörðina.
Hjáleigan virðist ekki hafa verið byggð aftur. Í örnefnalýsingu Vallár segir að „Í norður frá bænum í um 500 m fjarlægð er slétt flöt harðlend, ílöng frá austri til vesturs. Hún nefnist Grundir. Þar var býli fyrir löngu. Garðlag heita vel sjáanlegar túngarðsleifar vestarlega á Grundunum.“ Grundir er enn örnefni á túni austan við íbúðarhúsið Gil en leifar túngarðs voru ekki sjáanlegar. Engar fornleifar eru skráðar undir býlið sem, ásamt túngarði, eru skráð sem fornleifar undir Vallá.

Litla- Vallá

Vallá

Litla-Vallá sést á herforingjaráðskorti frá 1909 – ofan við Vallá.

Litla- Vallá var byggð rétt fyrir aldamótin 1900 á Hjallhól, um 200 m norðvestan við eldra bæjarstæðið á Vallá. Á túnakorti kemur fram að: „Litla Vallá [var] byggð fyrst nokkru fyrir aldamótin að sögn. Afgirti bletturinn tekin til rækt og sléttaður að nokkru af húsmanni þeim sem þar er enn. Slægjur víða umhverfis.“Býlið var sameinað heimajörðinni þegar ábúð lauk þar 1960 en húsin seld, ásamt 1 hektara lands, sem sumarbústaður. Þar standa nú (2014) íbúðarhús og hlaða frá 1936 á bæjarstæðinu. Engar fornleifar eru skráðar undir býlið sjálft sem er ásamt kálgarði og útihúsum skráð eftir túnakorti sem fornleifar undir Vallá.

Hofshverfi

Hofshverfi

Hofshverfi.

Hofshverfi var þegar Jarðabókin var gerð 1704 sex býli; Hof, hjáleigurnar Grófartún og Prestshús, afbýlin Jörvi, Krókur og Lykkja. Tæpum hundrað og fimmtíuárum síðar 1847 þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman var voru býlin fjögur, Jörfi, Krókur og Lykkja sem voru hjáleigur og Hof. Í Hofshverfi voru sömu fjögur býlin í byrjun 20. aldar, Hof, Krókur, Lykkja og Jörvi sem hafði verið lagður undir Hof og ásamt nýbýlunum Bergvík og Grund sem voru byggð í landinu. Þegar örnefnalýsing Hofs var skráð 1967 voru sex býli í Hofshverfi, Krókur, Lykkja, Jörvi, Krókshús, Bergvík og Hof.

Hof

Hof

Hof – túnakort 1916.

Hof er landnámsjörð upp frá Hofsvík í Hofshverfi sem nefnt er eftir býlinu. Landnáma greinir frá því að Helgi „bjóla“ Ketilsson hafi að ráði Ingólfs Arnarsonar numið „…Kjalarnes allt millim Mógilsár og Mýdalsár…“ og búið að Hofi. Síðar gaf Helgi frænda sínum Örlygi Hrappssyni bunu hluta úr landnámi sínu frá Mógilsá að Ósvífslæk og bjó Örlygur að Esjubergi. Í Kjalnesinga sögu er Hof annar aðalvettvangur sögunnar og þar er landnám Helga sagt stærra en í Landnámu, að hann hafi numið Kjalarnes „…millum Leiruvágs ok Botnsár….“
Kjalnesinga saga segir einnig frá því að sonur Helga bjólu Þorgrímur „goði“ tók við föðurleifð sinni og lét samkvæmt Kjalnesinga sögu reisa hof „…hundrað fóta langt, en sextugt á breidd…“ í túninu á Hofi. Samkvæmt sögunni var hof á Hofi en samkvæmt heimildum var kirkja þar frá því um 1200 og sennilega eitthvað fram yfir aldamótin 1600.
Elsta heimildin um Hof er kirkjuskrá Páls biskups Jónssonar um prestskyldar kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi frá því um 1200.

Hof

Hof og nágrenni 1909.

Kirkjan var helgurð heilögum Andrési og eru eignir Andrésarkirkju að Hofi taldar í Hítardalsbók 1367 og aftur í máldaga kirkjunnar í Vilchinsbók frá 1397, gripir og búfé. Í Brautarholtsbréfi frá 1436 votta fjórir menn samtal sem átti sér stað á milli Guðrúnar Sæmundsdóttur og Guðríðar konu Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra en Guðrún var frænka hans. Guðrún hafði erft Brautarholt og Hof ásamt tveim hundruðum í plágunni miklu eftir systur sínar Þórdísi og Ingibjörgu. Nú vildi Guðríður að Guðrún meðgengi að hún hefði gefið Vigfúsi eignirnar en Vigfús frændi hennar hafði haldi eignum hennar lengi afgjaldalaust en Guðrún afsagði það. Þá kemur Hof fram í Öndverðarnesbréfi 31. mars árið 1475 og í máldaga Brautarholtskirkju frá 1491-1518 er getið um mörk á móti Hofi. Máldagi kirkjunnar í Engey frá því litlu eftir 1500 getur bókar sem tilheyrir „kirkiv sancti Andreea Hofi ä kialarnese.“ Árið 1501 var gerður jarðaskiptasamningur þar sem Grímur Pálsson lét Hof fyrir sextíu hundruð til Þorvarðar Erlendssonar lögmanns sem Þorvaður taldi fram í kaupmálabréfi sínu og Kristínar Gottskálksdóttur. Eignaskipti þeirra koma aftur við sögu fyrir tylftardómi 3. júlí 1510 á Öxarárþingi. Kirkjan kemur fram í kirknareikningum 8. júlí 1523. En sama ár fékk Ögmundur biskup Hof til fullrar eignar í reikningsskap nokkurra kirkna frá Erlendi Þorvarðarsyni. Ögmundur lét síðan Halldór Magnússon fá Hof árið 1526 til fullrar eignar á móti Barkarstöðum í Svartárdal en í staðinn átti Halldór að vera stuðningsmaður kirkjunnar og biskups. Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar er talað um hálfkirkju á Hofi. Hof var í einkaeign 1686 metið á 86 hundruð og 160 álnir, en hafði lækkað í 60 hundruð 1695.

Hof

Hof og nágrenni – loftmynd.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 sögðu menn að á Hofi hefði verið til forna hálfkirkja eða bænhús en ekki hafði verið framin þjónustugjörð þar í manna minnum (u.þ.b.1624) en leifar hefðu verið á staðnum til skamms tíma sem studdu sögn hreppsbúa. Þá var Hof metið á 60 hundruð. Heimajörðin var metin á 33 hundruð með Grófartúni og Prestshúsum. Þrjú önnur afbýli voru til viðbótar Jörfi, sem metinn var á átta hundruð, Krókur á tíu hundruð og Lykkja á tíu hundruð. Þrír eignarhlutar voru þá á heimajörðinni með þremur ábúendum, engar kvaðir voru á þeim og hægt var að fóðra átta kýr, sextán lömb og ein hest. Jarðabókin tiltekur kosti og galla sem eiga við öll býli jarðarinnar. Jörðin hafði þá til langs tíma haft frían og átölulausan upprekstur geldnauta og hesta á Hvannavelli uppá Mosfellsheiði en sökum fátæktar þá stundina áttu menn þá ekki slíkan búpening til að nýta það. Torfrista og stunga var til gagns en aðkoma frá heimabæ erfið. Mótak til eldiviðar var bjarglegt en erfitt vegna foraða ef mórinn var tekinn þar sem best hentaði. Selveiði gat verið einhver en hafði ekki verið stunduð lengi. Lítil von um reka og sölvafjara, hrognkelsafjara og skelfiskfjara var lítil. Lending var hin besta og brást aldrei. Heimræði var allt árið og reru ábúendur eftir gæftum. Áður fyrr og til forna á meðan fiskur gekk vel að landi höfðu verið inntökuskip og aðkomu sjófólk á vertíð og var fram á sumur, en var þá að mestu leyti aflagt. Engar verbúðir höfðu verið en vertíðarfólkið hafði haft húsnæði hjá bændum og hjáleigumönnum, höfðu herbergi, þjónustu og soðning hjá þeim. Leigu tóku bændur af inntökuskipum en ekki var vitað hve mikið. Tveggja manna far frá Lykkju hafði lendingu leigulaust.

Hof

Hof á Kjalarnesi.

Vertíðin hófst þá eins og annars staðar á Suðurnesjum um Kyndilmessu 2. febrúar og stóð fram á Hallvarðsmessu 15. maí. Fengnum var skipt jafnt. Skipshlutur var einn af tveggja mannafari allt árið og engin leiga af skipi. Af fjögurra manna fari voru tveir skipshlutar á vertíð og engin skipleiga, en utan vertíðar einn skipshlutur en engin skipleiga. Ef fiskur gekk ekki inn á fjörðinn var langt að róa. Lending var hin besta og brást aldrei. Jörðinni var fundið það helst til foráttu að stórviðri spilltu túnum, engjar voru engar nema í Andríðarey. Landþröng var á þrjá vegu og á fjórða var mikill ágangur kvikfénaðar aðliggjandi jarða. Sjór braut tún Prestshúsa og engið á Andríðarey og fé var flæðihætt allt árið. Sandfjúk spillti neðrihluta túns og svo stórviðrasamt var að hætt var bæði húsum og heyjum.

Hofssel

Hofssel í Blikdal.

Selstaða var sögð hafa verið á Blikdal, þar sem heita Hofsel gömlu, í landi Brautarholts. Selstaðan virðist ekki hafa verið notuð 1704.
Andríðarey var í eigu Hofs og Brautarholts sem áttu hvor sinn helming fram yfir aldamótin 1800. Þar voru slægjur, eggver, smá dúntekja var, góð sölvafjara og nokkur rekavon. Hof lét sinn helming í skiptum fyrir Eystri- Vallá og nýtti sem slægjur. Nánar er fjallað um eyjuna við Brautarholt.
Í Jarðatali Johnsens frá árinu 1847 var Hof í bændaeign metið á 60 hundruð. Þá skipti sýslumaður matinu upp, mat Hof 27 hundruð, Jörfa á 7 hundruð, Krók á 10 hundruð og Lykkju á 10 hundruð. Hof var í bændaeign 1849-1850 metið á 27 forn hundruð en 16 ný. Hof virðist hafa verið farið að tína fjöðrunum um miðja 19. öldina því eftir það er farið að telja afbýli og hjáleigur sérstaklega og dýrleiki jarðarinnar lækkar um rúman helming. Á Hofstanga var bryggja sem mjólkurbáturinn lagðist að uppúr 1910 var farið að flytja mjólk og mjólkurvörur til Reykjavíkur

Grófartún

Arnarholt

Grófartúnstættur.

Grófartún var sögð gömul hjáleiga Hofs þegar Jarðabókin var gerð 1704 og dýrleiki reiknaður með einum af þrem pörtum jarðarinnar. Þá var þar enginn ábúandi en jörðin nytjuð frá Hofi og Jörfa. Kvaðir voru um mannslán allt árið til heimabóndans og tvö ef tveir bjuggu á hjáleigunni sem var sjaldan. Hægt var að fóðra þrjár kýr og fimm lömb á hjáleigunni. Ekki er vitað hvort hjáleigan var byggð síðar en hennar er ekki getið frekar í jarða- og fasteignabókum. Hjáleigan er skráð undir Hof.

Prestshús

Presthús

Presthús.

Presthús voru við suðvestanverða Hofsvík í suður af Bakkakoti. Staðsetning var fengin með því að strekkja svarthvíta loftljósmynd frá 1942 og túnakort í ArcGis.
Skammt frá meintu bæjarstæði stendur nú sumarbústaður sem byggður var 1943. Búskap lauk þar 1946 en búið var þar til 1963 en sumarbústaðarland eftir það.

Presthús

Presthús – túnakort 1916.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 voru þau önnur hjáleiga frá Hofi af sama parti og Grófartún með einum ábúanda og var dýrleiki talin með þeim parti. Kvaðir voru um mannslán allt árið til heimabóndans. Hægt var að fóðra þar tvær kýr. Presthúsa virðast ekki hafa verið byggð 1847 þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman er aðeins getið neðanmáls. Þar segir að 1802 sé eyðihjáleigu Presthúsa getið talin var hjáleiga frá Hofi í Jarðabókinni 1704. Búskap lauk þar 1946. Prestshús komust síðar í eigu Brautarholts og er skráð undir það ásamt minjum sem taldar eru tengjast býlinu.

Jörfi

Jörfi

Jörfi – túnakort 1916.

Jörfi var afbýli af Hofi 1704 og taldist til Hofshverfis og er nú afmörkuð lóð norðvestan við Grundarhverfi. Núverandi íbúðarhús sem reist var 1942 stendur á Jörvaholti. Jörðin afmarkaðist af veginum fyrir norðan, Klébergslæk að austan, Jörfalæk að vestan og sjó að sunnan.
Býlið fór í eyði 1928 og var þá land þess lagt undir Hof. Daði Jónsson sýslumaður Kjósarsýslu bjó þar á 17. öld. Við vettvangskönnun 2002 var hægt að staðsetja bæjarstæði gamla Jörfabæjarins á svæði sem bar ýmis umhverfismerki sem einkenna gömul bæjarstæði en vegna túnasléttunar voru minjar ekki lengur sjáanlegar. Jörfa var getið í fógetareikningum 1552.

