Tag Archive for: nafnið

Ísland

Nafngift Íslands er tengt nafni Jesú. Í gamal-írsku er það skrifað Ís(s)u, eða sá hvíti. Ísusland mun því hafa verið „landið hvíta„. Það hefur löngum vafist fyrir mönnum, bæði lærðum og leikum, hvers vegna þessu fallega landi var í upphafi valið svo kaldranalegt nafn. Það er ákveðin staðreynd, sem hefur sýnt sig og sannað í aldanna rás, að þeir, sem uppgötva ný lönd gefa þeim eitthvert nafn annaðhvort þegar þeir berja þau fyrst augum eða þegar þeir stíga fæti á fast land.

Landnám Íslands

Landnám Íslands – Samúel Eggertsson.

Þegar Leifur Eiríksson fór í sína landkönnunarferð í vesturátt, gaf hann öllum þeim löndum nafn er hann fann, ýmist þegar hann sá þau eða þegar hann hafði kynnt sér þau nánar og oftast var það tengt útliti eða landgæðum.
Í Landnámu er sagt frá að Naddoddur víkingur hafi fyrstur fundið landið og nefnt það Snæland, vegna þess að snær mikill hafi fallið á fjöll. Þetta er samsvarandi venjunni að gefa einhverju nafn eftir atburði, kostum eða göllum.
Næstur til þess að uppgötva landið er Garðar Svavarsson. Hann fer að ráði móður sinnar að leita Snælands og siglir umhverfis landið og uppgötvar að það er eyja. Þrátt fyrir að þá þegar sé búið að gefa landinu nafnið Snæland og Garðari sé kunnugt um það, er landinu gefið nafnið Garðarshólmur.

Íslandskort

Íslandskort (Nova et accurata Islandiæ delineatio) frá árinu 1670, gert af Þórði Þorlákssyni biskupi í Skálholti. Fyrir neðan Íslandskortið er Lofkvæði til Kristjáns
konungs V, skrifað í fjóra dálka, á latínu, dönsku og íslensku með venjulegu letri og rúnaletri.
Efst á kortinu eru myndir af sjávardýrum og skjaldarmerki Íslands, sem er flattur þorskur borinn af tveimur fuglum, í hægra horni, þar fyrir neðan er titill. Í neðra horni vinstra megin
er skjöldur með táknmyndum og tileinkun til Kristjáns V Danakonungs. Kortið er á pappír (95 cm x 69 cm). Í handritaskrá Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (AM 477 fol.) eru nefnd
fleiri kort með þessu sem ekki finnast lengur í safni Árna Magnússonar.

Það er einkennilegt, fyrst á annað borð þurfti að klína einhverju öðru nafni á landið, að ekkert annað hafi komið upp í hugann eftir alla þá stórkostlegu landfegurð og furður, sem hljóta að hafa borið fyrir augum, hringinn í kringum landið.
Næstur í röðinni er Hrafna-Flóki Vilgerðarson. Hann fer að leita að Garðarshólma, þannig að hann veit ekki aðeins um það nafn á landinu, heldur má líka gefa sér það að hann hafi vitað um nafnið Snæland. Hann kemur að landinu austanmegin, við Horn, alveg eins og Garðar Svavarsson og siglir vestur um Reykjanes og sér eins og Garðar hvar Snæfellsjökull blasir við í allri sinni dýrð og önnur kennileiti, sem verða á leið hans alla leið vestur í Vatnsfjörð við Barðaströnd.
Hann virðist hafa tekið land að sumri til, því sagt er að allt kvikfé þeirra hafi drepist um veturinn vegna heyleysis. Allan veturinn þrauka þeir og þrátt fyrir harðan vetur og að vorið varð líka kalt er það þá fyrst að Flóki gefur landinu nafn upp á nýtt og nefnir það Ísland. Hvílík andagift og hugljómun!

Eldborg

Eldborg í Svínahrauni.

Allt í einu uppljúkast augu hans fyrir fegurðinni, sem landið hefur upp á að bjóða. Þrátt fyrir fegurð Snæfellsjökuls og snjóþyngslanna í Vatnsfirðinum og nágrenni, sem hefðu getað gefið staðfestingu á nafninu Snæland, kemur hann með nafnið Ísland. Öllu réttara hefði verið nafnið Ísaland, fyrst honum ofbauð svona vetrarhörkurnar, eins og Ísafjörður hefur verið réttilega nefndur.
Fyrstu sagnir um byggð er allt frá fjórðu öld, ef ferðasaga Pýþeasar frá Marseille segir rétt frá að hann hafi rekist á fólk, sem nærst hafi á korni og hunangi, á eyjunni Thule. Næst er sagt frá því að heilagur Brendan hafi komið til Íslands, árið 548, eða Tílí eins og landið hafi verið nefnt af grískum sæfarendum.

