Tag Archive for: náma

Búrfellskot

Tekið verður hús á Þormóðsdalsbóndanum Þorsteini Hraundal og frú. Af því tilefni var gengið að draumóranámum Einars Benediktssonar utan í Búrfelli, beggja vegna Seljadalsár, upp með hinum forna Seljadalsvegi er lá áleiðis til Þingvalla áður en Konungsvegurinn 1907 kom til, yfir steinhlaðnar brýr norðan Leirtjarnar og vestan Silungatjarnar, að Nærseli, fjárborg skoðuð sem og gömul fjárhústóft utan í Grímannsfjalli áður en kveðju var kastað á Þormóðsdalsbóndann (og frú) að lokinni gönguferð.

Tóftir Búrfells(kots) - Hafravatn fjær

Áður en lagt var af stað voru rifjaðar upp örnefnalýsingar fyrir Þormóðsdal og Miðdal yfir göngusvæðið. Heimildarmaður og skrásetjari þessara lýsinga var Tryggvi Einarsson í Miðdal, en hann þekkti einnig vel til í Þormóðsdal, sem er næsta jörð norðan Miðdals. Tryggvi fæddist í Miðdal árið 1901 og átti þar heima alla sína tíð.
„Upp með Seljadalsá að Þormóðsdal eru melar, er Þormóðsdalsmelar heita. Vestur af Þormóðsdalsmelum eru grastorfur, er Torfur heita. Í túninu í Þormóðsdal, skammt sunnan við bæinn, er talið, að Þormóður, sem bærinn dregur nafn sitt af, sé grafinn. Er þar en[n] að sjá upphlaðið leiði. Hefur því verið haldið við, svo lengi sem ég man eftir. Eru ámæli á leiði þessu, að sé það slegið, eiga að farast 3 stórgripir. Leiðið var slegið með vilja og vitund einu sinni í minni tíð. Fórust þá á árinu 3 stórgripir á hryllilegan hátt. Í túninu norðan við Þormóðsdalsbæinn er stór hóll, er Gapi heitir; vestan undir Gapa er Gapamýri.

Gamla þjóðleiðin ofan Búrfells(kots)

Norður af Þormóðsdalsbænum er fell, sem Þverfell heitir að gildragi nokkru austar. Þá tekur við Þormóðsdalsfjall að svonefndum Efri-Sukkum. Á austanverðu Þormóðsdalsfjalli er laus klettur, er Grettir heitir.
Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. Heitir sá lækur Árneslækur. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. Voru þar aðalútengjaslægjur Þormóðsdals. Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sést þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir.“
Og þá heim að Miðdal: „
Norðan við gamla Miðdalstúnið var mýri sem Mómýri hét (nú ræktað tún), mótak var þar gott, mórinn svartur og harður. Ruðningur 4 til 6 stungu mórinn 6 til 9 stungur niður. Ofan við Mómýri er Móholt. Norðan við Mómýri og upp með Seljadalsá er Búrfellsmýri. Austur af Búrfellsmýri eru Hringholtin, en austan við Hringholtin er mýri sem Hringur heitir. Sunnan við Hring er urðarhjalli sem Klif heitir. Norðan við Búrfellsmýri er Búrfell, sunnan við Búrfell er kargaþýfður mói, þar var Búrfellskot. Sést vel fyrir bæjarrústum þar. Búrfellskot var hjáleiga frá Miðdal. Sunnan í Búrfellstind er Búrfellsbrekka. 