Jörfi

Jörfi – bæjarskipan 1916.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin partur af Hofi, metin á átta hundruð með einum ábúanda. Kvaðir voru engar. Hægt var að fóðra þrjár kýr og átta lömb á jörðinni. Kostir og lestir jarðarinnar þeir sömu og taldir eru á Hofi. Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var dýrleiki jarðarinnar metinn með Hofi en neðanmáls kemur fram að sýslumaður telji dýrleika Jörfa 7 hundruð.Á túnakorti Jörfa frá 1916 segir að húsaskipan bæjarins sé „óvanaleg“, kannski vegna þess að tvö hús af fimm, liggja þvert á þriggja húsa röð en ekki samsíða.

Grafarkot
Grafarkot var reist í fyrndinni í túni Jörfa vestan við lækinn segir á túnakorti Jörfa. Þá sást móta fyrir bæjarleifum, heygarði ofan við og kálgarði neðanvið. Við vettvangskönnun 2002 voru greinilegar rústir sem virtust vera af litlum bæ um 100 metra frá sjó og um 20 metra vestur af Jörfalæk. Tóftirnar gætu verið þær sömu og nefndar eru Gróutættur í örnefnalýsingu. Sagðar „rétt frá bakkanum í miðju Hofstúni um 100 m frá sjó“ í örnefnalýsingu og eru taldar hugsanlega tóftir Grafarkots og kálgarður þar fyrir framan.
Minjar vestan Jörfalækjar tóft sem gæti verið tóft Grafarkots og þúst á vesturbakka lækjarins gæti hafa tilheyrt kotinu.

Grund
Arnarholt
Smábýlið Grund var byggt úr landi Jörva 1920 og var í byggð til 1951. Bærinn stóð við Grundarholtið rétt neðan við vegamót Vesturlandsvegar og Brautarholtsvegar.
Grundarhverfi dregur nafn sitt af býlinu en engin ummerki fundust eftir það í vettvangsferð 2002.

Holt
Holt var steinhús sem byggt var í landi Jörfa 1945. Búið var í húsinu til 1951. Síðar var það notað sem hænsnahús en það brann að lokum og var ekki endurbyggt. Engar leifar fundust á vettvangi 2002. Húsið stóð upp við Brautarholtsveginn og gæti hafa farið undir þá framkvæmd.

Krókur
Krókur var afbýli frá Hofi og er í Hofshverfi. Bæjarstæðið er og hefur verið ofan Brautarholtsvegar. Þar stendur nú steinsteypt íbúðarhús frá 1919 sem byggt var á gamla bæjarstæðinu, samkvæmt túnakorti, með sambyggðum steinsteyptum útihúsum frá 1930 suðaustan við.
Jörðin var afbýli úr landi Hofs þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704, metin á 10 hundruð með tveimur ábúendum sem bjuggu jafnt. Kvaðir voru um mannslán allt árið. Hægt var að fóðra 3 kýr og 10 lömb á öllu býlinu.
Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var Krókur hjáleiga frá Hofi og dýrleiki metinn með því en neðanmáls kemur fram að sýslumaður telji dýrleika Króks 10 hundruð.

Litliás
Litliás var tómthús á börðunum niður undan Langaskyggnishól í Krókslandi á árunum 1923-24 samkvæmt örnefnalýsingu. Ekki var hægt að greina staðsetningu á vettvangi 2002 vegna nýbygginga við Háagerði en tómthúsið er skráð sem heimild undir Krók.

Bakkakot
Bakkakot var spilda úr Krókslandi suðvestur af Hjassa og austur af Presthúsum. Þar bjó þurrabúðarfólk a.m.k. frá 1860. Býlið var nefnt „Nýibær“ allt fram undir 1870 og þar var búið fram yfir 1920. Bakkakot á að hafa staðið á grasigrónu upphækkuðu og sléttuðu svæði um 10 m norðaustur af Heiðarvíkurlæk, sem var í landi Bakkakots, og 30 m upp af sjónum, en þar var hægt að greina útlínur af rúst á vettvangi 2002 sem er skráð undir Krók. Grasigróin útihúsarúst er 10 m norðvestur af bæjarstæðið Bakkakots og gæti hafa tilheyrt því.

Lykkja
Lykkja var afbýli frá Hofi og tilheyrir Hofshverfi. Býlið er neðan Brautarholtsvegar og núverandi íbúðarhús stendur á bæjarhólnum þar sem torfbærinn stóð áður en við vettvangskönnun 2002 voru ekki sjáanlegar leifar af honum. Á gamalli ljósmynd má sjá að torfbærinn varð að rúst svo það hefur ekki verið byggt alveg á grunni hans. Núverandi íbúðarhús á Lykkju var byggt 1906 að sögn íbúa þar 2002 en í bókinni Kjalnesingum er það sagt byggt 1911. Hvort sem heldur er þá telst það með eldri uppistandandi íbúðarhúsum á Kjalarnesi. Á hernámsárunum reistu Bretar skála í Lykkju og þegar skipti urðu 26. janúar 1940 settis þar að 30 manna flokkur fótgönguliðssveitar Bandaríkjahers.
Jarðabók Árna og Páls 1704 segir jörðina afbýli frá Hofi, sjötta tíunda hundraðið úr jörðinni, með einum ábúanda. Kvaðir voru um mannslán, eitt eða tvö eftir ábúð, til jarðareigenda á skip sem gerð voru út frá Brautarholti eða Lykkju. Tveggja manna far frá eiganda Lykkju var þar leigulaust. Hægt var að fóðra þar þrjár kýr og tíu lömb. Sjá um kosti og lesti við Hof. Dýrleiki jarðarinnar var talin með Hofi í Jarðatali 1847 en sýslumaður mat hana þá á 10 hundruð.

Brautarholtshverfi

Brautarholt

Brautarholtshverfi 1906.

Brautarholtshverfi samanstóð af Brautarholti, sem það er kennt við, og hjáleigum hennar.
Aðalbyggð Brautarholtshverfis var á ásnum Hjassa sem nær frá Hofsvík vestanverðri að Músarnesi. Brautarholt var nálægt miðju, Ketilsstaðir, Hjallasandur, Snússa, Lambhús, Flassi, Austurvöllur þar í kring. Norðan við Brautarholtsborg var Borg. Prestshús voru við suðvestanverða Hofsvík og syðst var Nes. Norðan við ásinn voru kirkjujarðir Brautarholts, Mýrarholt, Arnarholt, Brekka og Bakkaholt. Fjórir hæðahryggir liggja yfir hið eiginlega Kjalarnes og ná tveir alveg yfir það, Hjassi sem Brautarholt stendur á, Austurvallahólar framar, Snússuhólar að vestan og Skrokkhóll ystur að austan. Borgarvík er, suðvestur af Brautarholti, sunnan við Músarnes og þar var aðallendingarstaður hverfisbúa og útræði áður fyrr.

Brautarholt

Brautarholtshverfi – örnefni.

Árið 1704 þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð voru hjáleigur Brautarholts átta: Skemma, Ketilsstaðir, Kjalarnes/Nes, Hjallasandur, Lambhús, Flatbjörn, Langabúr austara og Langabúr vestara. Kirkjujarðirnar voru Mýrarholt og Borg. Þá var Arnarholt í einkaeigu og Brekka hjáleiga þaðan en Bakkaholt sennilega það sama og Bakkahjáleiga frá Bakka sem síðast var kallað Holt. Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 voru hjáleigur Brautarholts Lambhús, Snússa (Skemma), Hjallasandur, Ketilstaðir og kirkjujarðir Borg og Mýrarholt. Á bæjarteikningu sem mælingadeild danska herforingjaráðsins gerði 1908 eru teiknuð 9 býli í Brautarholtshverfi en þá voru aðeins tvö í byggð, Mýrarholt og Brautarholt: „1. Arnarholt eyðibýli, 2. Mýrarholt bær, 3. Ketilstaðir eyðibýli, 4. Snússa eyðibýli, 7. Flassi eyðibýli, 8. Austurvöllur eyðibýli, 9. Brautarholt bær, 10. Brautarholtskirkja annexia.“

Borg

Borg

Tóftir Borgar.

Borg er suðvestur undan Brautarholtsborgum. Upp og norðaustur af tóftum bæjarins er Borgarskarð í Borgarhólum þar sem lagður hefur verið vegur sem liggur að golfskála sem er um 50 m suðaustur af bæjarstæði Borgar að Brautarholti. Mörg örnefni á svæðinu eru með nafnliðnum „borg“ og í örnefnalýsingu Brautarholts segir að fyrr á tímum hafi verið stórbýli á Borg með 18 hurðir á járnum.
Á túnakorti Brautarholts frá 1916 segir að þar hafi verið byggt 90 kinda fjárhús nokkrum árum áður og girt af fyrir fjárbæli, verið sléttað að nokkru en var orðið smáþýft aftur og var fjárlaust í órækt. Samkvæmt túnakortinu fór býlið í eyði í kringum 1816 en þar segir: „Lagt í eyði að sögn, af reimleika, fyrir rúmum 100 árum.“ Í bókinni Kjalnesingum segir hinsvegar að Borg hafi farið í eyði 1902 og ábúenda getið frá 1886-1892 og 1901-1902.
Við vettvangskönnun 2002 mátti greina þrjú hólf með veggjum úr torfi og grjóti en erfitt var að greina garðlög vegna mikils gróðurs.

Blikdalur

Seltóft í Blikdal.

Jarðarinnar er getið í máldaga Brautarholtskirkju í Gíslamáldögum 1575, þá leigði Borg jarðnæði af kirkjunni. Jörðin var í einkaeigu og Brautarholtskirkju 1695 metin á 20 hundruð. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Borg kirkjujörð frá Brautarholti metin á 20 hundruð með einum ábúanda. Kvaðir voru um mannslán í verstöðu Brautarholts allt árið ásamt dagsláttu og flutningi á landsdrottni og fólki á hans vegum í Hvalfjörð og suður í Hólm. Hægt var að fóðra fjórar kýr á jörðinni sem átti fría selstöðu á Blikdal í landi Brautarholts. Torfrista og stunga var sæmileg og mótak til eldiviðar hjálplegt. Rekavon var einhver og sölvafjara einnig en erfið. Heimræði var allt árið og máttu skip heimabóndans ganga þar ef hentaði en þá átti hann ekkert. Nokkrum sinnum höfðu verið þar aðkomandi innkomuskip en verbúðir voru engar en menn leigðu hús og þjónustu hjá bóndanum. skipting sjávarfengs var eins og á Hofi. Eitthvað um fjörugrös en engjar voru engar og átroðningur var af búpeningi nær liggjandi bæja frá Brautarholti og hjáleigum. Sauðfé var flæði hætt og snjóþungt var á vetrum.
Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var Borg í kirkjueign metin á 20 hundruð.

Brautarholt 1

Brautarholt

Brautarholt og nálægir bæir – túnakort 1916.

Brautarholt er landnámsjörð, fornt höfuðból og kirkjustaður í landnámi Helga bjólu á vestanverðu Kjalarnesi. Bærinn og kirkjan standa á háum hól, Kirkjuhól og vestur af bænum er Músarnes við mynni Hvalfjarðar. Á bæjarstæðinu stendur íbúðarhús sem er að grunni til að minnstakosti frá 1907 um 15 m norðvestur af kirkjunni. Landnáma bók segir frá því að Auðunn Þórðarson hafi búið í Brautarholti og að hann hafi verið afkomandi Ávangs sem var írskur að uppruna og byggði fyrst í Botni í Hvalfirði, sennilega á 11. öld.
Bjarni Thorarensen amtmaður fyrir norðan og austan fæddist þar 1786. Jörðin var í eigu Sturlubræðra, Sturla og Friðrik Jónssona sem voru kunnir athafnamenn sem áttu nokkrar bújarðir á Kjalarnesi um aldamótin 1900, frá 1901 til … . Frá 1901 til 1909 var bjó Jón Jónatansson þar. Í Brautarholti ráku bræðurnir stórt kúabú og fluttu mjólkina sjóleiðina til Reykjavíkur. Árið 1909 tók Daníel Daníelsson ljósmyndari og hestamaður Brautarholt á leigu til ársins 1914. Hann var frumkvöðull í ferðamennsku á Kjalarnesi. Daníel tók á móti fólki af skemmtiferðaskipum á Kollafjarðareyrum og útvegaði hesta fyrir það til að ríða upp að Tröllafossi. Jón Eyjólfsson keypti Brautarholt 1915 og bjó þar til 1923 en þá eignast Ólafur Bjarnason jörðina ásamt Arnaholti, Brekku og Holti. Þrjár síðastnefndu seldi hann síðan Thor Jensen 1927 sem nýtti þær til sumarbeitar fyrir nautgripi sína.

Brautarholt

Brautarholt.