Brendan

Heilagur Brendan frá Clonfert (um 484 e.Kr. – um 577) (írska: Naomh Bréanainn eða Naomh Breandán; latína: Brendanus; íslenska: (heilagur) Brandanus), einnig nefndur „Brendan moccu Altae“, kallaður „siglingamaðurinn“, „Veyagerinn“, „The Anchorite“ og „The Bold“, er einn af fyrstu írsku munkadýrlingunum og einn af tólf postulum Írlands.
Sæfarinn og dýrlingurinn Brendan var ábóti sem sigldi á húðbyrðingi (curragh) sínum til Færeyja og Íslands og jafnvel Azoreyjanna og Ameríku. Greint er frá ferðum hans í Navigatiohandritum sem eru nokkur að tali. Þeir sem hafa lesið þau eru ekki í vafa um að þar sé lýsing á eldgosi. Hvergi er um slík eldgos að ráða á Norðuratlantshafinu nema á Íslandi. Lýsingarnar af landsins forna fjanda, hafísnum, eru afar trúverðugar.

Hann hittir hér fyrir einsetumanninn Pól og hafði hann dvalið þarna í 60 ár. Einhverjir virðast hafa farið þarna á undan heilögum Brendan, því hann vissi af einsetumanninum og leitaði hann uppi. Þegar heilagur Brendan fer síðan aftur til Írlands er hann að sjálfsögðu hugfanginn af þessum nýja og í hans huga heilaga stað, sem er fullkominn til guðrækilegra íhugana og aðrir fylgja í kjölfarið. Það hefur verið friðsamasta og trúaðasta fólkið, ekki endilega einsetumenn, heldur allir þeir, sem vildu skapa sér og sínum friðsælt og öruggt athvarf því það voru á þessum tímum landlægar deilur milli ættflokka á Írlandi. Þannig hefur landið byggst á næstu árum af trúhneigðu, ötulu dugnaðarfólki, sem valið hefur sér búsetu í fyrstu meðfram Suðurlandinu en síðan haldið áfram vestur fyrir Reykjanes og allt Vesturland og Vestfirðina.
Það sem styður þessa kenningu, sem aðrir fræðimenn hafa löngum ýjað að, að hlyti að vera, er sú staðreynd að bæði Garðar Svavarsson og Flóki Vilgerðarson, koma að landinu við Horn en sigla áfram. Þrátt fyrir landgæðin, sem hljóta að hafa blasað við þeim, freista þeir ekki landgöngu fyrr en í öðru tilfellinu norður í Húsavík á Skjálfanda en í hinu í Vatnsfirði við Breiðafjörð. Það er alveg augljóst að þeir sæfarendur, sem eru með kvikfé um borð, þurfa við fyrsta tækifæri að endurnýja vatnsbirgðir sínar. Í dæminu með Flóka er ekki ýjað að því einu orði að landtaka hafi verið reynd fyrr en í Vatnsfirði. Fyrst hægt er í sögninni af ferð hans að tíunda að þeir hafi gleymt sér við veiðiskap og að kvikfé þeirra hafi drepist og vorið hafi verið kalt, hvers vegna ekki að segja frá landgöngu annars staðar þar sem augljós þörf hefur verið fyrir það?

Thule

Pýþeas (330-320 f. Kr.). Vafalaust hefur Grikkjum borist til eyrna frásagnir af ferðum Fönikíumanna til ókunnra landa í norðri. Hann var sendurPýþeas (330-320). Vafalaust hefur Grikkjum borist til eyrna frásagnir af ferðum Fönikíumanna til ókunnra landa í norðri. Hann var sendur í leiðangur norður á bóginn á vegum borgarráðsmanna Massalíu. Lýsingar hans um hið leyndardómsfulla Thule hafa varðveist í verkum síðari höfunda, en þó ekki án tortryggni. Polybíus (um 140 f. Kr.) kemst svo að orði að Pýþeas ,,hafi leitt marga í villu með því að segja að hann hafi farið fótgangandi kringum Bretland og komist að þeirri niðurstöðu að strandlengjan væri 40.000 stadíur.“ Pýþeas víki einnig að ,,Thule þar sem ekki var lengur um neitt raunverulegt land, sjó né loft að ræða, heldur sambland þessa alls ásamt marglitum þar sem hvorki væri unnt að ganga eða sigla eða festa hönd á neinu“ (Saragossahafið?). í leiðangur norður á bóginn á vegum borgarráðsmanna Massalíu. Lýsingar hans um hið leyndardómsfulla Thule hafa varðveist í verkum síðari höfunda, en þó ekki án tortryggni. Polybíus (um 140 f. Kr.) kemst svo að orði að Pýþeas ,,hafi leitt marga í imagevillu með því að segja að hann hafi farið fótgangandi kringum Bretland og komist að þeirri niðurstöðu að strandlengjan væri 40.000 stadíur.“ Pýþeas víki einnig að ,,Thule þar sem ekki var lengur um neitt raunverulegt land, sjó né loft að ræða, heldur sambland þessa alls ásamt marglitum þar sem hvorki væri unnt að ganga eða sigla eða festa hönd á neinu“ (Saragossahafið?).