Brúin norðaustan Leirtjarnar

Vestan í Búrfelli neðarlega eru grastorfur sem Búrfellstorfur heita. Norðan í Búrfelli eru grónir hjallar er Tjaldstaður heitir. Inn með Búrfelli að norðan er Búrfellsfoss  í Seljadalsá. Norð-austan við Búrfell er Fellsmýri. Austan við áðurnefndan Hring eru Leirtjarnarmelar, þar er jarðfastur bergdrangur sem Grettir heitir. Sunnan við Leirtjarnarmela er Leirtjörn. Sunnan við Leirtjörn er Leirtjarnarurð, þar er fjárrétt og Stekkur. Suð-austur af Leirtjörn er allstór mýri er Leirtjarnarmýri heitir. Austur af Leirtjarnarmýri eru hólar sem Leirtjarnarhólar heita. Norður úr Leirtjörn rennur Leirtjarnarlækur eftir mýri er Leirtjarnarlækjarmýri heitir. Frá Leirtjarnarlæk inn með Seljadalsá er mýrarkriki er Breiðiklofi heitir. Austan við Breiðaklofa er hóll sem Þúfhóll heitir. Austan við Þúfhól er mjótt mýrardrag niður að Seljadalsá sem Oddnýjarklofi heitir. Nokkru innar með Seljadalsá er mjótt gróðurdrag sem Mjóiklofi heitir, þar tekur við Silungatjarnarhæð. Fyrir sunnan Silungatjarnarhæð er Silungatjörn. Fyrir sunnan Silungatjörn er Silungatjarnarurð. Austan við Silungatjarnarhæð er Silungatjarnarlækur sem rennur  í Seljadalsá. Austan við Silungatjörn er Silungatjarnarmýri. Sunnan við Silungatjarnarmýri eru Silungatjarnarbrúnir. Austan við Silungatjarnarmýri er áverandi hóll er Moshóll, heitir. Nokkru innar með Seljadalsá þrengist verulega að Seljadalsá, þar heitir Þrengsli. Austan við Þrengslin er Seljadalur.“

Önnur brú á gömlu þjóðleiðinni til Þingvalla

Tryggvi minntist á Búrfellskot. Í Jarðabókinni 1703 er bærinn nefndur Búrfell. Tóftir bæjarins, sem verður að teljast kot, jafnvel á þeirra tíma mælikvarða, sjást enn vel utan í suðvesturhlíð Búrfells. Gamla þjóðleiðin frá Reykjavík og austur á Þingvöllu lá neðan við bæinn og áfram áleiði upp hlíðina að Búrfellshálsi. Gatan var rakin áfram um hálsinn. Ætlunin var að rekja hana allt upp að vaði á Seljadalsánni norðaustan við Silungatjörn.
Norðan Leirtjarnar sést gatan vel. Gott útsýni er suður yfir vatnið, að Gildruhálsi. 

Haldið var yfir hina hlöðnu brú yfir mýrardrag norðnorðaustan tjarnarinnar. Handan hennar lá gatan upp á örfoka melhæð, niður hana að handan og liðaðist síðan með lágum hæðum til norðausturs. Skammt vestan Silungatjarnar var komið að annarri hlaðinni brú yfir bleytufláka. Handan hans var komið inn á nýjan veg að sumarbústaðabyggð við vatnið, en með þrautseigju var hægt að rekja gömlu götuna áfram um lúpínusvæði og afgirta einstaka sumarbústaðareiti. Hún lá svo til alveg að tjörninni, mjög greinilega, en fjarlægðist hana síðan er nær dró Seljadalsánni. Þegar að ánni var komið lá gatan að vaði og síðan áfram áleiðis inn að Þrengslum.