Breska hernámsliðið hafði töluverð umsvif í Brautarholti og var komið þangað daginn eftir hernámið, 11. maí 1940 og síðar það bandaríska. Herinn lagði undir sig íbúðarhúsið í Brautarholti og reistu sex bragga á kirkjugarðshólnum en ummerki eftir veru þeirra má sjá víða og eru herminjar skráðar á sautján stöðum á jörðinni. Þegar skipi urðu á herliði 26. janúar settist að 30 manna flokkur fótgönguliða Bandaríkjahers í Brautarholti. Í Brautarholti hefur verið rekið svínabú frá árinu 1957 og árið 1972 var sett upp grasköglaverksmiðja sem var rekin þar til ársins 1999 en túnin hafa nú verið að mestu leiti nýtt fyrir golfvöll.
Kirkju í Brautarholti er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups í Skálholti frá því um 1200. Ekki er vitað hvort kirkjurnar hafa allar staðið á sama stað eða úr hverju elstu kirkjurnar voru. Torfkirkja var endurbyggð í Brautarholti árið 1823 en 33 árum síðar 1856 var sú kirkja að falli komin og varla messufær, ári síðar var byggð timburkirkja sem enn stendur. Eyjólfur Þorvarðarson (1816-1885) snikkari á Bakka á Kjalarnesi var yfirsmiður hennar. Söfnuðurinn tók við kirkjunni teil eignar og umsjár af eiganda Brautarholts 1894, Jóni Péturssyni. Þá var kirkjan í slæmu ástandi en ekki var ráðist í viðgerðir á henni fyrr en árið 1902. Brautarholts er getið í máldaga varðandi osttoll til Viðeyjar 1226 sem Árni Magnússon, sennilega Árni öreypa (óreyða) (d. 1250) sem nefndur er víða í Sturlungu, var vottur að. Hann var giftur Hallberu dóttur Snorra Sturlusonar og fékk með henni Brautarholt. Árni skildi síðar við hana og keypti þá Saurbæ á Kjalarnesi og bjó þar.

Brautarholt

Brautarholtskirkjugarður – grafir þýskra flugmanna.

Árið 1283 gerðu Árni biskup Þorláksson í Skálholti og Rafn Oddsson samning um staðarmál, Brautarholtssamning, og sumarið 1286 vísa lögréttumenn í hann.368 Kjalnesinga saga sem talin er rituð um 1300 segir frá því að landnámsmaðurinn Helgi bjóla hafi gefið Andríði, ungum írskum manni, land undir bæ sem hann nefndi Brautarholt. Sagan segir líka frá vígi hans og að Þuríður kona hans hafi látið búa um lík hans og flytja það í eyju sem eftir það var kölluð Andríðsey. Á milli Andríðseyjar og Músaness var Andríðshöfn, ein af helstu höfnum Kjalarnes. Kirkjan í Brautarholti, var helguð heilögum Nikulási, átti árið 1367 land í Mýrarholti ásamt fleiru.371 Í máldaga hennar 1397 eru einungis taldir upp gripir í eigu hennar en ekki getið um landareignir eða ítök.
Töluverðar bréfaskriftir sem varðar eignarhald á jörðinni er að finna í fornbréfasafninu.
Eigandi Brautarholts frá því um 1402 til 1436 var Guðrún Sæmundsdóttir (1370). Hún hafði erft jarðirnar Brautarholt og Hof ásamt tveim hundruðum í plágunni miklu (svarta dauða) eftir systur sínar Þórdísi og Ingibjörgu. Vigfús Ívarsson, (1350-1420) hirðstjóri yfir landinu öllu, frændi hennar hélt fé hennar lengi afgjaldalausu og bjó ekkja hans Guðríður Ingimundardóttir lengi í Brautarholti. Í ágúst 1420 handlagði Guðríður Ingimundardóttir Hannesi Pálsyni vegna konungdóms allt góss sem hún hafði með að fara, laust og fast sem Vigfús átti og fara síðan á fund konungs og njóta þess sem hann vill. Í Brautarholtsbréfi frá 1432 vottuðu fjórir menn á Hvaleyri samtal sem hafði átt sér stað á milli Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra og konu hans Guðríðar þann 9. ágúst sennilega 1419 (ekki 1429) varðandi eignir sem hann hélt frá frænku sinni Guðrúnu Sæmundóttur. Guðríður vildi að Guðrún meðgengi að hún hefði gefið Vigfúsi eignirnar en Guðrún afsagði það. Árið 1433 var Guðríður Ingimundardóttir í Brautarholti og gaf þá staðnum í Viðey jörðina Hóla í Grímsnesi til sáluhjálpar Vigfúsi bónda sínum og Erlendi syni þeirra.

Brautarholt

Brautarholtshverfi 1946.

Árið 1436 var gerður kaupmáli í Brautarholti á milli Þorvarðar Loftssonar og Margrétar Vigfúsdóttur. Tíu árum síðar 1446 er Brautarholtskirkju getið í testamentisbréfi Þorvarðar.376 Í máldaga Brautarholtskirkju frá 1491-1518 er greint frá landareignum og ítökum. Kirkjan átti þá heimaland allt, Langholt og allt land fram undir Fossá, hálfan Stardal, reka í Laurentiusarbæ á Reykjanesi, allan skóg í Hrauntungum og Festarskóg og Margrétarskriður í Skorradal. Í máldaganum kemur í fyrsta skipti fram eignarhald Brautarholtskirkju á hálfum Stardal en ekkert er talað um selstöðu jarðarinnar sem er ekki nefnd fyrr en í Jarðabókinni 1704 og var þá á Blikdal. Spurning hver hafi átti hálfan Stardal á móti Þerney fram að því?
Brautarholt var meðal eigna sem komu fram í fjárskiptabréfi árið 1522 á milli Hólmfríðar Erlendsdóttur og Eyjólfs Einarssonar sonar hennar og systkina hans. Árið 1558 var jarðarinnar getið í testamenti og skiptabréfi Eyjólfs Einarssonar þar sem hann gefur Einari syni sínum jörðina með hjáleigum fyrir 75 hundruð. Árið 1561 lýsti Erlendur Þorvarðarson Andríðsey sem gamalli eign Brautarholts og hét að nytja hana ekki framar.
Í máldaga Brautarholtskirkju 1575 á hún landareignirnar Mýrarholt og Borg.
Brautarholt var í einkaeigu 1686 metið á 133 hundruð og 80 álnir en 120 hundruð 1695.

Brautarholtskirkja

Brautarholtskirkja.

Í manntali 1703 eru sagðir tveir ábúendur, fimm hjáleigumenn og einn fátækur búðasetumaður. Átta heimili samkvæmt því. Brautarholt var kirkjustaður árið 1704 þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð, þá verðmætasta jörðin á Kjalarnesi metin á 100 hundruð með átta hjáleigum og tveimur kirkjujörðum en lítið var gert úr kostum jarðarinnar. Ábúandi var einn og kvaðir voru engar. Þá var hægt að fóðra þar sjö kýr og einn hest en bústofninn var töluvert stærri. Torfrista og stunga var uppurin en var frí í Mýrarholti, sem kirkjan átti, en mótaka var nægileg til eldiviðar. Selveiði hefði verið hægt að stunda en hafði ekki verið nýtt lengi og reki var í betra lagi. Hrognkelsafjara var nokkur en engin skelfiskfjara nema með reka. Heimræði var allt árið, verstaða og lending góð og gengu skip heimabóndans og eiganda eftir þörfum. Aðkomuskip voru þar stundum geng gjaldi oftast gegn helmingi af afla. Jörðin átti sem fyrr helming í Andríðarey á móti Hofi. Mikil landþröng var á jörðinni sem hafði engar engjar nema á eyjunni. Selstöðu og beitiland átti kirkjan á Blikdal en haglaust var að mestu á jörðinni sumar og vetur og mikil flæðihætta. Vatnsból var mjög lélegt og þraut oft. Hjáleigurnar voru átta 1704 voru: Skemma, Ketilstaðir, Kjalarnes öðru nafni Nes, Hjallasandur, Lambhús, Flatbjörn, Langabúr eystra og Langabúr vestra. Mýrarholt og Borg voru kirkjujarðir.

Brautarholt

Brautarholtshverfi.

Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var dýrleiki hjáleigna talinn sérstaklega og þá var dýrleiki Brautarholts 35 hundruð og aðeind 60 með hjáleigum. Eigandi var einn og einn leiguliði. Hjáleigum hafði fækkað frá því 1704 um fjórar. Þær voru Lambhús sem voru metin á 10 hundruð, Snússa (Skemma) á 5 hundruð, Hjallasandur á 5 hundruð og Ketilstaðir á 5 hundruð.
Á túnakorti frá 1916 kemur fram að hjáleigurnar flestar og næstu jarðir hafi verið lagðar undir Brautarholt á eignarárum Sturlunga, bræðranna Sturla og Friðriks Jónssona. Sjósókn virðist hafa verið töluverð 1704 en farið minnkandi þegar komið var fram á 19. öldina. Heimildir eru um átta hjáleigur frá Brautarholti og má vænta þess að finna leifar bæjarhóla þar sem þær hafa verið. Sumstaðar eru tóftir sjáanlegar á yfirborði.

Andríðsey

Andriðsey

Andríðsey og nágrenni.

Andríðsey er innarlega í Kollafirði í norður af Músarnesi um kílómeters fjarlægð.
Andríðshöfn, ein af helstu höfnum á Kjalarnesi var á milli lands og eyjar. Á milli Andríðseyjar og Músarness var Andríðshöfn sem var ein af helstu höfnum á Kjalarnesi. Í Andríðsey voru siglingamerki, tvær vörður sem mið var tekið af á sjó og voru sjófarendur á réttri leið ef vörðurnar bar saman. Eyjan liggur undir Brautarholt en helmingur hennar var áður í eigu Hofs sem átti helming á móti Brautarholti fram að 1816 að því er kemur fram á túnakorti Vallár og Litlu- Vallár. Þá keypti Þorvarður í Brautarholti helminging Hofs í Andríðsey fyrir Eystri Vallá. Eyjan hefur sennilega alltaf verið matarkista. Rétt eftir aldamótin 1900 var veiddur þar lundi og nytjað æðarvarp sem var eitt hið stærsta á sunnanverðu landinu. Á einhverjum tíma var búið skamma hríð í eyjunni.

Andriðsey

Andríðsey.

Kjalnesinga saga hefur þá skýringu á nafni eyjarinnar að Þuríður húsfreyja í Brautarholti hafi látið flytja þangað lík Andríðs bónda síns og heygja hann er hann var vegin eftir hofsbrunann á Hofi. Andríður á að hafa verið heygður í Andríðarhól og sagt er, og merki eru um, að einhvertíman hafi verið byrjað að grafa í hólinn en þá hafi öll bæjarhús í Brautarholti verið í ljósum loga.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var eyjan í eigu Hofs og Brautarholts til helminga. Þá var sölvafjara góð á eyjunni en lítið um fjörugrös og eggver og dúntekja voru varla teljandi. Í eyjunni voru einu engjar Brautarholts.

Andriðsey

Andríðsey.

Vettvangsskráning hefur ekki farið fram í eyjunni en þrennar minjar þar eru skráðar eftir heimildum undir Brautarholti, meintur haugur Andríðs, sögn um klettinn Andra sem á að vera legsteinn Andríðs og vörðurnar tvær sem notaðar voru sem siglingarmerki.

Snússa
Snússa var hjáleiga frá Brautarholti, á ásnum á milli Ketilsstaða og Brautarholts. Nafnið var stytting úr Snútshús og taldi Björn Bjarnarson að býlið hafi dregið nafn sitt af strýtumynduðum hól sem hafi líklega heitið Snútur. Snússu er ekki getið í Jarðabókinni 1704 en í Jarðatali Johnsen 1847 kemur fram að Snússa sé líklega sama býli og nefnt var Skiemma í Jarðabókinni. Nafnið Snússa kemur fyrst fram í manntali 1835.
Skiemma (Snússa) var hjáleiga Brautarholts með einum ábúanda þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704. Dýrleiki var reiknaður með heimajörðinni. Kvaðir voru um mannslán allt árið til heimabóndans, einn dagslátt og ein til þrjár skipaferðir í kaupstað. Hægt var að fóðra tvær kýr á hjáleigunni. Torfristu, stungu og eldiviðartak hafði bóndinn ásamt heimabóndanum.
Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var Snússa (Skemma) hjáleiga frá Brautarholti metin á 5 hundruð. Snússa var ekki í byggð frá 1902 og var eyðibær 1908 þegar gerð var bæjateikning af Brautarholtshverfi sem taldi þá 10 bæi.
Tóftir Snússu voru uppistandandi um 1940 því til er ljósmynd af breskum hermönnum sem tekin var í tóftum býlisins sem er í bókinni Kjalnesingar og má af henni sjá afstöðu þess við bæjarhúsin í Brautarholti. Engar leifar voru sjáanlegar eftir býlið þegar Sólborg Una Pálsdóttir gerði vettvangskönnun haustið 2002 miðað við staðsetningu á túnakorti Brautarholts frá 1916 og taldi hún að tóftirnar hefðu sennilega horfið þegar efra svínahúsið í Brautarholti var byggt. Þegar bæjarteikningin 1908 var strekt yfir nýlegar loftmyndir í LUKR sýnist bærinn hafa verið í suðvestur af svínahúsum og tóftirnar sennilega horfið við túnasléttun.

Ketilstaðir

Brautarholt

Brautarholt – tóftir.

Ketilstaðir voru önnur hjáleiga Brautarholts 1704. Að sögn Jóns Ólafssonar í Brautarholti 2002 er hluti af tóftum bæjarins um 25 m norður af nýlega byggðu íbúðarhúsi, Brautarholti 11, um 100 m ofan við Garðsendavík sem er austan við Músarnesið. Við vettvangskönnun 2002 var eitt hólf eftir og garður þétt við suðvesturvegg hólfsins í sæmilegu ástandi. Veggir voru greinilegir þar sem þá var að finna en túnasléttun og vegur höfðu eyðilagt rústirnar að norðan og vestan. Þá voru veggir rústarinnar notaðir sem skjól fyrir kartöflugarð og hrossahagi var í kring.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var einn ábúandi og dýrleiki reiknaður með heimajörðinni. Kvaðir voru um mannslán allt árið, dagslátt og ein til þrjár skipaferðir í kaupstað. Hægt var að fóðra eina kú ríflega. Torfrista, stunga og eldiviðartak var á kirkjujörðinni Mýrarholti. Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 voru Ketilstaðir metin á fimm hundruð. Þar kemur fram að getið var um eyðihjáleigu frá Ketilsstöðum, Pálshús í jarðabók 1802. Búið var á Ketilstöðum til 1905 og var eyðibýli 1908 þegar gerð var bæjarteikning af Brautarholtshverfi sem þá taldi 10 bæi.