Flóki var ekkert að flýta sér frá landinu, því það tók hann heilt ár að hafa sig burt. Hann hefur vetursetu í Borgarfirði en einn félaga hans, Herjólfur, verður viðskila við hann og tekst allslausum að þrauka heilan vetur í Hafnarfirði. Þegar loks þeir komast frá landinu hræðilega, Íslandi, og til Noregs lætur Flóki illa af landinu en félagar hans vel. Herjólfur segir kost og löst af landinu, sem vekur óneitanlega furðu, þarsem hann varð að hírast einn og allslaus allan seinni veturinn.
Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu. Eftir það var hann kallaður þórólfur smjör.
Það vekur óneitanlega furðu, að þeir félagar eru svo ósammála um landgæðin, sérstaklega ummæli Þórólfs. Það er ekki nóg, samkvæmt mínum skilningi, að land sé grösugt og afar gjöfult ef ekki fer saman landnýting og gæði. Auðvitað hafa þeir félagar notið gestrisni þess fólks sem fyrir var og þess vegna hafa þeir getað borið vitni um hversu gott væri að hafa búsetu í þessu gjöfula landi. Flóki og Þórólfur koma seinna til landsins og setjast hér að og virðast una sér vel eftir það.
Auður djúpúðga brýtur skip sitt við Víkarsskeið og hlýtur það að hafa verið um haustið eða hávetur. Þrátt fyrir það fer hún með alla skipshöfn sína, ekkert er tíundað að nokkur hafi farist, alla leið til Kjalarness þar sem hún veit af bróður sínum, Helga bjólu. Hvernig í ósköpunum veit hún hvar hún er stödd í ókunnu landi, þekkir ekkert til staðhátta en fer samt rakleiðis til Kjalarness? Samkvæmt sögunni gerir hún stuttan stans hjá bróður sínum, vegna þess að hann vildi bara taka við helming manna hennar. Hvert áttu hinir að fara? Var um aðra staði að ræða, sem gátu þá tekið við hinum? Auður djúpúðga heldur áfram, án þess að þiggja nokkurn beina, og nú alla leið vestur í Breiðafjörð til Bjarna austræna, hins bróður síns, og var vel tekið við henni þar. Allir vita hvernig veðurfar er á landinu að hausti til og um vetur, það að bjargast frá skipbroti og berjast áfram alla leið til Kjalarness frá Víkarsskeiði og þaðan til Breiðafjarðar er alveg lífsins ómögulegt án hjálpar og aðhlynningar. Þess hefur Auður djúpúðga notið af fólkinu sem fyrir var á þessari leið og það hefur leiðbeint henni til bræðra sinna.

Ameríka

Amerigo Vespucci (1454-1512). Hann var ítalskur og fyrstur manna til að gera sér ljóst að meginland Ameríku væri aðskilið frá Asíu. Ameríka var nefnd eftir honum 1507 þegar þýski kortagerðamaðurinn Martin Waldseemüller prentaði fyrsta kortið sem notaði nafnið Ameríka yfir Nýja heiminn. Í fyrsta leiðangri sínum frá Spáni 1499-1500 var Vespucci siglingafræðingur undir stjórn Alonso de Ojeda. Þeir uppgötvuðu mynni Amazonfljóts og Orinoco í Suður-Ameríku og töldu sig stadda í Asíu. Í öðrum leiðangri sínum 1501-1502 – og nú frá Portúgal – varð honum ljóst að Suður-Ameríka væri ekki hluti Asíu, heldur Nýr heimur.