Hluti hinnar gömlu þjóðleiðar um sumarhúsabyggð vestan Silungatjarnar

Reyndar er alveg ótrúlegt hversu einstaklingar hafa fengið frjálsar hendur að raska þessrai fornu þjóðleið. Verður bæði við Þjóðminjasafnið (áður fyrr) og Fornleifavernd ríkisins að sakast í þeim efnum – því einungis svolitla meðvitund (andstæða sofandaháttar) hefði þurft til að vernda þennan kafla leiðarinnar, sem annars er að mestu óraskaður.
Við vaðið var beitt til norðurs, að Nærseli, norðan Seljadalsár, ofarlega í Neðri-Seljadal. Á litlum grónum „bleðli“ norðan árinnar mótar fyrir tóftum. Kargaþýfi er á svæðinu, en kvöldsólin opinberaði allan sannleikan um hinu horfnu húsaskipan. Tóftirnar voru tvær; sú eystri er stök. Dyraop snýr til suðurs, líkt og í vestari tóftinni, sem virtist þrískipt. Stærsta rýmið var nyrst, en síðan tvö minni framan við það, til beggja ganghanda. Tóftirnar eru mjög grónar og því að líkindum gamlar. Álitlegur lækur vestan við þær hafa ákvarðar staðsetningu þeirra á sínum tíma. Ofan við tóftirnar vottar fyrir hleðslu í læknum og í honum skammt vestan við þær virðist hafa verið lagaður (eða jafnvel hlaðinn) brunnur eða aðgengilegt vatnsstæði.
NærselNeðan við tóftirnar mótar fyrir stekk, ofan við barð er hallar niður að Seljadalsánni. Ekki var að sjá aðrar mannvistaleifar, sem telja má með öruggri vissu, í næsta nágrenni við tóftirnar og ekki var að sjá að þarna hefðu verið gerðir garðar eða önnur mannvirki er bent gætu til varanlegri búsetu.
Ekki getið um selstöðu frá Þormóðsdal í Jarðabókinni 1703. Í henni segir að Úlfarsfell hafi haft „selstöðu góða“, en ekki hvar. Í heimildum er þó getið um Nærsel í Seljadal, en ekki er vitað hvar það hefur verið. Viðey á að hafa haft selstöðu á þessum slóðum og samnýtt selstöðu með Bessastöðum. Það er ekki ólíklegt því í Jarðabókinni 1703 er sagt frá því að Þormóðsdalur hafi haft „dagslættir í Viðey“. Þarna gæti hafa verið um hlunnindaskipti að ræða.

Seljadalur

Seljadalur (Nærsel) – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir liggur þó vísbending um Nærsel. Stórt skilti (loftmynd) frá Skógræktinni er rétt innan við beygjuna inn í Þormóðsdal (frá Hafravatnsvegi) og á því eru örnefni, m.a. Nærsel og það sýnt beint framan við bæinn þeim megin árinnar, en Árnes Búrfellsmegin við. Þetta passar ekki miðað við örnefnalýsingu Tryggva frá Miðdal. en hann segir um Þormóðsdal (mörk Miðdals og Þormóðsdals eru um ána): “ Úr Sukkum kemur lækur, er rennur í Seljadalsá, þar sem heitir Árnes. .. Árneslækur…. Bugða í Seljadalsá myndar Árnes. Árnes er allstórt, þurrlent og grasgefið. … Árnes er nú ræktað tún. Upp með Árneslæk að vestan var sauðahús Þormóðsdals. Sérst þar vel fyrir tóftum. Frá Árnesi upp með Seljadalsá að norðan, er alllöng valllendismóaspilda; þar mótar fyrir seltóftum. Var það nefnt Nærsel. Nokkru innar með ánni er hóll við ána, sem Hesthóll heitir….“
Framangreind lýsing getur alveg passað við tóftirnar sem lýst hefur verið. Svo má velta fyrir sér frá hvaða jörð Nærsel var? Og hvaða sel er þá “fjærsel“? E.t.v. Nessel?
Þekkt er víða um land að kot hafi vaxið upp úr seljum. En einungis örfá dæmi eru um það í landnámi Ingólfs, s.s. í Seljadal ofan við Fossárdal í Hvalfirði og Straumssel ofan við Hraunin. En tóftir þessar virðust ekki hafa hýst kot. Þær voru og keimlíkar öðrum selrústum á Reykjanesskaganum til þess; þrískiptar (vistarverur, búr og eldhús), auk stekks. Þá kemur afstaða og staðsetning tóftanna heim og saman við sambærileg mannvirki víða á svæðinu. 

Haldið var norðvestur með norðanverðum Seljadal, að tóftum fjárhúss og fjárborgar. Jarðýtu hafði verið ekið niður mýrlendið skammt vestan fjárhússtóftarinnar (sauðahússins) og má telja mildi að ekki hafi verið farið yfir hana. Greinilegt er að þarna standa til verulegar framkvæmdir því búið er að koma fyrir miklu magni svína- og hænsnaskíts innan nýrrar girðingar.