Pálshús
Pálshús voru eyðihjáleiga frá Ketilsstöðum þegar gerð var jarðabók 1802 að því er fram kemur neðanmáls í Jarðatali Johnsens 1847. Býlið er ekki nefnt í öðrum heimildum og ekki er vitað um staðsetningu þess.
Skráð undir Ketilstaði.

Bali
Bali var tómthúsbýli efst á Músarnesi á hæðinni suður af Ketilsstöðum. Býlið kemur fram í manntali 1850 og þá sagt hjáleiga. Býlið var í ábúð fram til 1903. Á túnakorti Ketilsstaða 1916 kemur frama að túnið hafi verið álíka stórt og þar, ekki hafði verið borið á það lengi en var ennþá nytjað. Þá var þar ekkert hús og tóftir dottnar. Við vettvangskönnun 2002 var talið að leifar af garði norðanmegin á Mjóanesi, þar sem það er mjóst, hafi verið tún- eða kálgarður býlisins Bala, einu ummerki þess.
Bali gæti hafa verið afbýli Ketilsstaða en býlið er skráð undir Brautarholt og staðsetning þess er byggð á upplýsingum Jóns Ólafssonar Brautarholti.

Kjalarnes/Nes

Nesvík

Nesbæir ofan Nesvíkur.

Kjalarnes var kallað Nesbær í manntali 1890 tvö býli þegar örnefnalýsing var gerð 1967 Eystri- og Vestri Nesbær. Var suðaustan við Brautarholtsborg, upp af Nesvík syðst á nesi austan við víkina, sunnan við Vermannaskarð í Borgarhólum sem menn gengu yfir þegar komið var frá sjó. Þar eru meintar tóftir Vestri- og Eystri- Nesbær, uppaf Nesvík og á milli þeirra er Hreppstjórabúð. Þar standa nú (2015) tvö timburhús samnefnd víkinni sem Starfsmannafélag Loftleiða flutti þangað, annað 1967 og hitt 1973. Stærra húsið, það nyrðra, stendur á milli tófta sem taldar eru hafa verið Vestari- og Eystri- Nesbæ.
„Kialarnes“ var þriðja hjáleiga Brautarholts þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 með einum ábúanda og dýrleiki hennar reiknaður í heimajörðinni. Kvaðir voru um mannslán allt árið. Þá var hægt að fóðra þar eina kú, einn vetrung og þrjú lömb. Selstöðu hafði jörðin á Blikdal í heimalandi Brautarholts. Torfrista var engin en mótak til eldiviðar gott. Þá var lítið eggver í hólma nærri landi og selveiði mátti stunda en reki fylgdi heimajörðinni. Sölva- hrognkelsa- og skelfiskfjara nokkur. Fjörugrastekja bjargleg heimamönnum. Heimræði var allt árið en sund sögð slæm að lendingu.

Nesvík

Nesvík – verbúð.

Stundum hafði aðkomuskipum verið leigð aðstaða af heimabónda. Þarna voru verbúðir og brúkanleg verstaða. Sandur eyddi túnum og engjar voru engar. Sauðum var flæðihætt og vatnsból þraut bæði sumar og vetur. Kjalarnes eða Nesbæjar er ekki getið í Jarðatali Johnsen 1847 en þurrabúðin Nesbær kemur fram í manntali 1890 og þá virðast vera þar þrjár fjölskyldur svo þá gæti líka hafa verið búið í Hreppstjórabúð. Ábúð í Nesi (Kialarnes) lauk í 1903.
Eystri- og Vestri Nesbær (Kialarnes) eru skráðir undir Brautarholt.

Hreppstjórabúð
Örnefnalýsingar nefna þrjár verbúðir við Nesvík, Hreppstjórabúð, Snorrabúð og Pálsbúð. Hreppstjórabúð er talin hafa verið á milli Nesbæjanna samkvæmt heimildamanni og um miðja vegu á milli Nesbæjanna eru tóftir sem líkur er á að hafi verið Hreppstjórabúð. Tóftin með tveimur hólfum er á háum hól 15 m vestur af minna húsinu við Nesvík um 20 m austur og upp af sjónum.
Skráð undir Brautarholt.

Snorrabúð

Brautarholt

Snorrabúð.

Snorrabúð og Pálsbúð eru fremst á nestanganum, suðaustast á Bryggjunesi segir í örnefnalýsingu. Við vettvangskönnun 2002 var talið að Snorrabúð hafi verið við sjávarbakkan á austanverðu Bryggjunesi þar sem var grasi gróin tóft, hlaðin úr stórum steinum með tveimur hólfum. Tóftin var þá í slæmu ástandi og stafaði hætta af landbroti.
Skráð undir Brautarholt.

Pálsbúð
Pálsbúð er talin hafa verið þar sem var grasi gróin rúst um 70 m suðvestur af Snorrabúð við vettvangskönnun 2002. Skráð undir Brautarholt.

Hjallasandur
Hjallasandur var hjáleiga frá Brautarholti, upp frá Borgarvík á graslendi í Borgarvíkurbotni.
Borgarvík er sunnan við Músarnesið og þar var áður aðallendingarstaður hverfisbúa og útræði áður fyrr. Hjallasandur var komið í eyði 1870. Bærinn var rifinn skömmu fyrir 1873 en þá voru allar bæjartóftir uppistandandi.
Hjallasandur var fjórða hjáleigan Brautarholts þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704, með einum ábúanda og dýrleikinn reiknaður með heimajörðinni. Kvaðir voru um mannslán allt árið til landsdrottins og einn flutning suður í Hólm. Þá var hægt að fórðra eina kú ríflega á hjáleigunni og torfrista, stunga og eldiviðartak var í heimalandi.
Þegar Jarðatal Johnsens 1847 var tekið saman var Hjallasandur hjáleiga frá Brautarholti með einum ábúenda metin á fimm hundruð. Ábúenda var getið í manntali 1860.

Lambhús
Lambhús voru um 200 m suðvestur af Brautarholtskirkju, við veginn sem liggur frá kirkjunni að Golfskálanum, samkvæmt bæjarteikningu frá 1908 og var þá eyðibær. Ummerki eftir hjáleiguna eru horfnar af yfirborði vegna túnasléttunnar. Lamhús voru í eyði frá 1902. Samkvæmt heimildum hefur því verið búið þar að minnsta kosti frá 1703 til 1902 eða í um 200 ár.
Lamhús var fimmta hjáleiga Brautarholts þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 og dýrleiki reiknaður í heimajörðinni. Ábúendur voru tveir og kvaðir voru um mannslán allt árið af hvorum. Naumlega var hægt að fóðra tvær kýr á kotinu. Torfrista, stunga og eldiviðartak var í heimalandi. Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var hjáleigan metin á 10 hundruð með einum ábúanda. Ábúenda er getið í manntölum frá 1703 til 1901. Í manntali 1880 eru Lambhús sögð heimajörð og húsbóndinn lifi á landbúnaði.
Fóru í eyði 1902.

Flatbjörn (Flassi)

Brautarholt

Brautarholtshverfi – bæir.

Flassi eða Flatbjörn var hjáleiga frá Brautarholti suðaustur af kirkjunni á flatlendi austur með ásnum sunnanverðum. Samkvæmt bæjarteikningu frá 1908 og túnakorti 1916 var Flassi 180 m suðsuðaustur af Brautarholtskirkju. Flassi var eyðibær þegar bæjarteikning var gerð 1908. Þegar túnakort Brautarholts var gert 1916 virðist aðeins vera 490m² kálgarður og kannski ein húsatóft. Ábúð á hjáleigunni var lokið á fardögum 1902. Bæjarstæðið er horfið vegna túnasléttunnar.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Flatbjörn sjötta hjáleiga Brautarholts og reiknaðist dýrleikinn með heimajörðinni. Kvaðir voru um mannslán allt árið á skip landdrottins. Þá var naumlega hægt að fóðra tvær kýr á hjáleigunni. Torfrista, stunga og mótak til eldiviðar var í heimalandi.
Ekki er getið um býlið 1847 í Jarðatali Johnsens en ábúenda á Flassa er getið í manntölum frá 1845 og síðast 1901. Á árunum 1849-1850 var Flassi metin á 2,44 ný hundruð. Síðustu ábúendur fóru á fardögum 1902.
Engar fornleifar eru skráðar á Flassa en hjáleigan er skráð undir Brautarholt. Sólborg Una Pálsdóttir gerði vettvangsskráningu haustið 2002 og samkvæmt heimildarmanni þá höfðu tóftir býlisins orðið túnasléttun að bráð. Hugsanlega mætti finna bæjarstæðið undir sverði væri þess leitað.

Langabúr austara
Langabúr austara eða Eystri Löngubúr var þurrabúðarkot sennilega norðan við Nátthagahöfða fyrir ofan lendinguna Fúlu í Garðsendavík.
Árið 1704 þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð var það sjöunda hjáleiga Brautarholts með einum ábúenda. Dýrleiki reiknaðist með heimajörðinni. Kvaðir voru um mannslán allt árið með formensku og greiddi landeigandi 10 álnir í formannskaup. Dagsláttur var einn til heimabóndans í Brautarholti og skipaferðir í Hólm og til Akraness. Hægt var að fóðra eina kú og eitt ungneyti á hjáleigunni. Torfrista, stunga og mótak var heima eða í landi Mýrarholts. Hjáleigan kemur ekki fram í öðrum jarðatölum en vitneskja um það og örnefnið sem hefur lifað. Hjáleigan er skráð undir Brautarholt.

Langabúr vestara
Langabúr vestara eða Vestri- Löngubúr var þurrabúðarkot sennilega sunnan við Nátthagahöfða, austan við Garðsendavík.
Árið 1704 þegar þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð var það áttunda hjáleiga Brautarholts með einum ábúanda. Dýrleiki reiknaðist í heimajörðinni. Kvaðir voru um mannslán allt árið eins og á hinu Langabúrinu. Hægt var að fóðra þrjár kýr. Torfrista, stunga og mótak heima eða í landi Mýrarholts. Hjáleigan kemur ekki fram í öðrum jarðatölum en vitneskja um það og örnefnið sem hefur lifað. Býlið er skráð undir Brautarholt.

Austurvöllur
Austurvöllur var hjáleiga frá Brautarholti, um 200 m suðaustur af kirkjunni og um 120 m norðaustur af Flassa, niðri í hallanum og lágu tún þeirra saman. Búsetu lauk þar á fardögum 1902. Við vettvangskönnum 2002 töldu heimildarmenn að garðlag, sem þá var notað sem rabbabaragarður, væru leifar frá býlinu en það passaði illa við túnakort og staðháttalýsingar en ummerki eftir býlið höfðu horfið vegna túnasléttunnar.
Hjáleigunnar var ekki getið í Jarðabók Árna og Páls 1704 en kemur fram í manntali 1845 og þá lifir bóndinn af lands- og sjáfar gangi. Kemur síðast fram í manntali 1901. Þegar Jarðatal var tekið saman 1847 Austurvöllur í bændaeign með einum ábúanda, dýrleiki var ekki metin en sýslumaður mat hana á 7 hundruð. Á árunum 1849-1850 var Austurvöllur hjáleiga Brautarholts metin á 7 forn hundruð en 5.22 ný. Austurvöllur er staðsettur um 200 m suðaustur frá kirkjunni á bæjarteikningu af Brautarholtshverfi frá 1908 sem taldi þá tíu bæi, merktur sem eyðibær.

Mýrarholt

Mýrarholt

Mýrarholt.

Mýrarholt var á stöku holti norðan við mýri, sem var norðan við ásinn sem Brautarholt stendur á. Bæjarhóll með tóftum síðasta bæjarins er 430 metra norðnorðaustur af Brautarholtskirkju og um 500 metra suðsuðvestur af gamla bæjarstæði Arnarholts.
Norðvestur af bæjarstæðinu er lendingin Fúla sem var lending bænda sem sóttu sjóinn úr Melahverfi, Brautarholti, Hofshverfi og Kjósinni o.fl. Skammt norður af bæjarstæðinu er Krosshóll en þar var sagt að væri huldufólk. Jörðin var sjálfstætt býli allt til 1921 en lagðist þá til Brautarholts.
Í máldögum Brautarholtskirkju frá 1367 og 1397 kemur fram að hún átti landi í Mýrarholti og í máldaga kirkjunnar 1491 er jarðarinnar getið varðandi landamörk. Samkvæmt máldag Brautarholtskirkju frá 1575 átti hún jörðina þá. Jörðin var enn í eigu Brautarholtskirkju 1695 metin á 20 hundruð.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var jörðin kirkjujörð frá Brautarholti metin á 20 hundruð með tveimur ábúendum til helminga. Kvaðir voru um mannslán hjá hvorum allt árið. Ein til þrjár skipaferð suður í Hólm og dagslátta af hvorum ábúanda í Brautarholti. Hægt var að fóðra fjórar kýr og sex lömb á jörðinni. Torfrista, stunga og eldiviðartak í heimalandi. Sel mátti veiða ef vildi. Rekavon var nokkur en sölva- og hrognkelsafjara var lítil. Heimræði var allt árið og lending var góð. Skip landsdrottins gengu þar og máttu skip ábúenda ganga ef þeir ættu einhver. Verstaða fyrir aðkomandi skip eða fólk hafði aldrei verið. Jörðin hafði frjálsa selstöðu á Blikdal í Brautarholtslandi. Landþröng var mikil og engjar engar. Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var Mýrarholt í eigu kirkjunnar með einum ábúanda. Metin á 20 hundruð en sýslumaður taldi hana aðeins16 hundruð.
Mýrarholt var býli 1908 þegar gerð var bæjateikning af Brautarholtshverfi sem taldi þá 10 bæi. Þegar túnakort var gert 1916 voru átta hús á bæjarstæðinu, þar af tvö með standþili, og fyrir framan var 600 m² kartöflugarður.