Þetta furðulega nafn, Ísland, á jafnfallegu landi hefur jafnan vakið undrun. Málfræðilega væri réttara að kalla það Ísaland, ef það væri kennt við rekísa þá sem Hrafna-Flóki er talinn hafa séð ofan af fjalli. Mín kenning er að þetta sé rétt nafn, Ísland, og rétt skrifað, en að það sé, eins og aðrir fræðimenn hafa ýjað að, kennt við eitthvað guðdómlegt. Ennfremur er það staðföst trú mín að landinu hafi verið gefið þetta fallega nafn, Ísland, af heilögum Brendan þegar hann hitti hér fyrir einsetumanninn Pól. Það vafðist svolítið fyrir mér þetta nafn, Pól, vegna þess að engin góð skýring fannst á því í gelískri orðabók. Þar var “ poll“ sagt vera hola en svo fann ég svarið í gamal-írskri orðabók og hún var ósköp einföld, nafnið Pól þýddi Páll, þ.e. einsetumaðurinn hét, eða kallaði sig, í höfuðið á Páli postula, sem merkilegastur hefur verið af lærisveinum Jesús. Þannig tengist Páll postuli á einstakan hátt kristni- og landnámssögu Íslands.

Brendan

Brendan hittir Pól.

Heilagur Brendan varð svo snortinn af að hitta Pól á páskadag og sögum hans af 60 ára dvöl hans í þessu einstaka, fagra landi að hann fellur á kné og lýsir landið heilagt og nefnir það Ísland, eftir þeim sem hann vissi mestan í huga sínum, Jesú. Nafn Jesú er skrifað á gamal-írsku, Ís(s)u og þá virðist margt skýrast með nafn landsins, Ísland. Í gegnum aldirnar hafa menn viljað tengja Ísland við eitthvað heilagt án þess að geta skýrt það frekar nema þá helst að tengja nafnið við gyðjuna Ísis hjá Egyptum til forna.

Íslandskort

Thule á Íslandskorti fyrrum.

Ef nafnið Ísland er tengt við ís og kulda, hvers vegna er það þá ekki tengt því á öðrum tungumálum? T.d. á frönsku er nafnið Islande, sem hefur ekkert með ís eða kulda að gera. Á þýsku er nafnið Island, hvers vegna ekki Eisland, sem er rétt ef nafnið hefði frá upphafi verið kennt við rekís? Það er viss skýring á þessu. Írskir munkar og fræðimenn voru helstu kennarar við hirðir konunga á meginlandi Evrópu á fyrstu öldum fyrir landnám norrænna á Íslandi. Þeir hafa notað í sinni kennslu bæði nöfnin Thule eða Týli og Ísland en að sjálfsögðu hefur nafn landsins, sem hét eftir Jesú, verið ofar í huga og orðið fast í tungu Frakka og Þjóðverja.

Íslandskort

Íslandskort.

Hjá þessum þjóðum hefur ekkert verið hróflað við nafninu Ísland en aftur á móti hefur ríkt mikil óvissa hjá Englendingum hvað landið héti eða hvernig ætti að skrifa nafn þess. Á miðöldum er nafn Íslands í heimildum, eins og t.d. toll- og skipaskrám, ýmist skrifað, Iselande, Islond, Yslond, Yselondis, Izeland Ysland, Yslondes en í opinberum skjölum frá 14. öld er Ísland nefnt Islande. Þarna er ekkert verið að koma með seinni tíma orðskrípið Iceland, vegna þess að merking þess hefur ekki legið ljóst fyrir.

Hellir-kross

Krossmark í Seljalandshellum. Hellir undir Eyjafjöllum var manngerður að hluta fyrir landnám, það er um árið 800. Þetta sýnir rannsókn vestur-íslensks fornleifafræðings meðal annars á gjóskulögum við hellinn.

Það virðist vera að þegar Ari fróði skrifar Íslendingabók og þegar Landnáma er rituð, hugsanlega á 12. öld, hafi merking nafngiftar landsins verið á huldu. Hún hafi lifað meðal þeirra sem voru af írskum uppruna en merkingin, að kenna landið við Jesú, ekki hugnast þeim er röktu ættir sínar til hinna norrænu landnámsmanna.