Fjárhústóft (sauðahús) frá þormóðsdal

Líklegt má telja að þarna eigi innan skamms að „lagfæra“ hlíðina norðanverða og gera hana að bitvænni högum fyrir hross. Dalsbóndinn mun vera þarna að verki. Vonandi er hann vel meðvitaður um minjar að svæðinu, hvort sem um er að ræða Nærselið, fjárhúsið eða fjárborgina. Og auðvitað hlýtur Fornleifavernd ríkisins, sem jafnan vakir yfir framkvæmdum sem þessum, að hafa gert viðhlítandi fyrirbyggjandi ráðstafanir svo varðveita megi menningarminjarnar á svæðinu??!!
Aftur var tekið hús á Þormóðsdalsbónda. Hafði hann þá hitað kaffi fyrir þátttakendur og bar vel á beina. Þá gekk hann með þeim að námusvæðinu og benti á fyrrum námuop, sem nú hefur verið lokað með fyrirgjöf. Sagðist hann hafa fyrrum séð op á námugöngum, bæði norðan og sunnan Seljadalsár. Göngin norðan árinnar hefðu verið mun lengri. Leifar járnbrautarteina hefðu verið innan við opin. Göngin sjálf hefðu ekki verið stærri en svo að meðalmaður hafi þurft að ganga um þau hokinn. Rutt hefði verið fyrir opin til að koma í veg fyrir slysahættu. Auðvelt væri hins vegar að moka þau út að nýju, ef einhverjum sýndist svo.
Bóndinn benti FERLIR á leifar járnbrautarteina í ánni neðan við námusvæðið. Þá hefur fyrrum bónda hugkvæmst að nota þá í girðingarstaura því styttur úr þeim má sjá uppi í hlíð Búrfells þar sem núverandi girðing liggur nú. 

Lefar brautarteina við gömlu gullnámuna við ÞormóðsdalLítið hefur verið fjallað um gullvinnsluna við Þormóðsdal (Miðdal), en í Öldinni okkar (1905) er sagt frá því er gull fanst við rætur Öskjuhlíðar. Þar segir m.a.: „Það varð uppi fótur og fit í Reykjavík laugardagsmorguninn 1. apríl, þegar sú fregn barst um bæinn, að gull hefði fundizt í mýrarkrikanum vestan undir Öskjuhlíðinni rétt fyrir sunnan gamla Hafnarfjarðarveginn.“ Gullfréttin flaug víða. Áhöfn á breskum togara, sem legið hafði í höfninni, sigldi til Englands með fréttina. Reiknað var með að erlendir gullgrafarar myndu senn streyma til Reykjavíkur. Bæjarstjórn hélt fund um málið. Skipuð var nefnd um rannsókn málsins. Gullsarf. reyndar í ofurlitlu magni, var lagt fram. Námasvæðið var afmarkað og hlutafélagið Málmur stofnað. Stofnendur voru níu menn, en mönnum var frjálst að kaupa sér hluti í félaginu. Stefnt var að því að kaupa bor og hefja frekari leit að gulli á svæðinu. Ekkert varð úr verki og framkvæmdin dagaði uppi. Ekki er vitað hvað varð um hlutaféð, 100-250 þús. kr. Árið 1908 birtist frétt um að hlutafélagið Málmur væri komið í fjárþröng. Fram kom að búið væri að verja 24 þús. kr. til vélakaupa og rannsókna og að félagið væri komið í 4500 kr. skuld. Hvað varð um mismuninn er enn ekki vitað, tæpri öld síðar.
Talið var að gullævintýrið í Öskjuhlíðinni hafi verið búið til til að afla hlutafjár í einhverju, sem ekki var til. Hið litla gull, sem sýna átti tilefnið, hafi í raun og veru komið úr gullnámu við Þormóðsdal.
Frábært veður. Gangan tók
2 klst og 2 mín. (Kvöldsólin sveipaði Seljadalinn og Nærselið dulúðlegri birtu).

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þormóðsdal.
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal.
-Öldin okkar.
-Þorsteinn Hraundal.

Silungatjörn og nágrenni í kvöldsólinni