Arnarholt

Arnarholt

Arnarholt – túnakort 1916.

Jörðin Arnarholt er á Kjalarnestanga sem skagar í suðvestur frá Esju á milli Hvalfjarðar og Kollafjarðar. Bæjarstæðið var undir Bergi, að nokkru leyti á Krosshól sem er stór hóll með pöllum, líkt og tröppum. Býlið Brekka var þar norðvestan í hólnum og niður af bænum voru bakkar með sjónum sem hétu Húsabakkar. Arnarholt var orðin eyðibær 1908 þegar gerð var bæjateikning af Brautarholtshverfi sem taldi þá 10 bæi. Á túnakorti frá 1916 kemur fram að jörðin hafi verið lögð undir Brautarholt 10-20 árum fyrr og þar kemur fram að þar sé hvorki kálgarður eða bæjarhús eftir. Samt sem áður eru þar teiknuð fimm hús, tvö voru orðin tóftir, þrjú með veggjum af grjóti og torfi þar af eitt með standþili. Hefðbundinni búsetu á gamla bæjarstæðinu virðist hafa lokið 1906 þegar Sturlubræður eignuðust jörðina en þeir voru einnig eigendur að Brautarholti þar sem þeir ráku stórt kúabú og fluttu mjólkina sjóleiðis til Reykjavíkur og eftir það fylgdi Arnarholt Brautarholti. Þar til 1927 að Thor Jensen stórkaupmaður keypti Arnarholt, Brekku og Holt árið af Ólafi Bjarnasyni í Brautarholti. Thor nýtti landið til sumarbeitar fyrir nautgripi sína og byggði mikið fjós og íbúðarhús á Árnamel. Þegar hernámsliðið nam hér land hreiðruðu þeir um sig í fjósinu og innréttuðu það sem klúbb og mötuneyti og reistu skálahverfi norðan við byggingar í Arnarholti á Árnamel. Þegar skipti urðu á herliði 26. janúar settust 485 menn úr fótgönguliðssveit Bandaríkjahers að í Arnarholti. Árið 1943 keypti Reykjavíkurbær jarðirnar af Thor Jensen og kom á fót vistheimili fyrir skjólstæðinga sína.
Arnarholt
Arnarholt kemur fyrst fyrir í máldaga Brautarholtskirkju 1491 varðandi jarðamörk. Næst í jarðaskiptabréfi Þorvarðs lögmanns Erlendssonar og Gríms bónda Pálssonar á Möðruvöllum árið 1501 þar sem Grímur lét meðal annars eftirtaldar jarðir á Kjalarnesi, Hof á 60 hundruð, Arnarholt fyrir 40 hundruð, Skrauthóla fyrir 20 hundruð og Öfugskeldu fyrir 10 hundruð. Árið 1506 seldi Stefán Jónson biskup Bjarna Jónssyni Bæ í Lóni fyrir Arnarholt á Kjalarnesi. Sumarið 1510 var jörðin til umfjöllunar í Tylftardómi vegna eignaskipta Gríms Pálssonar og Þorvardz Erlendzonar.
Árið 1515 kemur jörðin fram í sáttargjörðar bréfi bænda þar sem fram kemur að Grímur bóndi Pálsson og sonur hans Þorleifur eigi Arnarholt og Ögurskeldu á Kjalarnesi. Síðan kemur Arnarholt fram í fógetareikningum frá 1547 til 1550 varðandi landsskuld og leigukúgildi.
Konungur fékk einn þriðja af Arnarholti 1641 og á árunum 1686 til 1695 var hún í eigu konungs og einkaaðila metin á 40 hundruð.

Arnarholt

Arnarhamarsrétt.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var jarðardýrleiki Arnarholts 40 hundruð með þremur ábúendum. Eigandinn bjó á stærsta partinum tuttugu og sjö og hálfu hundraði, annar ábúandi á sjö og hálfu hundraði og sá þriðji bjó á parti sem metin var á fimm hundruð, hjáleiga kölluð Sigurðarhús. Kvaðir voru um skipsróður allt árið af hverjum ábúanda og ef einhver þeirra væri hæfur sem formaður átti hann að vera það kauplaust. Á tveimur fyrrnefndu pörtunum var hægt að fóðra átta kýr, tólf lömb, fimmtíu ásauð og geldfé, og fimmtán hesta. Fjárupprekstur var átölulaus og frí upp á Esju ásamt öðrum jörðum á Kjalarnesi. Útigangur á vetrum var góður og brást yfirleitt ekki. Skógarítak í Stórabotnsskógi við Hvalfjörð til raftviðar og kolgjörðar uppá þrjá hesta til samans árlega sem Sigurður Núpsson hafði gefið til jarðarinnar 1690. Torfrista og stunga var jörðinni hjálpleg og reiðingsrista var góð. Móskurður til eldiviðar var nægur og góður sem leiguliðar gátu brúkað að vild. Sölva- og hrognkelsafjara var lítil en þangtekja var talin næg til eldiviðar en lítið notuð. Rekavon var góð fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var gott og heimræði var árið um kring og lending var óbrigðul á meðan útsjór er fær. Engjar voru litlar og snöggar, vatnsból var slæmt og þraut oft. Þá braut sjór smám saman land af túninu.
Hjáleigur Arnarholts voru fjórar 1705 samkvæmt Jarðabókinni. Fyrrnefnt Sigurðarhús var fyrsta hjáleigan sem hafði þá verið byggt í langan tíma, önnur var Brekka sem byggð var fyrst 30 árum áður, um 1675, þriðja var Hryggur „Hriggur“ sem byggðist eitthvað fyrr en Brekka og fjórða var Á Bergi sem byggðist fyrst ellefu árum fyrir skráningu jarðabókarinnar, um 1694. Eitt tómthús var á Arnarholti „Naudveria“ öðru nafni Sigvatshús sem hafði verið þá verið byggt í 40 ár eða frá 1665.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Arnarholt í bændaeign, dýrleiki hafði þá lækkað um nærri helming og var hún metinn á 23 hundruð en sýslumaður mat hana aðeins á 20 hundruð.

Sigurðarhús
Sigurðarhús var fyrsta hjáleiga af heimajörðinni Arnarholti 1705, metin á 5 hundruð með einum ábúanda og sögð hafa verið byggð um langan tíma. Kvaðir voru um mannslán allt árið á skipi landsdrottins sem gjaldast átti með formennsku ef ábúandi var til þess hæfur. Þá var hægt að fóðra tvær kýr og eitt hross á hjáleigunni. Haga, engi, torf- og móskurð mátti ábúandi nota eftir nauðsyn. Aðrir kostir og lestir voru sömu og taldir voru með heimajörðinni. Hjáleigan er skráð undir Arnarholt. Hjáleigunnar er ekki getið í öðrum heimildum.

Brekka
Brekka var vestan við gamla bæjarstæði Arnarholts en ummerki eftir hann eru horfin af yfirborði. Á túnakorti Arnarholts segir að tún Brekku hafi legið aðeins sunnar og hafi þau verið lík að stærð. Meira en helmingur túnsins hafði verið sléttaður og bakki mikill sléttur að mestu. Bærinn gæti hafa verið á líkum slóðum og sjá má leifar af kartöflugarði sem liggur utan í hólnum. Gæti líka hafa verið norðar því í örnefnalýsingu Arnarholts segir að býlið hafi verið norðvestan í hólnum og niður af bænum voru Húsabakkar. Bærinn gæti hafa verið nær sjó því í örnefnalýsingu Brautarholts segir að Brekka sé við sjó inn að Bakkalæk og næst fyrir innan lækinn hafi verið Holt (Bakkaholt).
Brekka var önnur hjáleiga Arnarholts 1705 þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð með einum ábúenda, sögð byggð fyrst um 30 árum fyrr, eða um 1675. Dýrleiki var talinn með heimajörðinni. Kvaðir voru um skipsáróður allt ári og formensku ef ábúandi væri til þess hæfur. Hæg var að fóðra eina kú og þrjú lömb á hjáleigunni. Haga, eldiviðartak og torfskurð hafði ábúandi fría.
Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var Brekka í bændaeign með einum leigjanda, dýrleika ekki metin en neðanmáls var þess getið að sýslumaður taldi dýrleika hennar 5 hundruð. Í Jarðamati á Íslandi 1849-50 var jörðin metin á 5 forn hundruð. Brekka var í byggð fram til 1905 eða í um 230 ár. Á túnakorti Arnarholts frá 1916 segir að túnið í Brekku sé furðu grasgefið næst bæjartóftunum þrátt fyrir að þar hafi ekki verið borið á í 10 ár a.m.k.

Hryggur
Hryggur (Hriggur) var þriðja hjáleiga Arnarholts 1705, þá byggð fyrst rúmum 30 árum áður, um 1675. Dýrleiki var talinn með heimajörðinni og ábúandi var einn. Kvaðir voru um skipsáróður allt árið. Hægt var að fóðra eina kú og eitt ungneyti. Haga, eldiviðartak og torfristu hafði ábúandi frítt. Nafn hjáleigunnar bendir til þess að hún hafi verið á hrygg en engar vísbendingar eru um hvar hún var staðsett, en hún er skráð sem fornleif undir Arnarholt.

Á Bergi
Á Bergi var fjórða hjáleiga Arnarholts þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705, sögð byggð fyrst ellefu árum áður, 1694. Hjáleigan var byggð í þrjú ár en fór í eyði eftir það og var ekki byggð upp aftur þar sem heimajörðin var ekki talin þola að byggt væri aftur upp og grasnyt var lögð undir hana aftur. Kvaðir höfðu verið um skiparóður allt árið. Út frá nafni hjáleigunnar eru tóftir upp á berginu ofan við gamla bæjarstæði Arnarholts taldar vera af hjáleigunni og eru skráðar sem fornleifa undir Arnarholt.

Nauðverja / Sighvatshús
Nauðverja, öðru nafni Sighvatshús, var tómthús frá Arnarholti. Hafði verið byggt í rúm 40 ár þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 eða frá því um 1665 með einum ábúanda. Ekki var getið um bústofn en húsaleiga var tuttugu álnir en eldiviðartak var frítt og landsdrottin lagði við til búðarinnar. Kvaðir voru um skiparóður allt árið af svo mörgum mönnum sem búðarmaðurinn hafði ráð á hvort sem er einn eða fleiri. Nauðverja er skráð sem fornleif undir Arnarholt.

Bakki

Bakki

Bakki – túnakort 1916.

Bærinn Bakki stendur niður á fjarðarbakka Hvalfjarðar og á land á milli fjalls og fjöru.
Syðsti hluti landsins heitir Bakkaholt (Holt) eftir býli sem þar var en tilheyrir nú Arnarholti. Eftir Jarðabókinni að dæma hefur verið tvíbýli þar á einhverjum tíma og hefur hitt bæjarstæðið verið þar sem heitir „Gamli bær“ norður af bænum.
Bakka var fyrst getið í bréfi 1495 varðandi eigendaskipti á jörðinni þegar Erlendur Jónsson fékk jörðina á 20 hundruð fyrir jörðina Lágafell í eystri Landeyjum. Árið 1517 var Erlendur orðin blindur og þann 23. júní það ár gerði hann próventusamning um fæði og klæði við ábótann í Viðey gegn jörðinni Bakka sem var 20 hundruð að dýrleika og tíu kúgildi til viðbótar.506 Bakki kom við sögu 1541 í dómi á Esjubergsþingi sem var útnefndur af Pétri Einarssyni umboðsmanni konungs um bréf Viðeyjarklausturs fyrir jörðunum Skrauthólum og Bakka. Niðurstaða dómsins var að samningurinn sem Erlendur Jónson hafði gert við ábótann í Viðey var löglegur. Jarðarinnar var getið í Fógetareikningum varðandi landskuld á árunum 1547-1552. Þá var hennar getið 1569 í minnisblöðum Vigfúsar Jónsonar sýslumanns í Kjalarnesþingi. Jörðin var í einkaeigu 1686 metin á 30 hundruð en 1695 var hún komin í eigu konungs og þá hafði mat hennar lækkað í 20 hundruð. Lækkunin gæti stafað af því að Bakkaholt hefur farið í eyði. Í manntali 1703 voru tveir ábúendur á jörðinni.