Nafnið Ísland fékk að halda sér en það varð að finna aðra merkingu til þess að ekki væri hægt að rekja slóð til hinna raunverulegu fyrstu landnámsmanna, sem voru írskir einsetumenn og þeirra eftirfylgjendur. Það eru biskuparnir, Þorlákur og Ketill, ásamt Sæmundi fróða, sem ráða því að hlutur norrænna manna er talinn meiri í sögu landsins. Ari fróði sýndi þeim frumskrif sín, en varð að lúta vilja þeirra er honum finnst hann knúinn til þess að segja: „En hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt at hafa þat heldur, er sannara reynist.“ Hann hefði ekki þurft að setja þetta inn, nema vegna þess að ekki var allt með felldu.
Það eru þeir, sem ráða því að tilbúningurinn um nafngift Hrafna-Flóka á landinu, heldur sér, en stenst engan veginn þegar grannt er skoðað. Nafngift Íslands er tengt nafni Jesú vegna þess að í gamal-írsku er það skrifað Ís(s)u.

Heimildir:
-Enskar heimildir um sögu Íslendinga á 15. og 16. öld eftir Björn Þorsteinsson.
-Frá árdögum íslenskrar þjóðar, eftir Arnór Sigurjónsson.
-Grúsk II, eftir Árna Óla. Íslendingasaga, eftir Jón Jóhannesson.
-Pýþeas og gátan um Thule, eftir Ian Whitaker.
-Old Irish reader, eftir Rudolf Thurneysen.
-https://rafjon.wordpress.com/saekonnudur/

-Úr grein eftir ÆGI GEIRDAL, Lesbók – laugardaginn 22. janúar, 2000.

Íslandskort

Gamalt Íslandskort.

Stafnes

Svo er sagt að endur fyrir löngu hét Stafnes ekki því nafni, heldur aðeins Nes. En sú saga er til þess, að nafnið breyttist, er hér fer á eftir:

Stafnes

Á Stafnesi.

Í fyrndinni bjó maður nokkur í Nesi og mun bærinn þá hafa staðið þar sem nú er kallað Urð. Er þar nú rif sem kemur aðeins upp með hálfföllnum sjó. Maður þessi var orðinn gamall og blindur þegar þessi saga gerðist. Hann átti tvo sonu er stunduðu sjómennsku og reru til fiska frá Nesi. Einn dag að áliðnum vetri er þeir voru á sjó að vanda brimaði snögglega svo mikið að ólendandi var. Gerðist gamli maðurinn órór gekk til smíðahúss og telgdi þar til staf einn eða kefli. Bað hann vinnukonur sínar að vera á höttunum og tjá sér hvers þær yrðu áskynja um afdrif skipsins. Um miðjan dag kemur ein þeirra inn til hans og segir að ekki muni lengur þurfa að bíða þess að synir hans lendi. Þær stúlkurnar hafi horft á þá bræður leggja í sundið en þá hafði Boðinn komið og fallið á bátinn flatan og honum þá þegar hvolft og borizt upp á skerið.

Stafnes

Stafnesviti – tóft.

Gamla manninum sást lítt bregða og svo var að sjá sem honum kæmi þetta ekki á óvart. Bað hann stúlkuna að koma aftur til smíðahússins eftir litla stund og þær tvær saman. Þegar stúlkurnar komu til karls hafði hann lokið við að smíða stafprik sitt svo sem honum líkaði. Var stafurinn ekki mikill en haglega gerður og með útskurði allmiklum. Stakk hann stafnum niður með vestisboðang sínum og biður stúlkurnar að leiða sig fram á nesið þar sem Boðinn falli á land. Segir þeim að leiða sig svo nærri sjónum sem frekast sé fært og láta sig vita nákvæmlega þegar Boðinn falli hæst á land við fætur sér. Gera þær nú sem karl leggur fyrir og þegar Boðinn rís hæst tvíhendir karl stafinn á loft, keyrir hann í ölduna og mælir: “Héðan í frá skaltu Stafur heita og nesið Stafnes. Aldrei skaltu framar mönnum að tjóni verða sé rétt sundleið farin. Og leiðið mig nú heim.”

Stafnes

Stafnesviti.

Það fylgir sögu þessari að ummæli karls hafi orðið að áhrínsorðum því að í manna minnum hafi engir menn frá Stafnesi farizt á sundinu þó að jafnan hafi þaðan sjór verið sóttur djarflega og stundum brimað snögglega. Á þeim tímum er konungsútgerðin stóð í sem mestum blóma fórst þó eitt skip þarna með 20 manna áhöfn, en þeir voru komnir langt inn fyrir aðalsundið og boðann Staf. Hafði skipið ekki farið rétta sundleið og steytti á skeri því sem Brúnkolla heitir, á gjánni rétt framan til við aðallendinguna.

Heimild:
http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=172
-Rauðskinna I 57.

Stafnes

Stafnes – örnefni. ÓSÁ.