Tag Archive for: Móskarðshnúkur

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar (Móskarðahnúkar) eru hnúkaröð fjögurra tinda og tengir saman Esju og Skálafell. Þeir eru að mestu úr líparíti. Austasti tindurinn er hæstur 807 metrar.

Tómas Einarsson

Tómas Einarsson (1929-2006).

Tómas Einarsson lýsti gönguleiðinni á „Móbergshnúka“ í Morgunblaðinu árið 1982:
„Móskarðshnúkar nefnist sá hluti Esjunnar, sem austast liggur, en milli þeirra og Skálafellsins er Svínaskarð. Hnúkarnir sjálfir eru auðþekktir vegna lits og lögunar. Hinn ljósbleiki litur vekur athygli vegfaranda

ns en blekkir oft á tíðum því það er eins og sólin skíni alltaf á Móskarðshnúka, þótt veðurstofan segi annað.
Hnúkarnir eru fjórir en milli þeirra eru grunn skörð. Þunnur klettahryggur tengir þá við meginfjallið en hann liggur milli tveggja dalabotna, Þverárdals að sunnan og Eyjadals að norðan.
Fyrrum lá þjóðleiðin milli Kjósar og Mosfellssveitar um Svínaskarð og um skarðið fór fjöldi ferðalanga úr fjarlægum landshlutum, en það breyttist þegar akvegurinn var lagður vestur fyrir Esjuna skömmu eftir 1930.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Ganga á Móskarðshnúka er auðveld og er venjulegast gengið á þá að sunnan. Þá er ekið að Leirvogsá, hjá Hrafnhólum, og gengið þaðan eftir gömlu götunum áleiðis að Svínaskarði. Skammt fyrir norðan bæinn liggur leiðin yfir Skarðsána. Hún er ekki mikil að jafnaði svo auðvelt er að stikla yfir hana á steinum. Mörgum hættir til að taka stefnuna beint á hnúkana eftir að komið er yfir ána. Sú leið er vel fær, en þó er léttara að ganga áfram eftir götunni uns komið er að gili, sem liggur niður frá hnúkunum. Farið er yfir það, en síðan upp með því að austanverðu og stefnt beint í skarðið milli tveggja austustu hnúkanna.

Svínaskarð

FERLIRsfélagar við dys í Svínaskarði.

Úr skarðinu er létt að ganga á austasta hnúkinn, en hann er hæstur (807 m) og af honum er besta útsýnið. Ekki er mikið víðsýni af Móskarðshnúkum, nema helst til austurs og suðurs, því fjöll kreppa að til annarra átta, svo minna er þar að sjá en vænta mætti.
Um fleiri en eina leið má velja, þegar halda skal til baka. Sennilega liggur leið flestra af austasta hnúknum niður skriðurnar og ofan í Svínaskarð (það er í 481 m hæð) og ganga gömlu götuna til baka. Þetta er mjög þægileg leið og falleg. En ef tíminn er nægur er sjálfsagt að lengja leiðina nokkuð og ganga þá vestur hnúkana áleiðis að Esjunni.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Þá eru efstu brúnir hnúkanna þræddar og eykur það ekki síst á tilbreytinguna. Síðan er gengið yfir klettahrygginn milli Þverárdals og Eyjadals og vestur á Esjuna. Krækt fyrir botn Þverárdals, gengið á Hátind (909 m) og haldið síðan niður Þverárkotsháls að Hrafnhólum. Þessi leið er bæði fjölbreytt og falleg, og veitir víðari sjóndeildarhring en Móskarðshnúkar einir. Þó er rétt að hafa það í huga, að þessi gönguleið tekur meginhluta dagsins, ef farið er rólega og án alls óðagots.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

En hvernig mynduðust Mókarðshnúkar og hvers vegna eru þeir frábrugðnir öðrum nærliggjandi fjóllum bæði að lit og lögun? Jarðvísindamenn segja að Esjan sé mynduð við eldsumbrot fyrir 2 1/2-3 millj. árum. Fyrir um 2 milljónum ára var stór og mikil askja fyllt vatni á svæði sem nú er á milli Skálafells, Móskarðshnúka, Þverárkotsháls og allt suður undir Grimmannsfell. Á börmum þessarar öskju voru tíð eldgos og þá mynduðust Móskarðshnúkar. Þeir eru því fornar eldstöðvar myndaðir úr líparíti, en það berg gefur þeim ljósa litinn og gerir þá svo auðkennda, sem alkunnugt er. En síðan hafa ísaldarjöklarnir, frost, vatn og vindar máð burtu þessi fornu eldvörp að mestu og gefið fjallinu þá lögun, sem það hefur í dag. Með skarpskyggni sinni og nútímatækni hefur vísindamönnum okkar tekist að ráða þessar rúnir. En um leið hafa þeir veitt okkur óbreyttum leikmönnum tækifæri til að gefa hugarfluginu lausan tauminn meðan við fetum okkur áfram áleiðis að áfangastað.“

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar – gönguleið.

Tómas Einarsson fæddist 10. nóvember 1929. Hann lést 12. febrúar 2006. Eftir barnaskólapróf fór Tómas í Héraðsskólann í Reykholti, síðan í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi 1950. Íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni lauk hann 1952 og prófi frá Lögregluskóla Reykjavíkur 1954. Námsdvöl á vegum The Cleveland International Program í USA 1964 og Cambridge í Englandi 1974-75.
Hann var kennari við barna- og unglingaskóla 1950-53. Hóf störf í lögreglu Reykjavíkur 1953 og í rannsóknarlögreglunni (afbrot unglinga) 1955-1966. Kennari við Hlíðaskóla í Reykjavík frá 1966 og kennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis til starfsloka.

Heimild:
-Morgunblaðið, 159. tbl. 23.07.1982, Móskarðshnúkar – Tómas Einarsson, bls. 39.

Móskarðshnúkar

Móskarðahnúkar – herforingjaráðskort 1908.