Bakki

Bakki – loftmynd.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var einn ábúandi á Bakka og dýrleiki hennar 20 hundruð. Kvöð var um eitt mannslán á vertíð en hafði verið tvö mannslán þegar tvíbýlt var á jörðinni og átti þá annað að kvittast með formennsku. Þá var hægt að fóðra þar sex kýr, tólf lömb og tuttugu ær. Útigangur var góður fyrir hesta og sauði. Fjárrekstur var frír uppá Esju ásamt öðrum á Kjalarnesi. Torfrista, stunga og reiðingsrista var talin nægja ábúanda og móskurður nægur til eldiviðar og hafði jörðin Kiðafell hafði haft þar frían móskurð um langan tíma. Sölvafjara var mikil og góð og gat ábúandi selt aðgang að fjörunni og fékk alin fyrir sölvahest. Þegar best var fengust tvö hundruð hestar en það dró úr því áin bar fram mikið grjót. Fjörugrös nægðu ábúanda en hrognkelsafjara var varla teljandi. Rekavon var nokkur og þang mátti nýta til eldiviðar. Helstu ókostir voru að landlétt var á sumrum, sauðum var hætt vegna flóða, foraða og dýja og húsum og heyjum var hætt vegna stórviðra. Erfitt var um vatnsból. Sjór og vindur brutu túnið árlega og áin bar grjót á túnið. Heimræði var nánast ekkert því lending var hættuleg og varð ábúandi að sækja annað á vertíð.

Bakki

Bakki – örnefni.

Jarðabókin getur um Bakkahjáleigu sem „…hefur hjer til forna afbýli verið, en legið í auðn yfir 40 ár.“ Sennilega er átt við Bakkaholt sem nefndist Holt eftir 1880 og var í byggð til 1905. Í örnefnalýsingu Bakka frá 1967 segir að syðsti hluti Bakkalandsins heiti Bakkaholt og tilheyrði þá Arnarholti.513 Bakki var í bændaeign í Jarðatali Johnsens 1847 metinn á 20 hundruð en sýslumaður mat jörðina hins vegar á 15 hundruð og Bakkaholt 5 hundruð. Í Fasteignabók 1918 var Bakki 16,2 hektarar og af þeim voru þrír sem tilheyrðu Bakkaholti, metin á 50 hundruð.

Bakkaholt

Bakki

Bakki – minjar.

Bakkaholt var samkvæmt túnakorti 1916 og heimildamanni um 204 metra suðsuðaustur af Bakka þar sem örnefnin Holt og Holtstún eru. Býlið hefur verið nefnt Bakkahjáleiga, Bakkakot, Bakkaholt og að síðustu Holt. Í bókinni Kjalnesingar segir að býlið Holt hafi verið fyrir innan Brekkulæk og mestur hluti af landi þess fylgi nú Arnarholti. Nafn þess í manntölum hafi verið Bakkaholt allt til ársins 1880 en eftir það hafi Holtsnafnið verið ráðandi og bærinn verið í byggð til ársins 1905. Bæjarstæði Bakkaholts var samkvæmt túnakorti 1916 um 204 metra suðaustur af Bakka og ábúandi á Bakka, Birgir Aðalsteinsson, segir að stundum megi greina, árstíðabundið, litamun í túninu þar sem bæjarhúsin stóðu. Býlið gæti hugsanlega hafa verið fjær Bakka því í örnefnalýsingu Bakka segir að syðsti hluti landsins heiti Bakkaholt og tilheyri nú Arnarholti. Í örnefnalýsingu Brautarholts frá 1967 segir að Brekka sé við sjó inn að Bakkalæk og næst fyrir innan lækinn var Holt sem sé sameinað Bakka sem gæti bent til þess að Bakkaholt hafi verið fjær Bakka. Björn Bjarnason sagði 1937 að Bakkaholt væri nytjað af Bakka og sagði þá jörðina eina af fjórum kirkjujörðum Brautarholts sem lágu að Hvalfirði, Mýrarholt, Arnarholt, Brekka og Bakkaholt sem var nyrst.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var býlið kallað Bakkahjáleiga sem „hefur hjer til forna afbýli verið, en legið í auðn yfir 40 ár“ eða frá því fyrir 1664 og talið var að ekki væri hægt að byggja hjáleiguna aftur sökum skaða og landþröngvar á heimajörðinni. Hægt var að fóðra tvær kýr á hjáleigunni. Í Jarðatali Johnsens sem tekið var saman 1847 var „Bakkaholt“ í bændaeign og ábúandi eigandi. Jörðin var ekki metin til dýrleika og neðanmáls segir að jarðabækurnar nefni ekki þessa jörð og mat sýslumaður hana 5 hundruð en Bakka aðeins á 15 hundruð en ekki 20 eins og matið var.

Torfhóll
Bókinni Kjalnesingar segir frá því að ung hjón hafi búið stuttan tíma á Torfhól. Þau hafi orðið fyrir því óláni að missa barn í brunninn og undu sér þá ekki lengur og var ekki búið þar eftir það. Torfhóll kemur ekki fram í öðrum heimildum en örnefnið lifir í túni um 530 m austan við íbúðarhús á Bakka.
Torfhóll er örnefni á lágum hól í ræktuðu túni um 510 m austur af núverandi íbúðarhúsi á Bakka. Þar eiga að hafa búið um stuttan tíma ung hjón sem urðu fyrir því óláni að missa barn í brunninn. Þau fluttu í burtu og ekki var búið þar eftir það. Býlið er staðsett eftir örnefnakorti ábúanda á Bakka.

Ártún

Ártún

Ártún – túnakort 1916.

Tóftir síðasta torfbæjarins í Ártúni standa á bæjarhól skammt ofan við Vesturlandsveg vestan Blikdalsár. Búið var í bænum fram til ársins 1956 en þá fór jörðin í eyði. Jörðin nær frá mynni Blikdals í sjó fram. Mörk jarðarinnar að norðan eru við jörðina Dalsmynni og landspildurnar Melagerði og Melavellir sem voru seldar út úr jörðinni 1975 og 1979. Að sunnan eru mörkin á móti jörðinni Bakka og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni.
Ártúns er getið í máldaga Saurbæjarkirkju 1575, var þá annað af tveimur kotum í eigu kirkjunnar.

Ártún

Ártún 1930-1940.

Jörðin var í eigu Saurbæjarkirkju og metin á 15 hundruð 1695. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var Ártún kirkjujörð Saurbæjarkirkju í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns með einum ábúanda, metin á 15 hundruð. Kvaðir voru um mannslán allt árið heim á Saurbæ eða fram á Kjalarnes. Á jörðinni mátti fóðra fjórar kýr, einn kálf, tíu lömb og hægt var að hafa þrjátíu sauði og tvö hross í útigangi. Selstöðu og beit hafði jörðin fría allt árið á Blikdal í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var bjargleg en reiðingsrista lítil. Móskurður til eldiviðar, sölvafjara og fjörugrös voru í landi Saurbæjar. Þang til eldunar var nægilegt og rekavon nokkur. Stórviðrasamt svo hætt var bæði húsum og heyjum. Vatnsból var erfitt á vetrum og sauðfé var hætt fyrir flóðum. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending.

Ártún

Ártún.

Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var jörðin enn í eigu kirkjunnar, metin á 15 hundruð.
Í landamerkjabréfi fyrir Saurbæ 1890 kemur fram að Ártún átti óskipta beit á Blikdal og slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.

Saurbær

Saurbær

Saurbær og Stekkjarkot – túnakort 1916.

Saurbær á Kjalarnesi er fornt höfuðból og kirkjustaður á sjávarbakka sunnan Hvalfjarðar. Þar hefur verið kirkja frá því um 1200 sem hefur átt margt góðra gripa í gegnum tíðina.
Árið 1856 var byggð þar timburkirkja sem var svipuð Brautarholtskirkju sem reist var 1857 og var yfirsmiður beggja Eyjólfur Þorvarðarson snikkari á Bakka. Kirkjan sú fauk af grunni sínum 14. nóvember 1902 nálægt miðnætti og fór yfir sig heila veltu. Tveimur árum síðar 1904 var vígð ný steinsteypt kirkja sem Eyjólfur Runólfsson kirkjueigandi í Saurbæ lét reisa og er nú ein af friðuðum kirkjum í Kjalarnesprófastdæmi. Eyjólfur Runólfsson var þekktur fyrir lækningar sem hómópati og ljósfaðir og tók á móti um 600 börnum á Kjalarnesi og í Kjós.

Ölfus

Litli-Saurbær, túnakort 1918.

Í Saurbæ hafa búið nafntogaðir menn og talið er að snemma á 13. öld hafi Árni „óreiða“ Magnússon skáld og goðorðsmaður búið þar. Árni, sem nefndur er í Sturlungu, var giftur Hallberu dóttur Snorra Sturlusonar og fékk með henni Brautarholt og mikið annað fé. Árni skildi síðar við Hallberu og keypti þá Saurbæ á Kjalarnesi og bjó þar.
Enskir sjóræningjar eru sagðir hafa komið að Saurbæ árið 1424 og látið ófriðlega, réðust inní kirkjuna og handtóku umboðsmann Dana sem hafði leitað þar hælis,og rændu meðal annars vopnum og hestum. Sigurður lögmaður Björnsson (1643-1723) bjó í Saurbæ frá 1687 til æviloka 1723. Hann var fyrst landskrifari í sjö ár síðan lögmaður sunnan og austan frá 1677 til 1705 og sýslumaður Kjósarsýslu, fékk veitingabréf fyrir henni 1683. Sigurður er talin hafa verið fyrirmynd Halldórs Laxness að Eydalín lögmanni í Íslandsklukkunni. Í hans tíð eignaðist kirkjan merka gripi þar á meðal altariskertastjaka, hurðahring og kirkjuklukkur. Í manntali 1703 er jörðin var nefnd Stóri Saurbær og skráðar 30 manneskjur skráðar þar. Úr landi jarðarinnar voru byggðar jarðirnar Ártún og Hjarðarnes, afbýlið Litli- Saurbær og hjáleigan Stekkjarkot. Jörðinni var síðan skipt upp á milli erfingja 1930 í tvær jarðir og nefnist vestari helmingurinn Dalsmynni.

Saurbær

Saurbær – flugmynd.

Síðasti torfbærinn í Saurbæ, sem var að hluta til úr timbri, var reistur 1896 og stóð þar til hann brann árið 1966 en þá hafði ekki verið búið í honum í fjögur ár. Þegar túnakort frá 1916 var strekt yfir nýlega loftmynd má sjá að bærinn var norðan við kirkjuna og lá bæjarhúsaröðin í austur, vestur. Þar er nú afgirtur skrúðgarður á lágum hól og sennilega eru leifar bæjarhúsa þar undir sverði. Núverandi íbúðarhús er um 20 metrum norðaustan við kirkjuna og þar var áður skemma og smiðja samkvæmt túnakortinu.

Saurbær

Saurbæjarkirkja.

Kirkju í Saurbæ er fyrst getið um 1200 í kirknaskrá Páls biskups. Elsti máldagi Saurbæjarkirkju er talinn vera frá því um 1220 sem Magnús biskup Gissurarson setti. Þá átti kirkjan margt góðra gripa þar á meðal tvo glerglugga, til kirkjunnar lágu „X. hundruð þriggia alna aura“ í heimajörðinni og þar skyldi vera prestur og messa alla lög helga daga. Í máldaganum er í fyrsta skipti kveðið á um að brú skyldi halda á Blikdalsá sem átti að geta borið meðalmann með hálfa vætt á baki sér í logni. Í máldaga Maríukirkjunnar í Mýdal (Miðdal) frá haustinu 1269 er kveðið á um þjónustu prests frá Saurbæ. Þá kemur fram í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um 1270 að hann telur að kirkjan í Saurbæ eigi hluta í hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs.
Saurbær kemur fyrir í Kjalnesingasögu sem talin er rituð um 1300, þar sem segir frá því þegar Helgasynir bjólu, Þorgrímur og Arngrímur, skipta með sér föðurarfi og Arngrímur reisti bæ við Hvalfjörð sem hann nefndi Saurbæ. Í máldaga Eyrarkirkju í Kjós sem er talinn vera frá 1315 eru Saurbæjarkirkju lagðar til 12 ær.

Saurbær

Saurbær.

Máldagi Nesjasýslu í Hítardalsbók frá 1367 greinir frá því að Péturskirkjan í Saurbæ á Kjalarnesi eigi tíu kýr, fimmtán ær og griðung.
Það er í fyrsta skipti sem verndardýrlings er getið og telur Jón Þ. Þór að Pétri, sem var verndardýrlingur sæfarenda, hafi verið helguð kirkjan vegna vaxandi gengis sjávarútvegs á þessum tíma. Samkvæmt máldaga kirkjunnar frá 1379 sem Oddgeir biskup Þorsteinsson setti átti hún 30 hundruð í heimajörðinni og þar er einnig að finna ákvæðið um að brú skyldi halda á Blikdalsá á milli fjalls og fjöru. Kirkjan átti enn 30 hundruð í heimajörðinni samkvæmt máldaga frá 1397 og meðal eigna er talinn upp glergluggi en þeir höfðu verið tveir 1220. Ákvæði um brú á Blikdalsá er þar líka og hvernig skuli fjármagna viðhald á henni.
Í máldaga kirkjunnar frá 1477 kemur fram að hún eigi 30 hundruð í heimajörð og jörðina Hjarðarnes auk annars. Árið 1503 var skrifað kaupbréf í Saurbæ fyrir Ölvisholt og árið 1507 var kveðinn upp dómur þar. Árið 1508 er Saurbæjar getið í kaupmálabréfum.

Saurbær

Saurbær – örnefni.

