Tag Archive for: Mygludalir

Valaból

Gengið var um gömlu Selvogsgötuna frá Helgadal, upp með Valahnjúkum án viðkomu í Valabóli og Músarhelli, en þess í stað haldið áfram upp Mygludali (sem sumir segja að heiti eftir hryssu Ingólfs Arnarssonar, en aðrir að þeir dragi nafn sitt af myglunni, sem þarna legst yfir sem grá slæða á ákv. árstímum), inn með Kaplatór, öðru nafni Strandartorfum og áfram upp hraunið. Gatan er þarna mjög skemmtileg á köflum. Markað er ofan í klappirnar eftir hófa, klaufir og fætur margra alda.

Selvogsgata

Selvogsgatan.

Um þennan veg (nefndur Suðurfararvegur af Selvogsbúum) fór meginumferðin til og frá Selvogi, Hlíð og Herdísarvík, auk þess sem lestarferðirnar ofan úr Brennisteinsfjöllum á seinni hluta 19. aldar fóru um götuna. Gatan er vel vörðuð og greinileg alveg upp í Kerlingarskarð.
Þegar komið var á Bláfjallaveginn var vent til suðausturs, upp í Tvíbollahraunið í átt að Stórabolla. Þar hefur gömul leið legið upp hraunið og má sjá markað þar í klappirnar á nokkrum stöðum. (Síðar kom í ljós að þar gæti verið um gömlu leiðina áleiðis upp í Grindarskörð að ræða). Gatan liggur að Vatnsstæði vestast í Kristjánsdölum, undir Lönguhlíðinni. Þaðan liggur svo gata til suðvesturs í átt að Kerlingaskarði. Birtan var slík að mosinn var grænni en ella og ýmsar fallegar myndanir birtust í hlíðunum. Vegna hitans frá sólinni liðuðust gufur upp frá honum í logninu.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Nokkru frá vatnsstæðinu var gengið fram á sást greinilegt uppstreymi úr gati í mosanum. Þegar stungið var þar niður höfði sást að þar undir er djúpur gígur, annað hvort hraungígur eða gasuppstreymisgígur. Hann virtist ósnertur með öllu og ekki var að sjá að þarna hafi verið gengið um áður. Dýpið í holunni er a.m.k. 6-7 metrar, en ljós, sem notað var til að lýsa niður í það, náði ekki botninum. Veggirnir voru sléttir að sjá. Nánari skoðun mun verða verkefni fyrir Hellarannsóknarfélagið. Mun sérstök ferð verða farin þangað á allra næstu dögum.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Norðaustar með hlíðum Kristjánsdala, í átt að Krisjánsdalahorni, í dalverpi, sem þar er, var gengið fram á gamla tótt. Þarna eru leifar húss, sem refa- og rjúpnaskyttur höfðust við í á sínum tíma. Þarna skammt frá eru nokkur greini, sem gaman er að sjá. Norðar er gamalt hlaðið skotbyrgi refaskyttu, en um mosana liggja víða slóðir refsins og sjást margar þeirra ennþá. Svo var að sjá að grenin í Kristjánsdölum væru flest yfirgefin, en í bakaleiðinni sást grár skolli skjótast yfir Bláfjallaveginn – með hertan fiskhaus í kjaftinum. Hann virðist því hafa farið um langan veg eftir æti, eða alla leið niður í trönurnar niður við Krýsuvíkurveg.
Gangan tók 4 klst og 2 mín. Frábært veður.

Mygludalir

Mygludalir.