Tag Archive for: Móhálsadalur

Sveifluháls

Gengið var af Norðlingahálsi yfir í Folaldadali í Sveifluhálsi um Köldunámur. Haldið var upp úr suðurenda dalanna upp að Arnarvatni, niður í Hveradal með Hnakk og síðan upp Ketilsstíg af Seltúni, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal.
Sveifluháls, öðru nafni Austurháls, er móbergshryggur (hæstur 395 m.y.s). Hæstu tindar á hálsinum eru Hellutindar, Stapatindar og Miðdegishnúkur. Þeir sjást vel þegar komið er upp á hrygginn milli Norðlingaháls og Folaldadala.

Ferlir

FERLIR á Sveifluhálsi.

Köldunámur eru þarna vestan í Sveifluhálsinum, alllangt frá öðrum jarðhitasvæðum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.
Þar sem staðið er á hryggnum og horft anars vegar upp að Stapatindum í austri og Hrútargjárdyngju og hraunin í vestri hlýtur þjóðtrú og útilegumenna ð koma upp í hugann. Orðið þjóðtrú er oft notað um trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri sem birtist í umhverfinu og náttúrunni.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Gísli Sigurðsson segir einhvers staðar að orðið “þjóð” í þjóðtrú vísi til fólks en ekki hugmynda um þjóðir og þjóðríki. Þjóðtrú Íslendinga er því ekki mjög ólík þjóðtrú annarra “þjóða” heldur saman sett úr hugmyndum sem bárust hingað á landnámsöld, bæði frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í bland við nýsköpun og aðlögun sem hér hefur átt sér stað. Helst má segja að útilegumannatrúin hafi séríslensk einkenni og margt í álfa- og huldufólkstrúnni ber fremur keim af gelískri þjóðtrú meðal Íra og Skota en því sem þekkist meðal Norðmanna.

Sveifluháls

Sveifluháls.

Þessi menningarblanda er í ágætu samræmi við það sem ritheimildir segja um uppruna landsmanna og fellur vel að þeim erfðarannsóknum sem sýna að hér hefur blandast fólk af ólíku þjóðerni frá öndverðu.
Þekking á útilegumönnum er fyrst og fremst komin úr þjóðsögum og því er erfitt að tala um útilegumenn öðruvísi en sem þjóðsagnapersónur – sem dæmi eru um allt frá fornöld í sögum af Gretti sterka. Í munnmælasögum frá 17. öld eru huldudalir í óbyggðum ekki setnir útilegumönnum sem fólki stafar ógn af, eins og algengt er í þjóðsögum Jóns Árnasonar tvö hundruðárum síðar, heldur gengur fé þar sjálfala eða á búum huldufólks.

Folaldadalir

Í Folaldadölum.

Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar eru útilegamannasögur víða að af landinu, en þó er áberandi að þær eru teknar eftir norðlenskum sögnum, oft skagfirskum og eyfirskum, og sumar úr Biskupstungum sem liggja undir hálendinu. Samverkamaður Jóns, Magnús Grímsson, hefur skráð margar þeirra en af öðrum riturum er Þorvarður Ólafsson oft nefndur. Oft minna útilegumennirnir á tröllslegar vættir á fjöllunum þegar byggðafólkið lendir hjá þeim eftir villur í þoku eða hríð. Yfirleitt hafast þeir við í búsældarlegum afdölum.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Í útilegumannasögunum birtist óskasýn fátækra landsmanna sem bjuggu við válynd veður, og réðu lítt örlögum sínum. Uppi á öræfum gátu þeir ímyndað sér skjólgóða dali sem væru óháðir óblíðum náttúruöflum og óréttlátum lögum, og þar sem fé gengi sjálfala, ástin blómstraði og lífið væri fyrirhafnarlítið í faðmi fjalla blárra og fagurra stúlkna. En útilegumannasögurnar birta líka ógurlega grimmd og ótta við hið óþekkta sem menn hika ekki við að drepa þegar svo ber undir. Þær vitna um þröngsýni og fáfræði sem okkur þykir stundum með ólíkindum hjá fólki sem þurfti að smala saman fé af fjöllunum á hverju ári og leggja leið sína fótgangandi á sauðskinnskóm eða ríðandi um þær ómælisvíðáttur sem hafa nú breyst í vel kortlögð og vinsæl útivistarlönd.

Miðdegishnúkur fór stækkandi á vinstri hönd og Hofmannflöt lá undir hálsinum á þá hægri. Á brúninni var tröllsandlit er fylgdist með mannaferðum úr vestri.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Gengið var um sléttan sendinn dal í miðjum Sveifluhálsi og upp úr honum að Arnarvatni. Svæði þetta er ákaflega tilkomumikið og fallegt þrátt fyrir gróðurfátæktina. Haldið var suður fyrir vatnið og þar beygt til austurs, gengið nuður með Hnakk og stefnan tekin á Hveradal. Kleifarvatnið var framundan, en það er stærsta vatnið á Reykjanesskaga og liggur á milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Það er þriðja stærsta vatnið á Suðurlandi, 9,1 km², og eitt af dýpstu vötnum landsins, 97m.

Sveifluháls

Við Miðdegishnúk á Sveifluhálsi.

Í Hveradal eða Seltúni, eins og svæið allt er jafnan nefnt, varð mikil gufusprenging í októbermánuði 1999. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

Ástæðu sprengingarinnar má rekja til gamallar rannsóknarholu sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.
Haldið var upp frá hverasvæðinu um Ketilsstíg, yfir Sveifluhálsinn og niður í Móhálsadal um Ketilinn. Af brúninni er fallegt útsýni yfir að Hrútafelli og Núpshlíðarhálsi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2065
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Sveifluhals/
-http://www.os.is/jardhiti/krysuvik.htm

Seltún

Hverasvæðið við Seltún.