Saurbæjarsókn kemur fram í bréfi frá árinu 1517 þegar Erlendur Jónson gerir próventusamning við Ögmund ábóta í Viðey og síðar. Í festingabréfi frá árinu 1561 kemur fram að Halldór Ormsson gefi Þórdísi Eyjólfsdóttur tuttugu hundruð í Saurbæ. Þá kemur bæjarnafnið fyrir 1569 á minnismiða Vigfúsar Jónssonar sýslumanns í Kjalarnesþingi. Þegar máldagi kirkjunnar var gerður 1575 átti hún 30 hundruð í heimalandi og jarðirnar Ártún og Hjarðarnes en ekki var getið um að halda skuli brú á Blikdalsá. Saurbær var í einkaeign árin 1686 og 1695 metinn á 60 hundruð.
Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var gerð 1705 var kirkjan orðin annexía frá Brautarholtskirkju og Saurbær metinn á 60 hundruð með Ártúni og Hjarðarnesi. Eigandi var Sigurður Björnsson lögmaður og ábúandi á 50 hundruðum en annar ábúandi var á tíu hundruðum, Litla Saurbæ. Þá var hægt að fóðra tólf kýr, einn eldishest og tvo sem vel var gefið, einn griðung, þrjátíu ær, tíu lömb og þrjá kálfa. Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hafði jörðin í sínu landi á Blikdal. Torfrista og stunga til húsabótar hjálpleg, móskurður til eldiviðar nægur og til sölu ef vildi. Hvanna og rótartekja voru litlar og nýta mátti sölvafjöru og fjörugrös. Hægt var að veiða sel og hafði svo verið gert en lítið var um hrognkelsi. Rekaþöngla og þang mátti brúka til eldiviðar og rekavon var nokkur. Heimræði var allt árið og gengu skip eigenda eftir hentugleikum en lending var brimsöm og gat brugðist.

Ölfus

Saurbæjarsel.

Selvegur þótti langur og erfiður og sumarhögum var hætt við skriðum. Sauðfé og hestum stóð ógn af sjávarflóðum á vetrum og af foruðum og dýjum. Stórviðrasamt og sjávargangur braut af túnum.
Þá var Litli Saurbær afbýli og Stekkjarkot/Bjarg hjáleiga af jörðinni og dýrleiki þeirra talinn með heimajörðinni og tómthúsmaður var í heimajarðarhúsum sem stóðu á Litla Saurbæ. Saurbæjarkirkja var annexsía frá Brautarholti 1748.

Litli Saurbær
Litli Saurbær var afbýli af heimajörðinni 1705 metinn á 10 hundruð en talinn með heimajörðinni. Kvaðir höfðu áður verið um mannslán allt árið annaðhvort heima eða frammi á Kjalarnesi en höfðu verið feldar niður vegna góðvilja en dagsláttur hafði stundum verið kallaður. Hægt var að fóðra þrjár kýr, tuttugu ær og eitt ungneyti á partinum. Kostir og lestir voru þeir sömu og heimajarðarinnar nema heldur braut meira af túninu og lending var betri.
Tómthúsmaður var í heimajarðarhúsum sem stóðu á Litla Saurbæ 1705 og greiddi hann 25 álnir í húsaleigu til landdrottins. Kvaðir voru á hann um skipsróður utan sláttar sem skyldi gjaldast með formennsku. Eldiviðartak var frítt og eigandi viðhélt húsinu. Tómthúsið hafði þá stundum verið byggt með grasnyt eða ekki og stundum fylgt Litla Saurbæ þegar meirihluti jarðarinnar var nytjaður.

Grænhóll
Grænhóll var þegar manntal var tekið 1840 tómthús í Brautarholtskirkjusókn. Gæti hugsanlega hafa verið Grænhóll sem talað er um í örnefnalýsingu Saurbæjar í Grænhólsmýri.

Stekkjarkot / Bjarg
Stekkjarkot, líka nefnt Bjarg, var hjáleiga frá Saurbæ upp af Stekkjarkotsbjargi við Hvalfjörð um 550 metra suðvestur af Saurbæ. Þar eru tóftir bæjarhúsa sem síðast voru notuð sem fjárhús samkvæmt túnakorti og kartöflugarður. Sunnan við bæjarstæðið er lækur sem kemur ofan úr flóa og kallast Stekkjarkotslækur en ofar kallast hann Skolladalslækur. Býlið var sameinað heimajörðinni Saurbæ þegar búskap lauk þar 1905 og við erfðarskipti Saurbæjar 1930 fylgdi kotið Dalsmynni.
Stekkjarkot var hjáleiga frá Saurbæ með einum ábúanda þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 og dýrleiki talinn með heimajörðinni. Kvaðir voru um skipsáróður árið um kring frá Saurbæ eða annarstaðar á Kjalarnesi. Hægt var að fóðra tvær kýr eitt ungneyti og þrjú lömb í kotinu. Hagi, torfrista, eldiviðartak, sölvatekja og fjörugrös voru frí á heimajörðinni. Dýrleiki Stekkjarkots var talinn með heimajörðinni 1847 þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman en þá taldi sýslumaður hana 5 hundruð. Neðanmáls segir að Stekkjarkots sé ekki getið fyrr en 1802.

Hjarðarnes

Hjarðarnes

Hjarðarnes.

Hjarðarnes er við sunnanverðan Hvalfjörð við vesturenda Esju. Byggt út úr landi Saurbæjar og taldist til Saurbæjartorfunnar. Samkvæmt Jarðabókinni 1705 hafði bærinn verið fluttur þá vegna ágangs sjávar og þar segir: „Túnið brýtur sjáfargángur skaðlega, so að þar fyrir hefur bærinn fluttur verið, og er þó enn í hættu.“ Á túnakorti 1916 kemur fram að bærinn hafi verið þar sem eru bæjartættur gamla Hjarðarnes(fast við fjörukletta), sennilega það sama og kallað er „Bæjartættur“ í örnefnalýsingu. Bærinn hefur þá staðið þar að minnsta kosti í 182 ár, frá 1705 til 1887. Þegar jarðirnar voru sameinaðar 1887 var búseta flutti í bæjarhús Hjarðarneskots. Þar var byggður síðan byggður steinbær 1925. Íbúðarhúsið brann 1972 en þá var flutt þangað gamalt íbúðarhús frá Fossvoginum í Reykjavík sem sett var á steyptan grunn um 30 m suður af gamla bænum.
Hjarðarnes var í eigu Péturskirkjunnar í Saurbæ á Kjalarnesi 1477 og var talið upp sem annað af tveim kotum kirkjunnar í máldaga frá 1575.
Jörðin var kirkjujörð Saurbæjarkirkju metin á 15 hundruð á árunum 1686 og 1695.

Hjarðarnes

Hjarðarnes – loftmynd.

Þegar Jarðatal Árna og Páls var gert 1705 var jörðin í eigu Saurbæjarkirkju, metin á 15 hundruð. Þá voru ábúendur tveir á tveimur bæjum og bjó annar á tíu hundruðum en hin á fimm hundruðum, sennilega þar sem síðar var kallað Hjarðarneskot. Kvaðir á stærri hlutanum voru um skipsáróður allt árið þar heima sem skyldi gjaldast með formennsku. Sama kvöð var á minni hlutann ef hann megnaði. Dagsláttur var stundum innheimtur en var ekki skylda. Á allri jörðinni var þá hægt að fóðra fimm kýr, eitt ungneyti tólf lömb tuttugu og fjórar ær og þrjá hesta. Jörðin hafði frían fjárupprekstur og selstöðu á Blikdal í landi Saurbæjar. Torfrista, stunga og móskurður til eldiviðar var nægilegt. Nokkuð af fjörugrösum og þang til eldiviðar var nóg. Sauðfé og hestum var hætt vegna foraða og dýja. Húsum, heyjum og skipum var hætt vegna stórviðra. Þá hafði sjór brotið af túninu svo bærinn hafði verið fluttur en var þó enn í hættu. Heimræði var allt árið og gengu tveggja manna för landeigenda, ábúenda eða annarra eftir hentugleikum. Ekki var hægt að hafa þar stærri skip vegna þröngrar lendingar og uppsátur var ekki öruggt vegna stórviðra.
Hjarðarnes var enn í eigu kirkjunnar 1847 þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman metið á 15 hundruð en þá skipti sýslumaður dýrleikanum niður og taldi Hjarðarnes sjö hundruð eins og á kotinu sem Árni Magnússon sagði að væri aðeins 1/3 af Hjarðarnesi. Í landamerkjabréfi Saurbæjar 1890 kemur fram að Hjarðarnes átti slægjur á Blikdal.

Hjarðarneskot
Hjarðarneskot var við sunnanverðan Hvalfjörð við vesturenda Esju. Bæjarstæðið var þar sem eldra bæjarstæði Hjarðarnes er en búseta fluttist þangað þegar jarðirnar voru sameinaðar 1887.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 voru tveir bæir í Hjarðarnesi og þá var kotið metið á 5 hundruð. Hjarðarneskot var hjáleiga þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 metið með Hjarðarnesi sem þá var metið á 15 hundruð. Þá skipti sýslumaður dýrleikanum niður á milli bæjanna og taldi hvorn um sig 7 hundruð.

Melahverfi

Melahverfi

Melahverfi – örnefni.

Melahverfi á Kjalarnesi er innst á Kjalarnesi við sunnanverðan Hvalfjörð. Mjó landræma á milli klettabeltis Esjunnar og Hvalfjarðar, kennt við býlið Mela.580 Fjöldi býla í hverfinu hefur verið breytilegur í gegnum tíðina sem og nöfn þeirra. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 voru fimm býli á jörðinni Melum. Á jarðarnafninu sjálfu Melum voru tveir bæir, Steinakot einnig nefnt Syðra Melakot, Melakot og Herjólfsstaðir. Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman um 1847 voru býlin fjögur, Melar, Útkot, Niðurkot og Norðurkot. Björn Bjarnason taldi sex býli á árunum 1936 til 1940 og voru þrjú farin í eyði, Ós við útfall Mýrdalsár (Kiðafellsár) í Hvalfjörð, Höfðalágar og Niðurkot en í byggð voru Norðurkot, Melar og Útkot.

Melar (2 býli 1705)

Melar

Melar og Útkot – túnakort 1916.

Melar eru norðan við vesturenda Esju við sunnanverðan Hvalfjörð í hverfi sem kennt er við jörðina og býli þar sennilega byggð út úr jörðinni.
Mela er getið 1529 í ágripi af sáttagerð Erlends Þorvarðarsonar og séra Þórðar Einarssonar um arfaskipti og eftirstöðvar vígabóta eftir Orm Einarsson. Jörðin var í einkaeign árin 1686 og 1695 metin á 40 hundruð. Fimm ábúendur voru á Melum þegar manntal var gert 1703.

Melar

Melar.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var dýrleiki allrar jarðarinnar 40 hundruð og þá skiptist jörðin upp í fimm býli. Tveir bæir stóðu á jarðarnafninu sjálfu. Á öðrum Melabænum, sem metin var á fjórtán hundruð, bjó eigandinn sjálfur og svo hafði verið í 80 ár (frá 1625) og á honum hvíldu engar kvaðir. Á þeim parti var hægt að fóðra fjórar kýr, tólf lömb, tuttugu ær og þrjá hesta. Á hinum Melabænum, sem metin var á sjö hundruð, var einn ábúandi og þar voru kvaðir um skipsáróður allt árið sem átti að gjaldast með formennsku. Á þeim parti var hægt að fóðra tvær kýr, eitt ungneyti sex lömb, tíu ær og tvo hesta. Hin býlin voru Steinakot öðru nafni Syðra Melakot sem var þriðja býlið af jörðinni, Melakot var fjórða og fimmta afbýlið var Herjólfsstaðir.

Melar

Melar – loftmynd.

Selstaða jarðarinna var á Mela Seljadal en þar voru hagar sagðir að mestu eyddir af skriðum. Torfrista og stunga var bjargleg en gengið hafði á móskurð til eldiviðar sem tæki að þverra. Selveiði hafði verið stunduð áður en var ekki nýtt þá. Rekavon var nokkur, sölvafjara bjargleg en fjörugrös lítil. Hrognkelsafjara var nokkur og skelfiskfjöru hefði verið hægt að nýta til matar en var næg til beitu sem margar jarðir sóttu í. Þang var nægt til eldunar en var ekki notað. Landþröng var mikil og lækur braut af túninu sem féll í gegnum það. Sauðfé var hætta búin af flóðum og foruðum. Mjög stórviðrasamt var svo hætt var skipum, húsum og heyjum og sjór og vindur brutu af landinu. Heimræði var allt árið og lending var góð og brást aldrei. Gengu skip ábúenda og eigenda eftir hentugleikum og stundum nokkrir inntökubátar.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 voru Melar í bændaeign, metnir á 40 hundruð. Þá voru fimm ábúendur á jörðinni, tveir á Melanafninu og hjáleigurnar Útkot, Niðurkot og Norðurkot. Þá skipti sýslumaður upp jarðarmatinu og mat Mela á 20 hundruð, Útkot á 5 hundruð og á Niður- og Norðurkot á 7 hundruð hvort um sig. Þar kemur fram að hjáleignanna hafi ekki verið getið fyrr en 1802 en hafi trúlega haft önnur nöfn fyrir þann tíma.

Steinakot / Syðra Melakot
Steinakot var þriðja býlið af Melum öðru nafni Syðra Melakot þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð metið á 7 hundruð með einum ábúanda. Kvaðir voru um skipsróður allt árið þar heima. Hægt var að fóðra þrjár kýr, eitt ungneyti, átta lömb og tólf ær. Hvorugt nafnið kemur fram í manntölum. Ekki er vitað hvar býlið var staðsett eða hvaða nafn það bar síðar. Gæti mögulega verið þar sem nú er Útkot þar sem það er suður af Melum. Býlið er skráð undir Mela.

Melakot

Kjalarnes

Kjalarnes – sjávarútvegsminjar.

Melakot var líka sagt þriðja afbýli af Melum þegar Jarðabókin var gerð 1705 metið á fimm hundruð með einum ábúanda. Þá var það sagt byggt fyrir löngu og stundum hafa verið kennt við ábúanda. Kvaðir voru um skipsáróður allt árið þar heima. Hægt var að fóðra þrjár kýr, átta lömb, tíu ær og einn hest.

Herjólfsstaðir
Herjólfsstaðir voru fjórða afbýli af Melum 1705, hafði þá verið byggt að nýju fimmtán árum áður (1690). Ábúandi 1703 var Herjólfur Jónsson svo býlið er greinilega kennt við hann. Nafnið kemur ekki fram í öðrum heimildum og ekki er ljóst við hvaða býli er átt.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var býlið metið á sjö hundruð með einum ábúanda. Kvaðir voru um skipsáróður allt ári sem skyldi gjaldast með formensku á hálfu tveggja manna fari. Þá var hægt að fóðra þar þrjár kýr, sex lömb, tíu ær og eitt hross.
Býlið er skráð undir Mela.

Bali
Bali var kot upp af Melabæ samkvæmt örnefnalýsingu Mela en þar segir: „Upp af Melabæ, uppi á holtinu, var kot, sem hét Bali. Fyrir ofan holtið eru fallegar flatir, sem heita Melaflatir. Eftir holtinu liggur vegurinn nú.“ Aðrar heimildir geta ekki um þetta býli en það gæti hafa borið annað nafn á einhverjum tíma. Kannski Herjólfsstaðir? Ummerki eftir býlið hafa að öllum líkindum horfið við vegaframkvæmdirnar. Býlið er skráð undir Mela.

Útkot

Útkot

Útkot.

Útkot er utasta og syðsta býlið á Mela torfunni, um 200 metrum suðvestur af Melum.
Útkot er ekki nefnt í Jarðabók Árna og Páls 1705 en gæti verið sama býli og þar er nefnt Steinakot eða Syðra Melakot. Þegar Jarðatal Johnsen var tekið 1847 saman var einn ábúandi í Útkoti og dýrleiki metin með heimajörðinni, Melum. Jörðin var í eyði frá 1903 til 1919 en samkvæmt túnakorti 1916 þá voru þar þrjú stök hús í heimatúninu úr torfi og grjóti, kálgarður og einhverskonar gerði sem gæti hafa verið kálgarður en innan hans er skrifað rústir að því er virðist.
Útkot kemur fyrir í nokkrum manntölum og samkvæmt þeim voru ábúendur ýmist einn eða tveir. Samkvæmt því voru ábúendur tveir í Útkoti árið 1835. Tveir ábúendur 1840 en einn 1845 sagður bóndi sem hefur gras og árið 1850 var einn ábúandi á hjáleigunni. Útkot kemur ekki fram í manntölum 1855 og 1860 en ábúendur voru tveir 1870 og þáði þá annar af sveit. Árið 1880 er einn ábúandi og einnig 1890 en voru tveir 1901. Útkot var í eyði frá 1903-1919.

Norðurkot 
Norðurkot er nyrsta jörðin í Melahverfi. Norðaustan við Melalæk en Melar eru suðvestan við. Í bókinni Kjalnesingar er talið að það sé sama og Herjólfsstaðir.
Norðurkot er ekki nefnt í Jarðabók Árna og Páls 1705. Norðurkot kemur fyrst fram í manntali árið1835 og einnig 1855, 1910.
Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 var Norðurkot hjáleiga frá Melum með einum ábúanda. Dýrleiki var talin með þeim, en sýslumaður mat kotið á 7 hundruð. Jörðin var metin á sjö hundruð 1849-50, 1861 og þá á 6,6 ný hundruð. Þegar túnakort var gert 1916 voru bæjarhús bæði úr timbri og torfi og grjóti.

Niðurkot

Melahverfi

Melahverfi – örnefni.

Niðurkot var grasbýli niður við sjó niður og norðvestur af Norðurkoti við sunnanverðan Hvalfjörð. Samkvæmt manntölum bjuggu þar stundum tvær til þrjár fjölskyldur í sömu bæjarþyrpingunni. Niðurkot kemur fyrst fyrir í manntali 1835 sagt grasbýli, var hjáleiga 1850, en 1870 bjó þar sjálfseignarbóndi, 1870 var býlið heimajörð og árið 1890 bjó þar tómthúsmaður og sagt þurrabúð 1901. Um og uppúr aldamótunum 1900 bjuggu hjón þar í tómthúsi, í litlum og lítilfjörlegum bæ. Eftir að þau fóru nokkru eftir aldamót lagðist þessi byggð niður. Þegar túnakort Norðurkots og Niðurkots var gert 1916 voru þar tvö bæjarhús, kálgarður og útihús í heimatúni. Bærinn var jafnaður við jörðu einhvertíman eftir að túnakort var gert. Spildan fylgdi fyrst Melum en síðan Norðurkoti. Þegar Jarðatal Johnsen var gert 1847 var Niðurkot hjáleiga frá Melum og sýslumaður mat það á 7 hundruð.

Höfðalágar
Höfðalágar eru um 450 metra norður af Norðurkoti. Þar við sjóinn var samnefndur bær og síðar voru þar ærhús, hlaða og smátún. Það gætu verið þrjú mannvirki sem teiknuð voru á túnakort 1916 en þá voru þar þrjú hús úr torfi og grjóti staðsett í túni sem náði fram á háa melabrún sem sjórinn braut af. Höfðalágar koma fyrir í manntölum 1855 og 1866.

Ós
Ós var býli við ósa Kiðafellsár við sjó segir í örnefnalýsingu Mela. Greina má tóftir býlisins á nýlegum loftmyndum. Býlið er skráð undir Mela.

Tindstaðir Innri

Timdstaðir

Tindstaðir – kort 1908.

Tindstaðir er ysta og nyrsta jörðin á Kjalarnesi. Jörðinni skiptist í tvö býli sem voru aðgreind með viðskeytunum Innri og Ytri og standa norðan undir brattri hlíð Tindstaðarfjalls sem skilur að Miðdal og Blikdal í vestur hluta Esju og er land jarðarinnar að mestu fjalllendi. Tindstaðir Innri er gamli heimajarðarbærinn en Tindstaðir Ytri er þar sem nefnt var Tindstaðakot 1705. Um 1998 voru báðir jarðarhlutarnir nytjaðir sem ein jörð með búsetu á Tindstöðum Ytri.
Björn Bjarnarson (1856-1951) taldi að nafn bæjarins hefði upphaflega verið Tindur eftir fjallstindum sem er fyrir ofan bæinn en „staðir“ hafi komið til vegna þess að um tíma hafi verið þar bænhús eða hálfkirkja sem hafi lagst af eða flust á nábýlið Mýrdal (Miðdal). Þessa ályktun dró hann af því að í Vatnshornshlíð í Skorradal eru forn kirkju ítök, tungur á milli lækja, sem bera nöfn bæjanna og eitt af því er „Tindstaðatunga“. Kjalnesinga saga hefur aðra skýringu á nafninu og í upphafi sögunnar segir frá því hvernig Helgi bjóla Ketilsson útdeildi til skipsverja sinna löndum þeim sem hann hafði numið og fékk hann Tindi Tindstaði. Sagan er talin skrifuð um 1300 og er elsta heimildin um jörðina.

Tindstaðir

Tindstaðir.

Jörðin kemur fyrir einu sinni í Íslensku fornbréfasafni í kaupbréfi frá 1509 þegar Árni Brandsson seldi Kolbeini Ófeigssyni jörðina Tindstaði í Kjós í Saurbæjarþingum fyrir tuttugu og eitt hundrað í lausafé. Á árunum 1686 og 1695 voru Tindstaðir í einkaeign og metnir á 20 hundruð. Tindstaðir koma ekki fram í manntali 1703 en eftir það virðist að þar hafi verið aðeins eitt býli.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var dýrleiki Tindstaða 20 hundruð með einum ábúanda, eigandanum. Kvaðir voru engar en hafði áður verið skipsáróður allt árið og dagsláttur. Þá var hægt að fóðra tólf kýr, fjögur geldnaut, tuttugu lömb, þrjátíu ær og fjóra hesta. Selstaða var í heimalandi. Landþröng var, engjar grýttar og blautar og hætta stafaði hætta af skriðum og snjóflóðum. Torfrista, stunga var nægileg en eldivið þurfti að kaupa annarstaðar. Mjög stórviðrasamt. Tindstaðakot var þá afbýli af heimajörðinni og dýrleiki talin með henni. Þegar Jarðatal Johnsen var tekið saman 1847 voru Tindstaðir í bændaeign metnir á 20 hundruð með einum ábúanda, eigandanum. Neðanmáls segir frá því að 1802 hafi eyðipartur úr Mýdal (Miðdal) sem var í eigu konungs fylgt jörðinni en hafi verið seldur með konungsúrskurði 1833. Sama ættin bjó á Tindstöðum í tæp 300 ár bjó í beinan karllegg frá 1670 fram til ársins 1963.
Tindstaðir er þekktur skriðustaður og annálar geta bæði snjóflóða og skriðufalla þar.
Annálar frá 1339 segja frá skriðu sem féll 5. febrúar á Tindstaði og létust þá níu manns.
Skarðsannáll 20. febrúar 1642 segir frá snjóflóði sem tók nokkur hús af bænum, hey og fjós. Þá komst fólkið undan með miklum harmkvælum og þrjú naut. Þann 9. júní 1662 rigndi mikið og eftir það hlupu fram skriður víða á Kjalarnesi m.a. á Tindstöðum.
Á Tindstöðum fórst sauðfé í skriðuhlaupi 21. júlí 1966 og á Tindstöðum Ytri varð einnig tjón vegna skriðufalla. Þá féll aurskriða á skrúðgarð rétt við íbúðarhús á Tindstöðum Ytri árið 1970.

Tindstaðir Ytri
Tindstaðir Ytri eru um 450 metrum vestan við Tindstaði Innri undir brattri hlíð Tindstaðafjalls. Tindstaðir Ytri voru byggðir úr vestari hluta heimajarðarinnar og fylgdi henni áður fyrr í mati. Nafn jarðarinnar var nokkuð á reiki og talað var um Tindstaði Ytri sem Minni, Litlu-, Ytri, og Vestari Tindstaðir.
Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var Tindstaðakot afbýli af heimalandi sennilega þar sem og Tindstaðir Ytri eru nú. Þá var þar einn ábúandi og dýrleiki talinn með heimajörðinni. Kvöð var um skipsáróður ef karlmaður bjó í kotinu en þar sem ábúandinn var kvenmaður, ekkja, var eitt lambsfóður í stað skipsáróðurs. Hægt var að fóðra tvær kýr, eitt ungneyti og fimm lömb í kotinu. Hagar og torfrista voru frí en eldiviðartak þurfti að kaupa. Tindstaðir Ytri eru skráðir sem fornleif undir Tindstaði.

Lundey

Lundey

Lundey.

Lundey á Kollafirði rúma 1500 metra vestur af Þerney og er á Náttúruminjaskrá. Eyjan er um 480 metrar á lengd og um 170 metrar á breidd, liggur í norðvestur suðaustur, lægst að austanverðu en hækkar til vesturs og er hæst um 14 metra yfir sjávarborði. Hún er allgróin og stórþýfð og þar eru varpstöðvar nokkurra fuglategunda. Fjaran er stórgrýtt og engin góð lending en skást að sunnanverðu. Engar heimildir eru fyrir búsetu í eynni en þar var samkvæmt loftmynd og ljósmynd er þar lítið hús eða kofi 2,5×2,5 metrar.
Innsiglingaleið á skipalægið Þerneyjarsund var á milli Lundeyjar og Viðeyjar og sigla mátti út hvort sem vildi norðan eða sunnan eyjarinnar. Töluverður grasfengur fékkst af henni, æðarfugl og Lundi.
Lundey kemur fyrir í bréfi um tolla og ítök Gufnesinga í Viðey um 1230. Þá hafði Ásgeir Guðmundsson prestur átti Lundey og var hún metin á tólf hundruð og ítök á þrjú hundruð. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var eyjan í eigu konungs en dýrleiki óviss. Þar var engin byggð en Sigurður Björnsson hafði hana á leigu. Þar féllu til 80 hestar af gæða heyi sem var fóður fyrir fjórar kýr og hægt var að hafa þar 30 sauði á vetrarbeit. Dún og eggjatekja var af æðarvarpi og lunda og kofna tekja. Sölvatekja góð, fjörugrös og öðuskelfisktekja næg. Vatnsbrunnur var ekki góður og gat hafa brugðist. Lending var hættulega vond og brimasöm og þurfti að sæta lagi í góðu veðri.

Heimild:
-Fornleifar á Kjalarnesi – Margrét Björk Magnúsdóttir, MA v/HÍ 2015.
-https://skemman.is/bitstream/1946/21068/2/Vi%c3%b0auki%20Saga%20jar%c3%b0a%20%c3%a1%20Kjalarnesi.pdf

Esja

Kirkjunípa ofan Leiðahóla í Esju.